Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2015


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 1. október 2015.

Nr. 170/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Ingvari Dór Birgissyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Sigríður Kristinsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

I var sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn A, er hún var 14 ára, með því að hafa í fyrra skiptið áreitt hana kynferðislega með tilteknum hætti og í það síðara nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og haft við hana samræði. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 195. gr. a. sömu laga. Var refsing I ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði og honum gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, en þó þannig að til frádráttar refsingu ákærða kemur gæsluvarðhaldsvist, sem honum hefur verið gert að sæta vegna málsins frá 10. desember 2014.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Ingvars Dórs Birgissonar, skal draga gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 10. desember 2014.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 921.294 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigríðar Kristinsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 7. janúar 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 10. maí 2012, á hendur Ingvari Dór Birgissyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn A, kt. [...], tvívegis á tímabilinu mars til apríl 2010, á þáverandi heimili hans að [...] í [...], þangað sem hann hafði fengið stúlkuna, sem þá var 14 ára að aldri, til þess að koma og hitta sig:

1.            Í fyrra skiptið áreitt stúlkuna kynferðislega með því að hafa kysst hana, strokið maga hennar innan klæða, reynt að strjúka brjóst hennar innan klæða, strokið líkama hennar utan klæða og leitað eftir kynferðislegu samneyti við hana.

2.            Í seinna skiptið nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og það að hún var ein með honum fjarri öðrum, ýtt henni á rúmið hans og haft við hana samræði um leggöng og ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir að stúlkan bæði hann ítrekað um að hætta og segði honum að hann væri að meiða hana.

Er talið að sú háttsemi sem lýst er í 1. ákærulið varði við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í 2. ákærulið við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Verjandi krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Sem fyrr greinir var ákæra í málinu gefin út 10. maí 2012 og var málið þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur 9. júlí það ár. Ákærði hvarf af landi brott fyrir þingfestinguna og mætti fyrst fyrir dóminn 10. júní 2013, en aðalmeðferð fór fram 23. ágúst 2013. Dómur var kveðinn upp í málinu 5. september 2013 og var ákærði þá sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú ár og sex mánuði og til að greiða brotaþola skaðabætur að fjárhæð 900.000 krónur, auk vaxta. Með dómi Hæstaréttar Íslands 12. júní 2014 í máli nr. 668/2013 var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju, sbr. 1. mgr. 204. gr. og 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í kjölfarið fékk dómsformaður málið til meðferðar.

Eftir dóm Hæstaréttar hlutaðist ákæruvaldið til um frekari gagnaöflun í málinu. Fór aðalmeðferð fram að nýju 9. og 10. desember sl. og var málið að því búnu dómtekið. Hinn 19. desember og 7. janúar sl. fór fram framhaldsmeðferð í málinu, sbr. 168. gr. laga nr. 88/2008 og var það því næst dómtekið á nýjan leik.

Málsatvik

      Föstudaginn 4. júní 2010 mætti A hjá lögreglu í fylgd móður sinnar og fósturföður, í því skyni að leggja fram kæru vegna kynferðisbrots, sem stúlkan hefði orðið fyrir. Kom fram hjá stúlkunni og móður hennar að fjölskyldan hefði farið út að borða þetta kvöld á veitingastaðnum [...] við [...] og hefði stúlkan borið kennsl á mann sem var að vinna þar, sem héti Ingvar Dór. Hefði stúlkan sagt foreldrum sínum að þessi maður hefði nauðgað sér.

A greindi svo frá að hún hefði verið á [...] að kvöldlagi í marsmánuði og beðið eftir strætisvagni í skýli, þegar þessi maður hefði gefið sig á tal við hana. Hefði hann þekkt hana með nafni og sagst hafa verið að fylgjast með henni. Hann hefði dregið hana upp [...] að húsi þar sem veitingastaðurinn [...] er til húsa og farið með hana þar upp á þriðju hæð. Í stigaganginum hefðu þau mætt karlmanni, sem hefði verið hávaxinn, þykkur, með grátt hár, um 40 til 50 ára gamall. Ingvar Dór hefði farið með hana inn í íbúð á þriðju hæð til hægri. Þar hefði annar maður verið fyrir, hávaxinn og grannur, um 25 ára gamall. Hefði Ingvar haldið fast um úlnlið hennar þegar þau mættu þessum tveimur mönnum, en það gæti hafa litið eðlilega út. Stúlkan lýsti íbúðinni þannig að lítið hefði verið um húsgögn og hefði handklæði hangið fyrir gluggum. Hún kvað Ingvar hafa farið með sig inn í herbergi og afklætt hana. Hún hefði „frosið“ og hvorki getað hreyft sig né sagt neitt. Hún hefði þó sagt honum að hún vildi þetta ekki og að henni þætti þetta óþægilegt. Hann hefði svarað að þetta yrði betra og haft við hana samræði. Þá kvað stúlkan Ingvar þennan vera þekktan „barnaperra“ og hefði hann nauðgað fleiri 14 ára stúlkum. Hún tók jafnframt fram að hann hefði verið íklæddur svartri skyrtu með merki veitingastaðarins [...] kvöldið sem um ræðir.

      Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 14. júní 2010 og neitaði hann alfarið sök. Hann kvaðst hafa kynnst A á facebook í marsmánuði og átt við hana einhver samskipti þar og á MSN, en aldrei hafa hitt hana. Hann hefði hætt að eiga samskipti við stúlkuna þar sem hún hefði verið með „stæla“. Hefði honum þótt hún vera leiðinleg, uppáþrengjandi og rifrildisgjörn. Hann hefði því lokað á samskipti við hana í maímánuði. Þau hefðu upphaflega kynnst í gegnum „compare hotness“ síðu á facebook og hefðu þau rætt saman á samskiptavefnum á kynferðislegum nótum. Ákærði kvaðst hafa komist að því að stúlkan væri 14 ára gömul þegar fram kom í MSN samskiptum þeirra að hún væri að fara að fermast. Þá kvaðst ákærði vera með gsm-símanúmer stúlkunnar og hefðu þau skipst á einhverjum sms-skilaboðum.

