Hæstiréttur íslands

Mál nr. 836/2017

Þrotabú Sitrusar ehf. (Hilmar Magnússon lögmaður)
gegn
Teiti Guðmundssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Skaðabótamál
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Þrotabú S ehf. höfðaði mál á hendur T til heimtu bóta vegna ábyrgðar sem þrotabúið taldi T bera á því að tækjabúnaður í eigu S ehf., eða andvirði hans, hefði ekki skilað sér inn í búið við skiptin. Í dómi Hæstaréttar kom fram að málatilbúnaður þrotabús S ehf. væri ekki til þess fallinn að unnt væri að staðreyna að sá tækjabúnaður sem talinn væri upp í stefnu til héraðsdóms hefði verið í eigu búsins þegar T hefði stöðvað rekstur S ehf. og eftir atvikum að hvaða marki honum hefði verið ráðstafað án þess að félagið nyti endurgjaldsins. Þá taldi rétturinn ágalla vera á málatilbúnaði þrotabús S ehf. hvað varðaði tölulegan grundvöll skaðabótakröfunnar en engin tilraun hefði verið gerð til að afmarka raunverulegt verðmæti tækjabúnaðarins á þeim degi sem bú S ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og þar með raunverulegt tjón þrotabús S ehf. Hefði stefna í málinu því ekki uppfyllt kröfur e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki hefði verið úr þessari vanreifun bætt með viðhlítandi hætti undir rekstri málsins væru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði þrotabús S ehf. að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 4.050.466 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2015 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Einkahlutafélagið Sitrus annaðist auglýsingasölu og auglýsingagerð en bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 21. október 2015. Áfrýjandi byggir á því að stefndi hafi verið stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Sitrusar ehf. frá 4. desember 2012 og þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Stefndi hafi stöðvað rekstur félagsins í lok febrúar 2015 og þá skipt um skrár á starfsstöð þess. Þegar starfsmenn félagsins hafi yfirgefið starfsstöðina hafi allur tækjabúnaður félagsins verið þar. Stefndi hafi tjáð skiptastjóra áfrýjanda að engar eignir væru í búinu en gefið óljós svör um hvað orðið hefði af tækjabúnaðinum. Könnun skiptastjóri á bankareikningi Sitrusar ehf. hjá Landsbankanum hefði leitt í ljós að ekki væri að sjá að eignir búsins hefðu verið seldar og andvirði þeirra runnið inn á reikning félagsins.

Áfrýjandi lagði 7. júlí 2016 fram kröfu á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um afhendingu á nánar tilgreindum tækjabúnaði en undir rekstri málsins komu fram skýringar á afdrifum hluta hans. Kröfu áfrýjanda var hafnað með úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 13. desember 2016 í máli nr. 788/2016.

Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að eftir að rekstri Sitrusar ehf. hafi verið hætt hafi stefndi einn haft aðgang að húsnæði því sem tækjabúnaðurinn var í. Því viti hann einn um afdrif búnaðarins og beri þar af leiðandi augljóslega ábyrgð á vörslu hans og hvarfi samkvæmt 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutfélög og almennum skaðabótareglum.

Skaðabótakrafa áfrýjanda er sundurliðuð með þeim hætti að tilgreind eru þau tæki sem áfrýjandi telur hafa horfið úr eigu félagsins og þá er gerð grein fyrir vörunúmeri, heiti tækis og raðnúmeri auk þess sem kaupverð er tilgreint. Við þingfestingu málsins í héraði voru lagðir fram reikningar sem bera það með sér, utan einn, að vera vegna kaupa Sitrusar ehf. á tölvum og öðrum tækjum en flestir þeirra eru dagsettir á fyrri hluta ársins 2013 en sá síðasti 5. maí 2014. Gengið er út frá því í stefnu að reikningarnir séu vegna þeirra tækja sem voru á starfsstöð Sitrusar ehf. þegar rekstri var hætt og skiptastjóri telur að hafi horfið úr eigu félagsins síðar án endurgjalds. Ekki var sérstaklega vísað til þess í stefnu að þessi gögn hefðu verið fengin úr bókhaldi Sitrusar ehf. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að tölvubúnaður félagins hafi verið mjög vandaður og notkunar- og líftími mun lengri en almennt gerist um heimilistölvur og venjulegar skrifstofutölvur. Vafi um raunverðmæti eignanna sé því á áhættu og ábyrgð stefnda.

