Hæstiréttur íslands

Mál nr. 300/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit


                                              

Föstudaginn 31. maí 2013.

Nr. 300/2013

K

(Guðríður Lára Þrastardóttir hdl.)

gegn

M

(Sveinn Sveinsson hdl.)

Kærumál. Hjón. Fjárslit.

Vegna hjónaskilnaðar fóru fram opinber skipti til fjárslita milli M og K. Í málinu krafðist K þess að við skiptin yrði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 þannig að henni yrði heimilað að taka að óskiptu nánar tilgreinda fasteign, sem hún hafði keypt fyrir stofnun hjúskapar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að framlög M til framfærslu heimilisins og vegna kostnaðar af fasteigninni hefðu ekki numið háum fjárhæðum. Var fallist á það með K að þau hefðu ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu og að meirihluti kostnaðar við rekstur heimilisins hefði sýnilega verið borinn af henni. Þá var ekki hægt að líta svo á að framlög M hefðu leitt til eignaaukningar sem rök stæðu til að taka mið af. Þótt krafa K yrði ekki sérstaklega studd við það að hjúskapurinn hefði staðið stutt, var talið að önnur skilyrði 1. og 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga væru uppfyllt til þess að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna. Var því fallist á kröfu K, enda yrðu skipti að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir hana.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að vikið yrði á þann hátt frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli málsaðilanna að fasteignin [...] í [...], fastanúmer [...]-[...], falli að óskiptu til hennar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Fyrir Hæstarétti gerir sóknaraðili sömu kröfu og áður er getið, auk þess að krefjast málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að öðru leyti en því „að þeim hluta úrskurðar héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfunni um greiðslu húsaleigu að fjárhæð kr. 1.650.000 verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að fjalla um kröfu varnaraðila um greiðslu húsaleigu.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með hinum kærða úrskurði var hluta af kröfu varnaraðila vísað frá dómi. Hann hefur ekki fyrir sitt leyti kært úrskurðinn til Hæstaréttar hvað þann hluta málsins varðar og kemur krafa varnaraðila um greiðslu húsaleigu þegar af þeirri ástæðu ekki til neinna álita í málinu.

I

Málsaðilar gengu í hjúskap í [...] 27. maí 2007 og hófu í kjölfarið sambúð í íbúð sóknaraðila í fjöleignarhúsinu nr. [...] við [...] í [...]. Þau eignuðust eitt barn í hjúskapnum en fyrir átti sóknaraðili annað barn. Sambúðinni lauk rúmlega þremur árum síðar þegar varnaraðili flutti út úr íbúðinni en aðilana greinir á um hvenær það var. Heldur sóknaraðili fram að þau hafi slitið samvistir í nóvember 2010 en varnaraðili kveður sambúðinni hafa lokið 11. mars 2011. Þann 1. apríl sama ár sótti sóknaraðili um skilnað við varnaraðila að borði og sæng. Sú niðurstaða liggur nú fyrir að sóknaraðili fer ein með forsjá beggja barnanna, en í málinu deila aðilarnir um fjárslit við opinber skipti vegna skilnaðar. Krefst sóknaraðili þess að áðurnefnd íbúð falli að óskiptu til hennar á grundvelli 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga, en íbúðin er hjúskapareign hennar sem hún eignaðist tæplega tveimur árum fyrir stofnun hjúskapar aðilanna. Varnaraðili krefst á hinn bóginn helmingaskipta samkvæmt reglu 103. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga má víkja frá meginreglu um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta meðal annars við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar geta frávik frá helmingaskiptum einnig átt sér stað meðal annars þegar annað hjóna hefur með vinnu, fjárframlögum til framfærslu fjölskyldu eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu í skaut. Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að sú aðstaða, sem lýst sé í 104. gr., eigi við í þessu tilviki og því beri að taka kröfuna til greina. Varnaraðili andmælir því að svo sé, en málsástæðum aðilanna er nánar lýst í úrskurði héraðsdóms þar sem niðurstaðan varð sú að kröfu sóknaraðila var hafnað.

II

Sóknaraðili keypti áðurnefnda íbúð 9. ágúst 2005 fyrir 15.000.000 krónur. Þar af greiddi hún 5.000.000 krónur með reiðufé en að öðru leyti efndi hún kaupsamninginn með andvirði láns hjá Landsbanka Íslands hf. Í nærfellt tvö ár stóð hún ein undir greiðslu afborgana og vaxta af fasteignarláninu, en óumdeilt er að á sambúðartímanum greiddi varnaraðili helming vaxta og afborgana á móti henni þótt deilt sé um hvenær greiðsluþátttöku hans lauk. Eftir það hefur hún borið ein þennan kostnað. Sóknaraðili fékk löggiltan fasteignasala til að meta íbúðina til verðs og er verðmat hans dagsett 26. mars 2012. Þar kemur meðal annars fram að húseignin sé í góðu ástandi að utan og nýlega viðgerð. Líklegt söluverð íbúðarinnar taldi hann vera 18.500.000 krónur. Af hálfu varnaraðila hefur verðmati fasteignasalans ekki verið andmælt.