      A gaf skýrslu fyrir dómi 14. júlí 2010, samkvæmt a-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, og var framburður hennar þá nokkuð á annan veg en við fyrri skýrslutöku. Kvaðst hún nú hafa kynnst ákærða á facebook eftir að hafa tekið þátt í leiknum „compare hotness“. Hún hefði lent á þessum manni, sem hún hefði talið vera 16 til 17 ára, miðað við myndina af honum. Hún hefði þó fljótlega komist að því að hann væri 25 ára gamall. Samskipti ákærða við hana hefðu verið á kynferðislegum nótum og hefði komið fram að hann vildi eiga við hana kynferðismök. Hefði hann síðan farið að senda henni sms-skilaboð og beðið hana um að hitta sig. Hún hefði látið til leiðast og farið heim til hans. Þetta kvöld hefði ákærði káfað á henni og sagst vilja hafa við hana samfarir, en hún hefði sagt honum að hún vildi það ekki og að hún væri á blæðingum. Hún hefði svo sagt honum að hún þyrfti að fara, þar sem hún þyrfti að komast aftur heim með strætisvagni með skiptimiða. Um mánuði síðar hefði ákærði byrjað að spjalla við hana að nýju og hefði það snúist um kynlíf og þau tvö. Henni hefði fundist þetta „pínu“ óviðeigandi. Hún kvaðst hafa farið á hárgreiðslustofu einn daginn, látið lita á sér hárið og plokka augabrúnirnar og hefði hún verið mjög ánægð með sig á eftir. Hún hefði verið að spjalla við ákærða og sagt honum frá þessu. Hann hefði þá spurt hvort hann mætti sjá hana. Hún hefði verið treg til, en látið tilleiðast og hugsað með sér að þetta yrði í síðasta sinn, hann myndi ekki gera henni neitt. Hún hefði farið heim til ákærða. Hann hefði farið að kyssa hana og spurt hvort hann mætti hafa við hana samfarir, en hún hefði svarað að hana langaði ekki til þess, enda væri hann 11 árum eldri en hún. Ákærði hefði þá sagt: „Já ég skal bara nauðga þér“, en hún hefði tekið því sem gríni. Áður en hún vissi af hefði ákærði verið kominn ofan á hana. Hún hefði beðið hann um að hætta, en hann hefði sagt að þetta myndi verða betra með tímanum. Þetta hefði staðið í um 15 mínútur og hefði hún verið „hálf heiladauð“ á meðan. Síðan hefði ákærði farið af henni og farið að horfa á sjónvarp, en hún hefði haft sig á brott.

Brotaþoli lýsti nánar fyrra skiptinu sem hún fór að hitta ákærða, en hún kvaðst telja það hafa verið í byrjun marsmánaðar. Ákærði hefði sagt henni að koma til Reykjavíkur og ganga upp [...], en hann byggi við hliðina á veitingastaðnum [...]. Hann hefði ætlað að bíða eftir henni fyrir utan húsið. Þegar til kom hefði hún ekki átt inneign í símanum sínum og því ekki getað hringt í ákærða. Hún hefði ætlað að hætta við að hitta hann og farið á kaffihús á [...]. Ákærði hefði hringt til hennar þegar hún var á kaffihúsinu og hefði hann beðið hana um að koma til sín upp á [...]. Hefði ákærði beðið eftir henni utan við húsið og boðið henni inn. Þau hefðu gengið inn um dyr við hliðina á veitingastaðnum og farið þar upp á aðra eða þriðju hæð um flóknasta gang sem hún hefði komið í. Á stiganum hefði verið steingólf og þar hefði verið mikið af pappakössum. Í íbúðinni þar sem ákærði bjó hefði verið sófi á miðju gólfi og ótengt sjónvarp. Þetta hefði verið tveggja eða þriggja herbergja íbúð. Herbergi ákærða hefði verið pínulítið og alveg glerjað, þar hefði verið stór gluggi sem hægt var að opna sem hurð og svalir fyrir utan. Í herberginu hefði verið sjónvarp, rúm, fataskápur og meira af pappakössum. Meðal gagna málsins er mynd sem brotaþoli teiknaði við skýrslutökuna, sem sýnir íbúðina, herbergjaskipan og fyrirkomulag þar.

Brotaþoli lýsti því að þegar þau komu inn í herbergi ákærða hefði hann verið að knúsa hana og kyssa og strjúka hana alls staðar. Hann hefði verið á maganum á henni og reynt að komast upp í brjóstahaldarann hennar undir bol, en hún hefði sagt honum að hætta því. Hún hefði spurt hann hvort honum fyndist þetta ekki rangt þar sem hún væri 14 ára en hann 25 ára. Hefði ákærði síðan látið af þessu og hún flýtt sér til að ná strætisvagni heim.

Brotaþoli kvað þau ákærða hafa spjallað saman á MSN um tveimur vikum eftir þetta og hefði ákærði haldið áfram að ræða um kynlíf og beðið hana um að hitta sig, en hún ekki viljað það. Hún hefði þó látið tilleiðast og farið að hitta hann á heimili hans. Þetta hefði verið um tveimur vikum áður en hún fermdist, sem var 18. apríl. Hefði hún farið með ákærða inn í herbergi hans þar sem hann hefði rifið hana úr fötunum og ekki verið „eitthvað ógeðslega næs“ við hana. Hann hefði ýtt henni niður, rifið hana úr fötunum og lagst ofan á hana. Áður hefði hann reynt að fara undir buxurnar hennar en hún beðið hann um að hætta, en hann hefði ekki orðið við því. Næst myndi hún eftir því að hún var ekki í neinum fötum og hefðu þau þá bæði verið orðin nakin. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað hún ætti að gera og hefði hún „frosið“. Hún kvaðst muna eftir að hafa fundið fyrir miklum óþægindum í klofinu og beðið hann um að hætta því að hann væri að meiða hana, en hann hefði sagt henni að þetta yrði betra með tímanum. Hefði ákærði haft við hana samfarir og hún fundið fyrir getnaðarlim hans í leggöngum sínum. Þetta hefði staðið yfir í 15 til 20 mínútur eða hálftíma og hefði ákærði notað verju við samfarirnar. Þegar þetta var yfirstaðið hefði ákærði sest upp, kveikt á sjónvarpinu og farið að horfa á mynd. Hún kvaðst þá hafa klæðst og hraðað sér á brott. Hún hefði tekið strætisvagn og verið hálfgrátandi á leiðinni heim. Á móts við Kringluna hefði vinkona hennar, B, komið inn í vagninn og spurt hana hvað væri að. Hún hefði sagt B að hún hefði hitt 16 ára strák, sem hefði meitt hana.

