Hæstiréttur íslands
Mál nr. 24/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Vanheimild
|
|
Mánudaginn 14. mars 2011. |
|
Nr. 24/2011. |
NBI hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Ólafur Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Vanheimild.
Í hf. keypti traktorsgröfu og beltagröfu af S ehf. á árunum 2007 og 2008, vegna fjármögnunarleigusamninga Í hf. við þriðja aðila. Á árinu 2009 hóf T hf. innheimtuaðgerðir gagnvart Í hf. á grundvelli veðskuldabréfa sem hvíldu á tækjunum, en þá kom í ljós að S ehf. hafði veðsett tækin. Bú S ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í ársbyrjun 2010 og lýsti Í hf. kröfu í þrotabúið, sem hafnaði kröfunni. Í hf. höfðaði mál þetta gegn N hf. og krafðist þess að krafa hans í þb. S ehf. yrði viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Reisti Í hf. kröfu sína á því að hann ætti skaðabótakröfu vegna sviksamlegrar háttsemi S ehf. í tveimur samningum, sem hann hefði lýst við gjaldþrotaskipti þb. S ehf. N hf., sem einnig lýsti kröfu í búið, andmælti því að krafa Í hf. yrði tekin til greina. Deila aðila laut einkum að því hvort Í hf. hefði hvorki vitað né mátt vita um vanheimildina í skilningi 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hæstiréttur taldi að Í hf. hefði sýnt af sér gáleysi með því að ganga ekki úr skugga um hvort veðbönd hvíldu á tækjunum og að ríkar kröfur yrði að gera til aðgæsluskyldu Í hf. sem fjármálafyrirtækis. Þegar metið yrði hvort gáleysi Í hf. ætti að leiða til brottfalls skaðabótaréttar bæri að líta til þess að S ehf. hefði við kaupin sýnt af sér framferði, andstætt heiðarleika og góðri trú, með því að greina ekki frá veðböndum á tækjunum. Leiddi því gáleysi Í hf. ekki til þess að hann glataði skaðabótarétti sínum, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2010, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 17.766.329 krónur var viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við gjaldþrotaskipti á þrotabúi Sturlaugs & co ehf. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins var einkahlutafélagið Sturlaugur & co stofnað á árinu 2005, en bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 2010. Félagið flutti inn og seldi margs konar atvinnutæki og vinnuvélar, en í nóvember 2007 og júlí 2008 keypti varnaraðili af félaginu tvær vinnuvélar, sem síðar leiddi til þess ágreinings um rétt varnaraðila á hendur þrotabúi Sturlaugs & co ehf., sem hér er til úrlausnar.
Guðbjörn Árnason gaf skýrslu fyrir dómi, en hann kvaðst vera viðskiptastjóri varnaraðila við fjármögnun atvinnufyrirtækja. Hann lýsti viðskiptunum þannig að almennt hefðu viðskiptamenn varnaraðila leitað til hans um aðstoð við að fjármagna kaup eða leigu á tilteknu tæki. Varnaraðili hafi síðan keypt það, en í mörgum tilvikum hafi Sturlaugur & co ehf. verið seljandi. Kaup á traktorsgröfu á árinu 2007 og beltagröfu 2008, sem deila málsaðila á rætur að rekja til, hafi gengið fyrir sig með þessum hætti. Ekki hafi verið gerðir skriflegir samningar við Sturlaug & co ehf. um einstök viðskipti, enda „myndaðist ákveðið traust og hefð á milli aðila.“ Við samningsgerð hafi ákveðin atriði ætíð þurft að liggja fyrir, en það hafi verið frumrit reiknings og að varnaraðili hefði verið skráður sem eigandi að tæki hverju sinni auk þess sem tækið hefði verið tryggt. Spurður um hvort veðbókarvottorði hafi verið framvísað svaraði hann á þann veg að Sturlaugur & co ehf. hafi haft umboð fyrir dráttarvélar, malarvagna og trukka, en þessi tæki hafi sams konar skráningarnúmer og bifreiðir og því verið í miðlægum gagnagrunni Umferðarstofu og lítil fyrirhöfn að fletta þeim upp þar. Um vinnuvélar, sem beri númer sem slíkar, gildi annað, en miðlægur gagnagrunnur sé ekki til fyrir þær og því ekki unnt að komast að með þeim hætti hvort veðskuldir hvíli á þeim eða ekki. Ef slíkt hefði átt að kanna um hverja einstaka vél „hefðum við þurft að hringja í hvern einasta sýslumann á landinu til þess að ganga úr skugga um það.