Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Áfrýjunarfjárhæð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 22. ágúst 2012. |
|
Nr. 469/2012. |
Engjasel 84-86, húsfélag (Katrín Smári Ólafsdóttir hdl.) gegn Kára Hrafnkelssyni (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Kærumál. Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.
E húsfélag kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli þess gegn K var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að höfuðstóll endanlegrar kröfu húsfélagsins hefði numið 38.117 krónum. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 yrði beitt um kæruna, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga en þegar málið var kært hafi áfrýjunarfjárhæðin verið 705.325 krónur. Þar sem krafan náði ekki þeirri fjárhæð var málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til j. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði málið í héraði til heimtu ætlaðrar skuldar varnaraðila vegna hlutdeildar hans í tilgreindum kostnaði sem sóknaraðili stofnaði til. Höfuðstóll endanlegrar dómkröfu hans í héraði er, eins og lýst er í hinum kærða úrskurði, 38.117 krónur. Hann krefst auk þess dráttarvaxta og staðfestingar á lögveðsrétti í íbúð varnaraðila, auk málskostnaðar. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 verður beitt um kæru þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. laganna. Þegar málið var kært til Hæstaréttar var áfrýjunarfjárhæð 705.325 krónur. Samkvæmt þessu brestur skilyrði til kæru í málinu og ber að vísa því sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdómi Reykjavíkur þriðjudaginn 12. júní 2012.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 25. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Húsfélaginu Engjaseli 84-86, kt. 430610-0820, Engjaseli 84, Reykjavík, með stefnu, birtri 28. október 2011, á hendur Kára Hrafnkelssyni, kt. 140165-3879, Böggvisbraut 15, Dalvík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 38.117, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2011 frá 24.11. 2011 til greiðsludags. Þá er krafizt málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti og dráttarvöxtum á málskostnað frá 15. degi eftir dómsuppsögudag til greiðsludags samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Enn fremur er þess krafizt, að staðfestur verði lögveðsréttur fyrir kröfunni, ásamt vöxtum og kostnaði, í íbúð stefnda, merktri 09-0002, með fastanúmeri 205-5543, í fasteigninni nr. 86 við Engjasel í Reykjavík.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, til vara, að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda, og til þrautavara, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og kröfu stefnanda um dráttarvexti verði vísað frá dómi. Einnig er krafizt málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti, úr hendi stefnanda.
II
Málavextir
Málavöxtum er lýst svo í stefnu, að stefnandi sé húsfélag, starfrækt af eigendum fasteignarinnar að Engjaseli 84-86, Reykjavík, en fasteignin sé fjöleignarhús með tuttugu íbúðum, byggt árið 1977. Húsið skiptist í tvo stigaganga og séu tíu eignarhlutar í hvorum stigagangi. Stefndi sé þinglesinn eigandi ofangreindrar íbúðar í húsinu nr. 86 við Engjasel í Reykjavík, merktri 09-0002. Á stefnda hafi verið lögð framkvæmdasjóðsgjöld vegna hlutdeildar ofangreinds eignarhluta hans í sameiginlegum kostnaði vegna brýnna framkvæmda/viðgerða við ytra byrði glugga á austurhlið fasteignarinnar að Engjaseli 84-86 (gluggaskipti), sem fram hafi farið í september 2010, og liggi fyrir í málinu vegna þessa reikningar frá Magnúsi og Steingrími ehf. byggingarverktökum og yfirlit yfir ógreidda gíróseðla frá Íslandsbanka hf., en bankinn hafi veitt stefnanda máls þessa, Engjaseli 84-86, þjónustu við innheimtu framkvæmdasjóðsgjalda. Stefndi hafi ekki greitt kröfuna.
Stefndi lýsir málavöxtum svo í greinargerð, að hann sé eigandi íbúðar í fjölbýlishúsi að Engjaseli 86 í Reykjavík. Fjölbýlishúsið samanstandi af tveimur stigahúsum, númer 84 og 86. Alla tíð hafi hvort stigahús um sig séð um framkvæmdir og viðhald á sínum hluta.