Fyrir héraðsdómi lagði varnaraðili fram færsluyfirlit um greiðslur af tveimur bankareikningum hans inn á reikning sóknaraðila, samtals 3.075.585 krónur. Þessar millifærslur náðu yfir tímabilið frá 6. september 2007 til 7. janúar 2011, en tvær þeirra bárust alllöngu síðar eða í nóvember 2011, samtals 25.000 krónur. Sóknaraðili heldur fram að með þessum greiðslum hafi varnaraðili staðið undir afborgunum og vöxtum af fasteignarláninu að jöfnu á móti henni, en að auki hafi hann greitt vatns- og fráveitugjöld vegna fasteignarinnar. Varnaraðili hafi engin önnur gjöld innt af hendi vegna hennar en þau sem að framan er getið. Þá hafi hann greitt helming kostnaðar af síma, nettengingu og leikskóla og auk þess vátryggingariðgjöld fyrir sína eigin bifreið, en tryggingar fyrir bifreiðir þeirra beggja hafi verið skráðar á hennar nafn. Með þessu sé greiðsluþátttaka hans í rekstri heimilisins upp talin. Sóknaraðili hafi að öðru leyti borið hitann og þungann af heimilisútgjöldum, þar á meðal vegna matarkaupa fyrir sig og dætur sínar, en varnaraðili hafi keypt sinn eigin mat vegna ólíkra matarvenja. Varnaraðili hafi hætt allri greiðsluþátttöku í þágu heimilisins í lok árs 2010. Þá hefur sóknaraðili lagt fram færsluyfirlit af eigin bankareikningum á tímabili sambúðar sem hún telur sýna að nær öllum tekjum hennar hafi verið varið til heimilisþarfa. Áðurnefndar millifærslur af reikningum varnaraðila koma fram á þessum yfirlitum, en einnig eru þar tvær „almennar innborganir“ frá varnaraðila, samtals 81.000 krónur. Sóknaraðili skoraði á varnaraðila fyrir héraðsdómi að sýna fram á að hann hafi að öðru leyti en felst í millifærslum af reikningum hans tekið þátt í heimilisrekstri aðila, svo sem með því að leggja fram færsluyfirlit af eigin reikningum á tímabili sambúðar eins og hún hafi sjálf gert. Varnaraðili varð ekki við þessari áskorun og krefst sóknaraðili að það verið metið honum í óhag. Hann hafi þar með ekki sýnt fram á frekari framlög í þágu heimilisins. Hann hafi á hinn bóginn sent stóran hluta tekna sinna til fjölskyldu sinnar í [...]. Samkvæmt þessu hafi ekki verið um að ræða fjárhagslega samstöðu milli aðilanna á sambúðartímanum, en greiðslur á þeim gjöldum, sem standa þurfti skil á við heimilishaldið, hafi verið í mjög föstum skorðum.

Fram er komið að á árunum 2009 og 2011 voru gerðar endurbætur á húseigninni að [...] á vegum húsfélagsins. Kveðst sóknaraðili af því tilefni hafa greitt 256.800 krónur til húsfélagsins árið 2009 og 1.391.000 krónur árið 2011. Kveður hún varnaraðila engan þátt hafa tekið í greiðslu kostnaðar vegna framkvæmdanna.

Sóknaraðili mótmælir sérstaklega þeirri niðurstöðu héraðsdóms að varnaraðili hafi með fjárframlögum sínum stuðlað að eignarmyndun í nefndri fasteign. Þvert á móti liggi fyrir að frá því hún keypti íbúðina fyrir 15.000.000 krónur hafi eignarmyndun í henni verið neikvæð. Hrein eign sóknaraðila í íbúðinni hafi í upphafi numið 5.000.000 krónum eða einum þriðja hluta af kaupverði hennar. Miðað við verðmat fasteignasala í mars 2012 sé líklegt söluverð hennar 18.500.000 krónur og markaðsverð íbúðarinnar hafi þannig hækkað um 3.500.000 krónur. Á sama tíma hafi áhvílandi lán hækkað samkvæmt greiðsluseðli frá Landsbankanum hf. um 4.584.259 krónur miðað við gjalddaga í mars 2012. Eftirstöðvar skuldabréfsins eftir greiðslu á gjalddaga 15. mars 2012 hafi numið 14.584.259 krónum og því hafi hrein eign hennar í fasteigninni lækkað frá því hún var keypt og engin eignarmyndun hafi orðið í henni gagnstætt því sem byggt sé á í úrskurði héraðsdóms.

