Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/1997
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Örorka
- Matsmenn
- Læknaráð
|
|
Fimmtudaginn 23. september 1999. |
|
Nr. 508/1997. |
Ásmundur Smári Magnússon (Örn Höskuldsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Örorka. Matsmenn. Læknaráð.
Á slasaðist í bifreiðaárekstri. Vátryggingarfélagið V viðurkenndi bótaskyldu sína, en ágreiningur var um hver varanleg örorka Á væri vegna slyssins. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið sent til læknaráðs til umsagnar. Þótt talið væri að læknaráði hefði verið rétt að leita umsagnar sérfræðinga í ljósi þess hversu umdeilt það var meðal lækna, hvort slysið hefði haft í för með sér framheilaskaða, þótti skortur á því ekki hafa það í för með sér að leggja bæri álit þess til hliðar. Til þess yrði litið eins og annarra gagna málsins. Að virtu áliti læknaráðs og öðrum gögnum málsins var talið að varanleg örorka Á vegna skertrar heilastarfsemi, sem rekja mætti til slyssins, væri hæfilega metin 10% og væri samanlögð örorka hans því 20%. Voru Á dæmdar skaðabætur fyrir varanlega örorku og miska úr hendi V í samræmi við þetta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hjörtur Torfason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 17. desember 1997. Hann krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 6.288.166 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 8. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi 14. janúar 1991 til 25. desember 1992, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.021.296 krónum. Til vara krefst hann þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða sér lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum áfrýjanda og málskostnaðar úr hans hendi fyrir Hæstarétti, en til vara krefst hann þess, að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I.
Eftir að héraðsdómur gekk var málið samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar 22. september 1998, að ósk áfrýjanda, sent til umsagnar læknaráðs. Var beðið um umsögn ráðsins á eftirfarandi:
1. Fellst læknaráð á, að áfrýjandi hafi hlotið framheilaskaða í slysi því, sem hann varð fyrir 14. janúar 1991?
2. Ef ekki, telur læknaráð að á áfrýjanda hafi orðið persónuleikabreytingar, sem séu afleiðingar slyssins?
3. Telur læknaráð enn, að varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda vegna slyssins sé 10%?
4. Ef ekki, hver er þá varanleg læknisfræðileg örorka áfrýjanda vegna hins umrædda atburðar?
Svar læknaráðs barst 25. maí 1999. Þar kemur fram, að ekki sé ágreiningur um, að áfrýjandi hafi haft veruleg einkenni frá stoðkerfi, og telur læknaráð, að varanleg læknisfræðileg örorka hans vegna þeirra einkenna sé hæfilega metin 10%.
Fyrstu spurningunni svarar læknaráð játandi og gerir eftirfarandi athugasemdir um fyrstu og aðra spurningu:
„Mat á skemmri- eða lengritíma afleiðingum lokaðs höfuðáverka er vandasamt og er oft háð talsverðum örðugleikum. Er þá m.a. átt við langvarandi afleiðingar heilahristings (post traumatic syndrome, post concussional syndrome) eða afleiðingar áverka á framheila (frontal lobe syndrome).
Starfrænar truflanir eða eiginlegur skaði á framheila geta verið til staðar án þess að mælast með hefðbundnum rannsóknaraðferðum á miðtaugakerfi. Við slíkar aðstæður byggja sérfræðiálit því fyrst og fremst á klinisku mati og sértækum taugasálfræðilegum athugunum.
Með hliðsjón af niðurstöðum athugana Þuríðar Jónsdóttur, taugasálfræðings, og framburði áfrýjanda, upplýsingum sem hafðar eru eftir eiginkonu hans og öðrum þeim upplýsingum sem fram koma í málsgögnum, telur læknaráð miklar líkur á því að áfrýjandi hafi við umrætt slys orðið fyrir skaða og/eða viðvarandi starfstruflunum í framheila. Læknaráð telur að örorka vegna þessara einkenna sé hæfilega metin 10%.“
Samkvæmt framanskráðu mat læknaráð varanlega læknisfræðilega örorku áfrýjanda samtals 20%.
II.
Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram snýst ágreiningur aðila um það, hver sé varanleg örorka áfrýjanda vegna afleiðinga umferðarslyss, sem áfrýjandi varð fyrir 14. janúar 1991, er fólksbifreið, sem hann ók, lenti í árekstri við sendibifreið. Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu sína. Hann hefur þegar innt af hendi þá bótafjárhæð, sem tiltekin var í dómsorði hins áfrýjaða dóms, ásamt vöxtum með greiðslu 22. desember 1997. Stefndi telur ekki unnt að leggja álit læknaráðs til grundvallar í málinu. Það byggi á taugasálfræðilegu mati dr. Þuríðar Jónsdóttur, sem sé miklum annmörkum háð. Mat dr. Þuríðar styðjist ekki við vefrænar rannsóknir á áfrýjanda heldur eingöngu viðtöl við hann og eiginkonu hans. Örorkumat Sigurjóns Stefánssonar læknis byggi einnig á framangreindu taugasálfræðilegu mati. Þá sé málsmeðferðin hjá læknaráði ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 14/1942 um læknaráð. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna eigi læknaráð jafnan að leita álits sérfróðra manna utan ráðsins um mál, sem eru utan við sérfræðisvið þeirra manna, er ráðið skipa, en það hafi ekki verið gert, þótt enginn læknaráðsmanna væri sérfræðingur í heilasköddun. Þá hafi hlutaðeigandi læknum ekki verið gefinn kostur á að rökstyðja vottorð sín, eins og kveðið sé á um í 2. mgr. 4. gr. laganna.
III.