Þann 6. ágúst 2010 hafi húsfélagið að Engjaseli 84 gert verksamning við verktakann, Magnús og Steingrím ehf., um viðgerðir á ytra byrði glugga á austurhlið fjölbýlishússins, en sú hlið hússins tilheyri öll Engjaseli 84. Samkvæmt verksamningnum hafi húsfélaginu að Engjaseli 84 þá áður borizt tilboð frá verktakanum, dags. 21. júlí 2010. Verkkaupi samkvæmt samningnum hafi verið skýrlega tilgreindur Engjasel 84 húsfélag, en stefnandi hafi hins vegar ekki verið aðili að samningnum.
Stefnda hafi á þessum tíma ekki verið kunnugt um, að verksamningurinn hefði verið gerður. Fljótlega í ágúst 2010 hafi íbúar að Engjaseli 86, þ.m.t. stefndi, þó orðið varir við, að framkvæmdir væru hafnar við Engjasel 84. Samkvæmt 3. gr. verksamningsins hafi þær hafizt hinn 9. ágúst 2010.
Með bréfi, dags. 9. september 2010, hafi stefndi verið boðaður til fundar í stefnanda, hinu sameiginlega húsfélagi að Engjaseli 84-86. Hafi það verið í fyrsta sinn, sem boðað hafi verið til fundar í hinu sameiginlega húsfélagi. Í 9. lið aðalfundarboðsins hafi verið boðað, að á fundinum yrði tekin ákvörðun um tilboð í viðgerðir og/eða skipti á gluggum, en það séu þær framkvæmdir, sem stefnandi byggi kröfur sínar á.
Stjórn húsfélagsins að Engjaseli 86 hafi svarað aðalfundarboðinu f.h. stefnda með bréfi til húsfélagsins að Engjaseli 84, dags. 16. september 2010. Í bréfinu hafi stefndi gert athugasemdir við efni aðalfundarboðsins, enda hafi stefndi þá talið ljóst, að ákvörðun hefði þegar verið tekin um umræddar framkvæmdir og bent á, að framkvæmdir væru þegar hafnar við húsið. Með bréfinu hafi íbúar Engjasels 86 andmælt fundarboðinu og hafnað öllum þeim málum, sem hafi átt að taka ákvörðun um á þessum fundi.
Stefndi hafi æ síðan mótmælt kröfum stefnanda og eiganda að Engjaseli 84 um greiðslu kostnaðar vegna framangreindra framkvæmda. Vísist þar m.a. til þeirra andmæla, sem íbúar að Engjaseli 86 hafi látið bóka á húsfundi, sem hafi farið fram í hinu sameiginlega húsfélagi þann 8. nóvember 2010.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja fjárkröfur sínar á framlögðum reikningum, sem húsfélagið hafi greitt, framangreindu yfirliti frá Húsfélagaþjónustu Íslandsbanka yfir gjaldfallnar kröfur vegna eignarhluta stefnda, og fundargerðum þeirra funda félagsmanna stefnanda, þar sem álagning og fjárhæð ofangreindra gjalda hafi verið ákveðin, sem og því að stefndi hafi verið félagi í stefnanda, Engjaseli 84-86 húsfélagi, sem þinglesinn eigandi húsnæðisins á þeim tíma, sem til hins sameiginlega kostnaðar var stofnað. Af því leiði, að honum beri að greiða þau gjöld, sem löglega hafi verið á hann lögð.
