Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2002


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Samningur
  • Skuldajafnaðarkrafa


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. júní 2002.

Nr. 27/2002.

Pétur Jakobsson og

Steintak ehf.

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Fasteignafélaginu Vogar ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

og gagnsök

 

Fasteignakaup. Samningur. Skuldjafnaðarkrafa.

S ehf. keypti af F ehf. fjóra eignarhluta í fasteign, og átti að greiða einn þeirra að hluta með víxli að fjárhæð 1.500.000 krónur. S ehf. gaf ekki út víxilinn. Í máli sem F ehf. höfðaði af því tilefni gegn S ehf. bar síðarnefnda félagið því við að það ætti gagnkröfu á hendur fyrrnefnda félaginu sem væri hærri en fjárhæð víxilsins. S ehf. var ekki talið hafa fært sönnur fyrir gagnkröfu sinni og var krafa F ehf. um greiðslu víxilfjárhæðarinnar því tekin til greina. Við undirritun kaupsamninga um eignina hafði P, sem var fyrirsvarsmaður S ehf., ábyrgst greiðsluna gagnvart F ehf. Var P því dæmdur með S ehf. til að greiða F ehf. kröfuna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2002 og krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar og löglegrar dómsmeðferðar. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en ella verulegrar lækkunar á stefnukröfum. Aðaláfrýjandi Steintak ehf. krefst þess að viðurkennt verði að krafa hans samkvæmt reikningi 1. september 2000 á hendur gagnáfrýjanda, að fjárhæð 3.562.997 krónur, verði að hluta til höfð til skuldajafnaðar gegn dómkröfum gagnáfrýjanda. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði 10. apríl 2002 og krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem hann krefst hækkunar á. Þá krefst hann þess að aðaláfrýjendur verði óskipt  dæmdir til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavextir eru raktir í héraðsdómi.

Aðaláfrýjendur reisa ómerkingar- og heimvísunarkröfu sína á því að héraðsdómari hafi ekki tekið efnislega á skuldajafnaðarkröfu aðaláfrýjandans Steintaks ehf. Á þetta verður ekki fallist. Í héraðsdómi er gerð fullnægjandi grein fyrir þeirri afstöðu dómarans að ekki hafi tekist að renna stoðum undir gagnkröfu þessa. Með skírskotun til forsendna dómsins verður sú niðurstaða staðfest og jafnframt niðurstaða hans um kröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjandanum Steintaki ehf.

Eins og fram kemur í héraðsdómi skyldi hluti kaupverðs eignarinnar Hvaleyrarbrautar 22 í Hafnarfirði, eignarhluta 01-09, sem aðaláfrýjandinn Steintak ehf. keypti af gagnáfrýjanda 7. apríl 2000, greiðast með víxli að fjárhæð 1.500.000 krónur með gjalddaga 1. október 2000. Átti víxillinn að vera samþykktur af kaupandanum, en gefinn út af aðaláfrýjandanum Pétri Jakobssyni, sem var annar eigandi umrædds einkahlutafélags og undirritaði samninginn fyrir þess hönd. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi kom ótvírætt fram af hálfu aðaláfrýjanda Péturs að við undirritun kaupsamnings og afsals um eignina hafi það verið samkomulag að hann ábyrgðist ofangreinda greiðslu. Verður því að telja að við samningsgerðina hafi legið fyrir loforð af hans hálfu gagnvart gagnáfrýjanda um að ábyrgjast greiðsluna og hefur ekkert komið fram í málinu sem leysir hann frá því. Verður því einnig staðfest niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu hans.

Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur, en rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði dæmdur í einu lagi, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er staðfestur um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjendur, Steintak ehf. og Pétur Jakobsson, greiði óskipt gagnáfrýjanda, Fasteignafélaginu Vogum ehf., 500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2001.

I.

Þetta mál, sem var tekið til dóms 31. október sl., að loknum munnlegum málflutningi, hefur Fasteignafélagið Vogar ehf., kt. 480494-2619, Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, höfðað með stefnu birtri 24. janúar sl. á hendur Steintaki ehf., kt. 610199-2759, Mururima 5, Reykjavík og Pétri Jakobssyni, kt. 070765-4899, Mururima 5, Reykjavík.  Stefndi Steintak ehf. höfðaði gagnsakarmál með gagnstefnu sem var birt 27. febrúar sl.  Gagnsök var vísað frá dómi að kröfu gagnstefnda með úrskurði kveðnum upp 6. júlí sl.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 1.500.000,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 2000 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar.

Stefndu í aðalsök krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað, hvorum fyrir sig.

