Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2009


Lykilorð

  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Tryggingagjald
  • Endurgreiðslukrafa
  • Starfsmannaleiga
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                                        

Fimmtudaginn 25. febrúar 2010. 

Nr. 142/2009.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Impregilo SpA.

(Garðar Valdimarsson hrl.)

Staðgreiðsla opinberra gjalda. Tryggingagjald. Endurgreiðslukrafa. Starfsmannaleiga. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

I sá um umfangsmiklar verktakaframkvæmdir við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Í málinu krafði I Í um endurgreiðslu á staðgreiðslu skatta af launum erlendra manna, sem störfuðu í þágu I við framkvæmdirnar á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga. Jafnframt krafðist I endurgreiðslu á tryggingagjaldi, sem félaginu hafði verið gert að skila til Í vegna launa þessara starfsmanna. Í taldi sér óskylt að greiða. Með fyrri dómum Hæstaréttar hafði því verið slegið föstu að I teldist á grundvelli samnings við starfsmannaleigurnar og Alþýðusamband Íslands launagreiðandi portúgölsku starfsmannanna að því er varðaði greiðslu á þeirri fjárhæð sem næmi mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum. Væri I því skylt að standa skil á staðgreiðslu af þeim mun. Í málsvörn Í var meðal annars á því byggt að engin grein hefði verið gerð í stefnu fyrir þeirri skyldu I að skila staðgreiðslu vegna þessa mismunar. Ekki yrði ráðið af málatilbúnaði I að staðgreiðslu vegna tryggingar hans á lágmarkslaunum væri haldið utan við kröfugerðina. Engrar sundurliðunar nyti við um það hvaða laun og staðgreiðsla tilheyrðu starfsmannaleigunum og hvað hefði verið á ábyrgð I. I hélt því hins vegar fram að engum mun hefði verið til að dreifa milli íslensku og portúgölsku launanna þeim síðarnefndu í óhag. Talið var að Í hefði leitt rök að því að töluverður munur hefði verið á íslenskum og portúgölskum launakjörum starfsmanna á virkjunarsvæðinu. Ekkert væri fram komið sem bent gæti til annars en að sá munur á staðgreiðsluskilum, sem af því leiddi, væri innifalinn í kröfugerð I. Hvaða fjárhæð sá munur næmi lægi hins vegar ekkert fyrir um í málinu. I reisti kröfu sína á því að félagið ætti rétt á endurgreiðslu samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Talið var að fé, sem I hefði verið gert að skila vegna staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna, hefði ekki verið oftekið þar sem Í hefði átt réttmæta kröfu til fjárins. Þá væri réttur til endurgreiðslu samkvæmt lögunum á hendi gjaldandans sjálfs, en I hefði haft milligöngu við að uppfylla skattskyldu, sem hvíldi á öðrum, en ekki verið í hlutverki gjaldanda. Var því ekki fallist á að I gæti með stoð í lögunum krafið Í um endurgreiðslu staðgreiðslu af launum. Þá var því hafnað að I gæti stutt kröfu sína með almennum reglum fjármunaréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár, enda ættu sömu sjónarmið við um oftekið fé og um endurgreiðslu samkvæmt lögunum. Loks reisti I kröfu sína á því að Í bæri ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar á tjóni, sem félagið hefði orðið fyrir. Fallist var á með I að Í hefði með ólögmætum hætti brotið rétt á I með því að knýja félagið til að hafa milligöngu um staðgreiðsluskila af launum portúgölsku starfsmannanna að undanteknum þeim hluta launanna, sem stafaði af mun á íslenskum og portúgölskum launum. Hins vegar var talið að I hefði vanrækt skyldu sína til að takmarka tjón sitt og hefði því fyrirgert rétti til bóta úr hendi Í. Var Í því sýkn af kröfum I að því er varðaði þann hluta þeirra, sem stafaði af staðgreiðsluskilum af launum starfsmanna. Að því er varðaði tryggingagjaldið var á hinn bóginn litið til þess að það væri lagt á launagreiðanda en ekki launamann. Hefði I ofgreitt þetta gjald færi eftir ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu þess. Ekki varð hins vegar lagður efnisdómur á þennan þátt málsins sökum vanreifunar og var þessum hluta krafna I vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2009. Hann krefst þess aðallega að úrskurði héraðsdóms 25. júní 2008 og hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi lækkunar á kröfum stefnda og að málskostnaður á báðum dómstigum verði látinn falla niður.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða úrskurðar og dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða stefnda 1.230.708.381 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 5. febrúar 2004 til 30. janúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðastnefndra laga frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu stefnda að það hafi verið höfðað í nafni útibús hans á Íslandi. Útibúið hafi nú verið afskráð og móðurfélagið á Ítalíu tekið við aðild málsins.

I

Með samningi við Landsvirkjun tók stefndi að sér umfangsmiklar verktakaframkvæmdir við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Verkið hófst á árinu 2003 og var að mestu lokið 2008. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um endurgreiðslu á staðgreiðslu skatta af launum erlendra manna, sem störfuðu í þágu stefnda við framkvæmdirnar á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga, en óumdeilt er að skattayfirvöld hér á landi gerðu stefnda að standa skil á þeim til áfrýjanda gegn mótmælum þess fyrrnefnda sem taldi skylduna hvíla á starfsmannaleigunum. Jafnframt krefst stefndi endurgreiðslu á tryggingagjaldi, sem honum hafi verið gert að skila til áfrýjanda vegna launa þessara starfsmanna. Áfrýjandi telur sér óskylt að greiða.

Áður hafa fallið tveir dómar í Hæstarétti, sem skipta máli við úrlausn ágreinings aðilanna, en stefndi var annar aðili beggja fyrri málanna. Í dómi réttarins 7. desember 2006 í máli nr. 267/2006 var leyst úr ágreiningi vegna launakröfu portúgalsks starfsmanns við virkjunarframkvæmdirnar á hendur stefnda. Starfsmaðurinn krafðist þess að stefnda yrði gert að greiða honum mismun á annars vegar launum, sem honum hefði borið samkvæmt kjarasamningum sem giltu á virkjunarsvæðinu, og hins vegar þeim launum sem hann fékk greidd frá starfsmannaleigunni Select-I Serviços SA. í Portúgal. Í málinu lá fyrir að í samningi stefnda og starfsmannaleigunnar um útvegun á vinnuafli var kveðið sérstaklega á um það að ef nettó launakjör einhvers útvegaðs starfsmanns eða „portúgölsku launin“ yrðu í einhverjum mánuði lægri en heildarlágmarkskjör í sömu starfsgrein á virkjunarsvæðinu eða „íslensku launin“, skyldi stefndi bera muninn á íslensku laununum og þeim portúgölsku. Í málinu lá jafnframt fyrir sérstök bókun 1. október 2003 milli landssambanda Alþýðusambands Íslands í samráðsnefnd virkjunarsamnings og stefnda um verklag við launagreiðslur erlendra starfsmanna á vegum stefnda og samkomulag hinna sömu 10. sama mánaðar sem gert var „með það að markmiði að skýra reglur sem gilda um erlenda ráðningarsamninga útlendra starfsmanna sem hafa verið sendir til starfa á Íslandi við Kárahnjúkaverkefnið“. Í bókuninni var kveðið á um útreikning lágmarksgreiðslu með tilteknum hætti og lýsti stefndi yfir að hann ábyrgðist greiðslur til umræddra starfsmanna samkvæmt því sem þar greindi. Í samkomulaginu sagði meðal annars að starfsmenn skyldu áfram njóta allra réttinda sem ráðningarsamningar þeirra kveði á um, en í þeim tilvikum þar sem réttindi samkvæmt virkjunarsamningi eða íslenskum lögum séu starfsmanni hagkvæmari þá gildi hin síðarnefndu. Stefndi studdi sýknukröfu sína meðal annars við aðildarskort, en hann hafi ekki verið í ráðningarsambandi við gagnaðila málsins, sem hafi verið starfsmaður áðurnefndrar starfsmannaleigu. Þá hafi stefndi með samningum við Alþýðusamband Íslands ekki tekið á sig efndaskyldu á ráðningarkjörum starfsmannsins heldur í mesta lagi efndaábyrgð þegar fullreynt væri að starfsmannaleigan stæði ekki við skuldbindingar sínar. Niðurstaða málsins varð sú að samninga stefnda við Alþýðusamband Íslands yrði að skýra á þann veg að sá fyrrnefndi hafi tekið að sér beina greiðsluskyldu gagnvart starfsmönnum á þeim mun sem kynni að vera á reiknuðum íslenskum lágmarkslaunum og launum samkvæmt ráðningarsamningi viðkomandi starfsmanns við starfsmannaleiguna á hverju mánaðarlegu launatímabili. Íslensku launin töldust vera hærri en hin portúgölsku á öllum tímabilum, sem á reyndi í málinu, og var stefndi dæmdur til að greiða starfsmanninum samanlagðan launamuninn.

Í dómi Hæstaréttar 20. september 2007 í máli nr. 523/2006 var leyst úr ágreiningi aðila þessa máls um skyldu stefnda til að skila staðgreiðslu vegna launagreiðslna til portúgalskra starfsmanna tveggja starfsmannaleiga. Skattstjórinn í Reykjavík og yfirskattanefnd höfðu áður úrskurðað að þessi skylda hvíldi á stefnda. Sá síðastnefndi undi úrskurði nefndarinnar varðandi staðgreiðslu vegna ítalskra starfsmanna sinna, en ekki portúgölsku starfsmannanna, sem starfsmannaleigurnar höfðu útvegað. Niðurstaða málsins varð sú að portúgölsku starfsmennirnir við Kárahnjúkavirkjun væru skattskyldir hér á landi frá fyrsta starfsdegi hér. Starfsmannaleigurnar teldust hins vegar almennt vera launagreiðendur hinna útleigðu portúgölsku starfsmanna og því hafi starfsmannaleigunum en ekki stefnda almennt borið skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þessara starfsmanna. Stefndi hefði á hinn bóginn með samningum við starfsmannaleigurnar og Alþýðusamband Íslands gengist undir beina skyldu til að greiða portúgölsku starfsmönnunum þann mun, sem í hverjum mánuði kynni að vera á „nettó fjárhæð launa“ hvers erlends starfsmanns samkvæmt virkjunarsamningi og launum samkvæmt ráðningarsamningi starfsmannsins við starfsmannaleiguna, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 267/2006. Stefndi teldist því launagreiðandi hinna portúgölsku starfsmanna að því er varðar greiðslu á þeirri fjárhæð sem nemi mismun á íslensku lágmarkslaununum og portúgölsku laununum og sé honum því skylt að standa skil á staðgreiðslu af þeim mun. Samkvæmt því felldi Hæstiréttur úr gildi niðurstöðu yfirskattanefndar um að stefnda væri skylt að greiða staðgreiðslu vegna launa portúgalskra starfsmanna tveggja starfsmannaleiga.

II

Í hinum áfrýjaða dómi greinir frá bréfaskiptum aðilanna eftir að áðurnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 523/2006 var kveðinn upp og tilraunum stefnda til að fá endurgreitt fé, sem hann kveðst hafa verið knúinn til að standa skil á án skyldu. Þau atvik eru í aðalatriðum óumdeild. Málsástæðum aðilanna er þar einnig lýst.

Aðalkrafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er á því reist að í stefnu til héraðsdóms hafi engin grein verið gerð fyrir þeirri skyldu stefnda að skila staðgreiðslu vegna mismunar á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum, sem slegið hafi verið fastri í síðastnefndum dómi Hæstaréttar. Ekki verði ráðið af málatilbúnaði stefnda að staðgreiðslu vegna tryggingar hans á lágmarkslaunum sé haldið utan við kröfugerð hans, en líklegt sé að allnokkur munur sé á íslensku laununum og þeim portúgölsku. Engin grein sé gerð fyrir því í stefnu hvernig staðið hafi verið að mánaðarlegum útreikningi og uppgjöri þessa mismunar og engrar sundurliðunar njóti þannig við um það hvaða laun og staðgreiðsla tilheyri starfsmannaleigunum og hvað hafi verið á ábyrgð stefnda. Slík sundurliðun hafi verið nauðsynleg óháð því á hvaða grundvelli stefndi reisi kröfur sínar. Staðgreiðsluuppgjör stefnda hafi þannig bæði falið í sér staðgreiðslu vegna portúgalskra launa starfsmannaleiganna og íslenskra lágmarkslauna og skattskyldra fæðishlunninda. Skil á staðgreiðslu skatta af umræddum launamun og fæðishlunnindum hafi verið á ábyrgð stefnda, en hann enga grein gert fyrir hver hans hlutur hafi verið. Málatilbúnaður hans og kröfugerð sé því vanreifuð um grundvallaratriði. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu stefnda mótmælt framangreindum staðhæfingum áfrýjanda og haldið fram að engum mun hafi verið til að dreifa milli íslensku og portúgölsku launanna þeim síðarnefndu í óhag. Aðeins hafi með vissu komið fram eitt slíkt tilvik, en það sé starfsmaðurinn sem var aðili að áðurnefndu hæstaréttarmáli nr. 267/2006. Aðrir hafi ekki gert athugasemdir sem að þessu lúti.

