Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Mánudaginn12

 

Mánudaginn12. september 2005.

Nr. 389/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.

Fallist var á að skilyrði væru fyrir hendi til að heimila dómkvaðningu tveggja hæfra kunnáttumanna  til að svara spurningum er lutu að  dánarorsök A og komu fram í bókun lögmanns X, sem lögð hafði verið fram á dómþingi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu matsmenn í máli sóknaraðila á hendur sér. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmenn til að veita svör við þeim spurningum sem fram koma í bókun hans á dómþingi 10. ágúst 2005. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf ríkissaksóknari út ákæru 10. júní 2005, þar sem varnaraðili var sakaður um stórfellda líkamsárás, með því að hafa 12. desember 2004, á veitingahúsinu [...] slegið A hnefahögg efst í háls vinstra megin, með þeim afleiðingum að brot hafi komið í hliðartind fyrsta hálshryggjarliðar og slagæð við hálshrygg rofnað. Við þetta hafi orðið mikil blæðing inn í höfuðkúpu, sem hafi leitt til þess að A lést af völdum blæðingar á milli heila og innri heilahimna. Var þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varnaraðili hefur neitað sök.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Þóru S. Steffensen réttarmeinafræðings um réttarkrufningu 14. desember 2004. Skýrslan, sem dagsett er 12. maí 2005, var gerð að beiðni lögreglu samkvæmt 23. gr. reglugerðar nr. 248/2001 um ritun dánarvottorða, réttarlæknisfræðilega líkskoðun, réttarkrufningu og tilkynningu til Hagstofu Íslands um andvana fædd börn, sbr. 6. gr. laga nr. 61/1998 um dánarvottorð, krufningar o.fl.   og einnig 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991. Í skýrslunni er meðal annars lýst innri og ytri áverkum á A og niðurstöðum réttarefnafræðilegra mælinga. Þá er í lok skýrslunnar gerð grein fyrir ályktun skýrsluhöfundar um dánarorsök A og af hverju hún sé dregin. Krufningarskýrslan er hluti af lögreglurannsókn málsins og því meðal framlagðra sönnunargagna ákæruvalds. Af þess hálfu hefur verið upplýst að höfundur skýrslunnar muni verða kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins.

Í þinghaldi 10. ágúst 2005 lagði verjandi fram bókun, þar sem þess er óskað með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 að dómkvaddir verði óvilhallir og hæfir menn á sviði réttarmeinafræði „ ... til að vinna nýja mats- og skoðunargerð um orsakir dauða [A], ... þar sem fram komi með skýrum og hlutlausum hætti hverjir sýnilegir og innri áverkar hafi verið á líkinu og hvort þeir verði með beinum hætti og eingöngu raktir til meints hnefahöggs ákærða eða til falls hins látna og annarra atvika, - eftir atvikum samverkandi. Þá verði látin í té rannsóknarniðurstaða um ástæður þess blóðsega milli heilahimna yfir fremri pól vinstra ennisblaðs, sem um getur í fyrirliggjandi skýrslu ... og hvort sú röskun kunni að vera meðal orsaka dauða [A] heitins.“

Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna.

II.

Í niðurstöðukafla fyrrnefndrar krufningarskýrslu kemur meðal annars fram að dánarorsök A hafi verið blæðing milli heila og innri heilahimna af völdum hnefahöggs. Krufning sýni að A hafi hlotið högg efst á háls vinstra megin sem hafi valdið rifu á slagæð sem liggur upp meðfram hálshrygg vinstra megin og rifan hafi orðið í þeim hluta æðarinnar, sem liggur milli hliðartinds fyrsta hálshryggjarliðar og höfuðkúpubotns. Þetta hafi leitt til mikillar blæðingar upp meðfram æðinni og inn í höfuðkúpu milli heila og innri heilahimna og hafi sú blæðing valdið dauða A. Slík banvæn mikil blæðing milli heila og innri heilahimna í tengslum við minniháttar áverka á höfuð eða háls sé vel þekkt fyrirbæri í réttarlæknisfræði.

Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti  kemur meðal annars fram að hann telji umbeðna matsgerð hafa þýðingu fyrir málsvörn sína. Í ljósi þeirra afdrifaríku afleiðinga, sem niðurstaða krufningarskýrslu kann að geta haft við úrlausn málsins, verður varnaraðila ekki meinað að leita álits fleiri kunnáttumanna, en fyrir slíkri meðferð máls er viðhlítandi heimild í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 og 3. mgr. 65. gr. sömu laga, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber því að verða við kröfu varnaraðila um að frekari matsgerðar verði aflað. Verður lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja samkvæmt fyrrgreindri beiðni varnaraðila tvo hæfa kunnáttumenn til að svara þeim spurningum, sem þar greinir.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að veita svör við þeim spurningum, sem fram koma í bókun skipaðs verjanda varnaraðila, X, á dómþingi 10. ágúst 2005.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005.

