Hæstiréttur íslands

Mál nr. 427/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Veðskuldabréf


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. nóvember 2003.

Nr. 427/2003.

Lífeyrissjóður starfsmanna

Reykjavíkurborgar

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Valgerði J. Jónsdóttur og

(Skúli Pálsson hrl.)

Eignamiðluninni ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Kyrrsetning. Veðskuldabréf.

L krafðist kyrrsetningar á fjármunum í eigu V sem voru í vörslum E ehf. vegna sölu V á eignarhluta sínum í tiltekinni fasteign. Í málinu lá fyrir að lán samkvæmt skuldabréfi sem L hafði veitt S hafði verið tryggt í eignarhluta V í umræddri fasteign. Hins vegar hafði veðréttur samkvæmt skuldabréfinu fallið niður við aflýsingu þess skömmu eftir sölu hennar. Þá lá fyrir að V var ekki skuldari samkvæmt umræddu skuldabréfi. Átti L því ekki lögvarða kröfu á hendur V um greiðslu peninga samkvæmt bréfinu. Var ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir því að unnt væri að kyrrsetja eignir V til tryggingar fullnustu skuldar S. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 5. nóvember 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2003 þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 6. júní 2003 um að hafna því að kyrrsetja fjármuni í eigu varnaraðila Valgerðar sem væru í vörslum varnaraðila Eignamiðlunarinnar ehf. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík að kyrrsetja fyrrnefnda fjármuni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Valgerður J. Jónsdóttir krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og henni dæmdur kærumálskostnaður. Varnaraðilinn Eignamiðlunin ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði veitti sóknaraðili Sævari Friðrik Sveinssyni lán, að fjárhæð 120.000 krónur samkvæmt skuldabréfi 5. nóvember 1981 tryggðu með veði í nánar tilgreindum eignarhluta í fasteigninni við Krummahóla 6 í Reykjavík. Var lánið bundið lánskjaravísitölu. Hinn 4. janúar 1991 var þinglýst yfirlýsingu 10. desember 1990 um flutning á veðskuldinni yfir á tilgreindan eignarhluta í fasteigninni að Bólstaðarhlíð 68 í Reykjavík, sem mun hafa verið í eigu varnaraðilans Valgerðar. Hinn 17. apríl 1998 var gerð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins en skuldari þess var sem fyrr Sævar Friðrik Sveinsson. Var tekið fram að höfuðstóll skuldarinnar væri 1.492.464 krónur miðað við 5. febrúar 1998. Með kaupsamningi 12. maí 2003 seldi varnaraðilinn Valgerður eignarhluta sinn í fasteigninni að Bólstaðarhlíð 68 og eru fjármunir vegna sölunnar sagðir vera í vörslum varnaraðilans Eignamiðlunarinnar ehf. Í kaupsamningnum var ekki getið um að umrætt skuldabréf skyldi hvíla á eigninni. Vanskil urðu á afborgunum skuldabréfsins, en eftir greiðslu gaf sóknaraðili út 14. maí 2003 kvittun til handa Sævari Friðrik Sveinssyni. Sú kvittun er misvísandi. Skjalið ber yfirskriftina „kvittun (fullnaðargreiðsla)” og er sérstaklega tiltekið að eftirstöðvar skuldarinnar séu engar, en hins vegar jafnframt að ógjaldfallnar uppfærðar eftirstöðvar með vöxtum séu 843.213 krónur með næsta gjalddaga 1. nóvember 2003. Í kjölfarið var umrætt veðskuldabréf afhent sýslumanni til aflýsingar og mun því hafa verið aflýst af eign varnaraðila Valgerðar 15. maí 2003. Sóknaraðili kveðst hafa afhent skuldabréfið til aflýsingar vegna misskilnings, en af hálfu varnaraðila Valgerðar er því haldið fram að það hafi verið gert án fyrirvara og eftir samskipti aðila þar að lútandi þannig að sóknaraðili hafi afhent bréfið áritað um heimild til aflýsingar. Sóknaðili leitaði eftir því við sýslumann með bréfi 16. maí 2003 að hann aflýsti bréfinu ekki og jafnframt væri afturkölluð áritun sóknaraðila á veðskuldabréfið um aflýsingu. Þessu hafnaði sýslumaður með bréfi 26. maí 2003 með vísan til þess að aflýsing bréfsins hefði þegar farið fram og yrði það ekki innfært að nýju nema með samþykki núverandi eigenda eignarinnar. Í kjölfar þessarar ákvörðunar fór sóknaraðili þess á leit við sýslumann að hann kyrrsetti fjármuni varnaraðilans Valgerðar, sem væru í vörslum varnaraðila Eignarmiðlunarinnar ehf. Þessari beiðni sóknaraðila hafnaði sýslumaður 6. júní 2003 með vísan til þess að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 væru ekki uppfyllt.