Í bréfi lögmanns stefnda 21. nóvember 2003 til skattstjórans í Reykjavík í kjölfar fyrrnefnds samkomulags stefnda við Alþýðusamband Íslands segir meðal annars: „Skv. fyrrgreindum samningum er viðurkennt að ráðningarsambandið er milli portúgalskra aðila og að þar fái þeir laun endanlega uppgerð. Til að tryggja að ákvæði íslenskra kjarasamninga séu virt varð hins vegar að samkomulagi að þeir fái jafnframt launaseðil skv. íslenskum reglum, þar sem fram komi unnir tímar á launatímabilinu, einingaverð og samtala brúttólauna skv. þessu.“ Síðan er því lýst að frá dragist iðgjald í lífeyrissjóð og stéttarfélagsgjald „og af því sem eftir stendur reiknist staðgreiðsla tekjuskatts, 38,55%. Frá henni dragist persónuafsláttur kr. 26.835. Skattinum verður þá skilað skv. réttum reglum til innheimtumanns ríkissjóðs en sú fjárhæð sem eftir stendur sem nettó greiðsla er þá jafnframt það lágmark sem greiða má launamanni inn á reikning skv. uppgjöri í heimalandinu.“

Undir rekstri málsins í héraði lagði áfrýjandi fram portúgalska og íslenska launaseðla nafngreinds manns, Valter Rodrigues da Silva, sem starfaði við Kárahnjúka í þágu stefnda á vegum portúgalskrar starfsmannaleigu. Sá tími sem launaseðlar hans taka til er frá desember 2003 til loka maí 2004. Áfrýjandi lagði jafnframt fyrir Hæstarétt bréf ríkisskattstjóra 30. apríl 2009 þar sem gerðir eru útreikningar á íslenskum sköttum sama launþega. Þá lagði áfrýjandi fram útreikning og samanburð á heildarlaunum da Silva samkvæmt annars vegar portúgölskum og hins vegar íslenskum launaseðlum og reyndust íslensku heildarlaunin hærri á öllum launatímabilum eða samtals 1.411.619 krónur á móti 1.171.075 krónum eftir umreikning launa í evrum í íslenskar krónur samkvæmt gengisskráningu í viðkomandi mánuði. Samkvæmt útreikningi ríkisskattstjóra á íslenskum tekjuskatti samkvæmt íslenskum launaseðlum da Silva væri staðgreiðsla af launum hans 394.207 krónur en 296.249 krónur samkvæmt portúgölskum launaseðlum hans. Fyrrnefnda fjárhæðin fellur saman við það, sem fram kemur í skilagrein stefnda frá ágúst 2006 og lista sem fylgdi, þar sem fram kemur að staðgreiðsla vegna umrædds starfsmanns sé 394.207 krónur.

Stefndi hefur lagt fram einn portúgalskan launaseðil annars nafngreinds starfsmanns við Kárahnjúka, Filipe Duarte Luzio da Cruz vegna launa í febrúar 2007. Samkvæmt umreikningi ríkisskattstjóra í fyrrnefndu bréfi á launum da Cruz í evrum námu þau 248.689 krónum og útreiknuð staðgreiðsla á þeim grundvelli því átt að vera 53.120 krónur. Samkvæmt staðgreiðslulista stefnda, sem skilað var vegna þessa tímabils, voru heildarlaun mannsins hins vegnar 383.795 og staðgreiðsla 99.850 krónur.

Áfrýjandi hefur samkvæmt þessu sýnt fram á að í einstökum tilvikum hefur verið allmikill munur á launum samkvæmt íslenskum kjarasamningum, sem giltu á virkjunarsvæðinu, og portúgölskum launum starfsmana þar, sbr. einnig tilvik starfsmannsins sem var aðili að hæstaréttarmáli nr. 267/2006. Jafnframt hefur áfrýjandi sýnt fram á að staðgreiðsluskil voru í þessum tilvikum miðuð við íslensku launin. Áfrýjandi hefur án árangurs beint áskorun að stefnda um að leggja fram tiltekin gögn sem gætu varpað frekari ljósi á launasamanburð, þar á meðal slík gögn, sem lögð voru fyrir Alþýðusamband Íslands. Áfrýjandi hafði ekki aðgang að þessum gögnum, heldur voru þau í vörslu stefnda sjálfs. Stefndi hefur til stuðnings andmælum sínum lagt fram samanburð á útborguðum portúgölskum launum áðurnefnds da Silva að frádregnum portúgölskum sköttum og útborguðum íslenskum launum að frádregnum íslenskum staðgreiðslusköttum, iðgjaldi til lífeyrissjóðs og stéttarfélagsgjaldi, en samkvæmt þeim samanburði eru portúgölsku launin ívið hærri nema á einu launatímabili. Áður er fram komið að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2006 voru starfsmenn portúgölsku starfsmannaleiganna skattskyldir samkvæmt íslenskum lögum á Íslandi frá fyrsta starfsdegi þeirra hér og skiptir því samanburður við skattskyldu í Portúgal engu máli.

Samkvæmt öllu framanröktu hefur áfrýjandi leitt rök að því að töluverður munur hafi verið á íslenskum og portúgölskum launakjörum starfsmanna á virkjunarsvæðinu. Ekkert er fram komið sem bent getur til annars en að sá munur á staðgreiðsluskilum, sem af því leiðir, sé innifalinn í kröfugerð stefnda, en stefndi er sjálfur ábyrgur fyrir þeim hluta staðgreiðslunnar en ekki starfsmannaleigurnar. Hvaða fjárhæð sá munur nemur liggur hins vegar ekkert fyrir um í málinu. Stefndi gæti óháð öllu öðru aldrei átt réttmæta kröfu til þess að fá þær fjárhæðir endurgreiddar. Það sem að framan greinir gildir einnig um þann hluta kröfu stefnda sem lýtur að tryggingagjaldi.

III

Stefndi reisir kröfu sína í fyrsta lagi á því að hann eigi rétt á endurgreiðslu innborgaðs fjár vegna staðgreiðslu af launum starfsmanna samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda með síðari breytingum. Hann hafi verið knúinn til að greiða hina umþrættu staðgreiðslu umfram skyldu, svo sem endanlega hafi verið leitt í ljós með dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2006. Þetta hafi verið opinber gjöld og því sé áfrýjanda skylt að endurgreiða það, sem oftekið var. Áfrýjandi mótmælir að stefndi geti krafist greiðslu á grundvelli laganna og ber meðal annars fyrir sig að féð hafi verið skilafé í hendi stefnda en ekki skattgreiðsla hans sjálfs. Krafa hans geti ekki fallið undir gildissvið laganna.

Við úrlausn um þetta verður að líta til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum er staðgreiðsla samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári. Samkvæmt 3. gr. er lögð skylda til að standa skil á staðgreiðslu á alla sem greiða laun eða annast milligöngu á greiðslum sem gjaldskyldar eru samkvæmt ákvæðum laga sem um ræðir í 2. gr. Áður er komið fram að þessi skylda hvíldi á stefnda að því leyti sem nam launamun íslenskra og portúgalskra launa.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta eða önnur gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist. Fé, sem stefnda var gert að skila vegna staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna, var ekki oftekið í þeim skilningi að áfrýjandi ætti ekki rétt á því eða að hann hafi fengið meira en honum bar. Þvert á móti liggur ekki annað fyrir en að skattskyldu þeirra launamanna, sem áttu í hlut, hafi verið fullnægt með réttum fjárhæðum samkvæmt íslenskum lögum með greiðslum stefnda. Ekkert hefur því verið oftekið þegar litið er til þess hvort áfrýjandi hafi átt réttmæta kröfu til fjárins hjá launamönnunum. Þá verður heldur ekki litið framhjá því að stefndi var ekki í hlutverki gjaldanda þegar hann innti féð af hendi, heldur hafði hann milligöngu við að uppfylla skattskyldu, sem hvíldi á öðrum. Ef réttur til endurgreiðslu oftekins fjár er til staðar samkvæmt lögum nr. 29/1995 er hann á hendi gjaldandans sjálfs en ekki milligöngumanns um greiðslur. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með stefnda að hann geti með stoð í ákvæðum laga nr. 29/1995 krafið áfrýjanda um endurgreiðslu staðgreiðslu af launum. Það á jafnt við um þann hluta greiðslnanna, sem honum var sjálfum skylt að skila, sem annan hluta þeirra.

Að því er varðar tryggingagjaldið er á hinn bóginn til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald skulu launagreiðendur inna það gjald af hendi og miðast það við greidd laun. Enda þótt gjaldið skuli samkvæmt 3. mgr. sömu greinar innheimt samkvæmt lögum nr. 45/1987 er það þannig lagt á launagreiðanda en ekki launamann. Hafi stefndi ofgreitt þetta gjald fer því eftir ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu þess, en eins og getið var í kafla II hér að framan liggur ekkert fyrir um hvernig greiðsluskylda þessa gjalds skiptist milli stefnda og hinna portúgölsku stafsmannaleiga. Þá liggur ekkert fyrir um hvernig endurgreiðslukrafa stefnda skiptist milli staðgreiðslu og tryggingagjalds. Verður því ekki lagður efnisdómur á  þennan þátt málsins.

Í öðru lagi heldur stefndi kröfu sinni fram með vísan til almennra reglna fjármunaréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Í stefnu til héraðsdóms styður hann kröfu sína að þessu leyti við það að ofgreiðsla opinberra gjalda hafi ekki verið honum að kenna, heldur hafi hann verið neyddur til að greiða svo hann gæti í friði sinnt þeim skuldbindingum, sem hann hafi tekið að sér við Kárahnjúka. Skattskilum hafi hann sinnt í náinni samvinnu við ríkisskattstjóra. Stefndi hefur ekki með öðrum hætti leitast við að rökstyðja sérstaklega hvernig ólögfestar reglur fjármunaréttar um endurgreiðslu ofborgaðs fjár eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu sem hann krefst.

Að því leyti sem haldið er fram að um oftekið fé sé að ræða eiga sömu ástæður við og að framan greinir í umfjöllun um lög nr. 29/1995. Þá er hvorki sú aðstaða fyrir hendi í málinu að stefndi hafi greitt í rangri trú um greiðsluskyldu sína né hefur hann bent sérstaklega á önnur atriði sem geti stutt kröfu hans á þeim grundvelli, sem hér um ræðir. Málsástæða stefnda, sem á þessum grunni er reist, getur ekki leitt til þess að krafa hans um endurgreiðslu staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna verði tekin til greina.

Stefndi reisir kröfu sína loks á því að áfrýjandi beri ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar á tjóni, sem sá fyrrnefndi hafi orðið fyrir. Áfrýjandi hafi með ólögmætum hætti knúið hann til að skila staðgreiðslu, þótt sú skylda hafi hvílt á öðrum, og sjálfur hafi hann ekki komist hjá því að greiða fram til þess að niðurstaða dómstóla um þann ágreining lá fyrir. Hann kveðst ekki hafa átt annan kost „en að greiða hann úr sínum vasa, enda hafði hann engan aðgang að launagreiðslum til Portúgalanna eins og gögn málsins sýna“. Í þessu sambandi geti „skipt máli hvort stefndi gæti velt kostnaðinum af þessum greiðslum yfir á aðra“ en sönnunarbyrði um það hvíli á áfrýjanda. Stefndi hafi sýnt fram á að svo sé ekki. Hann telur sig jafnframt hafa sýnt fram á að við útborgun launa starfsmannaleiganna í Portúgal hafi ekki verið haldið eftir fé, sem svaraði til þess sem starfsmönnum bar að greiða í skatt á Íslandi. Áfrýjandi telur á hinn bóginn að gögn málsins sýni að stefndi hafi í uppgjöri við starfsmannaleigurnar fengið bætt það, sem hann lagði út til að standa skil á sköttum starfsmanna. Að auki geti þetta engu máli skipt fyrir niðurstöðu málsins. Áfrýjandi mótmælir jafnframt að skylda til endurgreiðslu verði reist á reglum skaðabótaréttar.

Fallist er á með stefnda að áfrýjandi hafi með ólögmætum hætti brotið rétt á honum með því að knýja hann til að hafa milligöngu um staðgreiðsluskil af launum starfsmanna portúgölsku starfsmannaleiganna að undanteknum þeim hluta launanna, sem stafaði af mun á íslenskum og portúgölskum launum. Að öðru leyti hvíldi sú skylda á starfsmannaleigunum. Með þessari háttsemi hefur áfrýjandi bakað sér skaðabótaskyldu að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þá hafa nokkrar líkur verið leiddar að því að starfsmannaleigurnar hafi ekki haldið eftir af launum starfsmanna sinna þeim íslensku sköttum, sem þeim bar að greiða.

Vegna þeirrar varnarástæðu áfrýjanda að tjón sé ósannað er fyrst til þess að líta að eftir að dómur Hæstaréttar gekk í máli nr. 523/2006 var eytt efasemdum, sem áður voru uppi um skattskyldu portúgalskra starfsmanna fyrstu 183 daga þeirra í starfi hér á landi, en ákvæði í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Portúgal þóttu ekki fyllilega skýr að þessu leyti. Margir þeirra starfsmanna, sem fyrstir komu til starfa við Kárahnjúka, höfðu þegar á árinu 2004 starfað lengur en 183 daga og voru því án nokkurs vafa skattskyldir hér á landi. Stefnda var samkvæmt því ljóst frá upphafi að laun starfsmannanna væru að verulegu eða jafnvel öllu leyti skattskyld á Íslandi.

Þau almennu sjónarmið gilda í skaðabótarétti að tjónþola er skylt að gera það sem sanngjarnt er að ætlast til af honum til að takmarka tjón sitt. Honum getur samkvæmt því verið skylt að grípa til beinna ráðstafana sem eru skynsamlegar og eðlilegar til að takmarka tjónið. Stefndi innti á löngu tímabili af hendi greiðslur til portúgölsku starfsmannaleiganna í samræmi við samninga þeirra fyrir veitta þjónustu, en ekkert er fram komið um að hann hafi haldið eftir af greiðslum fé til að mæta staðgreiðslu af launum starfsmannanna. Engin skýring er fram komin á því hvers vegna hann lét þetta undir höfuð leggjast. Hann gerði þannig engan reka að því að gæta hagsmuna sinna gagnvart portúgölsku starfsmannaleigunum eða stuðla með þessu eða öðru að því að þær héldu eftir fé við útborgun af launum starfsmannanna þannig að þeir, sem skattskyldan hvíldi á, myndu endanlega bera skattinn. Stefndi var þó í aðstöðu til þess, en fram er komið að hann og starfsmannaleigurnar störfuðu náið saman og höfðu öll gögn og upplýsingar sem þurfti til að rétt skattskil gætu á endanum farið fram óháð því að stefnda væri með óréttu gert að hafa milligöngu um staðgreiðslu skattanna. Stefndi hafði öll færi á að gæta réttar síns en gerði hins vegar ekki það sem með sanngirni mátti ætlast til af honum til að halda sér skaðlausum. Við þessar aðstæður dugar honum ekki að hafa treyst á það eitt að hann gæti sótt féð til baka frá áfrýjanda. Með því að stefndi vanrækti þannig skyldu sína til að takmarka tjónið hefur hann fyrirgert rétti til bóta úr hendi áfrýjanda vegna skila á staðgreiðslu af portúgölskum launum starfsmanna, en áður hefur verið fjallað um staðgreiðslu af þeim hluta launanna, sem stafaði af mun á íslenskum og portúgölskum launum. Verður niðurstaða málsins samkvæmt því sú að áfrýjandi skal sýkn af kröfum stefnda að því er varðar þann hluta þeirra, sem stafar af staðgreiðsluskilum af launum starfsmanna. Að því er varðar þann hluta krafna stefnda sem lýtur að tryggingagjaldi er málið eins og að framan er rakið vanreifað og verður ekki komist hjá að vísa þeim að því leyti frá héraðsdómi.

