Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2009


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Framsal kröfu
  • Vanreifun
  • Málsástæða
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 11. febrúar 2010.

Nr. 321/2009.

Veisluþjónustan Bonne Femme ehf.

(Jón Einar Jakobsson hrl.)

gegn

Þrístiklu ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Kaupsamningur. Framsal kröfu. Vanreifun. Málsástæður. Frávísun máls frá héraðsdómi.

V ehf. krafðist þess að Þ ehf. yrði dæmt til að greiða félaginu tæplega sjötíu milljónir króna með vöxtum. Byggði V ehf. kröfu sína á því að Þ ehf. hefði ekki innt af hendi skyldu samkvæmt kaupsamningi milli M ehf. og Þ ehf. Talið var að stefna í héraði uppfyllti ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað þar sem meðal annars væri ekki unnt að fá heildstætt yfirlit um atvik máls og þær málsástæður sem kröfur væru reistar á. Þessir ágallar á málatilbúnaði í héraði veittu Þ ehf. ekki færi á því að koma að þeim vörnum sem hann kynni að hafa átt kost á. Óhjákvæmilegt væri því að vísa málinu frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 20. apríl 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 10. júní sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 11. júní 2009. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 69.758.667 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. nóvember 2007 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Af skjölum málsins og málflutningi má ráða að atvik málsins séu einkum þau, að einkahlutafélagið Ármenn hafi átt nokkrar fasteignir og fasteignaréttindi í miðbæ Hveragerðis, sem seldar hafi verið Hraunprýði ehf. 30. desember 2005. Á árinu 2006 muni Miðhólar ehf. hafa keypt alla hluti í Hraunprýði ehf. og selt þá til stefnda með kaupsamningi 9. mars 2006. Efni kaupsamningsins er rakið að nokkru í hinum áfrýjaða dómi. Kaupverð hlutanna samkvæmt 2. gr. kaupsamningsins var 483.783.293 krónur, sem greiða skyldi með tvennum hætti. Annars vegar í peningum við undirritum samningsins 27.168.252 krónur og hins vegar með ,,yfirtöku á veðskuldum seljanda samkvæmt 4. gr.“ 456.615.041 króna. Í 4. gr. samningsins segir að á tilgreindum fasteignum Hraunprýði ehf. hvíli fjórar veðskuldir samkvæmt skuldabréfum útgefnum til handhafa 3. febrúar 2006 hvert um sig upphaflega að fjárhæð 100.000.000 krónur. Eftirstöðvar skulda samkvæmt bréfunum ásamt vöxtum eru síðar sagðar vera 402.831.748 krónur. Í þessari grein kaupsamningsins segir einnig svo: ,,Veðskuldir þessar eru ekki skuldir félagsins heldur skuldir seljanda, Miðhóla ehf., tilkomnar vegna kaupsamnings Miðhóla ehf. um hlutabréf í Hraunprýði ehf. samkvæmt kaupsamningi við ... 3. febrúar 2006. Veðskuldir þessar eru yfirteknar af kaupanda samkvæmt 2. gr. Skráður skuldari á veðskuldabréfunum er Hraunprýði ehf. ... Á fimmta, sjötta og sjöunda veðrétti framangreindra eigna munu hvíla veðskuldir samtals að upphaflegri fjárhæð kr. 115.000.000,- sem tryggðar verða með vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu marsmánaðar 2006 og með 7.6% ársvöxtum. Að því er varðar endurgreiðslu á skuld samkvæmt bréfunum verða skilmálar með sama hætti og endurgreiðsluskilmálar á veðskuldum er hvíla á 1. – 4. veðrétti. Lánsfjárhæð veðskuldabréfs þessa verður varið til uppgreiðslu á skuldum Hraunprýði ehf. samkvæmt 5. gr., kr. 66.216.707 en eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar telst greiðsla til seljanda, kr. 53.783.293,- og er sú fjárhæð tilgreind sem yfirtekin skuld frá seljanda, ásamt með framangreindum áhvílandi veðskuldum, sbr. 2. gr.“

Samkvæmt 8. gr. kaupsamningsins skyldi afhending hinna seldu hluta fara fram við undirritum kaupsamningsins gegn greiðslu á þeim hluta kaupverðsins er inna skyldi af hendi í peningum 27.168.252 krónur.