Að framangreindu áliti læknaráðs stóðu Gunnlaugur Geirsson sérfræðingur í meinafræði, Hannes Pétursson sérfræðingur í geðlækningum og Jónas Magnússon sérfræðingur í skurðlækningum, sem skipuðu réttarmáladeild ráðsins, svo og Magnús Jóhannsson sérfræðingur í lyfjafræði, Sigurður Guðmundsson sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum og Þórður Harðarson sérfræðingur í hjartalækningum. Öll skjöl málsins lágu fyrir læknaráði, þar á meðal héraðsdómur og framburður matsmanna fyrir dómi.
Eins og lýst er í héraðsdómi byggir mat taugasálfræðingsins á prófum, sem lögð voru fyrir áfrýjanda, viðtölum við hann og eiginkonu hans, en ekki á vefrænum rannsóknum. Það er annmarki á matinu, að ekki skyldu vera kannaðar nánar aðstæður áfrýjanda með viðtölum við starfsfélaga hans, vini og ættingja. Fyrir dómi sagði taugasálfræðingurinn, að vefræn skoðun á heila hefði lítið að segja í tilviki, sem hér um ræðir. Undir þetta tekur læknaráð og telur starfrænar truflanir eða skaða á framheila geta verið til staðar án þess að mælast með hefðbundnum rannsóknaraðferðum á miðtaugakerfi. Álit læknaráðs byggir ekki eingöngu á mati taugasálfræðingsins heldur einnig á upplýsingum, sem fram koma í málsgögnum.
Það var álit dómkvaddra matsmanna Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarlækningum og Grétars Guðmundssonar sérfræðings í taugalækningum, að áfrýjandi hefði ekki skýr einkenni eða merki heilaskaða, en aftur á móti virtist vera um vissa truflun á æðra heilastarfi að ræða. Töldu þeir þá truflun að öllum líkindum stafa af þrálátum verkjum og vera þannig óbeint af völdum slyssins. Grétar Guðmundsson sagði fyrir dómi, að hinar vefrænu rannsóknir, sem gerðar hefðu verið á áfrýjanda, hefðu ekki sýnt merki um skemmd í framheilanum, en samkvæmt þeim upplýsingum, sem fram kæmu í taugasálfræðilega matinu, væri „nokkuð ljóst að hann er með truflun á starfsemi heila og þá er bara spurning um hvernig maður á að meta það“. Verður að telja, að læknaráð hafi tekið undir þetta að nokkru leyti í þeirri niðurstöðu sinni, að miklar líkur séu á því að áfrýjandi hafi við slysið orðið fyrir „skaða og/eða viðvarandi starfstruflunum í framheila“.
Þótt rétt hefði verið fyrir læknaráð að leita umsagnar sérfræðinga í máli þessu í ljósi þess, hve umdeilt það er meðal lækna, verður ekki talið, að skortur á því hafi það í för með sér að leggja beri álit læknaráðs til hliðar. Til þess verður litið eins og annarra gagna málsins við úrlausn þess.
IV.
Við framangreint slys hlaut áfrýjandi höfuðhögg og hálshnykk og missti meðvitund um tíma. Af gögnum málsins er ljóst, að slysið hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir áfrýjanda. Hann hefur stöðuga verki í hálsi, sem leiða niður í herðar og brjóstbak og upp í höfuðið. Áfrýjandi er með einkenni um skerta heilastarfsemi, hvort sem þau stafa af framheilaskaða eða af öðrum ástæðum. Læknaráð hefur talið, að varanleg örorka, sem rekja megi til þessa, sé hæfilega metin 10%, og eru ekki efni til að hnekkja því mati. Þykir því rétt að leggja til grundvallar, að samanlögð varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins sé 20%.
V.
Upphafleg dómkrafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlega starfsorkuskerðingu er reist á líkindareikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 10. nóvember 1992 og var miðuð við 15% varanlega örorku. Í framhaldsstefnu var einnig stuðst við sama útreikning en þá var miðað við 25% varanlega örorku. Endanleg kröfugerð áfrýjanda er byggð á sama útreikningi að öðru leyti en því, að reiknað er með 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6%. Stefndi lagði fram útreikning Jóns Erlings 24. febrúar 1997, þar sem miðað var við 10% varanlega örorku. Fallist er á það með áfrýjanda, að honum sé heimilt að halda sig við upphaflegan útreikning, sem miða ber við 20% varanlega örorku.
|
Kröfugerð áfrýjanda vegna 20% varanlegrar örorku |
289.333 krónur |
|
Töpuð lífeyrisréttindi |
4.821.467 krónur |
|
Miskabætur |
250.000 krónur |
|
Til frádráttar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins |
350.333 krónur |
|
|
5.010.467 krónur |
Bætur til áfrýjanda vegna varanlegrar örorku þykja hæfilega ákveðnar 3.600.000 krónur að teknu tilliti til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu. Krafa um bætur fyrir töpuð lífeyrisréttindi er tekin til greina með 289.333 krónum. Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda að greiða áfrýjanda 3.739.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 14. janúar 1991 til 2. maí 1994, þegar mat dómkvaddra matsmanna um 10% örorku áfrýjanda var fengið, en frá þeim tíma greiðist dráttarvextir til greiðsludags. Til frádráttar komi 3.021.296 krónur, sem stefndi greiddi áfrýjanda 22. desember 1997.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest. Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Ásmundi Smára Magnússyni, 3.739.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til 2. maí 1994, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.021.296 krónum.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. október sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 20. janúar 1993 og framhaldsstefnu þingfestri 4. nóvember 1986 af Ásmundi Smára Magnússyni, Rauðási 9, Reykjavík gegn Vátryggingafélagi Íslands hf.
Dómkröfur.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 6.288.166,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr., sbr. 8. gr., vaxtalaga nr. 25/1987 frá slysdegi 14. janúar 1991 til 25. desember 1992, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vöxtum verði bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu.
Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt gjaldskrá að viðbættum virðisaukaskatti.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að honum verði aðeins gert að greiða stefnanda kr. 2.150.000,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til uppkvaðningardags endanlegs dóms í málinu en til vara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar.
Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir og gangur máls.
Hinn 14. janúar 1991 varð árekstur með bifreiðunum R-78251 og R-1526 á mótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Við áreksturinn slasaðist stefnandi, en hann var ökumaður bifreiðarinnar R-78251.
Stefndi viðurkennir bótaskyldu sína gagnvart stefnanda vegna slyssins en ágreiningur er um það hver varanleg örorka stefnanda sé vegna slyssins og þá um bótafjárhæð.
Eftir slysið var stefnandi strax fluttur á slysadeild Borgarspítalans með skurð á hvirfli og óþægindi í hnakka, vinstri handlegg og hægri fótlegg. Röntgenmynd af höfði og hálsliðum leiddi ekki í ljós nein ákveðin áverkamerki. Ekki voru teikn um heila- mænu- eða taugaáverka. Vegna höfuðáverkans var stefnandi lagður inn í sólarhring en síðan var hann meðhöndlaður með hálskraga og hvíld vegna hálshnykksóþæginda.
Í vottorði dr. Brynjólfs Mogensen dags. 30. maí segir, auk þess sem hér að framan er rakið, að stefnandi hafi verið farinn að vinna um miðjan mars, fengið aðeins þreytuverk í háls og herðar og takverk í hnakkagróf. Fór dagbatnandi. Þá segir jafnframt að ólíklegt sé að stefnandi komi til með að hljóta nokkurt varanlegt mein eftir slysið þó svo óþægindin geti setið nokkuð lengi í.
Hinn 26. ágúst 1992 mat Björn Önundarson læknir örorku stefnanda. Í niðurstöðu hans segir m.a.: „Slasaði á nokkurn vanda til að fá höfuðverk við lítið álag og er þessi höfuðverkur einkum staðsettur í hnakka en leggur þegar verst lætur upp í hvirfil. Slasaði verður iðulega að leggjast fyrir og taka inn verkjalyf þegar höfuðverkur þessi er verstur. Hreyfingar í hálsliðum eru sárar, einkum snúningshreyfingar og aftursveigja. Fyrir kemur að dofi liggur úr vinstri holhönd og fram í vinstri litlafingur. Slasaði á bágt með að vinna upp fyrir sig en einnig á hann bágt með að vinna lotinn svo og að bera í höndum. Hann hefur einnig einkenni við að vinna lotinn frá brjósthluta hryggjar síns.“
Mat Björn tímabundna örorku stefnanda vegna slyssins 100% í fjórar vikur, 50% í sex vikur en varanlega örorku 15%.
Á grundvelli örorkumats Björns Önundarsonar áætlaði Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur meint vinnutekjutap stefnanda. Á grundvelli þess útreiknings krafðist stefnandi, hinn 22. nóvember 1992, bóta úr slysatryggingu ökumanns R-78251 hjá stefnda skv. 92. gr. laga nr. 50/1987. Stefndi var ekki tilbúinn til uppgjörs á nótum stefnanda með því að um væga örorku væri að ræða og ekkert fram komið um vinnutekjutap í raun. Stefndi hafi því lagt til í símbréfi 7. desember 1992 að uppgjöri yrði frestað uns þrjú ár væru frá slysi til staðreynslu á því hvort örorkan myndi í raun leiða til vinnutekjutaps en stefnandi vildi ekki fresta uppgjöri og var boðist til að bæta slysið með kr. 690.000. Hafði stefnandi fengið eingreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð kr. 350.333,- og átti einnig rétt á dagpeningum frá sama aðila. Stefnandi hafnaði báðum tillögum stefnda.
Hinn 15. júní 1993 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir menn til þess að skoða og meta heilsufarslegt ástand stefnanda og láta í té rökstutt álit um eftirfarandi:
1.Hvort Ásmundur Smári hafi af völdum slyss síns þann 14. janúar 1991 orðið til frambúðar fyrir raunverulegri skerðingu á getu til öflunar vinnutekna þegar litið er til starfs hans, menntunar, kunnáttu, starfsorku og þeirra kosta sem hann á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við eða hver sé fjárhagsleg örorka hans.
2Ef talið yrði að Ásmundur Smári hafi hlotið varanlega fjárhagslega örorku af völdum slyssins hver hún sé metin í hundraðshlutum.
3.Hvort fallast megi á örorkumat Björns Önundarsonar, læknis, út frá læknisfræðilegum sjónarmiðum og ef ekki hver sé hæfilega metin tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum slyssins.
Dómkvaddir voru þeir Ísak Hallgrímsson læknir og sérfræðingur í orku- og endurhæfingarlækningum og Þorgeir Örlygsson prófessor. Er matsgerð þeirra dags. 2. maí 1994.
Í matinu kemur m.a. fram að stefnandi hafi jafnan verið heilsuhraustur og hann hafi hin seinni ár stundað fjallaferðir á jeppum með félögum sínum en úr því hafi þó dregið mjög eftir slysið. Hann er kvæntur og á tvö frísk börn með eiginkonu sinni. Eiginkonan er heimavinnandi húsmóðir. Eftir gagnfræðapróf fór matsþoli að vinna hjá Pósti og síma, þar sem hann starfaði á sumrin. Hann fór síðan í Póst- og símamannaskólann og lauk þaðan námi í símsmíði árið 1986 og hefur hann síðan starfað sem símsmíðameistari hjá Pósti og síma og felst starf hans í viðgerðum á símkerfum, símstöðvum og innanhússímkerfum.
