Hæstiréttur íslands

Mál nr. 639/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför
  • Útburðargerð
  • Málsástæða


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. janúar 2007.

Nr. 639/2006.

Íslenska ríkið

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Benedikt Ólafssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Aðför. Útburðargerð. Málsástæður.

Í krafðist þess að B yrði borinn út af lóð á Akureyrarflugvelli með beinni aðfargerð, en á lóðinni stóð hús, sem B var eigandi að. Hann taldi sig hafa unnið hefð á lóðinni með athugasemdalausri nýtingu hennar í fullan hefðartíma og því bæri að hafna kröfu Í. Var á það fallist í úrskurði héraðsdóms. Fyrir Hæstarétti voru lögð fram gögn sem Í taldi sýna að fyrrverandi eigandi hússins hefði viðurkennt eignarrétt þess á lóðinni. Þessi málsástæða var talin of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því bæri að fella dóm á málið án tillits til þessara gagna. Ekki fallist á að Í hefði tekist að sýna fram á réttmæti kröfunnar og var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að heimilað yrði með beinni aðfarargerð að fá varnaraðila borinn út af lóð á Akureyrarflugvelli ásamt öllu því, sem honum tilheyrir þar. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að honum verði heimiluð aðfarargerðin og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I.

Varnaraðili hefur frá árinu 1992 verið eigandi að húsi, sem stendur á Akureyrarflugvelli. Er óumdeilt að Svifflugfélag Akureyrar hafi reist það 1958 á landi, sem sóknaraðili eignaðist 1952 vegna flugvallargerðar, en Flugmálastjórn Íslands hefur frá upphafi haft umsýslu með því landi, sem sóknaraðili eignaðist í umrætt sinn. Ekki nýtur gagna í málinu um samskipti húsbyggjandans og sóknaraðila frá þeim tíma, sem húsið var reist á flugvallarsvæðinu. Lýtur ágreiningur málsaðila að rétti sóknaraðila til að fá húsið fjarlægt af lóðinni með beinni aðfarargerð. Málsatvik og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í úrskurði héraðsdóms.

II.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt bréf Akureyrarbæjar til Flugmálastjórnar 7. október 1981, en samrit þess var sent Svifflugfélagi Akureyrar. Kemur þar fram að félagið hafi sótt um leyfi til að færa hús í eigu þess á Akureyrarflugvelli á annan tilgreindan stað innan flugvallarsvæðisins og að af hálfu bygginganefndar bæjarins sé leyfið veitt til bráðabirgða. Engin gögn eru færð fram um samskipti húseigandans og sóknaraðila af þessu tilefni, en í greinargerð varnaraðila til Hæstaréttar kemur fram að húsið muni hafa verið flutt á nýjan stað árið 1981. Þá hefur sóknaraðili lagt fram nokkur bréf frá árunum 1990 og 1991, sem varða umsókn Svifflugfélags Akureyrar um að reisa viðbyggingu við hús sitt. Í kæru sóknaraðila er haldið fram að beiðni Svifflugfélags Akureyrar um flutning hússins 1981 og síðar umsókn 1991 um leyfi til að stækka það feli í sér viðurkenningu á eignarrétti sóknaraðila á lóðinni undir og umhverfis hús varnaraðila og girði fyrir að hann geti hafa eignast lóðina á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Af hálfu varnaraðila er mótmælt þeim málatilbúnaði sóknaraðila, sem að framan er rakinn. Vísar hann meðal annars til þess að þegar sótt var um leyfi til að flytja húsið innan flugvallarsvæðisins hafi ekki legið fyrir neitt heildarskipulag þar, en það skýri hvers vegna bygginganefnd Akureyrarbæjar hafi einungis veitt samþykki til bráðabirgða. Gögn frá árunum 1990 og 1991 telur hann málinu óviðkomandi, en þau lúti ekki að þeirri lóð, sem húsið standi á, auk þess sem umrædd viðbygging hafi ekki verið reist.

III.

Fyrir héraðsdómi hreyfði sóknaraðili ekki þeirri málsástæðu að Svifflugfélag Akureyrar hafi beint eða óbeint á árunum 1981 og 1991 viðurkennt eignarrétt sóknaraðila að lóðinni, sem umrætt hús stendur á. Er hún of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, sem hér á við samkvæmt 4. mgr. 150 gr. sömu laga og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Verður því að fella dóm á málið án tillits til þessara nýju gagna.