“ Viðskipti hafi verið mikil með vinnutæki á þeim tíma. Traust hafi ríkt milli aðila viðskiptanna og „menn voru bara ávallt í góðri trú um að menn væru ekki að svindla.“
Í hinum kærða úrskurði er rakið að Sturlaugur & co ehf. tók lán hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og veitti lánveitandanum veðrétt í tveimur vinnuvélum til tryggingar skuldinni áður en hann seldi varnaraðila þær. Sá síðastnefndi kveðst ekki hafa komist að þessu fyrr en veðhafinn krafðist þess að vélarnar yrðu seldar nauðungarsölu vegna vanefnda lántakans, Sturlaugs & co ehf. Önnur vélin var seld nauðungarsölu án þess að varnaraðili fengi nokkuð af söluverði hennar, en í hinu tilvikinu leysti hann til sín kröfu veðhafans til að draga úr tjóni sínu. Krafa varnaraðila í málinu er á því reist að hann eigi skaðabótakröfu vegna sviksamlegrar háttsemi Sturlaugs & co ehf. í tveimur samningum, en kröfunni hefur hann lýst við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Sóknaraðili, sem jafnframt hefur lýst kröfu í búið, andmælir því að krafa varnaraðila verði tekin til greina. Málavextir að öðru leyti og málsástæður aðilanna eru raktar í úrskurði héraðsdóms.
II
Í málinu greinir aðilana á um það hvort varnaraðili geti reist kröfu sína á 41. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, en í 1. mgr. hennar segir meðal annars að eigi þriðji maður eignarrétt, veðrétt eða annan rétt yfir söluhlut (vanheimild) gildi reglur laganna um galla eftir því sem við eigi. Í 2. mgr. greinarinnar segir síðan að kaupandi geti í öllum tilvikum krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum vanheimildar sem var til staðar við kaupin enda hafi hann hvorki vitað né mátt vita um vanheimildina. Af hálfu sóknaraðila er haldið fram að síðastnefnt skilyrði sé ekki uppfyllt í málinu og því beri að hafna kröfu varnaraðila. Lagt verður til grundvallar að vanefnd Sturlaugs & co ehf. við sölu áðurnefndra tækja til varnaraðila teljist vera upprunaleg vanheimild í skilningi 2. mgr. 41. gr. laganna. Síðastgreint ákvæði mælir fyrir um hlutlæga ábyrgð á upprunalegri vanheimild, hvort sem hún er alger eða að hluta, svo sem var í þeim tilvikum, sem hér um ræðir. Hin hlutlæga ábyrgð tekur bæði til beins og óbeins tjóns. Ákvæðið kveður einnig á um að kaupandi glati skaðabótarétti sínum ef hann vissi eða mátti vita um vanheimildina. Fallist verður á með sóknaraðila að varnaraðili hafi sýnt af sér gáleysi með því að ganga ekki úr skugga um hvort veðbönd hvíldu á þeim tækjum, sem að framan greinir. Verður að meta þær kröfur, sem gera má til aðgæslu varnaraðila í því ljósi að félagið er fjármálafyrirtæki, sem almennt má gera ríkari kröfur til í þessum efnum en annarra. Þegar metið er hvort þetta gáleysi eigi að leiða til brottfalls skaðabótaréttar varnaraðila ber að líta til þess að seljandi, Sturlaugur & co ehf., sýndi af sér framferði við kaupin, sem var andstætt heiðarleika og góðri trú, með því að greina ekki frá veðböndum á tækjunum, sem stofnað hafði verið til í október 2007. Leiðir því gáleysi varnaraðila ekki til þess að hann glati skaðabótarétti sínum, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000.
