Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/2006
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Hegningarauki
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 30. nóvember 2006. |
|
Nr. 459/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Bóasi Dagbjarti Bergsteinssyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki. Skilorð.
B var sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,90 gr. af amfetamíni, 19,88 gr. af hassi, 84,27 gr. af marihuana, 1,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2 kannabisplöntur. Langur tími leið frá því að rannsókn lögreglu lauk og þar til ákæra var gefin út. Refsing B var ákveðin eftir reglum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu og því að B hafði nokkrum sinnum áður gerst sekur um fíkniefnalagabrot var B dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk upptöku á fíkniefnunum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. apríl 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af því að hafa 16. nóvember 2004 haft í vörslum sínum 0,90 grömm af amfetamíni og 19,88 grömm af hassi og vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir önnur brot sem honum eru gefin að sök.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða. Brot ákærða voru framin 16. og 17. nóvember 2004 og lauk rannsókn lögreglu síðar í þeim mánuði. Hins vegar var ákæra ekki gefin út fyrr en í lok næsta árs, eða 15. desember 2005. Þessi dráttur frá lokum lögreglurannsóknar til útgáfu ákæru hefur ekki verið skýrður. Ákærði var 30. júní 2005 dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot framin í nóvember 2003 og eru brot ákærða, sem um er fjallað í máli því sem nú er til meðferðar, því framin áður en sá dómur gekk. Eins og getið er í héraðsdómi ber að ákveða ákærða refsingu nú samkvæmt 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og horfa til þess að ákærði hefur nokkrum sinnum áður gerst sekur um fíkniefnalagabrot. Að öllu þessu virtu er rétt að ákærði sæti fangelsi í átta mánuði, en binda skal refsinguna almennu skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.
Við þingfestingu málsins 16. janúar 2006 mótmælti ákærði kröfu ákæruvalds um upptöku á þeim sveppum sem lagt var hald á við húsleit á dvalarstað hans. Þá vefengdi hann niðurstöðu lögreglu um magn þeirra fíkniefna sem ákæra kvað á um. Af þeim sökum fór fram sérstök rannsókn á hinum haldlögðu efnum á vegum Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Niðurstaða hennar var sú að í sveppunum væri ólöglegt ávana- og fíkniefni og að magn efna væri réttilega tilgreint í ákæru. Var það meðal annars á grundvelli þeirrar rannsóknar sem héraðsdómur komst að niðurstöðu um magn þeirra efna sem um ræðir og um upptöku á þeim, þar á meðal á umræddum sveppum. Er sú niðurstaða ekki vefengd af ákærða og verður hún staðfest. Af framangreindum ástæðum verður ekki fallist á með ákærða að kostnaður vegna rannsóknar á umræddum sveppum skuli falla á ríkissjóð, enda er ekki fram komið í málinu að unnt hefði verið að rannsaka efnin með ódýrari hætti. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað því staðfest. Þá skal ákærði greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Bóas Dagbjartur Bergsteinsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 242.473 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. mars 2006.
Málið var dómtekið 16. febrúar s.l. að loknum munnlegum málflutningi.
Mál þetta er með ákæru útgefinni 15. desember s.l. höfðað gegn Bóasi Dagbjarti Bergsteinssyni, kt. 230359-5049, Hólahúsi, Mosfellsbæ, "fyrir brot lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa þriðjudaginn 16. nóvember 2004 haft í vörslum sínum 0,90 gr. af amfetamíni og 19,88 gr. af hassi, sem hann lét falla í jörðina utan við bifreiðina [...] á Elliðavatnsvegi á móts við Hádegishól í Garðabæ og fyrir að hafa haft í vörslum sínum miðvikudaginn 17. nóvember 2004 að Suðurhólum 20 í Reykjavík 84,27 gr. af marihuana, 1,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2 kannabisplöntur, en tóbaksblandaða kannabisefnið var á hillu í stofu, 84,08 gr. af marihuana í skáp og kommóðu í eldhúsi/borðstofu og kærði afhenti lögreglu 0,19 gr. af marihuana og kannabisplönturnar við leit í húsnæðinu.