Þá kom fram hjá brotaþola að þegar hún kom fram úr herbergi ákærða hefði hún rekist í mann, grannan og frekar hávaxinn, auk þess sem hún hefði í fyrra skiptið hitt gamlan mann í stigaganginum. Hún kvað ákærða hafa haft samband á MSN tveimur vikum eftir þetta og hefði hún þá sagt honum að hún myndi kæra hann fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni, léti hann hana ekki í friði. Hann hefði ekki svarað þessu og hún ekki heyrt frá honum eftir þetta. Síðan hefði hún farið með fjölskyldunni út að borða á veitingastaðinn [...] og hefði hún séð ákærða við vinnu þar. Hefði hún síðar um kvöldið sagt móður sinni frá því sem gerst hefði, en ekki þorað að segja henni allan sannleikann í fyrstu. Þá kom fram hjá henni að daginn áður en hún sagði móður sinni frá þessu hefði hún sagt sálfræðingi sem hún var að hitta að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Hefði sálfræðingurinn sagt henni að segja móður sinni frá því. Hún gaf þá skýringu á framburði sínum við skýrslutöku hjá lögreglu, að hún hefði ekki viljað segja allan sannleikann um samskipti sín við ákærða fyrir framan móður sína og fósturföður. 

      Hinn 18. apríl 2011 var tekin símaskýrsla af brotaþola þar sem hún lýsti ítarlega aðstæðum í húsnæðinu þar sem ákærði bjó. Kom fram hjá henni að gengið væri inn í húsið vinstra megin og þar upp stiga með tröppum lögðum litlum steinum þar til komið væri að hurð sem gat væri á. Við hlið þeirrar hurðar hefði verið hurð íbúðar, þar sem eldri maður bjó. Aðkoma að íbúð ákærða hefði verið um dyrnar með hurðinni með gatinu. Fyrir innan hurðina hefði tekið við stigi þar sem gengið var fyrst upp til hægri, síðan til vinstri og þá hefði verið komið að hurðinni að íbúð ákærða. Þegar komið var inn í íbúðina hefði verið sófi á hægri hönd og nokkrir kassar fyrir framan. Herbergi ákærða hefði verið beint á móti sófanum, vinstra megin við herbergið hefði verið salerni, en eldhús hægra megin við það. Hugsanlega hefði verið annað herbergi við salernið. Veggir hefðu verið hvítmálaðir og hurðar úr gulbrúnum viði. Þá taldi hún að sjónvarp hefði verið þarna inni. Á gólfi hefði verið plastparket eða gamalt parket. Hún lýsti því að í herbergi ákærða hefði verið Liverpool merki, annað hvort á veggnum eða á sængurveri. Í herberginu hefði verið gamalt kassasjónvarp og rúm staðið við það. Stór gluggi hefði verið andspænis dyrunum og fataskápur verið fastur við vegginn hægra megin. Þá hefði verið hilla í herberginu og lök fyrir glugganum, rauð og hvít að lit að því er hana minnti. Sængurverið hefði verið rautt, annað hvort með Liverpool eða Manchester merki. Þá hefði verið önnur sæng í rúminu, með bláu eða hvítu veri. Rúmið hefði verið „queen size“ og án gafla, þ.e. „dýna með löppum“. Hrúga af óhreinum bolum hefði verið í horninu og óhreinir kaffibollar við hliðina á skápnum. Þá hefðu verið óhrein glös og kókflöskur í gluggakistunni. Skápurinn hefði verið hvítur og hefði hún séð silfurlitaðar IKEA grindur inni í honum. Fyrir utan gluggann hefði verið lítill pallur og þar hefðu verið sígarettustubbar. Herbergið hefði verið lýst með ljósaperu sem hékk í loftinu. Þá lýsti hún því aftur að hún hefði séð mann þegar hún yfirgaf herbergið, tiltölulega háan, grannan, ljóshærðan, íklæddan hvítum bol. Hefði maðurinn staðið nálægt salerninu og horft á hana. Þá hefði hún rekist á gamlan eða eldri mann þegar hún kom út úr íbúðinni. Skýrslunni fylgja teikningar brotaþola af herberginu og innanstokksmunum þar.

Í framhaldi af yfirheyrslu ákærða 14. júní 2010 fór fram húsleit á heimili hans að [...]. Liggur fyrir skýrsla lögreglu um lýsingu á húsnæðinu og aðstæður á vettvangi. Skýrslunni fylgir myndbandsupptaka úr stigagangi hússins og ljósmyndir úr stigagangi, íbúðinni þar sem ákærði bjó ásamt fleirum, og herbergi hans. Einnig er í málinu skýrsla lögreglu um samanburð á lýsingum brotaþola á húsnæðinu og aðstæðum við rannsókn lögreglu. Kemur þar fram að brotaþoli hafi greint frá því að húsnæði ákærða væri við hliðina á veitingastaðnum [...]. Við skoðun lögreglu hafi komið fram að merki veitingastaðarins væri utan á húsinu. Þá hafi brotaþoli greint frá því að íbúðin hafi verið á annarri eða þriðju hæð og að stigagangurinn hafi verið sá flóknasti er hún hafi gengið um. Í skýrslunni kemur fram að það verði að teljast óvenjulegt hvernig farið sé inn í íbúðina með því að farið sé um dyr á stigapalli annarrar hæðar til þess að komast að stigagangi að þriðju hæð. Eftir að hafa farið upp þann stigagang sé farið inn um dyr til að komast inn í íbúðina. Þá hafi komið fram í framburði brotaþola að á hurð á íbúðinni hafi verið rispa eða eins og gat á henni. Ákærði hafi talað um þessa skemmd og rannsóknarlögreglumaður tekið eftir henni. Þá hafi brotaþoli skýrt frá því að gólf stiga hafi verið steingólf, en gólfið sé steingólf eða steinteppi. Brotaþoli hafi sagt að sófi hafi verið á miðju gólfi í íbúðinni og ótengt sjónvarp á ganginum. Sjá megi sófa í stofu íbúðarinnar. Loks komi lýsing hennar á íbúðinni og herbergi ákærða heim og saman við aðstæður á vettvangi, eins og nánar er rakið í skýrslunni.

      Við skoðun á síma ákærða fundust ekki afrit af SMS samskiptum við brotaþola. Hins vegar fundust nokkrar myndir af nöktum eða klæðalitlum stúlkum. Við rannsókn á tölvu ákærða fannst mikið af MSN samskiptum ákærða, m.a. samskipti af kynferðislegum toga, sem hann hafði átt við mjög ungar stúlkur. Þá er í málinu tölvupóstur sem móðir brotaþola sendi lögreglu, dagsettur 15. maí 2010, sendur frá netfanginu [...] á netfang brotaþola og fylgir mynd með nafni ákærða. Á myndinni er ákærði með dökkt hár og er hún augljóslega nokkurra ára gömul.