 Rétt er að hvor aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnda, Impregilo SpA., um endurgreiðslu á staðgreiðsluskilum vegna launa starfsmanna portúgalskra starfsmannaleiga.

Kröfum stefnda er að öðru leyti vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2008.

I

Mál þetta var höfðað 30. janúar 2008 og dómtekið 2. desember 2008.  Stefnandi er Impregilo S.p.A., útibú á Íslandi, Síðumúla 29, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.230.708.381 krónu, ásamt vöxtum, sbr. 1. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. 1aga nr. 38/2001, af 25.651.478 krónum frá 5. febrúar 2004 til 17. ágúst 2004, af 64.688.978 krónum frá þeim degi til 22. september 2004, af 103.726.478 krónum frá þeim degi til 5. október 2004, af 131.519.137 krónum frá þeim degi til 27. október 2004, af 146.881.073 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 160.744.964 krónum frá þeim degi til 15. mars 2005, af 178.504.308 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2005, af 194.559.235 krónum frá þeim degi til 15. maí 2005, af 217.107.102 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2005, af 238.270.390 krónum frá þeim degi til 25. júlí 2005, af 275.017.051 krónu frá þeim degi til 10. ágúst 2005, af 334.875.390 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2005, af 350.298.849 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2005, af 387.045510 krónum frá þeim degi til 15. september 2005, af 408.834.462 krónum frá þeim degi til 20. september 2005, af 445.581.123 krónum frá þeim degi til 17. október 2005, af 468.095.404 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2005, af 490.724.189 krónum frá þeim degi til 15. desember 2005, af 516.488.932 krónum frá þeim degi til 16. janúar 2006, af 533.471.710 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2006, af 544.991.950 krónum frá þeim degi til 15. mars 2006, af 564.111.527 krónum frá þeim degi til 18. apríl 2006, af 583.195.556 krónum frá þeim degi til 15. maí 2006, af 611.236.200 krónum frá þeim degi til 15. júní 2006, af 636.111.100 krónum frá þeim degi til 17. júlí 2006, af 664.731.631 krónu frá þeim degi til 15. ágúst 2006, af 688.439.373 krónum frá þeim degi til 15. september 2006, af 715.537.126 krónum frá þeim degi til 16. október 2006, af 740.856.770 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2006, af 763.627.807 krónum frá þeim degi til 22. nóvember 2006, af 900.345.072 krónum frá þeim degi til 15. desember 2006, af 920.566.496 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2007, af 936.100.083 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, af 945.131.069 krónum frá þeim degi til 22. febrúar 2007, af 1.080.875.768 krónum frá þeim degi til 15. mars 2007, af 1.097.650.921 krónu frá þeim degi til 15. aprí1 2007, af 1.116.080.209 krónum frá þeim degi til 15. maí 2007, af 1.143.387.486 krónum frá þeim degi til 15. júní 2007, af 1.171.024.929 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2007, af 1.196.334.192 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2007, af 1.214.131.557 krónum frá þeim degi til 17. september 2007, af 1.230.708.381 krónu frá þeim degi til 25. október 2007, og dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. 1aga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá þeim degi auk vaxtavaxta, sbr. 12. gr. sömu laga, allt til greiðsludags.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.230.708.381 krónu, ásamt vöxtum, sbr. 1. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. 1aga nr. 38/2001, af 25.651.478 krónum frá 5. febrúar 2004 til 17. ágúst 2004, af 64.688.978 krónum frá þeim degi til 22. september 2004, af 103.726.478 krónum frá þeim degi til 5. október 2004, af 131.519.137 krónum frá þeim degi til 27. október 2004, af 146.881.073 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 160.744.964 krónum frá þeim degi til 15. mars 2005, af 178.504.308 krónum frá þeim degi til 15. aprí1 2005, af 194.559.235 krónum frá þeim degi til 15. maí 2005, af 217.107.102 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2005, af 238.270.390 krónum frá þeim degi til 25. júlí 2005, af 275.017.051 krónu frá þeim degi til 10. ágúst 2005, af 334.875.390 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2005, af 350.298.849 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2005, af 387.045.510 krónum frá þeim degi til 15. september 2005, af 408.834.462 krónum frá þeim degi til 20. september 2005, af 445.581.123 krónum frá þeim degi til 17. október 2005, af 468.095.404 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2005, af 490.724.189 krónum frá þeim degi til 15. desember 2005, af 516.488.932 krónum frá þeim degi til 16. janúar 2006, af 533.471.710 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2006, af 544.991.950 krónum frá þeim degi til 15. mars 2006, af 564.111.527 krónum frá þeim degi til 18. apríl 2006, af 583.195.556 krónum frá þeim degi til 15. maí 2006, af 611.236.200 krónum frá þeim degi til 15. júní 2006, af 636.111.100 krónum frá þeim degi til 17. júlí 2006, af 664.731.631 krónu frá þeim degi til 15. ágúst 2006, af 688.439.373 krónum frá þeim degi til 15. september 2006, af 715.537.126 krónum frá þeim degi til 16. október 2006, af 740.856.770 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2006, af 763.627.807 krónum frá þeim degi til 22. nóvember 2006, af 900.345.072 krónum frá þeim degi til 15. desember 2006, af 920.566.496 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2007, af 936.100.083 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, af 945.131.069 krónum frá þeim degi til 22. febrúar 2007, af 1.080.875.768 krónum frá þeim degi til 15. mars 2007, af 1.097.650.921 krónu frá þeim degi til 15. apríl 2007, af 1.116.080.209 krónum frá þeim degi til 15. maí 2007, af 1.143.387.486 krónum frá þeim degi til 15. júní 2007, af 1.171.024.929 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2007, af 1.196.334.192 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2007, af 1.214.131.557 krónum frá þeim degi til 17. september 2007, af 1.230.708.381 krónu frá þeim degi til 30. janúar 2008, og dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. 1aga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og vaxtavöxtum, sbr. 12. gr. sömu laga, allt til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.230.708.381 krónu auk lægri vaxta og dráttarvaxta að mati dómsins.

Í öllum tilvikum dragist frá endurgreiðsla frá tollstjóranum í Reykjavík 3. ágúst 2007 vegna niðurfellingar ríkisskattstjóra á álagi á leiðrétta staðgreiðslu vegna ársins 2003 og ársins 2004, samtals að fjárhæð 60.370.670 krónur, þannig að endurgreiðslan gangi fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar, þá til greiðslu vaxta og að lokum til lækkunar höfuðstóls.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu máls­kostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst hann þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.  Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega og að máls­kostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II

Málavextir eru þeir helstir að stefnandi hefur haft með höndum umfangsmiklar verktaka­framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun sem hófust sumarið 2003.  Hluti þess mannafla sem starfað hefur fyrir stefnanda við framkvæmdirnar kom til landsins á vegum portúgalskra starfsmannaleiga, Select-I Servicos SA (hér eftir nefnt Select), og Nett-Nova Empresa de Trabalho Teporário Lda (hér eftir nefnt Nett).  Fljótlega eftir að stefnandi hóf framkvæmdir við Kára­hnjúkavirkjun reis ágreiningur um skyldu hans til að skila staðgreiðslu vegna launagreiðslna, meðal annars vegna þeirra starfsmanna sem komu hingað til lands á vegum hinna portúgölsku starfsmannaleiga.

Með úrskurði 26. janúar 2004 ákvað skattstjórinn í Reykjavík að hækka stofn til staðgreiðslu opinberra gjalda og reiknaða afdregna staðgreiðslu vegna erlendra starfsmanna stefnanda fyrir júlí og ágúst 2003, meðal annars hinna portúgölsku starfsmanna nefndra starfsmannaleiga.  Þá beitti skattstjóri álagi vegna vantalinnar staðgreiðslu stefnanda fyrir þessa mánuði.  Þennan úrskurð kærði stefnandi til yfir­skattanefndar sem kvað upp úrskurð 20. apríl 2005 í máli nr. 94/2005 og felldi úr gildi endurákvörðun skattstjóra að því er varðaði skilaskyldu á staðgreiðslu af launa­greiðslum hinna portúgölsku starfsmanna með þeim rökum að skort hefði á að framkomnum andmælum stefnanda hefði verið veitt viðhlítandi úrlausn við meðferð málsins.  Þessi úrskurður hefur ekki verið borinn undir dómstóla.

Með úrskurði 30. júní 2004 tók skattstjórinn í Reykjavík til endurákvörðunar skilaskyldu stefnanda á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir mánuðina september 2003 til og með janúar 2004 og varðaði endurákvörðunin skilaskyldu staðgreiðslu vegna ítalskra starfsmanna stefnanda og starfsmanna sem ráðnir voru til starfa af portúgölsku starfsmannaleigunum.  Áætlaði skattstjóri staðgreiðsluskyldu stefnanda vegna þessara starfsmanna á umræddu tímabili og beitti álagi vegna vanskila á staðgreiðslunni.  Þennan úrskurð kærði stefnandi til yfirskatta­nefndar sem kvað upp úrskurð 20. apríl 2005 í máli nr. 95/2005, og var niðurstaða nefndarinnar sú að stefnandi væri stað­greiðslu­skyldur bæði vegna ítalskra starfsmanna og hinna portúgölsku starfsmanna sem ráðnir höfðu verið til starfa af portúgölsku starfsmanna­leigunum.

Í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar gerðu stefnandi og ríkisskattstjóri samkomulag um framgangsmáta skattskila vegna launa hinna portúgölsku starfsmanna sem ráðnir höfðu verið af Select og Nett og féllst stefnandi á að reikna laun af starfsmönnum þessum eins og hann væri launagreiðandi þeirra þó með þeim áskilnaði að málinu yrði skotið til úrlausnar dómstóla til úrlausnar ágreinings aðila um ábyrgð á staðgreiðslu­skilum þessara starfsmanna.

Stefnandi höfðaði síðan mál þar sem hann krafðist aðallega ógildingar úrskurðar skattstjórans í Reykjavík frá 30. júní 2004 og úrskurðar yfirskattanefndar frá 20. apríl 2005 í máli nr. 95/2005 en til vara að felld yrði úr gildi niðurstaða þessara úrskurða um staðgreiðsluskyldu hans vegna launa portúgalskra starfsmanna starfsmanna­leiganna Select og Nett. 

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, upp­kveðnum 14. júlí 2006, var stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en með dómi Hæstaréttar í málinu, máli nr. 523/2006, uppkveðnum 20. september 2007, var ekki fallist á aðalkröfu stefnanda en varakrafa hans var tekin til greina og var felld úr gildi sú niðurstaða yfirskattanefndar í máli nr. 95/2005 að stefnanda bæri að greiða staðgreiðslu vegna launa portúgalskra starfs­manna starfsmannaleiganna Select og Nett. 

Í tilgreindum dómi Hæstaréttar segir meðal annars að það séu hinar portúgölsku starfsmannaleigur en ekki stefnandi sem almennt teljist launagreiðendur hinna út­leigðu portúgölsku starfsmanna, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1987 og beri stefnanda því almennt ekki skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þessara starfsmanna.  Þá segir einnig í dóminum að þrátt fyrir þessa niðurstöðu sé þó til þess að líta að stefnandi hafi, með samningum við starfsmannaleigurnar og með samkomulagi við Alþýðu­samband Íslands, skuldbundið sig til að greiða hinum portúgölsku starfsmönn­um þann mun sem kunni að vera í hverjum mánuði á nettó fjárhæð launa samkvæmt virkjunar­samningi og launum samkvæmt ráðningarsamningi starfsmannsins við portúgölsku starfs­mannaleiguna og teljist stefnandi launagreiðandi varðandi greiðslu á þeirri fjárhæð sem nemi mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum og sé honum því skylt að standa skil á staðgreiðslu af þeim mun.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar hafði lögmaður stefnanda samband við ríkisskattstjóra og óskaði eftir endurákvörðun á staðgreiðsluskilum stefnanda, en honum var bent á að snúa sér til fjármálaráðuneytisins sem hefði framvegis með málið að gera.  Með bréfi 4. október 2007 til fjármálaráðuneytis óskaði lögmaður stefnanda eftir jákvæðri ákvörðun þess varðandi kröfu stefnanda um að reiknuð yrði út ný staðgreiðslustaða í samræmi við dóm Hæstaréttar.  Kveður stefnandi að engin viðbrögð hafi komið frá ráðuneytinu vegna þessa og með bréfi 25. október 2007 krafði lögmaður stefnanda fjármálaráðuneytið um endurgreiðslu meintrar ofgreiddrar staðgreiðslu skatta vegna launa portúgalskra starfsmanna framangreindra starfsmanna­leiga vegna áranna 2003 til 2007.  Af hálfu ráðuneytisins var kröfunni svarað með bréfi 12. nóvember 2007 og kemur þar fram að ráðuneytið geti ekki tekið afstöðu að svo stöddu til kröfu stefnanda vegna athugunar sérfræðinga ráðuneytisins og stofnana þess á áhrifum dóms Hæsta­réttar.  Þá kom þar fram að ráðuneytið þyrfti að afla frekari gagna frá portúgölskum skatt­yfirvöldum.  Fóru svo fram frekari bréfaskipti milli þessara aðila án þess að niðurstaða fengist og var mál þetta höfðað 30. janúar 2008 eins og áður greinir.

Hinn 13. júní 2008 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda í máli þessu og með úrskurði, uppkveðnum 25. júní 2008, var þeirri kröfu hafnað.

Stefnandi hefur greitt staðgreiðslu af launum hinna portúgölsku starfsmanna frá 5. febrúar 2004 og fram til 17. september 2007 og krefst í máli þessu endurgreiðslu vegna þeirra greiðslna að frádregnum 60.370.670 krónum sem tollstjórinn í Reykjavík endurgreiddi honum 3. ágúst 2007 vegna niðurfellingar álags og vaxta, en með bréfi 1. ágúst 2007 felldi ríkisskattstjóri niður álag vegna leiðréttrar staðgreiðslu 2003 og 2004.  Kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra að niðurfellingin taki til launa sem gjald­skyld hafi verið á árinu 2003 og staðið hafi verið skil á 27. janúar 2006 og launa sem gjaldskyld hafi verið á árinu 2004 og staðið hafi verið skil á 28. júlí 2006.  Þá var einnig tekið fram að niðurfellingin væri bundin því skilyrði að staðið yrði við skil á gjaldskyldri staðgreiðslu af launum þess tíma. 