Sóknaðili vefengir að tjón varnaraðila hafi numið þeirri fjárhæð, sem lögð er til grundvallar í hinum kærða úrskurði. Með vísan til forsendna hans í þeim þætti málsins og að virtu því sem að framan er rakið verður niðurstaða hans staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem er ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, NBI hf., greiði varnaraðila, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember sl., var þingfest 18. júní sl. er lagt var fram bréf skiptastjóra þrotabús Sturlaugs & Co ehf., dags. 14. maí sl., þar sem farið er fram á að héraðsdómur leysi úr ágreiningi sem upp hafi komið við skipti á búinu og ekki hafi tekist að leysa úr. Erindinu er beint til héraðsdóms með vísan til ákv. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili er Íslandsbanki fjármögnun, Kirkjusandi 2, Reykjavík, en varnaraðili er NBI hf., Hafnarstræti 8, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær að krafa hans í þrotabú Sturlaugs & Co ehf. frá 23. mars 2010, nr. 56, að fjárhæð kr. 18.798.492 krónur, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess að dómkröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
II.
Hinn 22. nóvember 2007 keypti sóknaraðili af Sturlaugi & Co ehf. traktorsgröfu af gerðinni New Holland B115, EH-1488, vegna samnings sóknaraðila um fjármögnunarleigu við Krana og gröfuleigu Borgþórs, sbr. reikning nr. 7040. Þá keypti sóknaraðili beltagröfu af gerðinni New Holland E350, EB-1472, af Sturlaugi & Co ehf hinn 31. júlí 2008 vegna samnings um fjármögnunarleigu við Háverk ehf., sbr. reikning nr. 8679. Fyrir liggur að á báðum þessum tækjum hvíldu við söluna veðskuldabréf vegna lána frá Tryggingamiðstöðinni hf. til Sturlaugs & Co ehf., annars vegar að höfuðstól 9.887.418 krónur á beltagröfunni en 4.219.031 króna á traktorsgröfunni.
Þegar greiðslufall varð á veðskuldabréfunum af hálfu Sturlaugs & Co ehf. á árinu 2009 hóf veðhafinn, Tryggingamiðstöðin hf., innheimtuaðgerðir gagnvart sóknaraðila sem þáverandi eiganda tækjanna. Að lokum fór það svo að beltagrafan var seld á nauðungaruppboði hinn 5. desember 2009 og fékk sóknaraðili ekkert greitt upp í sínar kröfur við úthlutun söluandvirðisins. Sóknaraðili greiddi hins vegar upp veðskuldina sem hvíldi á traktorsgröfunni, samtals að fjárhæð 5.020.031 króna, til að afstýra nauðungarsölu.
Með úrskurði uppkveðnum 20. janúar 2010 var bú Sturlaugs & Co ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Lýsti sóknaraðili kröfu í þrotabúið að fjárhæð 19.102.814 krónur, ásamt vöxtum og kostnaði. Þar af var 19.049.922 krónum lýst sem almennri kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, en kröfunni að öðru leyti lýst sem eftirstæðri kröfu skv. 114. gr. sömu laga. Skiptastjóri hafnaði kröfunni og á skiptafundi sem haldinn var til að fjalla um þennan ágreining tók varnaraðili, sem kröfuhafi þrotabúsins, undir afstöðu skiptastjóra. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn á skiptafundi ákvað skiptastjóri, með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991, að skjóta ágreiningnum til héraðsdóms. Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms kemur fram að hann hafi hafnað kröfunni með vísan til ákv. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Hafi hann talið „ að lánastofnun geti ekki borið fyrir sig vanheimild vegna skráningarskyldra tækja og borið fyrir sig að hún hafi hvorki vitað né mátt vita um áhvílandi veðbönd“.
III.
Sóknaraðili kveður kröfu sína vera skaðabótakröfu vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna þeirra veðskulda sem hvílt hafi á gröfunum tveimur við kaupin af Sturlaugi & Co ehf. Vísar sóknaraðili til þess að starfsmenn þess félags hafi vísvitandi leynt hann upplýsingum um veðsetningu tækjanna. Hafi því verið um vanheimild að ræða við söluna og sé það mat sóknaraðila að starfsmennirnir hafi með þessu gerst sekir um brot gegn almennum hegningarlögum. Eftir að veðhafinn hafi síðan hafið innheimtuaðgerðir gagnvart sóknaraðila vegna skuldabréfanna hafi sóknaraðili skorað á Sturlaug & Co ehf. að bæta úr vanheimildinni og aflétta veðunum en félagið hafi ekki orðið við því. Hafi þetta endað með því annars vegar að beltagrafan hafi verið seld við nauðungarsölu en hins vegar að sóknaraðili hafi greitt upp veðskuldina vegna traktorsgröfunnar til að afstýra frekara tjóni.
