Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/2006


Lykilorð

  • Samvinnufélag
  • Félagssamþykktir


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2006.

Nr. 340/2006.

Sigurbjörn Hjaltason

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

MS svf.

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Samvinnufélög. Félagssamþykktir.

S stundaði mjólkurbúskap frá 1983 til 2001 og var félagsmaður í samvinnufélaginu M. Um svipað leyti og S hætti mjólkurframleiðslu var lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög breytt þannig að samvinnufélögum var heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila innan ákveðins tíma. Á aðalfundi M í mars 2002 var 11. gr. samþykkta félagsins, þar sem fjallað var um séreignarsjóð innan þess, breytt þannig að kveðið var á um að greiða skyldi þeim sem hætti framleiðslu hlutdeild hans í sjóðnum eigi síðar en 1. júlí á því ári sem á eftir færi. Jafnframt var samþykkt að fella á brott ákvæði um að inneign í séreignarsjóði félli til M tíu árum eftir að félagsaðild lyki, hefði greiðslu ekki verið krafist. Loks var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að eigi síðar en 1. júlí 2002 skuli greiða þeim sem hætt hefði framleiðslu á árinu 2001 eða fyrr að fullu hlutdeild hans í sjóðnum. M sendi S í júní 2002 bréf með tékka sem svaraði til inneignar hans í séreignarsjóðnum í árslok 2001. S endursendi tékkann og taldi sér óskylt að sæta því að inneign hans yrði greidd út, meðal annars vegna þess að framangreind breyting á samþykktum M hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagsskrár. S hafnaði jafnframt viðtöku greiðslu í kjölfar bréfs M í ágúst 2002 og var ekki gerður reki að því að greiða honum féð fyrr en með geymslugreiðslu í ágúst 2006. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 öðlist breyting á samþykktum samvinnufélags ekki gildi fyrr en hún hafi verið tilkynnt til samvinnufélagsskrár og skráð þar. Þegar M sendi S andvirði inneignar hans í séreignarsjóðnum hafði breytingin ekki öðlast gildi og stóð því ekki heimild til þessarar ráðstöfunar gegn vilja S. Var talið að S hefði með réttu mátt neita að taka við greiðslunni og endursenda hana, en eftir það hefði hann ekkert gert sem skýra mætti sem samþykki við umræddri ráðstöfun og því áfram átt inneign sína í séreignarsjóði félagsins. Vísað var til þess að í tillögu aðalfundar M um framkvæmd sértæks endurmats segði meðal annars að ,,fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur“ og hafi hún því tekið til S sem annarra, sem áttu inneign á slíkum reikningum. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á aðalkröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. júní 2006. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.571.276 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 6. desember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi greiðslu á 227.725 krónum með almennum vöxtum eins og í aðalkröfu frá 1. júlí 2002 til 6. desember 2005 og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Hann hefur lagt fyrir Hæstarétt skjöl til staðfestingar á því að 15. ágúst 2006 greiddi hann í Landsbanka Íslands hf. 354.837 krónur inn á reikning á nafni áfrýjanda samkvæmt ákvæðum laga nr. 9/1978 um geymslufé. Stefndi kveður greiðsluna vera í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með áföllnum vöxtum til 14. ágúst 2006 og því krefjist hann nú sýknu.

I.

Áfrýjandi stundaði mjólkurbúskap á Kiðafelli í Kjós frá 1983 til 2001. Hann var jafnframt félagsmaður í Mjólkursamsölunni í Reykjavík, sem var samvinnufélag. Á árinu 2005 sameinaðist það félag Mjólkurbúi Flóamanna, sem tók við öllum eignum þess og skuldum, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Er nafn hins sameinaða félags nú MS svf.

Á árinu 1994 var samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík breytt meðal annars á þann veg að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þeirra skyldi komið á fót séreignarsjóði innan félagsins. Var nánar kveðið á um greiðslur í sjóðinn. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skyldu framlög í sjóðinn færð á sérstakan reikning hvers mjólkurframleiðanda og jafnframt haldin skrá sem sýndi hlutdeild hvers þeirra í sjóðnum í lok hvers reikningsárs. Í 3. mgr. 11. gr. sagði síðan að inneign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf. Skyldi hann eða erfingjar hans óska skriflega eftir útborgun á séreign sinni, en stjórn félagsins væri heimilt að fresta útborgun eftir það í eitt ár. Í 4. mgr. sagði síðan: „Inneign í séreignarsjóði fellur til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“

Áfrýjandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001. Um líkt leyti tóku gildi lög nr. 22/2001 um breytingu á lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Með þessum breytingum bættust við 38. gr. síðarnefndu laganna fjórar nýjar málsgreinar varðandi séreignarhluti félagsmanna í stofnsjóði samvinnufélags, auk þess sem tekið var upp ákvæði II til bráðabirgða við lögin, þar sem mælt var fyrir um svokallað sértækt endurmat. Sagði þar að samvinnufélagi væri heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2004. Endurmatið skyldi byggt á verðmæti hreinnar eignar félags í árslok 1996 eins og nánar var skýrt í ákvæðinu.

Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 8. mars 2002 var samþykkt samhljóða með atkvæðum 17 af 21 fulltrúa á fundinum að breyta 11. gr. samþykkta félagsins. Eftir breytinguna hljóðaði 3. mgr. 11. gr. þannig: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem á eftir fer.“ Jafnframt var samþykkt að 4. mgr. 11. gr. félli brott. Loks var samþykkt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að eigi síðar en 1. júlí 2002 skyldi greiða þeim framleiðendum, sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr, að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði.

Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi áfrýjanda bréf, sem tímasett var „í júní 2002“, og fylgdi því tékki að fjárhæð 227.725 krónur. Kom þar fram að fjárhæðin svaraði til inneignar áfrýjanda í séreignarsjóði í árslok 2001 og væri hún send honum í samræmi við framangreindar breytingar á samþykktum félagsins. Áfrýjandi endursendi tékkann með bréfi 31. júlí 2002. Í héraðsdómi er nánar greint frá efni þessara bréfa og annarra sem fóru á milli hinna sömu í kjölfarið.

Stjórn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík lagði til við aðalfund félagsins 19. mars 2004 að framangreind lagaheimild um sértækt endurmat yrði nýtt. Var samþykkt svofelld tillaga: „Aðalfundur Mjólkursamsölunnar ... samþykkir að kr. 548.908.188,- verði færðar af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins með fyrirvara um samþykki skattstjóra. Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inn mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni.“

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að ákvörðun aðalfundar 8. mars 2002 um breytingu á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafi verið ólögmæt. Hann hafi átt rétt á því að eiga áfram inneign sína í séreignarsjóði í 10 ár eftir að hann hætti mjólkurframleiðslu, en um það vísar hann meðal annars til 15. gr., 18. gr., 37. gr. og 38. gr. laga nr. 22/1991 með áorðnum breytingum. Þann rétt hafi hann átt sem félagsmaður í félaginu, en óháð því hvernig 15. gr. laganna yrði skýrð hafi hann átt rétt á að vera áfram séreignarsjóðseigandi samkvæmt 37. gr. og 38. gr. Kveður hann ákvörðunina hafa verið ólögmæta bæði af forms- og efnisástæðum, en um það vísar hann einkum til 2. mgr. 70. gr., 1. mgr. 71. gr. og 72. gr. laganna. Telur hann ljóst að breytingin á samþykktunum 2002 hafi verið liður í að undirbúa það að nýta lagaheimildina um sértækt endurmat á séreignarhlutum með því að fækka áður séreignarreikningum í félaginu svo um munaði. Aðgerðin hafi í samræmi við það leitt til þess að félagsmönnum, sem áttu inneign í séreignarsjóði, hafi fækkað úr 1346 í upphafi árs 2002 í 769 í lok ársins. Fjöldi félagsmanna hafi hins vegar verið nokkuð stöðugur á tímabilinu frá 1995 til 2001, eða 1300 til 1400. Miklir hagsmunir hafi verið í húfi, en samkvæmt ársreikningi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 2003 var heildarfjárhæð á séreignarreikningum aðeins samtals 117.091.812 krónur, en óbundið fé á endurmatsreikningi nam 3.105.447.232 krónum. Við hið sértæka endurmat 2004 hafi verið teknar 548.904.901 króna af þessu óbundna fé og þær færðar á séreignarreikninga til hækkunar á inneign þeirra, sem þar voru eftir. Áfrýjandi kveðst hafa leitað til löggilts endurskoðanda um að reikna út hlutdeild sína í séreignarsjóði í árslok 2004 miðað við að inneign hans hefði ekki verið greidd út 2002. Fjárhæð aðalkröfu hans sé þannig fundin að miðað sé við stöðu séreignarsjóðs í árslok 2001, en hlutdeild áfrýjanda í honum hafi verið 0,22%. Við það bætist vextir vegna áranna 2002 til 2004, sem séu þeir sömu og lagst hafi á séreignarinneignir annarra félagsmanna. Því til viðbótar sé reiknað með að séreignarsjóðsinneign áfrýjanda njóti vegna hins sértæka endurmats hlutfallslega sömu hækkunar af fyrrnefndri 548.904.901 krónu.

