Hæstiréttur íslands
Mál nr. 290/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 11. maí 2010. |
|
Nr. 290/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí. 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að „hafnað verði kröfu um einangrun“.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ekki verður séð að varnaraðili sæti nú einangrun. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið fíkniefnabrot, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2010 kl. 16.00.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að Y, kt [...], og Z, kt. [...], hafi verið stöðvuð í tollhliði við reglubundið eftirlit aðfararnótt 11. apríl 2010 er þau komu til landsins með flugi frá Alicante, Spáni. Við eftirlit tollgæslu hafi fundist í ferðatöskum sem þau komu með til landsins um 1765 g af kókaíni. Hafi kærði viðurkennt að hafa verið sá aðili sem hafði milligöngu um að parið færi utan í því skyni að flytja inn fíkniefni og hafa átt að taka við efnunum og koma þeim áfram en sá sem átti að taka við efnunum skv. framburði kærða sæti nú gæsluvarðhaldi vegna málsins og tengist því máli sem til rannsóknar sé hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Sá hafi hins vegar þráfaldlega neitað að eiga aðild að máli þessu. Telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að kærði sé viðriðinn hinn ætlaða innflutning.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og telji lögregla að mál þetta tengist frekari innflutningi á fíkniefnum frá Spáni og fleiri rannsóknum sem nú sé unnið að hérlendis og í samvinnu við erlend lögregluyfirvöld. Beðið sé upplýsinga frá spænskum yfirvöldum sem geti haft mikil áhrif á gang málsins.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum vinni að rannsókn málsins í samvinnu við Lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu en þann 10. og 11. apríl sl. hafi verið lagt hald á tæp 3,5 kg af kókaíni sem reynt var að flytja til landsins í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá Spáni. Þá telji lögregla ljóst að fleiri aðilar tengist hinum ætlaða innflutningi og hafi fleiri aðila grunaða sem enn eigi eftir að handtaka og hafi þegar eftirlýst aðila sem þeim hafi ekki tekist að hafa upp á. Tíu manns hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins og hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 23. apríl sl. Þá telji lögregla afar líklegt að sú leið sem notuð var við innflutning fíkniefnanna hingað til lands hafi verið notuð ítrekað áður og hafi staðið til að nota hana oftar og vísar varðandi það til framburðar vitnis í málinu sem borið hafi um það að hafa flutt inn fíkniefni í ferðatöskum með milligöngu kærða í nóvember sl. Þá hafi fundist við húsleit á heimili kærða og sambýliskonu hans nokkurt magn fíkniefna auk gagna er tengja þau við framangreindan aðila sem rökstuddur grunur leiki á að hafi smyglað fíkniefnum hingað til lands í nóvember sl. Það magn fíkniefna, sem lögregla hafi þegar haldlagt þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæði laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 23. apríl sl. Meint aðild kærða þyki mikil en hann sé talinn tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði hefur játað, gangi laus áður en máli lýkur með dómi, þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr. 269/2010, 216/2010, 164/2010, 136/2008, 635/2007, 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í því máli sem hér um ræðir.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2010 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum er kærði undir sterkum rökstuddum grun um aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna. Hann hefur viðurkennt að vera sá aðili sem hafði milligöngu um að framangreind Y og Z færu utan í því skyni að flytja inn ólögleg fíkniefni og að hafa átt að taka við efnunum og koma þeim áfram til annars aðila. Þegar litið er til alvarleika brots kærða, magns og styrkleika fíkniefnanna og hvers eðlis þáttur kærða er, þykja vera fyrir hendi skilyrði til þess að fallast á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Fram er komið að lögreglustjóri stefnir að því að ljúka rannsókn og senda málið til ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn innan þess tíma, sem kröfu hans um gæsluvarðhald er markaður. Þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Að framangreindu virtu verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. júní 2010, kl. 16.00.