II

Sá ágalli er á málatilbúnaði áfrýjanda að í stefnu til héraðsdóms er aðeins að litlu leyti vísað til þeirra upplýsinga sem lágu fyrir við höfðun málsins um ráðstöfun á tækjabúnaði Sitrusar ehf. en þessar upplýsingar höfðu komið fram í skýrslum stefnda og starfsmanna félagsins hjá skiptastjóra og við rekstur fyrrnefnds máls áfrýjanda á hendur stefnda um afhendingu á búnaði. Upplýsingarnar gáfu þó fullt tilefni til þess að skiptastjórinn gerði frekari reka að því að staðreyna hvernig tækjunum hefði verið ráðstafað, hvort endurgjald hefði komið fyrir þau og hvert það hefði runnið. Ársreikningar Sitrusar ehf. eða önnur bókhaldsgögn voru ekki lögð fram í málinu og ekki til þeirra vísað í málatilbúnaði áfrýjanda. Þá var ekki lagt fram í málinu yfirlit yfir færslur á bankareikningum Sitrusar ehf. heldur aðeins vísað til þess að skiptastjóri hefði kannað yfirlit reikninganna. Málatilbúnaður áfrýjanda er þannig ekki til þess fallinn að unnt sé að staðreyna að sá tækjabúnaður sem talinn er upp í stefnu hafi verið í eigu búsins þegar stefndi stöðvaði rekstur Sitrusar ehf. og eftir atvikum að hvaða marki honum hafi verið ráðstafað án þess að félagið nyti endurgjaldsins.

Þá er sá ágalli á málatilbúnaði áfrýjanda hvað varðar tölulegan grundvöll skaðabótakröfunnar að alfarið er byggt á kaupverði nánar tiltekinna tækja á árunum 2013 og 2014, að því er virðist að meðtöldum virðisaukaskatti sem þó má ætla að Sitrus ehf. hafi getað nýtt sem innskatt. Engin tilraun er gerð til að afmarka raunverulegt verðmæti tækjabúnaðarins á þeim degi sem bú Sitrusar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og þar með raunverulegt tjón áfrýjanda svo sem með því að meta eða áætla endursöluverð tækjanna að teknu tilliti til óhjákvæmilegrar virðisrýrnunar vegna aldurs og notkunar.

Samkvæmt framansögðu uppfyllti stefna í málinu ekki kröfur e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki hefur verið úr þessari vanreifun bætt með viðhlítandi hætti undir rekstri málsins eru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 190. gr., laga nr. 91/1991 ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Þrotabú Sitrusar ehf., greiði stefnda, Teiti Guðmundssyni, samtals 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 29. nóvember sl., var höfðað með stefnu þingfestri 14. febrúar sl. Stefnandi er þrotabú Sitrusar ehf., kt. 510507-1690, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík. Stefndi er Teitur Guðmundsson, kt. 261173-6389, Fróðaþingi 31, Kópavogi.

   Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 4.050.466 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæðinni frá 1. mars 2015 til greiðsludags. Þá er þess jafnframt krafist, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda hæfilegan málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

   Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar. Var málið dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 29. nóvember 2017.

Málavextir.

Félag Sitrusar ehf. var tekið til gjaldþrotameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur  þann 21. október 2015. Var Björn Ólafur Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Var frestdagur 19. júní 2015. Auglýsing um fyrstu innköllun krafna birt í Lögbirtingarblaði þann 2. nóvember 2015. Var fyrsti skiptafundur haldinn hjá stefnanda 18. janúar 2016. Samkvæmt hlutafélagavottorði fyrir Sitrus ehf., dagsettu 19. júní 2015 var stefndi skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi Sitrusar ehf. allt frá fundi í félaginu þann 4. desember 2012.  Í gögnum málsins liggur fyrir skýrsla stefnda hjá skiptastjóra þann 16. desember 2015 þar sem stefndi lýsti því yfir að engar eignir væri að finna í búinu. Þegar stefndi var inntur eftir svörum við því hvar þær eignir væru niður komnar, sem þrotabúið hafði keypt á fyrri helmingi ársins 2013 og sem fram kæmu á reikningum sem fylgdu með kröfulýsingu Emerio ehf., dags. 6. nóvember 2015 og sem hafi verið móttekin af skiptastjóra þann 11. nóvember 2015, svaraði stefndi því til að verktaki hjá Sitrusi ehf. hefði tekið eignirnar út í nafni félagsins í leyfisleysi. Kvað stefndi verktakann heita Stefán Unnar Sigurjónsson.

