Hæstiréttur íslands
Mál nr. 297/2001
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Lausafé
- Galli
- Skaðabætur
- Skoðunarskylda
- Tilkynning
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2002. |
|
Nr. 297/2001. |
Eignarhaldsfélagið Hagur ehf. (Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Victor Urbancic (Ólafur Garðarsson hrl.) |
Fasteignakaup. Lausafé. Galli. Skaðabætur. Skoðunarskylda. Tilkynning.
Málsaðilar deildu um kröfu V um bætur vegna tveggja bílaþvottavéla, sem hann hafði keypt af E en reyndust síðar ónothæfar. Talið var að bílaþvottavélarnar hefðu verið í mun lakara ásigkomulagi en við hefði mátt búast en báðir málsaðilar og fasteignasali virtust hafa miðað við að nokkur viðgerð þeirra á vegum V myndi leiða til þess að vélarnar yrðu honum nothæfar. Þær voru því ekki taldar hafa haft þá kosti, sem hefði mátt ætla að væru áskildir og telja varð að E hefði ábyrgst, sbr. 2. mgr. 42. gr. kaupalaga. Þá var talið að V hefði ekki sem leikmaður mátt gera sér fulla grein fyrir raunverulegu ástandi vélanna við skoðun þeirra og var 47. gr. kaupalaga ekki talin standa í vegi fyrir bótaábyrgð E. V hafði krafist bóta vegna vélanna í beinu framhaldi af niðurstöðu vélfróðra skoðunarmanna um ástand vélanna og var þannig talinn hafa uppfyllt skilmála 52. gr. kaupalaga. Niðurstaða héraðsdóms um bótaskyldu E var því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2001. Hann krefst þess, að héraðsdómi verði hrundið og hann einungis dæmdur til að greiða stefnda 560.000 krónur með dráttarvöxtum frá 11. maí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Lögmenn aðila lýstu því yfir við upphaf aðlmeðferðar í héraði, að samkomulag hefði náðst um greiðslu úr hendi áfrýjanda vegna viðgerðarreikninga og tækja, sem ekki hefðu verið afhent, og lýtur krafa áfrýjanda hér fyrir dómi að þeim fjárhæðum. Héraðsdómur sýknaði áfrýjanda af kröfu stefnda um bætur vegna missis hagnaðar af útleigu tækja og hefur dóminum ekki verið gagnáfrýjað. Ágreiningur málsaðila fyrir Hæstarétti snýst því um kröfu stefnda um bætur vegna tveggja bílaþvottavéla, sem hann keypti af áfrýjanda en hafi svo reynst ónothæfar með öllu. Hann reisir kröfu sína einkum á 2. mgr. 42. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sbr. nú lög nr. 50/2000, en heldur því þó ekki fram, að um svik hafi verið að tefla af hálfu áfrýjanda.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram gerðu málsaðilar með sér kaupsamning 30. desember 1998, þar sem áfrýjandi seldi stefnda miðhluta suðurhúss að Bíldshöfða 8 í Reykjavík, en þar var rekin bílaþvottastöð. Nam kaupverðið samtals 38.800.000 krónum og segir í samningnum, að aðilar hans meti verðmæti meðfylgjandi tækja samkvæmt sérstökum tækjalista á 10.000.000 krónur. Við málflutning fyrir Hæstarétti kvað lögmaður áfrýjanda síðargreindu fjárhæðina ekki átt að hafa annað gildi milli samningsaðila en að vera stofn til afskriftar og vísaði um það til framburðar framkvæmdastjóra áfrýjanda fyrir héraðsdómi. Þessi staðhæfing er þó engum gögnum studd. Á hinn bóginn verður að fallast á það með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á, að ekki standist sú fullyrðing stefnda, sem hann setti fram þegar í héraðsdómsstefnu, að verðmæti bílaþvottavélanna tveggja hafi numið 8.500.000 krónum á tækjalistanum. Verður sú fjárhæð lögð til grundvallar dómi í málinu.
