Hæstiréttur íslands
Mál nr. 74/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Málshöfðunarfrestur
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 2010. |
|
Nr. 74/2010. |
Kró ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Unu Sölvadóttur Lindu Reynisdóttur Ármanni Ólafssyni Bjarnveigu Jónsdóttur JG-Jaðri ehf. Hjördísi Sigurbjartsdóttur Birki Ármannssyni Brynju Rúnarsdóttur Markúsi Ársælssyni Einari Hafsteinssyni Hafsteini Einarssyni Súlum ehf. Daníel Hafliðasyni Gíslínu Sigurbjartsdóttur Óskari Kristinssyni og Sigrúnu B. Leifsdóttur (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Málshöfðunarfrestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli K ehf. gegn U o.fl. vegna þinglýsingar var vísað frá dómi. Þar sem úrlausnir þinglýsingarstjóra voru ekki af hálfu K ehf. bornar undir dóm innan lögmælts fjögurra vikna frests samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. janúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en til vara „að málinu verði ekki vísað frá dómi og að dómkröfur sóknaraðila fyrir héraðsdómi verði teknar til efnismeðferðar.“ Að því frágengnu krefst hann þess að tildæmdur málskostnaður til varnaraðila í héraði verði felldur niður en til vara að hann verði lækkaður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Þann 10. október 2009 undirrituðu varnaraðilar, sem eru jarðeigendur í Þykkvabæ, eignayfirlýsingu vegna jarða sinna þess efnis að landsvæðið Halaeyrar í Rangárþingi ytra væri í óskiptri sameign þeirra í tilteknum hlutföllum, svo sem nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Skjal þetta var móttekið til þinglýsingar 23. október 2009 og innfært í fasteignabók 27. sama mánaðar. Þann 23. október var einnig móttekið til þinglýsingar samþykki varnaraðila fyrir afmörkun lands Halaeyra samkvæmt hnitasettum uppdrætti og samþykki eigenda nánar tilgreindra jarða fyrir landamerkjum jarðanna gagnvart Halaeyrum samkvæmt þeim sama uppdrætti. Það skjal var innfært í fasteignabók 29. sama mánaðar. Með bréfi dagsettu 26. nóvember 2009 skaut Karl Rúnar Ólafsson, sem taldi sig í bréfinu vera eiganda jarðarinnar Háfs í Rangárþingi ytra, þinglýsingu sýslumanns á framangreindum skjölum varðandi eignarhald og afmörkun Halaeyra til Héraðsdóms Suðurlands. Krafðist hann þess að þinglýsingar framangreindra skjala yrðu „felldar úr gildi og afmáðar úr þinglýsingabókum“. Því erindi beindi hann réttilega að sýslumanninum á Hvolsvelli, sbr. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga, sem staðfesti móttöku símbréfs hans samdægurs. Af gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, er ljóst að með fyrrgreindu símbréfi barst sýslumanni erindið í heild en ekki aðeins forsíða þess eins og ranglega er við miðað í hinum kærða úrskurði. Með bréfi 3. desember 2009, sem borist mun hafa Héraðsdómi Suðurlands degi síðar, tilkynnti lögmaður sóknaraðila að í fyrrnefndu erindi hefði kærandi ranglega verið sagður Karl Rúnar Ólafsson persónulega. Hið rétta væri að hann kærði úrlausn sýslumanns fyrir hönd Króar ehf., sóknaraðila þessa máls, en jörðinni Háfi hafi verið afsalað til félagsins 23. júní 2007. Samkvæmt útskrift úr hlutafélagaskrá 4. desember 2009, sem lögð var fram í héraði, var Kristín Jóhanna Guðmundsdóttir skráð framkvæmdastjóri félagsins með prókúru, stjórnarformaður þess var Trausti Davíð Karlsson en fyrrnefndur Karl Rúnar Ólafsson var varamaður í stjórn þess. Fyrir Hæstarétt hefur sóknaraðili lagt nýtt vottorð úr fyrirtækjaskrá dagsett 5. janúar 2010, en samkvæmt því er Karl Rúnar Ólafsson formaður stjórnar félagsins „samkvæmt fundi þann 20. 11. 2009“ og er hann jafnframt skráður með prókúruumboð fyrir félagið. Tilkynningar um þetta bárust fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 11. desember 2009. Með bréfi 9. desember 2009 mótmæltu varnaraðilar því að sóknaraðili gæti undir rekstri málsins komið að breytingu á aðild þess til sóknar og bentu á að Kró ehf. hefði hvorki andmælt né borið undir dóm framangreindar úrlausnir sýslumanns um skjöl varðandi Halaeyrar. Málið var þingfest fyrir héraðsdómi 11. desember 2009 og var Kró ehf. bókuð sóknaraðili. Varnaraðilar kröfðust þess að málinu yrði vísað frá dómi þar sem krafa Króar ehf. væri of seint fram komin.
