Hæstiréttur íslands

Mál nr. 520/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Dánarbússkipti


                                     

Fimmtudaginn 4. september 2014.

Nr. 520/2014.

A

B og

C

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

D

E

F

G

H

I

J og

K

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

Kærumál. Erfðaskrá. Dánarbússkipti.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu D, E, F, G, H, I, J og K um að dánarbú L yrði tekið til opinberra skipta. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að vafi eða ágreiningur um arfstilkall samkvæmt tiltekinni erfðaskrá gæti ekki girt fyrir heimild erfingja samkvæmt þeirri sömu erfðaskrá til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi arfleiðanda á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2014 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dánarbú L, sem lést [...] 2013, verði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um opinber skipti á áðurnefndu dánarbúi. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði munu M og L hafa gengið í hjúskap á árinu 1973. Samkvæmt gögnum málsins átti M þá sex börn en L þrjú en sameiginlega niðja eignuðust þau ekki. Sóknaraðilar eru börn og barnabarn L en varnaraðilar börn og barnabörn M. M lést [...] 2004 en L [...] 2013. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir efni kaupmála og erfðaskrár sem þau M og L gerðu 4. ágúst 1982 og breytingum á þeim löggerningum 28. júní 1991 og 17. apríl 1996. Í erfðaskránni 28. júní 1991 var svofellt ákvæði: „Það okkar sem lengur lifir á rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem það óskar. ... Að hinu langlífara okkar látnu skal eignum okkar ráðstafað þannig að erfingjar L skulu fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í O hf. og persónulega muni hans en erfingjar M skulu fá í sinn hlut allar aðrar eigur okkar.“

Fyrir liggur að L neytti ekki þess réttar sem honum var veittur með erfðaskránni 1991 til setu í óskiptu búi eftir andlát M. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta 11. febrúar 2005 að kröfu varnaraðila og lauk skiptum í árslok 2012 með þeim hætti sem þar er rakið. L lést sem fyrr segir [...] 2013 og veitti sýslumaðurinn í Reykjavík sóknaraðilum leyfi til einkaskipta á dánarbúi L 16. janúar 2014. Varnaraðilar lögðu fram kröfu hjá Héraðsdómi Reykjavíkur 27. janúar 2014 um að dánarbú L yrði tekið til opinberra skipta.

Kröfu sína um opinber skipti á dánarbúi L reisa varnaraðilar á 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og tilkall sitt til arfs eftir hann á fyrrgreindu ákvæði erfðaskrárinnar frá 28. júní 1991. Þar kemur sem fyrr segir fram að erfingjar L skuli að hinu langlífari hjóna látnu fá í sinn hlut öll hlutabréf í O hf. og persónulega muni L en erfingjar M allar aðrar eignir þeirra hjóna. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði andmæla sóknaraðilar því að varnaraðilar geti eins og atvikum málsins háttar talist erfingjar L í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 og því geti þau ekki átt aðild að kröfu um að dánarbú hans verði tekið til opinberra skipta. Er sá ágreiningur einn til úrlausnar hér fyrir rétti hvort varnaraðilar geti með heimild í lagaákvæði þessu krafist opinberra skipta á dánarbúi L.

Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 að sé skiptum ekki  lokið samkvæmt 25. til 27. gr. laganna skuli dánarbú tekið til opinberra skipta ef erfingi krefst þess hvort sem leyfi hafi áður verið veitt til einkaskipta eða ekki. Í athugasemdum við 38. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 20/1991 kemur fram að regla 1. mgr. ákvæðisins heimili hverjum erfingja fyrir sig að gera kröfu um að dánarbú verði tekið til opinberra skipta hvort sem arfshluti hans er stór eða lítill og með öllu án tillits til vilja annarra erfingja. Þá skipti heldur ekki máli í þessu sambandi hvort erfingjar hafi áður fengið leyfi til einkaskipta en hafi það verið veitt geti erfingi gripið til þessa ráðs upp á eindæmi sitt og komið því til leiðar að dánarbúið hverfi úr einkaskiptum hvort sem slíkt kunni að stafa af ósamkomulagi erfingja eða öðrum sökum. Þá segir í athugasemdunum að ekki sé heldur „mælt fyrir um neina nauðsyn þess að sá sem vilji krefjast opinberra skipta eftir þessari heimild sýni að fyrra bragði fram á réttmæti arfstilkalls síns, heldur er þvert á móti ætlast til að ef ágreiningur risi til dæmis milli tveggja manna um það hvor þeirra skuli talinn einkaerfingi hins látna geti hvor þeirra sem væri leitað úrlausnar á þeim ágreiningi með því að krefjast opinberra skipta og styðja rétt sinn til þess við þá forsendu að hann sé með réttu erfingi. Niðurstaða um þá kröfu mundi þá ráðast af því hvort arfstilkall hans væri talið á rökum reist.“

Af framangreindu leiðir að vafi eða ágreiningur um arfstilkall samkvæmt tiltekinni erfðaskrá getur ekki girt fyrir heimild erfingja samkvæmt þeirri sömu erfðaskrá til að krefjast opinberra skipta á dánarbúi arfleiðanda á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Er því fallist á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum þess lagaákvæðis til að varnaraðilar geti krafist opinberrra skipta á dánarbúi L og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A, B og C, greiði í sameiningu varnaraðilum, D, E, F, G, H, I, J og K, hverju fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 8. júlí 2014.

                Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með erindi sem móttekið var 27. janúar sl. og var tekið til úrskurðar 12. júní sl.

                Sóknaraðilar þessa máls eru D, [...], E, [...], F, [...], G, [...], H, [...], I, [...], J, [...] og K, [...].

                Varnaraðilar eru A, [...], B, [...] og C, [...].

                Sóknaraðilar krefjast þess að dánarbú L, kt. [...], verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast þau málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

                Varnaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að dánarbú [...], kt. [...] verði tekið til opinberra skipta. Þá krefjast þau málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

I

                Sóknaraðilar eru börn og barnabörn M, kt. [...]. M var í hjúskap með L, kt. [...], frá árinu 1973 til dánardags hennar, [...] 2004. L lést [...] 2013. Varnaraðilar eru börn og barnabarn L.

                M og L gerðu með sér kaupmála og erfðaskrá 4. ágúst 1982. Samkvæmt þeim löggerningi átti fasteign búsins, 15% hlutafjár í O hf., innbú og bifreið að vera séreignir M en allar aðrar eignir áttu að vera hjúskapareignir. Í erfðaskrárhlutanum var gert ráð fyrir heimild til setu hins langlífara í óskiptu búi, hið langlífara átti að taka 1/3 hluta eigna hins skammlífara í arf og loks var ákvæði er jafnaði erfðarétt barnanna þannig að erfðahlutur þeirra allra yrði jafn eftir lát þeirra hjóna.

                Með tveimur gerningum, 28. júní 1991, breyttu L og M framangreindum löggerningi. Annars vegar var kaupmálanum breytt á þá leið að séreign L átti að vera hlutafé hans í O hf., þá að nafnvirði 787.500 krónur, auk þeirra jöfnunarhlutabréfa sem kynnu að verða gefin út síðar. Samkvæmt breytingunni á kaupmálanum átti M engin hlutabréf í O hf. Þá breyttu þau erfðaskrá sinni, en sóknaraðilar byggja rétt sinn til arfs á þeirri erfðaskrá. Í henni segir meðal annars:

1. gr.

Það okkar sem lengur lifir á rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum svo lengi sem það óskar.

2. gr.

Að hinu langlífara okkar látnu skal eignum okkar ráðstafað þannig að erfingjar L skulu fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í O hf. og persónulega muni hans en erfingjar M skulu fá í sinn hlut allar aðrar eigur okkar.