Er matið fór fram lýsti stefnandi óþægindum sínum á þann veg að hann væri með stífleika í hálsi báðum megin og eymsli aftur í hnakka. Hann finni fyrir taugakippum aftan til í höfði. Hann hafi haft höfuðverk meira og minna frá slysi. Á hann erfitt með að snúa höfðinu og finnur oft fyrir verkjum á milli herðablaða í hryggjarliðum og á hann þá erfitt með að sitja kyrr. Hann telur starf sitt ekki erfiðisvinnustarf í þeim skilningi að beita þurfi líkamanum til átaka í starfinu og því fylgi yfirleitt ekki óheppilegar stöður. Því henti starfið honum sæmilega miðað við heilsufar. Hann kveðst hafa dregið úr yfirvinnu eftir slysið enda sé hann yfirleitt úrvinda af þreytu í lok vinnudags, en svo hafi ekki verið áður.
Í matinu eru málsatvik rakin nákvæmlega og sú læknisfræðilega meðferð er hann hlaut eftir slysið svo og niðurstöður skoðunar. Þá eru þar raktar hugleiðingar matsmanna svo og rökstuðningur fyrir niðurstöðu þeirra en hún er sú að tímabundin læknisfræðileg örorka telst vera 100% í átta vikur en varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda teljist vera 10%. Varanlega fjárhagslega örorku telja þeir hæfilega áætlaða að meðaltali 8% .
Með úrskurði uppkveðnum 2. desember 1994 var fallist á þá beiðni stefnanda að leggja málið fyrir læknaráð. Var óskað rökstuddrar umsagnar læknaráðs um það hvort ráðið féllist á örorkumat Björns Önundarsonar og ef ekki hver væri þá læknisfræðileg örorka stefnanda.
Niðurstaða læknaráðs dags. 22. febrúar 1995 var sú að ráðið væri sammála niðurstöðu réttarmáladeildar læknaráðs sem var sú að ekki var fallist á örorkumat Björns Önundarsonar en fallist var á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um varanlega læknisfræðilega örorku á þeim forsendum er komu fram í matsgerð þeirra.
Með framhaldsstefnu þingfestri 4. nóvember 1996 jók stefnandi við kröfur sínar og lagði þá jafnframt fram taugasálfræðilegt mat dr. Þuríðar J. Jónsdóttur, klínísks taugasálfræðings frá því í desember 1995 svo og örorkumat Sigurjóns Stefánssonar, læknis og sérfræðings í geðlækningum og klínískri taugalífeðlisfræði dags. 19. september 1996.
Í mati dr. Þuríðar J. Jónsdóttur eru raktar niðurstöður af prófum er lögð voru fyrir stefnanda. Í þessum prófum voru skoðuð atriði eins og einbeiting og hugrænn hraði, almenn vitræn geta, minni og mál. Í samantekt á taugasálfræðilegum niðurstöðum segir eftirfarandi:
„Þrálátir og stöðugir verkir í baki og höfði í kjölfar slyss þess sem Ásmundur Smári varð fyrir í ársbyrjun 1991 hafa gert það að verkum að hann hefur allar götur síðan haft skerta starfsorku og úthald eða getu til þeirra tómstundaiðkana sem hann áður lagði stund á. Um þetta bera skýrslur lækna og frásögn Ásmundar Smára sjálfs og eiginkonu hans, Dagbjartar Steingrímsdóttur, vitni.
Eiginkona Ásmundar lýsir miklum persónuleikabreytingum sem hún telur að hafi orðið á honum eftir slysið í formi „þyngsla, framtaksleysis, pirrings og skorts á sjálfstjórn og þolinmæði. Einnig telur hún minni hans hafa versnað. Segir hún hann oft ekki muna daginn eftir hluti sem þau höfðu rætt og ákvarðað um að kvöldi dagsins áður. Eiginkonan lýsir einnig hversu seinvirkur Ásmundur sé nú og hversu lengi hann sé að koma sér að „hlutunum“. Hefur hún talið að langvarandi kvalir hans séu hér orsakavaldar.
Án þess að gert sé lítið úr sálrænum áhrifum langvarandi verkja og úthaldsleysis sem af þeim hlýst óhjákvæmilega, verð ég að benda á að lýsing eiginkonu Ásmundar er dæmigerð lýsing maka á framheilasködduðum einstaklingi. Brottfallseinkenni í formi þunglyndis, tregðu og framtaksleysis eru ásamt skorti á sjálfsstjórn og lækkuðum mótlætisþröskuldi þekkt einkenni bilateral orbitofrontal heilaskaða. Taugasálfræðileg einkenni Ásmundar Smára eru svo dæmigerð einkenni sem einstaklingar með slíkan skaða sýna. Vitræn tregða sem kom fram í því hversu seinn Ásmundur Smári var að taka við sér og byrja að leysa verkefnin, afmörkuð tjáningartregða, viðkvæmni fyrir truflunum og athyglisbrestur henni samfara og mynstur í minnisprófum styðja öll tilgátu um staðbundnar orbitomesial truflanir. Framheilinn er sökum staðsetningar sinnar í kúpunni einkum viðkvæmur fyrir misgengi, höggum og hnjaski. Nýjustu rannsóknir bandarískra og kanadískra vísindamanna benda til þess að einstaklingar sem jafnvel missa ekki meðvitund við slys geti hlotið talsverðan heilaskaða sem sé einkum bundinn við framheilann eða framheila og ennisgeira. Sökum þess hversu mikilvægu hlutverki framheilinn hefur að gegna fyrir allt heilastarf hefur skerðing á starfi hans óhjákvæmilega áhrif á alla þætti heilastarfsins meira eða minna. Sé notað líkingamál og heilanum líkt við tölvu er framheilinn stýrikerfið. Sé stýrikerfið ekki í lagi virka önnur forrit (önnur starfssvið heilans) ekki sem skyldi.