Um viðskipti sóknaraðila og Sturlaugs & Co ehf. fari eftir ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laganna gildi reglur um galla ef þriðji maður á eignarrétt, veðrétt eða annan rétt yfir söluhlut (vanheimild). Þegar starfsmenn Sturlaugs & Co ehf. hafi selt gröfurnar til sóknaraðila hafi þeim verið ljóst að Tryggingamiðstöðin hf. ætti veðrétt í gröfunum. Hafi gröfurnar því verið haldnar galla við afhendinguna í skilningi tilvitnaðra laga og njóti sóknaraðili því réttar til að beita vanefndaúrræðum þeirra. Samkvæmt 40. gr. laganna geti kaupandi krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíði vegna galla á söluhlut og skv. 3. mgr. 40. gr. geti kaupandi ávallt krafist skaðabóta ef a) gallann eða tjónið megi rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda eða b) hlutur hafi ekki þegar við samningsgerð verið í samræmi við það sem heitið hafi verið af seljanda.
Sóknaraðili og Sturlaugur & Co ehf. hafi um langt skeið átt í viðskiptum með þeim hætti að Sturlaugur & Co ehf. hafi flutt inn ýmis tæki, s.s. vinnuvélar, lyftara og landbúnaðartæki, en sóknaraðili síðan keypt tækin og gert samning um fjármögnunarleigu þeirra við þriðja aðila. Hafi sú venja myndast að Sturlaugur & Co ehf. hafi gefið út reikning fyrir tækjunum og afhent sóknaraðila þau veðbandalaus. Mikið traust hafi ríkt í sambandi sóknaraðila og Sturlaugs & Co ehf. og hafði myndast venja í viðskiptum þeirra, hvað varðaði ástand tækjanna, afhendingarmáta, greiðslufrest o.fl. Í skjóli þessa trausts, og með hliðsjón af því að fjölmörg viðskipti hefðu átt sér stað með þessum hætti á milli aðila, hafi sóknaraðili mátt treysta því að tækin væru ekki veðsett Tryggingamiðstöðinni hf. Vegna þessarar veðsetningar og vanheimildar hafi sóknaraðili orðið fyrir tjóni sem sé alfarið á ábyrgð Sturlaugs & Co ehf. þar sem tjónið verði rakið til vanefnda og svika starfsmanna þess félags. Ef gröfurnar hefðu verið í því ástandi sem seljandi áskildi hefði sóknaraðili ekki orðið fyrir tjóni. Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum sé ljóst að sóknaraðili eigi rétt á skaðabótum úr hendi Sturlaugs & Co ehf. og hafi skiptastjóra þar af leiðandi borið að samþykkja kröfu sóknaraðila í þrotabú varnaraðila sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Veðsvikin hafi valdið sóknaraðila stórfelldu tjóni. Þegar beltagrafan hafi verið seld á nauðungaruppboði hinn 5. desember 2009 hafi eftirstöðvar fjármögnunarleigusamnings, sem sóknaraðili hafi gert við Háverk ehf. í kjölfar kaupanna, numið 12.952.728 krónum. Nemi tjón sóknaraðila vegna vanheimildarinnar við sölu beltagröfunnar því þeirri fjárhæð. Til að varna því að afdrif traktorsgröfunnar yrðu þau sömu hafi sóknaraðili greitt Tryggingamiðstöðinni hf. eftirstöðvar veðskuldabréfsins sem á henni hvíldi, auk kostnaðar, samtals 4.813.601 krónu. Samtals nemi höfuðstóll skaðabótakröfu sóknaraðila vegna tjónsins af völdum svika Sturlaugs & Co ehf. því 17.766.329 krónum. Það tjón hafi fyrst legið fyrir við nauðungarsöluna og uppgreiðslu skuldabréfsins.
