Hæstiréttur íslands

Mál nr. 277/2017

Fjarskipti hf. (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
Póst- og fjarskiptastofnun (Ragnar Tómas Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður

Reifun

F hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu hans um að mál, sem hann hafði höfðað gegn P, yrði fellt niður og honum gert að greiða F 6.000.000 krónur í málskostnað. Í dómi Hæstaréttar var fyrrgreind fjárhæð lækkuð í 3.000.000 króna og í því sambandi vísað til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, flutnings málsins fyrir EFTA-dómstólnum og umfangs þess.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2017 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðila var fellt niður og honum gert að greiða varnaraðila 6.000.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði varðar ágreiningsefni málsins það hvort valdsvið varnaraðila taki til svokallaðrar SMS-þjónustu sóknaraðila og þar með hvort sá fyrrnefndi geti tekið ákvarðanir sem varða þessa þjónustu, svo sem um meðhöndlun, geymslu og eyðingu gagna.

Á dómþingi 16. október 2015 innti héraðsdómari lögmenn aðila eftir því hvort annar hvor þeirra hefði hugleitt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Lögmaður sóknaraðila kvaðst ekki gera það og lögmaður varnaraðila óskaði eftir fresti til að íhuga málið. Á dómþingi 26. sama mánaðar lýsti varnaraðili því yfir að hann teldi ekki þörf á að leita ráðgefandi álits og færði dómari til bókar að hann hefði ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort þess væri þörf. Þegar málið var næst tekið fyrir 11. nóvember 2015 gerði héraðsdómari grein fyrir því að hann teldi rétt að leita ráðgefandi álits um nánara inntak þeirra hugtaka sem á reyndi í málinu og var því frestað til 17. desember sama ár til munnlegs flutnings um þá ákvörðun. Þegar málið var flutt síðastnefndan dag var bókað að hvorugur málsaðila „mótmælir því né krefst þess að ráðgefandi álits sé leitað.“ Hinn 3. maí 2016 var síðan kveðinn upp úrskurður um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þremur nánar tilgreindum spurningum og var dómur þess dómstóls kveðinn upp 22. desember 2016. Um málskostnað sagði að þar sem um væri að ræða mál sem væri hluti af málarekstri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kæmi það í hlut þess dómstóls að kveða á um kostnað málsaðilanna.

Á dómþingi 11. apríl 2017 óskaði sóknaraðili eftir því að fella málið niður og ítrekaði varnaraðili þá kröfu sína um málskostnað úr hendi sóknaraðila og var málið tekið til úrskurðar um niðurfellingu þess og ákvörðun málskostnaðar samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hinum kærða úrskurði var málið fellt niður og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 6.000.000 krónur í málskostnað.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og að teknu tilliti til umfangs málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 3.000.000 krónur í málskostnað vegna flutnings málsins fyrir EFTA-dómstólnum og reksturs þess í héraði að öðru leyti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Sóknaraðili, Fjarskipti hf., greiði varnaraðila, Póst- og fjarskiptastofnun, 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, þriðjudaginn 25. apríl 2017

I

                Þetta mál var tekið til úrskurðar 21. apríl 2017 um niðurfellingu þess og ákvörðun máls­kostn­aðar sam­kvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einka­mála. Það er höfðað af Fjar­skiptum hf., kt. 470905-1740, Skútuvogi 2, Reykja­vík, með stefnu birtri 7. apríl 2015 á hendur Póst- og fjar­skipta­stofnun, kt. 570397-2499, Suðurlandsbraut 4, Reykja­vík.

                Stefnandi krafðist þess að ógiltur yrði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar fjar­skipta- og póstmála, 11. október 2014, í máli nr. 3/2014.

                Stefnandi krafðist einnig málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Stefndi krafðist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.

                Hann krafðist einnig málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, úr hendi stefn­anda.

II

                Stefnandi, Fjarskipti hf., er alhliða fjarskiptafyrirtæki sem býður einstakl­ingum, fyrirtækjum, stofnunum og opinberum aðilum alla meginþætti fjar­skipta­þjón­ustu.

                Stefndi, Póst- og fjarskiptastofnun, hefur meðal annars það hlutverk að gæta hags­muna almennings með því að gera ráðstafanir til þess að vernda persónu­upp­lýs­ingar og friðhelgi einkalífs almennings og stuðla að öryggi almennra fjarskiptaneta.

                Sá úrskurður úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem stefnandi vildi fá ógiltan á rætur að rekja til þess að aðfara­nótt 30. nóvember 2013 var brotist inn í vef­svæði stefn­anda, voda­fone.is. Gögnum var stolið og þau birt opinberlega á internetinu. Persónu­upp­lýs­ingar um þúsundir við­skipta­vina félagsins, sem höfðu verið varðveittar þar, þar með talið efni smáskilaboða, not­enda­nöfn og lykilorð, komust af þessum sökum í hendur óvið­kom­andi aðila.

