Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2001


Lykilorð

  • Hótanir
  • Fíkniefnalagabrot
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. nóvember 2001.

Nr. 220/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Magnúsi Helga Kristjánssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Hótanir. Fíkniefni. Reynslulausn.

M var ákærður fyrir að hafa hótað G lífláti og hafa í vörslum sínum 1,48 g af amfetamíni. Héraðdómur taldi sannað með vísan til framburðar þriggja vitna að M hefði hótað G lífláti og með vísan til játningar M að hann hefði gerst sekur um umrætt fíkniefnabrot. Í dómi Hæstaréttar segir að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi framburða framangreindra þriggja vitna verði ekki endurmetin fyrir Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Að þessu gættu verði staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu M. Með brotum sínum rauf M skilorð reynslulausnar af 180 fangelsisdögum og var honum því gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr., 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þessa og að virtum sakarferli M, sem hafði hlotið samtals tæplega 8 ára skilorðsbundna fangelsisrefsingu, svo og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 8 mánaða fangelsisvist M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu en að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af I. kafla ákæru, en til vara að refsingin verði milduð.

Í niðurstöðu héraðsdóms er ekki vikið að trúverðugleika þeirra þriggja vitna sem þar er vísað til. Þrátt fyrir þennan annmarka er ljóst að hérðasdómari byggir niðurstöðu sína á framburði vitnanna og hefur því metið sönnunargildi hans, sbr. 47. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinbera mála. Verður sú niðurstaða ekki endurmetin fyrir Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laganna, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða á I. kafla ákæru staðfest.

Með brotum þeim, sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli, rauf hann skilyrði reynslulausnar og verður honum því gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr., 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Ákærði á langan sakaferil að baki, svo sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 648. Eftir uppkvaðningu þess dóms hlaut hann með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 1999 fjögurra mánaða fangelsisrefsingu fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur. Þeim dómi var ekki áfrýjað. Hefur hann hlotið samtals tæplega 8 ára óskilorðsbundna fangelsisrefsingu, aðallega fyrir auðgunarbrot. Að virtum sakaferli ákærða og með vísan til þess sem að framan greinir svo og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum þykir mega staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Magnús Helgi Kristjánsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 14. mars 2001.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 16. janúar sl. á hendur ákærða, Magnúsi Helga Kristjánssyni, kt. 030555-5979, Lambhóli við Þormóðsstaðaveg, ”fyrir eftirgreind brot framin í Reykjavík á árinu 2000:

I.

Hótun, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 9. apríl 2000, hótað Guðnýju Björk Richardsdóttur, kt. 230659-4009, lífláti en Guðný björk bjó þá í sama húsi og ákærði.  (M. 010-2000-9615)

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Fíkniefnalagabrot, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 22. desember 2000 við Grandagarð í Reykjavík haft í vörslum sínum 1,48 g af amfetamíni sem lögreglan lagði hald á.  (M. 010-2000-34128)

Telst þetta varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. lög nr. 60,1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75,1982, sbr. lög nr. 13,1985 og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16,1986, sbr. reglugerð nr. 177,1986 og auglýsingu nr. 84,1986.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að framangreint amfetamín verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16,1986.”

 

Málavextir

I.

Mánudaginn 10. apríl sl. kom til lögreglunnar í Reykjavík Guðný Björk Richardsdóttir, til heimilis í húsinu Lambhóli við Þormóðsstaðaveg, og kærði yfir því að kvöldið áður hefði ákærði sem einnig býr þar í húsinu hótað henni lífláti.  Hefði hann komið og barið að dyrum hjá henni í tilefni af deilum sem staðið hafa um salerni þarna í húsinu.  Hefði hann hótað henni lífláti í orðum og eins hefði hann gefið það til kynna með því að draga hönd um háls sér.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins en hefur ekki hirt um að sækja þing í því eftir það.

Vitnið, Guðný Björk Richardsdóttir, hefur skýrt frá því að þetta atvik sé ekki einstakt því ákærði hafi hótað henni bæði fyrir og eftir þennan atburð.  Hún segir mikinn hávaða stafa af ákærða og sé hann gjarna með hóp af fólki hjá sér.  Sé fólk þetta að sprauta sig á göngunum þarna í húsinu og hafi hún fundið sprautur eftir það og láti hún lögregluna vita af því þegar sprautur finnist, enda séu þarna “krakkar undir lögaldri”.  Margsinnis sé búið að brjótast inn hjá henni og sé hún komin “út í horn” heima hjá sér.  Ákærði búi þarna í skjóli móður sinnar.  Í það sinn sem um ræðir hafi ákærði verið reiður yfir því að hún væri að skipta sér af honum.  Hafi hann staðið í eldhúsdyrunum hjá henni og sagt að hún skyldi “hafa sig hæga, annars...”  Hafi hún spurt hvort þetta væri hótun og hafi hann játað því og sagt að hann léti eina hótun nægja.  Hafi hann sagt að það væri hægur leikur að láta hana hverfa og eins hafi hann dregið fingur þvert um háls sér.  Hafi hún tekið þessa hótun alvarlega.  Ákærði hafi hótað henni bæði fyrir og eftir þennan atburð.  Hún segir ákærða ekki hafa verið í neinni vímu að sjá en frekar virst vera timbraður.