Áfrýjandi heldur því fram að skyldur stefnda samkvæmt framansögðu hafi verið að greiða síðastgreinda fjárhæð í peningum, að yfirtaka áhvílandi fjórar veðskuldir upphaflega að fjárhæð 400.000.000 krónur, en uppreiknuð fjárhæð þeirra hafi verið 402.831.748 krónur, yfirtaka skuldabréf tryggt með veði í fasteignum og fasteignaréttindum Hraunprýði ehf. að fjárhæð 115.000.000 krónur, en af því áttu 66.216.707 krónur að ganga til greiðslu á skuldum Hraunprýði ehf. og koma þannig stefndu til góða. Afgangur skuldabréfsfjárhæðarinnar, 53.783.293 krónur, skyldi renna til seljanda, Miðhóla ehf.

Áfrýjandi kveður stefnda ekki hafa innt af hendi greiðslu þá sem honum hafi borið við undirritun kaupsamningsins. Það hafi ekki verið fyrr en 5. júlí 2006 en þá hafi stefndi gert skil með því að afhenda íbúð að Birkihólum 6, Selfossi, sem metin hafi verið á 29.000.000 krónur. Héraðsdómur sé ranglega á því reistur að þetta hafi falið í sér fullar efndir stefnda á kaupsamningnum sem að framan greinir. Áfrýjandi kveður þetta aðeins hafa verið efndir á þeirri greiðslu sem inna hafi átt af hendi við undirritun samningsins en ekki skuldbindinga sem fólust í yfirtöku eða útgáfu skuldabréfs að fjárhæð 115.000.000 krónur. Vegna dráttar á greiðslu útborgunar kveður áfrýjandi ekki hafa verið skipt um stjórn í Hraunprýði ehf. og hafi því fyrri stjórn gefið út fyrir hönd félagsins nefnt veðskuldabréf að fjárhæð 115.000.000 krónur. Það veðskuldabréf hafi á hinn bóginn ekki verið unnt að selja í banka. Hafi af þeirri ástæðu verið í stað þess gefin út mörg skuldabréf að lægri fjárhæðum og þau seld í banka eða framseld öðrum. Meðal þeirra veðskuldabréfa séu ellefu skuldabréf samtals að upphaflegum höfuðstól 55.000.000 krónur, sem hann meðal annars styðji málatilbúnað sinn við.

II

Meðal skjala málsins er yfirlýsing um framsal kröfu 24. júní 2007 en samkvæmt henni framselja Miðhólar ehf. til Fjárfestingafélagsins Orku ehf. kröfu á hendur Hraunprýði ehf. og stefnda samkvæmt kaupsamningi 9. mars 2006 um hluti framseljanda í Hraunprýði ehf. og samkvæmt veðskuldabréfum sem tilgreind eru í yfirlýsingunni ellefu talsins að upphaflegum höfuðstól 55.000.000 krónur. Í yfirlýsingunni segir að stefndi hafi tekið ábyrgð á greiðslu skulda samkvæmt bréfunum. Þá segir að framsalshafi, Fjárfestingafélagið Orka ehf., hafi lofað að leysa til sín greind veðskuldabréf ef vanskil yrðu á greiðslu þeirra ,,og eru þeim því framseldar allar kröfur samkvæmt ákvæðum sjálfra bréfanna og krafan á hendur Þrístiklu ehf. vegna ábyrgðarinnar í kaupsamningnum auk áfallinna vaxta og alls kostnaðar.“

Áfrýjandi kveður Fjárfestingafélagið Orku ehf. hafa þurft að leysa til sín öll umrædd skuldabréf og hefur lagt þau fram í málinu ásamt með gögnum sem hann telur sanna innlausnina. Hafi félagið því fullnægt skilyrðum áðurnefnds framsals og orðið kröfuhafi. Hafi það svo 30. apríl 2008, eftir að málið var höfðað í héraði, framselt áfrýjanda kröfuna, sem tekið hafi við aðild málsins.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kvaðst áfrýjandi leggja áherslu á að krafa hans væri reist á því að stefndi hefði í kaupsamningi 9. mars 2006 tekist á hendur skyldu til að greiða meðal annars 53.783.293 krónur með útgáfu veðskuldabréfa sem nú séu gjaldfallin og ógreidd. Ekkert hafi fengist greitt upp í kröfurnar samkvæmt skuldabréfunum þegar hinar veðsettu eignir hafi verið seldar nauðungarsölu. Málið sé því rekið til að knýja fram efndir á þessari skyldu stefnda samkvæmt kaupsamningnum.

