Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Skipti
|
|
Mánudaginn 2. febrúar 2009. |
|
Nr. 33/2009. |
A B C og D (Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl.) gegn E F G H og I (Sigurður Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Skipti.
Varnaraðilar kröfðust þess að við skipti á dánarbúi X ætti að taka tillit til arfs þeirra eftir föður sinn, fyrri eiginmann X. Sóknaraðilar héldu því hins vegar fram að skipti hefðu farið fram og varnaraðilar fengið greiddan sinn arfshluta fyrir stofnun hjúskapar X og föður sóknaraðila í samræmi við lagafyrirmæli þar um. Talið var að sóknaraðilum hefði ekki tekist að sýna fram á að varnaraðilar hefðu fengið greiddan lögmæltan erfðahluta eftir föður þeirra. Var krafan því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2009 þar sem kveðið var á um að við skipti á dánarbúi X bæri að leggja til grundvallar að út úr búinu hefði ekki verið skipt arfi eftir Z, fyrri maka hennar og föður varnaraðila. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu varnaraðila um að taka eigi tillit til arfs þeirra eftir Z við skipti á dánarbúi X verði hafnað. Til vara krefjast þeir þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar eru fjögur af níu börnum X og síðari eiginmanns hennar, Y. Fimm alsystkini þeirra hafa ekki látið málið til sín taka, hvorki í héraði né fyrir Hæstarétti.
Meginreglur réttarfarslaga, sem meðal annars koma fram í 100. gr. og 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, standa til þess að leyst sé úr kröfum sem varða formsatriði máls áður en tekin er afstaða til krafna sem lúta að efnislegri úrlausn þess. Varakrafa sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar kemur því til athugunar á undan aðalkröfu þeirra.
Kröfuna um ómerkingu úrskurðarins reisa sóknaraðilar, að því er virðist, á því að ekki hafi í hinum kærða úrskurði verið leyst úr því ágreiningsefni sem skiptastjóri í dánarbúi X vísaði til héraðsdóms með bréfi 29. ágúst 2008 með heimild í 122. gr. laga nr. 20/1991. Í bréfi þessu er tekið fram að ágreiningur sé í búinu um hvort taka eigi tillit til arfs eftir Z við skipti á dánarbúi X, „þ.e. hvort inni í dánarbúinu ... sé arfur eftir Z.“ Muni börn Z gera þá kröfu fyrir héraðsdómi að við skiptin á dánarbúinu eigi að miða við að arfur eftir Z standi inni í búinu. Þeirri kröfu muni að minnsta kosti hluti af sameiginlegum börnum X og Y mótmæla og halda því fram að skiptin nái aðeins til dánarbús X og Y en ekki Z. Í hinum kærða úrskurði er kröfum málsaðila fyrir héraðsdómi lýst og á þær lagður úrskurður. Varða þær að efni til að öllu leyti þann ágreining sem skiptastjóri vísaði til dómsins samkvæmt nefndri heimild. Engin efni eru því til að taka til greina kröfu sóknaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar.
Í íslenskri löggjöf hefur um aldir verið gert ráð fyrir að til þess kunni að koma að skipta þurfi úr dánarbúum ekkja og ekkla eignum eftir hinn látna maka þegar sá eftirlifandi hefur gengið í hjúskap á ný án þess að gætt hafi verið að því að skipta dánarbúi eftir fyrri makann. Þannig var til dæmis að finna líkindareglu um hvernig haga beri skiptingu bús við þessar aðstæður í Norsku lögum Kristjáns V. frá 15. apríl 1687, 5. bók, 2. kafla, 70. gr. Liggur ljóst fyrir að í tilvikum sem þessum verður talið að erfingjar hins fyrri maka geti átt tilkall til hlutar við skiptingu bús eftir hinn langlífari, þótt hann hafi gegnið í hjúskap á ný. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, A, B, C og D, greiði óskipt varnaraðilum, E, F, G, H og I, 40.000 krónum hverri í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2009.
Mál þetta var þingfest 16. september 2008 og tekið til úrskurðar 6. janúar 2009. Sóknaraðilar eru E, [heimilisfang], F, [heimilisfang], G, [heimilisfang], H, [heimilisfang], og I, [heimilisfang], Varnaraðilar eru A, [heimilisfang], B, [heimilisfang], C, [heimilisfang], L, [heimilisfang], J, [heimilisfang], K, [heimilisfang], D, [heimilisfang], M, [heimilisfang], og N, [heimilisfang].
Sóknaraðilar gera þá kröfu að við skipti á dánarbúi X, kt. [...], sem lést 4. október 2006 og var síðast til heimilis að [heimilisfang], eigi að taka tillit til arfs sóknaraðila eftir föður sinn Z, fyrri eiginmann hinnar látnu. Jafnframt krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi þeirra varnaraðila sem láta mál þetta til sín taka.
Varnaraðilar A, B, C og D krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hrundið og að sóknaraðilum verði gert að greiða málskostnað.
Varnaraðilar L, J, K, M og N hafa ekki látið mál þetta til sín taka.
I.
Hinn 20. febrúar 1942 andaðist Z, sem fæddur var 4. desember 1907 og síðast til heimilis að [heimilisfang]. Eiginkona Z var X, en sóknaraðilar eru börn þeirra hjóna.
Í málin liggja ekki fyrir önnur gögn um skiptameðferð á dánarbúi Z en afrit af uppskrift dánarbúsins. Skjalið er svohljóðandi:
Ár 1943 mánudaginn 4. júní var hreppstjóri Árneshrepps, ásamt úttektarmanni hreppsins, Guðmundi P. Guðmundssyni, Melum, staddir að Bæ í Árneshreppi til að virða til peningaverðs bú X [heimilisfang], og eiginmanns hennar Z, sem andaðist 20. febrúar 1942.
|
Erfingjar búsins eru: |
|
|
1. X, eiginkona |
29 ára |
|
2. I, barn þeirra |
9 " |
|
3. E, barn þeirra |
8 " |
|
4. H, barn þeirra |
5 " |
|
5. F |
2 " |
|
6. G |
1 " |
Eignir búsins eru þessar:
|
1. Húseignir gripahús í Bæ. Fasteignarmat |
Kr. 420.00 |
|
2. Eldhúsáhöld |
" 100.00 |
|
3. Ílát tunnur o.þ.h |
" 50.00 |
|
4. Rúmföt og annað innbú |
" 300.00 |
|
5. Hnakkur og annað smádót |
" 100.00 |
|
6. 1 kýr |
"550.00 |
|
7. Kálfur 4 mánaða |
" 150.00 |
|
8. 2 Hross |
" 1000.00 |
|
9. 40 ær |
" 4000.00 |
|
10. 1 fullorðinn hrútur |
" 100.00 |
|
11. 4 Gemlingar |
" 280.00 |
|
12. Stofnsjóður kaupfélag Strandam. |
" 668.28 |
|
13. Inneign við verslun |
" 2894.05 |
|
Eignir |
Kr. 10568.33 |
Verðlag á lifandi pening er miðað við virðingarverð uppgjefið til skattframtals s.l.
Skuldir búsins engar uppgjefnar.
Fleira ekki tekið fyrir og uppskrift lokið
[heimilisfang] 4/6 1943
Guðjón Guðmundsson Guðmundur P. Guðmundsson
Skjal þetta kom í leitirnar þegar sýslumaðurinn á Hólmavík kannaði hvort gögn um skipti á búinu væri að finna hjá embættinu. Í bréfi sýslumanns 10. janúar 2008 til lögmanns sóknaraðila kemur fram að önnur gögn hafi ekki fundist og að ekkert sé skráð í skiptabók embættisins fyrir árin 1942 til og með 1965 um skipti á búinu. Loks segir í bréfinu að ekki hafi heldur fundist gögn um að ekkjan hafi fengið formlegt leyfi til setu í óskiptu búi.
Í bréfi Þjóðskjalasafns Íslands 16. október 2008 til lögmanns sóknaraðila segir að safninu hafi tvívegis verið afhent gögn frá sýslumannsembættinu í Strandasýslu. Skiptabækur hafi í fyrra sinn ekki náð til ársins 1942 en engar skiptabækur hafi borist við síðari afhendingu gagna. Þá segir í bréfinu að í skjölum endurskoðunar, þar sem skiptaskýrslur liggi með reikningsuppgjöri frá sýslumannsembættum, hafi verið könnuð árin 1942 til 1945 fyrir Strandasýslu, en ekkert fundist um dánarbú Z.
II.
Eftir andlát Z bjó eftirlifandi eiginkona hans X áfram að [heimilisfang] til ársins 1944, en þá fluttist hún að Seljanesi í sama hreppi og hóf búskap með Y. Þau voru síðan í óvígðri sambúð þar til þau gengu í hjónaband 23. júlí 1964. Varnaraðilar eru börn þeirra. Voru hjónin búsett í Strandasýslu þar til þau fluttu þaðan á áttunda áratug liðinnar aldar.
Hinn 9. ágúst 2000 andaðist Y og fékk X leyfi sýslumannsins á Akranesi til setu í óskiptu búi 27. desember sama ár. X lést síðan 4. október 2006 og var bú hennar tekið til opinberra skipta með úrskurði dómsins 18. mars 2008.
Við skipti á búi X reis ágreiningur um hvort skipti hefðu farið fram eftir Z, fyrri eiginmann X, eða hvort föðurarfur sóknaraðila væri óskiptur í búinu. Þennan ágreining milli sóknaraðila og þeirra varnaraðila sem hafa látið mál þetta til sín taka tókst ekki að jafna og því beindi skiptastjóri málinu með bréfi 29. ágúst 2008, sem barst sama dag, til úrlausnar dómsins á grundvelli 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 21/1991. Málið var svo þingfest 16. september sama ár, svo sem áður greinir.
III.
Sóknaraðilar vísa til þess að engin gögn hafi fundist sem bendi til að X hafi fengið formlegt leyfi til setu í óskiptu búi eða að búinu hafi verið skipt. Því verði að leggja til grundvallar að hún hafi gengið í hjúskap með síðari eiginmanni sínum, Y, án þess að búinu væri skipt.
Til stuðnings þessu vísa sóknaraðilar til upplýsinga sem þeir hafi aflað frá embætti sýslumannsins á Hólmavík og frá Þjóðskjalasafni. Á grundvelli þeirra gagna telja sóknaraðilar að leitt hafi verið í ljós að dánarbúi föður þeirra hafi ekki verið skipt, en í öllu falli hvíli á varnaraðilum sönnunarbyrði þess að búinu hafi verið skipt.
Að þessu gættu telja sóknaraðilar að leggja verði til grundvalla við skiptin að föðurarfur þeirra standi inni í búinu.
IV.
Þeir varnaraðilar sem hafa látið málið til sín taka halda því fram að dánarbúi Z hafi verið skipt áður en móðir málsaðila gekk að eiga föður varnaraðila árið 1964. Þessu til stuðnings benda varnaraðilar á að óheimilt hafi verið samkvæmt þágildandi lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 39/1921, að ganga í hjónaband nema skiptaráðandi hafi tekið bú fyrri maka til skipta eða einkaskiptum verið lokið. Jafnframt hafi vígslumanni lögum samkvæmt borið að gæta að vígsluskilyrðum. Þá liggi fyrir í málinu uppskrift dánarbúsins frá árinu 1943. Að þessu gættu telja varnaraðilar allar löglíkur á því að búi föður sóknaraðila hafi verið skipt en sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða hvíli á sóknaraðilum. Sú sönnun hafi ekki tekist gegn andmælum varnaraðila, enda fari fullyrðingar sóknaraðila í bága við skráð réttindi, í þessu tilviki skráningu hjúskapar að gættum hjónavígsluskilyrðum. Þá hafi hér áhrif að skjalavarsla frá þessum tímum sé ótrygg þannig að ekki sé hægt að ganga að því vísu að gögn finnist mörgum áratugum síðar.
Varnaraðilar halda því einnig fram að sóknaraðilum hafi staðið nær að aðhafast fyrr í málinu með því að óska eftir skiptum á búinu eða gera kröfu um greiðslu arfs ef þeir töldu óvíst um skipti á búi föður þeirra. Í því sambandi benda varnaraðilar á að sóknaraðilarnir I og H hafi verið hjónavígsluvottar við brúðkaup X og Y árið 1964 og því mátt vera ljós að verulegir menbugir voru að lögum á ráðahagnum ef búi föður þeirra hafði ekki verið skipt. Þetta bendi ótvírætt til að búinu hafi verið skipt, en í öllu falli verði sóknaraðilar að bera hallann af óvissu um hvort skiptin hafi farið fram.
Þá benda varnaraðilar á að uppskrift dánarbúsins frá árinu 1943 feli í sér sterka vísbendingu um að eignir búsins hafi verið óverulegar og því liggi beint við að skiptunum hafi verið lokið á þeim grundvelli að búið væri eignalaust.
Varnaraðilar byggja enn fremur á því að hvorki sé heimilt samkvæmt lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, né erfðalögum, nr. 8/1962, að skipta dánarbúi manns með dánarbúi maka hans sem setið hefur í óskiptu búi með síðari maka. Til þess þurfi ótvíræða lagaheimild þar sem málsmeðferðarreglum er lýst, þar með talið hvernig arfur skuli í þeim tilvikum koma til skipta.
Verði talið að dánarbúi föður sóknaraðila hafi ekki verið skipt halda varnaraðilar því fram að arfskrafa sóknaraðila komist ekki að við skipti á dánarbúi móður málsaðila. Því til stuðnings benda varnaraðilar á að krafa sóknaraðila um arf hafi stofnast við andlát Z árið 1942 og að þeim hafi í síðasta lagi verið kleift að krefjast greiðslu hans árið 1964. Við hjúskap X og Y það ár hafi arfur eftir föður sóknaraðila runnið inn í búið og endurgjaldskrafa stofnast á hendur móður málsaðila. Hafi slík krafa stofnast sé hún hins vegar löngu fallin niður fyrir tómlæti og fyrningu.
V.
Hinn 20. febrúar 1942 andaðist Z, faðir sóknaraðila og fyrri eiginmaður X, móður málsaðila. Í málinu liggur fyrir uppskrift dánarbúsins frá 4. júní 1943, sem hreppstjóri annaðist fyrir hönd skiptaráðanda, sbr. 16. gr. þágildandi laga um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., nr. 3/1878. Markaði sú aðgerð upphaf opinberra skipta dánarbúsins. Í málinu nýtur ekki við neinna gagna um framvindu skiptanna.
Samkvæmt uppskrift dánarbúsins var nokkur bústofn meðal eigna búsins auk inneignar í verslun og stofnsjóði Kaupfélags Strandamanna. Var andvirði eignanna samtals talið nema 10.568,33 krónum, sem var nokkur fjárhæð á þeim tíma. Þá segir í uppskriftinni að skuldir búsins hafi engar verið uppgefnar. Að þessu virtu þykir óhætt að slá því föstu að skiptunum hafi ekki verið lokið á þeim grundvelli að búið hafi verið eignalaust, sbr. 10. gr. laga nr. 3/1878.
Hinn 23. júlí 1964 gekk X í hjónaband með Y, föður varnaraðila. Að réttu lagi átti þá í síðasta lagi að vera búið að ganga frá skiptum á dánarbúi Z með því að skiptaráðandi tæki búið til skipta eða einkaskiptum væri lokið. Að öðrum kosti var ekki fullnægt hjónavígsluskilyrðum, sbr. 18. gr. þágildandi laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 39/1921. Hafi X fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir andlát Z féll jafnframt niður sá réttur hennar frá sama tímamarki, sbr. 2. mgr. 13. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Þegar Z andaðist var hann búsettur í Strandasýslu og í því umdæmi var ekkja hans búsett allt þar til hún gekk í hjúskap með síðari eiginmanni sínum árið 1964. Búskipti eftir Z áttu því að fara fram hjá sýslumanninum í Strandasýslu, sbr. þágildandi tilskipun um takmörkin milli lögsagna hinna einstöku uppboðshaldara og skiptaráðenda frá 21. júní 1793. Eins og áður er rakið kemur fram í bréfi sýslumannsins á Hólmavík frá 10. janúar 2008 að sýslumaður hafi kannað skiptabækur frá árinu 1942 til og með ársins 1965 og önnur gögn embættisins og þar sé ekkert að finna um skipti dánarbúsins. Jafnframt liggur fyrir að engar skiptabækur embættisins frá þessu tímabili hafa verið sendar Þjóðskjalasafni og þar hafa heldur engin gögn fundist um dánarbúið, svo sem fram kemur í bréfi safnsins frá 16. október 2008. Að þessu gættu verður að leggja til grundvallar í málinu að skipti eftir Z hafi ekki farið fram áður en X gekk aftur í hjúskap með síðari eiginmanni sínum árið 1964. Á þeim tíma hefur hún því setið í óskiptu búi eftir fyrri maka, en það gat komið til annað hvort þannig að enginn frekari reki hafi verið gerður að skiptum en uppskrift dánarbúsins árið 1943 eða að X hafi fengið formlega heimild sýslumanns til setu í óskiptu búi, en leyfisbréfið glatast. Þá er með öllu ástæðulaust að ætla, sem reyndar hefur ekki verið hreyft í málinu, að dánarbúi Z hafi verið skipt eftir að X gekk aftur í hjúskap með manni sem hún hafði þá búið með í tvo áratugi.
Arfur eftir föður sóknaraðila, sem stóð inni í óskiptu búi við andlát móður málsaðila, var eignarhlutdeild í dánarbúi en ekki kröfuréttindi sem gátu fyrnst, sbr. 1. mgr. 1. gr. þágildandi laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Þá verður ekki talið að sóknaraðilar hafi glatað arfstilkalli sínu fyrir tómlæti þótt þeir hafi ekki komið fram með kröfu um arf eftir föður sinn fyrr en eftir andlát móður málsaðila við skipti á búi hennar. Að þessu gættu, og með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, ber við skipti á búi X að leggja til grundvallar að út úr búinu hafi ekki verið skipt arfi eftir fyrri maka hennar og föður sóknaraðila. Eins og málið hefur verið afmarkað hér fyrir dómi kemur hins vegar ekki til úrlausnar í úrskurði þessum hvernig þeim arfi verður skipt úr búinu.
Eftir þessum úrslitum verður þeim varnaraðilum sem hafa látið mál þetta til sín taka gert að greiða sóknaraðilum málskostnað eins og greinir í úrskurðarorði.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Við skipti á dánarbúi X ber að leggja til grundvallar að út úr búinu hafi ekki verið skipt arfi eftir Z, fyrri maka hennar og föður sóknaraðila, þeirra E, F, G, H og I.
Varnaraðilar A, B, C og D greiði in solidum hverjum sóknaraðila 30.000 krónur í málskostnað.