II.

Málsatvik eru í stuttu máli þau að gagnstefnandi keypti af gagnstefnda fjóra eignarhluta í fasteigninni að Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði og eru allir kaupsamningarnir dagsettir 7. apríl 2000.  Stefnandi kveður ógreitt af kaupverði eignarhluta 01-09 kr. 1.500.000,- sem greiða hafi átt með víxli með gjalddaga 1. október 2000, útgefnum af stefnda Pétri og samþykktum til greiðslu af stefnda Steintaki ehf. Kveður stefnandi að víxilinn hefði átt að afhenda við undirritun kaupsamnings en það hafi af einhverjum ástæðum ekki verið gert.  Stefndi hafi lofað að koma með víxilinn til stefnanda þann sama dag, en það hafi hann ekki staðið við, hvorki þá né síðar, þrátt fyrir eftirgangsmuni. 

Stefndi Pétur sem jafnframt er fyrirsvarsmaður stefnda Steintaks ehf. bar í aðilaskýrslu sinni ekki á móti því að víxilinn hefði átt að gefa út með því efni sem stefnandi lýsi, en það hafi upphaflega farist fyrir af einhverjum ástæðum.  Þegar frá leið hafi stefndi Steintak ehf. talið sig hafa eignast gagnkröfu á hendur stefnanda sem næmi hærri upphæð en víxilfjárhæðinni og hafi stefndi Pétur af þeim sökum ekki gefið út, eða stefndi Steintak ehf. samþykkt, víxilinn. 

Stefndi heldur fram að samkvæmt kaupsamningi um eignarhluta 01-02 að Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði hafi átt að greiða kr. 4.000.000,- af kaupverði með jarðvegsvinnu við Hvaleyrarbraut 20, sem sé í eigu stefnanda.  Að sögn stefnda vann hann aukaverk vegna þessa og eins hafi stefnandi átt ógreitt fyrir ýmiskonar verkefni sem stefndi hafi unnið fyrir hann auk leigu fyrir afnot véla og tækja.

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á kaupsamningi um fasteignina að Hvaleyrarbraut 22, Hafnarfirði, eignarhluta 01.09. sem gerður hafi verið 7. apríl 2000.  Samkvæmt þeim samningi bar stefnda Steintaki ehf. að leggja fram víxil, gefinn út af stefnda Pétri og samþykktan til greiðslu af stefnda Steintaki ehf. að upphæð 1.500.000 krónur, með gjalddaga 1. október 2000.  Stefndi Pétur hafi komið fram fyrir hönd stefnda Steintaks ehf. við samningsgerðina.

Stefnandi byggir á því að stefnda Steintaki hafi borið að greiða eftirstöðvar kaupverðsins samkvæmt kaupsamningi þann 1. október 2000.  Það hafi stefndi Steintak ehf. ekki gert og því skuldi hann enn stefnanda þessa upphæð.

Stefnandi byggir á því gagnvart stefnda Pétri að hann hafi gefið loforð um að gefa út víxil þann sem lýst sé hér að framan.  Við það loforð hafi hann ekki staðið og byggir stefnandi á því að með þessu hafi stefndi Pétur tekið á sig solidariska ábyrgð, með stefnda Steintaki ehf. á greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins 1.500.000 krónur þann 1. október 2000.

Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og krefst þess því að tekið verði tillit til skyldu hans til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, við ákvörðun málskostnaðar.

Kröfu sína kveðst stefnandi byggja á reglum samninga- og kröfuréttar.  Þá vísar stefnandi til víxillaga nr. 39/1922.  Krafa um dráttarvexti styðjist við lög nr. 25/1987 og krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991.  Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 42. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 5. gr. kaupsamnings aðila.

 

Stefndi Steintak ehf. kveðst ekki mótmæla tilurð þeirrar dómkröfu sem stefnandi hafi uppi.  Hins vegar telji hann skuldina greidda þar sem stefndi eigi til muna hærri kröfur á hendur stefnanda vegna samningsbundinna verkefna sem stefndi hafi unnið fyrir stefnanda og vegna fasteignaviðskipta málsaðila og hafi hann þær kröfur uppi til skuldajafnaðar.

Stefndi Pétur kveðst hafa tekist á hendur skyldu til þess að fara á víxil fyrir meðstefnda Steintak ehf.  Þessi víxill hafi ekki verið samþykktur eða gefinn út og sé stefnanda því ógerlegt að hafa uppi kröfur á hendur stefnda Pétri í máli þessu þar sem stefndi Pétur hafi ekki tekist á hendur ábyrgð á þessum grundvelli.

IV.

