Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skuldabréf
- Vextir
- Innheimtukostnaður
|
|
Mánudaginn 13. febrúar 2012. |
|
Nr. 9/2012. |
Deutsche Bank AG London (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Skuldabréf. Vextir. Innheimtukostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu D við slit G hf. var skipað í réttindaröð við slit hins síðarnefnda sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. G hf. var tekinn til slita með lögum nr. 44/2009 og var upphafsdagur þeirra 22. apríl 2009. D lýsti kröfu við slit G hf. á grundvelli skuldabréfa sem hinn síðarnefndi hafði gefið út á alþjóðamarkaði í nóvember 2005. Deila aðila laut að vöxtum af kröfunni og hvaða innheimtukostnaður hefði fallið á hana. Hafnað var kröfu D um að fjárkrafa hans bæri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, þar sem lög New South Wales ríkis í Ástralíu giltu um skuldabréfaútboðið. Einnig var hafnað kröfu D þess efnis að fjárkrafa hans bæri dráttarvexti eftir lögum áðurgreinds ríkis til upphafsdags slita, enda hefði krafa hans ekki verið gjaldfallin fyrir þann dag. Voru því ekki viðurkenndir aðrir vextir en þeir sem slitastjórn G hf. hafði samþykkt sem almenna kröfu. Loks var D ekki talinn hafa sýnt fram á að hvaða marki kostnaður kynni að hafa fallið til fyrir upphaf slita G hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 619.778.148 krónur var viðurkennd við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst að viðurkennd verði almenn krafa sín við slitin aðallega að fjárhæð 685.937.139 krónur, til vara 651.755.374 krónur, en að því frágengnu 619.805.295 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í varnaraðila 7. október 2008, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í kjölfarið var varnaraðila veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum fyrstnefndu laganna, var varnaraðili síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 12. maí sama ár skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir varnaraðila sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda reglur laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitin, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009.
Með bréfi 23. nóvember 2009 lýsti sóknaraðili kröfu við slitin á grundvelli skuldabréfa til fimm ára sem varnaraðili gaf út á alþjóðamarkaði í nóvember 2005. Í svonefndri útgáfulýsingu 19. apríl 2005 var að finna almenna skilmála vegna bréfanna, en því til viðbótar hafði svokallaður viðauki vegna verðlagningar 14. nóvember 2005 að geyma nánari skilmála um þennan flokk skuldabréfa. Þessum skilmálum er nánar lýst í úrskurði héraðsdóms. Þau skuldabréf sem sóknaraðili reisir kröfu sína á nema að nafnverði 6.500.000 áströlskum dölum eða 597.155.000 krónum miðað við það gengi erlendra gjaldmiðla sem tekið er mið af við slit varnaraðila. Með aðilum er ágreiningur um vexti af kröfunni og hvaða innheimtukostnaður hafi fallið á hana.
II
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að hafna kröfu sóknaraðila um að fjárkrafa hans samkvæmt skuldabréfunum beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa sín beri dráttarvexti eftir lögum New South Wales ríkis í Ástralíu til 22. apríl 2009 sem eins og áður greinir telst upphafsdagur slita á varnaraðila. Á þeim degi var krafan samkvæmt skuldabréfunum hvorki fallin í gjalddaga eftir efni þeirra né hafði sóknaraðili gjaldfellt hana með skriflegri tilkynningu eins og heimild stóð til vegna vanefnda eftir þeim skilmálum sem um bréfin giltu. Þá gat krafan ekki gjaldfallið sjálfkrafa við það eitt að Fjármálaeftirlitið tæki yfir vald hluthafafundar í varnaraðila 7. október 2008 eða hann fengi heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember sama ár. Þess er einnig að gæta að krafan féll ekki í gjalddaga vegna þess eins að slit varnaraðila hafi byrjað 22. apríl 2009, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Þegar af þeirri ástæðu að krafa sóknaraðila samkvæmt skuldabréfunum var ekki gjaldfallin fyrir síðastgreindan dag getur sóknaraðili ekki krafist dráttarvaxta af henni, enda verður ekki ráðið af því sem liggur fyrir í málinu um áströlsk lög að dráttarvextir geti samkvæmt þeim fallið á kröfu sem ekki er komin í gjalddaga. Verða því ekki viðurkenndir frekari vextir en þeir, sem slitastjórn varnaraðila hefur samþykkt sem almenna kröfu.
Fallist verður á það með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki leitt í ljós að hvaða marki kostnaður kunni að hafa fallið til fyrir upphaf slita 22. apríl 2009 vegna innheimtu kröfunnar sem mál þetta lýtur að. Kröfu um að innheimtukostnaður verði viðurkenndur sem almenn krafa við slitin er því hafnað.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Eftir atvikum er rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011.
I.
Mál þetta, sem þingfest var 29. apríl 2011, var tekið til úrskurðar 15. nóvember sl.
Sóknaraðili, Deutsche Bank AG London, gerir aðallega þá kröfu að krafa hans að fjárhæð 685.937.139 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila, Glitnis banka hf., sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að krafa sóknaraðila að fjárhæð 651.755.374 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferðina, en til þrautavara að krafa hans að fjárhæð 619.805.296 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferðina. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili, Glitnir banki hf., krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 619.778.148 krónur. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, að mati dómsins.
II.
Í nóvember 2005 gaf varnaraðili út skuldabréf á alþjóðamarkaði að fjárhæð 300 milljónir ástralskra dala. Skuldabréfin, sem voru til 5 ára, voru gefin út undir svokölluðum Medium Term Notes-rammasamningi bankans um alþjóðlega skuldabréfaútgáfu. Byggist krafa sóknaraðila á eignarhaldi hans á skuldabréfum samkvæmt þessari útgáfu með auðkennið AU300ISLB028, að nafnvirði 6.500.000 ástralskir dalir.