Með ákæru ríkissaksóknara frá 10. júní sl. var ákærða gefið að sök að hafa framið stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða, „með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 12. desember 2004, á veitingahúsinu [...], slegið A kennitala [...], hnefahögg efst í háls vinstra megin, með þeim afleiðingum að brot kom í hliðartind fyrsta hálshryggjarliðar og slagæð við hálshrygg rofnaði. Við þetta varð mikil blæðing inn í höfuðkúpu, sem leiddi til þess að A lést af völdum blæðingar á milli heila og innri heilahimna.”

Í þinghaldi 10. ágúst sl. lagði verjandi fram bókun þar sem hann fór þess á leit við dóminn, með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991, að dómkvaddir yrðu óvilhallir og hæfir menn á sviði réttarmeinafræði til að vinna nýja mats- og skoðunargerð um orsakir dauða A þar sem fram komi með skýrum og hlutlausum hætti hverjir sýnilegir og innri áverkar hafi verið á líkinu og hvort þeir verði með beinum hætti og eingöngu raktir til meints hnefahöggs ákærða eða til falls hins látna og annarra atvika, eftir atvikum samverkandi. Þá verði látin í té rannsóknarniðurstaða um ástæður þess blóðsega milli heilahimna yfir fremri pól vinstra ennisblaðs, sem um getur í fyrirliggjandi skýrslu réttarmeinafræðings og hvort sú röskun kunni að vera meðal orsaka dauða A. Sækjandi mótmælti kröfu verjanda um dómkvaðningu matsmanna og krafðist þess að henni yrði hafnað.

Verjandi byggir kröfu sína á því að framlögð krufningarskýrsla sé grundvallargagn í málinu og eigi hún að byggjast á frumgögnum en ekki á frásögn í lögregluskýrslum eins og raunin sé. Skýrslugjafi hafi byggt niðurstöðu sína á upplýsingum úr lögregluskýrslum en ekki eingöngu á rannsóknarandlaginu sjálfu eins og rétt væri að gera. Hefði réttarmeinafræðingurinn því ekki gætt nægilega hlutleysis við samningu skýrslunnar.

Af hálfu sækjanda er á því byggt að matsbeiðni verjanda sé ótæk þar sem hún feli í sér beiðni um endurskoðun á matsgerð réttarmeinafræðings. Þá sé ljóst að réttarmeinafræðingurinn, sem gerði krufningarskýrsluna, komi fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins og þá verði unnt að spyrja hann nánar út í skýrsluna og niðurstöðu hennar. Benti sækjandi jafnframt á að lagt hefði verið fram vottorð Skúla Bjarnasonar, heimilislæknis, dags. 3. ágúst sl., þar sem lýst er ástandi A við komu á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss 12. desember 2004 en læknirinn muni einnig gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Niðurstaða.

Samkvæmt ákvæðum l. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari eftir ósk aðila eða af sjálfsdáðum dómkvatt kunnáttumenn, einn eða fleiri, til að framkvæma mats- eða skoðunargerðir í opinberu máli. Í máli þessu liggur frammi krufningarskýrsla Þóru S. Steffensen, réttarmeinafræðings, þar sem lýst er innri og ytri áverkum á A, auk niðurstaðna réttarefnafræðilegra mælinga og rannsóknar á einstökum líffærum og líffærakerfum auk smásjárskoðunar. Þá er í lok skýrslunnar gerð grein fyrir ályktun skýrsluhöfundar um dánarorsök A og hvernig hún er fengin. Krufningarskýrslan er hluti af lögreglurannsókn málsins og því hluti af framlögðum sönnunargögnum ákæruvaldsins. Fyrir liggur að höfundur skýrslunnar mun koma fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð og gefst aðilum málsins og dómara þá kostur á að spyrja nánar út í einstök efnisatriði skýrslunnar og eftir atvikum leita útskýringa á hugtökum og röksemdafærslu. Þá liggja frammi ljósmyndir af A, sem teknar voru áður en krufning fór fram, sem og vottorð Skúla Bjarnasonar, heimilislæknis, um ástand A við komu á slysadeild 12. desember sl. og liggur fyrir að læknirinn mun gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Að öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að ekkert sé fram komið á þessu stigi málsins sem gefur ástæðu til að dómkveðja matsmenn til að leggja mat á atriði er varða dánarorsök A eins og krafist er, enda ljóst að teknar verða skýrslur af Þóru S. Steffensen, réttarmeinafræðingi, og Skúla Bjarnasyni, heimilislækni, við aðalmeðferð málsins. Verður kröfu verjanda um dómkvaðningu matsmanna því hafnað.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu verjanda ákærða um dómkvaðningu matsmanna.