III

Við þingfestingu málsins í héraði voru lögð fram auk stefnu skrifleg sókn, kaupsamningurinn 9. mars 2006, ellefu veðskuldabréf með skilagreinum, framsalsyfirlýsingin 24. júní 2007, kröfubréf og tvö skjöl með yfirlýsingum úr fyrirtækjaskrá.

Í stefnu til héraðsdóms var krafist 70.041.895 króna, auk dráttarvaxta frá 13. nóvember 2007, og sú fjárhæð sögð miðuð við innlausnarfjárhæð veðskuldabréfa á innlausnardegi, en fjárhæð eins skuldabréfsins er þó færð niður og segir að það sé gert í því skyni að höfuðstóll skuldabréfanna sé hinn sami og stefndi skuldabatt sig til að greiða samkvæmt kaupsamningi, 53.783.293 krónur. Áfrýjandi hefur fyrir Hæstarétti lækkað kröfu sína og kveður hann að um leiðréttingu vegna vaxta sé að ræða. Stefnufjárhæðin er útlistuð tölulega í stefnu til héraðsdóms.

Í héraðsstefnu er málsástæðum og öðrum atvikum, sem nauðsynlegt var að gera grein fyrir svo samhengi málsástæðna yrði ljóst, einungis lýst í fáum orðum. Ekki er unnt að fá heildstætt yfirlit um atvik málsins og þær málsástæður sem kröfur eru reistar á af stefnunni. Engin grein er gerð fyrir því með hvaða hætti sá hluti kaupverðs sem stefndi skyldi greiða í peningum samkvæmt kaupsamningi var greiddur og gögn um þá greiðslu ekki lögð fram við þingfestingu. Þá kemur ekki skýrlega fram í stefnu hvort málatilbúnaður sé reistur á því að stefnda beri að greiða skuldina samkvæmt veðskuldabréfunum ellefu, sem lögð voru fram, eða hvort um sé að ræða skyldu hans til að inna af hendi greiðslu samkvæmt kaupsamningi og að veðskuldabréfin séu sönnun um að skyldu þessari hafi ekki verið fullnægt. Þá skortir á að skýra efni veðskuldabréfanna, að því leyti sem nauðsynlegt er, einkum hvers vegna fyrirsvarsmenn Miðhóla ehf., sem sátu í stjórn Hraunprýði ehf., hafi gefið út skuldabréfin fyrir hönd síðarnefnda félagsins en ekki fyrirsvarsmenn stefndu og hvers vegna stefndi hafi ekki áritað skuldabréfin um ábyrgð sína á þeim. Var þetta brýnt þar sem í 2. gr. kaupsamningsins er miðað við að stefndi yfirtæki ,,áhvílandi veðskuldir seljanda samkvæmt 4. gr.“ Þá skortir einnig að gerð sé grein fyrir því hvers vegna kröfur samkvæmt veðskuldabréfunum séu með öllu ógreiddar, upplýsingar um nauðungarsölu hinna veðsettu eigna og skýringar á að ekki hafi fengist greiðslur af söluverði þeirra.

Stefna í héraði uppfyllti því ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Þessir ágallar á málatilbúnaði í héraði voru til þess fallnir að valda því að stefndi gæti ekki komið að þeim vörnum sem hann kann að hafa átt kost á. Verður málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Áfrýjandi, Veisluþjónustan Bonne Femme ehf., greiði stefnda, Þrístiklu ehf., málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2009.

Mál þetta var höfðað 11. apríl 2008 og dómtekið 18. f.m.

Stefnandi var Fjárfestingafélagið Orka ehf., Hjallabraut 32, Hafnarfirði.  Í þinghaldi 18. f.m. var lagt fram kröfuframsal stefnanda, þ.e. framsal hans á dómkröfum í málinu til Veisluþjónustunnar Bonne Femme ehf., Hamraborg 20A, Kópavogi svo og yfirlýsing um að framsalshafi tæki við aðild að máli þessu í því horfi sem það þá var.  Veisluþjónustan Bonne Femme ehf. verður hér eftir auðkennd sem stefnandi.