Jóhann Þór Stefánsson, sonur Guðnýjar Bjarkar, hefur skýrt frá því að ákærði hafi ruðst inn í eldhús hjá þeim.  Hann hafi virst vera allsgáður en mjög æstur.  Hafi hann hótað því að fyrirkoma Guðnýju Björk ef hún hætti ekki að skipta sér af.  Væri hægur vandi að gera þetta og losna við líkið.  Þá hafi hann dregið fingurinn um háls sér.  Kveðst vitnið hafa talið að manninum væri alvara og hafi Guðný Björk orðið mjög hrædd.  Hafi ákærði hótað henni bæði fyrir og eftir þetta atvik.

Kristín Þuríður Sverrisdóttir, sem er vinkona Guðnýjar Bjarkar og býr í sama húsi, hefur skýrt frá því að hún hafi verið stöd hjá Guðnýju í umrætt sinn.  Segist hún hafa verið inni í stofu hjá henni og heyrt mann sem hún telur að hafi verið ákærði  hóta Guðnýju Björk frammi í eldhúsi.  Hafi þetta verið líflátshótun.  Segist hún hafa farið að athuga með þetta og þá séð ákærða og móður hans standa þarna frammi.  Hún segir þetta fólk vera til vandræða vegna hávaða og yfirgangs.  Guðný Björk hafi orðið hrædd enda segist vitnið telja að maðurinn sé til alls vís.

Niðurstaða

Sannað er með skýrslum vitnanna þriggja, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hótaði Guðnýju Björk lífláti í umrætt sinn, bæði með orðum og látæði.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga.

II.

Ákærði hefur skýlaust viðurkennt að hafa haft í fórum sínum fíkniefni það sem ákært er út af og fannst hjá honum.  Hefur hann með því orðið sekur um brot gegn þeim refsiákvæðum sem tilfærð eru við því í ákærunni.

Refsing, viðurlög og sakarkostnaður

Ákærði á að baki mikinn sakferil.  Á árunum 1972 til 1980 var hann níu sinnum dæmdur fyrir ýmis hegningarlagabrot og brot gegn umferðarlögum og nam samanlögð óskilorðsbundin refsivist hans 2 árum og 3 mánuðum.  Þá gekkst ákærði á þessu tímabili jafn oft undir sektargreiðslur fyrir ýmis brot, m.a. gegn fíkniefna­löggjöf­inni.  Frá 1981 til 1991 varð hlé á sakaferlinu, en á árinu 1992 gekkst hann fjórum sinnum með sátt undir að greiða sektir, fyrst í janúar fyrir ölvunarakstur og var þá sviptur ökuleyfi í 18 mánuði, næst í maí fyrir ölvunarakstur og fleiri umferð­ar­lagbrot og var þá sviptur ökurétti í 3 ár.  Í júní og ágúst sama ár gekkst ákærði undir að greiða sektir fyrir að aka sviptur öku­rétti.  Þá var hann 12. apríl 1994  dæmdur í 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 1 ár, fyrir fíkniefnalagabrot, frá því í janúar 1986.  Þá var hann dæmdur í maí sama ár í 20 mánaða fangelsi, þar af voru 18 mánuðir skilorðsbundnir, fyrir að aka sviptur ökurétti í júní 1992 og fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti í mars 1994.  Var skilorðshluti dómsins á undan felldur inn í refsinguna.  Ákærði var dæmdur í 2 ára fangelsi 19. maí 1995 fyrir líkamsárás (1. mgr. 217. gr. alm. hegningarlaga), nytjastuld og ýmis umferðarlagabrot, m.a. ölvun og réttindaleysi við akstur.  Var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.  Með ölvunar- og sviptingar­akstri sínum í því máli og nytjastuldinum rauf hann skilorðshluta dómsins frá 27. maí 1995.  Var sá dómur felldur inn í refsinguna.  Ákærði hlaut 6 mánaða hegningarauka fyrir þjófnað 23. janúar 1996.  Hinn 30. sama mánaðar hlaut ákærði 4 mánaða hegn­ingarauka fyrir hilmingarbrot.  Þá  hlaut hann 2 mánaða hegningarauka fyrir skjalafals og þjófnað 16. apríl 1996.  Honum var 29. september 1997 veitt reynslulausn í tvö ár á 360 fangelsisdögum samkvæmt fjórum síðastnefndu dómunum.  Enn hlaut ákærði 14 mánaða fangelsi 26. ágúst 1998 fyrir þjófnað og var reynslulausnin þá dæmd upp vegna skilorðsrofs.  Loks var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi í apríl 1999 fyrir að aka ölvaður og sviptur ökurétti.

Ákærða var veitt skilorðsbundin reynslulausn af 180 fangelsisdögum hinn 23. mars 2000.  Hann hefur nú rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber að dæma hana upp og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir refsing hans vera þannig hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. 

Dæma ber ákærða til þess að þola upptöku á 1,48 g af amfetamíni.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin máls­varnarlaun til verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 50.000 krónur. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Magnús Helgi Kristjánsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

Ákærði sæti upptöku á 1,48 g af amfetamíni.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 50.000 krónur.