Stefndi byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að staðgreiðslan sé ekki skattur í skilningi laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda og að stefnandi hafi skilað staðgreiðslu af launum hinna portúgölsku starfsmanna í umboði starfs­manna­­leiganna Select og Nett.  Þá sé ósannað að staðgreiðslan sem skilað var hafi stafað af öðrum launum en þeim sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á.  Þá byggir stefndi á því að greiðslur stefnanda í málinu séu ekki greiðsla á staðgreiðslu heldur falli undir greiðsluskil að lokinni álagningu og því beri stefnandi sjálfur ábyrgð á þeim gjöldum sem vinnuveitandi og greiðandi leigugjalds til starfsmannaleiganna, sbr. 3. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003.

III

Stefnandi kveður að í dómsmáli því, sem hafi verið til lykta leitt með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2006, hafi ekki verið gerðar kröfur til endurgreiðslu oftekinna skatta sem leitt hafi af úrskurðum skattstjóra og yfirskatta­nefndar þar sem fjárhæð þeirra hafi ekki legið fyrir þegar málið var höfðað. 

Krafa stefnanda að fjárhæð 1.230.708.391 króna sundurliðast svo:

Greiðsludagur

Nett

Select    

Höfuðstóll

05.02.2004*

13.168.252

12.483.227

25.651.478

17.08.2004*

20.040.000

18.997.500

39.037.500

22.09.2004*

20.040.000

18.997.500

39.037.500

05.10.2004*

14.267.432

13.525.227

27.792.659

27.10.2004*

7.886.089              

7.475.847

15.361.936

15.02.2005

7.111.984

6.751.907

13.863.891

15.03.2005

10.003.827

7.755.517

17.759.344

15.04.2005

9.231.061

6.823.866

16.054.927

15.05.2005

13.010.532

9.537.335

22.547.867

15.07.2005

10.876.594

10.286.694

21.163.288

25.07.2005*

18.373.331

18.373.331

36.746.661

10.08.2005*

18.373.331

18.373.331

36.746.661

10.08.2005

12.319.939

10.791.739

23.111.678

15.08.2005

8.741.957

6.681.502

15.423.459

23.08.2005*

18.373.331

18.373.331

36.746.661

15.09.2005

12.399.213

9.389.739

21.788.952

20.09.2005*

18.373.331

18.373.331

36.746.661

17.10.2005

12.730.376

9.783.905

22.514.281

15.11.2005

13.416.706

9.212.079

22.628.785

15.12.2005

15.405.818

10.358.925

25.764.743

16.01.2006

9.501.545

7.481.233

16.982.778

15.02.2006

6.177.754

5.342.486

11.520.240

15.03.2006

10.597.280

8.522.297

19.119.577

18.04.2006

10.895.822

8.188.207

19.084.029

15.05.2006

15.836.076

12.204.568

28.040.644

15.06.2006

13.660.806

11.214.094            

24.874.900

17.07.2006

16.465.200

12.155.331

28.620.531

15.08.2006

14.054.616

9.653.126

23.707.742

15.09.2006

14.025.399

13.072.354            

27.097.753

16.10.2006

13.206.932

12.112.712

25.319.644

15.11.2006

12.377.981

10.393.056

22.771.037

22.11.2006*

68.358.632

68.358.632

136.717.265

15.12.2006

11.295.346

8.926.078

20.221.424

15.01.2007

9.032.628

6.500.959

15.533.587

15.02.2007

5.999.754

3.031.232

9.030.986

22.02.2007*

67.872.349

67.872.349

135.744.698

15.03.2007

9.468.588

7.306.565

16.775.153

15.04.2007

10.378.300

8.050.988

18.429.288

15.05.2007

15.760.708

11.546.569

27.307.277

15.06.2007

15.453.389

12.184.054

27.637.443

15.07.2007

14.294.769

11.014.494

25.309.263

15.08.2007

10.018.503

7.778.862

17.797.365

17.09.2007

8.874.808

7.702.016

16.576.824

Samtals 

1.230.708.381

Greiðslur þær sem merktar eru með* hér að ofan eru svokallaðar óreglulegar greiðslur og eru þær samtals að fjárhæð 566.329.681 króna.  Aðrar greiðslur eru svokallaðar reglulegar greiðslur sem byggjast á skilagreinum og nemur fjárhæð þeirra 664.378.700 krónum.

Staðgreiðsluskil stefnanda fyrir Select og Nett vegna ársins 2003

Stefnandi kveður að samkvæmt úrskurði skattstjórans í Reykjavík 26. janúar 2004 hafi staðgreiðsluskil stefnanda vegna júlí og ágúst 2003 verið hækkuð um 34.555.570 krónur auk álags að fjárhæð 6.082.583 krónur eða samtals 40.638.108 krónur.  Í sama úrskurði hafi trygg­ingar­gjald stefnanda einnig hækkað þannig að samtals hafi hækkun opinberra gjalda numið 49.282.379 krónum.  Á móti þeirri hækkun hafi tollstjóri skuldajafnað virðis­auka­skattsinneign stefnanda í tveimur færslum með gildis­dagsetningunni 5. febrúar 2004, annarsvegar 8.605.391 króna og hins vegar 40.679.988 krónur.  Í framan­greindum fjárhæðum séu skattar vegna ítalskra starfs­manna stefnanda en samtals hafi þennan dag verið greiddar 25.651.478 krónur vegna hinna portúgölsku starfsmanna.

Með úrskurði skattstjórans í Reykjavík 30. júní 2004 hafi staðgreiðsluskil stefnanda vegna september til desember 2003 og janúar 2004 hækkað um 188.500.000 krónur auk álags að fjárhæð 37.246.316 krónur eða samtals um 225.746.316 krónur.  Hafi stefnandi fengið leyfi hjá tollstjóra til að skipta greiðslunni og hafi 75.000.000 krónur verið greiddar 17. ágúst 2004 og 75.000.000 krónur 22. september 2004.  Með skuldajöfnun virðisaukaskattsinneignar 15. október 2004 hafi stefnandi svo greitt 53.396.079 krónur og svo hinn 27. október 2004 29.513.806 krónur og hafi 22.350.237 krónur farið upp í skuldina.  Af fjárhæðum þessum hafi 121.229.595 krónur verið vegna portúgölsku starfsmannanna.

Staðgreiðsluskil stefnanda fyrir Select og Nett vegna ársins 2004

Stefnandi kveðst allan tímann hafa haldið því fram að starfsmannaleigurnar væru launagreiðendur portúgölsku starfsmannanna og hafi starfsmannaleigurnar verið því sammála og hafi reynt að sinna skyldum sínum.  Þannig hafi Nett sótt um það á árinu 2004 að fá úthlutað kennitölu í þeim tilgangi að skrá sig á launagreiðendaskrá vegna útleigu portúgalskra starfsmanna en því hafi verið hafnað af ríkisskattstjóra og síðan fjármálaráðuneytinu.  Samt sem áður hafi Nett tekist að skila staðgreiðslu vegna stað­greiðslu­tímabila á árinu 2004 og greitt til tollstjóra 70.076.859 krónur hinn 22. desember 2004 og 19.067.564 krónur hinn 17. janúar 2005.

Þá hafi Select fengið kennitölu frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og í kjölfarið hafi félagið tilkynnt sig inn á launagreiðendaskrá staðgreiðslu á árinu 2004.  Hafi Select hafið að skila staðgreiðslu vegna ársins 2004 og greitt 7.112.467 krónur hinn 15. október 2004, 7.885.712 krónur hinn 15. nóvember 2004, 36.031.236 krónur hinn 29. nóvember 2004, 8.999.197 krónur hinn 15. desember 2004 og 15.404.391 krónur hinn 17. janúar 2005.

Í desember 2004 hafi ríkisskattstjóri tilkynnt Select að félagið hafi verið fellt út af launagreiðendaskrá þar sem það gæti ekki talist launagreiðandi.  Þessa niðurstöðu hafi yfirskattanefnd staðfest í ágúst 2006.

Stefnandi kveður að í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 95/2005 hafi hann og ríkisskattstjóri hist á fundi í maí 2005 og hafi orðið að samkomulagi að stefnandi skilaði inn staðgreiðslu vegna allra starfsmanna sem ynnu fyrir hann beint eða fyrir milligöngu portúgalskra starfsmannaleiga og að stefnandi myndi gera sérstök skil vegna þeirra starfsmanna sem væru á vegum starfsmanna­leiganna.  Þetta hafi verið gert með þeim fyrirvara að stefnandi ætlaði að leita til dómstóla til að fá úr því skorið hver væri réttur launagreiðandi hinna erlendu starfsmanna samkvæmt stað­greiðslu­lögum. 

Hinn 25. júlí 2005 hafi stefnandi greitt samtals 50.000.000 krónur og þar af 36.746.661 krónu vegna portúgölsku starfsmannaleiganna.  Sömu fjárhæðir hafi hann svo greitt 10. ágúst, 23. ágúst og 20. september 2005 eða samtals 200.000.000 krónur og þar af 146.986.644 krónur vegna portúgalskra starfsmanna.

Í júní 2006 hafi stefnanda verið tilkynnt um það hvernig ríkisskattstjóri hygðist standa að álagningu staðgreiðslu vegna starfsmanna Select og Nett og í framhaldi af því hafi verið óskað eftir skilagreinum frá stefnanda vegna þeirrar viðbótarstaðgreiðslu.  Hafi stefnandi sent viðbótarskilagrein 27. ágúst 2006 vegna leiðréttingar greiðslutímabils 12-2004, samtals staðgreiðsla af greiddum launum 375.646.538 krónur.  Með þeirri viðbótarskilagrein hafi fylgt sundurliðun viðbótarstaðgreiðslu niður á hvern einstakan portúgalskan starfsmann vegna ársins 2004 samtals að fjárhæð 276.075.119 krónur.  Mismunur þeirrar fjárhæðar og skilagreinarinnar allrar sé staðgreiðsla vegna viðbótar­launa ítalskra starfsmanna.  Sé hlutur portúgalskra starfsmanna Select og Nett 73,48% en hlutur ítalskra starfsmanna 26,52%.  Stefnandi kveðst hafa greitt 186.026.789 krónur hinn 22. nóvember 2006, þar af 136.717.265 krónur vegna Select og Nett.  Eftirstöðvar að fjárhæð 184.703.446 krónur hafi hann svo greitt 22. febrúar 2007, þar af 135.744.698 krónur vegna Select og Nett.

Staðgreiðsluskil stefnanda fyrir Select og Nett vegna janúar til apríl árið 2005.

Staðgreiðsluskil vegna þessa tímabils kveður stefnandi hafa verið gerð á kennitölum starfsmannaleiganna, sem hafi tekist að skila nokkurri staðgreiðslu vegna starfs­manna sinna vegna ársins 2004.  Hafi ekki verið hægt að keyra skilagreinar þessar í gengum launagreiðslukerfi ríkisskattstjóra þar sem hann hafði hafnað skráningu Select og Nett á launagreiðendaskrá.  Hafi stefnandi greitt staðgreiðslu vegna Select og Nett á þessu tímabili samtals að fjárhæð 70.226.029 krónur.  Hafi hann hinn 15. febrúar greitt 13.863.891 krónu, 15. mars hafi hann greitt 17.759.344 krónur, 15. apríl hafi hann greitt 16.054.927 krónur og 15. maí hafi hann greitt 22.547.867 krónur.

Staðgreiðsluskil stefnanda fyrir Select og Nett vegna maí til desember 2005 og janúar til desember 2006 og janúar til ágúst 2007.

Stefnandi kveður staðgreiðsluskil vegna þessa tímabils vera samkvæmt sundurliðaðri skilagrein á hvern einstakan starfsmann starfsmannaleiganna.  Síðustu greiðslu hafi hann innt af hendi 17. september 2007 en greiðslum hafi verið hætt eftir að niðurstaða hafi legið fyrir með dómi Hæstaréttar 20. september 2007.

Með bréfi ríkisskattstjóra 1. ágúst 2007 hafi stefnanda verið tilkynnt að með vísan til heimildar í 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda hafi verið ákveðið að fella niður álag vegna síðbúinna framtalsskila stefnanda vegna launa sem gjaldskyld hafi verið á árunum 2003 og 2004.  Í bréfi sínu vitni ríkisskattstjóri í skil stefnanda á þremur skilagreinum í staðgreiðslu vegna ársins 2003 dagsettum 27. janúar 2006 að fjárhæð 59.390.745 krónur, 62.760.592 krónur og 112.678.244 krónur og skilagreinar vegna ársins 2004 dagsettri 28. ágúst 2007 að fjárhæð 375.646.538 krónur.  Endurgreiðsla tollstjóra 3. ágúst 2007 vegna þessarar niðurfellingar hafi numið samtals 92.476.623 krónum og þar af 60.370.670 krónur vegna Select og Nett og sé sú fjárhæð dregin frá dómkröfum stefnanda.

Stefnandi kveður að með dómi sínum 20. september 2007 hafi Hæstiréttur kveðið á um það að stefnandi væri ekki launagreiðandi hinna portúgölsku starfsmanna heldur starfsmannaleigurnar Select og Nett.  Hafi niðurstaða málsins verið sú að úrskurður yfirskattanefndar nr. 95/2005 frá 20. apríl 2005, sem gert hafði stefnanda að greiða staðgreiðslu vegna launa portúgalskra starfsmanna starfsmanna­leiganna Select og Nett, hafi verið felldur úr gildi.  Hafi stefnanda því ekki borið samkvæmt lögum skylda til þess að standa skil á staðgreiðslu vegna þessara starfsmanna enda hafi hann samkvæmt forsendum dómsins ekki talist launagreiðandi þeirra heldur starfs­manna­leigurnar Select og Nett. 

Stefnandi hafi frá upphafi mótmælt því að hann bæri ábyrgð á staðgreiðslu þessara manna, sem voru launþegar hjá starfsmannaleigunum og hafi hann gert athugasemdir um réttmæti þessarar staðgreiðslu sem hann hafi séð sig tilneyddan að greiða.  Hafi hann því greitt hana með fyrirvara um að hann myndi leita réttar síns hjá yfirskatta­nefnd og dómstólum.  Hafi þessi mótmæli og fyrirmæli verið endurtekin á fundi stefnanda með ríkisskattstjóra í maí 2005.