Í kaupsamningi kemur fram, að kaupandi og seljandi hafi meðal annars kynnt sér söluyfirlit fasteignasölunnar, er milligöngu hafði um kaupin. Er það í samræmi við 12. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, þar sem segir, að fasteignasali skuli semja rækilegt yfirlit yfir þau atriði, sem máli geta skipt við sölu eignar. Skuli þess vandlega gætt, að fram komi öll grundvallaratriði um eignina, sem skipt geti kaupanda máli, svo sem varðandi stærð hennar og ástand, byggingarlag og byggingarefni, áhvílandi veðskuldir og eftir atvikum ástand neysluveitu hins selda. Í málinu liggur fyrir skjal frá fasteignasölunni, dagsett 2. desember 1998, þar sem lýst er þremur eignum, þar á meðal Bíldshöfða 8. Segir þar meðal annars, að á fyrstu hæð séu „tvær fullkomnustu bílaþvottastöðvar á Íslandi.“ Ekkert annað söluyfirlit er meðal málsgagna og verður að miða við, að framangreindu skjali hafi verið ætlað að fullnægja áskilnaði 12. gr. laga nr. 54/1997. Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi sagði framkvæmdastjóri áfrýjanda, að þessi lýsing á gæðum bílaþvottastöðvanna hefði upphaflega verið komin frá þeim, er selt hafi áfrýjanda húsnæðið á árinu 1997, en hana hefði auðvitað átt að leiðrétta, þar sem allir hafi vitað um lélegt ástand á eignunum, og hefði það verið handvömm að gera það ekki.
Eins og greinir í héraðsdómi fékk stefndi tvo vélfróða menn til þess að kanna ástand bílaþvottavélanna í júní 1999, en þeir voru ekki dómkvaddir, eins og þó hefði verið rétt, sbr. XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var niðurstaða þeirra sú, að báðar vélarnar væru ónothæfar til reksturs bílaþvottastöðvar og myndi ekki borga sig að reyna að koma þeim í starfhæft ástand. Þeir komu báðir fyrir héraðsdóm og staðfestu álit sitt.
Þegar gögn málsins og skýrslutaka fyrir héraðsdómi eru virt í heild verður að telja fram komið, að bílaþvottavélarnar hafi verið í mun lakara ásigkomulagi en við mátti búast, en báðir málsaðilar og fasteignasali virðast hafa miðað við, að nokkur viðgerð þeirra á vegum stefnda myndi leiða til þess, að vélarnar yrðu honum nothæfar. Þær höfðu því ekki þá kosti, sem ætla mátti, að væru áskildir og telja verður, að áfrýjandi hafi ábyrgst, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922. Ennfremur má fallast á, að stefndi hefði ekki sem leikmaður mátt gera sér fulla grein fyrir raunverulegu ástandi vélanna við skoðun þeirra, og stendur 47. gr. áðurnefndra laga ekki í vegi fyrir bótaábyrgð áfrýjanda. Stefndi krafðist bóta vegna vélanna í beinu framhaldi af niðurstöðu hinna vélfróðu skoðunarmanna og uppfyllti þannig skilmála 52. gr. kaupalaga.
Með hliðsjón af framansögðu og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um þá efnisþætti, sem til endurskoðunar eru, auk málskostnaðar. Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Eignarhaldsfélagið Hagur ehf., greiði stefnda, Victor Urbancic, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2001.
Mál þetta var dómtekið var 9. mars sl., en munnlegur málflutningur fór fram að nýju í dag og var málið dómtekið. Málið er höfðað með stefnu þingfestri 4. maí 2000 af Viktor Urbancic, Háteigsvegi 30, Reykjavík gegn Eignarhaldsfélaginu Hag ehf., Lágmúla 5, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi greiði honum 11.600.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 8. ágúst 1999 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Málavextir eru þeir að hinn 30. desember 1998 keypti stefnandi miðhluta suðurhúss að Bíldshöfða 8, Reykjavík þar sem rekin var bílaþvottastöð. Umsamið kaupverð var 38.800.000 krónur. Með í kaupunum fylgdu tæki til reksturs bílaþvottastöðvar og voru þau tiltekin á sérstökum tækjalista. Í kaupsamningi kemur fram að seljandi og kaupandi telja verðmæti tækjanna 10.000.000 króna.