Stefndi er Þrístikla ehf., Síðumúla 1, Reykjavík

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum að viðlagðri aðför 70.041.895 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. nóvember 2007 svo og málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

Mál þetta á upphaf sitt í kaupsamningi, dags. 9. mars 2006, þar sem Miðhólar ehf., kt. 600300-2020, seldu stefnda “alla hluti seljanda í einkahlutafélaginu Hraunprýði ehf., kt. 700805-2630” eins og segir í 1. gr. samningsins.  Hlutaféð var að nafnvirði kr. 500.000.  Eignir félagsins eru þannig taldar upp í 3. gr. samningsins:  “a) Sunnumörk 1, Hveragerði, landnr. 179178  b) Grænumörk 1a, Hveragerði (Sunnumörk 3), landnr. 171207,  c) Austurmörk 24, Hveragerði, landnr. 171019,  d)  Byggingarréttur samkvæmt samningi við Hveragerðisbæ, dags. 24. október 2005.   Um lóðarleigusamning er vísað til þinglýsts skjals nr. 433-A-000H52/1999 en um er að ræða iðnaðar- og athafnalóð í eigu Hveragerðisbæjar.”

Af efni annarra ákvæða kaupsamningsins skal eftirfarandi tilgreint:

Í 4. gr. eru taldar upp veðskuldir, samtals að höfuðstól 400.000.000 króna sem hvíla á 1.-4. veðréttum framangreindra fasteigna samkvæmt veðskuldabréfum útgefnum 3. febrúar 2006.  Frekari veðsetningum er síðan lýst:  „Á fimmta, sjötta og sjöunda veðrétti framangreindra eigna munu  hvíla veðskuldir samtals að upphaflegri fjárhæð kr. 115.000.000 . . . Lánsfjárhæð veðskuldabréfs þessa verður varið til uppgreiðslu á skuldum Hraunprýði ehf. samkvæmt 5. gr., kr. 66.216.707 en eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar telst greiðsla til seljanda, kr. 53.783.293, og er sú fjárhæð tilgreind sem yfirtekin skuld frá seljanda, ásamt með framangreindum áhvílandi veðskuldum, sbr. 2. gr.“

Í 5. gr. segir:  „Í efnahagsreikningi Hraunprýði ehf. pr. 31. desember 2005 eru framangreindar eignir, skv. 3. gr. ásamt öllu því sem þeim fylgir og fylgja ber, metnar á kr. 66.000.000.  Í skuldahlið þess efnahagsreiknings eru tilgreindar skuldir við Ármenn ehf. að fjárhæð kr. 23.716.707 og Hveragerðisbæ kr. 42.500.000.  Skuldir þessar verða greiddar upp með lánsfjárhæð skuldabréfs sem tilgreint er í 4. gr.  Kaupverð hluta samkvæmt 2. gr. tekur mið af eiginfjárstöðu þeirri er fram mun koma í efnahagsreikningi pr. 9. mars 2006 sem lagður verður fram af seljendum sbr. 3. gr. en þó þannig að eignir félagsins skal meta að verðmæti kr. 550.000.000 og er þar um að ræða framangreindar fasteignir og fasteignaréttindi skv. 3. gr. auk annarra eigna félagsins.  Skuldir samkvæmt þeim efnahagsreikningi verða kr. 66.216.707.“

Efni 6. gr. kaupsamningsins er svohljóðandi:  „Við kaupsamninginn liggur frammi skýrsla um nýjan miðbæjarkjarna í Hveragerði en skýrslan er lögð fram af seljanda.  Í skýrslunni er lýst byggingarétti í eigu Hraunprýði ehf. og tillögum Hveragerðisbæjar að aðalskipulagi 2005-2017, íbúaþróun í Hveragerði.  Einnig liggur frammi bréf skipulags- og bygginganefndar Hveragerðisbæjar, dags. 5. október 2005, teikningar frá Verkfræðistofu Suðurlands o.fl.  Samkomulag er við Hveragerðisbæ frá 24. október 2005 um byggingarétt á framangreindum lóðum sem leigðar eru af Hraunprýði ehf.“