Stefnandi telji sig eiga ótvíræðan lagalegan rétt á endurgreiðslu þess fjár sem hann hafi ofgreitt vegna staðgreiðslu af launum starfsmanna portúgölsku starfsmanna­leiganna.  Í því sambandi vísi hann til almennra reglna fjármunaréttarins um réttinn til endurheimtu ofgreidds fjár og laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum nr. 29/1995 segi meðal annars að með frumvarpinu sé lögfest sú meginregla að gjaldandi, sem ofgreitt hafi skatta og gjöld, eigi rétt á endurgreiðslu óháð því hvort hann hafi greitt með fyrirvara eða ekki og að gert sé ráð fyrir því að stjórnvöld hafi frumkvæðið að endurgreiðslu þegar ljóst sé að ofgreitt hafi verið. Hafi stefnandi mótmælt því frá upphafi að hann væri launagreiðandi portú­gölsku starfsmannanna og allan tímann gert fyrirvara um áfrýjun málsins.  Engar heimildir til endurgreiðslu á staðgreiðslu sé að finna í sjálfum staðgreiðslulögunum nr. 45/1987 og sé því gert ráð fyrir því að um hana fari eftir lögum nr. 29/1995.  Stefnandi haldi því fram að samkvæmt ákvæðum síðastnefndra laga sé alveg skýrt og ótvírætt að stefndi sé skyldur til þess að endur­greiða honum það fé sem hann hafi greitt innheimtumanni ríkissjóðs vegna ákvarðana skattstjórans í Reykjavík og yfirskattanefndar sem Hæstiréttur hafi nú dæmt ólög­mætar.

Hafi fjármálaráðherra í raun viðurkennt ólögmæti þessara ákvarðana með framlagn­ingu frumvarps til breytinga á 7. grein laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, en samkvæmt athugasemdum með því frumvarpi sé tilefni þess áðurnefndur dómur Hæstaréttar í máli nr. 523/2006.  Svo megi segja að efnahags- og skattanefnd Alþingis hafi fallist á túlkun stefnanda á því hver teljist launagreiðandi þegar um sé að ræða starfsmannaleigur með staðfestu innan Evrópu, þar sem samkvæmt viðbót hennar við frumvarp fjármála­ráðherra hafi verið gert að aðalreglu að nefndar starfs­manna­leigur teldust launa­greiðendur útleigðra starfsmanna á Íslandi, sbr. lokamálsgrein 7. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 169/2007.

Hafi umrædd ofgreiðsla opinberra gjalda ekki verið stefnanda að kenna heldur hafi hann verið neyddur til greiðslu til þess að geta fengið frið til þess að sinna þeim skuld­bindingum sem hann hafði tekið að sér við virkjunina við Kárahnjúka en skatt­yfirvöld hafi krafist þess að stefnandi greiddi þessa skatta. Hafi stefnandi sinnt þessum greiðslum og skilagreinum í framkvæmd í náinni samvinnu við ríkisskattstjóra sem hafi fallist á að þessi skil væru gerð í nafni og fyrir hönd starfsmannaleiganna Select og Nett.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu hafi stefnandi leitað til ríkisskattstjóra um að skattlagning á hann yrði felld niður með hliðsjón af niðurstöðum dómsins.  Hafi sú málaleitan verið í samræmi við áratuga framkvæmd undir þeim kringumstæðum að dómstólar hafi dæmt ákveðna stjórnvaldsathöfn skattyfirvalda ólöglega.  Virðist sem málið hafi verið tekið af ríkisskattstjóra og fært til fjármála­ráðuneytisins sem hafi færst undan að inna af hendi endurgreiðslur eða koma fram með efnislegar varnir í málinu þrátt fyrir ítrekuð kröfubréf stefnanda þar sem hann hafi reynt að innheimta hina ofteknu skatta.

Af hálfu ráðuneytisins virðist innheimtukröfum stefnanda hafa verið tekið sem „erindum“ en ekki sem tilmælum um greiðslu.  Hafi ráðuneytið því synjað „erindi“ stefnanda að svo stöddu.  Skattskil þau og greiðslur skatta sem stefnandi hafi verið neyddur til að inna af hendi byggist á stjórnarathöfnum skattyfirvalda sem hafi verið dæmdar ólöglegar og ógildar samkvæmt dómi Hæstaréttar.  Hafi fjármálaráðuneytið í raun hunsað þennan dóm Hæstaréttar og færst undan því að leiðrétta afleið­ingar hinna ólögmætu athafna skattyfirvalda, sem því sem stjórnvaldi beri að hafa frumkvæði að samkvæmt lögum. 

Hafi stefnandi gert grein fyrir hverri greiðslu sem hann hafi innt af hendi vegna starfsmanna Select og Nett og hvenær og hvernig hún hafi verið innt af hendi, auk þess sem hann hafi lagt fram ítarleg gögn til sönnunar greiðslunum.  Þá hafi stefnandi sýnt fram á það að sá viðbótarkostnaður sem þessar ólögmætu greiðslur hafi haft í för með sér hafi fallið á hann, án nokkurra möguleika til endurgreiðslu frá Select og Nett eða starfsmönnum þeirra.  Megi því segja að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem nemi dómkröfum hans.

Vaxtakröfur stefnanda séu í samræmi við lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda með áorðnum breytingum, sbr. einnig lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Munurinn á aðalkröfu og varakröfu liggi eingöngu í því að í aðalkröfu sé dráttarvaxta krafist miðað við dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda 25. október 2007, en í varakröfu sé miðað við birtingardag stefnu 30. janúar 2008.

Um gjalddaga kröfunnar, vexti og dráttarvexti vísist til 2. gr. laga nr. 29/1995 en samkvæmt því ákvæði sé gjalddagi vaxta sá dagur sem greiðsla hins oftekna fjár hafi átt sér stað, sbr. 1. mgr. greinarinnar, og gjalddagi dráttarvaxta sá dagur sem gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til 4. og 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Þá vísar hann til almennra reglna fjármuna­réttarins um réttinn til endurheimtu ofgreidds fjár og almennu skaðabóta­reglunnar.  Þá vísar hann til 4. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt sem sé byggð á þeirri meginreglu að stjórnvöldum sé skylt að gera leiðréttingar gagnvart gjaldend­um þegar dómstólar hafi hnekkt skattaframkvæmd sem álagningin á gjaldendur hafi byggst á, sbr. einnig 3. mgr. sömu greinar.  Um varnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um málskostnað byggir hann á ákvæði XXI. kafla sömu laga, einkum 129. gr. laganna.

IV

Stefndi kveður að ekki verði séð að krafa stefnanda um endurgreiðslu á þeirri staðgreiðslu sem hann hafi innt af hendi vegna starfsmanna hinna portúgölsku starfsmannaleiga geti fallið undir lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Sé staðgreiðslan sem slík skattur á launamanninn en ekki á þann sem skylt sé að standa skil á henni.  Staðgreiðslan sé því ekki skattur eða gjöld á stefnanda í skilningi 1. gr. þeirra laga heldur skilafé í hendi hans sem honum beri að standa skil á og verði hugsanlegri endurgreiðslukröfu hans því ekki fundin stoð í þeim lögum. 

Varðandi endurgreiðslukröfu stefnanda komi í fyrsta lagi til skoðunar að hvaða leyti stefnandi hafi tekist á hendur að skila staðgreiðslu fyrir hönd starfsmannaleiganna vegna þessara starfsmanna og sem starfsmannaleigurnar hafi haldið eftir en á það hafi ekki reynt í málsmeðferð skattyfirvalda eða dómsmálinu sem snúist hafi um tiltekna álagningu samkvæmt áætlun en hvorki um talnalegar forsendur né endurgreiðslu.  Sé sýknukrafa stefnda aðallega reist á því að stefnandi hafi fyrir hönd starfsmanna­leiganna Select og Nett og í umboði þeirra skilað staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna.

Eins og samningur stefnanda og portúgölsku starfsmannaleiganna beri með sér hafi verið um náið samstarf fyrirtækjanna að ræða.  Upplýsingar og afrit hafi verið látin samnings­aðilum í té og beinlínis kveðið á um að stefnandi skyldi greiða allan kostnað er hlytist af mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum auk fæðishlunninda en ráðgert hafi verið að starfsmennirnir skyldu fá laun endanlega uppgerð hjá starfsmannaleigunum.  Í samningunum sé beinlínis kveðið á um að allir skattar sem kunni að leggjast á seljanda í tengslum við framangreinda staðgreiðslu­skatta og aðrir skattar sem tengist launum mannaflans muni greiddir af stefnanda og síðan endurgreiddir af seljanda gegn framvísun viðeigandi skjala.  Þá sé staðfest í bréfi PricewaterhouseCoopers hinn 18. maí 2005 til stefnanda eftir að starfsmannaleigurnar hafi verið teknar af staðgreiðsluskrá að þær fallist á að stefnandi standi í eigin nafni en fyrir þeirra hönd skil á staðgreiðslu starfsmanna þeirra.  Samningssamband stefnanda við starfsmannaleigurnar hafi verið slíkt að ekki sé hægt að sjá annað en að stefnanda hafi borið að skila staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna, ýmist í umboði starfsmannaleiganna eða vegna eigin kostnaðarþátttöku.

Af hálfu stefnda sé því mótmælt að stefnandi hafi orðið fyrir viðbótarkostnaði og tjóni sem nemi skilaðri staðgreiðslu á þeim forsendum að hann hafi hvorki dregið af launum portúgölsku starfsmannanna né frá leigugreiðslum til starfsmannaleiganna.  Sé alveg ljóst að starfsmannaleigurnar hafi séð um afdrátt af launum og hafi stefnandi staðið skil á staðgreiðslu fyrir þeirra hönd.  Eigi skattar sem stefnandi hafi greitt vegna starfsmannaleiganna að endurgreiðast af þeim gegn framvísun viðeigandi fylgiskjala.  Samkvæmt samningum við starfsmannaleigurnar eigi stefnandi að bera allan kostnað sem hljótist af tryggingu íslenskra lágmarkslauna og fæðishlunnindum og sé hann ábyrgur fyrir staðgreiðslu af þeim.  Af launaseðlum sem ríkisskattstjóri hafi undir höndum verði ráðið að verulegt misræmi kunni að vera á milli íslenskra lágmarks­launa og hinna portúgölsku launa.  Bendi gögn málsins til þess að stefnandi hafi alltaf verið í einhverri skuld við leigurnar þar sem þær virðist samkvæmt samningum við stefnanda og bréfi stefnanda 21. nóvember 2003 eiga að sjá um launa- og staðgreiðslu­uppgjör vegna starfsmannanna hvað það varði.

Í umsögn ríkisskattstjóra til fjármálaráðuneytis 27. mars 2008 komi fram að séu hreyfingar á viðskipta­reikningum starfsmannaleiganna Select og Nett hjá stefnanda vegna rekstraráranna 2003 og 2004 skoðaðar, sjáist hreyfingar vegna staðgreiðslu skatta sem sýni að stefnandi hafi reikningsfært í bókum sínum staðgreiðslu vegna starfsmanna umræddra starfsmannaleiga.  Hreyfingalistarnir hafi á sínum tíma verið fengnir úr bókhaldi stefnanda.  Í kredit á viðskiptareikning séu færðir útgefnir reikn­ingar sem starfsmanna­leigurnar hafi gefið út á hendur stefnanda vegna portúgalskra starfsmanna.  Í debet á reikninginn séu síðan færðar greiðslur stefnanda til starfs­manna­leiganna.  Auk þess séu færðar á reikninginn kreditreikningar (leiðréttingar) sem starfsmannaleigurnar hafi gefið út.

Af hreyfingum á viðskiptareikningum Select og Nett hjá stefnanda vegna rekstrar­ársins 2004 sjáist að stefnandi hafi reikningsfært í bókum sínum staðgreiðslu vegna starfsmanna starfsmannaleiganna sem þær höfðu sjálfar staðið skil á vegna ársins 2004 til tollstjóra og séu þær færðar debet á viðskiptareikninga þeirra og lækki þar með skuld stefnanda við starfsmannaleigurnar.

Í bréfi Deloitte 14. janúar 2008, sem lögmaður stefnanda sé eigandi að, komi fram að fyrirtækið hafi kannað hvort stefnandi hafi dregið staðgreiðslu frá launum portúgalskra starfsmanna Select og Nett eða hún verið dregin frá leigugreiðslum og komist að raun um að ekki hafi verið um neins konar endurgreiðslur að ræða til stefnanda.  Jafnframt komi fram í bréfi Deloitte að stefnandi hafi sýnt fram á að greiðsla á staðgreiðslu starfsmanna Select og Nett og uppgjör staðgreiðslunnar, milli stefnanda annars vegar og Select og Nett hins vegar, hafi farið fram með eftirfarandi hætti: Öll staðgreiðsla sem viðkomi starfsmönnum starfsmannaleiganna Select og Nett hafi verið reiknuð út og greidd af stefnanda og viðskiptafærð á viðskiptareikninga Select og Nett í bókhaldi stefnanda.  Sú staða sem hafi myndast á viðskiptareikningi milli félaganna vegna framangreindrar staðgreiðslu hafi verið gerð upp með þeim hætti að starfs­manna­leigurnar hafi sent viðbótarreikninga til stefnanda sem numið hafi stað­greiðslunni og þessir reikningar hafi verið gjaldfærðir í bókhaldi stefnanda sem aðkeypt þjónusta líkt og aðrir reikningar frá starfsmannaleigunum.  Hafi stefnandi reiknað laun starfsmanna starfsmannaleiganna eingöngu til að geta greitt staðgreiðslu skatta.  Stefnandi hafi ekki haft með launauppgjör starfsmannaleiganna að gera og hafi ekki dregið umrædda staðgreiðslu af launum starfsmanna Select og Nett.  Samkvæmt þessari lýsingu verði ekki annað séð en að allar greiðslur vegna stað­greiðslu sem stefnandi telji sig hafa innt af hendi fyrir starfsmannaleigurnar Select og Nett hafi verið viðskiptafærðar á starfsmannaleigurnar í bókhaldi stefnanda sem skuld.  Af því megi leiða að hér hafi verið um útlagðar greiðslur að ræða fyrir starfsmannaleigurnar, þ.e. að greitt hafi verið fyrir þeirra hönd.

Í þessu sambandi skuli áréttað efni bréfs PricewaterhouseCoopers 18. maí 2005 til þáverandi framkvæmdastjóra stefnanda í framhaldi af úrskurði yfirskattarnefndar nr. 95/2005, þar sem fram komi að starfsmannaleigunum sé kunnugt um efni úrskurðarins þar sem lagt sé til grundvallar að stefnandi sé hinn eiginlegi launagreiðandi starfsmanna starfsmannaleiganna.  Starfsmannaleigurnar séu ekki sammála þeirri niður­stöðu en fallist á að stefnandi standi í eigin nafni en fyrir þeirra hönd skil á staðgreiðslu tekjuskatta umræddra starfsmanna.