Fasteignin var afhent þann 1. febrúar 1999 og afsal gefið út 8. febrúar 1999. Við afhendingu eignarinnar fór fram vettvangsskoðun. Kom í ljós að hluta tækjanna vantaði og að hvorug bílaþvottavélanna virkaði. Stefnandi heldur því fram að forsvarsmenn stefnanda hafi ekki gert mikið úr því að bílaþvottavélarnar voru bilaðar heldur hafi verið ítrekað að vélarnar hefðu lítið viðhald fengið að undanförnu og þyrfti einfaldlega að fá viðgerðarmann á staðinn og eftir það væri stöðin komin í fullan rekstur. Í trausti þess kveðst stefnandi hafa samþykkt að inna lokagreiðslu samningsins af hendi.
Áður en til afsals kom hafði stefnandi leigt út rekstur bílaþvottastöðvarinnar og átti hann að afhenda hana þann 1. febrúar 1999 þegar hann fengi húsnæðið afhent. Leigufjárhæðin var 650.000 krónur á mánuði. Stefnandi kveður leigutaka, skömmu eftir afhendinguna, hafa kvartað yfir ástandi beggja bílaþvottavélanna. Stefnandi, sem ekki sé sérfróður um bílaþvottavélar né vélbúnað almennt, hafi bent leigjanda sínum á það að fá á staðinn viðgerðarmann, eins og þeir hafi rætt um. Hafi stefnandi og leigjandi hans sæst á það að leigufjárhæðin fyrstu tvo mánuðina yrði 325.000,00 krónur á mánuði í stað 650.000,00 króna, gegn því að leigjandinn sæi um greiðslur til viðgerðarmannanna.
Stefnandi kveður leigjandann hafa tjáð sér að reynt hafi verið að koma vélunum í gang en án árangurs. Hafi önnur skilað svolítilli vinnu, þ.e. hafi farið u.þ.b. hálfa leið með að þvo hvern bíl. Hin hafi aldrei farið í gang. Starfsmenn leigjandans hafi því þurft að handþvo bílana að verulegu leyti og því hafi framlegðin af starfseminni verið lítil. Hafi leigjandinn því hrökklast út við illan leik í lok maí 1999.
Stefnandi fékk í kjölfarið tvo menn frá Olíudreifingu ehf. til að skoða vélarnar, þá Birgi Pétursson og Hannes I. Jónasson, en þeir hafa séð um viðhald á öllum vélum af gerðinni Kleindienst á Íslandi í mörg ár. Mat þeirra var að vélarnar væru ónothæfar til reksturs bílaþvottastöðvar og ekki borgaði sig að reyna að koma vélunum í nothæft ástand.
Stefnandi ritaði stefnda bréf, dags. 8. júlí 1999 þar sem hann krafði stefnda um bætur vegna ónýtra bílaþvottavéla að verðmæti 10.000.000 króna og einnig um bætur vegna tækja sem stefndi hafði ekki skilað. Með bréfi, dags. 14. júlí 1999, hafnaði stefndi kröfum stefnanda. Stefnandi ritaði stefnda bréf vegna tækja og búnaðar sem vantaði þann 3. nóvember 1999 og aftur þann 5. desember 1999. Svar barst ekki frá stefnda. Lögmaður stefnanda skrifaði stefnda bréf þann 22. desember 1999 og krafði stefnda þar um bætur bæði vegna bílaþvottavélanna 8.500.000,00 krónur sem og tækja og búnaðar sem vantaði 1.072.755,00 krónur. Bréfinu var svarað af stefnda þann 18. janúar 2000. Lýsti stefndi þar yfir að vera reiðubúinn að útvega þau tæki sem vantaði en hafnaði með öllu að bílaþvottavélarnar hafi verið í öðru ástandi en um var talað.
Málsástæður og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína varðandi bílaþvottastöðvarnar á því að þær hafi skort þá kosti sem ætla má að áskildir hafi verið, sbr. 2. mgr. 42. greinar laga nr. 39/1922. Vélarnar hafi verið það mikið bilaðar að ekki borgaði sig að gera við þær. Þær hafi því verið stefnanda gagnslausar enda hafi leigjandi hans gefist upp á rekstri þeirra. Þetta styðji stefnandi með yfirlýsingu Birgis Péturssonar verkstjóra og rafvirkjameistara Olíudreifingar hf., dags. 22. júní 1999. Birgir hafi lengi séð um viðhald Kleindienst þvottavéla hér á landi, en umræddar vélar hafi verið þeirrar gerðar. Fáir ef nokkrir þekki þessar vélar því betur. Í yfirlýsingu Birgis komi fram að vélarnar séu afar illa farnar vegna mikillar notkunar og lélegs viðhalds.