Með vísan til þess, sem fram er komið í málinu verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, Benedikt Ólafssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað. 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2006.

Með bréfi mótteknu í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. september sl. krafðist sóknar­aðili, íslenska ríkið, [kt.], Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, dómsúrskurðar um að varnaraðili, Benedikt Ólafsson, [kt.], Laugalæk 62, Reykjavík, verði með beinni aðfarargerð borinn út af lóð sóknaraðila, landnr. 147548, á Akur­eyrar­flug­velli ásamt öllu því sem honum tilheyrir og sóknaraðila fengin umráð lóðarinnar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila og að fjárnám verði heimilað fyrir honum og kostnaði af væntanlegri gerð.

Varnaraðili gerir þær dómkröfur að kröfum sóknaraðila verði hafnað, að synjað verði um hina umbeðnu gerð, og að varnaraðila verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi sóknaraðila.

I

Í aðfararbeiðni kemur fram að sóknaraðili sé skráður eigandi framangreindrar lóðar en Flugmálastjórn Íslands hafi umsýslu með henni fyrir hönd sóknaraðila eins og fram komi í Landskrá fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins og afsali Akureyrarbæjar til Flug­ráðs f.h. sóknaraðila, dags. 18. janúar 1952. Um árabil hafi flugskýli, sem oftast hafi verið nefnt flugskýli Svifflugfélagsins, staðið á lóðinni án þess að lóðar­leigu­samn­ingur hafi verið gerður. Varnaraðili sé eigandi flugskýlisins en það sé auðkennt í FMR 214-5789 08 0101, skráð 46,4 fermetrar og nefnt vörugeymsla.

Með bréfi dagsettu 28. nóvember 2005 hafi varnaraðila verið sagt upp lóðar­rétt­indum og þess farið á leit að hann flytti flugskýli sitt af lóð sóknaraðila eigi síðar en 1. maí 2006. Með bréfi birtu 20. júní 2006 hafi gerðarþoli verið áminntur um efni upp­sagn­arbréfsins og skorað á hann að rýma lóðina þegar í stað. Ella myndi sóknaraðili, lög­mætur eigandi lóðarinnar, leita atbeina dómstóla til að fá lögmæt umráð og afnot yfir eign sinni.

Varnaraðili hafi ekki orðið við beiðni sóknaraðila um að fjarlægja flugskýlið og öll ummerki þess af lóðinni og sé sóknaraðila því nauðsynlegt að krefjast útburðar á grund­velli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

II

Varnaraðili kveður fasteign þá sem mál þetta snýst um vera timburhús reist árið 1958. Húsið hafi upphaflega verið reist til að hýsa flugafgreiðslu en síðar verið breytt í flug­skýli fyrir Svifflugfélag Akureyrar. Varnaraðili hafi eignast húsið 1992 en þá hafi hann selt Svifflugfélagi Akureyrar hlut sinn í öðru flugskýli á Akureyrarflugvelli og fengið hið umdeilda hús afsalað sér sem hluta kaupverðs. Varnaraðili hafi fyrst og fremst nýtt húsið sem geymsluhúsnæði. Hann hafi engin samskipti átt við sóknaraðila vegna þess og aldrei verið krafinn um leigugjald vegna lóðarinnar. Enda hafi honum þegar hann eignaðist húsið engin grein verið gerð fyrir því að húsið stæði ekki á lóð sem það mætti nýta um ótakmarkaða framtíð. Þvert á móti hafi varnaraðili ekki aðeins eignast húsið sjálft á sínum tíma heldur hafi honum einnig verið seldur réttur til við­bygg­ingar við húsið sem þá hafði verið undirbúin með gerð undirstaða við hlið þess. Þann rétt hafi varnaraðili hins vegar ekki nýtt sér ennþá þar sem hann hefur ekki haft þörf fyrir það. Varnaraðili hafi fyrst frétt af athugasemdum sóknaraðila um heimild hans til að láta hús sitt standa á hinni umdeildu lóð með bréfi dags. 28. nóvember 2005. Varnaraðili hafi haft samband við bréfritara símleiðis og mótmælt heimild sóknar­aðila til þeirra ráðstafana sem bréfið ráðgeri en ekkert aðhafst frekar á því stigi þar sem hann hafi setið við dánarbeð eiginkonu sinnar.