      Við skoðun á síma brotaþola kom í ljós að á tímabilinu frá 28. mars til 1. júní 2010 voru send 117 sms-skilaboð úr síma hennar í síma ákærða, en engin skilaboð var að finna frá ákærða til brotaþola. Í skýrslu lögreglu um rannsóknina kemur fram að þær upplýsingar hefðu fengist frá símafyrirtæki brotaþola að af tæknilegum orsökum geti slík skilaboð vantað í yfirlit um símasamskipti. Sem fyrr greinir fór fram frekari rannsókn í málinu eftir ómerkingu héraðsdóms og var þá m.a. leitað eftir því við símafyrirtæki ákærða hvort til væru gögn um símasamskipti hans frá árinu 2010. Svo reyndist ekki vera og kemur fram í skýrslu lögreglu að slík gögn séu ekki varðveitt lengur en í sex mánuði.

Í gögnum um notkun á síma brotaþola sem liggja fyrir í málinu kemur fram að 29. mars 2010 klukkan 20:11 hafi verið hringt úr síma hennar í síma [...], sem C, vinkona brotaþola, er skráð fyrir, og var sími brotaþola þá nálægt sendi við [...] í [...]. Í kjölfarið voru send tvenn sms-skilaboð úr síma brotaþola í síma ákærða og hringt í hann klukkan 20:47, en símtalinu var ekki svarað. Kom sími brotaþola inn á sendi í [...] á þessum tíma. Klukkan 20:50 var sent sms úr síma brotaþola í síma ákærða og símtal móttekið frá honum klukkan 20:58. Klukkan 21:24 var hringt úr síma brotaþola í síma C. Þann 6. apríl klukkan 18:09 móttók brotaþoli símtal frá nefndri C og var sími brotaþola þá við [...]. Klukkan 18:20 var hringt úr síma brotaþola í síma ákærða og kom sími hennar inn við [...]. Klukkan 18:55 var enn hringt úr síma brotaþola í síma C og var sími brotaþola þá nálægt [...] við [...].

      Ákærði var yfirheyrður á ný 16. maí 2011 og voru þá bornar undir hann lýsingar og teikning brotaþola á íbúðinni og herberginu. Ákærði nefndi í því sambandi að brotaþoli hefði getað séð myndir af íbúðinni á internetinu, en ekki fundust slíkar myndir við skoðun á meðan á yfirheyrslunni stóð. Þá vísaði hann því á bug að símasamskipti þeirra á milli, sem rakin hafa verið, hefðu verið í tengslum við að hún hefði verið á leið til hans.              

      Meðal mynda sem fundust í farsíma ákærða er mynd sem sýnir nakinn líkama mannveru sem liggur á grúfu í rúmi og verður ráðið af umhverfinu að myndin hafi verið tekin í herbergi því sem ákærði hafði til afnota að [...]. Myndin sýnir rass viðkomandi og aftanverða fótleggi, frá kálfum. Samkvæmt afritun farsímans var myndin tekin 6. apríl 2010 klukkan 18:49. Fram kemur í skýrslu lögreglu um skoðun á símanum að hann hafi verið rangt stilltur, eða 14 mínútum á undan réttum tíma, og muni myndin því hafa verið tekin klukkan 18:35.

Við skýrslutöku af brotaþola, sem fram fór fyrir dómi 22. ágúst 2012, fyrir aðalmeðferð málsins, var hún spurð að því hvort ákærði hefði tekið mynd af henni þegar hún var hjá honum. Svaraði brotaþoli því játandi, en kvaðst samt hafa náð að snúa sér við. Þetta hefði verið í síðara skiptið sem hún hitti hann, eftir að hann hefði haft við hana kynferðismök. Hún hefði verið nakin, en þetta hefði ekki verið andlitsmynd þar sem hún hefði náð að snúa sér við. Við framhaldsrannsókn málsins var tekin skýrsla af brotaþola 2. september 2014, þar sem ljósmyndin sem fannst í síma ákærða var borin undir hana. Kvaðst hún bera kennsl á sig sem mannveruna á myndinni. Hún væri með óvenju breiða kálfa og hægt væri að sjá á myndinni doppur eða aðgerðarpunkta aftan á hásinum á báðum fótum. Á ljósmyndum sem lögregla tók af aftanverðum fótleggjum brotaþola má sjá móta fyrir förum á hælum hennar, sem gætu verið ör. D heilsugæslulæknir var fenginn til að bera saman myndina sem fannst í síma ákærða og myndirnar sem lögregla tók og meta hvort þær gætu verið af líkamshlutum sama einstaklings. Í greinargerð læknisins, dagsettri 13. september 2014, kemur fram að við skoðun á mynd B, sem lögregla tók af brotaþola, sjáist að hásinar séu ekki alveg symmetrískar og megi greina ójöfnu á vinstri hásin miðlægt, sem geti verið ör. Treysti hann sér ekki til að staðfesta að um ör væri að ræða. Við skoðun á mynd A, sem fannst í farsíma ákærða, sjáist merki um misfellu á vinstri hásin sem geti verið ör. Geti hann ekki staðfest að myndirnar tvær séu af sama einstaklingi.

      Leitast var við að upplýsa hvenær brotaþoli hefði farið á hárgreiðslustofu vegna framburðar hennar um að það hefði verið daginn sem hún hitti ákærða í síðara skiptið. Kemur fram í skýrslu lögreglu um þetta að móðir brotaþola hafi upplýst að hún hafi skráð í dagbók sína að brotaþoli hefði átt tíma í litun á hárgreiðslustofu 29. mars 2010, en ekki væri að finna greiðsluupplýsingar á greiðslukortum hennar sem tengdist þeirri dagsetningu. Við aðalmeðferð málsins var leitast við að upplýsa frekar tímasetningar að þessu leyti. Kemur fram í skýrslum lögreglu frá 16. og 22. desember 2014 að rætt hafi verið við starfsmann hárgreiðslustofunnar sem um ræðir og eiganda netfyrirtækis sem annaðist bókanir fyrir stofuna, sem hafi upplýst að ekki væru varðveitt gögn um tímabókanir frá þessum tíma.  