Stefnandi hafi því orðið að kaupa tvær bílaþvottavélar til þess að geta hafið rekstur eða leigt út reksturinn eins og upphaflega hafi verið hugmyndin. Stefnandi hafi keypt aðra vélina nýja á 11.283.200 krónur og hina notaða á 3.859.500,00 krónur.
Þá hafi hann greitt verulegar fjárhæðir vegna uppsetningar vélanna, sérstaklega þeirrar nýju. Eldri vélin hafi verið sett upp samkvæmt tilboði fyrir 200.000 krónur. Það hafi því kostað stefnanda u.þ.b. tuttugu milljónir króna að koma sér upp tveim nothæfum bílaþvottavélum og þó hafi hann keypt aðra notaða á mjög góðu verði.
Stefnandi byggir einnig kröfur sínar á sölulýsingu fasteignasölunnar þar sem segi m.a. að um sé að ræða "tvær fullkomnustu bílaþvottastöðvar á Íslandi". Stefnandi telji að upplýsingar þessar séu komnar frá stefnda enda hæpið að starfsmenn fasteignasölunnar séu sérfróðir á þessu sviði eða setji fram fullyrðingu sem þessa upp á sitt eindæmi.
Stefnandi telur að hann hafi keypti vélarnar samkvæmt ofangreindri lýsingu sem síðan hafi reynst röng. Hann eigi því rétt á því að stefndi bæti honum það tjón sem hann hafi orðið fyrir við að koma sér upp tækjum til reksturs bílaþvottastöðvar.
Þá byggir stefnandi á kaupsamningi aðila þar sem verðmat tækjanna komi fram.
Stefnandi byggir kröfu sína varðandi þau tæki er á vantaði m.a. á framlögðum tækjalista, yfirlýsingu stefnda, dags. 8. febrúar 1999 og viðurkenningu stefnda frá 18. janúar 2000 á ábyrgð sinni.
Þá byggir stefnandi á viðgerðarreikningum sem og upplýsingum um verð einstakra tækja sem hann hefur lagt fram í málinu.
Byggt er á almennum skaðabótareglum. Þá byggir stefnandi á lögum um lausafjárkaup nr. 39/1922 einkum 42. grein. Einnig styður stefnandi kröfur sínar við almennar reglur kröfu -og samningaréttar.
Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína þannig:
Vegna tveggja ónýtra bílaþvottavéla 8.500.000 krónur
Vegna viðgerðarreikninga og tækja er vantaði 800.000 krónur
Vegna missis hagnaðar af útleigu tækja 2.300.000 krónur
Bílaþvottastöðvarnar ásamt þeim tækjum öðrum sem seld voru, sbr. framlagðan tækjalista, hafi samtals verið metin á tíu milljónir króna, sbr. kaupsamning aðila. Verðmæti tækjanna, ef keypt væru ný í dag, sé innan við tvær milljónir króna. Tækin hafi verið notuð og því líklega ríflega áætlað að verðmæti þeirra á söludegi hafi verið ein og hálf milljón króna. Bílaþvottavélarnar hafi því verið keyptar á u.þ.b. átta og hálfa milljón króna.
Stefnandi telur sig hafa orðið af verulegum tekjum þar sem hann gat ekki leigt út 4 teppahreinsivélar og 4 djúphreinsivélar sem stefndi hafi aldrei skilað. Teppaland hf. leigi hliðstæðar vélar út á 2.300 krónur á sólarhring eða 1.847,00 krónur án vsk. Leigutekjur stefnanda á sólarhring geti því numið 14.776,00 krónum. Stefnandi hafi verið kominn í húsnæðið í júní 1999 og hefði því þá getað hafið leigu vélanna. Hann hafi því orðið af leigutekjum í 11 mánuði og hugsanlegt tekjutap hans því 330 x 14.776,00 krónur eða 4.876.080,00 krónur. Stefnandi geri sér grein fyrir því að ekki sé líklegt að allar vélarnar séu stöðugt í útleigu og einnig að einhver auglýsingakostnaður komi til. Á móti komi að yfirleitt kaupi leigjandinn sápu með vélunum sem stefnandi hagnist vel á. Til þess að gæta fullrar sanngirni krefjist stefnandi eingöngu 2.300.000 króna vegna þessa liðar.