Telst háttsemi þessi að því er varðar kannabisefni og kannabisplöntur varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og 68/2001 og að því er varðar amfetamín við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, nr. 13/1985 og nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, sbr. rgl. nr. 248/2002 og nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og verði gert að sæta upptöku á 0,90 gr. af amfetamíni, 19,88 gr. af hassi, 84,27 gr. af marihuana, 1,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni, 2 kannabisplöntum og 2522,26 gr. af sveppum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. rgl. nr. 248/2002."
Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins vegna vörslu ákærða á 0,90 gr. af amfetamíni og 19,8 gr. af hassi, en til vara er þess krafist með vísun til 78. gr. almennra hegningarlaga að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing í máli þessu. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda Páls Arnórs Pálssonar hrl. sem lögð verði á ríkissjóð.
1. Málavextir.
Þriðjudaginn 26. nóvember 2004 kl. 23:01 voru tveir lögreglumenn úr Hafnarfirði við eftirlit á Elliðavatnsvegi í Hafnarfirði, er þeir mættu bifreiðinni [...], sem ekið var eftir Kaldárselsvegi í átt að Heiðmörk. Lögreglumönnunum var kunnugt um að eigandi bifreiðarinnar hafði nýlega komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamáls og veittu bifreiðinni því eftirför. Er þeir voru komnir alveg að bifreiðinni gáfu þeir ökumanni merki um að nema staðar um leið og kveikt var á leitarljósum lögreglubifreiðarinnar og þeim beint að farþegarými bifreiðarinnar [...] og sá þá vel inn í farþegarýmið. Lögreglumennirnir kváðu ökumann bifreiðarinnar strax hafa orðið þeirra var og þá hægt ferð bifreiðarinnar lítillega í fyrstu. Á meðan var mikil hreyfing á farþega bifreiðarinnar og segir í lögregluskýrslu, að hegðum hans hafi verið lík því, að hann væri að sækja eitthvað í vasa sinn. Hann hafði svo dregið niður rúðu við hlið sér og sáu lögreglumennirnir greinilega þegar einhverju var sleppt út um gluggann. Um leið var enn frekar hægt á ferð bifreiðarinnar og henni beygt til hægri yfir þann stað, þar sem hlutnum hafði verið sleppt út og var bifreiðin svo stöðvuð á þessum stað. Ökumaður bifreiðarinnar reyndist vera A, [...], en farþeginn var ákærður í málinu. Þeir voru handteknir þarna á staðnum vegna gruns um fíkniefnamisferli og voru báðir mjög æstir. Þegar ákærður sté út úr bifreiðinni, lét hann falla á jörðina hvítt efni, sem vafið var í kúlu, og talið var vera fíkniefni, en það fannst eftir smá leit í snjónum beint fyrir framan hurðina við farþegasætið. Í framhaldi af handtöku ákærða og A fór fram leit í kringum bifreiðina [...] og fann lögreglan við þessa leit ætlað hass í grænum poka, sem lá ofan á nýföllnum snjónum 30 sm. frá hægri hlið bifreiðarinnar á móts við afturdekk hennar. Bifreiðin [...] var svo flutt á lögreglustöðina í Hafnarfirði, þar sem gerð var leit í bifreiðinni og fannst þá í klæðningu undir mælaborði bifreiðarinnar hægra megin, brúnleitt efni í glærum plastpoka og líktist það gömlu hassi eða súkkulaði. Þá fannst og í bifreiðinni stafræn vog og G.P.S. staðsetningartæki. Það var svo gerð húsleit á heimili A, en engin fíkniefni fundust þar. Þá var gerð húsleit á ætluðum dvalarstað ákærða að Suðurhólum 20 Reykjavík og fundust þar þurrkaðir sveppir sem geta valdið ofskynjunum og svo ætlað marihuana, sem húsráðandi B, [...], framvísaði og kvað eign ákærða, sem fengi að hafa dvalarstað hjá henni þegar hann væri í bænum, annars byggi hann líka í Hólahúsi. Auk þess fannst í íbúðinni hálffullur svartur ruslapoki af ætluðum ofskynjunarsveppum, sem hún kvað ákærða hafa tínt og svo þurrkað. Nánar tiltekið var það þetta sem fannst við leitina.
