Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/1998
Lykilorð
- Nytjastuldur
- Ölvunarakstur
- Svipting ökuréttar
- Sakhæfi
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 1999. |
|
Nr. 433/1998. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Jónasi Bjarka Gunnarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Nytjastuldur. Ölvunarakstur. Svipting ökuréttar. Sakhæfi. Skilorðsrof.
J var ákærður fyrir að taka bifreið í heimildarleysi og aka henni undir áhrifum áfengis án ökuréttar. Talið var sannað að J hefði brotið gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Var J talinn sakhæfur á þeim tíma sem hann drýgði brot sín. Dómur héraðsdóms um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst sýknu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en að öðru leyti að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þau brot, sem honum voru gefin að sök í ákæru.
Eins og um getur í héraðsdómi sætti ákærði geðrannsókn undir rekstri málsins. Samkvæmt álitsgerð læknis 20. apríl 1998 var ákærði sakhæfur á þeim tíma, sem hann drýgði brot sín. Álitsgerðin gefur hvorki tilefni til að telja ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga eiga við um hagi ákærða né til að mæla fyrir um úttekt refsingar eins og um ræðir í 2. mgr. sömu greinar. Með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, eru ekki efni til að hreyfa við refsiákvörðun héraðsdómara ákærða í óhag. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan kostnað af áfrýjun málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jónas Bjarki Gunnarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 40.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 4. september 1998.
Héraðsdómsmálið nr. S 98/1997 Ákæruvaldið gegn Jónasi Bjarka Gunnarssyni. Ár 1998, föstudaginn 4. september er á dómþingi Héraðsdóms Austurlands, sem háð er í dómssalnum að Lyngási 15, Egilsstöðum, af Loga Guðbrandssyni dómstjóra, kveðinn upp í málinu nr. S 98/1997 svofelldur dómur:
Málið, sem þingfest var 10. desember 1997 og dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi hinn 19. ágúst 1998, er höfðað með ákæru sýslumannsins á Eskifirði, dagsettri 25. nóvember 1997 gegn Jónasi Bjarka Gunnarssyni, kt. 111159-5649, til heimilis að Miðstræti 9a, Neskaupstað fyrir að taka í heimildarleysi, að kvöldi föstudagsins 31. október 1997, fólksbifreiðina KF-801, þar sem bifreiðin stóð mannlaus fyrir utan Hótel Egilsbúð, Egilsbraut 1, Neskaupstað, og aka henni þaðan undir áhrifum áfengis og án ökuréttar, vestur Egilsbraut, Hafnarbraut, Strandgötu og Norðfjarðarveg uns hann var stöðvaður og handtekinn af lögreglunni skammt austan við heimreiðina að bænum Ormsstöðum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/11956, 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu af ákæru um nytjastuld, en til vara að dæmd verði vægasta leyfileg refsing. Krafist er, að ákærði verði dæmdur í vægustu refsingu vegna ákæru um ölvunarakstur.
Þá er þess krafist, að málskostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
Málavextir eru þeir, að kl. 22.00 föstudagskvöldið 31. október 1997 var hringt til lögreglunnar í Neskaupstað frá Egilsbúð og tilkynnt, að búið væri að stela bifreiðinni KF-801 frá Egilsbúð og að trúlegt væri, að ákærði hefði stolið henni. Skömmu síðar barst tilkynning um að ákærði hefði sést aka bifreiðinni vestur Strandgötu á móts við Mána. Lögreglan hóf þá eftirför á tveimur bifreiðum og náðu að stöðva bifreiðina KF-801, rétt austan við heimreiðina að Ormsstöðum. Ákærði, sem var ökumaður bifreiðarinnar var handtekinn og færður á lögreglustöðina.
Í skýrslu lögreglunnar um töku ákærða segir: „Jónas sagðist hafa drukkið tvo bjóra og sagðist hafa stolið bifreiðinni KF-801 frá Egilsbúð og ekið henni frá Egilsbúð og sagðist hafa ætlað að stytta sér leið til Mjóafjarðar...”
Í skýrslu, sem tekin var af ákærða morguninn eftir að hann var handtekinn segir: „Mætti segist muna eftir því að hafa verið stöðvaður af lögreglu, þar sem mætti var að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Mætti segist hafa verið að drekka bjór og vín í Hótel Egilsbúð. Mætti segist hafa verið búinn að drekka eina Vodka flösku fyrr um daginn og eitthvað af bjór. Mætti segist einnig hafa drukkið eitthvað í Egilsbúð um kvöldið. Mætti segist ekki muna á hvaða bíl hann var eða hvernig bifreiðin leit út. Mætti segist viðurkenna það að hafa tekið bifreiðina ófrjálsri hendi og ekið henni undir áhrifum áfengis. Mætti segist ekki muna, hvort hann fann fyrir áfengisáhrifum við aksturinn. Mætti segir að þetta hafi allt verið eins og draumur.”