Stefnandi hafi orðið fyrir gríðarlegu tjóni þar sem hann hafi orðið af leigu um nokkurra mánaða skeið þar sem bílaþvottavélarnar voru ónýtar. Þannig hafi leigugreiðslur átt að nema 650.000,00 krónum á mánuði. Stefnandi geri ekki kröfu um að fá þetta tjón bætt að sinni en áskilur sér allan rétt í því sambandi.
Stefnandi rökstyður í stefnu kröfulið að fjárhæð 800.000 krónur vegna viðgerðarreikninga o.fl. Þar sem samkomulag náðist um þennan kröfulið þykja ekki efni til þess að rekja þær röksemdir frekar.
Málsástæður stefnda og lagarök
Af hálfu stefnda er á því byggt að við afhendingu hins selda, þann 1. febrúar 1999, hafi farið fram úttekt á hinu selda, sbr. áritun á tækjalista. Við þá úttekt hafi verið ljóst að bílaþvottavélarnar tvær, sem hafi verið meðal hinna seldu tækja, voru bilaðar en merkt sé við þær á listanum "ok en bilaðar". Þrátt fyrir þetta ástand á hinum seldu tækjum hafi stefnandi undirritað afsal þar sem greinilega sé tekið fram að hann hafi kynnt sér ástand hins selda með ítarlegri skoðun og að hann tæki við tækjunum í því ástandi sem þau hafi verið í á þeim degi. Tilgreint hafi verið á listanum við úttektina þann 1. febrúar 1999 hvaða tæki vantaði, hvaða tæki væru til staðar og hvert ástand þeirra væri. Munnlega hafi verið um samið að stefndi kæmi þeim tækjum sem vantaði til leigutaka stefnanda.
Eins og áður greini hafi stefnandi tekið við hinu selda þann 1. febrúar 1999 og hafi leigt Friðriki Jónssyni reksturinn, en hann hafi haft fasteignina og tækin á leigu til loka maímánaðar 1999. Áður en stefnandi tók við rekstrinum hafi hann fylgst með honum rækilega og hafi nákvæmlega vitað um ástand þeirra tækja sem hann hafi verið að kaupa. Stefndi hafi keypt fasteignina ásamt tækjunum 29. október 1997. Hann hafi aldrei verið með rekstur bílaþvottastöðvarinnar á sínum vegum heldur hafi hann leigt reksturinn ásamt fasteigninni. Stefnda hafi því verið ókunnugt um ástand hinna seldu tækja nema hvað hann hafi vitað að tækin voru mikið notuð og þurftu viðhalds við. Hafi stefndi ekki gefið neinar yfirlýsingar um ástand hins selda sem stefnandi hafi mátt skilja sem svo að um nýleg tæki væri að ræða eða að ástand þeirra væri gott. Sá sem hafi haft reksturinn á leigu hjá stefnda heiti Einar B. Pálmason. Í janúar 1999 hafi stefnandi fylgst með rekstrinum hjá Einari og hafi vitað mjög vel í hvaða ástandi tækin voru enda hafi engin krafa verið gerð um það af hans hálfu þegar hann tók við rekstrinum að stefndi kostaði viðgerð á bílaþvottavélunum sem voru bilaðar við afhendingu. Í samkomulagi sem gert hafi verið milli aðila við afsalsgerð þann 8. febrúar 1999 sé ekki einu orði getið bílaþvottavélanna. Þar sé tilgreint hvaða tæki hafi vantað við afhendingu og það tiltekið að stefndi skuli skila tækjunum í lagi eða nothæfu ástandi eins og segi í samkomulaginu. Stefnandi hafi engar kröfur gert fyrr en í júlímánuði 1999 vegna bílaþvottavélanna en þá hafi stefnda borist bréf frá stefnanda þar sem fullyrt hafi verið að vélarnar væru ónýtar og einskis virði. Á þessum tíma hafi stefnandi keypt a.m.k. eina nýja vél og látið setja upp. Ekkert hafi hann kvartað áður við stefnda.