1. Tóbaksblandað marihuana. Fannst í hornhillu í stofu.
2. Hálfreyktur vindlingur með ætluðu kannabis. Fannst í stofuhillu í öskubakka.
3. Kannabisfræ framvísað úr svefnherbergi.
4. Þurrkaðir sveppir framvísað úr svefnherbergi.
5. Ætlað marihuana, sem fannst í kommóðuskúffu í eldhúsi.
6. Marihuana toppur, sem fannst í kommóðuskúffu, um það vil 98 gr. með umbúðum.
7. Þurrkaðir sveppir fundust í bala undir skenk í stofu um 109 gr. með umbúðum.
8. Þurrkaðir sveppir í skenk í stofu, um 18,9 gr. með umbúðum.
9. Marihuana toppur framvísað úr kommóðu í svefnherbergi.
10. Ætluð kannabisfræ úr ísskáp í eldhúsi.
11. Kannabirplanta, framvísað úr glugga í stofu.
12. Þurrkaðir sveppir í svörtum plastpoka, framvísað úr svefnherbergi.
13. Þurrkaðir sveppir, sem fundust í bala undir skenk í stofu.
Ákærður hefur hjá lögreglu og hér fyrir dómi viðurkennt að eiga framangreind fíkniefni og sveppi, en kvað þó stærsta hlutann af marihuana sem lögreglan haldlagði væru söxuð lauf og því lítið kannabis í efninu. Hann hafi ætlað þessi efni til eigin neyslu, en ekki sölu. Hann kvað sveppina ekki hafa verið ætlaða til neyslu, heldur væri þetta áhugamál hans og ætlaði hann að skrifa bók um þetta efni.
Efnin og munirnir, sem þarna voru haldlagðir voru vigtaðir og efnagreindir af Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík og flokkuðust svo:
1. Óþekkt efni sem ekki var skilgreint nánar72,21 gr.
2. Marihuana.84,27 gr.
3. Tóbaksblandað kannabisefni.1,39 gr.
4. Sveppir.2522,56 gr.
5. Kannabisplöntur.2 st.
Efnin sem fundust við leitina við bifreiðina [...] voru og vigtuð og efnagreind og reyndist þar vera um að ræða 0,90 gr. af amfetamíni og 19,88 gr. af hassi.
Fíkniefnin sem fundust við húsleitina að Suðurhólum 20, Reykjavík voru endurvigtuð 14. febrúar 2006, og var rýrnunin um 1%.
Ákærður hefur haldið fast við neitun sína um að það hafi ekki haft í vörslum sínum þau fíkniefni, sem fundust við bifreiðina [...] rétt eftir handtöku hans og A 16. nóvember 2004. Hann kvaðst ekki kannast við að það hafi verið fíkniefni í bifreiðinni né að neinum fíkniefnum hafi verið hent út úr bifreiðinni.
Hann kvaðst stundum reykja hass vegna þess að hann væri slæmur í hnénu. Hann kvað þá A vera kunningja og hafi hann verið að aka honum heim eftir að hafa sýnt honum hjólbarða undir jeppa, sem hann ætlaði að kaupa af honum. Hann kvaðst hafa haft mikið fyrir því að tína þá sveppi, sem fundust við leit að Suðurhólum 20, en hann væri að stúdera sveppi og ætlaði jafnvel að skrifa bók um kannanir sínar, en hann hafi heyrt að um 20 tegundir sveppa væru með ofskynjunarefninu Psilocybin, sem fannst í sveppunum, sem fundust hjá honum, en hann kvaðst ekki hafa ætlað þá til neyslu. Hann rengdi mælinguna á fíkniefnunum sem fundust að Suðurhólum 20, sem hann kvað hafa verið mest stöngladrasl.