Starfsmannaleigurnar hafi gert reikninga á stefnanda til að mæta færslum á viðskiptareikningum vegna skattgreiðslna.  Ekki hafi verið um eiginleg kaup á þjónustu að ræða.  Að mati stefnda fái ekki staðist að stefnandi geti krafist endur­greiðslu á skilafé vegna skatta eða sköttum sem hann hafi krafið starfsmannaleigurnar um með áðurnefndum færslum í viðskiptamannabókhaldi sínu við portúgölsku starfs­manna­leigurnar Select og Nett og fengið endurgreidda samkvæmt því bókhaldi.

Að mati stefnda sé ósannað að staðgreiðsla sem skilað var vegna portúgalskra starfsmanna starfs­manna­leiganna hafi stafað af öðrum launagreiðslum en þeim sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á til að tryggja íslensk lágmarkskjör og vegna fæðishlunninda.  Sé ótvírætt samkvæmt dómi Hæstaréttar að stefnandi teljist launa­greiðandi hinna portúgölsku starfsmanna að því er varði greiðslu á þeirri fjárhæð sem nemi mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölsku laununum og sé skylt að standa skil á staðgreiðslu af þeim mun.  Hið sama gildi um staðgreiðsluskyld fæðis­hlunnindi.  Stefnandi hafi ekki hnekkt því að ekkert bendi til þess að af hinum portúgölsku launum sem nýttu persónuafsláttinn hafi stofnast til staðgreiðslu tekju­skatts og útsvars svo neinu nemi.

Varðandi kröfur stefnanda sem byggðar séu á greiðslum vegna launagreiðslna 2003 og 2004 skuli til viðbótar framangreindu tekið fram að efnislegur ágreiningur í Hæstaréttarmálinu hafi lotið að staðgreiðsluskyldum stefnanda vegna opinberra gjalda portúgalskra starfsmanna starfsmannaleiganna á tímabilinu september til og með desember 2003 og í janúar 2004.  Vegna þess tímabils hafi skattstjóri með úrskurði áætlað staðgreiðsluskyldu fyrirtækisins vegna opinberra gjalda starfsmanna stefnanda sjálfs, og vegna portúgalskra starfsmanna starfsmannaleiganna og sé ekki greint á milli í þeirri áætlun hvað hafi tilheyrt launum eigin starfsmanna stefnanda og hvað launum hinna portúgölsku starfsmanna starfsmannaleiganna. Hinu sama gegni í úrskurði yfirskattanefndar sem lækkað hafi lítillega áætlun vegna janúarmánaðar 2004.

Þeim svokölluðu óreglulegu greiðslum, ÓR, sem svo séu tilgreindar á dómskjali 3 þar sem krafa stefnanda sé sundurliðuð, sé dreift á ýmis tímabil en ekki fylgi með sérstakar sundurliðaðar skilagreinar á starfsmenn.

1) 5/2-27/10 2004 sbr. fylgiskjöl 1-5 að fjárhæð samtals 146.881.074 krónur

2) 25/7-10/8 2005 sbr. fylgiskjöl 16-17 að fjárhæð samtals 73.493.322 krónur

3) 23/8 2005 sbr. fylgiskjal 21 að fjárhæð 36.746.661 króna

4) 20/9 2005 sbr. fylgiskjal 24 að fjárhæð 36.746.661 króna

5) 22/112006 sbr. fylgiskjal 53 að fjárhæð 136.717.265 krónur

6) 22/2 2007 sbr. fylgiskjal 60 að fjárhæð 135.744.698 krónur

Framangreindar fjárhæðir séu samtals að fjárhæð 566.329.682 krónur og þar af nemi kröfur vegna tímabilsins 25. júlí 2005 til 22. febrúar 2007, samkvæmt liðum 2-6 419.448.608 krónum.  Kröfugerð sína varðandi ofangreindar greiðslur virðist stefnandi reisa á því að hann hafi á hinum tilgreindu dagsetningum í stefnu og dóm­skjali nr. 3 áður innt af hendi summugreiðslur í peningum eða að skuldajöfnuði vegna virðisaukaskattsinneignar hafi verið beitt og beri að heimfæra þær greiðslur undir við­bótar­skilagreinar vegna staðgreiðslu launa sem hann hafi skilað vegna desember­mánaðar 2003 í janúar 2006 og viðbótarskilagreinar vegna desember­mánaðar 2004 sem hann hafi skilað í ágúst 2006 og þær hafi leyst áætlanir af hólmi.

Stefnandi haldi því fram að vegna ársins 2003 hafi hann á árinu 2004 greitt með skuldajöfnuði hinn 5. febrúar 2004 49.282.379 krónur og 15. október 2004 53.396.079 krónur, með peningum 18. ágúst og 22. september 2004 75.000.000 króna í hvort sinn og 27. október 2004 29.513.806 krónur.  Þá hafi hann greitt vegna ársins 2004 á árinu 2005, nánar tilgreint 25. júlí, 10. ágúst, 23. ágúst og 20. september 50.000.000 króna í hvert sinn eða samtals 200.000.000 króna.  Þá hafi hann greitt 186.026.789 krónur 22. janúar 2006 og 184.703.446 krónur 22. febrúar 2006. 

Hinn 17. janúar 2006 hafi stefnandi þannig skilað inn til skattyfirvalda þremur skila­greinum vegna desember 2003 og nemi fjárhæð skilagreina vegna Select og Nett að höfuðstól samtals 122.151.337 krónum en vegna eigin starfsmanna 112.678.244 krónum. Á grundvelli þeirra stilli stefnandi upp hlutfallsgreiðslum milli sín og starfs­mannaleiganna sem hann heimfæri undir greidda staðgreiðslu vegna ársins 2003, sbr. lið 1 hér að framan.  Sundurliðaður listi yfir þá sem endurgreiðslukrafa taki til fylgi ekki með stefnu.

Þá hafi stefnandi skilað inn einni sameiginlegri skilagrein 27. ágúst 2006 vegna desember 2004 að fjárhæð 375.646.538 krónur.  Kveði stefnandi hlutdeild eigin starfs­manna í henni vera kr. 99.571.419.  Til stuðnings því að hlutdeild starfsmanna Select og Nett sé að fjárhæð 276.075.119 krónur fylgi listi yfir portúgalska starfsmenn þar sem fram komi heildarlaun, viðbótarlaun, viðbótarlífeyrissjóður og viðbótarstað­greiðsla.  Með sama hætti og að ofan stilli stefnandi upp hlutfallsgreiðslum milli sín og starfsmannaleiganna sem hann heimfæri undir greidda staðgreiðslu vegna ársins 2004 sbr. liði 2 til 6 hér að framan.

Höfuðstóll áætlaðrar staðgreiðslu starfsmanna tímabilið júlí-desember 2003 sam­kvæmt tveimur úrskurðum skattstjóra hafi verið samtals að fjárhæð 179.555.570 krónur en hafi verið lækkaður vegna þess tímabils í úrskurði yfirskattanefndar vegna niðurfellingar áætlunar vegna portúgalskra starfsmanna starfsmannaleiganna í júlí og ágúst í 157.416.355 krónur.  Höfuðstóll vegna janúar 2004 hafi verið 43.500.000 krónur en hafi verið lækkaður í úrskurði yfirskattanefndar í 35.000.000 krónur og skyldi álag í báðum tilvikum lækka til samræmis.

Viðurkenni stefnandi að hafa verið í verulegum vanskilum með staðgreiðslu vegna eigin starfsmanna vegna áranna 2003 og 2004 eða samtals að fjárhæð um rúmlega 212.000.000 króna á sömu tímabilum og hann færi undir í kröfugerð ætlaða greiðslu staðgreiðslu vegna starfsmanna starfsmannaleiganna.  Málatilbúnaður stefnanda vegna þessa tímabils byggist á því að tiltekið fast hlutfall greiðslna á hvoru ári tilheyri portúgölsku starfsmannaleigunum Select og Nett og fari stefnandi fram á endur­greiðslu eins og um væri að ræða staðgreiðsluskil.  Hvergi liggi fyrir í gögnum málsins hvernig þessi hlutföll séu fundin.  Auk þess sé misræmi í tölum vegna ársins 2004 milli þeirra gagna sem fylgt hafi stefnu og þeirra sem fylgt hafi bréfi lögmanns stefnanda og fylgiskjölum til fjármálaráðuneytisins 23. október 2007.  Séu engar forsendur til þess að líta svo á að staðgreiðsluskil eigi að skiptast í ákveðnum hlut­föllum milli starfsmannahópa og því síður að sama hlutfall eigi við frá einum tíma til annars innan viðkomandi árs heldur eigi þau að byggjast á raunverulegum launa­greiðslum til tiltekins starfsmanns í tilteknum mánuði.  Um sé að ræða áætlun fyrir erlenda starfsmenn stefnanda sjálfs og starfsmannaleiganna, áætlun sem sé ekki beint tengd Select eða Nett eða einstökum starfsmönnum.

Virðist stefnandi líta svo á að greiðsluskil að aflokinni álagningu sé greiðsla á staðgreiðslu.  Sú sé hins vegar ekki raunin því staðgreiðsla verði aldrei annað en bráðabirgðagreiðsla upp í endanlega álagðan tekjuskatt.  Í því sambandi þurfi einnig að hafa í huga að álagning gjalda hafi verið gerð á viðkomandi starfsmenn, þannig að samkvæmt því hafi myndast krafa á starfsmennina.  Hér hafi ekki verið um hefð­bundin staðgreiðsluskil að ræða, sem byggist á fjárhæðum sem haldið hafi verið eftir eða halda hafi átt eftir af launum starfsmanna.  Því verði að líta svo á að hér sé um að ræða innborganir inn á opinber gjöld þar sem eiginleg staðgreiðsluskil hafi ekki farið fram með tilvísun í kennitölur og launafjárhæðir.

Erlendir starfsmenn stefnanda og starfsmannaleiganna hafi skilað skattframtölum vegna áranna 2003 og 2004 með aðstoð frá starfsmönnum stefnanda, og hafi endanleg skattálagning verið byggð á þessum framtölum.  Í framkvæmdinni hafi starfsmennirnir ekki verið krafðir um greiðslu skatta, heldur hafi stefnandi tekið að sér að greiða skattana að fullu.  Skattálagningin hafi hins vegar verið gerð á nöfn viðkomandi starfsmanna.  Álagning vegna ársins 2003 hafi legið fyrir á árinu 2005.  Álagning vegna ársins 2004 hafi legið fyrir á árinu 2006.  Eftir að álagning hafi legið fyrir hafi verið framkvæmt lokauppgjör sem byggst hafi á þessum framtalsskilum.  Við uppgjör á sköttum starfsmanna, sem byggst hafi á álagningu samkvæmt skattframtölum, virðist framkvæmdin hafa verið sú að draga innborganir vegna staðgreiðslu frá heildar­fjárhæð álagningarinnar. 

Sú aðferð hafi verið notuð að keyra saman álagningu og staðgreiðsluskil inn á kennitölu löngu eftir að allir frestir til álagningar opinberra gjalda hafi verið liðnir.  Af henni sjáist glöggt að það ferli hafi verið verulega frábrugðið því álagningarferli sem tekjuskattslögin geri ráð fyrir varðandi launagreiðslur vegna áranna 2003 og 2004.  Þannig hafi álagning vegna launa sem greidd voru á árinu 2003 til starfsmanna Select og Nett ekki farið fram fyrr en á árinu 2005 og hafi raunar ekki verið alveg lokið fyrr en í ársbyrjun 2006, eða hinn 27. janúar 2006, þegar álagning vegna viðbótar­skilagreina vegna 2003 hafi verið færð inn á reikning stefnanda hjá tollstjóranum í Reykjavík.  Samsvarandi álagning vegna launa sem greidd voru á árinu 2004 hafi síðan ekki farið fram fyrr en á árinu 2006.  Að lokinni álagningu hafi framkvæmdin verið sú að starfsmennirnir hafi ekki verið krafðir um greiðslu skatta heldur hafi stefnandi tekið að sér að greiða skattana að fullu, þó svo að skattálagningin hafi verið gerð á nöfn viðkomandi starfsmanna.  Áður en gengið hafi verið frá uppgjöri á álagningu hafi innborguð staðgreiðsla í heild verið dregin frá heildarálagningu tekjuskatts og útsvars að frádregnum persónuafslætti.  Hafi stefnandi síðan annast uppgjörið ef mismunur myndaðist.

Hafi stefnandi tekið að sér að greiða upp skattskuldir einstaklinganna að aflokinni álagningu, og verði ekki betur séð en að þær greiðslur séu þær greiðslur sem stefnandi geri kröfu til að endurgreiddar verði eins og um staðgreiðsluskil hafi verið að ræða. Ekkert bendi til þess að þar sé um eiginlega staðgreiðslu að ræða heldur hafi verið um að ræða uppgjör á endanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars á umrædda starfsmenn, sem stefnandi beri ábyrgð á sem vinnuveitandi og greiðandi leigugjalds til starfs­manna­leiganna samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Upplýsingar frá tollstjóranum í Reykjavík sýni að stefnandi hafi einnig vegna gjaldáranna 2006 og 2007 annast skil á mánaðarlegum afdrætti vegna neikvæðrar greiðslustöðu þessara starfsmanna.

Verði ekki fallist á að framangreind sjónarmið leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda sé á þeim byggt til stuðnings kröfu um lækkun stefnukrafnanna.  Krafa um stórkostlega lækkun stefnukrafnanna sé í fyrsta lagi byggð á hlutdeild stefnanda í staðgreiðsluskyldu þar sem skylt var að tryggja að starfsmennirnir nytu íslenskra lágmarkslauna auk fæðishlunninda.  Fyrirliggjandi gögn bendi til þess að verulegur munur hafi verið á portúgölskum launum og íslenskum lágmarkslaunum og skilaskyld staðgreiðsla samkvæmt því fyrst og fremst stafað af staðgreiðsluskyldu stefnanda sjálfs vegna launa starfsmanna hinna portúgölsku starfsmannaleiga.