   Í gögnum málsins liggur fyrir krafa skiptastjóra á stefnda dagsett 23. mars 2016 þar sem skorað er á stefnda að afhenda þrotabúinu þær eignir sem tilheyrðu þrotabúinu fyrir þann 12. apríl 2015. Vísaði skiptastjóri til reikninga sem voru í bókhaldi stefnda.

Með beiðni þann 7. júlí 2016, krafðist skiptastjóri þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um kröfu stefnanda um að stefnda yrði gert skylt að afhenda stefnanda ákveðnar eignir sem stefnandi taldi vera eignir þrotabúsins. Var kröfu stefnanda hafnað með úrskurði í málinu X-24/2016, uppkveðnum 8. nóvember 2016. Segir í forsendum úrskurðarins, sem staðfestur var í Hæstarétti að eins og málið liggi fyrir dóminum verði að telja ósannað að umræddir munir hafi verið á starfsstöð félagsins er húsnæðið var innsiglað eða að þeir væru þá í vörslum varnaraðila. Geti niðurstaða dómsins ekki byggst á getgátum um að umræddir munir séu á heimili varnaraðila. Þá hafi ekki verið leitt í ljós með nægilega skýrum hætti hvaða tæki og búnaður hafi verið í húsnæði félagsins er starfsemi þess lauk og húsnæðinu var lokað. Þótti framburður fyrrverandi starfsmanna sóknaraðila ekki varpa ljósi á þetta. Mat dómurinn það svo að stefnandi hafi ekki fært nægar sönnur fyrir kröfu sinn og því skilyrði 3. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið uppfyllt.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á skýrslum sem voru teknar fyrir héraðsdómi af stefnda, Stefáni Unnari Sigurjónssyni, fyrrverandi verktaka hjá Sitrusi ehf. Hermanni Karlssyni, fyrrverandi starfsmanni Sitrusar ehf., Freymari Þorbergssyni, fyrrverandi starfsmanni Sitrusar ehf. og Mána M. Sigfússyni fyrirverandi starfsmanni Sitrusar ehf., þann 3. nóvember 2016. Við könnun skiptastjóra á eignum búsins hafi stefnandi orðið þess áskynja að stefndi keypti m.a. verðmætan tölvubúnað á árunum 2013 og 2014.  Aðeins lítið brot af þeim eignum sem þrotabúið hafi keypt á þessum árum sé að finna á þeim reikningum sem hafi fylgt með kröfulýsingu Emerio ehf., dags. 6. nóvember 2015. 

Við könnun skiptastjóra á bankareikningi þrotabúsins hjá Landsbankanum nr. 0101-26-051057 hafi ekki verið að sjá að fyrrgreindar eignir búsins hafi verið seldar og að andvirði þeirra hafi runnið inn á reikning búsins hjá Landsbankanum.  Þó  hafi síðar komið í ljós að tölvuna skv. tl. nr. 1 hér að neðan, (Z0MS008V iMac 27" 3.4GHz 3TB Fusion, hafði starfsmaðurinn Freymar Þorbergsson keypt af félaginu og greitt fyrir 210.000 krónur. Þá kveður stefnandi að eðlilegar skýringar hafi komið fram undir rekstri fyrra dómsmáls, X-24/2016, á ráðstöfun á neðantöldum eignum:

  1. 1 Z0MS008V                                        iMac 27" 3.4GHz 3TB Fusion – sérpöntun.  600.000 krónur.

    Raðnúmer: SC02KG0EADNMP.

    Tölvan hafi verið seld starfsmanni/verktaka og hann greitt fyrir hana að fullu.

     

  2. 1  SE9285731                                        Playstation 3 500GB S SLIM M.                       69.900  og

    1  SE9287339                                        Playstation 3 12GB S SLIM M. M.                  59.999.

     

    Tveimur playstation tölvum hafi verið ráðstafað sem greiðslu verklauna tónlistarmanna sem hafi sungið 13. jólalög inn á disk fyrir félagið.

     

  3. 1  NIT3DS HW BLUE         Nintendo 3DS Blá                                                              39.999

    Einni playstation tölvu hafði verið ráðstafað til starsmanns/verktaka.