Ég vil að lokum geta þess að vitnisburður og lýsing náinna aðstandenda er talin afar mikilvæg mælistika þegar leitast er við að meta afleiðingar höfuðmeiðsla. Niðurstöður margra rannsókna benda til þess að maki sé oft næmari á bæði vitræna skerðingu og geðræn einkenni og persónuleikabreytingar en sjúklingurinn sjálfur. Þó svo að einhverjir einstaklingar hafi tilhneigingu til að magna og ýkja einkenni sín í kjölfar slysa í hagsmunaskyni eru hinir líklega ekki færri sem gera lítið úr og vanmeta vitræna skerðingu sína. Ég tel líklegt að Ásmundur Smári tilheyri þeim hópi. Slíkt vanmat er þá hluti af pathologiu þeirra.“
Í örorkumati Sigurjóns Stefánssonar er rakin persónusaga stefnanda, slysatvik, sjúkrasaga, núverandi einkenni og niðurstöður skoðunar. Í samantekt og niðurstöðu segir eftirfarandi:
„Fertugur maður sem varð fyrir höfuð- og hálsáverka í umferðarslysi þann 14. janúar 1991. Hann virðist hafa misst meðvitund við áreksturinn og var illa áttaður og mundi lítið þegar lögreglan kom á slysstað. Hann var fluttur á slysadeild Borgarspítalans þar sem meiðsli hans voru könnuð og þar sem hann dvaldi í einn sólarhring. Talið var að hann hafði (sic) fengið hálshnykksáverka og vægan heilahristing. Eftir slysið hefur hann haft veruleg einkenni frá hálsi sem leiða upp í höfuð og niður á milli herðablaða. Hefur erfiðlega gengið að draga úr einkennum þessum og hefur hann þurft að nota mikið af verkjalyfjum. Mikil neysla verkjalyfja virðist hafa leitt til magasárs og sprungins maga í júní 1996. Hans nánustu hafa tekið eftir skapgerðarbreytingum og minniserfiðleikum og bendir taugasálfræðilegt mat til truflunar á starfsemi framheila. Við skoðun koma fram mikil eymsli yfir hálsi, hnakka og herðum og mjög takmarkaðar hreyfingar í hálsi.“
Rúmlega fimm og hálft ár eru liðin frá því umrætt slys átti sér stað. Hinn slasaði hefur enn veruleg einkenni eftir hálshnykksáverka þann sem hann hlaut í slysinu. Síðastliðin ár hefur einnig farið að bera á skapgerðarbreytingum og minnisbreytingum sem benda til þess að hann hafi hlotið heilaskaða í slysinu og rennir taugasálfræðilegt mat stoðum undir þá skoðun.
Tímabundin örorka 100% í fjórar vikur og 50% í sex vikur.
Ég tel varanlega örorku hæfilega metna 25% (tuttugu og fimm af hundraði) sem skiptist þannig:
15% (fimmtán af hundraði) vegna einkenna frá hálsi.
10% (tíu af hundraði) eftir heilaáverka.
Varanleg örorka 25% (tuttugu og fimm af hundraði)“
Með beiðni dags. 6. desember 1996 fór stefndi fram á að dómkvaddir yrðu matsmenn til þess að meta eftirfarandi atriði:
1.Hvort Ásmundur Smári sé með framheilaskaða af völdum heilaáverka og ef svo er, hvort sá heilaáverki hafi sannanlega hlotist í bílárekstrinum 14. janúar 1991?
2.Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum heilaáverka í bílárekstrinum 14. janúar 1991, ef um er að ræða.
3.Hver sé tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka Ásmundar Smára af völdum annarra áverka en heilaáverka í bílárekstrinum 14. janúar 1991.
Til þess að framkvæma hið umbeðna mat voru dómkvaddir læknarnir Atli Þór Ólason dr. med., sérgrein bæklunarlækningar, og Grétar Guðmundsson, sérgrein taugalækningar. Er matsgerð þeirra dags. 12. febrúar 1997.
Í matinu rekja læknarnir heimildir sínar, fyrra heilsufar stefnanda, afleiðingar umferðarslyssins 14. janúar 1991, nám og starf stefnanda, núverandi kvartanir og niðurstöður skoðunar. Þá er getið um rannsóknir gerðar í janúar 1997, segulómun af heila og SPECT rannsókn sem var eðlileg.
Sjúkdómsgreining þeirra er hálstognun.
Í samantekt og áliti þeirra í lok matsgerðarinnar segir eftirfarandi:
„Fyrir umferðarslysið í janúar 1991 var Ásmundur Smári Magnússon við góða heilsu og einkennalaus frá hálsi og baki.
Við umferðarslysið 14.01.1991 ók hann bifreið á allmikilli ferð inn í hlið stórrar sendibifreiðar. Við áreksturinn hlaut hann högg á höfuð og missti meðvitund í líklegast liðlega hálftíma. Hann var talinn hafa hlotið hálstognun og vægan heilahristing. Einkenni hálstognunar voru óþægindi í hálsi, herðum, brjósthrygg, milli herðablaða, með útleiðsluverk við áreynslu, upp í hnakka, hvirfil, um gagnaugu, að enni og bakvið augu. Ekki hafa komið fram merki um skemmd á bein- eða taugavef. Við skoðun undirritaðra eru hreyfingar í hálsi nokkuð skertar, veruleg eymsli eru í háls-, herða-, og brjósthryggjarvöðvum og yfir hryggtindum í hálsi og brjósthrygg. Skoðun taugakerfis var í meginatriðum eðlileg og engin merki fundust um vefrænan skaða. Ýmiss konar meðferð, bæði verkja- og bólgustillandi lyf, sprautur, sjúkraþjálfun og fleira, hefur ekki leitt til verulegs bata. Telja má að þessi einkenni Ásmundar verði viðvarandi og trufli hann hér eftir sem hingað til við störf sín og við áreynslu. Varanleg örorka er metin 10%.