Vitnið A sem var grunaður um að eiga þátt í þessu fíkniefnamisferli kvaðst ekki hafa vitað að fíkniefni væru í bifreiðinni [...] í greint sinn og kannaðist ekki við að þeim hafi verið hent út úr bifreiðinni. Það hafi verið smá rifa á glugga farþegahurðarinnar, en ekki nógu mikil til að henda neinu út og kvaðst það ekki hafa séð ákærða henda fíkniefnum út.
Vitnið C, rannsóknarlögreglumaður, kvað tilefni þess, að bifreiðinni [...] hafi verið veitt eftirför og akstur hennar stöðvaður hafi verið að skömmu áður hafi verið höfð afskipti af ökumanni bifreiðarinnar vegna ætlaðs fíkniefnabrots. Það sagði að er lögreglubifreiðin hafi komið að bifreið [...], hafi verið gefin stöðvunarmerki og kveikt á leitarljósum lögreglubifreiðarinnar, og þá sést mjög vel inn í bifreiðina [...], sem hægði mjög á sér. Það kvað mikla hreyfingu hafa verið á farþeganum í bifreiðinni og hann svo látið eitthvað fíkniefni falla út um gluggann farþegamegin og það fallið niður með hlið bifreiðarinnar sem sveigt var til hægri, svo að hún hafi farið yfir ætlað fíkniefni, sem svo hafi fundist við leit undir bifreiðinni farþegamegin fyrir framan afturhólfið. Vitnið kvaðst 100% visst um að farþeginn hafi hent ætluðu fíkniefni út um gluggann farþegamegin. Það hafði handtekið ökumann bifreiðarinnar og kvað farþegann hafa þá kastað frá sér ætluðum fíkniefnapakka þegar hann var handtekinn, sem svo hafi fundist við farþegahurðina og verið eins og lítil kúla.
Vitnið D, rannsóknarlögreglumaður, kvað tilefni eftirfarinnar hafa verið að nýlega hafi verið höfð afskipti af ökumanni bifreiðarinnar [...] vegna ætlaðs fíkniefnalagabrots. Það kvað hafa verið kveikt á leitarljósum lögreglubifreiðarinnar þegar hún kom að bifreiðinni [...] og um leið voru stöðvunarmerki gefin. Bifreiðin hafi verið á mjög rólegri ferð og þeir séð vel allar hreyfingar inni í henni. Það kvaðst hafa séð farþega bifreiðarinnar hafa hent einhverju, sem það taldi vera fíkniefni út um glugga hurðarinnar farþegamegin og hafi þá um leið verið dregið úr ferð bifreiðarinnar, henni ekið til hægri og yfir ætlað fíkniefni. Það kvaðst hafa handtekið ákærða og hann látið falla á jörðina er hann steig ú úr henni hvítt efni, sem svo hafi síðar fundist við hurðina farþegamegin undir síls bifreiðarinnar.
Vitnið E, lögreglumaður, staðfesti skýrslu sína um mælingu og efnagreiningu ætlaðra fíkniefna. Það kvað fíkniefni, sem fundust að Suðurhólum 20, og talið var vera marihuana, hafi ekki verið stönglar eða annað draslefni, heldur hafi verið um að ræða fínmalað marihuana, hreint efni.