Kröfum stefnanda vegna áranna 2003 og 2004 að fjárhæð 566.329.684 krónur sem feli í sér greiðslur innborgana upp í, eða til uppgjörs, álagningar opinberra gjalda sé mótmælt og krafist sýknu af þeim.  Til vara sé þeim mótmælt sem of háum og krafist lækkunar þeirra.  Í því sambandi sé vakin athygli á því að inni í greiðslum vegna ársins 2003 séu innifaldar greiðslur vegna tryggingagjalds að fjárhæð 32.331.828 krónur og beri að lækka kröfuna sem því nemi.  Þá sé þess krafist að greiðslur vegna áranna 2003 og 2004 gangi fyrst inn á skuldastöðu stefnanda sjálfs sem hafi verið að höfuðstól upp á rúmlega 212.000.000 króna.

Stefndi byggir á því að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda vegna staðgreiðslna 2005-2007 sem stefnandi hafi innt af hendi á grundvelli þess umboðs, sem starfsmannaleigurnar hafi fengið honum.  Þá sé því mótmælt að stefnandi geti átt nokkurn rétt til að fá endurgreiddar þær greiðslur sem greiddar hafi verið í febrúar til maí 2005 vegna launa í janúar til apríl.  Á umræddu tímabili hafi fulltrúi starfsmannaleiganna Nett og Select, endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse­Coopers, mánaðarlega greitt til tollstjóra fjárhæðir sem numið hafi reiknaðri staðgreiðslu fyrir starfsmenn Select og Nett.  Greiðslurnar hafi verið gerðar á kennitölum Select og Nett.  Þær fjárhæðir, samtals að fjárhæð 69.964.365 krónur, hafi síðan verið bakfærðar af viðskiptareikningum Select og Nett hjá innheimtumanni og fluttar inn á viðskiptareikning stefnanda hjá sama innheimtumanni að beiðni umboðsmanns þeirra 31. júlí 2006.  Innheimtumaður ríkisins hafi framkvæmt þessa millifærslu 27. október sama ár.  Stefnandi eigi ekki endurkröfurétt vegna umræddra greiðslna, þar sem Select og Nett en ekki stefnandi hafi staðið skil á umræddri staðgreiðslu.  Engu skipti þótt stefnandi kunni að hafa lagt út fyrir umræddri fjárhæð fyrir hönd Select og Nett.

Þá sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stofnað gæti til skaðabótaskyldu stefnda að lögum og beri alfarið að sýkna stefnda af öllum kröfum á því byggðu.

Þá sé kröfum stefnanda um almenna vexti á grundvelli 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 mótmælt. Standist ekki að stefnandi geti grundvallað endurgreiðslukröfu sína á ákvæðum laga nr. 29/1995.  Ekkert liggi heldur haldbært fyrir um ofgreiðslu stefnanda vegna einstakra tímabila.  Um rétt til einhverra almennra vaxta á grundvelli reglna fjármunaréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár sé ekki að ræða.  Þá sé upphafstíma dráttarvaxta mótmælt og þess krafist að þeir miðist við ekki fyrra tímamark en dómsuppsögu.

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefndi til 1., 3., 92., 112., 115. og 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 1. 2., 3., 5., 7., 9., 20., 22. og 34. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

V

Eins og fram er komið snýst meginágreiningur í máli þessu um hvort stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð meintrar staðgreiðslu sem stefnandi hefur greitt tollstjóranum í Reykjavík vegna launa portúgalskra starfsmanna sem ráðnir voru til starfa við Kárahnjúkavirkjun fyrir milligöngu portúgölsku starfsmannaleiganna Select og Nett.  

Í lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda er skylda, til að standa skil á staðgreiðslu, lögð á launagreiðanda eða þann sem annast milligöngu á launagreiðslum.  Ljóst er af gögnum málsins að skattyfirvöld byggðu umdeilda staðgreiðsluskyldu stefnanda á því að hann væri launagreiðandi hinna portúgölsku starfsmanna. 

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2006 verður að líta til ákvæða í samningi stefnanda við starfsmannaleigurnar við úrlausn á því álitaefni hver teljist launagreiðandi hinna portúgölsku starfsmanna.  Kemur fram í dómi Hæstaréttar að af ákvæðum í samningi þessara aðila sé ljóst að kjör starfsmannanna ráðist fyrst og fremst af þeim ráðningarsamningi sem starfsmanna­leigan geri við hvern þeirra.  Á grundvelli upplýsinga frá stefnanda, meðal annars um unnar vinnustundir, skuli starfsmannaleigurnar reikna og greiða lögboðin gjöld af launum og annast greiðslur á launum til starfsmannanna. Var það niðurstaða Hæstaréttar að það væru starfs­mannaleigurnar sem önnuðust launagreiðslur til hinna útleigðu starfsmanna en milli­ganga stefnanda hafi lotið að því að leggja til nauðsynlegar upplýsingar til útreiknings launanna en stefnandi ljái ekki atbeina sinn að útborgun þeirra. 

Með þessari niðurstöðu Hæstaréttar var því slegið föstu að starfsmannaleigurnar Select og Nett töldust almennt launagreiðendur hinna útleigðu portúgölsku starfs­manna, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1987.  Samkvæmt þessu er ljóst að stefnanda bar því almennt ekki skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þeirra starfsmanna sem málið varðar, hvorki vegna þess tímabils sem úrskurður yfirskattanefndar í máli nr. 95/2005 tók til né annarra tímabila, enda ekkert fram komið í málinu sem bendir til annars en að starfsmannaleigurnar hafi ávallt reiknað út launin og greitt þau út.

Stefndi heldur því fram að samningssamband stefnanda við starfsmannaleigurnar hafi verið slíkt að ekki sé annað að sjá en að stefnanda hafi borið að skila staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna ýmist í umboði starfsmannaleiganna eða vegna eigin kostnaðar. 

Eins og rakið hefur verið gerði stefnandi samning við starfsmanna­leigurnar og Alþýðusamband Íslands um að greiða hinum portúgölsku starfsmönnum þann mun sem í hverjum mánuði kynni að vera á nettó fjárhæð launa samkvæmt virkjunar­samningi og launum samkvæmt ráðningarsamningi starfsmannsins við portúgölsku starfsmannaleiguna.  Með fyrrgreindum dómi Hæsta­réttar var því einnig slegið föstu að stefnandi væri launagreiðandi hinna portúgölsku starfsmanna að því er varðar greiðslu á þeirri fjárhæð sem nemur mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum og væri honum skylt að standa skil á staðgreiðslu af þeim mun. 

Stefndi byggir á því að ósannað sé að staðgreiðsla sú sem skilað var vegna portúgalskra starfsmanna hafi stafað af öðrum launagreiðslum en þeim sem stefnandi hafi sjálfur borið ábyrgð á til að tryggja íslensk lágmarkskjör og vegna fæðis­hlunninda.  Hafi stefnandi ekki hnekkt því að ekkert bendi til að af hinum portúgölsku launum sem nýttu persónuafsláttinn hafi stofnast til staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars svo neinu nemi.  Stefndi kveður að samkvæmt launaseðlum sem ríkis­skattstjóri hafi undir höndum verði ráðið að verulegt misræmi kunni að vera milli íslenskra lágmarks­launa og portúgalskra launa og vísar um það til bréfs ríkisskattstjóra til fjármála­ráðuneytis 27. mars 2008 þar sem meðal annars kemur fram að líklegt þyki að allnokkur mismunur kunni að vera á launakjörum samkvæmt virkjunarsamningi og launum í Portúgal.   Þessum vangaveltum ríkisskattstjóra til stuðnings hefur stefndi lagt fram yfirlit yfir það sem hann kallar samanburð á portúgölskum heildarlaunum starfsmanns Nett, Valter Rodrigues Da Silva, og íslenskum launum á tímabilinu desember 2003 til maí 2004.  Byggir yfirlit þetta á portúgölskum launaseðlum og íslenskum og eru portúgölsku launin reiknuð út frá genginu 87,9999 krónur á tímabilinu desember til febrúar en 88 krónur á tímabilinu mars til maí og eru heildarlaun beggja launaseðlanna borin saman.  Í umræddum samningum stefnanda við starfsmannaleigurnar og Alþýðu­samband Íslands er talað um að stefnandi beri kostnað af þeim mun sem sé á nettó launum samkvæmt virkjanasamningi og launum samkvæmt ráðningarsamningi.  Við útreikning nettófjárhæðar launa skuli fyrst reikna margfeldi unninna vinnustunda og umsaminna tímalauna samkvæmt virkjana­samningi og frá þeirri niðurstöðu skuli síðan draga sem samsvari 4% iðgjaldi í lífeyrissjóð, 1% stéttarfélagsgjaldi svo og reiknaða staðgreiðslu opinberra gjalda að teknu tilliti til persónuafsláttar.  Í samanburði sínum gerir stefndi ekki ráð fyrir þessum frádrætti.  Þá verður ekki af gögnum málsins ráðið svo óyggjandi sé hvort portúgölsku launin eigi að sæta frádrætti þegar meta á hvort íslensku launin séu hærri en þau portúgölsku og ef svo er þá hvaða frádrætti.  Við skoðun á þeim gögnum sem stefnandi byggir fyrrgreindan samanburð sinn á er ljóst að ef miðað er við portúgölsk heildarlaun starfsmannsins á tilgreindum tíma eru íslensku nettó launin í öllum tilvikum lægri.  Ef frádráttarliðir á portúgölsku launaseðlunum, sem virðast allir vera vegna skatta, eru dregnir frá og þannig borin saman nettólaun í báðum tilvikum eru íslensku launin í tveim tilvikum ívið lægri en hin portúgölsku í fjórum tilvikum.   Með vísan til þess að óljóst er hvort portúgölsku launin eigi að sæta frádrætti við samanburðinn verður ekkert af gögnum þessum ráðið um staðgreiðsluskyldu stefnanda vegna viðbótar­greiðslna á grundvelli samninga hans og Alþýðusambands Íslands.

Þá liggur fyrir í málinu dómur Hæstaréttar í máli nr. 267/2006 í máli vegna kröfu Antonio Augusto Moteiro á hendur stefnanda vegna vangoldinna launa.  Umræddur starfsmaður vann við Kárahnjúkavirkjun og var ráðinn til starfsins í gegnum Select og vann hann frá 27. febrúar til 7. júní 2004 eða rúma þrjá mánuði.  Í samræmi við fyrrgreinda samninga stefnanda við starfsmannaleigurnar var það niðurstaða Hæstaréttar að íslensk nettólaun starfsmannsins hafi verið hærri á þeim tímabilum sem laun starfsmannsins náðu til, þ.e. frá 27. febrúar 2004 til 22. mars, frá 23. mars til 22. apríl, frá 23. apríl til 22. maí og frá 23. maí til 7. júní og var stefnandi dæmdur til að greiða starfsmanninum rúmar 84.000 krónur ásamt dráttarvöxtum.  Í málinu liggur ekki fyrir hvort aðilanum hafi borið að greiða staðgreiðslu skatta af þessari viðbót að teknu tilliti til heildarlauna og persónuafsláttar.  Þá liggja fyrir í málinu gögn um að ekki hafi verið gert upp við aðilann á grundvelli dómsins.  Af dómi þessum verður þannig ekkert ráðið um staðgreiðsluskyldu stefnanda vegna umræddra viðbótargreiðslna.  Enn síður er ljóst um fjárhæðina sem hugsanlega kæmi þá til frádráttar dómkröfum hans.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir stefndi ekki hafa lagt fram haldbær gögn um að staðgreiðsla sú sem stefnandi hefur greitt vegna portúgalskra starfsmanna starfsmannaleiganna hafi stafað af launagreiðslum sem hann bar sjálfur ábyrgð á.  Verður stefndi að bera hallann af þeim sönnunar­skorti.  Verður stefndi því hvorki sýknaður af kröfum stefnanda né fallist á varakröfu hans um lækkun á þessum forsendum.

Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnandi hafi skilað staðgreiðslu fyrir hönd starfsmannaleiganna Select og Nett og í umboði þeirra.  Byggir stefndi meðal annars á því að í bréfi PricewaterhouseCoopers frá 18. maí 2005, umboðsaðila starfsmannaleiganna Select og Nett, þar sem komi fram að starfsmannaleigurnar fallist á að stefnandi standi í eigin nafni en fyrir þeirra hönd skil á staðgreiðslu tekjuskatts portúgalskra starfsmanna.  Í bréfi þessu kemur einnig fram að því miður hafi ríkis­skattstjóri ekki fallist á að taka starfsmannaleigurnar á launagreiðendaskrá og að þeim sé kunnugt um efni úrskurðar yfirskattanefndar þar sem lagt sé til grundvallar að stefnandi sé hinn eiginlegi launagreiðandi umræddra starfsmanna þeirra.  Þær séu hins vegar ekki sammála því.  Þá sé þeim kunnugt um að stefnandi muni að öllum líkindum höfða mál til að fá framangreindri niðurstöðu hnekkt.  Af þessu verður ekki annað ráðið en að starfsmannaleigurnar beygi sig undir ákvörðun skattyfirvalda en ekki að starfsmannaleigurnar séu að gefa stefnanda umboð og með því umboði verði stefnandi ábyrgur fyrir staðgreiðslunni.

Þá má af málatilbúnaði stefnda ráða að hann telji að aðferðir stefnanda við að færa umræddar greiðslur í bókhaldi sínu sýni fram á að stefnandi hafi verið að greiða í umboði starfsmannaleiganna.  Ekki verður séð að sú aðferð sem stefnandi beitti við að reikningsfæra umræddar greiðslur í bókum sínum sé á nokkurn hátt óeðlileg eða til þess fallin að renna stoðum undir þær fullyrðingar að stefnandi hafi í raun greitt umræddar greiðslur í umboði starfsmannaleiganna.  Hafi stefnandi talið sig vera að greiða staðgreiðslu vegna starfsmanna í umboði starfsmannaleiganna, hefði hann átt að láta viðskiptakröfu á hendur starfsmannaleigunum standa óbreytta.  Það gerði hann ekki heldur samþykkti viðbótarreikninga frá starfsmannaleigunum vegna stað­greiðsl­unnar til þess að eignfæra ekki óvissa kröfu í bókum sínum.

Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi mótmælti því frá upphafi að honum bæri að greiða staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna sem ráðnir voru af hálfu Select og Nett.  Þá liggur fyrir að stefnanda var gert skylt með úrskurðum skatt­yfirvalda að greiða staðgreiðslu vegna launa hinna portúgölsku starfsmanna.  Einnig var stefnanda gert að greiða álag vegna síðbúinna framtalsskila.  Eftir að úrskurður yfir­skatta­nefndar í máli 95/2005 lá fyrir gerði stefnandi samkomulag við ríkisskattstjóra um að greiða staðgreiðsluna áfram af launum hinna portúgölsku starfsmanna þar til niðurstaða væri fengin í málinu fyrir dómi.  Vegna samkomulagsins hafði ríkisskatt­stjóri gefið stefnanda vilyrði fyrir niðurfellingu á álagi og með bréfi 1. ágúst 2007 felldi hann niður álag vegna gjaldskyldra launa áranna 2003 og 2004.  Í samræmi við samkomulag þetta greiddi stefnandi staðgreiðsluna þar til Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í september 2007.  Af þessu er ljóst að stefnandi hafði ekki um annað að velja en að standa skil á staðgreiðslunni enda höfðu þar til bær skattayfirvöld úrskurðað um greiðsluskyldu hans og samkomulag það sem hann gerði við ríkisskattstjóra byggðist á því að yfirskattanefnd hafði komist að þeirri niðurstöðu að honum bæri að greiða umdeilda staðgreiðslu.  Verður því ekki fallist á það að stefnandi hafi tekið að sér að greiða umdeilda staðgreiðslu í umboði starfsmannaleiganna.

Þá er til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda hvílir sama skylda á milligöngumanni og hvílir á launagreiðanda varðandi skil og greiðslur samkvæmt lögunum ef milligöngumaðurinn annast launa­greiðslur. Fyrir liggur að milliganga stefnanda fólst í því að leggja til nauðsynlegar upplýsingar til útreiknings launanna en ekki að ljá atbeina sinn að útborgun þeirra.

Stefndi byggir á því að staðgreiðsla sé ekki annað en bráðabirgðagreiðsla upp í endanlega álagðan tekjuskatt.  Hafi ekki verið um að ræða hefðbundin staðgreiðsluskil sem byggi á fjárhæðum sem haldið hafi verið eftir eða átt að halda eftir af launum starfsmanna.  Hafi því verið um að ræða innborganir inn á opinber gjöld þar sem staðgreiðsluskil hafi ekki farið fram með tilvísun í kennitölur og launafjárhæðir.  Stefnandi hafi tekið að sér að greiða upp skattskuldir einstaklinganna að lokinni álagningu.  Ekkert bendi til að hér sé um eiginlega staðgreiðslu að ræða heldur hafi verið um að ræða uppgjör á endanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars á umrædda starfsmenn sem stefnandi beri ábyrgð á sem vinnuveitandi samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Af gögnum málsins má ráða að stefnandi og starfsmannaleigurnar hafi ávallt leitast við að greiða staðgreiðslu með reglubundnum hætti.  Í þeim tilvikum sem um óreglulegar greiðslur var að ræða, byggðist það ávallt á úrskurðum skattyfirvalda.  Umræddir úrskurðir kveða í öllum tilvikum á um staðgreiðslu eða leiðréttingu á staðgreiðslu.  Í gögnum málsins hefur jafnframt komið fram að hinir portúgölsku starfsmenn fengu aðstoð stefnanda við framtalsskil þannig að unnt væri að ákvarða endanlega skatta þeim til handa.  Áðurnefnd staðgreiðsla var síðan færð á móti álagningu og mismunurinn gerður upp.  Að þessu virtu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að hinar óreglulegu greiðslur hafi verið staðgreiðsla.  Ekki er því fallist á að stefnandi beri sjálfur ábyrgð á greiðslunum á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis laga um tekjuskatt.

Stefndi gerir athugasemdir við þá aðferð sem notuð er við útreikning á kröfugerð stefnanda að staðgreiðsluskil geti byggst á tilteknu föstu hlutfalli og heldur því fram að hvergi liggi fyrir í gögnum málsins hvernig þessi hlutföll séu fundin.  Séu engar forsendur til þess að staðgreiðsluskil eigi að skiptast í ákveðnum hlutföllum milli starfsmannahópa og að sama hlutfall eigi við frá einum tíma til annars innan við­komandi árs heldur eigi þau að byggja á raunverulegum launagreiðslum til tiltekins starfsmanns í tilteknum mánuði.  Samkvæmt gögnum málsins fór ríkisskattstjóri fram á það eftir fund með stefnanda 17. maí 2005 að stefnandi leiðrétti framtalsskil vegna tímabilsins ágúst 2003 til janúar 2004 í samræmi við launabókhald stefnanda, fyrir ítalska starfsmann annars vegar og starfsmenn starfsmannaleiganna hins vegar.  Var þetta gert með þremur skilagreinum merktum „tímabil 12-2003“ ein fyrir ítalska starfsmenn, önnur fyrir starfsmenn Select og sú þriðja fyrir starfsmenn Nett.  Þessar skilagreinar voru færðar inn í bækur tollstjórans í Reykjavík 18. janúar 2008 en engar greiðslur fylgdu þessum skilagreinum.  Með þessu var hinum óreglulegu greiðslum skipt upp milli ítalskra starfsmanna, starfsmanna Select og starfsmanna Nett í sömu hlutföllum og skilagreinarnar fyrir sama tímabil samkvæmt launabókhaldi stefnanda.  Þykir stefnandi hafa sýnt fram á hvernig það kom til að fast hlutfall var notað til að skipta óreglulegum greiðslum vegna staðgreiðslu.  Byggðist hlutfallið í öllum tilvikum á launabókhaldi stefnanda og starfsmannaleiganna og var gert að ósk skattyfirvalda.  Því er ekki fallist á sjónarmið stefnda um að engin gögn hafi legið til grundvallar hlutfallsskiptingu staðgreiðsluunnar eða að engar forsendur séu til þess að staðgreiðsluskil skiptist í ákveðnum hlutföllum, eins og gert var varðandi hinar óreglulegu greiðslur. 

Að framangreindu virtu þykir ljóst að umdeildar greiðslur stefnanda voru lögboðin staðgreiðsla.

Áður hefur verið komist að því að hafna beri því að krafa stefnanda eigi að sæta lækkun á grundvelli hlutdeildar stefnanda í staðgreiðsluskyldu.  Stefndi krefst þess einnig að hann verði sýknaður af þeim hluta kröfu stefnanda sem lýtur að greiðslum vegna áranna 2003 og 2004 að fjárhæð 566.329.684 krónum, hinna svokölluðu óreglulegu greiðslna að því er virðist á þeim forsendum að þetta séu innborganir upp í eða til uppgjörs álagningar opinberra gjalda.  Eins og rakið hefur verið byggðust staðgreiðsluskil stefnanda annars vegar á reglubundnum skilagreinum, svokallaðar reglulegar greiðslur, og hins vegar á því að stefnandi var skyldaður til að greiða tiltekna staðgreiðslu með úrskurðum skattyfirvalda og var þá samið við innheimtumenn um greiðslu skuldarinnar, svokallaðar óreglulegar greiðslur.  Með vísan til þess sem að framan er rakið, hefur því verið slegið föstu að hinar óreglulegu greiðslur séu staðgreiðsluskattar, verður stefndi ekki sýknaður af þessum hluta krafnanna.  Engin haldbær gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnda sem sýna fram á að lækka beri kröfuna.

Þá krefst stefndi lækkunar á þeim forsendum að tryggingargjald að fjárhæð 32.331.828 krónur sé innifalið í greiðslum vegna ársins 2003.  Þessi krafa stefnda er engum gögnum studd og verður því ekki fallist á að tilefni sé til að lækka kröfur stefnanda á þeim forsendum. 

Hvað snertir þá kröfu stefnda að greiðslur vegna áranna 2003 og 2004 gangi fyrst inn á skuldastöðu stefnanda sjálfs sem hafi verið að höfuðstól upp á rúmar 212.000.000 króna.  Verður að telja að sú krafa sé engum haldbærum rökum studd.  Hefur stefndi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til skuldajafnaðar vegna meintrar skuldar stefnanda og ber því að hafna þessari kröfu stefnda.

Þá byggir stefndi varakröfu sína um lækkun á því að í kröfum stefnanda séu innifaldar greiðslur sem starfsmannaleigurnar Select og Nett hafi sjálfar staðið skil á í febrúar til maí 2005 vegna launa í janúar til apríl samtals að fjárhæð 69.964.365 krónur.  Þessu til stuðnings vísar stefnandi til dómskjals 54 sem er bréf tollstjórans í Reykjavík 28. mars 2008 til fjármálaráðuneytis og varðar umsögn tollstjóra í tilefni af máli þessu.  Í því bréfi kemur fram sú skoðun tollstjóra að greiðslur þær sem starfsmannaleigurnar greiddu á grundvelli þeirra skilagreina sem þær skiluðu væri ekki innifaldar í endurgreiðslukröfum stefnanda.  Engin önnur gögn liggja fyrir því til staðfestu að greiðslur Select og Nett séu innifaldar í kröfum stefnanda um endurgreiðslu og verður því ekki fallist á lækkun dómkrafna stefnanda á þessum forsendum.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er ljóst að stefnanda bar ekki að greiða umræddar greiðslur heldur var hann skyldaður til þess af skattyfirvöldum án lagaheimildar.  Hefur stefnandi því ofgreitt stefnda fjárhæðir, sem kröfugerð stefnanda er byggð á og ber því að dæma stefnda til að endurgreiða stefnanda þær, enda hefur stefnandi fært viðhlítandi röksemdir og gögn fyrir því hvenær umræddar greiðslur fóru fram og hver fjárhæð þeirra var hverju sinni. 

Stefndi byggir á því að umdeildar greiðslur stefnanda á staðgreiðslu sé ekki skattur eða gjöld í skilningi 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.  Sé staðgreiðslan sem slík skattur á launamanninn en ekki á þann sem skylt sé að standa skil á henni heldur skilafé í hendi hans sem honum beri að standa skil á.  Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1995 skulu stjórnvöld, sem innheimta skatta og gjöld, endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum samkvæmt 2. gr.  Í 1. mgr. 2. gr. laganna segir að við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skv. 1. gr. skuli greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001

, um vexti og verðtryggingu, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma sem greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.  Í 2. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skuli greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.  Þykir ljóst að greiðslur þær sem stefnandi var með röngu skyldaður til af skattayfirvöldum að greiða voru opinber gjöld í skilningi fyrrgreindra lagaákvæða og ber stefnda því skylda til að endurgreiða það sem oftekið var.  Verða kröfur stefnanda því teknar til greina eins og þær eru framsettar með þeim vöxtum sem greinir í dómsorði.  Með vísan til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 þykir rétt að krafan beri dráttarvexti frá 25. október 2007 en ágreiningslaust er að þann dag var kröfubréf lögmanns stefnanda móttekið hjá fjár­mála­ráðuneyti.  Þá verður tekin til greina krafa stefnanda um að endurgreiðsla toll­stjóra vegna niðurfellingar á álagi að fjárhæð 60.370.670 krónur sem greidd var 3. ágúst 2007 gangi fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar, þá til greiðslu vaxta og að lokum til lækkunar höfuðstóls, en sú krafa hefur ekki sætt mótmælum.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn  4.000.000 króna.

Af hálfu stefnanda flutti málið Garðar Valdimarsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.

Dóm þennan kveða upp Greta Baldursdóttir héraðsdómari og dómsformaður, Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og Árni Tómasson löggiltur endurskoðandi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið greiði stefnanda, Impregilo S.p.A útibúi á Íslandi, 1.230.708.381 krónu, ásamt vöxtum, sbr. 1. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 8. gr. 1aga nr. 38/2001, af 25.651.478 krónum frá 5. febrúar 2004 til 17. ágúst 2004, af 64.688.978 krónum frá þeim degi til 22. september 2004, af 103.726.478 krónum frá þeim degi til 5. október 2004, af 131.519.137 krónum frá þeim degi til 27. október 2004, af 146.881.073 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 160.744.964 krónum frá þeim degi til 15. mars 2005, af 178.504.308 krónum frá þeim degi til 15. apríl 2005, af 194.559.235 krónum frá þeim degi til 15. maí 2005, af 217.107.102 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2005, af 238.270.390 krónum frá þeim degi til 25. júlí 2005, af 275.017.051 krónu frá þeim degi til 10. ágúst 2005, af 334.875.390 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2005, af 350.298.849 krónum frá þeim degi til 23. ágúst 2005, af 387.045510 krónum frá þeim degi til 15. september 2005, af 408.834.462 krónum frá þeim degi til 20. september 2005, af 445.581.123 krónum frá þeim degi til 17. október 2005, af 468.095.404 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2005, af 490.724.189 krónum frá þeim degi til 15. desember 2005, af 516.488.932 krónum frá þeim degi til 16. janúar 2006, af 533.471.710 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2006, af 544.991.950 krónum frá þeim degi til 15. mars 2006, af 564.111.527 krónum frá þeim degi til 18. apríl 2006, af 583.195.556 krónum frá þeim degi til 15. maí 2006, af 611.236.200 krónum frá þeim degi til 15. júní 2006, af 636.111.100 krónum frá þeim degi til 17. júlí 2006, af 664.731.631 krónu frá þeim degi til 15. ágúst 2006, af 688.439.373 krónum frá þeim degi til 15. september 2006, af 715.537.126 krónum frá þeim degi til 16. október 2006, af 740.856.770 krónum frá þeim degi til 15. nóvember 2006, af 763.627.807 krónum frá þeim degi til 22. nóvember 2006, af 900.345.072 krónum frá þeim degi til 15. desember 2006, af 920.566.496 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2007, af 936.100.083 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2007, af 945.131.069 krónum frá þeim degi til 22. febrúar 2007, af 1.080.875.768 krónum frá þeim degi til 15. mars 2007, af 1.097.650.921 krónu frá þeim degi til 15. apríl 2007, af 1.116.080.209 krónum frá þeim degi til 15. maí 2007, af 1.143.387.486 krónum frá þeim degi til 15. júní 2007, af 1.171.024.929 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2007, af 1.196.334.192 krónum frá þeim degi til 15. ágúst 2007, af 1.214.131.557 krónum frá þeim degi til 17. september 2007, af 1.230.708.381 krónu frá þeim degi til 25. október 2007, og dráttarvöxtum, sbr. 2. mgr. 2. gr. 1aga nr. 29/1995, sbr. 1. mgr. 6. gr. 1aga nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá þeim degi auk vaxtavaxta, sbr. 12. gr. sömu laga, allt til greiðsludags, allt að frádregnum 60.370.670 krónum miðað við stöðu kröfunnar hinn 3. ágúst 2007.

Stefndi greiði stefnanda 4.000.000 króna í málskostnað.