Sóknaraðili kveður dráttarvaxtakröfu sína miðast annars vegar við 9. október 2009, en þá hafi sóknaraðili þurft að leggja út framangreinda fjárhæð til að koma í veg fyrir nauðungarsölu á traktorsgröfunni, og hins vegar við 5. desember 2009, þegar hann hafi misst umráð yfir beltagröfunni í aðdraganda uppboðsins. Hafi hann gert ítrekaðar kröfur á hendur Sturlaugi & Co ehf. um að bæta úr vanheimildinni frá því hún kom í ljós en án árangurs. Sóknaraðili telji sig því sannanlega hafa lagt fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að meta tjónsatvik í skilningi 9. gr. laga nr. 38/2001.
Sóknaraðili hafi þurft að leggja út í umtalsverðan kostnað til að gæta hagsmuna sinna í málinu og sé því gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar sem hafi fallið til fyrir úrskurðardag skipta, samtals 489.450 krónur, sem séu 20 klst. samkvæmt tímagjaldi Lögfræðistofu Reykjavíkur á 24.473 krónur, með virðisaukaskatti. Krafa sóknaraðila sem krafist sé að verði viðurkennd sem almenn krafa sé því:
|
A. Tjón vegna kaupa á tækjum skv. reikningi nr. 8679 |
kr. 12.952.728 |
|
B. Tjón vegna kaupa á tækjum skv. reikningi nr. 7040 |
kr. 4.813.601 |
|
C. Dráttarvextir vegna A. liðar, frá 05.12.09-20.01.10 |
kr. 284.600 |
|
D. Dráttarvextir vegna B. liðar, frá 12.10. 09-20.01.10 |
kr. 258.113 |
|
E. Lögmannskostnaður |
kr. 489.450 |
|
Samtals |
kr. 18.798.492 |
IV.
Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili eigi skaðabótakröfu á hendur þrotabúi Sturlaugs & Co ehf. þar sem grundvöllur slíkrar kröfu sé ekki til staðar. Þannig hafi sóknaraðili ekki lagt fram kaupsamninga eða önnur gögn sem sýni fram á að hann hafi keypt af Sturlaugi & Co ehf. þær gröfur sem hér um ræðir án hinna þinglýstu veðbanda frá Tryggingamiðstöðinni hf. Með hliðsjón af ákv. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2000, um að ekki sé um vanheimild að ræða ef leiða megi af samningi að kaupandi hafi átt að taka við hlutnum með þeim takmörkunum sem leiði af rétti þriðja manns, telji varnaraðili að sóknaraðili hafi keypt tækin með þeim veðböndum sem á þeim hvíldu. Þar sem búið hafi verið að þinglýsa umræddum veðum á tækin fyrir söluna, og þar sem sóknaraðili hafi þá ekki gert kröfu um að veðunum yrði aflýst, verði að miða við að sóknaraðili hafi yfirtekið bréfin eða að minnsta kosti samþykkt að þau hvíldu áfram á tækjunum.
Mótmælt sé sem ósannaðri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að skapast hefði sú venja að Sturlaugur & Co ehf. gæfi út reikninga fyrir tækjunum og afhenti sóknaraðila þau veðbandalaus og þar af leiðandi hafi sóknaraðili ekki þurft að skoða þinglýsingarbækur vegna tækjanna. Þá liggi heldur ekkert fyrir um fullyrðingar starfsmanna seljanda um veðbandaleysi tækjanna. Gera verði þá kröfu til sóknaraðila sem fjármálafyrirtækis, er hafi með umsýslu slíkra tækja að gera, að hann kanni veðbókarvottorð þeirra tækja sem keypt séu. Verði því að líta svo á að sóknaraðila hafi verið ljóst, eða átt að vera ljóst, að veðbönd hvíldu á umræddum tækjum. Samkvæmt því, og með hliðsjón af ákv. 20. gr. og 2. mgr. 41. gr. laganna um lausafjárkaup, eigi sóknaraðili engan rétt til skaðabóta úr hendi hins gjaldþrota félags.