Höfuðstóll álagningar gjalda sundurliðist þannig:
Á gjalddaga 16.11.2010 kr. 1.356 (hlutdeild í árgj. til Húseigendafélagsins)
Á gjalddaga 01.12.2010 kr. 22.397 (hlutdeild stefnda í sameiginl. kostnaði v.
viðgerða á ytra byrði glugga, hlutagreiðsla)
Á gjalddaga 01.10.2011 kr. 24.008 (hlutdeild stefnda í sameiginl. kostnaði v.
viðgerða á ytra byrði glugga, hlutagr. síðari)
Samtals: kr. 47.761
Áður en greinargerð var lögð fram í málinu af hálfu stefnda lækkaði stefnandi kröfu sína í kr. 38.117, án þess að þar sé skýrt, hvernig sú fjárhæð sé til komin, en tekið fram, að málavextir og lagarök haldist óbreytt. Er upphaflega krafan þannig rökstudd í stefnu, að annars vegar sé um að ræða greiðslu stefnda á kr. 22.397, á gjalddaga þann 01.12. 2010 og hins vegar kr. 24.008, á gjalddaga þann 01.10. 2011, alls kr. 46.405. Byggist þeir kröfuliðir á samþykkt löglegs aðalfundar félagsmanna stefnanda, sem haldinn hafi verið þann 21. september 2010, þar sem samþykkt hafi verið einróma að ráðast í brýnar viðgerðir og/eða skipti á gluggum á austurhlið fasteignarinnar að Engjaseli 84-86 vegna þráláts, viðvarandi leka hjá eigendum nokkurra íbúða, sem hafi legið undir skemmdum af þeim sökum. Þá hafi verið samþykkt að taka tilboði byggingarverktakanna, Magnúsar og Steingríms ehf., í framkvæmd verksins.
Kostnaður þessi vegna umræddra framkvæmda á ytra byrði glugga skiptist á milli eignarhluta eftir eignarhlutdeild þeirra, og hafi hlutdeild stefnda numið 2,26% af heildarfjárhæð útlagðs kostnaðar húsfélagsins vegna þessa afmarkaða verkþáttar, sem hér sé stefnt til greiðslu á, þ.e. vegna framkvæmda við þann hluta gluggans, sem liggi utan glers, sbr. nánar á dskj. nr. 8, yfirliti og sundurliðun kostnaðar v. framkvæmda við húsið að Engjaseli 84-86.
Til aðalfundarins hinn 21. september 2010 hafi verið boðað með fundarboði, dags. 9. september s.á, sem hengt hafi verið upp í sameign og afhent öllum eigendum, þ.m.t. stefndu, í póstkassa þeirra. Þá hafi fundarboð verið sent öðrum félagsmönnum á lögheimili þeirra í þeim tilvikum, er félagsmenn hafi átt lögheimili annars staðar en að Engjaseli 84-86. Fundarboðinu hafi fylgt dagskrá, þar sem meðal dagskrárliða hafi verið ákvörðun um að ráðast í brýnar viðgerðir og/eða skipti á gluggum vegna leka (dskj. nr. 5, tl. 9), sem og ákvarðanataka um kostnaðarskiptingu og innheimtu kostnaðar vegna framkvæmdanna hjá félagsmönnum.
Til fundarins hafi verið mætt fyrir hönd átta eignarhluta skv. löglega boðuðum húsfundi. Ákveðið hafi verið einróma að fara í umræddar framkvæmdir og hafi tillagan því hlotið samþykki tilskilins fjölda eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi, sbr. d-lið 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.
Stefndi, sem og fleiri eigendur íbúða í stigagangi hússins nr. 86, hafi lýst yfir vanþóknun á ákvörðunum aðalfundarins þann 21. september 2010, en hann hafi allt að einu kosið að mæta ekki til fundarins og hafi þannig ekki nýtt sér rétt sinn til atkvæðagreiðslu á húsfundinum, þar sem ákvarðanir þær, sem innheimta þessi byggi á, voru teknar, þrátt fyrir að ljóst mætti vera, að um væri að ræða mikilsverðar og brýnar ákvarðanir allra sameigenda hússins að Engjaseli 84-86. Afstaða sú virðist hins vegar byggð á þeim misskilningi, að ekki sé um eitt hús að ræða í skilningi fjöleignarhúsalaga og að því er virðist þeirri afstöðu, að af þeim sökum sé ekki um að ræða aðild þeirra að stefnanda, Húsfélaginu Engjaseli 84-86, heldur sé fullnægjandi, að hvor húsfélagadeild, annars vegar sameigenda hússins nr. 84 og hins vegar hússins nr. 86 að Engjaseli, boði til funda og taki ákvarðanir um þau málefni, einnig þau sem sameiginleg séu öllum eigendum hússins nr. 84-86, og heyri af þeim sökum undir stefnanda, sbr. 8. gr. fjöleignarhúsalaga, sbr. 6. gr. sömu laga.