      Í málinu liggur fyrir vottorð E sálfræðings frá 7. maí 2012, þar sem fram kemur að móðir brotaþola hafi leitað aðstoðar vegna hennar í apríl 2010. Hefði það verið í kjölfar þess að brotaþoli greindi umsjónarkennara sínum frá depurð og vanlíðan sem virtist tengjast ýmsu, svo sem samskiptum við bekkjarfélaga og dauðsfalli föður árið [...]. Þá hefði kennarinn haft áhyggjur af skyndilegri breytingu á hegðun stúlkunnar, en hún hefði misst stjórn á skapi sínu í skólanum og sýnt óvenjulega reiðihegðun. Brotaþoli hefði komið þrisvar sinnu í viðtöl hjá sálfræðingnum í maí og júní 2012 og hefði komið fram að hún var mjög döpur og með talsverð kvíðaeinkenni. Markvert hefði verið hversu neikvæðar hugmyndir stúlkan hefði virst hafa um sjálfa sig og hefði hún notað neikvæð og niðrandi orð þegar hún var beðin um að lýsa sér. Hefði sálfræðingurinn spurt hana hvernig þessar neikvæðu hugsanir væru til komnar og hún þá greint frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri árás og upp frá því upplifað skömm, kvíða, depurð og ótta. Hefðu þær ákveðið að stúlkan segði móður sinni frá þessum atburði, sem hún hefði gert í kjölfarið.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

                Ákærði kvaðst hafa kynnst A á síðunni „compare hotness“ á facebook um vetur eða vor 2010. Þau hefðu átt samskipti á facebook og MSN og jafnframt einhver símasamskipti. Ákærði kvað sér hafa verið kunnugt um aldur brotaþola þar sem hún hefði sett inn fermingarstatus á facebook. Hann kvað samskipti þeirra á netinu hafa verið af kynferðislegum toga. Það hefði komið til tals á milli þeirra að hittast, en ekki hefði orðið af því. Hann kvaðst ekki vita hvort brotaþoli hefði komið inn á heimili hans. Hann kvað samskiptum þeirra hafa lokið eftir að hann fór að eiga samskipti við vinkonu brotaþola á netinu. Hefði brotaþoli reiðst yfir því og útilokað hann á facebook. Hann kvaðst fyrst hafa heyrt af ásökunum brotaþola um kynferðisbrot þegar lögregla kom á heimili hans í júní 2010 og hefði hann engar skýringar á framburði hennar í þá veru. Ákærði kvað mikið partíhald hafa verið í íbúðinni hjá þeim sem þar leigðu á þessum tíma, um helgar og á virkum dögum, og hefði hver sem er getað gengið þar inn af götunni. Þá hefði dyraumbúnaður verið þannig frá febrúarmánuði 2010 að hver sem er hefði getað komist þarna inn. Lás á útidyrahurð hefði verið í ólagi, auk þess sem hurðin að íbúðinni hefði verið brotin upp um þetta leyti. Hefði hurðinni verið sparkað af hjörunum og hún ekki sett upp aftur.

                Ákærði kvaðst kannast við að hafa átt í samskiptum við kvenfólk á öllum aldri á þessum tíma, en ekki minnast þess að hafa verið að setja sig í samband við 13 til 14 ára gamlar stúlkur í því skyni að fá þær til kynferðislegs samneytis. Hann kannaðist við að hafa klæðst svartri skyrtu merktri [...] við vinnu sína. Spurður um sérstök líkamseinkenni kvaðst ákærði vera með tvö ör milli augna og eitt á vör, auk þess sem hann væri með húðflúr á hægri upphandlegg. 

                Ákærði var spurður um myndina sem fannst í síma hans af berum bakhluta mannveru og kvaðst hann ekki vita af hverjum myndin væri. Hann kvaðst muna eftir þessari mynd úr síma sínum, en ekki muna eftir því að hafa tekið hana. Myndin væri þó tekin af viðkomandi í rúmi hans. Hann kvaðst oft hafa fengið stúlkur í heimsókn í herbergi sitt á þessum tíma.

                A kvaðst hafa kynnst ákærða á „compare hotness“ síðu á facebook í febrúar 2010. Þau hefðu verið í samskiptum á facebook og MSN. Samskiptin hefðu verið eðlileg og vinaleg í fyrstu, en síðan orðið á kynferðislegum nótum. Hún kvaðst hafa farið að hitta ákærða í mars 2010, eftir að þau hefðu mælt sér mót. Hún hefði tekið strætisvagn niður á [...] og sent honum sms á leiðinni og eftir að hún kom niður í bæ, en þá hefði inneign á símanum hennar klárast. Hún hefði farið á kaffihús á [...] og hefði ákærði hringt í hana þar. Hún hefði eftir hans fyrirsögn gengið upp [...] og hitt hann við veitingastaðinn [...]. Hefði ákærði litið út fyrir að vera eldri en hún hefði búist við. Hún hefði farið inn í húsið með honum og hefðu þau gengið upp flókinn stigagang þar sem hvítir og svartir steinar voru á gólfi og hefðu nokkrar dyr verið í stigaganginum. Þau hefðu farið inn í íbúðina þar sem ákærði bjó og inn í herbergi þar. Þar hefði ákærði farið að kyssa hana og káfa á henni. Hann hefði farið inn fyrir bolinn hennar og brjóstahaldarann og strokið kynfæri hennar utan klæða. Nánar spurð kvaðst hún telja að ákærði hefði snert brjóst hennar fyrir utan brjóstahaldarann. Ákærði hefði sagst vilja hafa við hana samfarir, en hún svarað því til að hún væri á blæðingum. Síðan hefði hún sagt honum að hún yrði að fara og yfirgefið íbúðina. Hún hefði náð strætisvagni heim með skiptimiða sem hún hefði tekið á leiðinni í bæinn, en skiptimiði gildi í um klukkustund. Hún hefði engum sagt frá þessu atviki.