II
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga má bera úrlausn þinglýsingastjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara. Skal úrlausnin borin undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar frá henni ef þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans var við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá því umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana. Heimild til þess hefur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta. Skal sá sem vill bera úrlausn um þinglýsingu undir dóm afhenda þinglýsingastjóra skriflega tilkynningu um það, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Óumdeilt er að umboðsmaður varnaraðila fékk vitneskju um umræddar þinglýsingar samdægurs. Framangreint erindi Karls Rúnars Ólafssonar 26. nóvember 2009 var sett fram af honum persónulega og ekki í nafni sóknaraðila. Þar sem fyrrgreindar úrlausnir þinglýsingastjóra voru ekki af hálfu sóknaraðila bornar undir dóm innan lögmælts frests samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Kró ehf., greiði varnaraðilum, Unu Sölvadóttur, Lindu Reynisdóttur, Ármanni Ólafssyni, Bjarnveigu Jónsdóttur, JG-Jaðri ehf., Hjördísi Sigurbjartsdóttur, Birki Ármannssyni, Brynju Rúnarsdóttur, Markúsi Ársælssyni, Einari Hafsteinssyni, Hafsteini Einarssyni, Súlum ehf., Daníel Hafliðasyni, Gíslínu Sigurbjartsdóttur, Óskari Kristinssyni og Sigrúnu B. Leifsdóttur, sameiginlega 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 19. janúar 2010.
Með bréfi, dagsettu 26. nóvember 2009 og móttteknu 27. nóvember 2009, kærði Steingrímur Þormóðsson hrl., fyrir hönd Karls Rúnars Ólafssonar, kt. 060157-5889, Lyngási 4, Hellu, þinglýsingu sýslumannsins í Rangárvallasýslu á eignayfirlýsingu jarðeigenda í Þykkvabæ, um að þeir ættu landsvæðið Halaeyrar í Rangárþingi ytra í óskiptri sameign í eftirfarandi hlutföllum:
Una Sölvadóttir, kt. 170552-4319, vegna Mels og Skinna, 16,67%, Linda Reynisdóttir, kt. 310773-4419, vegna Nýjabæjar og Miðkots, 15,27%, Ármann Ólafsson, kt. 131048-2629, vegna Vesturholts og Oddsparts, 8,33%, Bjarnveig Jónsdóttir, kt. 230954-2249, vegna sama, 8,33%, JG-Jaðar ehf., kt. 700905-2170, vegna Sólbakka 8,33%, Hjördís Sigurbjartsdóttir, kt. 210643-2149, vegna Hávarðskots og Miðkots, 6,48%, Birkir Ármannsson, kt. 170474-3689, vegna Brekku, 4,17%, Brynja Rúnarsdóttir, kt. 240769-4419, vegna Brekku, 4,17%, Markús Ársælsson, kt. 220359-4849, vegna Hákots, 4,17%, Einar Hafsteinsson, kt. 120566-3349, vegna Hábæjar I, 4,17%, Hafsteinn Einarsson, kt. 070737-7369, vegna Hábæjar I, 4,17%, Súlna ehf., kt. 601055-0159, vegna Búðar I, 4,17%, Daníel Hafliðason, kt. 290735-7699, vegna Búðar II, 4,17%, Gíslína Sigurbjartsdóttir, kt. 230437-4329, vegna Hávarðskots og Miðkots, 3,24%, Óskar Kristinsson, kt. 201160-3249, vegna Dísukots, 2,08%, og Sigrún B. Leifsdóttir, kt. 291263-5579, vegna Dísukots, 2,08%.
