Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
Þriðjudaginn 15. júlí 2008.
Nr. 385/2008. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu
(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)
gegn
X
(Bjarni Hauksson hdl.)
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2008.
Ár 2008, laugardaginn 12. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Hervöru Þorvaldsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 21. júlí nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að að morgni laugardagsins 12. júlí hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að Tryggvagötu við skemmtistaðinn Y vegna manns sem ógnaði fólki þar með hnífi. Samkvæmt tilkynningu hafi meintur aðili verið dökkur á hörund í brúnum leðurjakka. Lögreglumenn sem staddir hafi verið í Austurstræti, skammt frá vettvangi hafi farið á staðinn, þegar lögreglumennirnir koma að gatnamótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis sjá þeir vestan við sig menn í átökum og einn þeirra hafi passað við ofangreinda lýsingu á geranda.
Á þeirri stundu hafi önnur lögreglubifreið komið á vettvang og aðstoðaði áhöfn þeirrar bifreiðar við handtöku og öryggisleit á X. Á sama tíma hafi dyraverðir á skemmtistaðnum Z komið með mann með sér, A, sem hafi haldið höndum sínum fast að hálsi sínum og hafi mátt sjá að hann hafi verið blóðugur.
Dyraverðirnir hafi greint lögreglu frá því að X hafi stungið A í hálsinn og því hafi verið kallað á sjúkrabifreið á vettvang. X hafi verið færður á lögreglustöð við Hverfisgötu og við öryggisleit á honum hafi fundist blóðugur hnífur í hægri buxnavasa að framan. Hnífurinn hafi verið einkennilegur í laginu og hafi einna helst líkst laufblaði, myndir af hnífnum megi sjá í gögnum málsins.
A hafi verið fluttur að Slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi með alvarlega áverka á hálsi. Í bráðabirgða læknisvottorði Más Kristjánssonar sem hafi tekið á móti A við komuna á Landsspítalann komi m.a. fram að A hafi haft 2ja cm langan skurð vinstra megin á háls við aftari brún, skurðurinn var 5 cm djúpur. Hnífsblaðið hafi að mestu leyti farið í gegnum vöðva og inn að hryggsúlu. Ljóst er að um alvarlegan áverka er að ræða og hafi litlu mátt muna að mikilvæg líffæri laskist sem hefði getað leitt til lífshættulegs ástands, örkumla eða jafnvel dauða. Það er lán að sjúklingur hafi ekki hlotið frekari skaða af áverka en raun beri vitni.
Framburður dyravarðanna sem hafi komið með A til lögreglu á vettvangi og framburður vitnisins B sem hafi verið með A umrætt sinn sé allur á þann veg að X hafi stungið A með hnífi í hálsinn þegar til átaka kom á milli þeirra.
Varðandi aðdraganda árásarinnar báru A og B um það á vettvangi að þeir hefðu gert athugasemdir við það að X væri að kasta af sér vatni við skemmtistaðinn Z og upp frá því hafi brotist út átök á milli þeirra sem enduðu með því að X hafi stungið A með hnífi í hálsinn.
X hefur hins vegar gefið þann framburð hjá lögreglu að hann hafi verið að kasta af sér vatni við skemmtistaðinn Z og þá hafi komið tveir menn og spurt hann hvað hann væri að gera og í framhaldi af því ráðist á hann með höggum, þrátt fyrir að hann hafi beðið afsökunar. X hafi reynt að berjast á móti en síðan hlaupið í burtu þegar vinur hans sem hafi einnig verið þarna á vettvangi hafi sagt honum að hlaupa. Það sé því ljóst að aðilum beri mikið á milli með það hvað gerðist þarna á vettvangi og ljóst að lögregla þurfi að taka framburðarskýrslur af þeim aðilum sem þarna hafi verið á vettvangi.
X kannast ekki við að hafa borið hníf á sér og ekki beitt hnífi í þessum átökum og hafi hann haldið því fram að hugsanlega hafi A eða félagi hans komið hnífnum fyrir í vasa hans. Þar sem að blóðugur hnífur fannst hinsvegar í buxnavasa X á lögreglustöð, þykir lögreglu sem að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi, framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga sem varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu.
Ekki hafi reynst mögulegt að taka framburðarskýrslu af A, þar sem hann hafi verið í aðgerð í dag (12. júlí 08) og verði í fyrsta lagi hægt að taka skýrslu af honum seinni part dags á morgun (13. júlí 08). Telur lögregla það vera nauðsynlegt vegna rannsóknar málsins að bera það undir A hvort hann hafi haft hníf meðferðis eða þá hvort hann eða félagi hans B hafi komið fyrir hnífnum í vasa X eftir að árásin átti sér stað, eins og X hafi haldið fram. Einnig eigi eftir að hafa upp á félaga X, sem hann kveður að hafi verið þarna á vettvangi og sagt honum að hlaupa á brott til að fá framburð hans vegna málsins en X hafi ekki getað gefið upp nafn á viðkomandi aðila heldur einungis símanúmer hans. Einnig eigi eftir að taka framburðarskýrslur af þeim dyravörðum sem þarna voru á vettvangi.
Það sé mat lögreglu að frásögn kærða sé afar ótrúverðug að A eða B hafi komið hnífnum fyrir í vasa hans, X kannist ekki við að hafa beitt hnífi og verði það að teljast með miklum ólíkindum að A hafi þá stungið sjálfan sig í hálsinn og hann eða B svo komið hnífnum fyrir í vasa X.
Rannsókn málsins standi nú yfir. Rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ljóst sé að mikið beri á milli manna um það hvað gerðist þarna á árásarvettvangi og sé nauðsynlegt að taka skýrslur af fleiri vitnum sem þarna hafi verið stödd og einnig eigi eftir að taka framburð af A, sem hafi ekki verið hægt hingað til, vegna ástand hans. Einnig sé ljóst að kærði gæti haft samband við þennan félaga sinn sem hafi verið með honum á vettvangi til þess að hafa áhrif á framburð hans í málinu. Málið sé alvarlegt og rannsókn málsins er enn á frumstigi og brýnt að lögregla fái svigrúm til að sinna henni.
Ætluð brot teljast varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Af öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi átt aðild að fólskulegri árás, sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á framburð vitna. Verður talið að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en þó þykir rétt að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma, eða til föstudagsins 18. júlí n.k. kl. 16.00. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí 2008, kl. 16.00.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 18. júlí nk. kl. 16.00.