Verði hins vegar fallist á að sóknaraðili hafi eignast skaðabótakröfu vegna þessara viðskipta sé á því byggt að sá réttur sé fallinn niður vegna tómlætis, með vísan til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000, þar sem sóknaraðili hafi ekki tilkynnt Sturlaugi & Co ehf. um gallann án ástæðulauss dráttar frá því að sóknaraðili varð hans var eða mátti verða hans var. Þar sem sóknaraðili sé fjármálafyrirtæki verði að krefjast skjótra viðbragða af hans hálfu, en honum hafi strax við kaupin mátt vera ljóst að skuldabréfin hvíldu á tækjunum þar sem bréfunum hafi verið þinglýst. Sóknaraðili hafi fyrst með innheimtubréfi, dags. 9. október 2009, tilkynnt um þennan galla á traktorsgröfunni og líklega einnig um gallann á beltagröfunni, eða tæpum tveimur árum eftir kaupin á traktorsgröfunni, en um 14 mánuðum eftir kaupin á beltagröfunni.
Varnaraðili kveðst mótmæla því að krafa sóknaraðila hafi fyrst orðið til þegar sóknaraðili greiddi kaupverð tækjanna. Krafan hafi fyrst stofnast þegar tjónið kom fram, annars vegar við uppboðssölu á beltagröfunni hinn 5. desember 2009 en hins vegar þegar sóknaraðili greiddi til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. veðskuldabréfið sem hvíldi á traktorsgröfunni. Fram að þessum tímamörkum hafi sóknaraðili ekki orðið fyrir tjóni og fjármögnunarsamningar sóknaraðila verið í fullu gildi.
Varðandi fjárhæð skaðabótakröfunnar vísar varnaraðili til þess að þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram til stuðnings kröfum sínum séu illskiljanleg og takmörkuð og feli ekki í sér neina sönnun fyrir tjóni hans. Einnig sé mótmælt kröfum sóknaraðila um dráttarvexti og innheimtukostnað. Varðandi innheimtukostnaðinn skuli á það bent að sóknaraðili hafi sent innheimtubréf til Sturlaugs & Co ehf., dags. 9. október 2009, og áskilið sér þar innheimtukostnað, en frestdagur vegna gjaldþrotaskipta þess félags sé 8. október 2009. Þá sé mótmælt viðmiðun kröfugerðarinnar um upphafstíma dráttarvaxta. Eðlilegt sé í því sambandi, með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, að hann miðist við þann dag þegar mánuður hafi verið liðinn frá því sóknaraðili sannanlega krafði Sturlaug & Co ehf. um greiðslu bóta.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 50/2000 sé samningsaðila sem beri fyrir sig vanefnd gagnaðila skylt með sanngjörnum ráðstöfunum að takmarka tjón sitt. Vanræki hann það skuli hann sjálfur bera þann hluta tjónsins sem af því leiði. Sé hvað þetta varði á því byggt að sóknaraðili hafi vanrækt þetta með öllu. Þannig hefði hann í fyrsta lagi átt við kaup tækjanna að halda eftir hluta kaupverðsins sem næmi eftirstöðvum hinna áhvílandi veðlána. Þá hefði hann getað greitt upp lánið á beltagröfunni til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. þegar þess hafi verið krafist og komið þannig í veg fyrir að hún yrði seld við nauðungarsölu með auknum tilkostnaði.
V.
Óumdeilt er að þegar sóknaraðili festi kaup á umræddum tveimur gröfum af Sturlaugi & Co ehf. voru áhvílandi á þeim báðum veðskuldabréf vegna lána frá Tryggingamiðstöðinni hf. Byggir sóknaraðili kröfur sínar á því að hann hafi við kaupin verið grunlaus um þessi veðbönd, enda hafi starfsmenn Sturlaugs & Co ehf. þá fullyrt að gröfurnar væru veðbandalausar. Er í máli þessu deilt um hvort Sturlaugur & Co ehf. sé bótaábyrgt vegna þessa gagnvart sóknaraðila og þá fjárhæð þeirrar bótakröfu.
Í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2000 kemur fram að eigi þriðji maður eignarrétt, veðrétt eða annan rétt yfir söluhlut (vanheimild) gildi reglurnar um galla eftir því sem við eigi, nema leiða megi af samningi að kaupandi hafi átt að taka við hlutnum með þeim takmörkunum sem leiðir af rétti þriðja manns. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að kaupandi geti í öllum tilvikum krafist skaðabóta fyrir tjón af völdum vanheimildar sem verið hafi til staðar við kaupin, enda hafi hann hvorki vitað né mátt vita um vanheimildina.