Vitnið F, [...], dósent í lyfjafræði, staðfesti framlagðar matsgerðir sínar í málinu. Það kvað sveppagreininguna fara fram með vökvagreiningu á súlu eftir að sveppirnir hafi verið muldir og væru notaðir enzímar til að kjúfa efnið psilocibin frá, en neysla þess hefði álíka áhrif og inntaka ofskynjunarefnisins LSD, en taka þurfi mun meira magn af sveppunum, til að finna til samsvarandi áhrifa. Það kvaðst vita að þetta efni finnist í einni sveppategund hér á landi, sem væri nokkuð útbreidd.
Niðurstöður.
Með játningu ákærða og rannsóknargögnum málsins er sannað að hann var eigandi og hafði í vörslum sínum þau fíkniefni, kannabisplöntur og sveppi, sem fundust eða var framvísað að Suðurhólum 20, og tilgreind eru í ákæru, en með endurtekinni vigtun og efnagreiningu verður talið öruggt að að magni og styrkleika séu efnin í samræmi við það sem lýst er í ákæru.
Þá verður þrátt fyrir neitun ákærða að telja sannað að hann hafi haft í vörslum sínum þau fíkniefni, sem fundust í greint sinn við bifreiðina [...] í greint sinn. Ekki þykir þetta fara á milli mála, þegar metinn er samhljóða framburður lögreglumannanna D og C, að þeir hafi báðir borið að hafa viðgóðar aðstæður séð ákærða henda eða láta detta út úr bifreiðinni, efni sem rétt á eftir fundust við bifreiðina, en það var nýfallinn snjór á veginum og því er engum öðrum til að dreifa, sem gæti hafa átt efnin eða haft þau undir höndum.
Ákærður hefur því gerst brotlegur við refsiákvæði sem tilgreind eru í ákæru og þar eru rétt færð til laga.
Sakaferill ákærða, er þannig að hann hefur frá árinu 1993 hlotið 4 dóma, þar sem honum hefur verið gerð fangelsisrefsing fyrir brot á lögum nr. 65/1974 og reglug. nr. 16/1986 alls 22ja mánaða fangelsi. Þá hefur honum og með viðurlagaákvörðun verið gert að greiða sekt fyrir samskonar brot. Síðasti dómurinn er frá 30. júní 2005, 5 mánaða fangelsi skiloðsbundið í 2 ár. Brot þau sem ákærður er nú sakfelldur fyrir eru framin fyrir uppkvaðningu þessa dóms og verður ákærða nú með vísun til 60. gr. almennra hegningarlaga sbr. lög nr. 22/1955 dæmd í einu lagi, refsing í einu lagi fyrir þargreind brot og þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir og þykir sú refsing með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði, en rétt þykir með vísan til tilgreindra ástæðna fyrir skilorðsbindingu í dóminum frá 30. júní s.l. að láta skilorð haldast um 5 mánuði af refsingunni og fellur hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærður almennt skilorð samkvæmt 57. gr almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 22/1955.
Öll skilyrði þykja vera til að verða við kröfunni um upptöku haldlagðra fíkniefna, sveppa og kannabisplanta, en með matsgerðum F er í ljós leitt að greindir sveppir innihalda efnið psilocybin og teljast ávana- og fíkniefni samkvæmt 2. gr. laga nr. 65/1974 og eru þeir því ásamt öðrum fíkniefnum gerðir upptækir með vísun í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglug. nr. 248/2002.
Dæma ber ákærða til greiðslu sakarkostnaðar að fjárhæð 268.745 krónur. Þá greiði ákærður verjanda sínum Páli Arnóri Pálssyni hrl. málsvarnarlaun, sem ákveðast 109.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Ákærður, Bóas Dagbjartur Bergsteinsson, sæti fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu á 5 mánuðum af refsingunni og falli hún niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa.
Ákærður hlíti upptöku á 0,90 gr. af amfetamíni, 19,88 gr. af hassi, 84,27 gr. af marihuana, 1,39 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni, 2 kannabisplöntum og 2.522,26 gr. af haldlögðum sveppum.
Ákærður greiði 268.745 krónur í sakarkostnað og svo í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 109.560 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.