Vegna mótmæla nokkurra félagsmanna í stefnanda um skyldu þeirra til þátttöku í kostnaði við viðgerð á gluggum á austurhlið hússins að Engjaseli nr. 84-86 hafi verið leitað álits Kærunefndar húsamála, sem hafi gefið álit sitt á máli þessu með áliti nr. 19/2010, dags. 24.03.,2011 (dskj. nr. 10). Það sé álit nefndarinnar, að ákvörðun sú, sem sé grundvöllur innheimtu þessarar, hefði verið bindandi fyrir alla eigendur að Engjaseli 84-86 og þeim beri að greiða kostnað vegna viðgerðanna eftir hlutfallstölu eignarhluta.
Verktaki hafi byrjað athuganir á austurhlið hússins, þegar aðalfundurinn þann 21. september 2010 fór fram, þ.e. framkvæmdir, sem nauðsynlegar hafi verið til að kanna umfang og orsök leka inn í íbúðir hússins nr. 84. Þegar verktakar höfðu rifið frá klæðningu, hafi komið í ljós, að gluggar hússins á austurhlið hafi verið meira og minna ónýtir. Að fenginni þeirri niðurstöðu hafi verið boðað til umrædds aðalfundar í stefnanda þann 21. september 2010, þar sem á dagskrá hafi verið umræddar, nauðsynlegar viðgerðir við glugga hússins á austurhlið. Á aðalfundinum hafi því verið samþykkt einróma að taka fram komnu tilboði byggingarverktakanna, Magnúsar og Steingríms ehf., sem fyrr greini, í skipti á gluggum á austurhlið hússins. Eingöngu hafi verið ráðizt í þær framkvæmdir, sem allra nauðsynlegast hafi verið að framkvæma, áður en veturinn skylli á til að fyrirbyggja frekari skemmdir á húsinu. Verkhlutarnir skv. tilboði verktakans hafi skipzt í þrennt:
1. Málun og kíttun á gluggum á stigagangi, sem tilheyri Engjaseli nr. 84.
2. Gluggaskipti á austurhlið hússins nr. 84-6.
3. Niðurbrot á skyggni yfir anddyri Engjasels 84.
Ekki sé gerð krafa um þátttöku stefndu í kostnaði við verkþætti nr. 1 og 3.
Af marggefnu tilefni telji stefnandi brýnt að leggja áherzlu á, að í ljósi niðurstöðu framlagðs álits kærunefndar sé í máli þessu einvörðungu verið að krefjast greiðslu á hlutdeild viðkomandi eignarhluta vegna kostnaðar við einn verkþátt af þeim, sem unnir hafi verið, þ.e. einvörðungu kostnaðar, sem sameiginlegur sé öllum eigendum íbúða í húsinu nr. 84-86, en stefnandi hafi greitt verktakanum reikning fyrir vinnu og efni vegna viðgerða á ytra byrði glugga þann 20.10. 2011. Fleiri verk hafi verið framkvæmd á tímabilinu, s.s. viðgerð á skyggni yfir húsinu nr. 84, málning gluggafaga o.fl. Húsfélagið Engjaseli 84 hafi aflað ástandsúttektar verkfræðings á þörf viðgerða, áður en þær hófust o.fl., en þau verk hafi öll þegar verið greidd þeim, sem þau unnu, af þinglýstum íbúum eignarhluta í húsinu nr. 84, sem beri þann kostnað einir.