Í skýrslu ákærða fyrir dómi hinn 13. febrúar s.l. kom fram, að Bylgja Magnúsdóttir hefði heimilað honum að taka hennar bifreið, sem er HÞ-232, og hafi hann tekið KF- 801 í misgripum fyrir þá bifreið.
Vitnið Bylgja Magnúsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og upplýsti, að hún hefði upp úr hádegi hinn 31. október s.l. hefði ákærði komið til hennar og hefði hann beðið um að fá lánaðan bíl hennar og skildist henni að hann ætlaði til Mjóafjarðar. Hún kvaðst hafa verið ófús að lána honum bílinn, en gaf honum þó dræmt jáyrði sitt. Ekki kvaðst hún hafa látið ákærða fá lykla, en bíll hennar hafi staðið allan daginn við heimili hennar. Vitnið sagði, að ákærði hefði verið ódrukkinn og „í lagi” þegar þetta samtal átti sér stað. Hann hafi farið að heiman frá henni og hún hafi ekki séð hann aftur þann dag.
Blóðsýni var tekið úr ákærða og sent til alkóhólákvörðunar og reyndist magn alkóhóls vera 2,53.
Niðurstaða.
Sannað er og viðurkennt af ákærða, að hann tók og notaði bifreiðina KF-801 án heimildar. Ákærði hefur haldið því fram, að hann hafi talið sig vera að taka bifreiðina HÞ-232 eign Bylgju Magnúsdóttur með heimild hennar. Bifreiðar þessar eru líkar að stærð og báðar hvítar að lit, en ekki sömu tegundar. Ákærði nefndi ekki, þegar hann var yfirheyrður af lögreglu hinn 1. nóvember, daginn eftir tökuna, að hann hefði talið sig vera að taka bifreið Bylgju, heldur kom þetta fyrst fram í framburði hans fyrir dómi hinn 13. febrúar s.l. Hefur ákærði ekki sýnt fram á, eða gert líklegt, að hann hafi tekið bifreiðina KF-801 í misgripum fyrir bifreið, sem hann taldi sér heimilt að taka.
Þá er viðurkennt, að ákærði ók bifreiðinni undir áhrifum áfengis og mældist magn alkóhóls 2,53 í blóði hans.
Samkvæmt sakavottorði var ákærði með dómi 19. desember 1995 sviptur ökuleyfi ævilangt. Hefur hann ekki fengið ökuleyfi á ný.
Er þannig sannað, að ákærði hefur framið brot þau, sem honum eru gefin að sök og eru þau rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Undir rekstri málsins var kveðinn upp úrskurður um, að ákærði sætti geðrannsókn og varð niðurstaða Ingólfs Sveinssonar, læknis, að ákærði væri sakhæfur.
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði á árunum 1982 til 1989 sjö sinnum undirgengist sátt fyrir brot gegn 21. gr. áfengislaga og einu sinni sátt fyrir ölvunarakstur, sekt og sviptingu ökuleyfis í 3 mánuði. Þá hlaut ákærði dóm 1985, sekt fyrir ölvunarakstur og var hann þá sviptur ökuleyfi ævilangt frá 6. júní 1985. 1989 hlaut hann dóm, fangelsi 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár fyrir brot gegn 1. mgr. 155., 244. og 259. gr. alm. hegningarlaga. Koma þess atriði ekki til álita við ákvörðun refsingar, að öðru leyti en því, að ákærði er enn sviptur ökuleyfi.
Ákærði var hinn 5. febrúar 1997 dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í fangelsi 2 mánuði, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir brot gegn 244. gr. alm. hegningarlaga. Með broti því, sem fjallað er um í máli þessu, hefur ákærði rofið skilorð þessa dóms. Ber því nú samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955, að dæma ákærða í einu lagi fyrir brot þau, sem fjallað var um í ofangreindum dómi og það brot, sem hér er til meðferðar. Þykir refsing hans með hliðsjón af 77. gr. almennara hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.
Þá hefur ákærði unnið til þess að vera sviptur ökurétti, svo sem krafist er í ákæru og samkvæmt lagaákvæðum þeim, er þar greinir. Ákærði er þegar sviptur þessum rétti, og ber að árétta að svo skuli vera ævilangt.
Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar, hdl. 50.000 krónur og saksóknarlaun til ríkissjóðs 40.000 krónur
Dómsorð:
Ákærði, Jónas Bjarki Gunnarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 50.000 krónur í þóknun til skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar, hdl. og saksóknarlaun til ríkissjóðs 40.000 krónur.