                L og M breyttu kaupmálanum frá 1982 aftur þann 17. apríl 1996. Samkvæmt honum varð íbúð í [...], sumarhús í [...] og inneign á bankabók séreignir M. Séreignir L voru hlutabréf í tveimur félögum, bifreið, bankareikningur og fasteignaveðbréf. Í kaupmálanum var tekið fram að við andlát þess skammlífara skyldi skipta búi hjónanna, en þó var tekið fram að ef L yrði langlífari skyldi honum vera heimilt að búa endurgjaldslaust á heimili þeirra og nýta sumarhúsið enda annaðist hann rekstur þessara fasteigna.

                Sama dag, 17. apríl 1996, gerðu L og M nýja erfðaskrá og felldu með henni úr gildi fyrri erfðaskrár. Í þeirri erfðaskrá er vísað til þess að þau hafi með kaupmála gert allar eignir sínar, að innbúi undanskildu, að séreignum og skuli börn M erfa eignir hennar og börn L erfa eignir hans. Loks afsöluðu þau sér arfi hvort eftir annað með vísan til 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2005 var dánarbú M tekið til opinberra skipta að kröfu sóknaraðila og var P hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri. Undir skiptunum kom upp ágreiningur um gildi framangreindra löggerninga sem skiptastjóri vísaði til héraðsdóms. Með úrskurði uppkveðnum 22. júní 2007 voru kaupmálinn og erfðaskráin sem L og M undirrituðu 17. apríl 1996 felld úr gildi.

                Jafnframt kom upp ágreiningur um hvort tilteknar eignir teldust séreignir L og þar með undanþegnar skiptum á dánarbúi M. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 21. desember 2009 var fallist á að eignir L í vörslusafni á hans nafni hjá [...] væru séreignir hans og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 16/2010. Byggði niðurstaðan á því að samkvæmt kaupmála milli aðila frá 1982 sem breytt var á árinu 1991 og erfðaskrá milli aðila frá 1991 hafi hlutafé L í O hf. verið séreign hans og á grundvelli ígildisreglu 75. gr. hjúskaparlaga nr. 36/1993 skyldu verðmæti sem koma í stað séreignar einnig verða séreign.

                Þá reis ágreiningur um erfðaskrána frá 1991. Í héraði kröfðust sóknaraðilar þess að viðurkennt yrði að þau fengju í sinn hlut, við úthlutun úr dánarbúi M, allar eigur hennar og L, hvort sem er hjúskapar- eða séreignir, utan hlutabréfa hans í O hf., ígildis þeirra hlutabréfa og persónulegra muna hans; enn fremur að úthlutun úr dánarbúi M færi ekki fram fyrr en að L látnum. Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að dánarbúi M skyldi skipta í samræmi við fyrirmæli 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Niðurstaðan var staðfest í Hæstarétti en í dómi réttarins frá 3. febrúar 2012 í málinu nr. 64/2012 segir meðal annars:

[L] hefur ekki neytt þess réttar, sem honum var veittur með fyrrgreindu ákvæði erfðaskrárinnar, til að ljúka skiptum á dánarbúi [M] með því að fá leyfi til setu í óskiptu búi án þess að afla til þess samþykkis niðja hennar. Önnur framangreind fyrirmæli í erfðaskránni snúa á engan hátt að skiptum á dánarbúi [M], sem nú standa yfir, heldur kynnu þau að geta komið til skoðunar við skipti að látnum langlífari arfleiðandanum. Að þessu virtu og með því að krafa sóknaraðila um „að úthlutun úr dánarbúi [M] fari ekki fram fyrr en að [L] látnum“ á sér enga stoð í lögum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

                Skiptum lauk á dánarbúi M í lok árs 2012, en frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð sem lagt var fyrir skiptafund 26. nóvember 2012 var samþykkt. Samkvæmt frumvarpinu var hrein eign búsins 60.585.421 króna. Búshluti L að fjárhæð 30.292.711 krónur var dreginn frá og til skipta kom því sama fjárhæð sem úthlutað var til erfingja, þar með talið sóknaraðila og L. L leysti til sín eignir búsins og greiddi búinu sem nam þeim hluta sem sóknaraðilar erfðu eftir M.