Þá kærði Karl Rúnar Ólafsson einnig þinglýsingu sýslumannsins í Rangárvallasýslu á skjölum ofangreindra varnaraðila er tilgreina afmörkun Halaeyra, fyrrum Fiskivatnseyrahluta jarðanna Hala og Horns, þ.e. landamerki spildunnar í heild sinni, eins og þau eru fram borin gögnum.
Krafðist sóknaraðili að ofangreindar þinglýsingar yrðu felldar úr gildi og afmáðar úr þinglýsingabókum Ragnárvallasýslu og að honum yrði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.
Varnaraðilar krefjast þess að málinu verði vísað frá dómi þar sem krafa Karls Rúnars Ólafssonar og/eða Króar ehf. sé of seint fram komin og vísa varðandi það til bréfs, dagsett 9. desember 2009, til dómsins. Þá krafðist hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Mál þetta var þingfest þann 11. desember sl. og var frestað til 5. janúar sl. til flutnings um frávísunarkröfu varnaraðila. Var málið að málflutningi loknum tekið til úrskurðar.
Málsatvik.
Með bréfi, dagsettu 26. nóvember 2009 og mótteknu 27. nóvember s.á., barst dóminum kæra Karls Rúnars Ólafssonar á þinglýsingu sýslumannsins í Rangárvallasýslu á eignayfirlýsingu jarðeigenda í Þykkvabæ um að þeir eigi landsvæðið Halaeyrar í Rangárþingi ytra í óskiptri sameign í nánar tilgreindum hlutföllum.
Þann 2. desember 2009 var lögmanni sóknaraðila, Steingrími Þormóðssyni hrl., ásamt sýslumanninum á Hvolsvelli send boðun í þinghald þar sem þingfesta átti kröfu sóknaraðila þann 11. desember 2009 kl. 15.00. Var sýslumaður í þeirri boðun talinn varnaraðili og honum bent á 4. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Þá barst dómaranum rafbréf frá lögmanni varnaraðila í máli þessu sem sent var fulltrúa sýslumannsins á Hvolsvelli, þann 1. desember 2009, þar sem hann tilkynnti honum að hann myndi gæta hagsmuna varnaraðila. Þann 3. desember 2009 tilkynnti lögmaður varnaraðila með rafbréfi lögmanni sóknaraðila og fulltrúa sýslumanns að hann myndi gæta hagsmuna varnaraðila fyrir dóminum. Þann 4. desember 2009 tilkynnti lögmaður sóknaraðila með rafbréfi að hann hefði gert þau mistök að telja Karl Rúnar Ólafsson sóknaraðila en sóknaraðili, Kró ehf., væri eigandi jarðarinnar Háfs og ætti því að vera sóknaraðili í máli þessu.
Við þingfestingu málsins þann 11. desember sl. var bréf sóknaraðila, dagsett 3. desember sl., lagt fram en þar var tilkynnt að sóknaraðili ætti að vera Kró ehf., kt. 440297-2699, Lyngási 4, Hellu, en ekki Karl Rúnar Ólafsson. Var aðildinni sóknarmegin þá breytt í samræmi við þá kröfu sóknaraðila.
Var málið eingöngu flutt um frávísunarkröfu varnaraðila og þykja því ekki efni til að rekja málið efnislega í úrskurði þessum.
Málsástæður og lagarök varnaraðila vegna frávísunarkröfu.