Í útgáfulýsingu, dags. 19. apríl 2005, er að finna almenna skilmála fyrir öll þau skuldabréf sem gefin voru út samkvæmt útgáfuáætlun, þ.m.t. ítarlega skilgreiningu á réttindum og skyldum þeirra aðila sem að útgáfu og handhöfn skuldabréfanna komu. Útgáfulýsingin inniheldur meðal annars lýsingu á varnaraðila, fjárhagslegar upplýsingar, tilgreiningu áhættuþátta og þá skilmála sem við eiga um öll skuldabréf sem gefin voru út samkvæmt útgáfuáætluninni. Þá kemur þar fram að um skuldabréfin gildi lög New South Wales. Samkvæmt útgáfuáætluninni gengur hver útgáfa skuldabréfa undir nafninu flokkur (series). Sérstakur viðauki vegna verðlagningar (pricing supplement) var gefinn út fyrir hvern skuldabréfaflokk og var slíkur viðauki gefinn út fyrir umrædd skuldabréf 14. nóvember 2005. Er þar að finna skilmála sem taka eingöngu til umrædds skuldabréfaflokks, þ. á m. staðfestingu á því í hvaða gjaldmiðli skuldabréfaflokkurinn sé gefinn út, útgáfudag, gjalddaga, vaxtagrunn o.fl. Þar segir jafnframt að útgáfudagur skuldabréfaflokksins sé 15. nóvember 2005 og að skuldabréfin beri þriggja mánaða Bank Bill Swap rate (BBSW) miðvexti, auk 0,30% álags (margin per annum), sem greiðast skuli á þriggja mánaða fresti ár hvert, 15. nóvember, 15. febrúar, 15. maí og 15. ágúst. Gjalddagi bréfanna er tilgreindur 15. nóvember 2010. Fyrir liggur að varnaraðili innti síðustu vaxtagreiðslu sína af hendi 15. ágúst 2008.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf., vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Þá var bankanum veitt greiðslustöðvun með úrskurði héraðsdóms 24. nóvember 2008. Með gildistöku laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og var bankanum skipuð slitastjórn. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna var slitameðferðin kennd við greiðslustöðvun á meðan heimild bankans til greiðslustöðvunar á grundvelli laga nr. 129/2008 um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 stendur. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingarblaðinu 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Lýsti sóknaraðili kröfu innan kröfulýsingarfrests með kröfulýsingu, dags. 23. nóvember 2009. Nam höfuðstóll kröfu hans 6.500.000 áströlskum dölum, eða 597.155.000 krónum, og fjárhæð vaxta til og með 22. apríl 2009 nam 247.954,27 áströlskum dölum, eða 22.779.559 krónum.
Í viðauka við kröfulýsinguna lýsti sóknaraðili heildarkröfu vegna dráttarvaxta frá 7. október 2008 til og með 22. apríl 2009 vegna allra þeirra skuldabréfakrafna sinna sem voru í áströlskum dölum án þess að tilgreina fjárhæð þeirra nákvæmlega í viðaukanum. Þá lýsti sóknaraðili sérstakri heildarkostnaðarkröfu sem tæki til allra skuldabréfakrafna sóknaraðila við slitameðferðina. Tók hann fram í kröfulýsingunni að sú fjárhæð tengdist ekki öll varnaraðila og að þess væri óskað að slitastjórnin myndi meta hlutfallslegan kostnað vegna máls þessa. Slitastjórn varnaraðila gaf út kröfuskrá hinn 8. desember 2009 þar sem birtur var listi yfir kröfur sem lýst var innan kröfulýsingarfrests og afstaða tekin til þeirra að því marki sem hún lá fyrir. Kröfuskráin var lögð fram á kröfuhafafundi 17. desember 2009.
Með bréfi, dags. 16. nóvember 2010, tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að hann samþykkti kröfu hans með breytingum og væri 619.778.148 króna krafa samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu varnaraðila til viðurkenningar kröfunnar á kröfuhafafundi 2. desember 2010, að því leyti sem krafan hefði ekki verið viðurkennd í samræmi við kröfulýsingu. Hinn 14. mars 2011 var haldinn fundur til að reyna að jafna ágreining um kröfu sóknaraðila en ekki tókst að leysa úr þeim ágreiningi. Ákvað slitastjórn varnaraðila því að beina ágreiningsefninu til héraðsdóms eftir ákvæðum 171. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.
III.
Sóknaraðili vísar til þess að mismunurinn milli aðal-, vara- og þrautavarakröfu hans komi til vegna mismunandi vaxtaútreikninga. Í öllum tilfellum sé gerð krafa um alla höfuðstólsupphæðina, miðað við samanlagt nafnvirði skuldabréfanna, og kostnað.
Sóknaraðili kveðst byggja á því að sameiginlegt heildarnafnvirði skuldabréfanna sé 597.155.000 krónur. Slitastjórn hafi samþykkt þessa höfuðstólsfjárhæð sem almenna kröfu við slitin og því sé enginn ágreiningur þar að lútandi milli aðila.
Aðalkrafa sóknaraðila um vexti sem nemi 88.754.992 krónum sundurliðist þannig að samningsvextir, sem reiknist frá 15. ágúst til 7. október 2008, nemi 6.579.828 krónum og dráttarvextir skv. lögum nr. 38/2001, sem reiknist á samanlagt heildarnafnvirði skuldabréfanna frá 7. október 2008 til og með 22. apríl 2009, nemi 82.175.163 krónum.
Samkvæmt
varakröfu sé krafist vaxta að fjárhæð 54.573.227 krónur
sem sundurliðist þannig að samningsvextir frá 15. ágúst 2008 til 7. október
2008 nemi 6.579.828 krónum og lögboðnir vextir fyrir dómsuppsögu samkvæmt lögum
New South Wales, sbr. 100. gr. einkamálalaga (Civil Procedure Act 2005, Nr. 28), reiknaðir á samanlagt heildarnafnvirði
skuldabréfanna og ógreidda samningsvexti frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009,
nemi 47.993.399 krónum.