Varnaraðili mótmælir að yfirlit um millifærslur af bankareikningum hans hafi að geyma upplýsingar um allar greiðslur sem hann hafi innt af hendi. Þvert á móti hafi hann margoft keypt matvæli, fatnað á börnin og greitt margs kyns annan kostnað í þágu heimilisins. Þannig hafi nánast verið tilviljunum háð hver greiddi breytilegan kostnað hverju sinni. Fyrir Hæstarétti mótmælti hann einnig að sóknaraðili hafi ein staðið straum af kostnaði við áðurnefndar framkvæmdir húsfélagsins árin 2009 og 2011. Hið rétta sé að hann hafi verið „greiddur af fjármunum heimilisins“ eins og það er orðað í greinargerð hans til Hæstaréttar, en fyrir héraðsdómi mótmælti hann ekki staðhæfingu sóknaraðila um að hún hefði ein greitt þennan kostnað. Þá hafi varnaraðili með því að leggja hluta tekna sinn inn í sameiginlegt fjárfélag aðilanna haft áhrif á verðmætasköpun á því tímabili er sambúð þeirra stóð yfir. Hann hafi mátt gera ráð fyrir að hann væri ekki einungis að reka hið sameiginlega fjárfélag heldur einnig að ávaxta fé sitt með því að eignast hlutdeild í íbúðinni. Þá mótmælir hann því að afar takmörkuð fjárhagsleg samstaða hafi verið á milli aðila á hjúskapartímanum.

III

Við úrlausn um kröfu sóknaraðila að vikið verði frá reglu 103. gr. hjúskaparlaga á grundvelli 1. og 2. mgr. 104. gr. sömu laga verður fyrst að líta til þess að sóknaraðili átti áðurnefnda íbúð við stofnun hjúskapar aðilanna þótt meirihluti kaupverðsins hafi verið fenginn að láni sem hvílir enn með veði í íbúðinni eins og að framan var lýst. Sóknaraðili heldur fram að við stofnun hjúskaparins hafi varnaraðili verið eignalaus, sem sá síðarnefndi hefur ekki mótmælt sérstaklega. Samkvæmt framlögðum skattframtölum hefur lítill munur verið á tekjum þeirra á sambúðartímanum.

Málsaðila greinir á um þátttöku varnaraðila í greiðslu kostnaðar af heimilishaldinu. Sóknaraðili hefur lagt fram bankayfirlit um ráðstöfun tekna hennar á sambúðartímanum, en varnaraðili hefur ekki brugðist við áskorun um að gera hið sama. Eins og málið liggur fyrir verður lagt til grundvallar að fjárframlög hans til heimilisins hafi verið þau, sem fram koma í yfirlitum um millifærslur af bankareikningum hans yfir á reikninga sóknaraðila auk þess sem þar koma fram tvær aðrar innborganir. Fyrsta greiðsla varnaraðila var ekki innt af hendi fyrr en í september 2007 og hin síðasta í byrjun janúar 2011 ef undan eru skildar tvær lágar fjárhæðir í nóvember sama ár. Tímabilið frá stofnun hjúskaparins 27. maí 2007 til 1. apríl 2011, þegar sóknaraðili sótti um skilnað að borði og sæng, nær yfir sem næst 46 mánuði. Framlög varnaraðila til heimilisins hafa samkvæmt því numið rúmlega 68.000 krónum á mánuði að meðaltali á því tímabili. Hvað varðar sérstaklega greiðslu kostnaðar af framkvæmdum við endurbætur árið 2011 liggur fyrir yfirlitsblað húsfélagsins um skiptingu kostnaðarins á einstakar íbúðir og hvernig hann skyldi greiddur. Þar kemur fram að greiðslum væri jafnt skipt á sex gjalddaga á tímabilinu frá febrúar 2011 til júlí sama ár. Áður er komið fram að síðasta greiðsla varnaraðila til sóknaraðila var í byrjun janúar 2011 fyrir utan 25.000 krónur í nóvember sama ár. Verður samkvæmt því að leggja til grundvallar að hann hafi ekki tekið þátt í greiðslu þessa kostnaðar.

Framlög varnaraðila til framfærslu heimilisins og vegna kostnaðar af fasteigninni námu ekki háum fjárhæðum. Eins og málið liggur fyrir verður fallist á með sóknaraðila að þau framlög séu ekki til marks um verulega fjárhagslega samstöðu málsaðila. Meirihluti kostnaðar við rekstur heimilisins hefur sýnilega verið borinn af sóknaraðila. Ekki verður fallist á með varnaraðila að unnt sé að líta svo á að framlög hans hafi leitt til eignaaukningar sem rök standi til að taka mið af. Þótt krafa sóknaraðila verði ekki sérstaklega studd við það að hjúskapurinn hafi staðið stutt eru uppfyllt önnur skilyrði 1. og 2. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga, sem áður var getið, svo fallast ber á kröfu sóknaraðila enda yrðu skipti að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir hana. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og nánar segir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, K, og varnaraðila M, vegna hjónaskilnaðar kemur fasteignin [...] í [...], fastanúmer [...]-[...], óskipt í hlut sóknaraðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 550.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2013.

Mál þetta var þingfest 16. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 13. febrúar sl. Sóknaraðili er K, [...], [...] en varnaraðili er M, [...], [...].