                Eins og fyrr greinir lést L [...] 2013. Hann mun hafa verið jarðsettur [...] sl. og segja sóknaraðilar að þeim hafi fyrst orðið kunnugt um andlát hans nokkrum dögum áður. Sóknaraðilar rituðu sýslumanninum í Reykjavík bréf, dags. 13. janúar sl., þar sem þeir óskuðu eftir því að sýslumaður krefðist opinberra skipta á dánarbúi L. Þann 16. janúar sl. veitti sýslumaður varnaraðilum leyfi til einkaskipta á dánarbúi L, en þann 27. janúar 2014 lögðu sóknaraðilar fram hjá Héraðsdómi Reykjavíkur kröfu um að dánarbú L yrði tekið til opinberra skipta.

                Með úrskurði dómsins 22. maí sl. var hafnað kröfu sóknaraðila um niðurfellingu leyfis til einkaskipta meðan ágreiningsmál þetta væri til meðferðar, sbr. 45. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

II

                Sóknaraðilar byggja á því að við skipti á dánarbúi L beri að skipta samkvæmt ákvæði 2. gr. erfðaskrár hans og M frá 1991 og kaupmála frá 1982, auk breytinga á kaupmálanum frá 1991. Ákvæði erfðarskrárinnar frá 1991 mæli skýrlega fyrir um hvernig skipta skuli arfi eftir andlát hins langlífara hjóna. Þegar sá tími komi skuli erfingjar M fá í sinn hlut allar aðrar eigur hjónanna en hlutabréf í O hf. og persónulega muni. Við andlát L hafi framangreindar aðstæður skapast. Því beri að líta til ákvæða erfðaskrárinnar við dánarbússkiptin. Varnaraðilar hafi að mati sóknaraðila augljóslega í hyggju að hunsa alfarið ákvæði erfðarskrárinnar og kaupmálans. Það komi glögglega fram í því að þau hafi í engu minnst á framangreinda löggerninga hjá sýslumanni og þannig fengið með blekkingum útgefið leyfi til einkaskipta. Sóknaraðilum sé nauðsynlegt að fá dánarbú L tekið til opinberra skipta til að geta neytt réttar síns samkvæmt erfðaskránni. Einungis þannig muni vilji arfleifenda ná fram að ganga.

                Sóknaraðilar telji þá ákvörðun arfleifanda að sitja ekki í óskiptu búi, ekki breyta skýru efni erfðaskrárinnar um það hvernig fara skuli með eigur hjónanna þegar sú staða hafi skapast að þau séu bæði fallin frá. Erfðaskráin sé skýr og afdráttarlaus um það að sóknaraðilar skuli fá allar aðrar eigur en hlutabréf og persónulega muni, að hjónunum báðum látnum.

                Ákvæði 2. gr. erfðaskrárinnar lýsi tilgangi og markmiði erfðaskrárinnar um það hvernig hjónin hafi viljað ráðstafa eignum sínum að þeim báðum látnum. Þetta hafi ávallt verið skýr vilji þeirra. Hann komi bersýnilega fram í kaupmálanum frá 1982 og 1991, í erfðaskránni frá 1991 og jafnvel í ógiltum kaupmála og erfðaskrá frá 1996. Vilji hjónanna hafi í öllum tilvikum verið sá að allar aðrar eigur en hlutabréf í O hf. og persónulegir munir L kæmu í hlut barna M. Þá hafi það jafnframt verið vilji þeirra hjóna að arfshluti allra barnanna ætti að vera sem jafnastur. Þau hafi talið að með framangreindum löggerningum væru þau að tryggja það. Þessi skilningur komi einnig fram hjá Q, tengdadóttur L og eiginkonu eins varnaraðila, í bréfi sem hún hafi ritað vegna ágreinings sem hafi risið undir skiptum á dánarbúi M. Þar segi hún alla aðstandendur hafa verið meðvitaða um framangreindan vilja hjónanna. Í bréfinu segi meðal annars: „Að þeirra sögn var það þeirra ósk að L ætti hlutabréf í O og M íbúð og aðrar fasteignir. Börn M myndu erfa hana og börn L hann.“

                Ljóst megi vera að arfshluti sóknaraðila yrði verulega skertur yrði liti fram hjá skýrum vilja hjónanna eins og hann komi fram í þeim kaupmálum og erfðaskrám sem þau hafi gert, ekki síst fyrirmælum í gildandi erfðaskrá þar sem í hlut varnaraðila kæmu þá ekki einungis séreignir L heldur einnig búshluti hans og arfshlutur í öllum öðrum eignum þeirra hjóna.

