Hæstiréttur íslands

Mál nr. 557/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann
  • Brottvísun af heimili
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Föstudaginn 14. október 2011.

Nr. 557/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann. Brottvísun af heimili. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur, á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Hæstiréttur taldi bresta heimild til kæru úrskurðarins og vísaði málinu því frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2011 og bárust kærumálsgögn réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur frá fimmtudeginum 6. október 2011 til fimmtudagsins 3. nóvember sama ár, þannig að honum sé bannað að koma á eða í námunda við heimili sitt og A að [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Þá er X bannað að veita A eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- eða farsíma, senda tölvupóst eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana. Krefst varnaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er ekki að finna sérstaka heimild til að kæra til æðra dóms úrskurð héraðsdómara á grundvelli þeirra laga, sbr. hins vegar 5. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2008 um nálgunarbann sem felld voru úr gildi með hinum fyrrgreindu lögum. Þótt ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skuli gilda um málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 85/2011, eftir því sem við á, eins og segir í 18. gr. þeirra, fellur hinn kærði úrskurður ekki undir neina af kæruheimildum 192. gr. laga nr. 88/2008 og verður slík heimild heldur ekki fundin annars staðar í lögum. Brestur þannig heimild til kæru úrskurðarins og verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 6. október 2011 um að X kt [...], verði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í 4 vikur frá fimmtudeginum 6. október 2011 til fimmtudagsins 3. nóvember 2011, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili sitt og A kt.[...] að[...]  í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að hann veitti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu- eða farsíma hennar, sendi tölvupóst eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram að X og A séu bæði íslenskir ríkisborgarar, standi þau í skilnaði sem X sé ósáttur við. Bæði séu skráð til heimilis að [...] en X vinni erlendis en komi reglulega heim og dvelji þá í 1-2 vikur í senn.

Fram kemur að X hafi verið handtekinn aðfaranótt 6. október sl. eftir að hafa ráðist gróflega á A á heimili þeirra að [...]. Sjálfur hafi hann haft samband við 112 og óskað eftir aðstoð þar sem kona hans hafði dottið í stiga. A hafi aftur á móti skýrt sjúkraflutningamönnum frá því að X  hafi ráðist á hana. Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild voru áverkar A alvarlegir en hún hafi verið mjög marin og bólgin í andliti með heilahristing og aum víða um líkama.

A  hafi skýrt lögreglu frá því að hún væri að skilja við X en hann hafi komið til sín seinnipartinn í gær til að vera með börnunum þeirra. Sjálf hafi hún farið út af heimilinu á meðan. Þegar hún hafi komið heim hafi börnin verið sofnuð og hún óskað eftir því að X færi út af heimilinu. X hafi verið ósáttur með það og í framhaldinu ráðist á hana og haft í hótunum um að hún fengi ekki að lifa án hans. A hefur lýst því yfir að hún sé mjög hrædd við X og hún vilji hann út af heimilinu.

Til viðbótar framangreindu hafi lögreglan haft afskipti af sama fólki 28. og 30. september sl. þar sem A óskaði eftir aðstoð lögreglu því X væri að leggja á hana hendur sbr. bókanir í málum 007-2011-59466 og 007-2011-59758.

Það sé mat lögreglustjóra að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt. X  hafi nú á rúmri viku í þrígang raskað friði eiginkonu sinnar A og barna þeirra með ofbeldi og hótunum sem talið er að falli undir 217. og 233 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og varði fangelsi allt að 2 árum. Í ljósi þess verði að teljast hætta á að X  muni halda áfram að beita A ofbeldi njóti hann fulls athafnafrelsis. Talið sé nauðsynlegt að beita nálgunarbanni samhliða brottvísuninni vegna hagsmuna A og barna hennar sem verði að teljast vega þyngra en hagsmunir X af því að hafa fullt athafnarfrelsi en ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum eða vægari hætti eins og sakir standa og því sé nauðsynlegt að beita umræddu úrræði á þessu stigi málsins.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili uppfyllt og ítrekað sé að krafan nái fram að ganga.

Gögn málsins, einkum lögregluskýrslur, áverkavottorð og ljósmyndir er varða meinta líkamsárás X á eiginkonu sína, A á heimili þeirra 6. október sl. gefa til kynna að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili X  hafi framið refsivert brot sem varðað getur fangelsi allt að 1 ári samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er honum einnig gefið að sök að hafa haft í hótunum við eiginkonu sína sem varðað getur fangelsisrefsingu allt að 2 árum samkvæmt 233. gr. sömu laga.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 4., 5. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að varnaraðila X verði gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni eins og krafist er. Verður því staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 6. október sl. þar um samkvæmt 7. gr. laga 85/2011 eins og sú krafa hefur verið takmörkuð hér fyrir dómi, og nánar greinir í úrskurðarorði.  

Þá er ákveðið að þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Bjarna Haukssonar hrl. sem ákveðst 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X kt. [...], er gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í 4 vikur frá fimmtudeginum 6. október 2011 til fimmtudagsins 3. nóvember 2011, þannig að honum er bannað að koma á eða í námunda við heimili sitt og A kt.[...] að[...]  í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis [...], mælt frá miðju hússins. Þá er X bannað að veita A eftirför, nálgast hana á almannafæri, hringja í heima-, vinnu- eða farsíma, senda tölvupóst eða setja sig á annan hátt í beint samband við hana.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Bjarna Haukssonar hrl. 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.