Við slysið hlaut Ásmundur höfuðhögg og var með 2-3ja cm grunnt sár á hvirfli sem var saumað og greri eðlilega. Hann missti meðvitund. Hann man síðast fyrir slysið að hafi verið að aka bifreiðinni við gatnamótin og telur sig muna að umferðarljós hafi skipt frá rauðu yfir á grænt þegar hann kom að þeim. Hann man aftur eftir sér á röntgendeild Borgarspítalans. Ásmundur var kominn á slysadeild Borgarspítalans 20 mínútum eftir slysið, þannig að hann gæti hafa verið á röntgendeild 1/2-1 klst. eftir slysið. Þar með kynni Ásmundur að hafa verið minnislaus í rúman hálftíma. Á slysadeild og eftir dvölina þar hafði hann ekki önnur einkenni um heilahristing, hvorki ógleði, uppköst, svima, höfuðverk eða annað. Hann hefur aldrei haft truflanir frá augum, eyrum eða nefi, skertu lyktarskyni eða bragðskyni. Í gögnum málsins er ekki minnst á minnistruflun, einbeitingarskort eða annað slíkt fyrr en í taugasálfræðilegu mati Þuríðar J. Jónssonar í desember 1995. Í því mati er talið að Ásmundur hafi orðið fyrir framheilaskaða og byggt á taugasálfræðiprófi og frásögn eiginkonu hans um þunglyndi, framtaksleysi, pirring, skort á sjálfsstjórn og þolinmæði.
Það er álit matsmanna að Ásmundur hafi ekki skýr einkenni eða merki heilaskaða. Aftur á móti virðist um vissa truflun á æðra heilastarfi að ræða. Sú truflun er að mati undirritaðra að öllum líkindum af völdum þrálátra verkja og þannig óbeint af völdum slyssins.
Þetta mat er mjög ákveðið stutt af eðlilegum myndrænum og starfrænum (segulómun og SPECT) rannsóknum af heila og þar með einnig af framheila.
Einkenni Ásmundar skýrast vel af hálstognun.“
Það er niðurstaða matsmanna að Ásmundur Smári hafi ekki hlotið framheilaskaða af völdum heilaáverka og því hvorki um tímabundna né varanlega örorku að ræða af þeim völdum.
Tímabundna og varanlega læknisfræðilega örorku sem stafar af hálstognun telja þeir vera 100% tímabundna örorku í 14 vikur en varanlega læknisfræðilega örorku telja þeir vera 10%.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi við slysið 14. janúar 1991 hlotið bæði tímabundna og varanlega örorku. Bifreið hans hafi verið tryggð ökumanns- og farþegatryggingu auk ábyrgðartryggingar hjá stefnda. Beri stefnda því að bæta honum tjón hans að fullu. Stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína en gert honum tilboð um bætur sem séu allt of lágar og ekki í samræmi við gildandi rétt.
Krafa stefnanda sundurliðast þannig:
Vegna varanlegrar örorku kr. 3.616.100,00 - 15% x 25% kr. 6.026.833,00
Töpuð lífeyrisréttindi kr. 217.000,00 - 15 x 25 = kr. 361.666,00
Miskabætur kr. 250.000,00
Til frádráttar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 350.333,00
Alls kr. 6.288.166,00
Stefnandi kveðst byggja kröfugerð sína á sama útreikningi og hin upphaflega dómkrafa sem miðuð var við 15% varanlega örorku. Í framhaldsstefnu sé einnig miðað við sama útreikning, en nú miðað við 25% varanlega örorku. Hin endanlega kröfugerð sé byggð á sama útreikningi en nú sé gengið út frá 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6%.
Stefnandi vísar til 91., 92. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 50/1987 og um miskabætur til 264. gr. laga nr. 19/1940 sem í gildi var er slysið varð. Auk þess vísar stefnandi til langrar dómvenju um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón og ennfremur til langrar venju tryggingafélaga um uppgjör á slíkum tjónum.
Málsástæður stefnda og lagarök.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir heilaskaða í bílslysinu 14. janúar 1991 og sömuleiðis sé ósannað að varanleg örorka stefnanda vegna hálsáverkans í slysinu sé meiri en 10%.
Er örorkumati Sigurjóns Stefánssonar, læknis, sérstaklega mótmælt sem röngu og of háu en ályktanir hans og Þuríðar Jónsdóttur, taugasálfræðings, um að stefnandi hafi orðið fyrir framheilaskaða af völdum bílslyssins 14. janúar séu ósannaðar.
Samkvæmt vottorði slysadeildar Borgarspítalans á dskj. nr. 4 um áverka og ástand stefnanda eftir bíláreksturinn geti stefnandi ekki hafa orðið fyrir þungu höfuðhöggi og framheilaskaða í árekstrinum. Hafi stefnandi verið vel áttaður á stað og stund við komu á slysadeild um 20-30 mínútum eftir slysið, aðeins hafi verið grunnur smáskurður á hvirfli og engin teikn um heilaáverka. Röntgenmynd af höfði hafi heldur ekki leitt í ljós nein áverkamerki.
Þá liggi engin læknisfræðileg gögn fyrir um einkenni hjá stefnanda er bent gætu til framheilaskaða fyrr en með taugasálfræðilegu mati Þuríðar Jónsdóttur fimm árum eftir áreksturinn. Sé mat Þuríðar ekki sönnun þess að stefnandi þjáist af framheilaskaða yfirleitt og því síður sönnun þess að sá skaði hafi hlotist af bílárekstrinum 14. janúar 1991.