     

  4. 4  S2740L                                              Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár

Raðnúmer: 5RBYGT1, 5R91HT1, (5R71HT1

og 5R4XGT1).                                                     264.540/2

Tveimur af fjórum 27“ Wide LED skjám, (Raðnúmer: 5RBYGT1, 5R91HT1)  hafi eignkona stefnda skilað til skiptastjóra þann 6. september 2016 ásamt köplum, lyklaborði og svonefndri „tölvu“, sem í raun sé lítið Appel-breytibox og sem ekki hafi verið á þeim lista sem lagður hafi verið fyrir héraðsdóm.

Undir rekstri framangreinds máls fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi skýrslutökur farið fram af stefnda og starfsmönnum/verktökum Sitrusar ehf.  Kom m.a. fram í þeim skýrslum, að stefndi hafði stöðvað rekstur félagsins í lok febrúar 2015.  Hafi starfsmannafundur verið haldinn í þáverandi starfsstöð félagsins að Seljavegi 2 í  Reykjavík,  á laugardegi í lok mánaðarins, sem muni hafa verið 28. febrúar 2015.  Urðu þá starfsmenn/verktakar þess varir, er þeir hugðust mæta á fundinn, að búið var að skipta um læsingar þar svo að þeir komust ekki inn með lyklum sínum. Hleypti stefndi þeim inn, tilkynnti þeim að félagið væri hætt rekstri og gaf þeim síðan kost á taka með sér persónulega muni þegar þeir færu af vettvangi.  Samkvæmt fyrirliggjandi framburði var allur tækjabúnaður  félagsins óhreyfður  í starfsstöðinni, þegar starfsmenn/verktakar yfirgáfu staðinn eftir fundinn.

Svör stefnda við skýrslugjöf  fyrir dómi hafi verið mjög óljós um hvað orðið hefði af tækjabúnaðinum, en ljóst er hins vegar af fyrirliggjandi gögnum, að búnaðurinn var til staðar þegar starfsmannafundurinn var haldinn og skipt hafði verið um læsingar.  Eftir það hafi stefndi einn haft aðgang að húsnæðinu og hann einn viti því hvað um búnaðinn varð.  Beri hann því augljóslega ábyrgð á vörslu þeirra og hvarfi skv. almennum skaðabótareglum og skv. XV. kafla laga nr. 138/1994, einkum 108. gr.  Sé m.a. á því byggt að hvarf meginhluta eigna þrotabúsins stafi af gáleysi stefnda eða ásetningi stefnda, eins og ljóst má telja af gögnum málsins. Nægir skv. 108 gr. að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi við vörslur eignanna til að hann hafi bakað sér bótaskyldu.  Hafi stefndi hins vegar ráðstafað eignunum í þeim tilgangi að koma þeim undan félaginu, hefur tjóninu verið valdið með ásetningi hans. 

Þar sem félagið sé undir gjaldþrotaskiptameðferð verði ákvörðun um að hafa uppi skaðabótakröfuna ekki bundin við að hún hafi verið tekin á hluthafafundi skv. 1. mgr. 109 gr. laga um einkahlutafélög heldur af skiptastjóra búsins, sem skv. 122. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 fer með forræði búsins og er skylt að gæta hagsmuna búsins og innheimta kröfur þess. Hafi stefndi af ásetningi tileinkað sér eignir þrotabúsins til eigin nota eða selt þær í eigin reikning, varði slíkt eftir atvikum við 247. og  250. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 og er hvort sem er grundvöllur bótaábyrgðar og refsiábyrgðar.

Í máli þessu sé sýnt fram á upphaflegt verðmæti eigna Sitrusar ehf. og það jafnframt að tölvubúnaður félagsins var sérlega vandaður og þess eðlis, að notkunar- og líftími búnaðarins sé mun lengri en almennt gerist um heimilistölvur og venjulegar skrifstofutölvur.  Allur vafi um raunverðmæti eignanna við bótaskyldar athafnir stefnda er því á hans áhættu og ábyrgð.

Töluleg útlistun stefnukröfu:

Sá tækjabúnaður þrotabúsins, sem fjárhæð  bótakröfu byggist á, er eftirfarandi:

 

Magn        Vörunúmer              Samtalsverð                    Vörulýsing

1          CH3 3TB S 64 72.            26.328             3TB SATA3 Seagate Barracuda harður diskur                                                                             (ST3000DM001).