                Stefndi óskaði upplýsinga frá stefnanda um gögn sem var stolið, viðmót vef­svæð­is­ins o.fl., með bréfi 23. desember 2013. Stefnandi svaraði bréflega 23. janúar 2014. Hann setti þó þann fyrirvara við svörum sínum að gild­is­svið laga nr. 81/2003 um fjar­skipti, og þar með vald­svið stefnda, næði ekki yfir vefsvæði stefn­anda.

                Stefndi tók 24. mars 2014 ákvörðun um það hvort vef­svæði stefnanda, voda­fone.is, og sú þjónusta sem þar var veitt félli undir ákvæði fjar­skipta­laga, þ.e. ákvörðun nr. 1/2014, um afmörkun á gild­is­sviði fjarskiptalaga vegna vef­svæðis stefn­anda. Niðurstaða ákvörð­un­ar­innar var:

1) að það sendikerfi sem flutti merki af vefsvæði stefnanda yfir í SMS-miðlara í far­síma­kerfi stefnanda teld­ist fjar­skiptanet í skilningi 13. töluliðar 3. gr. fjar­skipta­laga,

2) að sú þjónusta sem veitt var á vef­svæði stefnanda sem fól í sér sendingu smá­skila­boða af internetinu yfir í far­síma teld­ist fjarskiptaþjónusta í skiln­ingi 15. töluliðar 3. gr. fjar­skipta­laga og

3) að sá hluti fjar­skipta­nets sem miðlaði merkjum af vefsvæði stefnanda yfir í SMS-miðlara í far­síma­kerfi stefnanda og veitti viðskiptavinum stefnanda sem tengd­ust „Mínum síðum“ með símanúmeri sínu aðgang að þessu teldist hluti af almennu fjarskiptaneti stefn­anda í skilningi 5. töluliðar 3. gr. fjarskiptalaga.

                Stefnandi kærði þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póst­mála með kæru, dags. 16. apríl 2014. Með úrskurði 11. októ­ber 2014 stað­festi úrskurðar­nefndin ákvörðun stefnda.

                Stefn­andi höfðaði þá dómsmálið og krafðist ógild­ingar úrskurð­arins í heild.

                Samandregið varðaði ágreiningur málsins það hvort valdsvið stefnda, Póst- og fjar­skiptastofnunar, taki til SMS-þjónustu stefnanda og þar með hvort stefndi geti tekið ákvarð­anir sem varða þessa þjónustu svo sem um með­höndlun, geymslu og eyð­ingu gagna.

                Á dómþingi 11. nóvember 2015 greindi dómarinn lögmönnum málsaðila frá því að hann teldi rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánara inntak þeirra hug­taka sem reyndi á í málinu.

                Dómur EFTA-dómstólsins í máli nr. E-6/16 var kveðinn upp 22. desember 2016.

                Á dómþingi 11. apríl 2017 óskaði stefnandi eftir að fella málið niður. Stefndi ítrekaði þá kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda.

III

                Stefndi vísar til þess að vegna hins alvarlega öryggisatviks sem varð hjá stefn­anda síðla árs 2013, þar sem einkamálefni þúsunda einstaklinga hafi borist víða, hafi verið líklegt að reyna myndi á bótaskyldu stefnanda.

                Þegar þar til bær yfirvöld, svo sem Persónuvernd og stefndi, hafi farið að rann­saka hvað hafi gerst hafi stefnandi viljað vefengja að lögsaga stefnda næði til þessa  atviks. Það hafi stefnandi gert í því skyni að komast hjá því að kröfur laga um fjar­skipti, nr. 81/2003, næðu til öryggisatviksins en það hafi aftur haft þýðingu fyrir bóta­skyldu stefnanda vegna þess hversu miklar kröfur séu gerðar í lögunum.

                Stefndi hafi af þessum sökum tekið ítarlega og vel rökstudda ákvörðun með skýrri niðurstöðu. Stefnandi hafi kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar póst- og fjar­skipta­mála. Hún hafi tekið málið til vandaðrar umfjöllunar og komist að þeirri skýru niður­stöðu að lögsaga stefnda taki til þessa tilviks og það falli undir fjarskiptalög.

                Engu að síður hafi stefnandi höfðað þetta mál sem hafi ratað alla leið til EFTA-dómstólsins. Frá honum hafi komið, eins og fyrri úrskurðaraðilum, skýr niður­staða um lög­sögu stefnda og að öryggisatvikið heyri undir lög um fjarskipti.

                Að þeirri niðurstöðu fenginni hafi stefnandi ákveðið að fella niður málið.