Ekki sé um það að ræða, að stjórn húsfélags Engjasels nr. 84 (þannig í stefnu) eða nokkur félagsmanna hafi krafizt stöðvunar framkvæmda, svo sem þeim var unnt á grundvelli 40. gr. fjöleignarhúsalaga.
Krafa stefnanda um greiðslu stefnda á kr. 1.356 á gjalddaga þann 16.11. 2010 vegna hlutdeildar eignarhluta hans v. félagsaðildar stefnanda í Húseigendafélaginu byggist á samþykkt löglegs aðalfundar félagsmanna stefnanda, sem haldinn hafi verið þann 21. september 2010, þar sem einróma hafi verið samþykkt fram lögð tillaga um inngöngu stefnanda í Húseigendafélagið, sbr. lið 14 í fundargerð aðalfundar á dskj. nr. 5. Stefnandi hafi greitt árgjald, kr. 60.000, hinn 04.10. 2010 vegna ársins 2010 (dskj. nr. 6).
Stefnandi byggi lögveðskröfu sína á því, að húsgjöldum fylgi lögveðsréttur allt að einu ári aftur í tímann frá upphafi lögsóknar. Rétt sé að miða upphaf lögsóknar við stefnubirtingardag. Stefnda hafi verið sent innheimtuviðvörunarbréf Íslandsbanka, dags. 27.07. 2011 og innheimtubréf lögmanns þann 17.10. 2011. Þar sem stefndi hafi ekki sinnt innheimtutilraunum stefnanda og lýst því yfir, að greiðsluþátttöku sé hafnað, sé málshöfðun þessi óhjákvæmileg.
Stefnandi byggi kröfur sínar á lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, einkum 6. gr., 8. gr., 13. gr., 39. gr., 47. gr., 48. gr. og 56. gr. þeirra laga svo og á almennum reglum kröfuréttarins. Krafan um málskostnað sé byggð á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað sé byggð á lögum nr. 50/1988. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001, einkum 6. gr. laganna
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og kveðst stefndi byggja þá kröfu á annmarka á ákvörðun um málshöfðun, vanreifun og skorti á fyrirsvari fyrir stefnanda.
Ákvörðun um málshöfðun lögpersónu verði að vera tekin af þeim, sem sé bær til þess að ráðstafa hagsmunum hennar. Til að slík ákvörðun sé tekin réttilega telji stefndi einnig, að til þurfi formlega aðgerð, svo sem ákvörðun á húsfundi. Í málinu liggi hins vegar ekkert fyrir um, að þar til bær aðili hafi tekið ákvörðun um að höfða mál stefnanda gegn stefnda. Þá hafi engin formleg aðgerð átt sér stað vegna málshöfðunarinnar.
Málshöfðun stefnanda sé ráðstöfun, sem gangi lengra en segi í 1. og 2. mgr. 70. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, enda um verulega viðurhlutamikla aðgerð að ræða. Þá telji stefndi málshöfðunina vera framkvæmd, sem eðli máls samkvæmt geti leitt af sér verulegan kostnað, umfang og óþægindi, sbr. 2. málsl. 3. mgr. sömu greinar. Af 3. mgr. 70. gr. fjöleignarhúsalaga, sbr. einnig 4. mgr. 39. gr. sömu laga, leiði því, að ákvörðun um að höfða mál þetta á hendur stefnda hefði þurft að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar. Hafi það ekki verið gert.
Þá telji stefndi að líta beri til þess, að 1. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga veiti öllum hlutaðeigandi eigendum óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum, er varði sameign fjöleignarhúss og sameiginleg málefni. Samkvæmt henni hefði því átt að taka ákvörðun um málshöfðunina á húsfundi, þar sem allir eigendur ættu kost á að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu. Stefndi telji ljóst, að með málshöfðun þessari hafi stefnandi ekki virt þennan rétt eigenda að Engjaseli 84-86, þ.m.t. rétt stefnda, til að eiga og taka þátt í svo veigamikilli ákvörðun sem málshöfðun þessi sé.
