Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/1998


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Ökuréttarsvipting
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Vanaafbrotamaður


Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15

                                                    Fimmtudaginn 14. janúar 1999.

Nr. 285/1998.                                       Ákæruvaldið

                                                    (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

                                                    gegn

                                                    Birgi Kristjánssyni

                                                    (Páll Arnór Pálsson hrl.)

Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Reynslulausn. Skilorðsrof. Vanaafbrotamaður.

B var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið ölvaður og sviptur ökurétti. Talið sannað með játningu B að hann hefði gerst brotlegur við ákvæði 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og  48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. B hafði með þessu rofið skilyrði reynslulausnar samkvæmt fyrri dómum. Við ákvörðun viðurlaga var tekið tillit til sakarferils ákærða sbr. 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur héraðsdóms um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði gengist við því að hafa ekið nánar tiltekinni bifreið 2. janúar 1998 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti. Með þeirri háttsemi braut ákærði gegn þeim refsiákvæðum, sem hún var heimfærð til í ákæru og getið er í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði rauf með þessu skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt frá 9. janúar 1997 til tveggja ára á 260 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómum frá 20. febrúar og 2. október 1995 og 28. febrúar 1996. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann á tímabilinu frá 7. febrúar 1963 til 20. febrúar 1995 hlotið 17 dóma fyrir ölvunarakstur og gengist einu sinni undir dómsátt fyrir sams konar brot. Að teknu tilliti til þessa, svo og ákvæðis 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.

Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan kostnað af áfrýjun málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Birgir Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 25.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. maí 1998.

Ár 1998, þriðjudaginn 15. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er af Arnari Þór Jónssyni dómarafulltrúa kveðin upp dómur í máli nr. S-42/1998: Ákæruvaldið gegn Birgi Kristjánssyni.

Málið er höfðað með ákæru Sýslumannsins í Keflavík, dagsettri þann 16. febrúar 1998 gegn ákærða, Birgi Kristjánssyni, kt.221044-4879, Vitastíg 11, Reykjavík. Í ákæru er ákærði talinn hafa gerst sekur um „ölvunarakstur og sviptingarakstur með því að hafa föstudaginn 2. janúar 1998, ekið bifreiðinni Ö-164, sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis, frá Hafnarfirði og áleiðis til Garðs um Reykjanesbraut, en lögreglan í Keflavík stöðvaði akstur hans á Strandarheiði.” Í ákæru telst brot ákærða varða við 1.mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 48.gr. umfl. nr. 50/1987. Þar er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar sbr. 100. gr. umferðarlaga og sviptingar ökuréttar sbr. 101.gr. og 102.gr. umferðarlaga sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og lög nr. 57/1997.

                Við þingfestingu málsins þann 29. apríl sl. kom ákærði fyrir dóminn og játaði skýlaust þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Var því málið tekið til dóms sem játningarmál á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991. Framlögð gögn Sýslumannsins í Keflavík sýna að magn alkóhóls í blóðsýni úr ákærða var rannsakað og reyndist það 1,81 °/°°. Málavextir eru nægjanlega fram settir í ákæruskjali sbr. 2. mgr. 135. gr. sömu laga. Með skírskotun til játningar ákærða og sýnilegra sönnunargagna í málinu þykir sekt ákærða fullsönnuð sbr. meginreglu 45. gr. sömu laga. Háttsemi ákærða er rétt heimfærð til refsiheimildar í ákæru.

                Þann 20. febrúar 1995 hlaut ákærði dóm fyrir brot gegn 1. sbr. 3.mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48.gr. umfl. nr. 50/1987. Ákærði var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar og sviptur ökuleyfi ævilangt. Var 296 daga reynslulausn dæmd með. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 2. október 1995 var ákærða dæmdur hegningarauki fyrir brot gegn 248. gr. og 248. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 4 mánaða fangelsisvist. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 28. febrúar 1996, var ákærða dæmdur hegningarauki fyrir brot gegn 248.gr. alm. hgl. 19/1940, 4 mánaða fangelsisvist.

                Fangelsismálastofnun ríkisins ákvað þann 9. janúar 1997 að veita skyldi ákærða reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum refsingar sem nam 260 dögum. Með brotum þeim sem ákært er fyrir í máli þessu hefur ákærði rofið skilorð þeirrar reynslulausnar. Dómsmeðferð þessa máls hófst fyrir lok reynslutíma. Samkvæmt ákvæði 42. gr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga ber að taka upp eftirstöðvarnar og dæma ákærða í einu lagi fyrir brot þau sem hér er fjallað um og hina 260 daga óloknu refsivist.

Ákærða á að baki langan brotaferil. Hefur hann ítrekað hlotið dóma fyrir ölvunarakstur sem og sviptingarakstur, síðast árin 1993 og 1995. Ítrekunaráhrif þessara dóma eru ekki fyrnd sbr. 3.mgr. 71.gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar þykir þó einnig mega líta til hegðunar hans að undanförnu en ljóst er að mjög hefur dregið úr brotum ákærða á síðustu árum. Þá hefur hann lokið áfengismeðferð og er kominn í fasta vinnu. Refsingu ákærða ber að tiltaka með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hún hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Ekki kemur til álita að skilorðsbinda refsingu ákærða. Árétta skal ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.

                                                                    Dómsorð:

                 Ákærði, Birgir Kristjánsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

                Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns Páls Arnórs Pálssonar hrl., 30.000 krónur.