Varnaraðilar byggja frávísunarkröfu sína á því að sóknaraðili hafi í upphafi verið Karl R. Ólafsson, en hann kærði þinglýsingu sýslumannsins í Rangárvallasýslu á skjali nr. 1286/2009 um samþykkt á afmörkun Halaeyrar, fyrrum Fiskivatnseyrarhluta jarðanna Hala og Horns, dskj. nr. 3. Umrætt skjal hefði verið móttekið til þinglýsingar 23. október 2009 og innfært í þinglýsingabækur 29. október 2009. Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að krafa Karls R. Ólafssonar hafi borist dóminum of seint en kæra hans sé dagsett 26. nóvember sl. Hafi þá fjögurra vikna kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga verið liðinn. Kvað hann þriðja aðila ekki hafa rýmri frest til að bera ákvörðun þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara en þinglýsingarbeiðandi, eða umboðsmaður hans, hefði sjálfur. Varnaraðilar hefðu fengið upplýsingar um þinglýsinguna samdægurs eða 29. október 2009 og hefði því frestur til að bera þá úrlausn þinglýsingarstjóra undir dómstóla verið liðinn þann 26. nóvember 2009. Krafa Karls Rúnars Ólafssonar hefði borist dóminum 27. nóvember 2009 og því ætti að vísa máli þessu frá dómi. Þess þá heldur hefði krafa sóknaraðila, Króar ehf., um breytta aðild, borist dóminum eftir 4. desember 2009 og því allir frestir sóknaraðila til að bera ákvörðun þinglýsingarstjóra undir dómstóla liðinn. Þá hefði lögmanni Króar ehf. verið kunnugt þann 30. október 2009 um þinglýsinguna en skv. dskj. 13 var erindi hans, dagsett þann dag, lagt fram á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra þann 5. nóvember s.á.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila vegna frávísunarkröfu.
Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi verði hafnað. Byggir hann m.a. á því að samkvæmt ákvörðun dómara sé Kró ehf. sóknaraðili þar sem málinu hafi ekki verið vísað frá við fyrstu könnun dómara. Þá hefði Karl Rúnar Ólafsson ekki fengið upplýsingar um þinglýsinguna fyrr en 13. nóvember 2009, en þann dag hefði hann fengið skjöl málsins árituð um staðfestingu frá sýslumanninum á Hvolsvelli. Karl hefði sem framkvæmdastjóri Króar ehf. átt hagsmuna að gæta sem aðili. Tímafrestur sóknaraðila hefði því ekki byrjað að líða fyrr en þann dag, eða 13. nóvember 2009. Þá hefði krafa hans um breytta aðild komið fram áður en fjögurra vikna fresturinn var liðinn.
Niðurstaða.
Í máli þessu verður einungis leyst úr þeim ágreiningi hvort vísa beri máli þessu frá dómi þar sem ákvörðun þinglýsingarstjórans á Hvolsvelli hafi verið of seint borin undir dómara.
Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar segir að bera megi úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu samkvæmt lögunum undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra. Er það skilyrði uppfyllt. Þá segir að heimild til þess hafi hver sá sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra. Skuli úrlausnin borin undir dóm áður en fjórar vikur séu liðnar frá henni hafi þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans verið við hana staddur, en ella áður en fjórar vikur eru liðnar frá þeim tíma er hann eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um hana.