Eins og áður segi þá hafi aðilar undirritað samkomulag þann 8. febrúar 1999 um að stefndu ættu að afhenda stefnanda tiltekin tæki í nothæfu ástandi. Til tryggingar efndum á samkomulagi þessu hafi stefndi afhent tryggingarvíxil að fjárhæð 500.000 krónur en frestur stefnda til afhendingar á tækjunum hafi verið til 1. mars 1999. Stefndi hafi efnt samkomulag þetta að mestu en þó ekki að öllu leyti. Það sem stefndi hafi vanefnt séu liðir 1 og 2 auk þess sem ekki hafi verið skilað 4 djúphreinsivélum samkvæmt lið 3. Þá hafi örbylgjuofn ekki verið afhentur. Annað sem tiltekið sé á listanum hafi stefndi efnt og hafi mununum verið skilað til leigutaka stefnanda, Friðriks Jónssonar. Stefnandi hafi ekki gert tilraunir til innheimtu á tryggingarvíxlinum. Stefndi hafi ítrekað boðist til að greiða stefnanda sanngjarna fjárhæð vegna þeirra muna sem ekki hafi verið afhentir en ógerningur hafi verið að ná samkomulagi um fjárhæð.
Þann 3. nóvember 1999 hafi stefnandi ritað bréf til stefnda. Í því bréfi sé í engu getið krafna stefnanda um bætur vegna bílaþvottavélanna heldur sé hann að krefja um bætur vegna þeirra muna sem ekki hafi verið á staðnum eða vegna muna sem hann hafi talið að ónothæfir væru, t.d. bætur vegna 4 djúphreinsivéla sambærilegar þeim ónýtu sem fyrir hafi verið. Í bréfi þessu hafi fyrst komið fram krafa vegna tveggja goskæla en samkvæmt úttektinni hafi einungis einn goskælir átt að vera á meðal hins selda. Stefndi telur að ljóst sé af bréfi þessu að stefnandi hafi ekki talið sig eiga neinn rétt til skaðabóta vegna bílaþvottavélanna þar sem hann geti þeirra í engu í bréfinu. Hafi hann krafist á þessum tíma skaðabóta að fjárhæð 672.755 krónur.
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefnanda hafi verið kunnugt um ástand hins selda. Hann geti því ekki krafist skaðabóta vegna þess að bílaþvottavélarnar hafi ekki uppfyllt þá kosti sem hann hafi gert til þeirra. Algjörlega sé ósannað í hvaða ástandi vélarnar hafi verið þegar stefnandi tók við þeim. Vitað sé að þær hafi verið bilaðar og hafi það eitt og sér gefið stefnanda ríka ástæðu til að kanna ástand vélanna frekar, ef hann hafi talið sig vera að kaupa vélar sem nýtast myndu áfram. Stefnda hafi verið ókunnugt um að vélarnar væru ónýtar enda hafi þær verið notaðar við reksturinn en hins vegar hafi forsvarsmönnum stefnda verið kunnugt um að þær þyrftu viðhalds við enda mikið notaðar. Stefnandi hafi lýst því yfir að hann sætti sig við ástand vélanna enda þótt þær væru bilaðar og ekki í nothæfu ástandi. Stefnandi hafi heldur engar kröfur gert vegna vélanna þann 8. febrúar 1999 og ekki þann 3. nóvember 1999. Þá hafi stefnandi ekki haft samráð við stefndu þegar hann hafi tekið þá ákvörðun að skipta um vélar. Telur stefndi að ákvörðun hans um vélaskiptin hafi verið til þess fyrst og fremst að auka hagkvæmni rekstursins með nýjum og hraðvirkari vélum. Stefnanda hafi verið kunnugt um ástand vélanna við afhendingu og sé ósannað að það hafi verið verra en hann hafi sjálfur reiknað með. Vera kunni að ástand þeirra hafi versnað til muna meðan leigutaki hans hafi ekki notað þær, en það sé ekki á ábyrgð stefnda. Þeir gallar sem stefnandi hafi lýst að hafi verið á vélunum hafi átt að vera honum sýnilegir við skoðun. Geti hann því enga kröfu gert til skaðabóta, sbr. 47. gr. laga nr. 39/1922. Þá hafi honum borið að kvarta án ástæðulauss dráttar, sbr. 52. gr. laga nr. 39/1922, en það hafi stefnandi látið ógert og hafi þá fyrirgert rétti sínum hafi hann einhver verið. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 telur stefndi að geti ekki átt við í máli þessu.
