Hæstiréttur íslands

Mál nr. 319/2000


Lykilorð

  • Víxill
  • Umboð
  • Tilkynning


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2001.

Nr. 319/2000.

Steinunn Friðriksdóttir

Árni Frímann Jónsson og

Guðný R. Jónsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Bónusvídeó ehf.

(Jón Egilsson hdl.)

                                                   

Víxilmál. Umboð. Tilkynning.

B og einkahlutafélagið J leigðu áfrýjandanum Á húsnæði, vélar, tæki o.fl. með skriflegum leigusamningi. B krafði S, Á og G um greiðslu samkvæmt víxli, sem settur hafði verið til tryggingar leigugreiðslum. Víxileyðublaðið hafði verið útfyllt meðal annars með útgáfudegi og gjalddaga og gert að fullgildum víxli í merkingu 1. og 2. gr. víxillaga nr. 93/1933. Bar B að það hefði verið gert þegar leigugreiðslur hefðu verið komnar í veruleg vanskil. Áfrýjendur töldu að B hefði verið óheimilt að fylla víxileyðublaðið út án samþykkis J. Talið var að hvorum leigusalanum um sig hefði verið það heimilt, enda hefði sá réttur ekki verið takmarkaður þannig í leigusamningnum að þeim hefði borið að gera það saman. Með vísan til þess og forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um greiðsluskyldu áfrýjenda því staðfest.

                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2000 og krefjast sýknu af dómkröfum stefnda, auk málskostnaðar úr hans hendi í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Meðal  gagna málsins er leigusamningur 30. júní 1997, þar sem stefndi og Jón Bakan ehf. leigðu áfrýjandanum Árna Frímanni Jónssyni til þriggja ára húsnæði að Nýbýlavegi 14 í Kópavogi ásamt vélum, tækjum o.fl., eins og nánar greinir í samningnum. Í 6. gr. hans sagði jafnframt að til tryggingar umsömdum greiðslum skyldi leigutakinn afhenda tryggingarvíxil að fjárhæð 1.350.000 krónur og væri leigusölum heimilt að innheimta víxilinn í heild eða að hluta ef leigutaki vanefndi greiðslur samkvæmt samningnum. Hafa málsaðilarnir lagt fram nokkur bréf, sem fóru milli leigutaka og leigusala á miðju ári 1999 vegna leigugreiðslna, sem stefndi heldur fram að hafi þá verið komnar í veruleg vanskil. Er óumdeilt að áðurnefnt víxileyðublað hafi þá verið útfyllt með útgáfudegi og gjalddaga og gert að fullgildum víxli í merkingu 1. og 2. gr. víxillaga nr. 93/1933, eins og nánar er lýst í héraðsdómi.

Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur skýrt málsástæðu sína um umboðsskort stefnda þannig að báðir leigusalarnir hafi þurft að standa sameiginlega að því að gera skjalið að fullgildum víxli og innheimta hann. Vísa þeir um það til 10. gr. víxillaga og dóms Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 979. Varðandi þessa málsástæðu er þess að gæta að stefndi og Jón Bakan ehf. veittu viðtöku umræddu víxilskjali frá áfrýjandanum Árna vegna lögskipta þeirra. Verður hvorum leigusalanum talið heimilt að neyta þess réttar til að fylla út og innheimta víxilinn, sem leigusamningurinn veitir þeim, enda er sá réttur ekki takmarkaður í samningnum með þeim hætti að báðir verði að eiga hlut að því. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendur skulu greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Steinunn Friðriksdóttir, Árni Frímann Jónsson og Guðný R. Jónsdóttir greiði óskipt stefnda, Bónusvídeó ehf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2000.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 9. maí sl., er höfðað með stefnum birtum 22. september 1999, 5. janúar og 9. febrúar sl. 

Stefnandi er Bónusvídeó ehf., kt. 621292-3159, Lágmúla 7, Reykjavík.

Stefndu eru Steinunn Friðriksdóttir, kt. 100134-3229, Guðrúnargötu 9, Reykja­vík, Árni Frímann Jónsson, kt. 060855-3239, Álftamýri 31, Reykjavík og Guðný R. Jóns­dóttir, Æsustöðum 2, Mosfellsbæ.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmd óskipt til að greiða honum skuld að fjárhæð 1.350.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxta­laga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.

II

Stefnandi kveður skuldina vera samkvæmt víxli að fjárhæð 1.350.000 krónur, sem sé útgefinn 1. júlí 1999 af stefndu, Steinunni, og samþykktur til greiðslu 1. ágúst 1999 af stefnda, Árna Frímanni.  Víxillinn beri áritun um að vera tryggingarvíxill og sé án afsagnar.  Hann sé ábektur af stefndu, Guðnýju.  Greiðslustaður víxilsins var í Íslands­banka hf. í Kópavogi.