Stefndi bendi einnig á, að samkvæmt 2. mgr. 36. gr. fjöleignarhúsalaga hafi einstökum eiganda verið óheimilt að taka ákvörðun um málshöfðun þessa upp á sitt eindæmi.
Með vísan til alls þessa telji stefndi svo verulegan annmarka vera á ákvörðun stefnanda um málshöfðun, að málið verði að sæta frávísun.
Stefndi telji kröfur stefnanda vanreifaðar. Stefnandi gerir fjárkröfu vegna meints sameiginlegs kostnaðar við viðgerðir á ytra byrði glugga og vegna meintrar hlutdeildar í árgjaldi til Húseigendafélagsins. Framlögð gögn stefnanda sýni hins vegar ekki með glöggum hætti, hvernig einstakir liðir kröfunnar séu til komnir og reiknaðir. Stefndi telji það vera skilyrði efnislegrar umfjöllunar, að kröfur stefnanda séu studdar ítarlegum og skýrum gögnum, svo að dómurinn og stefndi geti áttað sig á því, hvernig krafan sé til komin og stefndi geti tekið til fullnægjandi efnislegra varna. Þá hafi stefnandi breytt kröfugerð með bókun eftir þingfestingu málsins, sbr. dskj. nr. 15. Sé krafan þar lækkuð, án þess að gerð sé grein fyrir útreikningum að baki því.
Stefnandi sé lögpersóna og geti sem slík ekki komið sjálf fram í málinu eða ráðstafað sakarefninu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engu að síður hafi enginn fyrirsvarsmaður komið fram fyrir hönd stefnanda í málinu og í stefnu sé ekki getið fyrirsvarsmanns, sem fullnægt geti áskilnaði 4. mgr. 17. gr. eml. Með vísan til framangreindra ákvæða 17. gr. eml. og b-liðar 1. mgr. 80. gr. sömu laga telji stefndi því að vísa beri málinu frá.
IV
Forsendur og niðurstaða
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á þremur atriðum, þ.e. að ekki hafi verið löglega staðið að ákvörðun um framkvæmdir, skort hafi fyrirsvar fyrir stefnanda og loks því að málið sé vanreifað.
Fyrsta atriðið, hvort löglega hafi verið staðið að ákvörðun um framkvæmdir, lýtur að efnisþætti málsins og veldur ekki frávísun þess frá dómi.
Samkvæmt b-lið 1. tl. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má nöfn fyrirsvarsmanna aðila, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað. Ekkert þessara atriða er að finna í stefnu og er fyrirsvarsmanns/manna stefnanda að engu getið.
Enda þótt framangreindur annmarki einn og sér nægi til þess að málinu verði vísað frá dómi þykir rétt að fjalla einnig um reifun málsins.
Í stefnu er stefndi krafinn um greiðslu að fjárhæð kr. 47.761, og er sú fjárhæð sundurliðuð annars vegar í hlutdeild stefnda í árgjaldi til Húseigendafélagsins og hins vegar tvær greiðslur sem hlutdeild stefnda í sameiginlegum kostnaði vegna viðgerða á ytra byrði glugga. Engin grein er þó gerð fyrir því, hvernig hinir einstöku kröfuliðir eru reiknaðir.
Áður en stefndi lagði fram greinargerð í málinu lækkaði stefnandi kröfu sína í kr. 38.117 í sérstöku skjali, sem hann lagði fram. Í því skjali er enga skýringu að finna á því, hvernig sú fjárhæð sé til komin, en tekið fram, að málavextir og lagarök haldist óbreytt.
Eins og kröfugerð stefnanda er fram sett, er fallizt á það með stefnda, að hún fullnægi ekki kröfum 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað.
Að öllu framangreindu virtu er málinu vísað frá dómi.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 200.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Húsfélagið Engjaseli 84-86, greiði stefnda, Kára Hrafnkelssyni, kr. 200.000 í málskostnað.