Þegar sóknaraðili hafi fyrst haft samband við varnaraðila vegna málsins með bréf­inu dags. 28. nóvember 2005 hafi hús varnaraðila verið búið að standa á hinni um­deildu lóð í full 47 ár eða meir en tvöfaldan hefðartíma. Varnaraðili hafi aldrei skuld­bundið sig til að virða eignarrétt annarra að lóðinni og heldur ekki þeir sem hann leiði rétt sinn frá. Varnaraðili hafi aldrei haft neina ástæðu til að ætla að umráð hans yfir lóðinni væru takmörkuð eða að sóknaraðili gæti að geðþótta vísað honum burt af henni og ónýtt þannig bótalaust verðmæti sem varnaraðili hafi eignast með lögmætum hætti og fyrir talsvert fé. En ekki verði séð að unnt sé að verða við beiðni sóknaraðila öðru­vísi en með því að sýslumaður rífi húsið og eyðileggi þar með eign varnaraðila.

Varnaraðili byggir á að hann hafi með athugasemdalausri nýtingu hinnar um­deildu lóðar sem hann og fyrirrennarar hans hafa haft í hefðarhaldi í 48 ár unnið hefð á lóð­inni. Varnaraðili sé lögmætur eigandi flugskýlis sem staðið hafi athugasemdalaust í næstum hálfa öld á Akureyrarflugvelli. Varnaraðili hafi greitt fasteignagjöld af eign­inni og nýtt sér hana í fullum rétti. Varnaraðili hafi engum lofað að hann sæti tak­mörk­unum á heimildum sínum til nýtingar hússins eða þess hversu lengi það megi standa. Aldrei hafi verið gerður neinn samningur svo kunnugt sé um afnot lóðarinnar sem húsið stendur á eða takmarkanir á heimildum eiganda þess til að láta það standa verið umsamdar. Sá sem telji að hann geti með einfaldri tilkynningu gert fast­eign­ar­eiganda að rífa hús sitt verði að byggja heimildir sínar til þess á einhverju öðru en eigin fullyrðingum um rétt til þess. Húsið sé reist á hinu umdeilda landi sex árum eftir að sóknaraðila var afsalað landinu. Húsið hafi ekki verið reist eða staðið með neinni leynd. Fráleitt sé að halda því fram að húsið hafi verið reist í óþökk sóknaraðila eða óleyfi og ekkert liggi fyrir um að umráð varnaraðila yfir landinu hafi verið tímabundin eða á annan hátt takmörkuð. 

Varnaraðili byggir á hefðarlögum nr. 46/1905.

III

Í máli þess krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði með beinni aðfarargerð borinn út af lóð sóknaraðila á Akureyrarflugvelli. Fyrir liggur að varnaraðili á hús á um­ræddri lóð. Byggir varnaraðili á að hefð hafi unnist á lóðinni þar sem hann og for­verar hans haft athugasemdalaus umráð hennar í 47 ár eða meir en tvöfaldan hefðar­tíma.

Fyrir liggur að umrætt hús var reist árið 1958 eða sex árum eftir að gerð­ar­beið­andi eignaðist umrædda lóð. Ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili hafi gert at­huga­semdir við að húsið stæði á lóðinni fyrr en með bréfinu til sóknaraðila þann 28. nóvember 2005. Sóknaraðili hefur ekki leitt að því líkur að fyrri eigandi hússins eða varn­araðili hafi skuldbundið sig til að virða eignarrétt sóknaraðila að lóðinni eða að þeir hafi mátt vænta þess að umráð þeirra yfir lóðinni væru aðeins tímabundin. Af þessum sökum stendur 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð ekki því í vegi að hefð geti hafa unnist. Þótt formlega eignarheimild hafi skort og eigendum hússins mátt vera það ljóst, getur 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 heldur ekki staðið hefð í vegi. Þar sem varnar­aðili og þeir sem hann leiðir rétt sinn frá, hafa haft umráð lóðarinnar í fullan hefðar­tíma samkvæmt 1. mgr. 2. gr. nefndra laga verður að líta svo á að þeir hafi unnið hefð á henni. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfu sóknaraðila.

Með hliðsjón af niðurstöðu máls þykir rétt að sóknaraðili greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, íslenska ríkisins, um að varnaraðili, Benedikt Ólafs­son, verði með beinni aðfarargerð borinn út af lóð sóknaraðila á Akureyrarflugvelli ásamt öllu því sem honum tilheyrir.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.