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að við fjárslit milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 með vísan til 1. mgr. 104. gr. sömu laga þannig að fasteignin að [...], [...], fastanúmer [...]-[...], falli að óskiptu til sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Varnaraðili krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennd verði 50% eignarhlutdeild varnaraðila í fasteigninni að [...], [...], fastanúmer [...]-[...], og að hvor aðili um sig beri helmings ábyrgð á skuld við Landsbankann hf., sem hvílir á 1. veðrétti fasteignarinnar, upphaflega að fjárhæð 10.000.000 króna, uppreiknað að eftirstöðvum 14.584.259 krónur.

                Þá krefst varnaraðili þess að viðurkennt verði að viðmiðunardagur skipta sé 1. apríl 2011.

                Einnig krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila húsaleigu að fjárhæð 1.650.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ,,af kr. 75.000 frá 1. apríl 2011 til 30. apríl 2011, af 75.000 frá 1. maí 2011 til 31. maí 2011, af 75.000 frá 1. júní 2011 til 30. júní 2011, af 75.000 frá 1. júlí 2011 til 31. júlí 2011, af 75.000 frá 1. ágúst 2011 til 31. ágúst 2011, af 75.000 frá 1. september 2011 til 30. september 2011, af 75.000 frá 1. október 2011 til 31. október 2011, af 75.000 frá 1. nóvember 2011 til 30. nóvember 2011, frá 1. desember 2011 til 31. desember 2011, af 75.000 frá 1. janúar 2012 til 31. janúar 2012, af 75.000 frá 1. febrúar 2012 til 31. [sic] febrúar, af 75.000 frá 1. mars 2012 til 31. mars 2012, af 75.000 frá 1. apríl 2012 til 30. apríl 2012, af 75.000 frá 1. maí 2012 til 31. maí 2012, af 75.000 frá 1. júní 2012 til 30. júní 2012, af 75.000 frá 1. júlí 2012 til 31. júlí 2012, af 75.000 frá 1. ágúst 2012 til 31. ágúst 2012, af 75.000 frá 1. september 2012 til 30. september 2012, af 75.000 frá 1. október 2012 til 31. október 2012, af 75.000 frá 1. nóvember 2012 til 30. nóvember 2012, af 75.000 frá 1. desember 2012 til 31. desember 2012, af 75.000 frá 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013, og af 1.836.855 frá 1. febrúar 2013 til greiðsludags“.

                Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

                Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 12. október 2012, var skotið til dómsins ágreiningi um meðferð eignarhluta í fasteigninni að [...] í [...], fastanúmer [...]-[...].

Málavextir eru þeir að aðilar máls þessa munu hafa kynnst í [...], heimalandi varnaraðila, árið 2001 og síðan verið í sambandi í gegnum tölvupóst um nokkurra ára skeið.

                Hinn 9. ágúst 2005 keypti sóknaraðili fasteign að [...] í [...]. Sóknaraðili greiddi 5.000.000 króna í reiðufé við kaupin en eftirstöðvar, 10.000.000 króna, með láni frá Landsbanka Íslands. Auk þess greiddi sóknaraðili öll þau gjöld sem tengjast þinglýsingu kaupsamnings, stimpilgjöld o.fl., samtals 207.296 krónur. Sóknaraðili hefur frá upphafi verið ein þinglýstur eigandi fasteignarinnar og skráður greiðandi á því láni sem hvílir á fasteigninni.

Sóknaraðili fór til [...] vorið 2007 og 27. maí 2007 gengu aðilar málsins í hjónaband þar í landi. Eftir brúðkaupið komu aðilar saman til Íslands og hófu sambúð á heimili sóknaraðila. Ekki er deilt um að varnaraðili var eignalaus við upphaf sambúðar. Aðilar eignuðust barn [...]. [...] 2009, dótturina [...]. Fyrir átti sóknaraðili dótturina [...], sem er fædd [...]. [...] 2005. Að auki mun móðir sóknaraðila hafa búið á heimilinu. Hinn 1. apríl 2011 sótti sóknaraðili um skilnað að borði og sæng frá varnaraðila hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Ágreiningur er þó uppi um hvenær aðilar málsins hafi slitið samvistir. Við munnlegan flutning málsins byggði sóknaraðili á því að sambúð aðila hafi lokið í nóvember 2010 en varnaraðili kveður að sambúðinni hafi lokið 11. mars 2011.