Í 3. mgr. segir að sá sem vilji bera úrlausn um þinglýsingu skv. 1. mgr. undir dóm, skuli afhenda þinglýsingarstjóra skriflega tilkynningu um það. Skuli þar greina úrlausn þá sem bera eigi undir dóm, kröfu um breytingar á henni og rökstuðning fyrir kröfunni. Í gögnum málsins er að finna afrit bréfs, móttekið 26. nóvember 2009 af sýslumanninum á Hvolsvelli og dagsett sama dag, frá lögmanni sóknaraðila þar sem segir: „Efni: Kæra til Héraðsdóms á þinglýsingu. Vinsamlega faxið mér til baka staðfestingu á móttöku þessa skjals. Virðingarfyllst, Steingrímur Þormóðsson hrl.“ Ekki er að finna aðra tilkynningu til sýslumanns varðandi þetta skilyrði. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. desember 1992 í máli nr. 425/1992 er úr því skorið að tilkynni sá sem vill bera úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm, þinglýsingarstjóra það áður en fjögurra vikna fresturinn er liðinn, uppfylli hann skilyrði 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga. Í máli þessu sendi lögmaður sóknaraðila, þann 26. nóvember 2009, sýslumanninum á Hvolsvelli símbréf þar sem efnið var sagt „kæra til Héraðsdóms á þinglýsingu.“ Ekkert annað kom fram í erindinu. Er því ljóst að fyrir þann 26. nóvember 2009 tilkynnti sóknaraðili hvorki til dómsins eða þinglýsingarstjóra þá ákvörðun þinglýsingarstjóra sem hann ætlaði að bera undir dómara, hvaða kröfur hann ætlaði að gera, né rökstuðning fyrir henni.
Þá kemur til skoðunar hvort frestur sóknaraðila hafi byrjað að líða þann 13. nóvember 2009 eins og hann byggir á. Ekki er tekinn fram í þinglýsingarlögunum neinn upphafstími gagnvart þriðja manni, sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 6/1992 segir að ekki sé mælt fyrir um sérstakan upphafstíma frests gagnvart þriðja manni sem bera vill úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdómara. Munu því gilda sömu reglur um upphafstíma frests gagnvart þriðja manni og gagnvart þinglýsingarbeiðanda. Beri því gagnvart þriðja manni að miða við það tímamark er þinglýsingarbeiðandi fékk vitneskju um úrlausnina. Þá segir ennfremur að komi krafa þriðja manns um úrlausn héraðsdómara fram eftir að frestur þinglýsingarbeiðanda er liðinn beri að vísa málinu frá. Þyki ekki heppilegt að þriðji maður hafi lengri frest en þinglýsingarbeiðandi hafi. Þá er tekið fram að í þessu sambandi geti þriðji maður í slíkum tilvikum, þ.e. eftir að frestur er liðinn, fengið leiðréttingu sinna mála á grundvelli dóms í almennu einkamáli svo sem verið hefur.
Verður að telja að í fyrsta lagi hafi sóknaraðili ekki uppfyllt skilyrði 3. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga um tilkynningu til þinglýsingarstjóra, hvert málið væri sem hann hygðist kæra, hvaða kröfur hann gerði né hafi hann rökstutt kröfu sína. Þá barst tilkynning Karls Rúnars Ólafssonar dóminum þann 27. nóvember 2009 en þá voru fjórar vikur liðnar frá því að varnaraðilar höfðu upplýsingar um úrlausn þinglýsingarstjóra og var sú krafa því of seint fram komin.
Með bréfi dagsettu 3. desember 2009 var krafist breytinga á aðild sóknarmegin í málinu en að öðru leyti vísað til kröfugerðar Karls Rúnars Ólafssonar. Tilkynnti lögmaður sóknaraðila dómaranum um þá breytingu með rafbréfi þann 4. desember 2009. Ekki verður fallist á að Karl Rúnar Ólafsson og Kró ehf. sé einn og sami aðilinn þrátt fyrir að Karl Rúnar hafi verið varamaður í stjórn Króar ehf. á þessum tíma. Krafa Króar ehf. barst því dóminum eftir að fjögurra vikna frestur til að bera undir dómara,úrlausn þinglýsingarstjórans um að þinglýsa skjali nr. 1286/2009 var liðinn. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að Kró ehf., hafi tilkynnt þinglýsingastjóra innan tilskilins frests að félagið muni bera ákvörðun þinglýsingastjóra undir dómara sbr. 3. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga.
Að þessum niðurstöðum fengnum ber að vísa máli þessu frá dómi.
Sóknaraðili, Kró ehf., greiði varnaraðilum 150.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum 150.000 krónur í málskostnað.