                Í ummælum Hæstaréttar í dómi í málinu nr. 64/2012 felist að þótt hinn látni, L, hafi ekki neytt þess réttar sem erfðaskráin hafi veitt honum til að sitja í óskiptu búi, og bú M hafi verið tekið til opinberra skipta, hafi sú staðreynd engin áhrif á fyrirmæli 2. gr. erfðaskrárinnar sem mæli skýrlega fyrir um það að erfingjar M skuli erfa allar aðrar eigur hjónanna en hlutafé í félaginu O hf. og persónulega muni L. Sá arfur falli til að hinu langlífara hjóna látnu. Niðurstaða Hæstaréttar staðfesti lögvarða hagsmuni sóknaraðila af skiptum á dánarbúi L.

                Þá byggi sóknaraðilar á því að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 16/2010 hafi Hæstiréttur staðfest að fara bæri eftir kaupmálanum sem M og L hafi gert árið 1982, ásamt breytingum á honum frá 1991. Í framangreindum kaupmála sé skýrlega kveðið á um að fasteign aðila, bifreið og allt innbú skuli vera séreign M, en hlutafé í O hf. séreign L. Eins og staðfest hafi verið með dóminum skuli ígildi þeirra eigna sem taldar séu upp í kaupmálanum jafnframt vera séreign viðkomandi hjóna, sbr. 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Þannig telji sóknaraðilar alveg ljóst að Hæstiréttur hafi nú þegar dæmt um að kaupmálinn skuli ganga í báðar áttir og að fasteignin að [...], bifreið og innbú hafi allt verið séreignir M og komi því alfarið í hlut erfingja hennar, þ.e. sóknaraðila, sbr. skýr fyrirmæli kaupmálans frá 1982 og erfðarskrárinnar frá 1991. Sóknaraðilar byggi á því að Hæstiréttur hafi, eftir lát M, með framangreindum dómi í málinu nr. 16/2010 staðfest séreignafyrirkomulag hjónanna og þar með erfðarétt sóknaraðila að þeim eignum sem L hafi setið í á dánardægri. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 64/2012 hafi komið fram að skipti á umræddum eignum kæmu ekki til álita fyrr en að hinu langlífara látnu eins og 2. gr. erfðaskrárinnar kveði á um. Hæstiréttur hafi þar með undirstrikað efni og gildi erfðaskrárinnar.

                Ákvæði 2. gr. erfðaskrárinnar sé ekki skilyrt á þann hátt að hið langlífara verði að hafa setið í óskiptu búi til þess að efni greinarinnar taki gildi. Eina skilyrðið fyrir því að 2. gr. taki gildi sé að þær aðstæður skapist að bæði hjónin séu fallin frá. Hæstiréttur hafi staðfest, með dómi sínum í málinu nr. 64/2012, að það hvort hinn látni neytti þess réttar sem hann hefði með erfðaskránni til að sitja í óskiptu búi að móður sóknaraðila látinni, snúi á engan hátt að skiptum á dánarbúi hennar. Í niðurstöðu Hæstaréttar felist að mati sóknaraðila að það að bú móður sóknaraðila hafi verið tekið til opinberra skipta snúi ekki að skiptum á dánarbúi hennar samkvæmt erfðaskránni. Skipti á dánarbúi móður sóknaraðila samkvæmt efni erfðaskrárinnar komi til að hinu langlífara látnu, eins og nú sé raunin. Ummæli Hæstaréttar feli í sér að skipti á dánarbúi móður sóknaraðila í samræmi við efni og orðalag erfðaskrárinnar geti því aðeins farið fram að skilyrði erfðaskrárinnar séu fram komin, eins og raunin sé nú. Því eigi allar þær eignir sem tilgreindar hafi verið í beiðni varnaraðila til einkaskipta á dánarbúi L, að koma í hlut sóknaraðila. Því beri héraðsdómi að taka kröfu um opinber skipti á dánarbúinu til greina.