Brotaþoli kvaðst lítið samband hafa haft við ákærða eftir þetta, en hann hefði lagt að henni að hitta sig aftur. Hefði hann m.a. sagt við hana að hún væri gunga að þora ekki að hitta hann. Að endingu hefði hún fallist á að hitta hann aftur og tekið strætisvagn niður á [...] sem fyrr. Hefðu sms skilaboð og símtöl gengið á milli þeirra þegar hún var á leiðinni. Hún hefði hitt ákærða fyrir utan húsið þar sem hann bjó og farið með honum upp í íbúðina, en á leiðinni upp hefðu þau rekist á eldri mann sem hefði verið í dyragætt íbúðar í stigaganginum. Þetta hefði verið gráhærður maður á fimmtugs- eða sextugsaldri. Þegar þau komu upp í herbergi ákærða hefði hún reynt að nota sömu afsökun og fyrr og sagst vera á blæðingum en hann hefði ekki trúað því. Hefði ákærði „farið alla leið með þetta“. Brotaþoli lýsti atvikum nánar svo að ákærði hefði gripið hana þegar þau komu inn í herbergið og ýtt henni á rúmið, klætt hana úr, farið ofan á hana, en síðan gripið í hana og velt henni ofan á sig. Hún hefði sagt honum að hætta þessu, en verið „eins og pínu frosin“. Hann hefði haft samfarir við hana þarna gegn vilja hennar og hefði hann meitt hana. Þegar þetta var yfirstaðið hefði hann kveikt á sjónvarpinu. Hún hefði legið í rúminu í smástund. Ákærði hefði sagst ætla að taka af henni nektarmynd, en hún svarað að hún hefði ekki áhuga á því. Hann hefði tekið upp farsíma sinn, en hún sett hendurnar fyrir andlitið og snúið sér við svo að hann hefði aðeins náð mynd af rassinum á henni. Hún hefði farið eftir þetta, en þegar hún gekk í gegnum íbúðina hefði hún séð hávaxinn mann, um 1,80 m á hæð, með sítt ljóst hár. Hún hefði tekið strætisvagn heim og hitt B, vinkonu sína, í vagninum. Hefði hún sagt B að einhver strákur hefði meitt hana. Þá taldi hún líklegt að hún hefð hringt í C, vinkonu sína, í strætisvagninum, en hún hefði þó ekki sagt henni frá því sem hefði gerst fyrr en síðar. Hefði hún fyrst lýst atvikum fyrir C þannig að einhver maður hefði kippt henni með sér niðri í bæ. Hún hefði ekki viljað að fólk kæmist að því að hún hefði farið að hitta mann sem hún hefði kynnst á netinu, þar sem hún hefði átt að vita betur. 

                Brotaþoli lýsti með sama hætti og fyrr tildrögum þess að hún greindi móður sinni frá því sem gerst hefði eftir að fjölskyldan fór á veitingastaðinn [...]. Hún hefði sagt móður sinni sömu sögu og hún hefði áður sagt C og af sömu ástæðu. Þá hefðu foreldrar hennar verið viðstaddir er hún ræddi við lögreglumann þetta kvöld. Síðar hefðu foreldrar hennar skoðað tölvuna hennar og fundið þar póst frá ákærða. Þá hefði komist upp að hún hefði ekki sagt þeim allan sannleikann um kynni sín af honum. Hún kvaðst hafa skammast sín og kennt sér um það sem gerst hefði.

                Brotaþoli lýsti ákærða sem dökkhærðum, u.þ.b. 1,70 eða 1,80 m á hæð, með bumbu. Hún kvaðst minnast þess að hann hefði verið með húðflúr, en ekki muna hvar það var. Þá hefði hann verið í svartri skyrtu merktri veitingastaðnum [...] í síðara skiptið sem hún hitti hann. Hún kvaðst geta tímasett síðara tilvikið út frá því að hún hefði farið á hárgreiðslustofu þann dag og látið klippa og lita á sér hárið. Hún kvaðst ekki hafa séð ljósmyndir af íbúðinni eða herbergi ákærða.

                Brotaþola var sýnd framangreind mynd sem fannst í farsíma ákærða og kvaðst hún þekkja sig á myndinni. Kvaðst hún geta greint á myndinni ör við hæla eftir aðgerð sem hún hefði gengist undir á hásin. Hún kvaðst telja að hún hefði gleymt þessari myndatöku þegar hún gaf skýrslu á fyrri stigum málsins, en myndin hefði ekki verið borin undir hana fyrr en við framhaldsrannsókn hjá lögreglu 4½ ári eftir atvikið.     

F, móðir brotaþola, gerði grein fyrir því hvernig það atvikaðist að stúlkan sagði henni frá málinu og hvernig hún lýsti atvikum í upphafi. Vitnið kvaðst hafa orðið vör við miklar breytingar hjá brotaþola á þessum tíma. Kvaðst hún hafa tengt þessar breytingar við það að stúlkunni hefði nýverið verið sagt frá því að faðir hennar, sem lést þegar hún var barn að aldri, hefði fyrirfarið sér. Þetta vor hefði hún orðið vör við vanlíðan hjá brotaþola og hefði hún m.a. hætt að mæta í skólasund og leikfimi. Hefði vitnið fengið tíma fyrir hana hjá sálfræðingi af þessum sökum. Þá staðfesti vitnið að hafa skráð í dagbók sína að brotaþoli hefði átt pantaðan tíma á hárgreiðslustofu 29. mars 2010. G, fósturfaðir brotaþola, kvað þau móður stúlkunnar hafa komist að því að hún hefði verið í samskiptum við ákærða á netinu eftir að hafa skoðað tölvu hennar. Hefði hún brotnað niður þegar þau ræddu þetta við hana og sagst hafa skammast sín fyrir að hafa gert það sem foreldrar hennar hefðu varað hana við. Í framhaldinu hefði hún farið í skýrslutöku vegna málsins. Vitnið kvað þau hafa merkt vanlíðan hjá brotaþola þetta vor. Hún hefði verið óörugg með sig, hætt að mæta í skólasund og leikfimi og farið að ganga verr í skóla.

C, vinkona brotaþola, kvaðst hafa vitað að hún hefði kynnst manni á „compare hotness“ netsíðunni. Hefði brotaþoli sagt henni að hún hefði hitt þennan mann á kaffihúsi niðri í bæ og farið með honum heim þar sem hann hefði nauðgað henni. Þær hefðu rætt saman í síma þegar brotaþoli var á leið með strætisvagni niður í bæ og hefði hún sagt henni að hún væri að fara að hitta manninn sem hún hefði kynnst á netinu. Þá kvaðst vitnið minna að brotaþoli hefði komið til hennar úr strætisvagninum þegar hún kom til baka og sagt henni frá því sem hefði gerst. Hún tók þó fram að hún ætti erfitt með að rifja þessi atvik upp þar sem svo langur tími væri liðinn. Hún kvað sig jafnframt minna að brotaþoli hefði síðar breytt sögunni og sagt henni að hún hefði ekki hitt manninn á kaffihúsi heldur farið beint heim til hans. Vitnið kvað þær brotaþola hafa verið bestu vinkonur á þessum tíma og hefði þetta atvik haft mikil áhrif á brotaþola. Þetta hefði valdið henni vanlíðan og hún hefði skammast sín fyrir það sem hefði gerst.

H kvað þær brotaþola hafa verið kunningja, en þær hefðu verið saman í skóla. Vitnið kvað ákærða hafa byrjað að spjalla við sig á MSN á sama tíma og hann var í samskiptum við brotaþola. Ákærði hefði sagt við hana hluti sem henni hefðu þótt óviðeigandi og hefði hann beðið hana um að hitta sig. Hún kvaðst vita til þess að hann hefði einnig verið að biðja brotaþola um að hitta sig og hefði hún gert það. Brotaþoli hefði sagt henni að hún hefði hitt ákærða á kaffihúsi við [...] og hefði hann dregið hana heim til sín og reynt að káfa á henni.