Að öðrum kröfum frágengnum krefjist sóknaraðili vaxta eins og þeir séu viðurkenndir af slitastjórn, eða 22.623.148 króna, sem séu samningsvextir reiknaðir á samanlagt heildarnafnvirði skuldabréfanna frá 15. ágúst 2008 til og með 22. apríl 2009.
Í öllum tilfellum krefjist sóknaraðili kostnaðar að upphæð 27.148 krónur sem samanstandi af lögfræðikostnaði og útgjöldum sem hafi fallið til í tengslum við fall Glitnis og vegna undirbúnings og innheimtu á kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili krefjist dráttarvaxta frá 7. október 2008 en þann dag hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hlutahafafundar, vikið stjórninni frá og skipað skilanefnd yfir bankann. Sóknaraðili veki athygli á að varnaraðili hafi farið í greiðslustöðvun 24. nóvember 2008. Slitastjórnin hafi ranglega hafnað þessari kröfu sóknaraðila og úrskurðað þess í stað að greiða beri samningsbundna vexti til 22. apríl 2009 á þeim grundvelli að enginn lagagrundvöllur sé til þess að heimta lögbundna dráttarvexti.
Sóknaraðili telji að beita verði ákvæðum laga nr. 38/2001 um ákvörðun dráttarvaxta þar sem skilmálar skuldabréfanna kveði ekki á um viðeigandi vaxtastig þeirra. Hvað það varði byggi sóknaraðili einkum á því að óumdeilt sé að varnaraðili sé íslenskt félag sem heyri undir íslensk lög og að um slitameðferð hans fari samkvæmt íslenskum rétti samkvæmt lögum nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki og lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Nánar tiltekið sé skýrt tekið fram í 1. mgr. 104. gr. laga um fjármálafyrirtæki að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skuli fara að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greini í 2. mgr. 99. gr. Ákvæðið sem vísað sé til í 99. gr. kveði á um að ýmsar tegundir samninga, þar með taldir ráðningarsamningar, samningar um skuldajöfnuð og fasteignasamningar, en engum slíkum samningum sé til að dreifa í þessu máli, skuli lúta viðeigandi umsömdum landslögum. Samkvæmt því séu skuldabréfin ekki undanskilin og spurningin um rétt sóknaraðila til dráttarvaxta, og upphæð þeirra, falli innan réttaráhrifa, málsferðar og framkvæmdar slitameðferðar og skuli því ákvarðast í samræmi við íslensk lög. Sóknaraðili haldi því fram að þær reglur sem lög um fjármálafyrirtæki kveði á um séu sérreglur um lagaskil og gangi því framar öðrum almennum reglum um sama málefni. Hvorki lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki né lög nr. 21/1999 um gjaldþrotaskipti o.fl. kveði á um sérstakar reglur um vexti. Í samræmi við það séu kröfur sóknaraðila um vexti byggðar á lögunum um vexti og verðtryggingu. Í þeim lögum sé að finna ófrávíkjanleg ákvæði um dráttarvexti, þar með talið rétt til dráttarvaxta og hvenær þeir eigi við, þ.e. þegar samningur innihaldi ekki sérstök ákvæði um dráttarvexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. Ljóst sé að gildissvið þeirra takmarkist ekki við samninga sem lúti íslenskum lögum eða samningum sem séu í íslenskum krónum.
Sóknaraðili veki athygli á, svo öllu sé til haga haldið, að lög nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar skeri almennt úr um álitaefni í tengslum við hvaða lög eigi að gilda um einkaréttarlegar samningsskuldbindingar sem tengist fleiri en einni lögsögu. Þótt lögin um lagaskil kveði á um, undir ákveðnum kringumstæðum, að samningar heyri undir þau lög sem aðilar hafi með berum orðum ákveðið að gildi, þá veki sóknaraðili athygli á því að samkvæmt undantekningu frá gildissviði laganna í c-lið 2. mgr. 1. gr. gildi lögin ekki um samningsskuldbindingar sem byggist á skuldabréfum eða öðrum verðbréfum. Þannig eigi lög um lagaskil einfaldlega ekki við og vegna ástæðna sem raktar séu að framan verði íslensk lög að gilda um rétt til dráttarvaxta.
Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að lögin um lagaskil eigi við þá telji sóknaraðili að 4. gr. laga um lagaskil hafi þau áhrif að dómurinn verði að taka afstöðu til þess hvaða ríki hafi sterkust tengsl við dráttarvaxtakröfuna þar sem skilmálar skuldabréfanna kveði ekki á um rétt sóknaraðila til dráttarvaxta. Samkvæmt lögunum um lagaskil sé það ríki almennt það land sem sá aðili sem efna eigi aðalskyldu samningsins, í þessu tilviki varnaraðili, hafi verið staðsettur í við samningsgerðina, eða Ísland. Enn fremur sé það ríki sem sé mest tengt gjaldþroti varnaraðila án efa Ísland þar sem slitameðferðin fari fram á Íslandi, heyri undir íslenska dómstóla og fari fram samkvæmt íslenskum lögum.