                Sóknaraðilar byggi kröfu sína á 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem sóknaraðilar séu ekki virðisaukaskattskyld krefjist þau þess að fá skattinn dæmdan úr hendi varnaraðila, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

                Varnaraðilar kveðast hafna alfarið sem rangri og haldlausri þeirri málsástæðu sóknaraðila að erfðaskrá er L og M hafi gert árið 1991, með vísan til kaupmála frá árinu 1982, geri það að verkum, nánar tiltekið 2. gr. hennar, að erfingjar M eigi að fá í sinn hlut allar aðrar eigur hjónanna en hlutabréf í O hf. og persónulega muni. Málatilbúnaður sóknaraðila sé eingöngu byggður á þessari málsástæðu. Málið sé því hafið að þarflausu og sóknaraðilar viti eða megi vita það.

                Hið rétta sé að hugsun þeirra hjóna hafi verið sú að skipti á dánarbúum þeirra myndi ekki eiga sér stað fyrr en að báðum látnum. Það hafi verið grundvallarforsenda erfðaskrárinnar eins og skýrlega komi fram í henni. Í 1. gr. segi að hið langlífara eigi rétt til setu í óskiptu búi. Með því sé grundvöllur erfðaskrárinnar lagður og það sem á eftir komi byggist á því að svo hafi verið. Ljóst sé að L hafi ætlað sér að nota rétt sinn samkvæmt 1. gr. erfðaskrárinnar til að sitja í óskiptu búi, en sóknaraðilar, börn og barnabörn M, hafi farið fram á opinber skipti. L hafi samþykkt það, enda hafi hann á þeim tíma ekki haft hugmynd um það sem koma skyldi og talið þetta gera það að verkum að hægt væri að ljúka skiptum á skömmum tíma í sátt. Það hafi þó ekki reynst raunin.

                Í 2. gr. erfðaskrárinnar komi fram að þegar hið langlífara deyi skuli skipta dánarbúi þeirra beggja á þann hátt að erfingjar L, varnaraðilar, skuli fá hlutabréf í O hf., en erfingjar M, sóknaraðilar, aðrar eignir. Þessi grein lýsi því hvernig þau hafi viljað að um skiptin færi þegar hið langlífara hefði haft tækifæri til að sitja í óskiptu búi. Þau hafi ekki viljað að erfingjar færu að deila um hjúskapar- og séreignir þeirra meðan annað þeirra væri enn á lífi.

                Ljóst sé að eftir að sóknaraðilar hafi krafist þess að skipti á dánarbúi M yrðu opinber, í stað þess að L sæti í óskiptu búi, hafi umrædd erfðaskrá ekkert gildi lengur, enda sú forsenda að skipti færu fram á búi þeirra beggja að þeim báðum gengnum ekki til staðar. Eini möguleikinn á að svo yrði væri að L tæki þá ákvörðun undir opinberum skiptum búsins að hann vildi sitja í óskiptu búi án samþykkis erfingja, sbr. X. kafla laga nr. 20/1991. Það hefði verið eina mögulega leiðin til þess að umrædd erfðaskrá hefði eitthvert gildi, enda hefðu þá ekki farið fram skipti á dánarbúi M fyrr en að L gengnum.

                Eftir að skiptum á dánarbúi M hafi lokið hafi engar frekari eignir verið til skipta eftir hana. Sóknaraðilar hafi fengið sinn hlut í séreign sem og hjúskapareign M. Engar eignir „okkar“ hafi verið til staðar, enda hafi séreignum og hjúskapareignum M verið skipt. Engar „aðrar eigur hjónanna“ séu til staðar, en sóknaraðilar hafi nú þegar fengið arf eftir móður sína.