Aðilar málsins deila um það hversu mikið varnaraðili hafi lagt fram til framfærslu fjölskyldunnar. Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi einhvern þátt tekið í framfærslunni. Varnaraðili hafi meðal annars greitt helming reikninga vegna umræddrar íbúðar, símakostnaðar og internets frá haustinu 2007 og fram til loka árs 2010. Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi tekið afar lítinn þátt í öðrum útgjöldum, m.a. matarútgjöldum og útgjöldum sem tengdust börnum sóknaraðila. Á árunum 2009 og 2011 hafi húsfélagið að [...] staðið fyrir framkvæmdum. Sóknaraðili hafi samtals greitt 256.800 krónur til húsfélagsins árið 2009 og 1.391.000 krónur árið 2011. Heildarframlag varnaraðila til heimilisins sé ekki hærra en þær fjárhæðir sem hann hafi millifært yfir á bankareikning hennar samkvæmt framlögðu reikningsyfirliti fyrir bankareikning varnaraðila. Laun varnaraðila hafi að stórum hluta farið til ættingja hans í [...] en ekki til heimilisrekstrar aðila málsins. Varnaraðili hafnar því að hann hafi lítinn þátt tekið í framfærslu fjölskyldunnar og það sé rangt að einu framlög hans til heimilisins séu þær fjárhæðir sem hann hafi millifært yfir á bankareikning sóknaraðila. Varnaraðili kveðst strax eftir komu sína hingað til lands hafa byrjað að vinna. Á sambúðartíma aðila hafi varnaraðili ávallt verið tekjuhærri en sóknaraðili og tekjur hans hafi runnið beint til heimilisins. M.a. hafi varnaraðili séð um framfærslu eldri dóttur sóknaraðila til jafns við sóknaraðila og föður stúlkunnar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að fasteignin að [...] í [...] sé hjúskapareign hennar, sbr. 54. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að víkja eigi frá helmingaskiptareglu 103. gr. laganna með vísan til 104. gr. sömu laga.

                Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi keypt íbúðina og sé ein þinglýstur eigandi. Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi greitt 5.000.000 króna í reiðufé við kaup á fasteigninni á árinu 2005. Einnig sé óumdeilt að sóknaraðili hafi ein greitt þau gjöld sem tengist framkvæmdum húsfélagsins að [...], samtals 1.647.800 krónur. Sóknaraðili hafi ein greitt af lánum áhvílandi á fasteigninni til þess tíma að varnaraðili flutti inn á heimilið á árinu 2007. Varnaraðili hafi ekkert greitt af áhvílandi lánum vegna fasteignarinnar, eða önnur gjöld, frá árslokum 2010. Framlag varnaraðila til fasteignarinnar sé því eingöngu greiðsla á helmingi afborgana af gjöldum sem tengist húsnæði auk helmingshlutdeildar í kostnaði vegna síma og internets í rúmlega þrjú ár. Þegar litið sé til þess að hjónaband aðila hafi varað í afar skamman tíma og að sóknaraðili hafi komið með miklar eignir í bú aðila beri að halda íbúðinni utan skipta.

                Mál þetta snúist um það hver eigi að njóta góðs af þeirri eign sem til staðar sé í íbúðinni. Við kaup sóknaraðila á fasteigninni hafi verið til staðar 5.000.000 króna eign í fasteigninni sem skýrist af greiðslu sóknaraðila til seljanda fasteignarinnar við kaupin. Fasteignasali á vegum varnaraðila hafi metið íbúðina á 18.500.000 krónur. Markaðsverðmæti hennar hafi því hækkað um 3.500.000 krónur frá kaupum. Á sama tíma hafi áhvílandi lán hækkað um 4.194.963 krónur, miðað við gjalddaga 15. nóvember 2012. Miðað við stöðu lánsins við samvistarslit hafi lánið hækkað um 4.215.960 krónur. Eignarhlutur í fasteigninni á þeim tíma sé því 3.585.037 krónur, miðað við framangreindar forsendur og hafi því rýrnað um eina og hálfa milljón frá kaupum fasteignar. Sóknaraðili telur bersýnilega ósanngjarnt að varnaraðili njóti góðs af þeim eignarhlut sem til staðar sé í fasteigninni þegar sá eignarhlutur byggist eingöngu á fjárframlagi sóknaraðila við kaup á fasteigninni. Framlag varnaraðila til fasteignarinnar varði eingöngu það lán sem hvílir á fasteigninni auk veitu- og fasteignagjalda á sambúðartíma. Þau framlög séu afar smávægileg miðað við framlag sóknaraðila. Auk greiðslu mánaðarlegra gjalda af fasteigninni hafi sóknaraðili greitt meira en eina og hálfa milljón króna vegna framkvæmda við fasteignina sem bendi enn frekar til þess að ósanngjarnt sé að viðurkenna nokkra eignarhlutdeild varnaraðila í íbúðinni.

                Sóknaraðili fullyrðir að fjárhagsleg samstaða hafi ekki verið til staðar milli aðila á sambúðartíma. Greiðslur á þeim gjöldum sem aðilum hafi borið að standa skil á við heimilishaldið hafi verið í mjög föstum skorðum. Eignir og framlög aðila til heimilisreksturs hafi því ekki blandast eins og algengt sé hjá hjónum.