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar 5. október 2005 var lagt fram bréf frá Ármönnum ehf. varðandi lóðirnar Austurmörk 24 og Sunnumörk 3.  Ákveðið var að leggja til að í tillögu að aðalskipulagi Hvergerðis 2005-2017 yrði boðuð blanda af íbúðar- og miðsvæði á umræddum lóðum, nýtingarhlutfall yrði á bilinu 1,0-1,7 án tillits til bílakjallara og fjöldi hæða allt að fjórum.

Með samningi 24. október 2005 seldi Hveragerðisbær Ármönnum ehf. byggingarétt að lóð nr. 24 við Austurmörk í Hveragerði.

Hinn 2. nóvember 2005 framseldi Ármenn ehf. Hraunprýði ehf. lóðirnar Austurmörk 24, Sunnumörk 1 og Grænamörk 1 a (Sunnumörk 3), allar í Hveragerði, svo og byggingarrétt sem um eina heild væri að ræða.

Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 15. desember 2005 var samþykkt framsal Ármanna ehf. til Hraunprýði ehf. á lóðum sem þeir höfðu keypt í Hveragerði.

Í skýrslu RE/MAX fasteignasölunnar Búa, sem lá frammi við kaupsamningsgerðina, segir:  „Um er að ræða byggingarétt á rúmum 30.000 ferm. í miðbæ Hveragerði, gegnt Eden.  Byggingasvæðið eru þrjár samliggjandi lóðir, Austurmörk 24 (Tívolílóðin), Sunnumörk 1 og Sunnumörk 3.  Þessar lóðir eru allar í eigu Hraunprýði ehf. og hefur það félag umráð og byggingarétt á lóðunum. . . . Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt að á umræddum byggingareit skuli rísa allt að 4ja (svo) hæða fjölbýlishús.  Bæjaryfirvöld hafa einnig samþykkt nýtingarhlutfall upp á 1.7 sem gerir byggingarétt upp á 30.000 ferm. en þessar 3 lóðir eru samtals 18.000 ferm. að stærð.“

Í framlögðu bréfi skipulags- og byggingarfulltrúans í Hveragerði, dags. 21. janúar 2009, er svarað neitandi eftirfarandi spurningum lögmanns stefnda um skipulag á reitnum „Í 14“ (Sunnumörk 1., Sunnumörk 3 (áður Grænamörk 1 a) og Austurmörk 24 í Hveragerði:  „Liggur fyrir í aðalskipulagi Hveragerðis eða annars staðar samþykkt um hvert megi vera nýtingarhlutfall í reit sem merktur er Í 14 í aðalskipulagi?“  Hefur verið samþykkt deiliskipulag fyrir reit merktan Í 14 í aðalskipulagi Hveragerðis?“

Kröfugerð stefnanda grundvallast á ellefu veðskuldabréfum, samtals að upphæð 55.000.000 króna, útgefnum 21. mars og 28. mars 2006.  Lóðirnar Sunnumörk 1 og Grænamörk 1c í Hveragerði voru veðsettar á 5. og 6. veðréttum.  Skuldari, samkvæmt bréfunum, er Hraunprýði ehf.   Kristján Sverrisson er kröfuhafi tveggja bréfanna en hann framseldi annað þeirra í mars 2006 til Rúnars Þ. Grímssonar sem er tilgreindur kröfuhafi þriggja bréfa og kröfuhafi sex bréfa er tilgreindur handhafi.  Fimm þessara bréfa bera áritun um að Rúnar Þ. Grímsson hafi framselt þau Landsbanka Íslands hf. í mars 2007 með sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt ákvæðum þeirra og eitt þeirra hefur samsvarandi ákvæði um framsal Kristjáns Sverrissonar í mars 2006.  Hinn 24. júní 2007 framseldi Miðhólar ehf. Fjárfestingarfélaginu Orku ehf. kröfu sína á hendur Hraunprýði ehf. og stefnda í máli þessu samkvæmt framangreindum kaupsamningi og veðskuldabréfum.  Samkvæmt útprentun Fyrirtækjaskrár er Rúnar Þröstur Grímsson tilgreindur sem „bt. aðili“ Fjárfestingarfélagsins Orku ehf.  Framangreind veðskuldabréf liggja frammi ásamt skilagreinum um uppgreiðslur þeirra allra af hálfu Fjárfestingarfélagsins Orku ehf., í sex tilvikum til Landsbanka Íslands hf.