                Að mati stefnda verði við ákvörðun málskostnaðar að líta til þess að stefnandi sé einkafyrirtæki sem sé rekið í hagnaðarskyni. Það hafi haldið áfram málarekstri þrátt fyrir skýrar og vel rökstuttar úrlausnir stefnda og úrskurðarnefndarinnar, sem hafi, þegar allt kom til alls, verið staðfestar af EFTA-dómstólnum. Stefnda virðist stefnandi hafa staðið í þessari rekistefnu fyrst og fremst til þess að reyna að komast undan því að lög um fjar­skipti tækju til öryggisatviksins, væntanlega til þess að bæta réttar­stöðu sína gagn­vart þeim einstaklingum sem hafi reynt að sækja bætur úr hendi stefn­anda. Engu að síður hafi þegar verið dæmt, áður en niðurstaða kom frá EFTA-dóm­stól­num, að örygg­is­atvikið sé bótaskylt atvik.

                Þegar svona standi á að einkafyrirtæki, sem sé rekið í hagnaðarskyni, reyni að komast hjá bótaskyldu með því að vefengja lögsögu stjórnvalda séu ekki nein tilefni til að víkja frá fyrirmælum 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þvert á móti eigi, þegar mál sé fellt niður eftir alla þessa forsögu þar sem allir úrskurð­ar­aðilar hafi komist að sömu niðurstöðu, að dæma stefnanda til að greiða stefnda allan þann kostnað sem hann hafi haft af öllum mála­rekstr­inum.

                Stefndi telur ekkert tilefni til þess að víkja frá fyrirmælum laga um máls­kostnað. Úr því að málið sé fellt niður hljóti stefndi að fá sinn kostnað dæmdan úr hendi stefnanda í samræmi við fram lagt málskostnaðaryfirlit.

IV

                Stefnandi krefst þess að málskostnaður milli aðila verði felldur niður en til vara að fjár­hæð hans verði ekki dæmd eins há og stefndi krefst. Stefnandi vísar til þess að hann hafi talið ákvörðun stefnda og samhljóða úrskurð úrskurðarnefndarinnar and­stæða lög­mæt­is­reglu stjórnsýsluréttar svo og 5. mgr. 1. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, þar sem segi að lögin gildi ekki um efni sem er sent á fjarskiptanetum.

                Stefnandi mótmælir því að hann hafi höfðað málið til þess að reyna að koma sér undan bótaskyldu. Málsaðilar og úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hafi tekist á um túlkun lagahugtaka sem komin séu í íslenskan rétt úr Evrópurétti. Stefnandi hafi byggt á því að með ákvörðun sinni hafi stefndi farið út fyrir lögboðið valdsvið sitt því stefn­andi hafi ætíð litið svo á að heima­síðan sem var brotist inn á félli ekki undir fjar­skipta­lög og í því sambandi hafi enga þýð­ingu þótt stefnandi sé fjarskiptafyrirtæki.

                Stefnandi sem einkaaðili hafi því viljað láta reyna á valdmörk stefnda sem stjórn­valds. Stefnandi hafi ekki einvörðungu stjórnarskrárvarinn rétt til þess að höfða mál á hendur stefnda heldur snúist málið um beitingu ríkisvalds þegar tiltekin starf­semi sé færð undir eftirlit stofnunar eins og stefnda. Ágreiningurinn hafi því varðað vald­mörk stefnda og ríkisins þar með. Það sé fyllilega eðlilegt að bera þann ágreining undir dómstóla. Jafnframt sé eðlilegt að ríkisvaldið beri þann kostnað sem hlýst af því að grípa til varna í slíku dómsmáli.

                Þar fyrir utan hafi héraðsdómur ekki talið valdmörk stefnda augljósari en svo að hann hafi ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

                Stefnandi hafi ekki getað séð fyrir þegar málið var höfðað hver yrði niðurstaða dóm­stóla og því hafi málshöfðunin verið fyllilega réttmæt enda sé ekki óalgengt að dóm­stólar séu ósammála stjórnvöldum.

V

                Á dómþingi 11. apríl sl. óskaði stefnandi eftir því að málið yrði fellt niður. Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að fella þetta mál niður.

                Stefnandi höfðaði þetta mál því hann vildi láta reyna á það hvort réttur væri sá skiln­ingur sem hann lagði í nokkur hugtök laga um fjar­skipti, nr. 81/2003, og eiga rætur að rekja til Evrópuréttar. Að áliti EFTA-dóm­stóls­ins var skilningur stefnanda ekki réttur. Af þeim sökum felldi stefnandi málið niður.

                Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, ber honum að greiða stefnda máls­kostnað, sem þykir að teknu tilliti til umfangs málsins, þar á meðal máls­með­ferðar fyrir EFTA-dómstólnum, hæfilega ákveðinn 6.000.000 króna. Virðisaukaskattur, sem lögmaður stefnda þarf að greiða af þóknun sinni, er ekki talinn með í fjárhæðinni.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r Ð :

                Þetta mál Fjarskipta hf. á hendur Póst- og fjarskiptastofnun er fellt niður.

                Stefnandi, Fjarskipti hf., greiði stefnda, Póst- og fjarskiptastofnun ehf., 6.000.000 króna í málskostnað.