Stefndu hafa ekki borið brigður á það að krafa stefnanda sé til og hún sé að þeirri fjárhæð sem tilgreind er í stefnu og með þeim gjalddaga sem þar segir.  Enginn ágreiningur er því með aðilum um það að stefndi Steintak ehf. skuldar stefnanda 1.500.000 sem honum bar að standa skil á 1. október 2000.  Stefndi Steintak ehf. hefur borið því einu við að félagið eigi gjaldfallnar kröfur á stefnanda sem koma eigi til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda í málinu. Stefndi Steintak ehf. ber sönnunarbyrði fyrir því að slíkar gagnkröfur séu til, hvers efnis þær séu, hvenær þær hafi stofnast og hvers vegna.  Verður að telja það fjarri að stefnda Steintaki ehf. hafi tekist sú sönnun eins og málatilbúnaði af hálfu stefndu er háttað í máli þessu.  Eins og áður hefur komið fram var gagnsök vísað frá dómi vegna vanreifunar.  Stefndu hafa haldið fram sömu kröfum til skuldajafnaðar og þeir höfðu uppi í gagnstefnu til sjálfstæðs dóms.  Kröfur stefndu í málinu eru vanreifaðar með sama hætti og í gagnsök og stefndu hafa ekki gert neina tilraun til að bæta úr þessu undir rekstri málsins þrátt fyrir að frávísun gagnsakar ætti að gefa þeim fullt tilefni til þess.  Ber  því að fallast á kröfur stefnanda gagnvart stefnda Steintaki ehf.

Stefndi Pétur er fyrirsvarsmaður stefnda Steintaks ehf. og undirritaði fyrir hönd félagsins kaupsamning um Hvaleyrarbraut 22 eignarhluta 01-09 þann 7. apríl 2000.  Eins og fram hefur komið segir  í þeim kaupsamningi að kaupverð skuli greiða annars vegar með greiðslu á 3.000.000 króna með nánar tilgreindum hætti og hins vegar með víxli 1.500.000 krónur með gjalddaga 1. október 2000, útgefnum af Pétri Jakobssyni og samþykktum til greiðslu af Steintaki ehf.  Stefndi Pétur hefur ekki borið brigður á það að hann hafi ætlað að gefa út viðkomandi víxil með því efni sem lýst er í kaupsamningi.  Kemur það fram í greinargerð að hann hafi samþykkt að „fara á víxil fyrir með stefnda, Steintak ehf.“  Eins staðfesti stefndi Pétur í aðilaskýrslu sinni að þetta loforð hafi hann gefið.  Stefndi Pétur byggir á því að ekki sé hægt að hafa uppi kröfur á hendur honum í málinu með þeim hætti sem gert sé.  Umræddur víxill hafi aldrei verið gefinn út og að stefndi Pétur hafi ekki tekið á sig ábyrgð á greiðslu skuldarinnar á þeim grundvelli sem krafist sé í máli þessu.  Telja verður óumdeilt í málinu að stefndi Pétur hafi lofað því að gefa út nefndan víxil.  Einnig er ljóst að víxill þessi var ekki gefinn út.  Samkvæmt kaupsamningi átti víxillinn að vera með gjalddaga 1. október 2000 og umsaminn gjalddagi því kominn þegar mál þetta var höfðað.  Í 1. mgr. 47. gr. víxillaga nr. 93/1933 segir að þeir sem gefið hafi út víxil, samþykkt hann eða framselt eða gerst ábyrgðarmenn að honum, beri allir fyrir einn og einn fyrir alla ábyrgð gagnvart víxilhafa.  Að virtu þessu ákvæði víxillaga verður að telja að í loforði stefnda Péturs um að gefa út víxil fyrir eftirstöðvum kaupverðs felist loforð um að ábyrgjast gagnvart stefnanda greiðslu þeirrar upphæðar sem víxillinn skyldi hljóða upp á.  Slík ábyrgð er í eðli sínu sjálfskuldarábyrgð. Verður ennfremur að telja að eftir að umsaminn gjalddagi er kominn geti stefnandi haldið upp á stefnda Pétur þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem í loforði hans fólst.  Að þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að stefndi Pétur verði dæmdur til greiðslu hinnar umstefndu fjárhæðar in solidum með stefnda Steintaki ehf.

Í ljósi þessarar niðurstöðu þykir rétt að stefndu greiði stefnanda in solidum 150.000 krónur í málskostnað.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

DÓMSORÐ

Stefndu Steintak ehf. og Pétur Jakobsson greiði stefnanda in solidum 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda in solidum 150.000 krónur í málskostnað.