Hæstiréttur íslands

Mál nr. 306/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Fjarskipti


                                     

Föstudaginn 9. maí 2014.

Nr. 306/2014.

 

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

A ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Kærumál. Rannsókn. Fjarskipti.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins um að A ehf. væri skylt að afhenda lista yfir öll símtöl á tilteknu tímabili úr tilgreindu símanúmeri og í það og upplýsa hver af viðskiptavinum A ehf. hefði verið notandi þess á þeim tíma.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila væri skylt að afhenda sóknaraðila lista yfir öll símtöl á tilteknu tímabili úr tilgreindu símanúmeri og í það og upplýsa hver af viðskiptavinum varnaraðila hafi verið notandi þess á þeim tíma. Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurðar er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2014.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að A ehf. sé skylt að afhenda ríkissaksóknara lista yfir öll símtöl úr og í símanúmerinu [...] á tímabilinu frá kl. 01:00 til kl. 07:00 mánudaginn 2. desember 2013 og upplýsa hver af viðskiptavinum félagsins hafi verið skráður notandi umrædds númers á sama tíma.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að mánudaginn 2. desember 2013 hafi lögregla verið kölluð að húsinu við [...] í [...] vegna ónæðis vegna tónlistar frá íbúð á 2. hæð í húsinu. Hafi í fyrstu leikið grunur á að smellur sem íbúar hafi heyrt frá íbúð á þriðju hæð hússins kynni að vera skothvellur. Lögregla hafi verið send á vettvang og komið þar laust fyrir kl. 3:00 tveir almennir lögreglumenn og tveir frá sérsveit Ríkislögreglustjórans. Tilraunir til að ná sambandi við íbúann í íbúðinni hafi ekki borið árangur en tónlistarómur hafi heyrst frá henni. Kallað hafi verið eftir lásasmið til að opna hurð íbúðarinnar og hafi hann komið um kl. 3:00. Þegar lásasmiðurinn hafi opnað og lögreglumennirnir ætlað inn í íbúðina til að huga að íbúa hennar hafi hann staðið innan við dyrnar vopnaður haglabyssu og skotið einu skoti á sérsveitarmanninn sem hafi farið fyrir þeim. Til allrar mildi hafi sérsveitarmaðurinn verið búinn hlífðarskyldi og hafi skotið stoppað í honum. Íbúinn hafi reynst vera B kt. [...].

                Þyki ekki ástæða til að rekja atvik nákvæmlega en í framhaldinu hafi lögreglumennirnir hörfað frá íbúð skotmannsins en hann hafi aftur farið inn í íbúðina. Varð þetta til þess að stór hluti sérsveitar var kölluð á vettvang auk fjölda lögreglumanna frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Skapaðist umsátursástand á staðnum og gerði lögregla ráðstafanir til að tryggja öryggi íbúa í umræddum stigagangi, sem voru fluttir burtu. Skömmu fyrir kl. 6:00 um morguninn hafi verið ákveðið af yfirmönnum lögreglu að hefja árás á íbúð B með því að skjóta þangað inn gassprengjum sem hafi átt að gera hann ófæran um að verja sig og eftir atvikum að þvinga hann til að gefast upp. Þegar miklum fjölda gashylkja hafi verið skotið inn í íbúðina og lögregla talið gasið vera farið að hafa áhrif, og eftir atvikum geta stefnt heilsu B í hættu, hafi verið ráðist til inngöngu í íbúðina um kl. 6:40. Í innrásinni hafi fjórir sérsveitarmenn tekið þátt. Þegar inn í íbúðina hafi verið komið hafi B tekið á móti þeim með því að skjóta á þá með haglabyssu þannig að högl hafi lent í hjálmi eins þeirra. Hafi þeir svarað skotum B með því að skjóta á hann með skammbyssu og hafi tvö skot hæft hann annað í nára en hitt í brjóst. B hafi látist af skotsárum sínum skömmu síðar.

                Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sé fullyrt að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi slímleiðis við B til að freista þess að fá hann til að gefa sig fram en án árangurs. Hafi því ekki komið til þess að samningahópur Ríkislögreglustjórans hafi getað reynt að tala B til.

                Í framhaldi af ofangreindum atburðum hafi ríkissaksóknari sama dag ákveðið að hefja rannsókn á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 á því hvort framin hafi verið refsiverð brot í tengslum við störf lögreglu í umrætt sinn. Beinist rannsóknin að því að leiða í ljós hvort aðför lögreglu að B hafi verið réttlætanleg, hvort fullt tilefni hafi verið til að ráðast til inngöngu að undangenginni beitingu gasvopna gegn honum og hvort farið hafi verið að lögum við framkvæmd þessa. Kemur einkum til skoðunar 132. gr. og 215. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Í þágu rannsóknarinnar sé nauðsynlegt að leiða í ljós hvort reynt hafi verið til þrautar að fá B til að hlýða fyrirmælum lögreglu og leggja niður vopn áður en ráðist hafi verið til inngöngu í íbúðina. Ríkissaksóknari hafi ekki upplýsingar frá öðrum en lögreglu um að reynt hafi verið að hringja í þá tvo síma sem B hafi haft til umráða með númerin [...] og [...]. Ríkissaksóknari hafi aflað úrskurðar til sömu gagnaöflunar vegna framangreindra tveggja símanúmera sem hafi verið skráð á  B 16. apríl sl. Sjá um þetta úrskurð R-107/2014. Við frekari skoðun gagna hafi komið í ljós að lögregla segist einnig hafa hringt í númerið [...] sem sem talið sé vera sími í íbúðinni sem um ræðir. Segist lögregla hafa fengið upplýsingar um þetta frá Já.is en nú liggi engar upplýsingar fyrir um þessa skráningu.

                Í því skyni að sannreyna fullyrðingar lögreglu sé ríkissaksóknara nauðsyn að fá yfirlit yfir símtöl til og frá umræddum símanúmerum á þeim tíma sem afskipti lögreglu hafi staðið yfir. Því sé krafa þessi sett fram.

                Krafan styðjist við 80. gr., sbr. 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. og 1. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

                Þess sé krafist að krafa þessi sæti meðferð fyrir dómi án þess að sakborningar eða aðrir verði kvaddir fyrir dóminn, sbr. 104. gr. sakamálalaga. Til þess sé að líta að enn hafi enginn stöðu sakbornings vegna rannsóknar málsins og rétthafi  símanúmersins er látinn.

Eftir að hafa virt framlögð gögn er það mat dómara að umkrafðar upplýsingar kunni að skipta miklu máli fyrir rannsókn þess sakamáls sem nánar er lýst í gögnum frá lögreglu. Þá liggur og fyrir að handhafi umræddra símnúmera er látinn.  Með vísan til greinargerðar lögreglu og annarra framlagðra gagna, sbr., 80., sbr. 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

A ehf. er skylt að afhenda ríkissaksóknara lista yfir öll símtöl úr og í símanúmerinu [...] á tímabilinu frá kl. 01:00 til kl. 07:00 mánudaginn 2. desember 2013 og upplýsa hver af viðskiptavinum félagsins hafi verið skráður notandi umrædds númers á sama tíma.