Þar að auki segi í 7. gr. laganna um lagaskil: „ einnig [er] heimilt að beita ófrávíkjanlegum reglum í lögum annars lands sem atvik málsins hafa náin tengsl við, ef og að því marki sem skylt er að beita þeim samkvæmt lögum þess lands, óháð því hvaða lög eiga annars við um samninginn. Þegar metið er hvaða ófrávíkjanlegu reglur eiga við skal litið til eðlis þeirra og tilgangs og afleiðinga þess að beita þeim eða beita þeim ekki.“ Enn fremur segi í 2. mgr. ákvæðisins: „Ekkert í lögum þessum takmarkar beitingu ófrávíkjanlegra reglna íslensks réttar, ef mál er rekið hér á landi, óháð því hvers lands lögum á annars að beita um samninginn.“ Þetta sé í fullkomnu samræmi við 3. mgr. 3. gr. og 7. gr. Rómarsamningsins um lagaskil á sviði samningaréttar. Eins og fram komi að ofan þá gildi ófrávíkjanlegar reglur íslensks réttar sérstaklega í slitameðferð sem eigi sér stað á Íslandi í tengslum við íslenskt félag. Með hliðsjón af meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og sanngjarna meðferð kröfuhafa verði að telja að dóminum beri að beita íslenskum lögum um álitaefni sem rísi í tengslum við slitameðferð, þar með talið um rétt kröfuhafa til dráttarvaxta. Ákvæði 7. gr. laga um lagaskil kveði sérstaklega á um að dómstóllinn meti afleiðingar þess ef ákvæðum ófrávíkjanlegra lagaákvæða sé ekki beitt. Sóknaraðili telji að ef ófrávíkjanlegum ákvæðum í tengslum við vexti, þ.e. ákvæðum laga nr. 38/2001, sé ekki beitt þá muni það leiða til ójafnræðis og ósanngjarnrar niðurstöðu.
Telji dómurinn hins vegar, gagnstætt því sem sóknaraðili haldi fram, að um álitaefni varðandi dráttarvexti fari samkvæmt lögum New South Wales en ekki íslenskum lögum þá vísi sóknaraðili til þess að lög New South Wales mæli fyrir um lögbundna vexti í þessum aðstæðum. Á grundvelli þess að skilmálar skuldabréfanna kveði ekki á um viðeigandi vaxtastig dráttarvaxta, sem gilda skuli í tengslum við kröfu sóknaraðila, þá gildi lögbundnir vextir skv. 100. gr. einkamálalaganna (Civil Procedure Act 2005, nr. 28). Séu slíkir vextir nefndir vextir fyrir dómsúrlausn (pre-judgement interests) sé vaxtastigið samkvæmt lögum New South Wales 10% á ári, sem reiknist á fjárhæðir höfuðstóls og samningsvaxta frá 7. október 2008 til og með 5. mars 2009, og 9% frá 6. mars til og með 22. apríl 2009. Sé þetta staðfest í lögfræðiálitinu sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu. Sóknaraðili krefjist því 54.573.227 króna.
Varðandi kostnað vísi sóknaraðili til þess að samkvæmt íslenskum rétti eigi kröfuhafi rétt á að endurheimta kostnað í tengslum við innheimtu kröfu sinnar gagnvart þrotabúi. Þetta megi m.a. sjá í 114. gr. laga nr. 21/1991 þar sem beinlínis sé vísað til innheimtukostnaðar. Þessi meginregla í skiptarétti, þ.e. að kröfuhafi geti krafist kostnaðar úr búinu, hafi ítrekað verið staðfest í dómsúrlausnum. Gildi þessi meginregla augljóslega um kröfu hans með sama hætti og hún gildi um kröfur íslenskra kröfuhafa, þ.e. að kostnaður í tengslum við innheimtu og lýsingu krafna sé endurheimtanlegur frá búinu.
Sú regla að um kostnaðarkröfur skuli fara samkvæmt löggjöf heimaríkis slitameðferðarinnar sé sett fram í Evróputilskipun 2001/24/EC um fjárhagslega endurskipulagningu og slit fjármálastofnana, nánar tiltekið í k-lið 2. mgr. 10. gr. Þetta sé mikilvæg regla þar sem önnur niðurstaða myndi leiða til þess að kröfuhöfum yrði mismunað þegar greitt yrði úr búinu eingöngu á grundvelli þess undir hvaða lög samningar þeirra féllu.
Sóknaraðili krefjist kostnaðar sem fallið hafi til í tengslum við sönnun og framsetningu kröfunnar við slitameðferðina. Sóknaraðili hafi óhjákvæmilega þurft að leita faglegrar ráðgjafar vegna gjaldþrots varnaraðila enda hafi slitameðferðin áhrif í mörgum löndum. Til þess að lágmarka kostnaðinn hafi sóknaraðili, ásamt hópi annarra skuldabréfaeigenda, leitað eftir lögfræðiráðgjöf og annarri ráðgjöf erlendra og innlendra sérfræðinga. Hafi kostnaðinum verið skipt á milli kröfuhafanna og krefjist sóknaraðili greiðslu á þeim hluta kostnaðarins sem á hann hafi fallið. Sé sá kostnaður bein afleiðing af ógjaldfærni varnaraðila. Hafi hann verið nauðsynlegur og óhjákvæmilegur og standi í beinum tengslum við innheimtu sóknaraðila á kröfu sinni.
Kostnaðurinn sé sem fyrr segi samkvæmt reikningum sem sóknaraðili hafi greitt vegna ráðgjafar og sérfræðiþjónustu fyrir 22. apríl 2009. Sóknaraðili sé einnig kröfuhafi annarra gjaldþrota íslenskra banka en varnaraðila og tengist kostnaðurinn í mörgum tilvikum álitaefnum sem séu sameiginleg við allar slitameðferðirnar. Að því marki sem kostnaðurinn varði fleiri en einn af hinum föllnu íslensku bönkum hafi sóknaraðili skipt honum jafnt niður og krefjist þannig í þessu máli tiltekins hluta kostnaðarins. Enn fremur hafi sóknaraðili skipt kostnaðinum jafnt milli allra þeirra krafna sem hann hafi lýst við slitameðferð varnaraðila.