2          CHXS 2TB MIN L.        37.228             2TB LaCie 3.5" Minimus flakkari 32MB, USB 3.0.

1          PRECISIONT1650#05.   188.417           Dell Precision T1650 vinnustöð.               Raðnúmer: 78YMMW1.

2          OPTIPLEX3010DT#04.  199.800           Dell OptiPlex 3010 borðtölva.

                                                        Raðnúmer: 8VFXH5J og 7WFXH5J.

2          P2312H.                          70.546              Dell Professional (1920x1080) 23" LED skjár

Raðnúmer: CN0YJ3JX7444529OABN og CN0YJ3JX7444529OAHN.

1          SEV-KS9893                    29.989              Kæliskápur m. frystib.

1          PAN-TXP50UT50Y        168.000             Panasonic 3D 50" FHD plasma.

1          VCQ600-PB                     35.965              PNY NVIDIA Quadro 600

1          V313WAIO                      16.315              Dell V313W All-in-One prentari.                                                                                                                     Raðnúmer: 5H8X6Q1.

1          PIHTP-SB300                  77.500              Soundbar fyrir LCD sjónvarp.

2          PRECISIONT1650#04    443.597            Dell Precision T1650 vinnustöð.

                                                                              Raðnúmer: B8GZMW1 og C7GZMW1.

1          PET302#02                      507.468            Dell Power Edge T320 netþjónn

                               Raðnúmer: 811MF5J.

2          S2740L                            132.270            Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár.   

                                                                              Raðnúmer:  5R71HT1 og 5R4XGT1.                   

1         ST32000444SS                44.426               2TB NL SAS 6Gbp/s 7200rpm 3,5".

                                    Raðnúmer: 9WM2P106.

1         Z0MR                              326.574              iMac 27" 2.9GHz i5 8GB 1TB.

                                                                               Raðnúmer: SC02K54A4DNMN.

1        PRECISIONT3600#07      305.993             Dell Precision T3600 vinnustöð

                                                                               Raðnúmer: 3DS76X1.

2        S2740L                             119.980              Dell S2740L (1920x1080) 27" Wide LED skjár.

                                                                               Raðnúmer: F91YGT1 og F8N0HT1.

1       CVEGTX6700OC2GG      79.900               Gigabyte GTX 670OC PCI-E3.0 skjákort 2GB            GDDR5.

1            WE-6531068                        209.500               Genesis E330 gas grill – svart.

1           OPTIPLEX3010DT#06        109.990               Dell OptiPlex 3010 borðtölva.

                                                                                       Raðnúmer: HVCC3Y1.

2                                                         604.500               Dreamware Render tölva.

1           CH3 3TB L TB                      54.430                3TB LaCie 3.5" d2 Thunderbolt flakkari, USB3.0,Thunderbolt.                                                                                          

5          CH3 3TB 128 72                261.750                 3TB SATA3 Seagate Constellation ES.3 harður diskur.

Samtals nemi kaupverð þessara horfnu tækja og búnaðar 4.050.466 króna, sem sé stefnufjárhæðin. Auk þessa tækjabúnaðar hafi jafnframt horfið ýmislegur forgengilegri tækjabúnaður og smáhlutir, sem sjáist á kaupnótum, svo og verðmætur hugbúnaður Sitrusar ehf., en í málinu sé ekki gerð bótakrafa vegna þeirra eigna að svo stöddu.