                Meðal gagna málsins sé fjöldi greiðslutilkynninga úr heimabanka sóknaraðila. Á tilkynningunum sé handritaður útreikningur sóknaraðila á því hver hlutur varnaraðila ætti að vera í heimilishaldi á þessum tíma. Þetta sýni hversu fastar skorður hafi verið milli aðila hvað varðar fjárhag þeirra. Sóknaraðili hafnar því hins vegar að þær fjárhæðir sem fram komi í tilkynningunum endurspegli þær fjárhæðir sem varnaraðili hafi varið til sameiginlegs heimilishalds. Líta beri til framlagðs reikningsyfirlits fyrir bankareikning varnaraðila til sönnunar á raunverulegu framlagi til heimilisreksturs. Sóknaraðili telur framlag varnaraðila til heimilisins að öðru leyti vera lítið sem ekkert. Allar skuldir hafi verið skráðar á nafn sóknaraðila. Sóknaraðili hafi séð um matarinnkaup fyrir sig og dætur sínar á sambúðartíma en varnaraðili hafi sjálfur keypt í matinn fyrir sig. Þá hafi aðilar átt hvort sína bifreið og borið ábyrgð á útgjöldum vegna þeirra hvort fyrir sig, þó sóknaraðili hafi verið skráður fyrir tryggingum á bifreið varnaraðila. Varnaraðili hafi greitt fyrir tryggingarnar á reikning sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili séð um öll útgjöld sem tengist börnum aðila að frátöldum greiðslum vegna leikskólavistar sem sóknaraðili hafi tekið þátt í að nokkru leyti.

                Í málinu sé lagt fram yfirlit yfir millifærslur af reikningi varnaraðila yfir á reikning sóknaraðila sem sýni framlag hans til heimilisreksturs aðila. Öll gjöld aðila hafi verið á nafni sóknaraðila og sýni yfirlitið afar vel hversu takmarkað framlag varnaraðila hafi verið til heimilisreksturs. Heildarframlag varnaraðila frá september 2007 til janúar 2011 sé 2.615.418 krónur, eða 63.791 króna að meðaltali á mánuði á þessu tímabili. Bersýnilega ósanngjarnt sé að varnaraðili fengi helmings hlutdeild í íbúð sóknaraðila á grundvelli þessa framlags. Fengi varnaraðili slíka hlutdeild eða aðra minni viðurkennda myndi það leiða til þess að hann fengi stærstan hluta framlags til eðlilegs heimilisreksturs endurgreiddan frá sóknaraðila í gegnum eignarhlutdeild í fasteign hennar. Um sé að ræða gjöld sem varnaraðili hefði ávallt þurft að standa skil á burtséð frá því hvort hann væri í hjónabandi með sóknaraðila eða byggi einn. Skorað sé á varnaraðila að sýna fram á að hann hafi komið að heimilisrekstri aðila að öðru leyti en því sem fram komi í fyrrgreindu yfirliti yfir millifærslur af reikningi varnaraðila yfir á reikning sóknaraðila.

                Við munnlegan málflutning byggði lögmaður sóknaraðila á því að krafa um húsaleigu félli utan þess ágreinings sem skiptastjóri hefði vísað til dómsins. Þá væri krafan vanreifuð og ekki studd gögnum.

                Sóknaraðili byggir á meginreglum hjúskaparréttar, hjúskaparlögum nr. 31/1993, sérstaklega 100. og 104. gr. laganna og lögum nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggist á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé henni því nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi varnaraðila.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili byggir kröfu sína um helmings hlutdeild í íbúð sóknaraðila að [...] í Reykjavík á helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 54. gr. sömu laga. Varnaraðili vísar til þess að helmingaskiptareglan sé meginregla hjúskaparlaga um fjárskipti í kjölfar hjónaskilnaðar og taki bæði til eignamyndunar á hjúskapartíma og til eigna sem hjón fluttu með sér í búið. Reglan einkennist af því að efnahagsleg samstaða ríki í hjónabandi. Markmið reglunnar sé að veita hvorum maka um sig hlutdeild í eignum hins og stuðla með því að jafnri stöðu þeirra við lok hjúskapar. Það eigi einkum við þegar hjón hafi eignast barn saman. Regla 104. gr. hjúskaparlaga, um frávik frá helmingaskiptum, sé undantekningarregla sem beri að skýra þröngt og sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því að reglan eigi við um hjúskap aðila.

                Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi við stofnun hjúskapar þeirra undirgengist reglur hjúskaparlaga án skilyrða eða takmarkana, þrátt fyrir að hún hafi átt möguleika á því að gera íbúðina að séreign sinni með kaupmála og tryggja með öðrum hætti aðskilinn fjárhag aðila meðan á hjúskap þeirra stóð.

                Varnaraðili byggir á því að þegar litið sé til fjárhags aðila og lengdar hjúskapar verði ekki byggt á sérreglu 104. gr. hjúskaparlaga. Dómstólar hafi hafnað því að hjúskapur sem standi í fjögur ár sé svo skammvinnur að rétt sé að beita reglunni. Ekkert bendi til þess að tilgangur varnaraðila með hjúskap við sóknaraðila hafi verið sá að komast yfir eignir hennar. Fæðing dóttur málsaðila bendi þvert á móti til þess að tilgangur beggja aðila hafi verið að stofna til varanlegs hjúskapar. Þá hafi sóknaraðili sjálf átt frumkvæði að því að binda enda á hjónaband aðila málsins og hafi þannig sjálft haft áhrif á lengd hjónabandsins.

                Varnaraðili kveður að aðilar málsins hafi haft með sér sameiginlegan fjárhag. Ekkert í gögnum málsins styðji fullyrðingar sóknaraðila þess efnis að aðilar málsins hafi búið við séreignafyrirkomulag eða að fjárhagur þeirra hafi verið aðskilinn. Ágreiningslaust sé að varnaraðili hafi greitt af áhvílandi veðskuldum á hjúskapartíma. Engu breyti þótt varnaraðili hafi hætt að greiða af lánunum eftir slit á sambúð aðila, enda komi þær greiðslur til uppgjörs milli aðila við fjárskipti. Framlögð gögn bendi til þess að varnaraðili hafi staðið straum af útgjöldum heimilisins. Varnaraðili hafnar því að framlagðar greiðslutilkynningar úr heimabanka sóknaraðila og yfirlit yfir millifærslur af reikningi varnaraðila yfir á reikning sóknaraðila geymi tæmandi talningu á greiðslum varnaraðila. Óumdeilt sé að meirihluti útgjalda hafi verið á nafni sóknaraðila en ástæða þess sé sú að hún hefði um nokkurt skeið rekið heimili þegar varnaraðili hafi flutt til hennar. Varnaraðili hafi tekið fullan þátt í rekstri heimilisins og hafi í raun lagt meira til heimilisins en sóknaraðili, enda hafi tekjur hans verið mun hærri en hennar. Varnaraðili andmælir fullyrðingum sóknaraðila um peningasendingar til [...]. Tekjur varnaraðila hafi m.a. runnið til framfærslu móður sóknaraðila og eldri dóttur hennar. Í sambúð aðila hafi oftast verið tilviljunum háð hvort þeirra hafi greitt hvað þótt aðilar hafi komið sér upp ákveðinni verkaskiptingu.

                Varnaraðili mótmælir því að þau verðmæti sem sóknaraðili hafi flutt með sér inn í hjúskap aðila hafi verið verulega mikil í skilningi 1. mgr. 104. gr. laganna. Algengt sé að annað hjónaefna eigi hlut í íbúð við stofnun hjúskapar án þess að sú eign hafi verið metin veruleg af dómstólum. Þá verði ekki fram hjá því horft að varnaraðili hafi greitt af áhvílandi lánum sem hefði í eðlilegu efnahagslegu umhverfi aukið eignarhluta sóknaraðila í eigninni. Því er einnig mótmælt að greiðslur aðila fyrir framkvæmdir vegna eignarinnar, sem voru greiddar fyrir 1. apríl 2011, komi til lækkunar á eignarhlut varnaraðila.

                Krafa varnaraðila um greiðslu húsaleigu fyrir afnot af eignarhluta hans í umræddri íbúð frá 1. apríl 2011 sé byggð á því að hann hafi þurft að ráðast í mikinn kostnað vegna greiðslu á húsaleigu frá samvistarslitum aðila á meðan sóknaraðili hafi ein hagnýtt sameiginlega íbúð þeirra. Upphafsdagur kröfunnar miðist við 1. apríl 2011 sem sé viðmiðunardagur fjárskipta.

                Varnaraðili vísar til meginreglna hjúskaparlaga nr. 31/1993 og laga nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og dómaframkvæmdar, eftir því sem við á. Krafa um greiðslu húsaleigu sé byggð á meginreglum samninga- og kröfuréttar og dómaframkvæmd. Krafa um greiðslu dráttarvaxta byggir á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggist á 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 gildir sú meginregla um fjárskipti hjóna við skilnað að hvor maki um sig á tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga. Frá þessari reglu er gerð sú undantekning í 1. mgr. 104. gr. sömu laga að víkja má frá reglum um helmingaskipti ef skipti yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Samkvæmt ákvæðinu á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum. Því hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd að ákvæði 104. gr. sé undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt og að það hjóna, sem krefst fráviks frá helmingaskiptum með vísan til ákvæðisins, beri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.

                Varnaraðili byggir m.a. á því að sóknaraðili hafi við stofnun hjúskapar þeirra undirgengist reglur hjúskaparlaga án skilyrða eða takmarkana, s.s. kaupmála. Samkvæmt 74. hjúskaparlaga geta hjón ákveðið að tiltekin verðmæti geti verið séreign annars þeirra og samkvæmt 77. gr. sömu laga getur gefandi eða arfleifandi ákveðið að gjöf eða arfur, þar á meðal skylduarfur, skuli vera séreign í hjúskap gjafþega eða erfingja. Meðal þeirra atriða sem líta ber til við mat á því hvort skipti yrðu bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna er ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum. Geta slík skipti því greinilega komið til greina um eignir sem hægt væri að gera kaupmála um. Getur það því ekki haft áhrif í þessu máli þótt aðilar máls hafi ekki gert kaupmála sín á milli.

                Ágreiningur aðila snýr að því hvort víkja eigi frá helmingaskiptum hvað varðar íbúð sóknaraðila að [...] í [...]. Snýst ágreiningur aðila um það hvort hjúskapur þeirra hafi verið skammvinnur og hvenær sambúð þeirra hafi verið lokið, hvort sóknaraðili hafi átt verulega mikil verðmæti við stofnun hjónabandsins og hversu mikil fjárhagsleg samstaða hafi verið milli þeirra.