Starfsmaður sóknaraðila, Guðbjörn Árnason viðskiptastjóri, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins og staðfesti þá staðhæfingu sóknaraðila í greinargerð að ekki hefðu verið gerðir sérstakir kaupsamningar vegna kaupanna á gröfunum tveimur, fremur en öðrum tækjum sem sóknaraðili hefði keypt af Sturlaugi & Co ehf., heldur hefði seljandinn einungis gefið út reikninga vegna þeirra. Liggja fyrir í málinu ljósrit tveggja reikninga vegna þessa og kemur þar ekkert fram um að hið selda sé bundið veðböndum. Þá hefur varnaraðili hvorki sýnt fram á að aðilar kaupanna hafi um það samið að sóknaraðili tæki við hinum seldu tækjum með veðskuldunum áhvílandi né að sóknaraðili hafi við kaupin verið upplýstur um að gröfurnar tvær væru bundnar veðböndum eða að honum hafi mátt vera um þau kunnugt. Telst vanheimild því hafa verið til staðar þegar frá kaupunum var gengið og verður fallist á, með vísan til 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/2000, að sóknaraðili eigi rétt til skaðabóta úr hendi Sturlaugs & Co ehf. fyrir það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa. Verður engu máli talið skipta um grandsemi sóknaraðila við kaupin þótt sóknaraðili hafi haft með höndum fjármálastarfsemi og fyrir liggi að veðskuldabréfunum hafi verið þinglýst á viðkomandi tæki fyrir söluna Þá verður ekki talið að réttur sóknaraðila til skaðabóta sé fallinn niður vegna tómlætis, enda liggur ekkert annað fyrir um vitneskju sóknaraðila um veðböndin en afrit innheimtubréfs veðhafans til sóknaraðila í maí 2009.
Varðandi umfang tjóns sóknaraðili vegna vanheimildarinnar vísar hann til þess, vegna beltagröfunnar EB-1472, að hún hafi verið seld við uppboðssölu að kröfu veðhafans án þess að hann sjálfur sem eigandi gröfunnar fengi þá neitt greitt upp í sína kröfu. Í gildi hafi þá verið fjármögnunarleigusamningur við þriðja aðila um gröfuna og hafi allar forsendur fyrir þeim samningi brostið við uppboðssöluna. Þykir mega fallast á það með sóknaraðila að tjón hans vegna beltagröfunnar nemi eftirstöðvum fjármögnunarleigusamningsins á uppboðssöludegi, eða 12.952.728 krónum. Þá verður og fallist á með sóknaraðila að tjón hans vegna traktorsgröfunnar EH-1488 nemi þeirri fjárhæð sem hann þurfti að greiða vegna veðskuldarinnar sem á því tæki hvíldi, sbr. áritun veðhafans á veðskuldabréfið sjálft, eða 4.813.601 krónu. Tjón vegna vanheimildarinnar sem Sturlaugur & Co ehf. ber ábyrgð á nemur því samtals 17.766.329 krónum og verður sú krafa sóknaraðila viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú þess félags. Ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili hafi krafið Sturlaug & Co ehf. um greiðslu framangreindrar fjárhæðar fyrir upphafsdag gjaldþrotaskipta á búi félagsins og verður því að hafna kröfu hans um að dráttarvextir af framangreindri fjárhæð teljist almenn krafa í þrotabúið. Þá ber loks að hafna því að krafa vegna lögmannskostnaðar að fjárhæð 489.450 krónur teljist almenn krafa í þrotabúið, enda liggur ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi þurft að greiða þá fjárhæð vegna lögmannsþjónustu í tilefni af umræddri vanheimild.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.
Mál þetta fluttu Daði Ólafur Elíasson hdl. fyrir hönd sóknaraðila og Hrannar Jónsson hdl. fyrir hönd varnaraðila.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka fjármögnunar, að fjárhæð 17.766.329 krónur er viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti á þrotabúi Sturlaugs & Co ehf.
Varnaraðili, NBI hf., greiði sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.