Stefnandi styður kröfugerð sína við XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 108. gr. Þá byggir stefnandi á almennu skaðabótareglunni.  Einnig byggir stefnandi á því varðandi almennu skaðabótaregluna, að bótaskylda stefnda verði eftir atvikum studd við fjárdráttarákvæði  247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og skilasvikaákvæði 250. gr. sömu laga. Um heimildir skiptastjóra til málshöfðunar f. h. þrotabúsins vísast til XIX. kafla laga nr. 19/1991, einkum 122. gr. Vísað er til 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnaðarkröfu stefnanda og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað er vísað,  en stefnandi er ekki skattaðili skv. lögunum.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því að hann hafi verið fyrirsvarsmaður stefnanda sem hafi selt auglýsingar og auglýsingagerð. Stefndi hafi ekki starfað hjá stefnanda og ekki verið með aðstöðu í starfsstöð stefnanda. Stefndi hafi ekki tekið ákvörðun um það hvaða tæki hafi verið keypt fyrir félagið heldur hafi starfsmenn stefnanda valið búnaðinn, pantað hann og sótt hjá viðkomandi birgi. Stefni bendir á að stefnandi hafi rekið afhendingarmál fyrir dómi vegna sömu muna og hafi þeirri kröfu verið hafnað og sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti Íslands í máli nr. 788/2016. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að þeir munir og búnaður sem hann krefji stefnda um skaðabætur fyrir hafi verið í starfsstöð stefnanda þegar rekstri hafi verið hætt. Enn síður hafi stefnanda tekist að sanna að stefndi hafi nokkurn tímann verið með umrædda muni eða búnað í vörslum sínum. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að meint hvarf umræddra muna eigi rætur sínar að rekja til saknæmrar háttsemi stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni, hver beri ábyrgð á tjóninu og fjárhæð tjónsins. Sú sönnun hafi ekki tekist og því beri að sýkna stefnda. Þá mótmælir stefndi sérstaklega framkominni bótakröfu en stefnda hafi fyrst verið kynt framkomin bótakrafa þegar málið var höfðað.

Skýrslur fyrir dómi.

Teitur Guðmundsson kom fyrir dóminn og kvað Sitrus ehf. hafa snúist um auglýsingagerð, sölu á auglýsingum og markaðssetningu. Stefndi kvaðst vera læknir að mennt og reka Heilsuvernd. Hafi hann komið að stefnanda sem fjárfestir og lagt mikið fé til félagsins. Rekstur félagsins hafi gengið illa og því hafi verið óhjákvæmilegt að hætta rekstri. Kvað hann aðila hafa leitað til sín sem fjárfestis og hafi hann verið skráður framkvæmdastjóri með prókúru. Hann hafi ekki verið með starfsstöð þarna en átt samskipti við starfsmenn með tölvupósti og fundum. Kvaðst stefndi ekki hafa vit á tölvubúnaði og hafi starfsmenn því lagt til hvaða tölvubúnað þyrfti og fjárfestar þá lagt félaginu til fé. Starfsmenn hafi oftast sótt sjálfir þær vörur sem þeir hafi pantað en það hafi komið fyrir að stefndi hafi gert það líka. Aðspurður kvaðst Teitur kannast við þá hluti sem taldir séu upp í stefnu en hann viti ekki hvar þeir séu niðurkomnir núna. Kvaðst hann gera ráð fyrir því að þeir munir hafi verið í húsnæðinu þegar það fór í þrot en húsnæðinu hafi verið lokað og síðan óskað eftir því að þar yrði tekið til og það hafi verið gert. Kvað stefndi starfsmenn hafa tekið með sér persónulega muni eftir síðasta fund með þeim en hvað þeir hafi tekið viti stefndi ekki um. Kvaðst stefndi hafa skilað til skiptastjóra þeim munum sem hann hafi haft undir höndum en hann viti ekkert um afdrif annarra muna félagsins utan að einn starfsmaður hafi keypt eina tölvu sem komi fram í gögnum félagsins. Stefndi kvaðst hafa tekið að sér fjármálastjórn en starfsmenn hafi einnig verið með kort á nafni félagsins og því getað keypt tölvubúnað sjálfir í nafni félagsins. Stefndi kvað rétt að hann hefði látið loka fyrirtækinu laugardaginn 28. febrúar 2015 og haldið þá fund með starfsmönnum félagsins. Kvaðst stefndi ekki getað svarað því hvort allir munir félagsins hafi verið til staðar þennan fundardag en stefndi vissi ekki hvaða munir hafi tilheyrt félaginu og hvað hafi tilheyrt starfsmönnum persónulega. Hann hafi ekki staðið yfir þeim þegar þeir tóku sína muni.  Kvað hann Gest Grétarsson, hjá Kvíaholti ehf., hafa séð um að taka til og loka fyrirtækinu og hafi stefndi fengið nokkra muni afhenta frá honum sem eiginkona stefnda hafi síðan farið með til skiptastjóra. Meira viti hann ekki um afdrif þeirra muna sem krafið sé um.