Eins og að framan er rakið féll niður veðréttur samkvæmt umræddu skuldabréfi við aflýsingu þess af þeim eignarhluta fasteignarinnar Bólstaðarhlíð 68 í Reykjavík, sem áður var í eigu varnaraðilans Valgerðar. Þá liggur fyrir að hún er ekki skuldari samkvæmt umræddu skuldabréfi. Á sóknaraðili því ekki samkvæmt bréfinu lögvarða kröfu á hendur henni um greiðslu peninga. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 fyrir því að unnt sé kyrrsetja eignir varnaraðilans Valgerðar til tryggingar fullnustu skuldar Sævars Friðriks Sveinssonar. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum Valgerði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, greiði varnaraðilanum Valgerði J. Jónsdóttur 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2003.

                Mál þetta var þingfest 14. júlí 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 8. október sl.

                Sóknaraðili er Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, kt. 430269-6589, Vegmúla 2, Reykjavík.

                Varnaraðilar eru Valgerður J. Jónsdóttir, kt. 190230-2609, Bólstaðarhlíð 68, Reykjavík, og Eignamiðlunin ehf., fasteignasala, kt. 600989-1119, Síðumúla 21, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík „í máli K-29/2003 verði hrundið og kyrrsetning nái fram að ganga og gert að ljúka henni þegar í stað."  Þá er þess krafist að varnaraðilar verði dæmdir til að greiða sóknaraðila málskostnað skv. mati réttarins.

                Dómkröfur varnaraðila, Valgerðar J. Jónsdóttur, eru að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík „í máli K-29/2003" verði staðfest og að kyrrsetningarkröfu sóknaraðila verði hrundið.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.

 Eignamiðlunin ehf. heldur ekki uppi vörnum.

 

Helstu málavextir eru að gerðarbeiðandi lánaði Sævari F. Sveinssyni 120.000 kr. samkvæmt skuldabréfi 5. nóvember 1981.  Með yfirlýsingu 20. desember 1990 var lánið flutt á fasteignina Bólstaðarhlíð 68, Reykjavík, sex herbergja íbúð á þriðju hæð, upphaflega á fjórða veðrétti með uppfærslurétti.  Þinglýstur eigandi fasteignarinnar var varnaraðili, Valgerður J. Jónsdóttir.  Með yfirlýsingu 17. apríl 1998 var greiðsluskilmálum breytt og varð höfuðstóll skuldarinnar þá 1.492.464 kr.  Vanskil urðu á afborgunum en 14. maí 2003 var skuldabréfinu aftur komið í skil.  Kvittun fyrir greiðslunni er misvísandi.  Annars vegar segir að eftirstöðvar séu engar en hins vegar að ógjaldfallnar, uppfærðar eftirstöðvar með vöxtum séu 843.213 kr. með næsta gjalddaga 1. nóvember 2003.

                Af hálfu sóknaraðila segir að sökum mistaka starfsmanns og misskilnings hafi veðskuldabréfið verið afhent til aflýsingar.  Og með bréfi 16. maí 2003 til sýslumannsins í Reykjavík hafi þess verið farið á leit af hálfu sóknaraðila að veðskuldabréfinu yrði ekki aflýst.