                Varnaraðilar hafni gífuryrðum sóknaraðila um að þau hafi augljóslega í hyggju að hunsa erfðaskrána og hafi með blekkingum fengið útgefið leyfi til einkaskipta. Varnaraðilar taki því ekki létt að vera sökuð um að fara með blekkingar gagnvart opinberum aðila líkt og sýslumanni, enda sé slíkt refsivert. Hið rétta sé að erfðaskráin hafi ekkert gildi lengur eftir að skiptum á dánarbúi M hafi lokið. Þetta viti sóknaraðilar eða hefðu að minnsta kosti mátt vita.

                Sóknaraðilar vísi ítrekað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 64/2012 og telji að í honum felist einhvers konar viðurkenning á lögvörðum hagsmunum þeirra af skiptum á dánarbúi L. Því fari fjarri að svo sé. Það sem Hæstiréttur segi í umræddu máli sé eingöngu það að aðrar greinar erfðaskrárinnar frá 1991 en sú fyrsta kynnu að geta komið til skoðunar við skipti að látnum langlífari arfleiðandanum. Því fari fjarri að í þessu felist „viðurkenning á lögvörðum hagsmunum“ eða að Hæstiréttur hafi með framangreindum dómi eða dómi í málinu nr. 16/2010 undirstrikað efni og gildi erfðaskrárinnar. Hæstiréttur hafi einfaldlega ekki verið að leysa úr því ágreiningsefni sem hér sé til skoðunar í þeim málum. Á þeim tíma sem dómur hafi gengið í Hæstarétti hafi enn verið opið fyrir þann möguleika að L færi fram á setu í óskiptu búi, sbr. framangreint. Þá hefði opinberum skiptum verið sjálfhætt og erfðaskráin verið í fullu gildi. Hlutverk réttarins sé ekki að meta „lögvarða hagsmuni“, enda skipti það eitt máli hvort sóknaraðilar séu erfingjar L á grundvelli erfðaskrár.

                Grundvallarforsenda erfðaskrárinnar hafi þannig verið sú að skipti á dánarbúum M og L færi fram að þeim báðum gengnum. Vegna aðgerða sóknaraðila hafi það ekki gengið eftir. Sóknaraðilar séu því búnir að fá erfðahlut sinn eftir móður sína. L hafi greitt 18.320.946 krónur til dánarbús M vegna hluta sóknaraðila í séreign og hjúskapareign M. Þau hafi þannig nú þegar fengið arf eftir M, eignum hafi verið skipt og L hafi greitt fyrir þær. Þrátt fyrir það fari sóknaraðilar fram á erfðarétt eftir L, sem hafi nú þegar greitt fyrir þær hjúskapar- og séreignir sem hafi komið til skipta. Það standist að sjálfsögðu enga skoðun. Búið sé að skipta dánarbúi M, samþykkja úthlutunargerð og greiða á grundvelli hennar. Skiptum á dánarbúi hennar sé lokið og engar eignir þeirra hjóna til skipta lengur. Erfðaskráin hafi ekkert gildi. Sóknaraðilar séu því ekki erfingjar L og beri að hafna kröfu þeirra.

                Varnaraðilar vísi til erfðalaga nr. 8/1962 og laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum 45. gr. þeirra. Krafa varnaraðila um málskostnað sé reist á 1. og 3. mgr. 129. gr., 1. mgr. 130. gr. og 1. og 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu krefjast sóknaraðilar þess, á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að dánarbú L, sem lést [...] 2013, verði tekið til opinberra skipta. Samkvæmt ákvæðinu skal dánarbú tekið til opinberra skipta ef erfingi krefst þess, hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.–27. gr. laganna, hvort sem leyfi hefur áður verið veitt til einkaskipta eða ekki.