   Stefán Unnar Sigurjónsson, kt. 170775-3179, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið stofnandi og starfað sem verktaki hjá stefnanda fram til apríl 2014. Hafi stefndi séð um fjármál fyrirtækisins. Kvað hann rétt að í fyrirtækinu hafi verið öflugur tölvubúnaður til að nota við grafíska vinnslu. Kvaðst vitnið hafa fengið eina tölvu og greitt fyrir hana. Þá hafi hann fengið Playstationtölvu sem laun. Þá hafi stefndi haft samband við vitnið til að aðstoða stefnda við að koma tölvum í verð en úr því hafi ekki orðið. Vitnið kvað vörukaup hafa farið þannig fram að starfsmenn hafi keypt þá muni sem þurfti en öll stærri viðskipti hafi oftast verið gerð í samráði við vitnið eða Teit. Teitur hafi hins vegar oft haft minna um það að segja hvort og hvaða tölvur væru keyptar þar sem Teitur hafði litla þekkingu á þeim búnaði sem notaður var í fyrirtækinu svo og á þeirri vinnu sem þar fór fram. Teitur hafi komið á stjórnarfundi ásamt vitninu, Freymari og Hermanni en þeir hafi allir litið á sig sem jafna varðandi stjórnarsetu fyrirtækisins.

   Vitnið Sölvi Sigurðsson, 010980-5709, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá stefnanda þar til starfseminni var hætt. Það hafi verið í kringum páskana. Vitnið starfaði sem hönnuður og stefndi hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Mundi vitnið að það hafði verið boðað á fund hjá stefnanda þar sem ákvörðun var tekin um að fyrirtækið væri hætt störfum. Þegar vitnið kom á staðinn hafi verið búið að skipta um skrá. Vitnið hafi tekið tölvuna sína með sér en fyrirtækið hafi leigt tölvuna af vitninu á meðan vitnið starfaði þar. Vitnið taldi að allir munir hafi verið á starfsstöðinni á þeim fundi. Vitnið var innt eftir því hvort þeir munir sem taldir eru upp í stefnu hafi verið á staðnum þegar það kom að sækja sína muni og mundi vitnið eftir einstökum munum en ekki öðrum. Vitnið vissi til þess að Freymar hefði keypt eina tölvuna. Vitnið kvað erfitt að segja til um það hvaða harðir diskar hafi verið þarna á staðnum. Kvað vitnið svona öflugar tölvur vera dýrar en vitnið kvaðst ekki myndu kaupa fjögurra ára gamla skjái. Kvað vitnið tölvubúnað úreldast fljótt.

   Vitnið Freymar kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað hjá stefnanda sem faglegur stjórnandi fram að lokun fyrirtækisins. Teitur hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Vitnið mundi eftir fundi í febrúar 2014 og hafi hurðin verið opin þegar vitnið kom á fundinn. Á fundinum hafi verið ákveðið að vitnið og fleiri gengju út úr fyrirtækinu og hættu störfum fyrir það. Vitnið kvað tvö stykki af iMac tölvum hafa verið á staðnum ásamt tveimur öflugum vinnslustöðvum, tveimur til þremur minni tölvum, einhverjum skjám, lítilli iMac  tölvu og einhverjum aukahlutum. Vitnið kvað gasgrill aldrei hafa verið í fyrirtækinu. Teitur hafi ekki verið með starfsstöð í fyrirtækinu en komið á fundi á tveggja vikna fresti. Í upphafi hafi stefndi og Stefán keypt tölvur fyrir fyrirtækið, vitnið hafi keypt sína vinnustöð og Stefán verið með innkaupakort en eftir að hann hætti hafi Teitur séð um að greiða fyrir  tölvukaup.

   Hermann Karlsson, kt. 11274-5549, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem hönnuður fyrir Sitrus ehf. fram að lokum fyrirtækisins. Hafi stefndi séð um fjármál fyrirtækisins. Vitnið kvaðst ekki hafa komist inn í húsnæðið þegar það var boðað á fund í febrúar en á þeim fundi hafi stefndi tilkynnt starfsfólkinu að reksturinn væri að hætta. Vitnið kvaðst muna eftir tveimur  iMac tölvum, PCvinnslutölvu, einhverjum lélegri tölvum og einhverjum  „server“ sem þeir hafi unnið á. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð gasgrill á staðnum. Vitnið minnti að í upphafi hafi stefndi og Stefán keypt vörur inn í húsnæðið, húsgögn o.fl. Þá hélt vitnið að stefndi hafi almennt séð um greiðslur vegna innkaupa en Stefán hafi verið með greiðslukort og séð um greiðslur. Vitnið taldi að stefndi hafi komið í fyrirtækið á tveggja vikna fresti.