Aðilar málsins gengu í hjónaband 27. maí 2007 og verður ekki ráðið af málatilbúnaði aðila að þau hafi búið saman fyrir þann tíma. Sóknaraðili sótti um skilnað að borði og sæng frá varnaraðila 1. apríl 2011. Hjónaband aðila málsins stóð því yfir í um þrjú ár og tíu mánuði. Það er mat dómsins að sá tími geti ekki talist skammvinnur í skilningi 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. einkum dóm Hæstaréttar Íslands 12. júní 2007 í máli nr. 304/2007.

                Fyrir liggur að við stofnun hjónabands aðila 27. maí 2007 átti sóknaraðili íbúð að [...] í [...] sem hún hafði keypt 9. ágúst 2005. Sóknaraðili keypti íbúðina á 15.000.000 króna og greiddi þar af 5.000.000 króna með eigin fé en tók lán fyrir eftirstöðvum kaupverðsins og greiddi að auki kostnað tengdan þinglýsingu afsals, 207.296 krónur. Ágreiningslaust er að sóknaraðili hefur alla tíð verið ein þinglýstur eigandi íbúðarinnar og skráður greiðandi á láni áhvílandi á fasteigninni. Ekki liggur þó fyrir hvert verðmæti íbúðarinnar var þegar aðilar málsins gengu í hjónaband eða hver hafi verið staða áhvílandi láns á þeim tíma, en mat á því hversu mikla eign maki hefur komið með inn í hjúskap byggist á hreinni eign á þeim tíma þegar til hjónabands er stofnað.

Sóknaraðili greiddi ein afborganir áhvílandi láns frá því hún keypti umrædda fasteign og þar til aðilar gengu í hjúskap, eða í um tvö ár. Ekki virðist vera ágreiningur um að varnaraðili greiddi helming afborgana áhvílandi láns frá því aðilar gengu í hjónaband og fram til ársloka 2010, eða í um þrjú og hálft ár, og að auki helming af öðrum gjöldum vegna eignarinnar, en sóknaraðili hafi sjálf greitt afborganir og önnur gjöld frá janúar út mars 2011, samtals í um tvö ár og þrjá mánuði. Hefur varnaraðili því með fjárframlögum sínum stuðlað að eignamyndun í umræddri fasteign.

                Aðilar málsins deila um það hversu mikil fjárhagsleg samstaða hafi verið með þeim og hversu mikið varnaraðili hafi staðið undir sameiginlegum útgjöldum heimilisins. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi á hjúskapartímanum greitt samanlagt 2.615.418 krónur til heimilisins. Í greinargerð sinni til dómsins skoraði sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram færsluyfirlit af bankareikningum sínum á tímabili sambúðar aðila, þ. á m. tilteknum reikningi hjá Landsbankanum. Varnaraðili varð ekki við þeirri áskorun, en af hans hálfu hefur verið lagt fram yfirlit þar sem fram kemur að hann millifærði frekari fjárhæðir til sóknaraðila, samtals um 460.000 krónur. Þá kom fram í aðilaskýrslu varnaraðila að hann hafi sjálfur keypt t.d. föt og mat. Þótt ráða megi af gögnum málsins að sóknaraðili hafi lagt fram meira til framfærslu aðila hefur sóknaraðili ekki sannað að framlag varnaraðila til framfærslu fjölskyldunnar hafi verið eins lítið og hún byggir á. Verður þvert á móti að telja að nokkur fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum.

                Þegar allt ofangreint er metið heildstætt, þ.e. að hjúskapur aðila var ekki skammvinnur, að varnaraðili lagði fram fé til eignamyndunar í umræddri fasteign og að ekki er sýnt fram á að fjárhagsleg samstaða hafi ekki verið með aðilum, verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að helmingaskipti samkvæmt meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga myndu leiða til bersýnilega ósanngjarnra skipta fyrir hana. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli aðila verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um fasteignina að [...], [...], fastanúmer [...]-[...]. Af þessu leiðir að ekki þarf að taka sérstaklega á viðurkenningarkröfu varnaraðila í málinu.

                Fram kom við munnlegan flutning málsins að aðilar séu sammála um að viðmiðunardagur skipta sé 1. apríl 2011. Kemur þessi krafa því ekki til álita í málinu.

                Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 verður í máli þessu ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem skipta­stjóri vísaði til dómsins með bréfi sínu. Kemur krafa varnaraðila um húsaleigu úr hendi sóknaraðila því ekki til úrlausnar. Verður þessari kröfu varnaraðila því vísað frá dómi.

                Með vísan til atvika málsins og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kröfu sóknaraðila, K, um að við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila og varnaraðila, M, verði vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um fasteignina að [...], [...], fastanúmer [...]-[...], er hafnað.

                Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila, um að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila húsaleigu að fjárhæð 1.650.000 krónur.

                Málskostnaður fellur niður.