Fái ekki staðist að framheilaskaði eða einkenni um framheilaskaða af völdum höfuðhöggs komi ekki fram fyrr en fimm árum síðar. Þá geti menn orðið fyrir framheilaskaða af ýmsum öðrum orsökum en höfuðhöggi í tilteknum bílárekstri. Verði ekki séð að aðrar mögulegar orsakir hafi yfir höfuð verið kannaðar. Séu ósönnuð orsakatengsl milli umstefnds bíláreksturs og framheilaskaða hjá stefnanda, ef um framheilaskaða hjá honum sé að ræða.
Samkvæmt mati dr. Þuríðar Jónsdóttur sé svörun stefnanda í flestum prófum eðlileg nema í Stroop- prófi. Þá hafi seinkað minni á yrt efni verið fyrir neðan meðallag og afmörkuð tjáningartregða fólgin í getuleysi til að telja upp orð sem hefjast á ákveðnum bókstaf. Einföld og tvískipt einbeiting, einbeitingarúthald, greindarprófanir og skammtímaminni hafi hins vegar verið eðlilegt og WAIS prófþættir um vitrænt starf framheilans hafi sýnt þá starfsemi í góðu lagi. Sé hið taugasálfræðilega mat sem hér liggi fyrir aðeins vísbending um hugsanlega framheilasköddun en ekki sönnun þess að hún sé til staðar eða hafi hlotist af tilteknu höfuðhöggi fyrir fimm árum. Loks sé ekkert að finna í örorkumati Sigurjóns Stefánssonar sem rökstyðji hækkun á varanlegri örorku vegna hálsáverka úr 10% í 15%, þvert ofan í örorkumat dómkvaddra matsmanna og álit læknaráðs. Verði og ekki séð að Sigurjón hafi haft þau gögn í höndum við mat sitt og ómerki það matsgerð hans.
Til stuðnings varakröfu er í greinargerð í aðalsök á því byggt að við ákvörðun örorkutjóns eigi að gæta þess að örorka bætist ekki meðan hennar gæti ekki í skertum vinnutekjum. Þá beri að draga frá þann hluta bóta sem ella gengi til opinberra gjalda, en staðgreiðsluhlutfall sé nú 41,34% en bæturnar kæmu til skatts sem jaðartekjur ef þær væru skattskyldar. Gildi hið sama um lífeyrisréttindi og örorkubætur. Síðan beri að virða til lækkunar hagræði af eingreiðslu bótanna samkvæmt dómvenju. Þá beri loks að virða til lækkunar að miski sé innifalinn í örorkumötum.
Kröfum um miskabætur er mótmælt sem of háum þegar jafnframt er krafist örorkubóta og þess gætt að miski er innifalinn í örorkumatinu.
Vaxtakröfum er sérstaklega andmælt en bótakrafan beri, samkvæmt venju, sömu vexti og notaðir eru í tjónsútreikningi en ekki dráttarvexti frá fyrri tíma en uppsögudegi endanlegs dóms.
Niðurstaða
Við munnlegan flutning málsins lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann teldi matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Grétars Guðmundssonar ekki hafa sönnunargildi þar sem hann, sem lögmaður stefnanda, hefði ekki verið boðaður á matsfund og hefði því ekki getað gætt hagsmuna umbjóðanda síns við matið. Lögmaður stefnda andmælti þessu og lýsti því yfir að hann teldi mótmæli lögmanns stefnanda of seint fram komin og benti á að engin andmæli hefðu komið fram er matsgerðin var lögð fram í þinghaldi 3. mars sl.
Mál þetta var tekið fyrir tvisvar sinnum eftir að framangreind matsgerð var lögð fram. Komu engin andmæli fram af hálfu stefnanda við þær fyrirtökur og ekki fyrr en við munnlegan flutning málsins. Ber að fallast á með stefnda að framangreind andmæli stefnanda séu of seint fram komin.
Stefnandi byggir kröfur sínar á örorkumati Sigurjóns Stefánssonar læknis. Í niðurstöðu sinni um varanlega örorku stefnanda byggir Sigurjón á taugasálfræðilegu mati Þuríðar J. Jónsdóttur og kemst að þeirri niðurstöðu að skapgerðarbreytingar og minnisbreytingar bendi til að stefnandi hafi hlotið heilaskaða í slysinu.
Eins og fram kemur í matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Grétars Guðmundssonar er það ekki fyrr en tæpum fimm árum eftir slysið að minnst er á minnistruflun, einbeitingarskort eða annað slíkt. Engin gögn hafa verið lögð fram um það að á þessu fimm ára tímabili hafi grunur vaknað um að stefnandi hafi hlotið heilaskaða við slysið.
Ekkert hefur komið fram í málinu er sýnir fram á skerta getu stefnanda til þess að gegna starfi sínu, en ætla má að geta hans til þess að sinna svo flóknu starfi hefði skerst við heilaáverka.
Eins og fram kemur í taugasálfræðilegu mati dr. Þuríðar J. Jónsdóttur lýsir eiginkona stefnanda miklum persónuleikabreytingum sem hún telur hafa orðið á honum eftir slysið í formi þyngsla, framtaksleysis, pirrings og skorts á sjálfstjórn og þolinmæði. Telur dr. Þuríður lýsingu eiginkonu stefnanda dæmigerða lýsingu maka á framheilasködduðum einstaklingi.
Þekkt er að langvarandi erfiðleikar og sjúkdómar, t.d. langvarandi verkir, geta valdið viðvarandi streituástandi. Þunglyndi, pirringur, óþolinmæði og minnisskerðing eru þekkt einkenni langvarandi streitu. Þessar persónuleikabreytingar valda oft miklu álagi á þá sem standa einstaklingnum næst og þeir verða oft meira varir við þessar breytingar en einstaklingurinn sjálfur.