Hinar veðsettu eignir voru seldar nauðungarsölu 18. september 2007 og greiddist ekkert upp í kröfur samkvæmt veðbréfunum.

Í stefnu greinir frá því að hinn 20. nóvember 2007 hafi bréf að fjárhæð 55.000.000 króna verið framseld Fjárfestingarfélaginu orku ehf. sem hafi greitt þau og leyst til sín 13. s.m.  Krafa stefnanda miðist við innlausnarfjárhæð höfuðstólsfjárhæðarinnar 53.783.293 krónur sem stefndi hafi tekið að sér með kaupsamningnum að greiða seljanda auk áfallinna verðbóta, samningsvaxta, kostnaðar og dráttarvaxta á innlausnardegi 13. nóvember 2007, samtals 70.041.895 krónur.  Tekið er fram að af 2.500.000 króna nafnverði eins hinna innleystu veðskuldabréfa sé stefnt fyrir höfuðstólsfjárhæðinni 1.283.293 krónur og fáist þannig heildarhöfuðstólsfjárhæðin 53.783.293 krónur.

Hinn 11. desember 2007 sendi lögmaður Miðhóla ehf. stefnda kröfubréf og krafðist greiðslu samkvæmt 2. gr. umrædds kaupsamnings, 27.168.252 króna, og samkvæmt 2. gr. og 4. gr. hans, 115.000.000 króna, auk verðbóta, vaxta og innheimtuþóknunar; samtals 205.302.762 krónur. 

                Fjárhæð dómkröfu stefnanda er þannig skilgreind og sundurliðuð í stefnu:

Upphfl kröfuh

Bréf nr.

Útgd. 2006

Frams 2007

Innl 2007

Nafnverð

Verðbæt

Samnvxt

Drvxt 13/11 07

Banka

Innleyst  fjárhæð

Kristján  Sverriss

1/6

21.03.

20.11.

13.11.

10.000.000

1.079.859

1.311.584

412.606

11.345

12.815.394

Rúnar Þ Grímss

5/6

21.03.

20.11.

13.11.

5.000.000

539.930

655.792

206.303

11.345

6.413.370

Kristján  Sverriss

6/6

21.03.

20.11.

13.11.

5.000.000

539.930

655.792

206.303

11.345

6.413.370

handhafi

4/26

28.03.

20.11.

13.11.

2.500.000

269.965

323.493

102.564

11.345

3.207.367

handhafi

5/26

28.03.

20.11.

13.11.

2.500.000

269.965

323.493

102.564

11.345

3.207.367

handhafi

13/26

28.03.

20.11.

13.11.

2.500.000

269.965

323.493

102.564

11.345

3.207.367

27.500.000

2.969.614

3.593.647

1.132.904

68.070

35.264.235

Rúnar Þ Grímss

3/6

21.03.

20.11.

13.11.

10.000.000

769.539

909.428

1.557.196

13.236.162

Rúnar Þ Grímss

4/6

21.03.

20.11.

13.11.

10.000.000

769.539

909.428

1.557.196

13.236.162

handhafi

6/26

28.03.

20.11.

13.11.

2.500.000

192.385

223.378

388.768

3.304.531

handhafi

7/26

28.03.

20.11.

13.11.

2.500.000

192.385

223.378

388.768

3.304.531

handhafi

8/26

28.03.

20.11.

13.11.

1.283.293

98.754

114.664

199.562

1.696.273

26.283.293

2.022.602

2.380.276

4.091.489

0

34.777.660

Samtals

53.783.293

4.992.216

5.973.923

5.224.393

68.070

70.041.895

Stefnandi kveður kröfu sína hvorki hafa greiðst af stefnda né Hraunprýði ehf. þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé honum því nauðsyn á að höfða mál þetta.  Af hálfu stefnanda er vísað til samningalaga nr. 7/1936, samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, sbr. VI. og VII. kap. Laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, veðlaga nr. 75/1997 svo og dómvenju og lagaframkvæmdar.  Til hliðsjónar er vísað til laga um fasteignakaup nr. 40/2002, m.a. 49. gr., 50. gr. og 61. gr.