Til stuðnings sýknukröfu vísar stefndi einkum til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 22/1991, en samkvæmt henni falli félagsaðild brott þegar aðili fullnægi ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um hana. Áfrýjandi hafi hætt mjólkurframleiðslu á árinu 2001, en samkvæmt samþykktum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík, sem þá voru í gildi, hafi maður þurft að vera mjólkurframleiðandi til að geta verið félagsmaður þar. Þegar áfrýjandi hætti að framleiða mjólk hafi hann því ekki lengur uppfyllt sett skilyrði. Þeir, sem hættu mjólkurframleiðslu, hafi því ekki getað verið félagsaðilar og hvorki notið þeirra réttinda né borið skyldur, sem félagsaðilar gerðu. Í samræmi við það hafi verið bæði rétt og skylt að greiða áfrýjanda út inneign hans í séreignarsjóði samkvæmt félagssamþykktum, eins og þeim hafði verið breytt á árinu 2002. Stefndi mótmælir því jafnframt að nefnd breyting á samþykktunum 2002 hafi staðið í tengslum við lagaheimild um sértækt endurmat, en engin ákvörðun hafi þá verið tekin um að nýta hana, heldur hafi það fyrst verið gert tveimur árum síðar. Málsástæður aðilanna eru að öðru leyti raktar í héraðsdómi, en ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfu áfrýjanda.

III.

Í áðurnefndu bréfi Mjólkursamsölunnar í Reykjavík til áfrýjanda í júní 2002 var vísað til breytinga, sem gerðar höfðu verið á samþykktum félagsins í mars á sama ári og áður var vikið að. Sagði þar að vegna þessara breytinga og með því að áfrýjandi væri ekki lengur mjólkurframleiðandi væri honum greidd út inneign hans í séreignarsjóði með hjálagðri ávísun. Áfrýjandi endursendi tékkann með bréfi 31. júlí 2002, svo sem áður er getið. Taldi hann sér óskylt að sæta því að inneign hans í séreignarsjóði yrði greidd út, meðal annars vegna þess að breytingin á samþykktunum hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagaskrár. Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi honum annað bréf 8. ágúst 2002, þar sem sagði meðal annars að úr þessu síðastgreinda hefði nú verið bætt. Í niðurlagi bréfsins var tekið fram að áfrýjandi gæti veitt fjárhæðinni viðtöku með fyrirvara ef hann vildi kanna málið nánar. Áfrýjandi hafnaði því boði. Ekki var gerður reki að því að greiða honum féð aftur fyrr en með geymslugreiðslu stefnda 15. ágúst 2006, sem fyrr var getið.

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 skal breyting á samþykktum samvinnufélags tilkynnt til samvinnufélagaskrár þegar í stað og öðlast breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð. Þegar Mjólkursamsalan í Reykjavík sendi áfrýjanda andvirði inneignar hans í séreignarsjóði hafði breytingin á samþykktunum ekki öðlast gildi. Stóð því engin heimild til þessarar ráðstöfunar gegn vilja áfrýjanda, enda verður 3. mgr., sbr. 4. mgr. 11. gr. eldri samþykkta félagsins ekki skýrð á þann veg að því hafi verið það heimilt. Áfrýjandi mátti þannig með réttu neita að taka við greiðslunni og endursenda hana. Eftir það gerði hann ekkert sem skýra mætti sem samþykki hans í reynd við heimildarlausri ráðstöfun Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Samkvæmt því átti áfrýjandi áfram inneign sína í séreignarsjóði félagsins.

Aðalfundur Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 19. mars 2004 ákvað að nýta lagaheimild um að framkvæma sértækt endurmat og greiða af óbundnu eigin fé inn á séreignarreikninga félagsmanna. Í tillögunni um þetta, sem samþykkt var, sagði meðal annars að „fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur“ og tók hún því beint til áfrýjanda sem annarra, sem áttu inneign á slíkum reikningum. Ber þegar af þeirri ástæðu að fallast á aðalkröfu hans í málinu, sem stefnda verður gert að greiða með vöxtum eins og krafist er að teknu tilliti til innborgunar 15. ágúst 2006.

Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð og verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, MS svf., greiði áfrýjanda, Sigurbirni Hjaltasyni, 1.571.276 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til 6. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 354.837 krónur miðað við 14. ágúst 2006.

Stefndi greiði samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 600.000 krónur

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2006.

Mál þetta, sem var dómtekið 21. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurbirni Hjaltasyni, Kiðafelli, Kjós á hendur MS svf. Austurvegi 65, Selfossi með stefnu birtri 5. desember  2005.

Dómkrafa stefnanda er aðallega að stefndi greiði honum  1.571.276 kr.  með almennum vöxtum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2005 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara er gerð krafa um greiðslu að fjárhæð 227.725 krónur með almennum vöxtum frá 1. júlí 2002 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. 

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkrafa stefnda er að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða því málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir.

Stefnandi máls þessa er bóndi og hefur stundað búrekstur að Kiðafelli í Kjós frá 1983. Hluti búrekstrar hans var mjólkurbúskapur og var hann af þeim sökum félagsaðili í stefnda. 

Stefndi er samvinnufélag. Með samrunasamningi sem samþykktur var á aðalfundum Mjólkursamsölunnar í Reykjavík og Mjólkurbús Flóamanna, 16. og 17. mars 2005, sameinuðust nefnd félög algjörlega á þann veg, að Mjólkurbú Flóamanna tók við öllum eignum og skuldum Mjólkursamsölunnar án skuldaskila í samræmi við ákvæði X. kafla laga nr. 22/1991 um samvinnufélög. Sameiningin var miðuð við 1. janúar 2005 og taldist Mjólkursamsölunni slitið þann dag. Á fulltrúaráðsfundi stefnda sem haldinn var 4. nóvember 2005 var nafni þess breytt í MS svf., sem er stefndi í máli þessu. Um stefnda gilda lög nr. 22/1991 með síðari breytingum. Þá starfar stefndi einnig eftir samþykktum sem gilda um félagið. Málið varðar einnig breytingar sem gerðar voru á samþykktum Mjólkursamsölunnar. 

Samkvæmt samþykktum Mjólkursamsölunnar, með áorðnum breytingum sem gerðar höfðu verið á aðalfundum 21. mars 1947, 23. apríl 1976, 1. nóvember 1994 og 17. mars 2000, var 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykktanna svohljóðandi. „Séreign hvers mjólkurframleiðanda fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Skal hann (eða erfingjar hans sé hann látinn) óska skriflega eftir útborgun á inneign sinni í séreignarsjóði. Stjórn Samsölunnar er heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana berst til stjórnar. -  Inneign í séreignarsjóði fellur til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar.“

Stefnandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001.  

Á aðalfundi mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 var 11. gr. breytt að tillögu stjórnar. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna hljóðaði svo eftir breytinguna:  „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunnar (sic) er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem eftir fer.“  Þá var  4. mgr. 11. gr. samþykktanna felld brott en eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða samþykkt:  „Í samræmi við 3. mgr. 11. gr. skal eigi síðar en 1. júlí 2002, greiða þeim framleiðendum að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, sem hætt hafa mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr.“

Í júní 2002 var stefnanda tilkynnt um að stjórn Mjólkursamsölunnar hefði ákveðið að greiða honum út inneign hans í séreignarsjóði og var vísað til 11. gr. samþykkta stefnda, sem samþykktar höfðu verið á aðalfundi 8. mars 2002. Stefnanda var send ávísun að fjárhæð 227.725 krónur.

Hinn 31. júlí 2002 mótmælti stefnandi útborguninni úr séreignarsjóðnum og taldi bæði form- og efnisgalla á breytingum á samþykktunum þannig að nýju ákvæðin giltu ekki. Þá ætti stefnandi rétt á hærri fjárhæð og breytingin hefði ekki verið tilkynnt til samvinnufélagaskrár. Þá endursendi stefnandi ávísun þá er hann hafði fengið frá stefnda. 

Hinn 8. ágúst 2002 hafnaði lögmaður stefnda athugasemdum stefnanda og tók fram, að stefnandi væri ekki lengur félagi í Mjólkursamsölunni þar sem hann væri ekki lengur mjólkurframleiðandi. Því var mótmælt að breytingarnar á 11. gr. samþykktanna væru ekki lögmætar. Auk þess var tekið fram, að stjórnin hefði ekki nýtt sér ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Þá kom fram að breytingar á 11. gr. samþykktanna hefðu, eftir að athugasemd stefnanda barst, verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár.

Hinn 14. október 2002 voru sjónarmið stefnanda ítrekuð, þ.m.t. um það að breyting á 11. gr. samþykktanna hefði ekki verið í samræmi við 71. gr. laga nr. 22/1991 og að eftirfarandi tilkynning á breytingunni til samvinnufélagaskrár breytti ekki eðli málsins. Þá var og óskað eftir afriti af ýmsum gögnum er tengdust ákveðnum þáttum málsins.

Hinn 28. október 2002 færði lögmaður Mjólkursamsölunnar frekari rök fyrir sjónarmiðum stefnda og sendi umbeðin gögn.

Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 21. mars 2003 breyttist 3. mgr. 11. gr. samþykktanna á eftirfarandi hátt: „Séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði fellur til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu, en er að öðru leyti ekki kræf. Félagsréttindum halda aðilar, meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni, eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar.  Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt. Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði  eigi síðar en 1. júlí á því ári, sem á eftir fer.“  Á þessum sama aðalfundi kom fram tillaga frá fulltrúa Mjólkursamlags Kjalarnesþings á þá leið, að hækka séreignarsjóð framleiðenda í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum sem samþykkt voru á Alþingi 27. apríl 2001. Þessari tillögu var vísað til stjórnar Mjólkursamsölunnar.

Á aðalfundi stefnda, 19. mars 2004, tilkynnti stjórn félagsins að hún hefði ákveðið að nýta sér heimild til að auka við inneignir félagsaðila og látið semja sérfræðiskýrslu þar sem endurmat á séreignarhluta félagsaðila fór fram. Framangreint endurmat byggðist á heimild í II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög m.s.br. Í kjölfar þessarar ákvörðunar stjórnar voru 548.908.188 krónur færðar af endurmatsreikningi inn á séreignarsjóð til hlutfallslegrar hækkunar á inneign félagsaðila.

Hinn 21. mars 2005 benti stefnandi á, í bréfi til stefnda, að stjórnin hefði nýtt sér hina sérstöku heimild samkvæmt ofangreindu bráðabirgðaákvæði. Einnig var bent á að breytingin á 11. gr. samþykktanna hefði leitt til fækkunar félagsaðila. Þá var óskað frekari gagna.

Hinn 29. mars 2005 hafnaði stefndi því að nýting stjórnarinnar á bráðabirgða-ákvæðinu breytti stöðu málsins, einnig að breytingin á 11. gr. samþykktanna hefði leitt til fækkunar félagsaðila. 

Ekki urðu fleiri bréfaskipti milli málsaðila. Stefnandi sótti um gjafsókn í málinu og fékk hana og höfðaði í kjölfarið mál þetta. 

Málsástæður  og lagarök stefnanda.

1.Stefnandi byggir á því að breyting á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar hafi verið ólögmæt og sé því ekki skuldbindandi fyrir hann.

Stefnandi telur að sú breyting sem fólst í 11. gr. samþykktanna á aðalfundi 8. mars 2002 hafi ekki fullnægt áskilnaði 71. gr. laga nr. 22/1991 um  samvinnufélög. Þar sé mælt fyrir um að breyting á félagssamþykktum þurfi samþykki tveggja lögmætra félagsfunda í röð og stuðning eigi færri en 2/3 atkvæðisbærra félagsaðila ef í henni felst röskun á því réttarsambandi sem er á milli félagsaðila. Stefnandi telur að með breytingu á 11. gr. samþykktanna hafi falist röskun á réttarsambandi aðila en það hafi leitt til þess að samþykkja hafi þurft breytinguna á tveimur aðalfundum í röð. Sú breyting sem gerð var á 11. gr. samþykktanna var hins vegar eingöngu samþykkt á einum aðalfundi.

Hvað varðar röskun breytingarinnar á réttarsambandi aðila þá telur stefnandi að röskunin hafi falist í því að fyrir breytinguna hafi stefnandi getað geymt inneign sína í séreignarsjóði í allt að 10 ár, en eftir breytinguna hafi hvílt skylda á stjórninni að greiða honum út inneign hans í séreignarsjóði. Þessi breyting raskaði réttarsambandi félagsaðila vegna þess að því fleiri félagsaðilum sem stjórnin greiddi út inneign í séreignarsjóði því meira var til skiptanna úr séreignarsjóðnum til handa þeim félagsaðilum sem á eftir stóðu þegar stjórnin myndi nýta sér heimild samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög enda augljós tengsl á milli breytingarinnar á samþykktunum og þess að heimildin skv. bráðbirgðaákvæðinu var nýtt.

Að mati stefnanda leiddi sú breyting, sem varð á 11. gr. samþykktanna, til verulegrar fækkunar félagsaðila sem áttu inneign í séreignarsjóði. Samkvæmt ársskýrslum Mjólkursamsölunnar 1995-2004, þá var fækkunin eftirfarandi:

Árskýrslur einstakra rekstrarára

Fjöldi félagsaðila í upphafi árs

Fjöldi félagsaðila í lok árs

1995

1275

1326

1996

1326

1320

1997

1320

1342

1998

1342

1335

1999

1335

1382

2000

1382

1412

2001

1412

1346

2002

1346

769

2003

769

722

2004

722

709

Stefnandi upplýsir að það hafi verið með breytingu á samþykktunum 1. nóvember 1994 sem fyrst komu inn ákvæði um séreignarsjóði mjólkurframleiðanda, þ.e. 11. gr. eins og hún var fyrir umdeildar breytingar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði skyldi leggja í séreignarsjóð skv. 11. gr. samþykktanna framlag frá Mjólkursamsölunni vegna innlagðrar mjólkur framleiðenda á árunum 1985 til og með 1994.  Upphaflegt framlag í séreignarsjóðinn skv. bráðabirgðaákvæðinu að frádregnum sköttum nam 39.980.883 krónum  og skiptist á 1275 aðila.

Stefnandi tekur fram að fyrst við breytingu á samþykktunum í mars 2000 hafi verið tekið fram að Mjólkursamsalan væri samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda, en skv. eldri samþykktum hafði Mjólkursamsalan verið sölusamlag mjólkur-samlaganna á Suður- og Vesturlandi. En skv. ákvæði 11. gr. eldri samþykkta, þ.e. fyrir 1994 þá átti Mjólkursamsalan að greiða í sérstakan stofnsjóð samlagsfélaganna, sem stefnandi átti hlutdeild í sem félagsmaður í Mjólkursamlagi Kjalarness. Það var hins vegar aldrei greitt í þennan sjóð.

Fjöldi félaga í Mjólkursamsölunni var nokkuð stöðugur á tímabilinu 1995-2001 eða á milli 1300-1400.  Á tímabilinu 2002-2004 fækkaði hins vegar félögum sem áttu inneign í séreignarsjóði úr 1346 í ársbyrjun 2002 niður í 709 í árslok 2004. Ástæða þessarar gífurlegu fækkunar var breytingin á 11. gr. samþykktanna. Þegar aðilum hafði verið fækkað niður í 722 var séreignarsjóðurinn endurmetinn og  548.908.188 krónur færðar af endurmatsreikningi í séreignarsjóðinn til hækkunar á inneign þeirra sem þar voru. Stefnandi telur að þeir aðilar sem urðu af þessu endurmati hafi margir hverjir verið elstu félagsmennirnir enda höfðu þeir hætt mjólkurframleiðslu m.a. fyrir aldurs sakir. Þeir höfðu engu að síður lagt inn mjólk í marga áratugi og höfðu hagsmuni af því að séreign þeirra yrði endurmetin að teknu tilliti til hinnar gífurlegu eignaaukningar sem átt hafði sér stað.

Að teknu tilliti til þessa þá hafði sá möguleiki stefnanda, skv. eldri samþykktum, á að geyma inneign sína, sérstaka þýðingu fyrir hann m.a. vegna þess að stjórninni var heimilt fram til ársloka 2004 að leiðrétta verðmæti hins rýra séreignarsjóðs með því að færa fjármuni af endurmatsreikningi yfir í séreignarsjóðinn samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Þessi möguleiki á að geyma innistæðuna hafði líka þýðingu fyrir stefnanda ef Mjólkursamsalan hefði nýtt sér aðrar heimildir sem lögfestar voru með lögum nr. 22/2001 svo sem um að breyta samvinnufélagi í hlutafélag, sbr. 61. gr. laga nr. 22/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 22/2001 eða hækka séreignarhluti félagsaðila í stofnsjóði, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 22/1991, sbr. 3. gr. laga nr. 22/2001.

2.Stefnandi telur að þær breytingar sem gerðar hafi verið á 11. gr. samþykktanna, 8. mars 2002, hafi brotið gegn 72. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög.

Samkvæmt 72. gr. fyrrnefndra laga þá má félagsfundur ekki taka ákvörðun sem bersýnlega er fallin til þess að afla ákveðnum félagsaðilum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila eða félagsins.

Stefnandi máls þessa hafði mikla hagsmuni af því að fá að geyma inneign sína í séreignarsjóði eftir samþykkt laga nr. 22/2001 um breyting á lögum nr. 22/1991. Stefnandi hafði verið aðili að Mjólkursamsölunni allt frá 1983 þegar hann hóf mjólkurframleiðslu. Hann hafði frá þeim tíma lagt fjármuni til hennar, eins og svo margir aðrir mjólkurbændur og þannig stuðlað að framgangi hennar. Á þessum tíma höfðu eignir Mjólkursamsölunnar aukist verulega en vegna ákvæða laga nr. 22/1991 var stjórninni ekki heimilt að leyfa einstökum félagsaðilum að njóta þeirrar aukningar. Lög nr. 22/2001, sem breyttu lögum nr. 22/1991, veittu stjórninni þessa heimild.

Meginefni þeirra breytinga sem fólust í lögum nr. 22/2001 voru: Í fyrsta lagi að heimilað yrði að hækka séreignarhluti félagsaðila til þess að stofnsjóðir samvinnu-félags endurspegli betur eigið fé félags. Í öðru lagi var heimilað að breyta samvinnu-félagi í hlutafélag og í þriðja lagi var heimilað að láta framkvæma sértækt endurmat á eignum samvinnufélaga og í kjölfar þess að færa fjármuni af sérstökum endur-matsreikningi yfir á séreignarsjóð til hækkunar á inneign einstakra félagsaðila. Það hafði því sérstaka þýðingu fyrir stefnanda að mega geyma fjármuni sína inná séreignareikningi, a.m.k í þeirri von að hið sértæka endurmat færi fram fyrir árslok 2004 til hækkunar á inneign hans.

Stefnandi telur að sú breyting sem stjórn Mjólkursamsölunnar lagði til á 11. gr. samþykktanna komi í veg fyrir þetta. Afleiðingin var sú að inneign fjölmargra félagsaðila í séreignarsjóði var greidd út án þess að sú inneign hefði verið leiðrétt með sértæku endurmati samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991. Því meiri sem fækkun félagsaðila í séreignarsjóði varð þeim mun meira yrði til skiptanna þegar hið sértæka endurmat færi fram, m.ö.o. þá fengju þeir sem ættu inneign í séreignarsjóði, þegar endurmatið færi fram, meira en þeir hefðu fengið hefði 11. gr. samþykktanna ekki verið breytt. Í þessu fólst að ákveðnum félagsaðilum var aflað ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila.

3.Stefnandi byggir á því að breytingin á 11. gr. samþykktanna hafi verið liður í því að hið sértæka endurmat færi fram og að 548.908.188 krónur skyldu færðar af endurmatsreikningi yfir í séreignarsjóð og hafi breytingin þannig brotið gegn ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991, sbr. lög nr. 22/2001. 

Stefnandi vísar til framangreinds um þá mismunun sem breytingin á 11. gr. samþykktanna hafði í för með sér en þá var ekki gætt þess jafnræðis og sanngirnis milli félagsmanna sem gert var ráð fyrir þegar umrætt bráðabirgðaákvæði var sett. Um tengslin milli breytingarinnar á 11. gr. samþykktanna og hins sérstaka endurmats má vísa til fundargerðar aðalfundar 8. mars 2002 þegar umdeild breyting á 11. gr. samþykktanna var samþykkt. Á þeim fundi er þáverandi stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar spurður að því, hvað liði flutningi af eigin fé félagsins yfir í séreignarsjóði félagsmanna. Stjórnarformaðurinn svaraði því til að breytingin á 11. gr., sem samþykkt var á fundinum, væri eitt af skrefunum í þá átt.

4.Stefnandi telur að sú staðreynd, að þær breytingar sem gerðar voru á 11. gr. samþykktanna, hafi ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár, hafi falið í sér brot gegn 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög og eigi að leiða til þess að þær séu ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991 ber að tilkynna samþykkt um breytingu á samþykktum samvinnufélags til samvinnufélagaskrár þegar í stað og breytingin öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið skráð.

Þegar stefnanda varð ljóst, um mitt ár 2002, að 11. gr. samþykktanna hafði verið breytt, þá gerði hann athugasemdir við stjórnina. Þær athugasemdir fólust m.a. í því að fyrrnefndar breytingar hefðu ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 22/1991. Þar sem stefnandi hélt fram rétti sínum áður en fyrrnefndar breytingar voru tilkynntar til samvinnufélagaskrár, þá verður að telja að umræddar breytingar séu ekki skuldbindandi fyrir hann.

5.Varðandi það við hvaða tímamark skuli miða lok félagsaðildar bendir stefnandi á bréf lögmanns  Mjólkursamsölunnar frá 8. ágúst 2002 en þar sagði: „til þess að vera félagsmaður í MS verður viðkomandi að vera mjólkurframleiðandi. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna endurspeglar þetta en þar segir að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði falli til útborgunar er hann hættir mjólkurframleiðslu.“ Stefnandi telur þessa afstöðu vera í ósamræmi við það sem fram komi í fundargerð, dags. 19. mars 2004, en þar sagði m.a. um það hvaða áhrif það hefði þegar 548.908.188 kr. voru millifærðar af endurmatsreikningi yfir á séreignarsjóðsreikning: „Ákvæðið í tillögunni [...] á sér stoð í 3. og 4. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, en þar segir að menn haldi félagsréttindum sínum meðan þeir framleiða mjólk og leggja hana að staðaldri inn hjá Mjólkursamsölunni eða í afurðastöð á vegum einhverrar samlagsdeildar hennar. Félagsaðildinni lýkur við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt.“ Samkvæmt þessu virðist lögmaður stefnda hafa miðað lok félagsaðildar við það þegar mjólkurframleiðslu var hætt en stjórnin við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum var hætt.

Stefnandi telur að breyting á 11. gr. samþykktanna, sem framkvæmd var 8. mars 2002, sé ólögmæt. Hann hefur talið að hann væri fullgildur félagsmaður þótt hann hefði ekki lagt inn mjólk þar sem hann ætti inneign í séreignarsjóði – m.ö.o. þar sem stefnandi væri enn eigandi að séreignarsjóðsinnistæðu og bæri því ábyrgð á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar með þeirri inneign, sbr. t.d. 18. og 37. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, þá ætti hann rétt til séreignar sinnar og því sem henni fylgir og fylgja ber þ.á m. vaxta, verðbóta, og hlutfallslegrar aukningar á inneigninni. Þannig hefði stefnandi getað geymt séreign sína og beðið þess að stjórnin nýtti sér heimild samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 til að endurmeta verðmæti séreignar stefnanda þótt hann hefði ekki skilað mjólk.

Mjólkursamsalan hefur hins vegar haldið því fram, að þetta væri stefnanda óheimilt vegna þess að hann hefði með því að hætta mjólkurframleiðslu og að teknu tilliti til breytingarinnar á 11. gr. samþykktanna ekki lengur getað verið félagsaðili. Ofangreind afstaða var í mótsögn við samþykkt Mjólkursamsölunnar þegar hún ákvað að nýta sér heimild í ákvæði II. til bráðabirgða samkvæmt lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Samþykktin á aðalfundi hinn 19. mars 2004 var svohljóðandi: „Aðalfundur Mjólkursamsölunnar haldinn að Bitruhálsi 1, Reykjavík, föstudaginn 19. mars 2004 samþykkir að kr. 548.908.188,- verði færðar af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins með fyrirvara um samþykki skattstjóra. Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inni mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni.“  Samkvæmt þessu virðist aðalfundur vera þeirrar skoðunar að séreignarsjóðseigendur gætu notið fullra félagsréttinda jafnvel þó þeir væru hættir mjólkurframleiðslu.

Stefnandi hafnaði móttöku á inneign sinni í júní 2002 þegar stjórnin gerði tilraun til að greiða honum inneign hans. Stefnandi taldi vænlegast að bíða a.m.k. þangað til að stjórnin léti endurmeta inneign hans samkvæmt ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Stefnandi var því séreignarsjóðseigandi um áramótin 2003/2004 þegar ofangreint var samþykkt á aðalfundi og á stefnandi því skýran rétt til þeirrar hækkunar sem varð á inneign hans með ofangreindri samþykkt. Í þessu sambandi ber að taka fram að stefnandi hefur ekki upplýsingar um það hvort  séreign hans hafi verið deponeruð eða ráðstafað á annan lögmæltan hátt.

6.Um forsendur og útreikning stefnukröfunnar.

Stefnandi hefur ekki fengið séreignarsjóðsinneign sína útborgaða, að viðbættum vöxtum og verðbótum samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 22/1991, enda hafnaði hann móttöku hennar þegar Mjólkursamsalan bauðst til að greiða hana út í júní 2002. Hann er því enn þá séreignarsjóðseigandi og er höfuðstóll inneignar hans 227.725 krónur, en telja verður að hún hafi hækkað vegna vaxtagreiðslna og verðbóta, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 22/1991 auk þeirrar hlutfallslegu aukningar sem varð á inneigninni þegar stjórnin ákvað að nýta sér heimild II. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991.

Guðmundur Snorrason, löggiltur endurskoðandi reiknaði út hver væri hlutdeild stefnanda í séreignarsjóði í árslok 2004, ef inneign hans hefði ekki verið greidd út. Niðurstaðan skv. hans útreikningum var sú að hlutdeild stefnanda í séreignarsjóði í árslok 2004 hefði numið 1.571.276 krónum, sem er stefnufjárhæð máls þessa. Ekki er tölulegar ágreiningur í málinu. 

7.Um lagarök vísast til almennra óskráðra meginreglna félagaréttarins um samvinnufélög. Auk þess verður vísað til laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, ásamt áorðnum breytingum, einkum 37., 38., 70., 71. og 72., auk þess sem vísað er til laga nr. 22/2001 um breyting á lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög. Þá er einnig vísað til almennra reglna kröfuréttar og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi frá dómsmálaráðherra. Krafan um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. ennfremur 126.-127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda.

1.Um aðild að Mjólkursamsölunni.

Mjólkursamsalan í Reykjavík var stofnuð með lögum nr. 1/1935.  Fyrstu starfsreglur félagsins (sem síðar kölluðust samþykktir) litu dagsins ljós 4. mars 1936.  Frá upphafi var gert ráð fyrir því að aðilar að Samsölunni væru mjólkurframleiðendur, sbr. orðalag 1. gr. reglnanna.  „Fyrst um sinn skulu mjólkurframleiðendur vestan heiða hafa forgangsrétt til sölu neyslumjólkur á sölusvæði Samsölunnar.“  Þegar stefnandi gerðist aðili að Mjólkursamsölunni, árið 1983, var tekið fram í 2. gr. samþykkta félagsins að Mjólkursamsalan væri sölusamlag mjólkursamlaganna á Suður- og Vesturlandi, m.a. Mjólkursamlags Kjalanesþings, sem stefnandi tilheyrði.  Samkvæmt 5. gr. samþykktanna var gert ráð fyrir því að haldin væri skrá yfir alla mjólkurframleiðendur, sem lagt hefðu inn mjólk að staðaldri og ekki minna en 2000 lítra á ári og búsetu hefðu á svæði samlagsdeildarinnar.  Þeir, sem uppfylltu þessi skilyrði, töldust virkir mjólkurframleiðendur.  Samþykktunum var breytt í nóvember 1994 og hljóðaði 2. gr. eftir þær breytingar svo: „Mjólkursamsalan er sölusamlag í eigu mjólkurframleiðenda á Suður- og Vesturlandi og starfar á samvinnugrundvelli.  Aðild að Mjólkursamsölunni eiga samlagsdeildir Mjólkurbús Flóamanna, Mjólkursamlags Kjalarnesþings, Mjólkursamlags Borgfirðinga og Mjólkursamlagsins í Búðardal.  Ábyrgð einstakra mjólkurframleiðenda á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar er takmörkuð þannig að þeir bera einvörðungu ábyrgð á skuldbindingum með inneign sinni í séreignarsjóði skv. 11. gr.“ Með breytingu á samþykktunum 21. mars 2003 hljóðar 5. gr. samþykktanna nú svo: “Mjólkurframleiðendur verða félagsaðilar í Mjólkursamsölunni leggi þeir að staðaldri mjólk í afurðastöð einhverrar af samlagsdeildum hennar.“

Samkvæmt 2. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem í gildi voru á árinu 2001 er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu, var félagið samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda.  Í 1. mgr. 5. gr. er tekið fram að mjólkurframleiðendur verði félagsmenn í Samsölunni séu þeir félagsmenn í einhverri af samlagsdeildum hennar.  Til þess að vera félagsmaður í Mjólkursamsölunni varð viðkomandi að vera mjólkurframleiðandi.  Ákvæði 3. mgr. 11. gr. samþykktanna endurspeglaði þetta en þar sagði að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu.  Þegar stefnandi hætti mjólkurframleiðslu uppfyllti hann ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni.

Til að taka af allan vafa um þetta sagði í 4. mgr. 11. gr. samþykktanna að inneign séreignarsjóði félli til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lýkur, enda hafi ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar. 

Mjólkursamsalan hefur því ávallt verið samvinnufélag mjólkurframleiðenda.  Aðrir gátu ekki fengið aðild að félaginu.  Samkvæmt 15. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 fellur félagsaðild á brott þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild.  Þeir sem hættu mjólkurframleiðslu gátu ekki verið félagsaðilar eða notið þeirra réttinda og/eða skyldna, sem félagsaðilar nutu. 

Í stefnu er því haldið fram að fullyrðing Mjólkursamsölunnar þess efnis að stefnandi hafi ekki lengur verið félagsaðili er breytingin var gerð á 11. gr. samþykktanna 8. mars 2002 sé í mótsögn við samþykkt sem gerð var á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 19. mars 2004.  Samþykktin hljóðaði um yfirfærslu af óbundnu fé í séreignarsjóð félagsins.  Síðan sagði orðrétt í samþykktinni: „Fjárhæðin deilist á séreignarsjóðseigendur í hlutfalli við séreignarsjóðseign þeirra um áramótin 2003/2004, þó þannig að allir þeir sem lögðu inn mjólk á árinu 2003 fái hlutdeild í hækkuninni“. Stefnandi fullyrðir í stefnunni að aðalfundur virðist álíta að séreignarsjóðseigendur gætu notið fullra félagsréttinda jafnvel þótt þeir væru hættir mjólkurframleiðslu.  Þetta er á misskilningi byggt hjá stefnanda.  Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem voru í gildi 19. mars 2004, þá lýkur félagsaðild við afgreiðslu ársreiknings þess árs er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt.  Afgreiðsla ársreiknings fyrir árið 2003 átti sér stað á aðalfundi félagsins 19. mars 2004.  Samþykktin um yfirfærslu af óbundnu fé í séreignarsjóð félagsins var tekin til afgreiðslu á aðalfundinum undir 8. dagskrárlið „Tillögur stjórnar“, en ársreikningarnir eru afgreiddir undir 5. og 6. dagskrárlið.  Afgreiðslu ársreiknings ársins 2003 var þar af leiðandi lokið þegar kom að samþykktinni um séreignarsjóðinn.  Því var samþykktin orðuð með þessum hætti, þ.e. tekin voru af öll tvímæli um það að þeir sem lagt höfðu inn mjólk á árinu 2003, en t.d. hætt mjólkurframleiðslu 1. desember 2003, myndu ekki missa af yfirfærslunni í séreignarsjóðinn vegna röðunar dagskrárliða á aðalfundinum. 

Stefndi telur ljóst að þegar stefnandi hætti mjólkurframleiðslu í maí 2001 uppfyllti hann ekki lengur skilyrði til að vera félagsaðili að Mjólkursamsölunni.  Þegar af þeirri ástæðu á hann ekki rétt til hlutdeildar í þeirri hækkun sem gerð var á séreignarsjóðnum í mars 2004.  Það að stefnandi hafi hafnað að veita viðtöku greiðslu á innistæðu sinni í séreignarsjóðnum sumarið 2002 breytir engu í því sambandi.

2.Um séreignarsjóð Mjólkursamsölunnar.

Samkvæmt 37. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 er stofnsjóður samvinnufélags myndaður af séreignarhlutum félagsaðila.  Séreignarhlutar verða til við greiðslu aðildargjalds að samvinnufélaginu og við það að hluti af hagnaði félagsins bætist við.  Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. samvinnufélagalaga kemur séreignarsjóðurinn til útborgunar við andlát félagsmanns og við slit félagsaðila.  Þá segir í 2. mgr. 38. gr. að jafnframt skuli greiða út séreignarhluta að ósk félagsaðila ef hann flytur af félagssvæði, enda gangi hann úr félaginu.  Þá skal að ósk félagsmanns greiða honum séreignarhlutann ef hann hefur náð 70 ára aldri, enda þótt hann haldi áfram þátttöku í félaginu. 

Séreignarsjóður Mjólkursamsölunnar varð til með breytingum, sem gerðar voru á samþykktum félagsins 1. nóvember 1994.  Samkvæmt 11. gr. samþykktanna skyldi séreignarsjóður vera til innan Mjólkursamsölunnar og skyldi árlega renna í hann allt að 0,2% af útborgunarverði innlagðrar mjólkur á starfssvæði Mjólkursamsölunnar, samkvæmt nánari ákvörðun aðalfundar.  Aðalfundur Mjólkursamsölunnar hefur í samræmi við þetta tekið ákvarðanir um framlög í séreignarsjóð, eins og t.d. á aðalfundi 17. mars 2000, þar sem ákveðið var að tillag í séreignarsjóð yrði 0,2% af útborgunarverði mjólkur árið 2001, en þann aðalfund sótti m.a. stefnandi.  Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða er samþykkt var sama dag, 1. nóvember 1994, skyldi leggja í séreignarsjóð framlag frá Mjólkursamsölunni vegna innlagðrar mjólkur framleiðenda á árunum 1985 til og með 1994.  Framlagið skyldi vera 0,2% af grundvallarverði mjólkurlítra á árinu 1994, þ.e. 10 aurar, margfaldaðir með innlögðum mjólkurlítrum hjá hverjum framleiðanda á fyrrgreindu tímabili.  Flestir af þeim mjólkurframleiðendum sem hættu framleiðslu á tímabilinu 1994 til 2002 óskuðu eftir því og fengu greidda innstæðu sína í séreignarsjóðnum.

Í 3. mgr. 38. gr. samvinnufélagalaga segir að hægt sé að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimili útborgun séreignarhluta ef félagsaðili hættir þeirri starfsemi sem er grundvöllur þátttöku hans í félaginu.  Í samræmi við þetta ákvæði var kveðið á um það í 3. mgr. 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, eins og þær hljóðuðu, er stefnandi hætti mjólkurframleiðslu árið 2001, að séreign hvers mjólkurframleiðanda félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf.  Skyldi hann eða erfingjar hans, væri hann látinn, óska skriflega eftir útborgun á inneigninni.  Stjórn Samsölunnar var heimilt að fresta útborgun í eitt ár frá því að beiðni um hana barst.  Það var hins vegar ekkert sem bannaði Samsölunni að greiða út inneign án kröfu.  Þetta ákvæði þótti ekki sanngjarnt.  Eins og ákvæðið var orðað var hætta á því að inneignir gætu „dagað uppi“ hjá félaginu í meira en tíu ár.  Það var talið ósanngjarnt ákvæði að inneignin gæti fallið til Mjólkursamsölunnar eftir tíu ár.  Því var ákveðið að leggja til breytingu á samþykktunum á aðalfundi 8. mars 2002, þess efnis að séreign hvers mjólkurframleiðanda í séreignarsjóði félli til útborgunar er hann hætti mjólkurframleiðslu, en væri að öðru leyti ekki kræf.  Síðan sagði: „Nú leggur framleiðandi niður framleiðslu og skal þá greiða honum að fullu hlutdeild hans í séreignarsjóði eigi síðar en 1. júlí á því ári sem eftir fer.“  Sú kvöð var með öðrum orðum lögð á félagið að hafa frumkvæði að því að greiða þeim aðilum sem hættir voru framleiðslu og uppfylltu því ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni inneign þeirra.  Það átti því engin hætta að vera á því að inneignir „döguðu uppi“ hjá félaginu.  Jafnframt var samþykkt sérstakt ákvæði til bráðabirgða sem kvað á um það að greiða skyldi þeim framleiðendum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001, eða fyrr, að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, eigi síðar en 1. júlí 2002.  Með þessu var tryggt að þeir sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á undanförnum tíu árum, en ekki gætt að því að krefjast útborgunar séreignarsjóðs síns, fengju greiddar þær inneignir.  Meðal annars voru nokkur dánarbú sem áttu inneign í séreignarsjóðnum.  Ákvæði þetta var sett til hagsbóta fyrir fyrrverandi félagsmenn, þannig að tryggt væri að þeir fengju inneign sína í séreignarsjóði greidda út, en að hún félli ekki til félagsins að tíu árum liðnum.  Það var ekki sett til að útiloka stefnanda frá því að fá hlutdeild í hugsanlegri aukningu séreignarsjóðs, svo sem hann hefur haldið fram.

3.Um að breyting á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar hafi verið ólögmæt og því ekki skuldbindandi fyrir stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að breytingin, sem gerð var á samþykktum Mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 hafi verið marklaus vegna þess að hún hafi falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila. Hana hafi því samkvæmt 71. gr. samvinnufélagalaga nr. 22/1991 átt að bera undir tvo félagsfundi í röð og hún hafi þurft stuðning ekki færri en 2/3 hluta atkvæðisbærra manna.  Stefndi tekur fram vegna þess síðastnefnda,  að tillaga um breytingu á 11. gr. samþykkta félagsins hafi hlotið  atkvæði 17 fulltrúa af 21 á aðalfundinum 2002.  Þá hafi breytingin á 11. gr. samþykktanna ekki falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila.  Samkvæmt áðurgildandi 3. mgr. 11. gr. féll inneign hvers mjólkurframleiðanda til útborgunar þegar hann hætti mjólkurframleiðslu. Stefndi telur að breytingartillagan hafi fellt úr gildi ósanngjarnt ákvæði 4. mgr. 11. gr. þess efnis, að ef inneignarinnar væri ekki vitjað innan tíu ára félli hún til Mjólkursamsölunnar.  Breytingartillagan var gerð til hagsbóta fyrir fyrrverandi félagsmenn í Mjólkursamsölunni.  Þá var kveðið á um það í breytingatillögunni hvenær Mjólkursamsölunni bæri að greiða inneign þeirra mjólkurframleiðenda sem hætt hefðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001, en það átti að gera eigi síðar en 1. júlí 2002.  Samkvæmt áðurgildandi samþykktum féll inneignin í gjalddaga þegar aðilar hættu mjólkurframleiðslu og voru þar af leiðandi ekki lengur félagar í Mjólkursamsölunni.  Engin breyting varð á því með samþykkt tillagna um breytingu á 11. gr. samþykktanna á aðalfundi 8. mars 2002.  Stefndi telur því að breytingin sem samþykkt var á aðalfundinum hafi ekki falið í sér breytingu á réttarsambandi aðila.  Hún var ekki andstæð 71. gr. samvinnufélagalaga.  Stefnandi var ekki félagsaðili er breytingin var gerð, hann hætti að uppfylla skilyrði félagsaðildar í maí 2001 er hann lét af mjólkurframleiðslu.  Hann átti hins vegar inneign í séreignarsjóði, sem þarf alls ekki að vera það sama og vera félagsaðili.

Stefndi telur ekki rétt með farið í stefnu þar sem því sé haldið fram að breytingin sem gerð var á 11. gr. samþykktanna 8. mars 2002 hafi leitt til verulegrar fækkunar félagsaðila sem hefðu átt inneign í séreignarsjóði og vísað til ársskýrslna Mjólkursamsölunnar árin 1995 til 2004 í því sambandi.  Stefndi segir að í ársskýrslunum sé vissulega ávallt gerð grein fyrir fjölda þeirra sem eiga inneign í séreignarsjóði, en þeir eru ekki nefndir félagsaðilar, heldur aðilar, vegna þess að þeir sem áttu inneign í séreignarsjóði fyrir 1. júlí 2002 voru ekki allir félagsaðilar í Mjólkursamsölunni.  Sumir, þar á meðal stefnandi, voru ekki lengur félagsaðilar vegna þess að þeir höfðu látið af mjólkurframleiðslu.  Þeim sem áttu inneign í séreignarsjóði fækkaði eftir samþykktina á aðalfundinum 8. mars 2002 vegna þess að þar var Mjólkursamsalan skylduð til að greiða út inneignir þeirra sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu.  Sumir höfðu átt þessar inneignir árum saman, aðrar tilheyrðu dánarbúum og virtust hreinlega hafa gleymst o.s.frv.

4.Um að breyting á 11. gr. samþykktanna andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga.

Í stefnu er því haldið fram að breytingin sem gerð var á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar 8. mars 2002 hafi verið andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga vegna þess að félagsfundur megi ekki taka ákvörðun sem bersýnilega sé fallin til þess að afla ákveðnum félagsaðilum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila eða félagsins.  Þá er því haldið fram að breytingin hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið að njóta þeirra aukningar sem gerð var á séreignarsjóðnum.

Stefndi tekur fram að ástæða þess að stefnandi var ekki lengur félagsaðili að Mjólkursamsölunni hafi verið sú að hann var hættur mjólkurframleiðslu.  Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu, að stefnandi héldi áfram mjólkurframleiðslu. Það voru engar kvaðir á honum um tiltekið lágmarksmagn, hann hefði getað haldið t.d. eina kú.  Stefndi telur að stefnandi hafi mátt vita það að um leið og hann hætti mjólkurframleiðslu uppfyllti hann ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni.  Hann hafði tekið það mikinn þátt í störfum innan félagsins sem fulltrúi á fulltrúaráðsfundum og aðalfundum. 

Breytingin sem samþykkt var leiddi til þess að greidd var út inneign þeirra sem hættir voru mjólkurframleiðslu en áttu engu að síður inneign í séreignarsjóðnum.  Hún hafði engin áhrif á þá sem voru félagsaðilar í Mjólkursamsölunni þegar samþykktin var gerð.  Þegar af þeirri ástæðu var ekki um að ræða ákvörðun sem væri bersýnilega til þess fallin að afla ákveðnum félagsaðilum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra félagsaðila.  Á þessu tímamarki uppfyllti stefnandi ekki lengur skilyrði félagsaðildar að Mjólkursamsölunni.  Breytingarnar hlutu samþykki tilskilins meirihluta fulltrúa á aðalfundi og þær fela ekki í sér röskun á réttarsambandi aðila.  Ákvörðunin var því ekki andstæð 72. gr. samvinnufélagalaga.

5.Um að breyting á 11. gr. samþykktanna væri liður í að hið sértæka endurmat færi fram og því andstæð ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991, sbr. lög nr. 22/2001.

Í stefnu er því haldið fram að breytingin á 11. gr. samþykkta Mjólkursamsölunnar, sem samþykkt var 8. mars 2002 hafi verið andstæð jafnræði og sanngirni milli félagsmanna, sem gert var ráð fyrir þegar bráðabirgðaákvæðið var sett.  Enn aftur er hér byggt á því að stefnandi hafi verið félagsaðili þegar breytingin var gerð.  Það var stefnandi ekki.  Breytingin var í fullu samræmi við ákvæði II. til bráðabirgða í lögum nr. 22/1991.

6.Um að breytingarnar hafi ekki verið tilkynntar til samvinnufélagaskrár fyrr en eftir að stefnandi hélt fram rétti sínum.

Þá er því haldið fram í stefnu að breytingarnar hafi ekki verið skuldbindandi fyrir stefnanda vegna þess að hann hélt fram rétti sínum áður en fyrrgreindar breytingar voru tilkynntar til samvinnufélagaskrár.  Það sé vissulega rétt að breytingarnar á 11. gr. samþykktanna, sem samþykktar voru 8. mars 2002, voru ekki tilkynntar til samvinnufélagaskrár fyrr en í ágúst 2002.  Þá tók breytingin gildi, sbr. 2. mgr. 70. gr. samvinnufélagalaga.  Stefndi telur hins vegar að engin réttaráhrif hafi verið bundin við bréf lögmanns stefnanda til Mjólkursamsölunnar, dags. 31. júlí 2002. Stefndi telur að það verði að hafa í huga að það var ekkert sem bannaði stjórnendum Mjólkursamsölunnar að greiða út innstæðu í séreignarsjóði til þeirra sem hættir voru mjólkurframleiðslu fyrir samþykktabreytinguna 8. mars 2002.  Samþykktabreytingin fól það í sér að Mjólkursamsölunni var gert skylt að greiða þeim sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu innstæðu þeirra í séreignarsjóði, en áður glötuðu menn innstæðunni ef þeir óskuðu ekki eftir greiðslu hennar innan tíu ára. 

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort stefnandi eigi rétt á hlutdeild í þeirri hækkun á séreignarsjóði Mjólkursamsölunnar sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 19. mars 2004.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. Þá er ágreiningslaust að stefnandi var í mjólkurframleiðslu frá 1983 til maí 2001 og einnig er ágreiningslaust að stefnandi hefur ekki fengið greidda inneign sína í séreignarsjóðnum, en hann endursendi stefnda þá fjárhæð 31. júlí 2002. 

Stefndi málsins er samvinnufélag og fer um það félagsform eftir lögum nr. 22/1991 með síðari breytingum. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið samvinnufélaga að efla hag félagsmanna eftir viðskiptalegri þátttöku þeirra í félagsstarfinu. Samkvæmt 15. gr. sömu laga er félagsaðild heimil öllum þeim sem starfa vilja í félaginu og félagsaðild fellur brot þegar félagsaðili fullnægir ekki lengur ákvæðum félagssamþykkta um félagsaðild. Þá er heimilt skv. 3. mgr. 38. gr. sömu laga að setja í samþykktir samvinnufélags ákvæði sem heimilar útborgun  séreignarhluta, ef félagsaðili „hættir þeirri starfssemi  sem er grundvöllur þátttöku hans í félaginu“.  Lögin gera því ráð fyrir að félagsmenn taki þátt í félagsstarfinu og vísað er til félagssamþykkta varðandi það hvenær félagsaðild falli brott.

Frá fyrstu starfsreglum og samþykktum Samsölunnar er gert ráð fyrir að félagsmenn séu mjólkurframleiðendur og Mjólkursamsalan sé samvinnufélag í eigu mjólkurframleiðenda. Aðrir en mjólkurframleiðendur hafa ekki átt aðild að Mjólkursamsölunni. Stefnandi var við mjólkurframleiðslu frá árinu 1983 þar til hann hætti henni í maí 2001. Á þeim tíma eignaðist hann inneign í séreignarsjóðnum, en ákvæði um þann sjóð komu fyrst inn í samþykktir Mjólkursamsölunnar 1. nóvember 1994.   Í 3. mgr. 11. gr. samþykkta þeirra, sem giltu er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu segir að séreign hvers mjólkurframleiðanda falli til útborgunar „er hann hætti mjólkurframleiðslu“. Dómurinn telur ljóst, bæði með vísan til laga um samvinnufélög svo og ákvæða félagssamþykkta Mjólkursamsölunnar, að skilyrði sé að félagsmenn séu mjólkurframleiðendur, þ.e. séu með viðskiptalega þátttöku í félagsstarfinu. Þegar mjólkurframleiðsla er ekki lengur til staðar þá skorti skilyrði fyrir félagsaðild að Mjólkursamsölunni. Með því að stefnandi hættir mjólkurframleiðslu uppfyllir hann ekki lengur skilyrði fyrir félagsaðild samkvæmt lögum um samvinnufélög nr. 22/1991 né samþykktum Mjólkursamsölunnar. Því er það mat dómsins, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því, hvernig Mjólkursamsalan breytti samþykktum sínum eftir maí 2001, þar sem hann átti ekki lengur félagsaðild að Mjólkursamsölunni.

Í ákvæði 4. mgr. 11. gr. samþykkta þeirra er giltu er stefnandi lét af mjólkurframleiðslu kom fram að inneign í séreignarsjóði félli til Mjólkursamsölunnar að 10 árum liðnum eftir að félagsaðild lyki, enda hefði ekki verið gerð krafa um greiðslu hennar. Nefnt ákvæði skýtur enn frekar stoðum undir þá túlkun sem að framan greinir, þ.e. að skilyrði félagsaðildar sé mjólkurframleiðsla. Þá liggur fyrir, að stefnandi krafðist ekki inneignar sinnar úr séreignarsjóðnum er hann hætti framleiðslu og hefur því væntanlega ætlað að láta inneign sína standa í sjóðunum í þeirri von að hún hækkaði.  Með þeirri ráðstöfun varð stefnandi ekki félagsaðili að Mjólkur-samsölunni.  Né frekar naut hann félagsaðildar með því að endursenda stefnda inneign sína í séreignarsjóðnum er stefndi greiddi honum 31. júlí 2002.  Með þeirri ráðstöfun eignaðist hann ekki aftur inneign í séreignarsjóðnum og bar þar af leiðandi ekki ábyrgð á skuldbindingum Mjólkursamsölunnar, sbr. 18. gr. laga nr. 22/1991.  Að mati dómsins er það skýlaus skylda fyrir félagsaðild að samvinnufélaginu, þ.e. Mjólkursamsölunni, að vera með viðskiptalega þátttöku í félaginu, þ.e. í tilfelli stefnanda að vera mjólkurframleiðandi.  Það nægir ekki til félagsaðildar, að hafa einhvern tímann verið mjólkurframleiðandi.

Hinn 27. apríl 2001 var samþykkt á Alþingi breyting á lögum um samvinnu-félög nr.  22/1991.  Þar kom inn ákvæði til bráðabirgða er heimilaði að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2004.  Hér þurfti Mjólkursamsalan því að taka ákvörðun um það hvaða leið yrði farin til að nýta þá heimild er ákvæðið bauð uppá.  Í kjölfarið var gerð gangskör að breytingum á samþykktum Mjólkursamsölunnar. Á aðalfundi 8. mars 2002 var samþykkt að greiða þeim framleiðendum að fullu hlutdeild þeirra í séreignarsjóði, sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu á árinu 2001 eða fyrr. Þessi breyting á 11. gr. samþykktanna var ástæða þess að stefnandi fékk senda ávísun 31. júlí 2002 er svaraði til inneignar hans í séreignarsjóðnum.  Á aðalfundi árið eftir, þ.e. 21. mars 2003, varð enn breyting á 3. mgr. 11. gr. samþykktanna. Áréttað var að félagsréttindum haldi menn meðan þeir framleiða mjólk og leggi hana inn að staðaldri hjá Mjólkursamsölunni. Nýmæli kom í ákvæðið í þá veru, að félagsaðildinni lyki við afgreiðslu ársreiknings þess árs, er viðskiptum með mjólkurinnlegg var hætt. Á aðalfundi Mjólkursamsölunnar 19. mars 2004  var ákveðið að færa 548.908.188 kr. af óbundnu eigin fé í séreignarsjóð félagsins.  Var það lokaráðstöfunin sem aðalfundur Mjólkursamsölunnar gerði til að fullnægja lagaskilyrðum nefnds ákvæðis til bráðabirgða. Að mati dómsins voru ákvarðanir þessar málefnalegar og í samræmi við það, að mjólkurframleiðsla er forsenda félagsaðildar.  Ráðstafanirnar voru ekki til hagsbóta fyrir stefnda. Þær voru ekki til þess að koma í veg fyrir að stefnandi fengi einhverja hækkun, heldur höfðu þær sömu áhrif hjá stefnanda og hjá öðrum mjólkurframleiðendum sem hætt höfðu mjólkurframleiðslu árið 2001. Fyllsta jafnræðis var því gætt.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ræðst niðurstaða málsins því af þeirri staðreynd, að stefnandi ákvað að hætta mjólkurframleiðslu í maí 2001.  Um réttarstöðu hans fer því eftir þeim lagaákvæðum og ákvæðum samþykkta sem voru í gildi á þeim tíma.  Stefnandi getur ekki byggt neinn rétt á því hvernig málin þróuðust hjá Mjólkursamsölunni eftir maí 2001, þar sem hann á ekki aðild að því. Þar af leiðandi hafnar dómurinn þeim sjónarmiðum stefnanda, að hann eigi rétt til hækkunar á séreignarsjóði, er hann krefst.

Eins og fram hefur komið endursendi stefnandi stefnda ávísun að fjárhæð 227.725 krónur hinn 31. júlí 2002.  Fjárhæð þessi var hluti stefnanda í séreignarsjóði Mjólkursamsölunnar og er fjárhæðin innifalin í stefnufjárhæð málsins.  Stefndi hefur fyrir dómi viðurkennt rétt stefnanda til þessarar fjárhæðar. Því verður varakrafa stefnanda tekin til greina svo sem í dómsorði greinir.

Í ljósi þess að varakrafa stefnanda er tekin til greina og einnig þess að stefndu deponeruðu ekki fjárhæð þessari eftir að stefnandi endursendi stefnda hana, þykir rétt að fella niður málskostnað á milli aðila. Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmálaráðuneytisins 5. september 2005.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Sigurbjörns Magnússonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 600.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurbjörn Magnússon hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Þórunn Guðmundsdóttir hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi greiði stefnanda 227.725 krónur með almennum vöxtum frá 1. júlí 2002 til 5. desember 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 600.000 krónur.