Dómurinn fellst á það, sem fram kemur í framangreindri matsgerð, að umræddar breytingar megi rekja til langvarandi streitu og verkjaástands, enda hafa engin gögn verið lögð fram í málinu er sýna fram á skýr einkenni eða merki um heilaskaða hjá stefnanda. Þykir og styðja þessa niðurstöðu að umræddar persónuleikabreytingar virðast ekki koma fram fyrr en nokkrum árum eftir slysið og ekkert hefur komið fram um það í málinu að aðrir en hans nánustu hafi orðið varir við þessar breytingar.
Samkvæmt framansögðu telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi í slysinu 14. janúar 1991 hlotið framheilaskaða af völdum heilaáverka.
Fallist er á þá niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, svo og niðurstöðu læknaráðs í málinu, að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda vegna slyssins sé 10%.
Í úrlausnum dómstóla um verðmæti tapaðra framtíðartekna vegna örorku hefur almennt verið litið til læknisfræðilegrar örorku og hún höfð til hliðsjónar við ákvörðun örorkubóta. Er svo gert í máli þessu.
Stefnandi byggir kröfur sínar á upphaflegum tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar þar sem miðað er við að örorka stefnanda sé 15% varanleg örorka. Stefndi hefur hins vegar lagt fram útreikning Jóns Erlings, dags. 24. febrúar 1997, þar sem miðað er við 10% varanlega örorku. Með hliðsjón af framansögðu þykir því rétt, við ákvörðun bóta, að hafa þann tjónsútreikning til hliðsjónar. Til viðmiðunar í útreikningnum voru skattframtalstekjur stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slys, en þar segir m.a.:
„Samkvæmt tölvuútskrift skattstofu og ljósritum af skattframtölum Ásmundar voru vinnutekjur hans árin 1988-1990 eins og að neðan greinir og eru jafnframt sýndar tekjurnar eftir að þær hafa verið umreiknaðar vegna kaupbreytinga:
|
|
Tekjur |
Umreiknaðar tekjur |
|
Árið 1988 |
kr. 1.063.542 |
kr. 1.745.700 |
|
Árið 1989 |
kr. 1.229.917 |
kr. 1.766.700 |
|
Árið 1990 |
kr. 1.346.235 |
kr. 1.811.100 |
|
Meðaltal 1.774.500 |
|
|
Á framangreindum forsendum um tekjur miðað við, að tap vegna slyssins sé á hverjum tíma sami hundraðshluti tekna og hin tilgreinda örorka, fæst eftirfarandi áætlun:
|
|
Áætlaðar tekjur |
Tekjutap |
|
Árið 1991, frá slysdegi |
1.374.300 |
486.800 |
|
1992 |
1.451.500 |
145.100 |
|
1993 |
1.507.700 |
150.800 |
|
1994 |
1.556.400 |
155.600 |
|
1995 |
1.628.200 |
162.800 |
|
Síðan árlega |
1.774.500 |
177.500 |
Höfuðstólsverðmæti vinnutekjutaps reiknast mér á slysdegi:
Vegna tímabundinnar örorku kr.385.700
- varanlegrar örorku kr 3.279.700
Samtals kr. 3.665.400
Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætla ég 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, kr. 196.800.-“
Fram kemur í tjónsútreikningi Jóns Erlings að við útreikning höfuðstólsverðmætis eru fram að útreikningsdegi 24. febrúar 1997 notaðir vextir og vaxtavextir af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands og eru vextir lagðir við um hver áramót og er þetta nánar rakið í skjalinu. Fram kemur jafnframt að eftir útreikningsdag eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir. Þá segir að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1976 til 1980 og líkur fyrir missi starfsorku í lifanda lífi eftir sænskri reynslu. Ekki er tekið tillit til skatta.
Fyrir því er löng dómvenja að skattfrelsi bóta fyrir varanlega örorku og meint eingreiðsluhagræði þeirra hafi áhrif til lækkunar. Þegar tekið er tillit til þess, svo og greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins kr. 350.333,00 þykja bætur til handa stefnanda vegna varanlegrar örorku hæfilega ákveðnar kr. 2.100.000,00. Innifaldar í þeirri fjárhæð eru bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda.
Ljóst þykir að stefnandi hefur við slysið 14. janúar 1991 orðið fyrir nokkrum miska. Með hliðsjón af sjúkrasögu hans þykja miskabætur honum til handa hæfilega ákveðnar kr. 200.000,00.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á upphaflegum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar dags. 10. nóvember 1992 að því undanskyldu að nú sé miðað við 4,5% framtíðarávöxtun í stað 6% áður. Þetta í sjálfu sér þykir ekki skipta máli varðandi kröfu um dráttarvexti. Hins vegar liggur fyrir að upphaflega, eða með bréfi til stefnda dags. 25. nóvember 1992, krefst stefnandi bóta vegna 15% varanlegrar örorku en eftir það og við meðferð málsins hefur farið fram mikil gagnaöflun af hálfu beggja aðila málsins, eins og fram kemur hér að framan, og byggist endanleg kröfugerð stefnanda á því að varanleg örorka stefnanda sé 25%. Með hliðsjón af þessu svo og niðurstöðu málsins þykir því verða að fallast á kröfu stefnda um að dæmd bótafjárhæð beri ekki dráttarvexti frá fyrri tíma en uppkvaðningu dóms en beri vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 fram að þeim degi.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst kr. 370.000,00. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Aroni Björnssyni heila- og taugaskurðlækni og Hjördísi Jónsdóttur endurhæfingarlækni.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Ásmundi Smára Magnússyni, kr. 2.300.000,00 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. janúar 1991 til uppkvaðningar dóms þessa en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 370.000,00 í málskostnað.