Stefnandi rekur málið á grundvelli 17. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og vísar auk þess til ákvæða víxillaga nr. 93/1933.

III

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á umboðsskorti stefnanda.  Benda þau á að um sé að ræða tryggingarvíxil og telja að misfarið hafi verið með víxil, sem í fyrstu hafi verið afhentur tilteknu hlutafélagi til tryggingar.  Hafi átt að skila víxlinum aftur, er annar víxill hafi verið afhentur til tryggingar húsaleigu.   Stefndu kveðast koma þessari málsástæðu að á grundvelli 10. gr. víxillaga.

Stefndu byggja á því að samkomulag hafi verið gert á milli stefnda, Árna Frímanns, og hlutafélagsins um það hvernig víxillinn skyldi útfylltur. 

Byggja stefndu sýknukröfu á því að víxillinn hafi verið útfylltur á óheimilan hátt og eins á því að samningnum, sem lá til grundvallar afhendingu víxilsins á sínum tíma, hafi verið sagt upp.  Útfylling víxilsins skapi því engan rétt til stefnanda.  Stefn­andi sé ekki löglega að víxlinum kominn og ekki grandlaus um upphaflega afhendingu hans þar sem stefnandi sé einnig eigandi þessa hlutafélags.

Þá byggja stefndu einnig á því að víxillinn hafi ekki verið vistaður á greiðslustað á gjalddaga.  Hafi stefnandi því samkvæmt 1. mgr. 53. gr. víxillaga glatað kröfu á hendur stefndu.  Stefndu benda á að engar tilkynningar hafi borist frá Íslandsbanka í Kópa­vogi um að víxillinn hafi verið til greiðslu þar 1. ágúst sl. og engin skjöl hafi verið lögð fram í málinu sem sanni þetta.

Stefnda, Steinunn, byggir einnig á því að hún hafi aðeins gefið víxilinn út en ekki fram­selt hann eins og fram komi í stefnu.  Stefnda bendir á að það sé eingöngu fram­sal útgefanda sem skapi víxilrétt til handhafa víxilsins.

IV

Stefnandi hefur lagt fram víxilinn og hefur honum verið lýst hér að framan.  Hann er í lögmæltu formi, sbr. 1. gr. víxillaga nr. 93/1993.

Stefndu byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að víxillinn hafi ekki verið út­fyllt­ur eins og um hafi verið samið.  Engin sönnunargögn hafa verið lögð fram til stuðn­ings þessari staðhæfingu og það sama á við um þá málsástæðu að misfarið hafi verið með víxilinn.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að víxillinn hafi ekki verið vistaður á greiðslustað á gjalddaga og engar tilkynningar hafi borist til þeirra frá bankanum um að víxillinn hafi verið þar til greiðslu 1. ágúst 1999.  Meðal gagna málsins er vottorð Íslandsbanka hf. í Kópavogi um að víxillinn hafi verið vistaður þar á gjalddaga og tilkynningar sendar út eins og tíðkanlegt sé.  Þessari málsástæðu stefndu er því hafnað.

Loks byggir stefnda, Steinunn, á því að hún hafi aðeins gefið víxilinn út en ekki fram­selt hann.  Þetta er ekki rétt.  Víxillinn ber með sér að stefnda hafi bæði gefið hann út og framselt.

Samkvæmt öllu framansögðu er sýknukröfu stefndu hafnað og verða kröfur stefn­anda teknar til greina og stefndu dæmd óskipt til að greiða honum stefnufjárhæðina með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði og 250.000 krónur í málskostnað.

Upphaflega var mál þetta höfðað á hendur öllum stefndu með stefnu, er þingfest var 5. október 1999.  Þá hafði ekki tekist að birta þeim Árna Frímanni Jónssyni og Guðnýju R. Jónsdóttur stefnuna og var því fallið frá kröfum á hendur þeim við þing­fest­inguna.  Mál var höfðað að nýju á hendur þeim og það mál sameinað fyrra málinu 7. apríl sl.  Hafa málin síðan verið rekin sem eitt mál undir númeri fyrra málsins.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndu, Steinunn Friðriksdóttir, Árni Frímann Jónsson og Guðný R. Jónsdóttir, greiði óskipt stefnanda, Bónusvídeó ehf., 1.350.000 krónur ásamt dráttarvöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 1999 til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.