Sóknaraðili veki athygli á því að kostnaði hafi verið lýst sem hluta af kröfu sóknaraðila við slitameðferðina, svo sem fram komi í kröfulýsingu. Slitastjórn hafi á fyrri stigum til einföldunar skráð heildarkostnaðarkröfuna undir sérstökum lið á kröfuskrá. Óumdeilt sé milli aðila að rétt sé að fjalla um í þessu dómsmáli þann þátt kostnaðarins sem tengist þeirri kröfu sóknaraðila sem sé til meðferðar, sbr. framangreindar útskýringar á því hvernig kostnaðinum hafi verið skipt niður á kröfur sóknaraðila við slitameðferðina.
Varðandi lagarök kveðst sóknaraðili vísa m.a. til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 1., 5. og 6. gr. laganna, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 113. gr., og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sérstaklega 104. og 99. gr. um lagaskil, laga um lagaskil á sviði samningaréttar nr. 43/2000, Rómarsamningsins um lagaskil á sviði samningaréttar og Evróputilskipunar 2001/24/EC um endurskipulag og gjaldþrotaskipti fjármálastofnana. Þá sé vísað til laga New York-fylkis. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Varnaraðili vísar til þess að skv. 2. mgr. 117. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 skuli í kröfulýsingu tiltaka kröfur svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum, og hverrar stöðu sé krafist að krafan njóti í skuldaröð við gjaldþrotaskipti. Af fyrirmælum í 2. mgr. 117. gr. laganna megi ráða að kröfugerð þurfi nánast að vera með sama hætti og í stefnu í einkamáli, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þó sé gerður áskilnaður um efni kröfugerðar í kröfulýsingu sem gangi lengra en gert sé varðandi stefnu. Þannig verði í kröfulýsingu að tilgreina fjárhæð peningakröfu í krónum með nákvæmlega sundurliðuðum útreikningi hennar. Þannig nægi ekki að krefjast vaxta með hliðstæðum hætti og í stefnu heldur sé beinlínis boðið að reikna þá út og tiltaka fjárhæð þeirra sem þátt í heildarkröfunni.
Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila hafi ekki verið sett fram í kröfulýsingunni sjálfri heldur í sérstökum viðauka með henni. Varnaraðili bendi á að sóknaraðili hafi ekki rökstutt kröfuna frekar eða lagt fram frekari sundurliðun á henni á kröfuhafafundum. Þannig hafi hann ekki gert athugasemdir við skráningu á kröfu sinni á fyrsta kröfuhafafundinum sem haldinn hafi verið 17. desember. 2009. Hann hafi hins vegar mótmælt afstöðu slitastjórnar án frekari rökstuðnings, en eins og komið hafi fram hafi varnaraðili ekki skráð dráttarvaxtakröfuna á kröfuskrá þar sem hún hafi verið vanreifuð og óljós.
Komi til þess að dómari telji dráttarvaxtakröfu sóknaraðili nægjanlega skýrt fram komna vísi sóknaraðili til þess að óumdeilt sé, og verði að leggja til grundvallar, að hvorki útgáfuáætlun né viðaukinn vegna verðlagningar innihaldi ákvæði um greiðslu dráttarvaxta eða annarra vaxta, annarra en samningsvaxta. Þar sem ekki hafi verið sérstaklega kveðið á um hvernig vextir skyldu reiknaðir ef vanskil yrðu hafi varnaraðili valið þá leið að samþykkja samningsvexti af bréfunum til 22. apríl 2009, eins og til vanskila hefði ekki komið. Varnaraðili telji þá leið bæði eðlilega og sanngjarna.
Þá komi skýrt fram að um umrædd skuldabréf gildi lög New South Wales. Dráttarvextir séu einn hluti samningssambandsins og fari sá hluti því einnig eftir lögum New South Wales skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000. Sé það og í samræmi við reglur íslensks skiptaréttar um lagaskil að um málsmeðferðina fari samkvæmt íslenskum lögum en efnisréttindi kröfuhafa kunni að ráðast af erlendum lögum, t.d. hafi um það verið samið eins og hér eigi við. Varnaraðili telji óþarft að fara ítarlega í lög um lagaskil nr. 43/2000 eins og sóknaraðili geri enda sé skýrt tekið fram í samningi aðila að samningurinn skuli fara eftir lögum New South Wales og í 3. gr. laganna komi m.a. fram að um samninga skuli beita þeim lögum sem samningsaðilar hafi valið berum orðum. Með hliðsjón af ofangreindu mótmæli varnaraðili aðalkröfu sóknaraðila um íslenska dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001.
Í álitsgerð sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu séu rakin ákvæði um vexti í 100. gr. einkamálalaga New South Wales (Civil Procedure Act 2005) og fullyrt að ef ekki er samið um dráttarvexti þá myndu dómstólar í New South Wales ákveða að lögbundnir vextir ættu að gilda samkvæmt greindu ákvæði. Bæði í álitsgerð sóknaraðila og varnaraðila komi hins vegar fram að aðili eigi ekki rétt á lögbundnum vöxtum fyrir dómsúrlausn skv. 100. gr. (3b) hafi sóknaraðili samningsbundinn rétt til vaxta. Varnaraðili hafi þegar samþykkt vexti samkvæmt skilmálum skuldabréfanna til og með 22. apríl 2009. Þá telji varnaraðili að 101. gr. tilgreindra einkamálalaga um vexti eftir dómsúrlausn (post-judgement interest) eigi ekki við þar sem þeir vextir komi ekki til álita nema greiðsla samkvæmt úrskurði New South Wales dómstóli hafi ekki verið innt af hendi innan 28 daga frá úrskurði.
Varnaraðili telji að hafna beri kröfu sóknaraðila um íslenska dráttarvexti eða aðra vexti samkvæmt lögum New South Wales fram til 22. apríl 2009. Samkvæmt 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki gildi, við slit fjármálafyrirtækis, sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Í frumvarpi til laganna komi fram að þessi regla breyti ekki ákvæðum 99. gr. laga nr. 21/1991 um að heildarfjárhæð einstakra krafna skuli miðast við þann tíma sem fyrirtæki sé tekið til slitameðferðar og ákvæði 114. gr. sömu laga um að kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu, sem falli til eftir upphaf slitameðferðar, skuli standa að baki öðrum kröfum. Gjalddagi umræddra skuldabréfa hafi verið 15. nóvember 2012, þ.e. eftir upphafsdag skipta.
Rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðist af þeim degi sem úrskurður um slitameðferð gangi. Í tilviki varnaraðila sé miðað við gildistökudag laga nr. 44/2009, þ.e. 22. apríl 2009. Gildistaka laga nr. 44/2009 marki þannig ákveðinn skurðpunkt sem leiði til þess að kröfur um vexti, verðbætur og kostnað af innheimtu kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, sem hafi fallið til eftir úrskurð um slitameðferð, teljist eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laganna.
Í 15.2 gr. útgáfulýsingarinnar, þar sem kveðið sé á um vanefndatilvik, komi fram að sé dómsmeðferð, skiptameðferð eða gjaldþrotaskipti hafin gegn útgefanda sé kröfuhafa heimilt að gjaldfella skuldina. Til að neyta slíks vanefndarúrræðis verði kröfuhafi að beina skriflegri tilkynningu um það til skuldara og hafi slík ákvöð áhrif gagnvart skuldaranum frá því að hún berist honum. Engin ákvæði í skráningarlýsingunni eða verðlagningarskránni veiti kröfuhafa heimild til að víkja frá þessari almennu reglu. Ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi beint tilkynningu um gjaldfellingu skuldabréfanna til varnaraðila, en slík tilkynning hefði þurft að berast áður en varnaraðili fór í greiðslustöðvun, eða fyrir 24. nóvember 2008.
Þar sem hvorki skráningarlýsingin né verðlagningarskráin hafi að geyma ákvæði um greiðslu dráttarvaxta sé ekki unnt að líta svo á að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt umræddum skuldabréfum hafi gjaldfallið fyrr en í fyrsta lagi þegar úrskurður um slitameðferð varnaraðila leiddi til þess skv. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. mgr. 99. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila hafi því ekki verið fallin í gjalddaga við upphaf slitameðferðar varnaraðila hinn 22. apríl 2009. Beri með hliðsjón af framanröktu að hafna kröfu sóknaraðila um íslenska dráttarvexti eða aðra vexti skv. lögum New South Wales fram til 22. apríl 2009.
Varnaraðili vísi til álitsgerðar sem hann hafi lagt fram í málinu varðandi lög New South Wales þar fram komi að þar sem sóknaraðili hafi ekki nýtt rétt sinn til að gjaldfella skuldabréfin eigi að fara með þau eins og vanefndatilvik hafi ekki átt sér stað.
Varðandi innheimtukostnað byggi varnaraðili á því að hafna beri alfarið kröfu sóknaraðila um innheimtukostnað á þeim grundvelli að engin lögbundin eða samningsbundin ákvæði skuldbindi varnaraðila til þess að greiða slíka kröfu. Sé krafa sóknaraðila byggð á því að um sé að ræða kostnað sem fallið hafi til í tengslum við sönnun og framsetningu kröfunnar við slitameðferðina. Þessu mótmæli varnaraðili og bendi á að samkvæmt yfirliti því sem sé að finna í viðauka með kröfulýsingunni tengist meginhluti umkrafins kostnaðar á engan hátt sönnun og framsetningu kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila. Þvert á móti virðist kostnaðurinn til kominn vegna umfangsmikillar íslenskrar og erlendrar lögfræðiráðgjafar sem tengist í fyrsta lagi atriðum er varði framkvæmd slitameðferðar, viðbrögð Íslands við bankahruninu og áhrif á kröfu sóknaraðila, íslensk gjaldþrotalög og reglur varðandi útgreiðslu, möguleg greiðsluform til kröfuhafa og önnur álitaefni tengd eftir á greiðslum. Þá tengist þessi kostnaður bréfaskriftum og fundahöldum lögfræðiráðgjafa sóknaraðila, m.a. með skilanefnd varnaraðila, fulltrúum íslenskra yfirvalda, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, svo og þátttöku þeirra í formlegum og óformlegum kröfuhafafundum varnaraðila og öðrum fundum sem séu ekki tilgreindir nánar. Í þriðja lagi tengist kostnaðurinn mati á eignum og skuldum varnaraðila og hugsanlegri sölu á eignum. Í fjórða lagi tengist hún lögfræðiráðgjöf varðandi álitaefni tengd áhrifum nýja bankans á kröfur sóknaraðila sem og samráði við kröfuhafahópa og samráði við aðra kröfuhafa. Samkvæmt þessu sé með engu móti hægt að komast að þeirri niðurstöðu að framangreindur útlagður kostnaður sóknaraðila tengist eingöngu innheimtu kröfunnar heldur þyki ljóst að hann sé til kominn vegna annarra ótengdra atriða. Þá virðist vinna þessi vera langt umfram það sem geti talist eðlilegt við þann einfalda gerning að lýsa kröfu við slitameðferð. Sá kostnaður falli til eftir upphaf slitameðferðar og teljist því eftirstæð krafa skv. 114. gr. laga nr. 21/1991. Stofnað hafi verið til þessa kostnaðar að eigin frumkvæði sóknaraðila og geti hann ekki vænst þess að fá kostnað við almenna lögfræðiþjónustu greiddan úr búi varnaraðila. Ekki verði með vissu ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvernig fjárhæð umrædds kostnaðar sé fengin eða hvenær til hans hafi verið stofnað sem telja verði lykilatriði við mat á því hvort hann hafi fallið til fyrir eða eftir upphaf slitameðferðarinnar.
Sóknaraðili vísi til Evróputilskipunar 200/24/EC um fjárhagslega endurskipulagningu og slit fjármálastofnana, nánar tiltekið til k-liðar 2. mgr. 10. gr., þar sem fram komi að með kröfur um kostnað skuli fara samkvæmt löggjöf heimaríkis. Varnaraðili mótmæli þessu ekki og bendi á 22. gr. laga nr. 21/1991 í því sambandi. Kostnaður sóknaraðila verði til eftir að varnaraðili hafi farið í greiðslustöðvun hinn 24. nóvember 2008 og eftir það tímamark sé því ekki heimilt að samþykkja kostnað vegna innheimtu krafna.
Þá sé ljóst, með hliðsjón af 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, að krafa sóknaraðila sé verulega vanreifuð og leiði það eitt til þess að hafna beri kröfunni.
Um lagarök kveðst varnaraðili vísa m.a. til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, laga um lagaskil nr. 43/2000, laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, meginreglna gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa, meginreglna samningaréttar um túlkun samninga og laga New South Wales um greiðsluþrot. Kröfu um málskostnað byggi varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Eins og áður er lýst kemur fram í útgáfulýsingu vegna skuldabréfaútgáfu varnaraðila (offering sircular) að um þau skuldabréf sem hér um ræðir gildi almennir skilmálar sem þar komi fram og skilmálar sem komi fram í sérstökum viðauka með henni. Var hinn 25. janúar 2005 gefinn út sérstakur viðauki er tekur til verðlagningar (pricing supplement) og koma þar fram frekari skilmálar fyrir skuldabréfaflokkinn sem bréf sóknaraðila eru hluti af. Hefur sóknaraðili sem kaupandi bréfanna gengist undir framangreinda skilmála þeirra og óumdeilt er að hann er af þeim bundinn. Fram kemur, bæði í útgáfulýsingunni sjálfri og í skilmálum bréfanna, að skuldabréfin og skilmálarnir lúti lögum New South Wales og skuli túlkast í samræmi við þau. Samkvæmt þessu, og með vísan til 3. gr. laga um lagaskil nr. 43/2000, verður þetta samkomulag aðilanna lagt til grundvallar varðandi það að um skuldabréfin og skilmála þeirra skuli beita lögum New South Wales um skuldabréfin. Verður ekki talið að ákvæði c-liðs 2. mgr. 1. gr. laga breyti neinu í þessu sambandi, eins og sóknaraðili heldur fram, enda á sú undanþága einungis við að svo miklu leyti sem álitaefni sem til úrlausnar eru snerta eðli skuldabréfanna sem viðskiptabréfa.
Báðir málsaðilar hafa lagt fram í málinu allítarleg sérfræðiálit og gögn frá áströlskum lögmannsstofum um þau ágreiningsefni og lagaákvæði sem hér eru til úrlausnar með tilliti til ástralskra laga og um efni þeirra lagareglna. Samkvæmt því verður að telja að bæði tilvist og efni þeirra lagareglna sem um ræðir sé nægilega í ljós leitt í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Slitastjórn varnaraðila samþykkti höfuðstól kröfu sóknaraðila í samræmi við kröfulýsingu hans og er því ekki um hana ágreiningur. Þá samþykkti hún einnig sem almenna kröfu ógreidda samningsvexti á höfuðstól kröfunnar til 22. apríl 2009. Aðalkrafa sóknaraðila vegna vaxtaþáttarins lýtur hins vegar að því að hann eigi að fá viðurkennda samningsvexti á tímabilinu frá 15. ágúst 2008 til 7. október 2008, en dráttarvexti samkvæmt íslenskum lögum frá þeim degi til upphafsdags slitameðferðar varnaraðila hinn 22. apríl 2009. Varnaraðili hefur mótmælt þessu og vísar í því sambandi í fyrsta lagi til þess að í kröfulýsingu sóknaraðila hafi krafa hans um þessa vexti ekki verið tilgreind svo nákvæmlega sem lögboðið sé í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 og hljóti því þegar af þeirri ástæðu að verða að hafna slíkri kröfu. Í málinu liggur fyrir kröfulýsing sóknaraðila ásamt viðaukum og fylgiskjölum sem fylgdu með henni til slitastjórnar varnaraðila. Eru skjöl þessi öll rituð á enska tungu og hafa ekki verið lögð fram í málinu í íslenskri þýðingu. Af þeim og öðrum gögnum má þó ráða að með umræddri kröfulýsingu sinni krefjist sóknaraðili greiðslu höfuðstóls að fjárhæð 6.500.000 ástralskir dalir og áfallinna vaxta að fjárhæð 247.954,27 ástralskir dalir samkvæmt meðfylgjandi yfirliti. Auk þess er þar vísað til sérstaks viðauka varðandi dráttarvaxtaútreikning skv. lögum nr. 38/2001. Kemur þar fram útreikningur dráttarvaxtanna á höfuðstól kröfunnar frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 900.561,64 ástralskir dalir. Enda þótt framsetning kröfulýsingar sóknaraðila sé ekki svo skýr sem skyldi þykir þó verða að líta svo á, eins og hér háttar, og með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 673/2010, að greindur viðauki teljist hluti kröfulýsingar sóknaraðila og að krafa hans um dráttarvexti rúmist innan þeirra marka sem 2. mgr. 117. gr., sbr. 1. mgr. 177. gr., laga nr. 21/1991 heimilar. Telst þessum hluta kröfu sóknaraðila því lýst með fullnægjandi hætti.
Ekki sýnist um það ágreiningur að í þeim skilmálum sem um skuldabréfin gilda sé ekkert kveðið á um greiðslu dráttarvaxta eða útreikning vaxta við vanskil. Er áður komið fram að samkvæmt ákvæðum skilmálanna skuli lög New South Wales gilda um þau skuldabréf er hér um ræðir og skilmálarnir túlkaðir í samræmi við þau. Leiðir af c-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 43/2000 að þau lög gildi einnig um afleiðingar vanefnda varnaraðila á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu, þar á meðal um rétt til vanefndavaxta. Er því hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að reikna beri íslenska dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001 á kröfu hans.
Sóknaraðili gerir þá varakröfu vegna vaxtaþáttarins að viðurkenndur verði réttur hans til lögboðinna vaxta samkvæmt lögum New South Wales frá 7. október 2008 til 22. apríl 2009. Af málatilbúnaði aðila má ráða að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að lög New South Wales gildi um skilmála skuldabréfanna og ákvörðun vaxta sé ágreiningslaust að réttur sóknaraðila til dráttarvaxta ráðist af ákvæði 100. gr. einkamálalaga New South Wales (Civil Procedure Act 2005), um vexti fram að dómsuppkvaðningu, þó sóknaraðili vísi að því frágengnu einnig til 101. gr. laganna gegn mótmælum varnaraðila. Í 3. mgr. 100. gr. laganna kemur fram að greinin heimili ekki að veittir séu vextir á skuld á tímabili þar sem fyrir hendi er réttur til vaxta, hvort sem það er á grundvelli samnings eða á öðrum grundvelli. Þykir verða að skýra þetta ákvæði svo, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, að þar sem óumdeilt er að í skilmálum skuldabréfanna sé kveðið á um tilgreinda samningsvexti, jafnvel þótt engu ákvæði um dráttarvexti sé þar til að dreifa, veiti umrædd 100. gr. ekki heimild til ákvörðunar dráttarvaxta í stað samningsvaxta eða þeim til viðbótar.
Þá verður ekki talið að ákvæði 101. gr. tilvitnaðra einkamálalaga eigi hér við, enda er þar einungis kveðið á um vexti þegar greiðsla samkvæmt úrskurði New South Wales-dómstóls hefur ekki verið innt af hendi innan tilgreinds tíma.
Fram er komið að lokagjalddagi umræddra skuldabréfa samkvæmt skilmálunum var eftir viðmiðunardag slitameðferðarinnar, eða hinn 27. janúar 2010. Verður hvorki leitt af skilmálum bréfanna né ákvæðum laga að þau hafi fallið sjálfkrafa í gjalddaga hinn 7. október 2008 við yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á rekstri varnaraðila, eins og sóknaraðili heldur fram, eða á einhverjum öðrum tímapunkti fyrir framangreindan viðmiðunardag 22. apríl 2009. Í gr. 15.2 í útgáfulýsingunni kemur fram að eigi vanefndartilvik (event of default) sér stað, sbr. skilgreiningu í gr. 15.1, sé kröfuhafa heimilt að gjaldfella skuldina með því að beina skriflegri tilkynningu um það til skuldara og hafi slík ákvöð áhrif gagnvart skuldaranum frá því að hún berist honum. Jafnvel þótt telja verði að yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á rekstri varnaraðila falli undir vanefndatilvik í skilningi ákvæðisins liggur fyrir að sóknaraðili sendi ekki varnaraðila slíka skriflega tilkynningu og nýtti sér þar af leiðandi ekki valkvæða heimild ákvæðisins til gjaldfellingar skuldabréfs þegar vanefndatilvik á sér stað.
Þegar til framangreinds er litið verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á að honum beri að fá samþykkta, sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, kröfu sína um dráttarvexti samkvæmt lögum New South Wales sem reiknist ofan á höfuðstól kröfunnar eða gjaldfallna samningsvexti. Verður kröfum hans er að þessu lúta því hafnað.
Sóknaraðili gerir í máli þessu kröfu um að viðurkennd verði krafa hans um áfallinn kostnað sem nemi 160.862 krónum. Kveður hann kostnað þennan hafa fallið á í tengslum við sönnun og framsetningu kröfu sinnar við slitameðferðina. Samkvæmt þeim skjölum sem sóknaraðili hefur lagt fram til stuðnings þessari kröfu verður ráðið að greindur kostnaður sé fjárhæð sem reiknuð hafi verið út sem hlutfall af heildarkostnaði sóknaraðilans vegna umfangsmikillar lögfræðilegrar ráðgjafar íslenskra og erlendra lögfræðistofa vegna slitameðferðar föllnu bankanna, Glitnis banka hf., Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Liggur engan veginn ljóst fyrir af þessum gögnum hvað af þessum kostnaði tengist beint slitameðferð varnaraðila. Þá liggur heldur ekki fyrir hvenær kostnaður þessi féll til. Þannig virðist sem verulegur hluti kostnaðarins hafi fallið til eftir að úrskurður um greiðslustöðvun varnaraðila var kveðinn upp hinn 24. nóvember 2008 og hluti hans hafi fallið til eftir viðmiðunardag slitameðferðarinnar hinn 22. apríl 2009. Eru flestir þeirra reikninga sem sóknaraðili byggir kröfu sína á dagsettir eftir greindan viðmiðunardag. Með hliðsjón af framangreindu þykir sóknaraðili, þegar af þessum ástæðum, ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að til kostnaðar þessa hafi verið stofnað með þeim hætti að hann geti átt réttmæta kröfu að þessu leyti. Verður þessari kröfu hans því hafnað.
Að öllu því virtu sem að framan er rakið, og í samræmi við kröfu dómkröfur varnaraðila í málinu, verður krafa sóknaraðila að fjárhæð 619.778.148 krónur á hendur varnaraðila viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Með vísan til þess að veruleg vafaatriði þykja vera fyrir hendi í máli þessu þykir rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar.
Mál þetta fluttu Kári Hólmar Ragnarsson hdl. fyrir hönd sóknaraðila og Páll Eiríksson hdl. fyrir hönd varnaraðila.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Krafa sóknaraðila, Deutche Bank AG London, að fjárhæð 619.778.148 krónur, á hendur varnaraðila, Glitni banka hf., er viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Málskostnaður fellur niður.