   Vitnið Máni Matthías Sigfússon, kt.220585-6189, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem hreyfihönnuður hjá Sitrus ehf. þar til starfseminni var hætt. Stefndi hafi séð um fjármál fyrirtækisins. Kvað vitnið rétt að það hafi verið boðað á fund hjá Sitrusi þar sem rætt var um að hætta rekstri fyrirtækisins. Teitur hafi þá upplýst þá um að búið væri eða það ætti eftir að skipta um skrá á hurðinni. Vitnið hafi tekið allt það sem það átti hjá fyrirtækinu á þessum fundi. Kvað vitnið að allur búnaður sem hafi verið hjá fyrirtækinu hafi verið ætlaður til grafískrar vinnu. Aðspurt minnti vitnið að allir munir væru á starfsstöðinni þegar það mætti á fundinn á laugardeginum. Kvað vitnið ekkert grill hafa verið á staðnum. 

 Forsendur og niðurstaða.

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 21. október 2015. Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.050.466 krónur auk dráttarvaxta frá 1. mars 2015 og byggir fjárhæðina á reikningum vegna kaupa umræddra muna frá árinu 2013. Engin önnur gögn styðja fjárkröfu stefnanda. Þá kom fram í skýrslutökum vitna að þeir töldu að sá tölvubúnaður sem þeir höfðu unnið á og var á starfsstöð þeirra hafi verið þar á síðasta fundinum sem þeir fóru á í febrúar 2015. Gátu þeir ekki staðfest hvort það voru sömu munir og taldir eru upp í stefnu utan að þeir kváðu allir að gasgrill hefði aldrei verið þar. Þá er reikningur vegna kröfu að fjárhæð 26.328 krónur og 37. 228 krónur stílaður á Kvíaholt ehf. Engin skýring hefur komið fram hjá stefnanda á því hvernig sá reikningur tengist stefnanda.

   Stefnandi vísar kröfu sinni til stuðnings til 108. gr. laga nr. 13/1994 um einkahlutafélög. Í 108. gr. er ákvæði sem segir að stofnendur, stjórnarmenn, framkvæmdastjórar, endurskoðendur og skoðunarmenn einkahlutafélags, svo og rannsóknarmenn, séu skyldir að bæta félaginu það tjón er þeir hafi valdið því í störfum sínum, hvort sem er af ásetningi eða gáleysi. Eins og máli þessu er háttað verður ekki ráðið að stefndi hafi valdið félaginu tjóni í störfum sínum enda er ekki byggt á því að hann hafi verið að störfum fyrir félagið þegar meint tjón átti að eiga sér stað. Verður stefndi sýknaður af þeirri ástæðu.

   Þá byggir stefnandi á almennu skaðabótareglunni. Kveður hann tjón stefnanda vera sannað með þeim reikningum sem byggt er á. Til að geta beitt þeirri reglu fyrir sig verður tjónþoli að sýna fram á hvert raunverulegt tjón hans er. Í máli þessu byggir stefnandi á innkaupsverði sérstæks tölvubúnaðar frá fyrrihluta ársins 2013 en skaðabótakrafan, sem byggist á sömu reikningum, er gerð með stefnu birtri 14. febrúar 2017 eða um fjórum árum eftir að umræddur búnaður var keyptur. Alvita er að tölvubúnaður og sjónvarpsskjáir rýrna í verði við notkun þeirra og úreldast á ákveðnum árafjölda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, miðað við þessa augljósu staðreynd, hvert hið raunverulegt tjón stefnanda er. Hefur stefnandi því ekki sýnt fram á að skilyrði sakareglunnar sé uppfyllt þar sem tjón hans er ekki sannað. Ekki er tekið undir þá málsástæðu stefnanda að það sé stefnda að sýna fram á að verðmæti munanna sé minna en krafið er um í stefnu. Verður stefndi því sýknaður af þessari málsástæðu stefnanda.

Að lokum byggir stefnandi á 247. og 250. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ekki í einkamáli byggt á ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er varða fjárdrátt og skilasvik. Á tilvísun til þessara lagaákvæða ekki heima í einkamáli.

   Að öllu ofangreindu virtu ber að sýkna stefnda í máli þessu.

   Stefnandi skal, með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

   Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi er sýkn í máli þessu.

   Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.