Upphafleg aðalkrafa stefnda, sem hann féll síðan frá, var um frávísun málsins vegna vanreifunar.  Hann reisir sýknukröfu m.a. á því að málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður að því er tekur til kröfugerðar og gagna sem liggja henni til grundvallar.

Sýknukrafa stefnda byggist á aðildarskorti, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Hann sé ekki skuldari eða ábyrgðaraðili þeirra veðskuldabréfa, sem um ræðir í málinu, og hann standi ekki í skuld við Miðhóla ehf. eða stefnanda.  Kaupverð hinna seldu hluta í Hraunprýði ehf., 27.168.252 krónur, hafi verið greitt að fullu.  Fyrir augljós mistök hafi kaupverðið einnig verið tilgreint sem 456.615.043 króna skuld hins selda félags en ætlun aðila hafi einungis verið að gera grein fyrir skuldunum.  Ákvæðið sé óskuldbindandi og veri að víkja því til hliðar, sbr. 32. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936.

Stefndi vísar til þess að upplýsingar Miðhóla ehf. um stærð lóða og byggingarrétt hafi verið rangar.  Forsenda fyrir kaupum og kaupverði hafi verið að heimilt væri að byggja 30.000 fermetra á lóðunum.  Eftir kaupin hafi orðið ljóst að lóðir Hraunprýði voru 17.637 fermetrar og að Hveragerðisbær hafi ekki samþykkt nýtingarhlutfallið 1,7 við byggingu húsa á lóðunum.  Þegar hafi verið kvartað yfir þessu.  Þar sem byggingarmagn hafi aðeins verið 79% af umsömdu byggingarmagni hafi verðmæti þau, sem tilheyrðu Hraunprýði ehf.  við sölu hluta í félaginu til stefnda, aðeins numið 79% af því sem stefndi ætlaði og Miðhólar ehf. ábyrgðist.  Af þeim sökum eigi stefndi skaðabótakröfu að upphæð a.m.k. 101.594.491 króna.  Sú krafa sé hærri en  krafa stefnanda sem teljist því að fullu greidd með skuldajöfnuði. 

Stefndi áréttar að hann hafi ekki tekist á hendur ábyrgð á greiðslu framlagðra skuldabréfa og leggur áherslu á að þau hafi verið gefin út ellefu dögum eftir undirritun kaupsamnings.  Hefði ætlun aðila verið að stefndi ábyrgðist skuldabréfin gagnvart Miðhólum ehf. hefði legið beinast við að hann áritaði þau um ábyrgð en það hafi ekki verið gert.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á samkomulagi stefnda og Miðhóla, dags. 5. júlí 2006.

Tilvitnað samkomulag er yfirlýsing sem var undirrituð af sölufulltrúa RE/MAX Búa auk fyrirsvarsmanna Miðhóla ehf. og stefnda sem staðfesta að  seljandi og kaupandi Hraunprýði ehf. hafi gert með sér eftirfarandi samkomulag:

Þrístikla ehf. afhendir Miðhólum eina íbúð að Birkihólum 6 sem lokagreiðslu fyrir kaup Þrístiklu á Hraunprýði.  Íbúðin, sem er ca. 172 fm. skilast tilbúin til málningarvinnu, bílastæði hellulagt og annað grófjafnað.  Aðilar hafa  kynnt sér skilalýsingu og stöðu framkvæmda og sætta sig við það.

Stallar ehf. (kt. . . .) sjá um framkvæmdir fyrir Þrístiklu ehf.  Íbúðinni er skilað veðbandalausri í september 2006.  Íbúðin er metin á kr. 29.000.000 tuttugu og níu milljónir í samkomulagi þessu.“

Niðurstaða dómsins er sú að þegar á grundvelli efnis samkomulags þessa, sem er skýrt og ótvírætt og án nokkurs fyrirvara, beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  Dæma ber stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 1.000.000 króna.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

   Stefndi, Þrístikla ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Veisluþjónustunnar Bonne Femme ehf.

   Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.