Kröfum stefnanda er mótmælt tölulega og telur stefndi að tjón stefnanda sé ósannað.
Varakrafa stefnda er um lækkun stefnukröfu, en stefndi hafi, eins og áður segi, viðurkennt að hafa ekki að öllu leyti efnt samning aðila.
Niðurstaða
Við upphaf aðalmeðferðar lýstu lögmenn aðila því yfir að samkomulag hefði náðst milli málsaðila um að stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur vegna viðgerðarreikninga og tækja sem ekki voru afhent, en kröfuliður þessi er að fjárhæð 800.000 krónur í stefnu. Samkomulag er einnig um að stefndi greiði 60.000 krónur í málskostnað vegna þessa kröfuliðar svo og dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.
Stefnandi krefur stefnda um skaðabætur að fjárhæð 8.500.000 krónur vegna tveggja ónýtra bílaþvottavéla, sem hann telur að hafi skort þá kosti sem ætla megi að áskildir hafi verið.
Með kaupsamningi, dags. 30. desember 1998 keypti stefnandi húsnæði að Bíldshöfða 8, Reykjavík. Í kaupunum fólust einnig kaup á tækjum til reksturs bílaþvottastöðvar, samkvæmt meðfylgjandi lista, en á þessum lista voru m.a. tilgreindar tvær bílaþvottavélar af tegundinni Kleinienst. Í kaupsamningi er ákvæði þess efnis að kaupandi taki við tækjunum í því ástandi sem þau eru í þann daginn og sem hann hafi kynnt sér með ítarlegri skoðun.
Stefnandi fékk húsnæðið afhent 1. febrúar 1999. Fór þá fram vettvangsskoðun og úttekt á tækjum. Við afhendinguna kom í ljós að hvorug bílaþvottavélanna virkaði. Fór önnur ekki í gang en hin hökti af stað, eins og stefnandi lýsir ástandinu í stefnu. Á tækjalistann er ritað varðandi bílaþvottavélarnar: “ok en bilaðar.”
Afsal var gefið út 8. febrúar 1999. Í afsali segir að að mati kaupanda og seljanda séu tækin að verðmæti 10.000.000 króna. Kaupandi tekur við þeim í því ástandi sem þau eru í, í dag, eins og þar stendur.
Stefnandi bar fyrir dómi að þegar kaupsamningur var gerður hafi verið talað um að bílaþvottavélarnar hefðu verið bilaðar og að þær hefðu fengið lítið viðhald undanfarin tvö ár. Það þyrfti bara að fá viðgerðarmann til þess að koma þeim í lag. Hann bar einnig að einu sinni eða tvisvar hefði hann komið í bílaþvottastöðina sem var rekin í húsnæðinu í janúarmánuði 1999. Stefnandi bar fyrir dómi að honum hefði ekki verið kunnugt hve vélarnar voru gamlar en vissi að bílaþvottastöð hafði verið rekin þarna lengi.
Stefnandi leigði bílaþvottastöðina og fól leigutaka sínum að koma bílaþvottavélunum í gang. Það tókst ekki og fór leigjandinn úr húsnæðinu í lok maí 1999.
Fyrir liggur að stefndi sá aldrei um rekstur á bílaþvottastöðinni en leigði reksturinn út. Bar Örn Heiðarsson, framkvæmdastjóri stefnda, fyrir dómi að forsvarsmönnum stefnda hafi verið ljóst að ástand véla og tækja hafi verið ábótavant . Hins vegar hafi enginn staðið í þeirri trú að þær væru ónýtar en þeir hafi ekki látið kanna það.
Ævar Dungal, sölumaður hjá Fasteignasölunni Fold, sem annaðist kaupin, bar fyrir dómi að rætt hefði verið um að bílaþvottavélarnar þyrftu viðhald. Rætt hefði verið um að það þyrfti að gera við þær en ekki hafi verið talað um neinar stórkostlegar viðgerðir í því sambandi, en vitað hafi verið að sá sem rekið hafði þvottastöðina áður hefði ekki sinnt viðhaldi vélanna sem skyldi.
Ekkert lá fyrir um ástand bílaþvottavélanna er þær voru afhentar annað en að þær voru bilaðar. Þegar litið er til framburðar stefnanda, Arnar Heiðarssonar og Ævars Dungal þykir sýnt að í hugum manna var um að ræða bilaðar vélar sem þyrftu viðgerðar við, en ósannað er að stefnanda hafi verið gefið til kynna að um meiriháttar viðgerðir væri þar að ræða. Stefnandi gat því reiknað með að þurfa að greiða viðgerðarkostnað vegna vélanna en mátti ekki, samkvæmt framansögðu, reikna með því að hann væri að taka við ónothæfum vélum, sem myndu ekki nýtast til reksturs bílaþvottastöðvar.
Hinn 22. júní 1999 lá fyrir mat Birgis Péturssonar á því að vélarnar væru ónothæfar til reksturs bílaþvottastöðvar. Hinn 8. júlí sama ár sendi stefnandi bréf til stefnda sem varðaði vanefndir á kaupsamningi aðila og setur hann þar fram kröfu um að þau tæki sem vanti enn eða séu ónýt verði bætt með peningum. Telst stefnandi því hafa kvartað við stefnda án ástæðulauss dráttar og því uppfyllt skilyrði 52. gr. laga nr. 39/1922 að þessu leyti.
Þykir sýnt fram á það í málinu að bílaþvottavélarnar hafi skort þá kosti sem ætla má að áskildir hafi verið, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 og að stefnandi eigi rétt til skaðabóta af þeim sökum.
Samkvæmt kaupsamningi málsaðila voru tæki metin á 10.000.000 króna. Stefnandi fullyrðir, eins og áður er rakið, að bílaþvottavélarnar hafi hann keypt á 8.500.000 krónur. Hefur stefndi ekki mótmælt þessari fullyrðingu stefnanda sérstaklega eða sýnt fram á að þessi fullyrðing standist ekki. Ber því að leggja þessa fjárhæð til grundvallar tjóni stefnanda og ber að fallast á að stefnda beri að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 8.500.000 krónur vegna bílaþvottavélanna tveggja.
Vegna missis hagnaðar af útleigu tækja gerir stefnandi kröfu um greiðslu 2.300.000 króna, en stefnandi telur sig hafa orðið af þessum tekjum þar sem hann hafi ekki getað leigt út 4 teppahreinsivélar og 4 djúphreinsivélar.
Stefnandi hefur ekki lagt fram matsgerð dómkvaddra matsmanna til sönnunar á meintu tjóni vegna missis hagnaðar af útleigu tækja. Til stuðnings framangreindri kröfu hefur stefnandi lagt fram yfirlýsingar Teppalands og Húsasmiðjunnar um verð á leigu fyrir teppahreinsivélar og verð á sápu. Þá hefur hann lagt fram ljósrit leigusamninga frá Bón- og bílaþvottastöðinni sem gerðir voru á átta daga tímabili í desember 1997. Gegn andmælum stefnanda verður að telja að umrædd gögn séu ekki fullnægjandi til sönnunar á þessu meinta tjóni stefnanda. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að teppahreinsivélar þær sem deilt er um í málinu séu sambærilegar þeim vélum sem tilgreindar eru á yfirlýsingum Teppalands og Húsasmiðjunnar. Þá liggur ekkert fyrir um rekstur stefnanda á bílaþvottastöð frá júní 1999 eða hvort reksturinn, ef hann hefur verið til staðar, hafi verið sambærilegur rekstri Bón- og bílaþvottastöðvarinnar eins og hann var í desember 1997 og um sambærileg tæki hafi verið að ræða. Er þessi kröfuliður órökstuddur og ber að hafna honum.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda því að greiða stefnanda 9.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 af 8.500.000 krónum frá 8. ágúst 1999 til dómsuppsögudags en af 9.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags.
Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 350.000 krónur, þar með talinn 60.000 króna málskostnaður samkvæmt samkomulagi málsaðila.
Kristjana Jónsdóttir kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Eignarhaldsfélagið Hagur ehf., greiði stefnanda, Viktor Urbancic, 9.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 8.500.000 krónum frá 8. ágúst 1999 til 11. maí 2001, en af 9.000.000 króna frá þeim degi til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.