I kvað þau brotaþola hafa kynnst á netinu í gegnum facebook og MSN á árinu 2010. Hann hefði tekið eftir því um mitt árið að hún var döpur og spurt hana hvað væri að. Hefði hún þá sagt honum að hún hefði farið að hitta mann sem hún hefði talið vera 17 ára gamlan. Hún hefði farið með honum í íbúð nálægt pizzu-veitingastað. Hefði maðurinn verið ágengur við hana þegar þangað kom og nauðgað henni. Hún hefði sagt honum að hætta og að þetta væri vont. Þegar þetta var yfirstaðið hefði maðurinn svo gott sem sagt henni að hafa sig á brott. Vitnið kvaðst hafa hvatt brotaþola til að segja foreldrum sínum frá þessu, en það hefði komið fram hjá henni að þau vissu ekki um þetta.

B kvað þær brotaþola hafa verið mjög nánar vinkonur á þessum tíma. Hún kvaðst muna eftir því að hafa eitt sinn komið inn í strætisvagn og séð brotaþola þar. Brotaþoli hefði verið mjög döpur, það hefði sést langar leiðir og hefði vitnið tekið eftir því um leið og hún gekk inn í strætisvagninn. Brotaþoli hefði sagt henni að einhver 16 ára strákur hefði meitt hana. Þessi saga hefði breyst síðar og hefði brotaþoli sagt vitninu að henni hefði verið nauðgað.  

J kvaðst hafa flutt inn í íbúðina að [...] í febrúar 2010 og leigt þar ásamt fleirum, þeirra á meðal ákærða, sem vitnið kvaðst þó hafa þekkt lítið. Vitnið kvað ákærða hafa fengið mikið af stúlkum í heimsókn. Kvaðst hann hafa nefnt það við annan leigjanda, K, eða L, að „þetta væri dálítið ungt“. Þá kvaðst vitnið muna eftir ungri stúlku koma inn í íbúðina, en treysti sér ekki til að lýsa útliti hennar. Þeir K hefðu verið inni í eldhúsi þegar stúlkan kom inn og hefði það stungið þá hversu ung hún var, auk þess sem hún hefði virst óörugg. Vitnið kannaðist ekki við að það hefði verið opið upp í íbúðina þann tíma sem hann bjó þarna, þannig að hægt hefði verið að ganga þar inn af götunni. Þau sem bjuggu í íbúðinni hefðu öll verið með lykil. Þá hefði útidyrahurðin ekki verið brotin á þessum tíma, það hefði gerst áður en hann flutti inn. L kvaðst ekki gera sér grein fyrir aldri kvenfólks sem kom í íbúðina á vegum þeirra sem leigðu þar, en minntist þess að J hefði einhvern tíma nefnt við hann áhyggjur sínar í því sambandi. Vitnið kvað ekkert hafa verið að læsingu á útidyrum eða dyrum íbúðarinnar og hefði hann gætt þess að óviðkomandi kæmust ekki þar inn.   

E sálfræðingur gerði grein fyrir viðtölum við brotaþola í maí og júní 2010. Hún bar að sér hefði fljótlega fundist eins og brotaþoli léti eitthvað ósagt, en líðan hennar hefði ekki komið heim og saman við forsöguna. Brotaþoli hefði notað niðrandi orð um sig og hefði vitninu virst sem hún hefði orðið fyrir einhverju áfalli. Hefði hún spurt brotaþola hvort einhver hefði gert eitthvað við hana sem hún vildi ekki. Þá hefði brotaþoli sagt henni að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri árás. Vitnið kvaðst hafa stöðvað frásögn stúlkunnar og beðið hana um að segja móður sinni frá þessu. Hefði móðirin hringt til vitnisins daginn eftir og þá komið fram að stúlkan hefði greint henni frá málinu.

                D heilsugæslulæknir gerði grein fyrir skoðun á ljósmyndum sem liggja fyrir í málinu og vikið hefur verið að. Vitnið kvaðst ekki geta staðfest að myndirnar tvær væru af sama einstaklingi, en myndin sem fannst í farsíma ákærða hefði verið óskýr. Þá komu fyrir dóminn lögreglumennirnir M,  N, O og P, en ekki eru efni til að rekja framburð þeirra.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök. Hann hefur kannast við að hafa átt samskipti við brotaþola á facebook og MSN á þeim tíma sem um ræðir. Þá hefur hann viðurkennt að þau samskipti hafi verið á kynferðislegum nótum og að honum hafi verið kunnugt um að brotaþoli var 14 ára að aldri. Hann neitar því hins vegar alfarið að hafa hitt brotaþola.

                Brotaþoli gaf skýrslur við rannsókn málsins og við aðalmeðferð þess, svo sem rakið hefur verið. Að frátalinni frásögn hennar í lögregluskýrslu 4. júní 2010 hefur hún í öllum aðalatriðum borið um atvik með sama hætti. Hún hefur jafnframt gefið trúverðugar skýringar á frásögn sinni við framangreinda skýrslutöku, sem fram fór í viðurvist móður hennar og fósturföður. Í skýrslum brotaþola fyrir dómi og símaskýrslu, sem hún gaf við rannsókn málsins, gaf hún greinargóða og ítarlega lýsingu á húsnæði þar sem ákærði bjó og herbergi hans þar. Kemur sú lýsing heim og saman við ljósmyndir sem liggja fyrir í málinu og skýrslur lögreglu um aðstæður á vettvangi. Verður því slegið föstu að brotaþoli hafi komið í húsnæðið eins og hún hefur borið um. Ekki hefur tekist að hafa uppi á eldri manni sem brotaþoli kveðst hafa séð í stigagangi hússins. Þá kvaðst hún hafa rekist á mann er hún hvarf á brott úr íbúðinni, en ekki hefur verið staðreynt hver það hafi verið. Hins vegar er ekkert fram komið í málinu sem leiðir líkur að því að brotaþoli hafi séð ljósmyndir af húsnæðinu eða komið þangað án vitneskju ákærða, eins og hann hefur borið fyrir sig við meðferð málsins. Þá er framburður ákærða um að hver sem er hefði getað komist inn í íbúðina í andstöðu við framburð vitnanna J og L.   