                Sóknaraðilar byggja tilkall sitt til arfs á erfðaskrá L og M frá 28. júní 1991, þar sem fram kemur að erfingjar L skuli fá í sinn hlut öll hlutabréf hans í O hf. og persónulega muni hans, en erfingjar M skuli fá í sinn hlut allar aðrar eigur þeirra.

                Varnaraðilar andmæla kröfunni á þeirri forsendu að sóknaraðilar séu ekki erfingjar L. Telja þau að tvö skilyrði hefðu þurft að vera uppfyllt til þess að erfðaskrá L og M tæki gildi, annars vegar að bæði séu fallin frá og hins vegar að það langlífara hafi setið í óskiptu búi. Þar sem skipti hafi þegar farið fram í dánarbúi M, að kröfu sóknaraðila, í stað þess að L sæti í óskiptu búi, hafi erfðaskráin ekkert gildi lengur.

                Samkvæmt 1. gr. framangreindrar sameiginlegrar erfðaskrár L og M hafði það hjónanna sem lengur lifði rétt til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum. Ákvæði 2. gr. erfðaskrárinnar kveður á um það hvernig eignum þeirra hjóna skyldi skipt að því langlífara látnu. Ekkert í erfðaskránni gefur það til kynna að sú skipting skyldi háð setu þess langlífara í óskiptu búi eða að fara ætti með eignir þeirra á annan hátt yrði ekki um það að ræða. Verður því hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðilar geti ekki talist erfingjar samkvæmt erfðaskránni þar sem L hafi ekki setið í óskiptu búi.

                Varnaraðilar vísa til þess að skiptum sé lokið í dánarbúi M og sóknaraðilar hafi þegar fengið arf eftir hana. Samkvæmt frumvarpi til úthlutunar í dánarbúi M var eignum skipt með þeim hætti að L fékk til sín sinn búshluta, sem var helmingur hreinnar eignar búsins, en hinn helmingurinn skiptist á milli erfingja M. Var þannig ekki litið til séreignar M. Samkvæmt 2. mgr. 76. gr. laga nr. 20/1991 getur skiptastjóri lokið skiptum á dánarbúi án tillits til eigna eða réttinda sem eru umdeild eða má vænta að teljandi bið verði eftir að megi koma í verð eða komi til greiðslu. Hann skal þó fylgja réttindunum eftir og taka skiptin upp á ný skv. 83. gr. laganna þegar búið getur ráðstafað þeim. Hefur það því ekki áhrif á niðurstöðu málsins að skiptum sé lokið í dánarbúi M.

                Í athugasemdum við 38. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 20/1991 kemur meðal annars fram að ekki sé ,,mælt fyrir um neina nauðsyn þess að sá sem vilji krefjast opinberra skipta eftir þessari heimild sýni að fyrra bragði fram á réttmæti arfstilkalls síns, heldur er þvert á móti ætlast til að ef ágreiningur risi til dæmis milli tveggja manna um það hvor þeirra skuli talinn einkaerfingi þess látna geti hvor þeirra sem væri leitað úrlausnar á þeim ágreiningi með því að krefjast opinberra skipta og styðja rétt sinn til þess við þá forsendu að hann sé með réttu erfingi. Niðurstaða um þá kröfu mundi þá ráðast af því hvort arfstilkall hans væri talið á rökum reist.“ Með vísan til þessa verður að skýra 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 á þann veg að vafi um arfstilkall samkvæmt erfðaskrá girði ekki fyrir heimild erfingja samkvæmt þeirri erfðaskrá til að krefjast opinberra skipta. Teljast skilyrði 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 því uppfyllt og verður krafa sóknaraðila um opinber skipti á dánarbúi L tekin til greina.

                Samkvæmt úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður varnaraðilum sameiginlega gert að greiða sóknaraðilum málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Fallist er á kröfu sóknaraðila, D, E, F, G, H, I, J, og K, um að dánarbú L, kt. [...], sem lést [...] 2013, síðast til heimilis að [...] í [...], verði tekið til opinberra skipta.

                Varnaraðilar, A, B, og C, greiði sóknaraðilum sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað.