Hæstiréttur íslands
Mál nr. 517/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fasteign
- Líkamstjón
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. júní 2006. |
|
Nr. 517/2005. |
Hildigunnur Guðmundsdóttir(Andri Árnason hrl.) gegn Húsfélaginu Lágmúla 5 (Eyvindur Gunnarsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.
H byggði bótakröfu sína á því að hún hefði orðið fyrir líkamstjóni er hún féll um steypt brunnlok með járnhaldi sem staðsett var í gönguleið fyrir framan húseignina L. Talið var sannað að slysið hefði orðið með þeim hætti sem H hélt fram og að frágangi á umræddu brunnloki, sem var í eðlilegri gönguleið fyrir þá viðskiptavini sem áttu erindi í húseignina, væri verulega ábótavant og hefði í för með sér augljósa slysahættu. Slys H var gagngert rakið til þessa vanbúnaðar og HL talið skaðabótaskylt vegna tjóns hennar. Aðila greindi á um fjárhæð bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku. Talið var að H hefði þegar fengið tímabundið atvinnutjón sitt að fullu bætt. Fallist var á með H að árið 2001 hefðu verið fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og var miðað við meðaltalslaun hennar árin 1999 og 2000 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. desember 2005. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.235.382 krónur með 4,5% ársvöxtum af 4.052.840 krónum frá 26. janúar 2002 til 17. febrúar 2003, en af 10.235.382 krónum frá þeim degi til 21. júlí 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 2.054.705 krónum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 15. febrúar 2006. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst úr hendi aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi hefur stefnt eigendum húseignarinnar Lágmúla 5 til réttargæslu í héraði og fyrir Hæstarétti, Skala ehf., Tóftum ehf., Lyfju hf., Sigurði Guðmundssyni, Pétri J. Haraldssyni, P. Haraldssyni ehf., Jóhanni H. Níelssyni, Tröllanesi ehf., KB Líftryggingum hf., B.P. skipum ehf., Sigurði Oddssyni, Vilhjálmi Þorlákssyni, Auðunni Karlssyni, Ólafi Ágústi Þorbjörnssyni, Sextett ehf., WVS-verkfræðiþjónustu, WVS-verkfræðiþjónustu ehf., Ársölum ehf. fasteignamiðlun, Íslandsbanka hf. og Umslagi ehf.
I.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi byggir aðaláfrýjandi kröfu sína á því að hún hafi orðið fyrir líkamstjóni er hún féll um steypt brunnlok með járnhaldi sem staðsett hafi verið í gönguleið fyrir framan Lágmúla 5 í Reykjavík. Hafi hún átt erindi í verslunina Lyfju og verið á leið frá versluninni að bifreið sinni er hún slasaðist. Með vísan til forsendna héraðsdóms er hafnað þeirri málsástæðu gagnáfrýjanda að ósannað sé að aðaláfrýjandi hafi slasast fyrir framan húseignina. Þá verður talið sannað að slysið hafi orðið með þeim hætti sem aðaláfrýjandi heldur fram, enda var brunnlokið staðsett á leið hennar að bifreið sinni og ekki óeðlilegt að hún hafi gengið nærri vegg húseignarinnar til að styðja sig við hann þar sem myrkur var úti.
Í húseigninni Lágmúla 5 er verslun og ýmis þjónustufyrirtæki. Leggja verður ríkar skyldur á eigendur fasteignar, þar sem slíkur rekstur fer fram, að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi vegfarenda sem eiga þangað erindi. Brunnlokið sem áfrýjandi féll um var í eðlilegri gönguleið fyrir þá viðskiptavini sem áttu erindi í húseignina. Var það steinsteypt og stóð nokkru lægra en bílaplanið. Þá stóð fjögurra sentimetra járnhald upp úr lokinu. Frágangi þessum var verulega ábótavant og hafði í för með sér augljósa slysahættu fyrir þá sem áttu þar leið um, ekki síst vegna þess að engin sérstök lýsing var á staðnum þar sem brunnlokið var. Ekki verður séð að gagnáfrýjandi hafi fyrir slysið gripið til nokkurra ráðstafana til að draga úr þessari hættu. Slys aðaláfrýjanda verður gagngert rakið til þessa vanbúnaðar og ber að fella skaðabótaskyldu á gagnáfrýjanda vegna tjóns hennar. Engin efni eru til að lækka bætur til aðaláfrýjanda vegna eigin sakar.
II.
Bótakrafa aðaláfrýjanda er sundurliðuð í hinum áfrýjaða dómi. Aðila greinir á um fjárhæð bóta vegna tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku. Aðaláfrýjandi hefur þegar fengið greiddar 1.805.710 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns. Hefur hún ekki sýnt fram á að tímabundinn missir launatekna hennar nemi hærri fjárhæð og telst tjón hennar að þessu leyti að fullu bætt. Aðaláfrýjandi byggir kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku á undanþáguákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum og krefst þess aðallega að lögð verði til grundvallar útreikningi meðallaun grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands hjá Reykjavíkurborg, en til vara tekjur hennar árin 1999 og 2000. Þótt aðaláfrýjandi hafi lokið prófi sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands starfaði hún ekki sem slíkur þegar slysið varð. Á árinu 2000 gerðist hún leikskólakennari og liggur ekkert fyrir um að til hafi staðið að hún hæfi störf sem grunnskólakennari í framtíðinni. Verður því ekki fallist á að meðallaun grunnskólakennara sé réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hennar. Árið 2001 var aðaláfrýjandi í 75% starfi frá apríl til og með september. Hún eignaðist barn í byrjun október og naut einungis fæðingarstyrks það sem eftir var árs. Er fallist á með henni að þetta ár hafi verið fyrir hendi óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og er því rétt að taka til greina varakröfu aðaláfrýjanda um að miðað verði við meðaltalsárslaun hennar árin 1999 og 2000 við útreikning bóta fyrir varanlega örorku.
Þar sem ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu aðaláfrýjanda að öðru leyti verður hún lögð til grundvallar dómi í málinu. Aðaláfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að hún hafi gert kröfu á hendur stefnda með ákveðinni fjárhæð fyrr en við birtingu stefnu í málinu 1. apríl 2005. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá þingfestingu málsins 12. apríl 2005. Fram að þeim tíma dæmast vextir samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga af öðrum kröfuliðum en bótum vegna annars fjártjóns.
Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 5.339.161 krónu með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Húsfélagið Lágmúla 5, greiði aðaláfrýjanda, Hildigunni Guðmundsdóttur, 5.339.161 krónu með 4,5% ársvöxtum af 1.083.090 krónum frá 26. janúar 2002 til 17. febrúar 2003, en af 4.565.736 krónum frá þeim degi til 12. apríl 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.339.161 krónu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar fyrir báðum dómstigum, samtals 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdómur Reykjavíkur 9. september 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 30. ágúst 2005, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hildigunni Guðmundsdóttur, Eiðistorgi 5, Seltjarnarnesi á hendur Húsfélaginu Lágmúla 5, Lágmúla 5, Reykjavík og til réttargæslu Skala ehf., Lágmúla 5, Reykjavík, Tóftum ehf., s.st., Lyfju hf., Bæjarlind 2, Kópavogi, Sigurði Guðmundssyni, Grundarlandi 10, Reykjavík, Pétri J. Haraldssyni, Heiðarseli 21, Reykjavík, P. Haraldssyni ehf., s.st., Jóhanni H. Níelssyni, Stekkjarflöt 12, Garðabæ, Tröllanesi ehf., Lágmúla 5, Reykjavík, Alþjóða líftryggingafélaginu hf., Sóltúni 26, Reykjavík, B.P. skip ehf., Lágmúla 5, Reykjavík, Sigurði Oddssyni, Vesturströnd 5, Seltjarnarnesi, Vilhjálmi Þorlákssyni, Espilundi 4, Garðabæ, Auðuni Karlssyni, Daggarvöllum 13, Hafnarfirði, Ólafi Ágústi Þorbjörnssyni, Rjúpnasölum 10, Kópavogi, Sextett ehf., Lágmúla 5, Reykjavík, WVS-verkfræðiþjónustu, s.st., WVS-verkfræðiþjónustu ehf., s.st., Ársölum ehf. - fasteignamiðlun, Engjateigi 5, Reykjavík, Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, og Umslagi ehf., Lágmúla 5, Reykjavík með stefnu birtri 1. apríl 2005.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 10.235.382, krónur auk 4,5% ársvaxta af 4.052.840 krónum frá 26. janúar 2002 til 17. febrúar 2003, en af 10.235.382 krónum frá 17. febrúar 2003 til 21. júlí 2004, en dráttarvaxta er krafist skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 21. júlí 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum 2.054.705 krónum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að sök verði skipt í málinu og stefnukröfur stórlækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Á hendur réttargæslustefndu eru engar sjálfstæðar kröfur gerðar. Af hálfu réttargæslustefndu eru ekki gerðar sjálfstæðar kröfur en tekið fram að þeir styðji kröfur og málflutning stefnda.
I.
Málsatvik.
Að morgni 26. janúar 2002 átti stefnandi erindi í verslunina Lyfju, Lágmúla 5, Reykjavík. Er hún hafði lokið erindi sínu og var á leið að bifreið sinni steig hún á steypt brunnlok, sem var staðsett í gönguleið fyrir framan húseignina að Lágmúla 5 og féll til jarðar. Var hún síðan flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Á slysadeildinni kom í ljós að stefnandi hafði ökklabrotna á hægra fæti svo og hlotið snúningsáverka á hægra hné. Stefnandi fékk þrýstiumbúðir og bólgueyðandi lyf og verkjalyf. Við endurkomu 30. janúar 2002 voru þrýstiumbúðirnar teknar og stefnandi sett í göngugips sem hún þurfti að hafa í 6 vikur. Við endurkomu á slysadeildina 6. mars 2002 var gipsið tekið og gat hún þá stigið í fótinn af fullum þunga og var hún útskrifuð.
Samkvæmt lögregluskýrslu sem gerð var í hádeginu sama dag var brunnlokið aðeins sigið, þannig að yfirborðið var misslétt. Á brunnlokinu var járnhald, sem notað er til að toga í, ef opna þurfti brunninn. Járnhaldið er í 4 cm hæð frá jörðu og kvaðst stefnandi hafa misstigið sig á því og á missléttunni er þar var vegna brunnloksins.
Byggingafulltrúinn í Reykjavík gerði úttekt, að beiðni stefnanda, á frágangi lóðarinnar við Lágmúla 5. Í áliti byggingafulltrúa frá 28. febrúar 2002 kom fram, að ástand lóðarinnar og aðgengi væri ábótavant og ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum. Frágangur brunnloksins gæti ekki talist í samræmi við góðar venjur. Í álitinu kemur fram að sá frágangur sem notast var við væri sá sem að öllu jöfnu ætti að nota þegar brunnlok sé hulið með jarðveg. Þá væru gönguleiðir ómerktar og engin lýsing á lóðinni, þótt ekki sé kveðið á um lýsingu í byggingareglugerð. Sendi byggingafulltrúi stefnda bréf og gerði kröfur um úrbætur á frágangi lóðarinnar. Stefndi réðst síðar í úrbætur á lóðinni. Stefndi telur þó að þær úrbætur séu ekki í tengslum við bréf byggingafulltrúa.
Héraðsdómur Reykjavíkur dómkvaddi Björn Daníelsson lögfræðing og Sigurjón Sigurðsson bæklunarskurðlækni til að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Niðurstaða þeirra var sú, að tímabundið atvinnutjón stefnanda og þjáningabótatímabil hefði verið frá 26. janúar 2002 til 17. febrúar 2003, en sú dagsetning væri stöðugleikatímapunktur, að varanlegur miski væri 12% og varanleg örorka 15%.
Stefnda var send matsgerðin og gerð krafa um bætur vegna tjóns stefnanda. Samningar náðust ekki og er stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál þetta. Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 16. september 2003.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi reisir dómkröfur sínar á því, að stefndi beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem hún hlut 26. janúar 2002. Stefnandi byggir á því að slysið eigi rót að rekja til stórhættulegs vanbúnaðar í byggingunni, sem felist í því að frágangi brunnloks og gönguleiðar hafi verið verulega ábótavant, en umrætt brunnlok var staðsett í gönguleið fyrir þá sem eiga erindi í Lágmúla 5. Telur stefnandi ljóst, að umræddur vanbúnaður hafi valdið mikilli hættu á slysi fyrir þá sem um lóðina fóru, en engar ráðstafanir voru gerðar af hálfu stefnda til þess að draga úr slysahættu. Með því að sinna ekki þeirri skyldu sinni að haga aðbúnaði á staðnum með lögboðnum og forsvaranlegum hætti, hafi stefndi gert sig sekan um stórfellt gáleysi. Vanbúnaðurinn sé allur á ábyrgð stefnda, sem bar að haga aðbúnaði og aðstæðum í byggingunni og á lóð með þeim hætti að mönnum stafaði ekki hætta af.
Stefnandi vísar til úttektar byggingafulltrúa Reykjavíkur og telur að vanbúnaðurinn hafi verið staðfestur með formlegum hætti af opinberum úttektaraðila. Í úttektinni komi m.a. fram, að ástandi lóðarinnar og aðgengi sé ábótavant og ekki skv. samþykktum uppdráttum. Þá liggi fyrir að frágangur lóðarinnar þegar slysið varð var óleyfilegur og þar með ólögmætur. Ennfremur segir í úttektinni, að brunnlokið sé staðsett á svæði sem sé fyrir gönguleið þeirra sem erindi eigi í Lágmúla 5. Frágangur loksins geti ekki talist í samræmi við góðar venjur, en notaður sé frágangur sem að öllu jöfnu ætti að notast þegar brunnlok sé hulið með jarðvegi. Þó nokkur hæðarmunur sé á yfirborðsfrágangi lóðar og á loki brunnsins. Staðfestir byggingafulltrúi og að gönguleiðir séu ómerktar. Í úttektinni er farið fram á við stefnda, að ástand lóðar verði fært til þess horfs er fram komi á samþykktum uppdráttum og skv. viðeigandi lögum og reglum.
Stefnandi heldur því fram, að útbúnaður brunnloksins hafi verið valdur að slysi stefnanda og var sérstaklega til þess að valda stórfelldri slysahættu á staðnum. Brunnlokið var steypt og sigið. Því hafi verið verulegur hæðarmunur milli brunnloksins og malbiksins umhverfis lokið. Ofan á brunnlokinu var járnhald, 4 cm á hæð frá jörðu sbr. lögregluskýrslu. Varð hvort tveggja, hæðarmunurinn og járnhaldið, til þess að stefnandi rakst í brunnlokið og féll í jörðina.
Af hálfu stefnanda er byggt á því, að með óforsvaranlegum frágangi á lóð sinni, hafi stefndi brotið í bága við ákvæði 62.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um að hindrunarlausar og skýrar leiðir séu að inngöngum frá lóð og bílastæðum, og ákvæði 199.2 um að umferðarleiðir séu greiðfærar fyrir þá sem um þær fara. Tiltekur byggingafulltrúi m.a. þessi ákvæði í úttektarskýrslu sinni.
Þá telur stefnandi að vanbúnaðurinn á slysstað hafi einnig falist í því að engin lýsing var til staðar á lóðinni. Slys stefnanda átti sér stað milli kl. 8 og 9 að morgni 26. janúar og á þeim tímapunkti var myrkur úti. Því megi telja víst að ógerningur hefur verið fyrir stefnanda og aðra gangandi vegfarendur að greina í myrkrinu að brunnlok væri í gönguleiðinni og ennfremur að hæðarmunur væri í gönguleiðinni á því svæði, ásamt því að járnhald stæði upp úr lokinu. Ljósleysið hefur því átt sinn þátt í að stefnandi slasaðist. Er ljósleysið alfarið á ábyrgð stefnda, sem ekki hirti um að gera nægilegar varúðarráðstafanir með því að koma fyrir lýsingu á lóðinni.
Stefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að stefndi hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi viðurkennt hinn óforsvaranlega og óleyfilega lóðarfrágang og skyldu sína til að standa að úrbótum. Vakin er athygli á því að afrit af bréfi því sem stefnandi ritaði embætti byggingarfulltrúa 11. feb. 2002, með ósk um skoðun og athugun á frágangi lóðarinnar að Lágmúla 5, var sent til stefnda. Hreyfði stefndi engum athugasemdum við beiðni þessari. Þá gerði embætti byggingarfulltrúa úttektarskýrslu, þar sem gerð er grein fyrir vanbúnaði á lóðinni. Var þessi skýrsla send stefnda með kröfu um úrbætur og skýringar. Ekki er kunnugt um að stefndi hafi heldur hreyft neinum athugasemdum við úttektarskýrslu byggingarfulltrúa. Með tómlæti sínu verður því að álíta að stefndi hafi fallist á niðurstöðu byggingafulltrúa í málinu. Sama ályktun verður einnig dregin af þeim viðbrögðum stefnda að ráðast í úrbætur á lóðinni. Í úttektarskýrslunni er stefnda veittur 21 daga frestur til að skila skriflegum skýringum og tímasettri áætlun um úrbætur. Samkvæmt upplýsingum stefnanda mun þeirri kröfu hafa verið sinnt af hálfu stefnda með þeim hætti að ekki löngu eftir að bréfið barst mun embættinu hafa borist umsókn um breytingar á lóðinni, ásamt teikningum. Af þeirri ástæðu mun embætti byggingafulltrúa ekki hafa aðhafst frekar vegna erindis síns 28. feb. 2002, eins og boðað var í bréfinu að yrði gert ef erindinu yrði ekki sinnt.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndi hafi virt að vettugi þá almennu ströngu skyldu sem lögð er á húseiganda og umsjónaraðila fasteignar, að sjá til þess að húseign sé með forsvaranlegum hætti þannig að tjón hljótist ekki af ástandi þeirra. Sú skylda var enn ríkari þar sem um verslunar- og þjónustuhúsnæði var að ræða og aðgengi að slíku húsnæði, en í slíkum tilvikum hljóta strangar kröfur að verða gerðar til fasteignareigenda að gönguleiðir séu hættulausar og með forsvaranlegum hætti. Gáleysi stefnda fólst einnig í því að ónægilegt eftirlit var af hálfu stefnda með að fyllstu öryggis- og varúðarráðstafanir væru gerðar til þess að forðast slys líkt og það sem stefnandi varð fyrir, t.a.m. með því að gera úrbætur á brunnlokinu og koma upp lýsingu á lóðinni.
Byggt er á því að stefnandi hafi mátt treysta því þegar hún fór um lóðina að tilheyrandi réttarreglur um aðbúnað og öryggisþætti væru uppfylltar og að mönnum stafaði ekki hætta af því að fara um gönguleiðir á lóðinni, enda verður í engu talið að stefnandi hafi sýnt af sér óvarkárni. Það athugast sérstaklega í þessu sambandi að brunnlokið var staðsett í gönguleið frá húseigninni, og þ.m.t. frá lyfjaverslun á jarðhæð sem stefnandi kom frá, og að bifreiðum.
Stefnukröfur eru byggðar á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og fyrirliggjandi matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, Björns Daníelssonar lögfræðings og Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarskurðlæknis. Alls samanstendur bótakrafan af eftirfarandi liðum:
Tímabundið atvinnutjón kr. 2.969.750,-
Þjáningarbætur skv. 3. gr. skaðabótalaga kr. 390.870,-
Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga (12%) kr. 692.220,-
Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga (15%) kr. 5.409.117,-
Annað fjártjón kr. 773.425,-
Samtals kr. 10.235.382,-
Frádráttarliðir kr. 2.054.705,-
Sundurliðast stefnukröfur nánar með eftirfarandi hætti:
Krafist er bóta fyrir tímabundið atvinnutjón á grundvelli 2. gr. skaðabótalaga. Stefnandi var 100% óvinnufær á tímabilinu 26. jan. 2002 til 17. feb. 2003 og miðar bótakrafa við það. Stefnandi var í fæðingarorlofi á tímabilinu 26. jan. til 31. mars 2002. Á þeim tíma telst hún hafa verið óvinnufær til heimilisstarfa, sbr. niðurstöðu matsgerðar, en stefnandi bjó við 100% örorku á því tímabili og gat því hvorki sinnt heimilisstörfum né heldur nýfæddu barni sínu. Er því gerð krafa um bætur sem nema launum á því tímabili, sbr. 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, að frádregnum greiðslum úr fæðingarorlofssjóði.
Meðaltalsárslaun að viðbættu 6% lífeyrissjóðsframlagi 2.800.927 krónur. Tímabil tímabundins atvinnutjóns 26. jan. 2002 til 17. feb. 2003 (387 dagar). Heildarlaun á því tímabili nema kr. 2.969.750 (2.800.927 / 365 x 387).
Varðandi þjáningarbætur vísast til 3. gr. laga nr. 50/1993. Fjárhæðir í 3. gr. taka verðlagsbreytingum, sbr. 15. og 29. gr. laganna, skv. lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1993 (3282 stig) fram til útgáfu stefnu í mars 2005 (4733 stig). Þjáningabótatímabil er skv. matsgerð 26. jan. 2002 til 17. feb. 2003 (387 dagar). Framreiknaður taxti án rúmlegu skv. 3. gr. nemur 1.010 krónum fyrir hvern dag. Er því gerð krafa um þjáningabætur að fjárhæð 390.870 krónur.
Varðandi bætur fyrir varanlegan miska vísast til 4. gr. laga nr. 50/1993. Fjárhæðir í 4. gr. taka verðlagsbreytingum, sbr. 15. og 29. gr. laganna, skv. lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1993 (3282 stig) fram að útgáfudegi stefnu (4733 stig). Skv. því er fjárhæð vegna 100 stiga miska, sem upphaflega var 4.000.000 króna, þ.e. miðað við aldur stefnanda á tjónsdegi, framreiknuð 5.768.500 krónur.
Varanlegur miski er 12% skv. matsgerð, af kr. 5.758.500 = 692.220 krónur.
Varðandi bætur fyrir varanlega örorku vísast til 6. og 7. gr. laga nr. 50/1993.
Stefnandi lauk prófi sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996. Starfaði hún sem slíkur hjá Reykjavíkurborg fram til ársins 2000, en gerðist svo leikskólakennari og frá byrjun árs 2001 var stefnandi í 75% starfi sem leikskólakennari. Ljóst er því að tekjur stefnanda voru skertar fyrir slysdag, hvort tveggja með skertu starfshlutfalli og að stefnandi sinnti ekki slíku starfi sem hún var menntuð til, þ.e. starfaði sem leikskólakennari en ekki grunnskólakennari, sem hafði í för með sér lægri tekjur en ella. Þannig hefur stefnandi 1.318.996 krónur í launatekjur 2001, 1.517.301 krónur árið 2000 og 1.711.653 krónur árið 1999. Ráðið verður af framreiknuðum launatekjum stefnanda fyrir þessi síðustu þrjú ár fyrir slysdag, að þau séu mun lægri en meðallaun grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands. Meðaltekjur tjónþola síðustu þrjú ár fyrir slys gefa því engan veginn rétta mynd af þeim tekjum sem hún gæti aflað sér í framtíðinni. Er því eðlilegt að við útreikning árslauna stefnanda við útreikning á varanlegri örorku, séu lögð til grundvallar meðaltalsárslaun grunnskólakennara hjá Reykjavíkurborg, en þau gefa glöggt til kynna hverja möguleika stefnandi hefði til tekjuöflunar í framtíð að teknu tilliti til menntunar, sbr. lagaheimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. einnig 2. mgr. 5. gr. s.l. og dómaframkvæmd. Er því í útreikningi varanlegrar örorku tekið mið af meðallaunum grunnskólakennara í KÍ hjá Reykjavíkurborg fyrir árið 2001, þ.e. á árinu fyrir slys.
Meðaltalsárslaun kennara skv. framansögðu á árinu 2001 námu 2.642.384 krónum en 2.800.927 krónum að teknu tilliti til 6% framlags vinnuveitanda til lífeyrissjóðs. Sú tala leiðrétt skv. launavísitölu frá miðju ári 2001 fram að stöðugleikapunkti 17. feb. 2003, skv. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, nemur 3.142.278 krónum (2.800.927 x 237,5 / 211,7). Stefnandi var 35 ára og 299 daga gömul þegar stöðugleikatímapunkti var náð og er því aldursstuðull til útreiknings varanlegrar örorku 11,476. Metin varanleg örorka stefnanda skv. matsgerð er 15%.
Er því gerð krafa um greiðslu varanlegra örorkubóta að fjárhæð 5.409.117 krónur (3.142.278 x 11,476 x 0,15).
Þá er krafist bóta fyrir annað fjártjón skv. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, þar sem tjónþoli hefur orðið fyrir verulegum fjárútlátum vegna slyssins. Sá útlagði kostnaður sem gerð er krafa um er eftirfarandi.
Endurhæfing - sjúkranudd kr. 153.100
Endurhæfing - trimmform - vöðvauppbygging kr. 85.500
Endurhæfing - hreyfing - vöðvaþjálfun að beiðni
Brynjólfs Jónssonar, læknis kr. 316.758
Lækniskostnaður - vegna aðgerða og skoðana kr. 74.790
Heilsuvörur og uppbyggingarefni kr. 33.340
Stoðtæki og stoðvörur kr. 35.861
Sjúkraþjálfun Íslands - endurhæfing og þjálfun kr. 74.076
Samtals kr. 773.425
Í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 50/1993 er krafist 4,5% vaxta af kröfu um tímabundið atvinnutjón, þjáningarbætur og bætur fyrir varanlegan miska, þ.e. samtals af 4.052.840 krónum frá tjónsdegi til 17. febrúar 2003, þegar stöðugleikapunkti var náð, sbr. matsgerð. Þá bætist við stefnufjárhæðin, þ.m.t. bótafjárhæð varanlegrar örorku, 10.235.382 krónur, sbr. 16. gr. Er því krafist 4,5% vaxta af þeirri fjárhæð fram til 21. júlí 2004, að liðnum mánuði frá dagsetningu fyrirliggjandi matsgerðar. Frá þeim tíma er gerð krafa um dráttarvexti af þeirri fjárhæð til greiðsludags, sbr. IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. þeirra laga og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1993.
Verði dráttarvextir dæmdir frá síðari tíma, er þess krafist að krafa stefnanda beri verðbætur og vexti fram að því tímamarki, skv. 15. og 16. gr. skaðabótalaga.
Alls koma til frádráttar bótakröfum stefnanda 2.054.705 krónur sem samanstanda af eftirfarandi liðum:
a) Vegna tímabundins atvinnutjóns, 1.805.710 krónur, sem sundurliðast svo:
Stefnandi var í fæðingarorlofi á tímabilinu 26. jan. til 31. mars 2002 og þáði á því tímabili 50% laun, en á sama tíma var hún óvinnufær til heimilisstarfa, sbr. niðurstöðu matsgerðar. Frá kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns á þessu tímabili dregst því það sem stefnandi fékk greitt úr Fæðingarorlofssjóði á sama tímabili, alls 112.288 krónur.
Á sama tímabili fékk stefnandi greiddar 31.878 krónur úr fjölskyldu- og styrktarsjóði BHM árið 2002, vegna fæðingarorlofs.
Stefnandi þáði laun í veikindum frá vinnuveitanda sínum, Seltjarnarnesbæ, á tímabilinu 1. apríl - 17. ágúst 2002, samtals 566.190 krónur. Inn í þeirri fjárhæð er greiðsla orlofs, sem að hluta til er áunnið frá því á árinu fyrir slys, 140.459 krónur (0,9915 af 1,26 einingum), sbr. staðfestingu Seltjarnarnesbæjar dags. 10. mars 2005, og kemur sá hluti því ekki til frádráttar. Eru því til frádráttar af þessum launum 425.731 króna.
Stefnandi fékk dagpeninga greidda frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabili tímabundins atvinnutjóns, alls 268.456 krónur.
Stefnandi þáði greiðslur frá sjúkrasjóði KÍ á tímabilinu, alls 546.643 krónur.
Þá fékk stefnandi greidda dagpeningar frá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna umrædds tímabils 420.714 krónur.
b) Vegna varanlegrar örorku, 248.995 krónur, sem sundurliðast svo:
Stefnandi fékk dagpeninga greidda frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu 17. feb. - 31. mars 2003, alls 62.706 krónur. Á tímabilinu 1. maí 2003 til 1. jan. 2004 fékk stefnandi greiddar 186.289 krónur í endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.
Auk framangreindra lagaraka vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttar, almennu skaðabótareglunnar, almennra reglna kröfuréttar, ákvæða laga nr. 50/1993, fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Varðandi kröfu um bætur fyrir varanlega örorku er einnig vísað til VII. kafla stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sérstaklega 65. og 72. gr. Stefnandi krefst dráttarvaxta, í samræmi við IV. kafla laga nr. 38/2001 og 1. mgr. 6. gr. s.l.
Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á l. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt er honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda. Krafa er gerð um málskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. gjafsóknarleyfi stefnanda.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Í fyrsta lagi telur stefndi ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir meiðslum á þann hátt sem hún heldur fram. Stefnandi lét ekki vita af meiðslum sínum í versluninni Lyfju sem hún kveðst hafa átt erindi í. Lögregluskýrsla var ekki gefin fyrr en u.þ.b. fjórum tímum eftir að þetta hafi átt að hafa gerst. Aldrei var haft samband við forráðamenn stefnda vegna þessa og það var fyrst með bréfi lögmanns stefnanda til byggingafulltrúans í Reykjavík, 11. febrúar 2002, að vitneskja barst um óhappið.
Þá bendir stefndi á, að stefnandi hafi verið ein til frásagnar um að hún hafi misstigið sig á brunnlokinu. Er því ljóst að um þá fullyrðingu hennar liggur ekki fyrir lögfull sönnun. Hafi stefnandi hrasað þarna eins og hún heldur fram getur það allt eins hafa verið af öðrum orsökum. Af hálfu stefnda er vakin athygli á því að stefnda var í sjúkraþjálfun vegna óþæginda í hægra hné árið 1998. Á árinu 1998 var gerð aðgerð með speglun og kom þá í ljós einhver truflun í hnéskeljarliðnum en stefnandi mun hafa hrasað á árinu 1998 og fengið áverka á hægra hné með blóð í liðnum eins og m.a. kemur fram í matsgerð. Í læknisvottorðum virðist því ekki afdráttarlaust slegið föstu að stefnandi hafi náð sér að fullu þótt þar segi að hún hafi lagast að mestu.
Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt enda bera fasteignareigendur ekki hlutlæga ábyrgð á aðbúnaði við fasteign sína. Ber því að sýkna stefndu.
Í öðru lagi tekur stefndi fram, að ef dómurinn fellst ekki á framangreind sjónarmið stefnda og frásögn stefnanda lögð til grundvallar er á því byggt, að slysið verði rakið til óhappatilviks eða aðgæsluleysis stefnanda. Einnig eru ósönnuð orsakatengsl á milli óþæginda stefnanda og þess óhapps sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir auk þess sem óþægindi stefnanda geta ekki talist sennileg afleiðing af óhappinu.
Stefndi mótmælir að frágangi lóðar hafi verið ábótavant. Við fráganginn sem slíkan var ekkert að athuga er slysið varð. Ber stefndi ekki skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda fyrir það eitt að vera eigandi fasteignarinnar þar sem slysið varð. Ekkert saknæmt var við aðstæður fyrir utan húsið. Er því ekkert við stefnda að sakast um slysið. Frágangur lóðarinnar átti ekki að valda hættu fyrir vegfarendur væri eðlileg aðgát höfð. Eins og sést á ljósmyndum af vettvangi var um litla misfellu að ræða í gangstéttinni. Málsástæðum stefnanda um að þessi frágangur teljist óleyfilegur og þar með ólögmætur er mótmælt.
Stefndi mótmælir því og að skýrsla byggingafulltrúa um vettvangsskoðun geti haft áhrif á mat þess hvort ástandi lóðarinnar hafi verið ábótavant. Þá hefur það enga þýðingu við úrlausn þessa máls að handrið, sem sýnt var á uppdrætti frá 20.06.2000, vantaði enda hefur ekki verið sýnt fram á nein orsakatengsl milli þess og slyssins sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir. Hinu sama gegnir um þá staðreynd að skábraut fyrir hreyfihamlaða vantaði, að gönguleiðir væru ómerktar og að lýsing var ekki á lóðinni.
Stefndi mótmælir einnig því að ástand lóðarinnar hafi verið í andstöðu við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 411/1998. Ákvæði reglugerðarinnar, sem stefnandi vísar til, eru almenns eðlis og veita enga leiðsögn um sakarmat í þessu máli.
Þá er mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að stefndi hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi viðurkennt „hinn óforsvaranlega og óleyfilega lóðarfrágang og skyldu sína til að standa að úrbótum“. Stefndi hefur aldrei viðurkennt neina sök í þessu máli. Engin ástæða var til þess að mótmæla því að stefnandi fengi byggingafulltrúa til þess að skoða aðstæður að Lágmúla 5 enda vandséð að stefndi hefði getað staðið í vegi fyrir slíkri skoðun. Einnig er ítrekað að endurbætur stefnda á lóðinni að Lágmúla 5 tengdust viðhaldi sem var fyrir löngu búið að ákveða.
Stefndi heldur því fram, að eins og stefnandi lýsir óhappinu, sé ljóst að hefði hún gætt eðlilegrar aðgæslu hefði slysið aldrei orðið og verði hún að bera hallann af því. Samkvæmt því verður slysið eingöngu rakið til gáleysis stefnanda sjálfrar eða óhappatilviks en ekki vegna þess að aðstæður hafi verið ófullnægjandi þannig að stefndi beri á því ábyrgð að lögum.
Krafa stefnanda um tímabundið atvinnutjón er ósönnuð með öllu. Ber tjónvaldi aðeins að bæta sannað raunverulegt tímabundið vinnutekjutap en ekki áætlað. Því ber alfarið að hafna þessum kröfulið. Engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu tjóni og er þar af leiðandi engu slíku tjóni til að dreifa. Fjárhæð þessa kröfuliðar, sem tekur mið af meðallaunum grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands hjá Reykjavíkurborg, er einnig mótmælt sem of hárri. Stefnandi hefur við kröfugerð sína miðað við frádrátt samtals að fjárhæð 1.805.710 krónur vegna greiðslna frá þriðja manni, sbr. m.a. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi telur að með greiðslum þessum hafi stefnandi fengið meint tjón sitt að fullu bætt ef tekið er tillit til meðallauna stefnanda seinustu þrjú ár fyrir slys, svo sem tíðkanlegt er eins og að neðan greinir.
Stefndi mótmælir sem of hárri kröfu stefnanda um launaviðmiðun vegna tímabundins atvinnutjóns og vegna kröfu um bætur fyrir varanlega örorku, sbr. 6. og 7. gr. laga nr. 50/1993. Er þess krafist að undir engum kringumstæðum verði miðað við hærri útreikning en samsvari meðallaunum stefnanda seinustu þrjú ár fyrir slys eins og meginreglan er í málum sem þessum. Stefnandi miðar tjónsútreikning sinn við meðallaun grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands hjá Reykjavíkurborg árið 2001. Skal á það bent að stefnandi var ekki grunnskólakennari er slysið varð né hefur hún leitt líkur að því að svo yrði á ný. Þá hefur stefnandi heldur ekki starfað sem grunnskólakennari eftir slysið. Eru tekjuforsendur útreikningsins því rangar og hefði átt að miða við skattframtalstekjur stefnanda sjálfrar síðustu þrjú ár fyrir slys. Samkvæmt framansögðu ber því að hafna þessum kröfuliðum eða a.m.k. að virða þessa skekkju til verulegrar lækkunar.
Í greinargerð sinni mótmælti stefndi sem of háum fjárhæðum krafna um þjáningarbætur og bætur fyrir varanlegan miska en féll frá þeim mótmælum við aðalmeðferð málsins..
Upphafstíma vaxtakrafna er mótmælt. Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt og þess krafist að dráttarvextir komi einungis til álita eftir endanlega dómsuppsögu.
Stefndi byggir varakröfu sína á því að skipta beri sök í málinu og lækka bætur til stefnanda í hlutfalli við eigin sök hennar og óhappatilviljun, auk þess sem stefnukröfum er mótmælt sem allt of háum. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á, þótt sannað teljist að frágangi brunnloks hafi verið ábótavant, að aðstæður hafi verið þannig að stefnandi hafi ekki mátt verða þess vör og getað forðast að stíga á það með eðlilegri aðgæslu. Að öðru leyti vísast um rökstuðning fyrir varakröfu til þess sem áður segir um aðalkröfu um sýknu.
Varðandi lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins, þ.m.t. reglna um sakarábyrgð, eigin sök, sönnun, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Þá vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993.Vaxtakröfur stefnda byggjast á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Málskostnaðarkrafa er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988.
IV.
Forsendur og niðurstaða.
Í málinu byggir stefnandi á því, að hún hafi dottið fyrir framan Lágmúla 5 í Reykjavík og hlotið tjón af. Engin vitni voru að óhappinu. Stefnandi hringdi í föður sinn, sem kom henni til aðstoðar, en ekki óskaði hún þá eftir aðstoð lögreglu eða starfsmanna Lyfju. Lögreglan var kvödd á staðinn um það bil fjórum klukkustundum síðar, það er eftir að stefnandi hafði farið og leitað sér aðstoðar á slysavarðstofunni og var þá gerð lögregluskýrsla. Í málinu liggja fyrir gögn er sýna að stefnandi verslaði í Lyfju á þessum tíma. Þegar litið er til atburðarrásarinnar í heild, vitnisburðar föður og framlagðra gagna telur dómurinn ekki varhugavert að leggja til grundvallar að stefnandi hafi dottið er hún hafi lokið verslun í Lyfju. Dómurinn hafnar því þeirri málsástæðu stefnda að ósannað sé að stefnandi hafi fallið í götuna laugardags-morguninn 26. janúar 2002 fyrir framan Lágmúla 5 í Reykjavík.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir af vettvangi eins og hann var þegar óhappið átti sér stað. Á myndunum sést brunnlokið greinilega. Í framburði Björns Vignis Björnssonar kemur fram, að brunnlokið hafi verið um það bil 80 cm í þvermál og að það hafi verið sigið um ca 5-8 cm. Getur þetta staðist miðað við ljósmyndirnar. Á brunnlokinu næst húsinu var handfang úr járni sem samkvæmt lögregluskýrslu var 4 cm á hæð.
Eins og að framan greinir er stefnandi ein til frásagnar um það hvernig óhappið bar að. Í lögregluskýrslunni frá því um hádegið á slysdeginum kemur fram, að stefnandi hafi misstigið sig á brunnlokinu og þar sé misslétt. Síðar segir að hún hafi misstigið sig á járnhandfanginu og missléttunni sem hafði myndast. Fyrir dómi lýsti stefnandi því í upphafi þannig, að hún hafi farið sömu leið úr versluninni og hún hafi farið inn í hana. Stefnandi kveður, að þegar hún hafi komið fram fyrir bílinn sinn hafi hún dottið í jörðina. Hún hafi fundið að jörðin var ójöfn og þegar hún sat á jörðinni hafi hún fundið eitthvert „járndrasl“ og að gatan var ójöfn. Þegar hún hafði staulast á fætur sá hún að hún hafði dottið um brunnlokið. Síðar segist hún hafi stigið á mishæðótta brún. Aðspurð um nánari lýsingu á atburðinum segist hún hafi gengið með fram húsinu og stutt sig við það og krækst einhvern veginn í járnstykkið eða mishæðótta brúnina og fallið í jörðina. Að mati dómsins gætir misræmis í framburði stefnanda um það atriði hvort hún hafi dottið um járnhandfangið eða um ójöfnu þá er þarna var vegna sigsins á brunnlokinu. Eins og sést á ljósmyndum af vettvangi er járnhandfangið nálægt húsveggnum. Dómurinn telur ekki líklegt að stefnandi hafi gengið svo nálægt húsveggnum, að hún hafi dottið um sjálft járnhandfangið. Miðað við staðsetningu bifreiðar hennar og einnig það, að jörð var auð og engin hálka, eru líkur á því að hún hafi fremur gengið þvert yfir brunnlokið en með fram húsinu. Því lítur dómurinn svo á, að stefnandi hafi fallið um þá mishæð sem var þarna til staðar vegna sigs á brunnlokinu.
Að mati dómsins verður sigið á brunnlokinu ekki talið til vanbúnaðar á fasteigninni þannig að valdi bótaskyldu. Hvar sem er geta gangstéttir verið ójafnar eða mishæðóttar og fólk dottið af þeim ástæðum. Engu breytir þó slysið hafi verið að morgni dags í janúar og myrkur verið úti, þar sem engin skylda er fyrir hendi í byggingarreglugerð til að hafa lóð upplýsta. Þvert á móti bar stefnanda að sýna eðlilega varkárni og aðgát í myrkrinu. Slys stefnanda er því að rekja til óhappatilviks sem er ekki á ábyrgð fasteignaeigenda. Er stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna rétt sinn til skaðabóta úr hendi stefnda og er dómkröfum því hafnað.
Eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður. Gjafsóknar-kostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Jóns Sigurðssonar hdl., sem er hæfilega ákveðin 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Sigurðsson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Eyvindur G. Gunnarsson hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Húsfélagið Lágmúla 5, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Hildigunnar Guðmundsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.