      Gerð hefur verið grein fyrir rannsókn lögreglu á farsíma brotaþola. Kemur þar fram að 29. mars 2010 klukkan 20:11 hafi verið hringt úr síma brotaþola í farsíma C og hafi sími brotaþola þá verið nálægt sendi við [...] í [...]. Í kjölfarið voru send tvenn sms-skilaboð úr síma brotaþola í síma ákærða. Klukkan 20:47 var hringt úr síma brotaþola í síma ákærða, en símtalinu var ekki svarað. Klukkan 20:50 var sent sms úr síma hennar í síma hans og móttekið símtal frá honum klukkan 20:58. Kom sími brotaþola inn á sendi við [...] þegar símtölin áttu sér stað. Klukkan 21:24 var síðan hringt úr síma brotaþola í síma C. Samrýmast þessar upplýsingar framburði brotaþola um að hún hafi tekið strætisvagn úr [...] niður á [...] og verið í símasamskiptum við ákærða á leiðinni. Hafi ákærði hringt til hennar þar sem hún var stödd á kaffihúsi á [...] og hún í framhaldinu farið að hitta hann. Þá kemur fram að 6. apríl klukkan 18:09 hafi sími brotaþola verið við [...], er símtal barst frá C. Klukkan 18:20 var hringt úr síma hennar í síma ákærða og kom sími hennar þá inn á sendi við [...], eða skammt frá [...]. Klukkan 18:55 var enn hringt úr síma brotaþola í síma C og var sími hennar þá nálægt [...] við [...]. Kemur þetta vel heim og saman við frásögn brotaþola um að hún hafi tekið strætisvagn niður í miðbæ, farið heim til ákærða og tekið síðan strætisvagn til baka. Þá bar C að hún hefði rætt við brotaþola í síma þegar hún var á leið að hitta manninn sem hún hefði kynnst á facebook. Hins vegar verður því ekki slegið föstu að brotaþoli hafi jafnframt komið til C eftir þann fund, eins og C kvaðst minna, enda er sú frásögn ekki í samræmi við framburð brotaþola. Loks er að nefna að fyrir liggur mynd úr síma ákærða, sem samkvæmt gögnum málsins var tekin 6. apríl klukkan 18:35. Myndin sýnir bakhluta mannveru sem liggur nakin í rúmi. Hefur ákærði kannast við að myndin hafi verið í síma hans og að hún sé af viðkomandi í rúmi hans. Brotaþoli bar um það fyrir dómi á fyrri stigum málsins að ákærði hefði tekið mynd af henni án klæða í herberginu þegar hún hitti hann þennan dag og hefur hún talið sig bera kennsl á sig á myndinni. Samrýmist það gögnum um símatengingar milli farsíma brotaþola og ákærða annars vegar og C hins vegar að myndin sem um ræðir sé af brotaþola eins og hún hefur borið um. Brotaþoli hefur borið að daginn sem hún hitti ákærða í síðara skiptið hafi hún verið á hárgreiðslustofu og látið lita og klippa hár sitt. Ekki reyndist unnt að staðreyna hvenær brotaþoli fór á hárgreiðslustofuna, en fyrir liggur að móðir hennar hafði skráð í dagbók sína að hún hefði átt þar tíma 29. mars 2010. Þykir þetta misræmi ekki skipta máli um niðurstöðu málsins, enda getur það átt sér eðlilegar skýringar, svo sem að brotaþola hafi misminnt að þessu leyti eða að dagbókarfærslan hafi verið röng.   

Framburður brotaþola um kynferðisbrot ákærða fær jafnframt stuðning í framburði B, sem kvaðst minnast þess að hafa hitt hana í strætisvagni, að auðséð hefði verið að henni hefði liðið illa og hefði brotaþoli gefið sögu um 16 ára strák sem hefði meitt hana. Þá bar I að brotaþoli hefði greint sér frá atvikum áður en hún sagði foreldrum sínum frá því sem gerst hefði. Loks þykir frásögn brotaþola um að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti fá stoð í framburði E sálfræðings, sem kvað framkomu hennar í viðtölum hafa verið þannig að virst hefði sem hún hefði orðið fyrir áfalli.

Framburður brotaþola er trúverðugur að mati dómsins og fær stuðning í framburði vitna og gögnum málsins, svo sem rakið hefur verið. Hefur ákærði engar trúverðugar skýringar gefið á því hvers vegna stúlkan hefur getað lýst húsnæðinu þar sem hann bjó með ítarlegum hætti. Þykir framburður ákærða um að hann hafi ekki hitt stúlkuna ótrúverðugur og verður honum hafnað. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar í málinu. Þykir sannað að ákærði hafi framið þau kynferðisbrot sem honum eru gefin að sök í 1. og 2. ákærulið. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt færð til refsiákvæða.

Einn dómenda, Pétur Guðgeirsson héraðsdómari, gerir þá athugasemd að ákærði hafi frá upphafi neitað því að hafa átt kynferðismök við A. Þá hafi ákærði ennfremur neitað því að hafa nokkru sinni hitt hana. 

Samkvæmt 108. gr. laga um meðferð sakamála beri ákæruvaldinu að sanna málsatvik sem ákærða eru í óhag. Álíti hann, með vísan til vottorðs D læknis, að ekki hafi verið sýnt fram á það að myndin sem fannst í síma ákærða sé af A. 

Ákærða og stúlkunni beri saman um það að þau hafi, á þeim tíma sem um ræðir, verið í talsverðum fjarskiptum, þar á meðal símasamskiptum. Álíti hann varhugavert að líta svo á að símagögnin í málinu geri meira en að styðja framburð þeirra að því leyti. 

Stúlkan, sem gefið hafi trúverðuga skýrslu fyrir dómi, hafi lýst íbúð ákærða allítarlega. Hann álíti þetta þó ekki nægja til þess að sanna að ákærði hafi haft kynferðismök við stúlkuna gegn eindreginni neitun hans. Telji hann því að sýkna eigi ákærða af ákærunni í málinu. Um refsimat, skaðabætur og sakarkostnað sé hann hins vegar sammála samdómendum sínum.

                Ákærði er fæddur í mars 1985. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Var brot hans alvarlegt og er framburður stúlkunnar og vitna, sem rakinn hefur verið, til marks um að það hafi valdið henni mikilli vanlíðan. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 1. og 2. töluliðar 70. gr. og 195. gr. a almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

                Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til þess sem reifað hefur verið um ákvörðun refsingar þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 1.000.000 króna, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 1.302.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 434.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 198.675 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.

                Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, Ásgeir Magnússon og Pétur Guðgeirsson.

Dómsorð:

                Ákærði, Ingvar Dór Birgisson, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

                Ákærði greiði A, kt. [...], 1.000.000 króna, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. maí 2010 til 17. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 1.302.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hrl., 434.000 krónur, og 198.675 krónur í annan sakarkostnað.