Bréfi sóknaraðila svaraði sýslumaður efnislega þannig að aflýsing veðskuldabréfsins af eigninni hefði farið fram daginn áður og yrði veðskuldabréfið ekki innfært að nýju nema með samþykki núverandi eigenda eignarinnar.

                Með bréfi, sem móttekið var hjá sýslumanni 2. júní 2003, fór gerðarbeiðandi þess á leit að kyrrsettir yrðu fjármunir Valgerðar, sem væru í vörslum gerðarþola, Eignamiðlunar ehf., fyrir gerðarþola, Valgerði.  Sýslumaður hafnaði beiðni sóknaraðila bréflega 6. sama mánaðar þar sem skilyrði til kyrrsetningar væru ekki fyrir hendi, sbr. 5. gr. laga nr. 31/1990, svo sem hann rökstuddi nánar.

 

Sóknaraðili byggir á því að Eignamiðlunin ehf. sé vörsluaðili fjármuna á grundvelli laga nr. 54/1997.  Forsvarsmönnum félagsins hafi verið gert kunnugt um stöðu og uppgreiðsluverðmæti veðskuldabréfs í eigu sóknaraðila og hagsmuni sóknaraðila í máli þessu.  Kaupsamningur hafi verið gerður 12. maí 2003 en veðskuldabréfinu aflýst 15. sama mánaðar.  Hafi þeim borið að gæta þess að kanna stöðu áhvílandi veðskulda og gæta þess að söluverð fasteignar, sem hér um ræðir, rynni til greiðslu á umræddu veðskuldabréfi.  Skuldari veðskuldabréfsins, Sævar F. Sveinsson, sé eignalaus og hafi farið fram árangurslaust fjárnám hjá honum 20. febrúar 2003.  Varnaraðili, Valgerður, hafi synjað sóknaraðila um greiðslu á veðskuldabréfinu.  Nauðsynlegt sé því fyrir sóknaraðila að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja fjármuni í vörslu Eignamiðlunar ehf. vegna sölu Valgerðar á íbúðinni, sem hér um ræðir, að Bólstaðarhlíð 68.

 

Varnaraðili, Valgerður J. Jónsdóttir, heldur því fram að skilaboð hafi farið á milli sóknaraðila og talsmanna hennar um veðskuldabréfið, er hér um ræðir, eftir að það kom til álita að aflýsa því af umræddri fasteign.  Frumrit veðskuldabréfsins hafi við svo búið verið áritað svo að því mætti aflýsa og afhent forsvarsmönnum hennar.

                Byggt er á því að varnaraðili sé ekki skuldari veðskuldabréfsins, heldur hafi hún verið eigandi eignar sem sett var til tryggingar greiðslu skuldarans, Sævars F. Sveinssonar.  Með aflýsingu bréfsins sé ljóst að réttarsambandi sóknar- og varnaraðila var lokið.  Ekki sé við varnaraðila að sakast þó vera kunni að sóknaraðili hafi gert mistök með því að árita bréfið um að því mætti aflýsa, jafnframt því að láta það af hendi til varnaraðila svo að því væri komið til sýslumanns til aflýsingar.

 

Niðurstaða:  Sýslumaður hafnaði beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu með vísun til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.  Verður að fallast á með sýslumanni að ekki hafi dregið verulega úr líkindum sóknaraðila til að fullnusta kröfu um greiðslu peninga úr hendi varnaraðila þó kyrrsetning fari ekki fram.  Með öðrum orðum er engin augljós ástæða til að ætla að varnaraðili muni ekki geta greitt kröfuna að gengnum dómi um greiðsluskyldu sína eða bent á eignir til að tryggja hana við aðför.

                Samkvæmt framangreindu verður kröfu sóknaraðila hafnað.

                Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila, Valgerði J. Jónsdóttur, 50.000 kr. í málskostnað.

Páll Þor­s­teins­son héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

                Hafnað er kröfum sóknaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Valgerði J. Jónsdóttur, 50.000 kr. í málskostnað.