Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Dómur
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


Dómsatkvæði

                                                                                              

Fimmtudaginn 12. júní 2014.

Nr. 668/2013.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Dómur. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

X var ákærður fyrir tvö kynferðisbrot gegn A, sem þá var 14 ára, með því að hafa í fyrra skiptið áreitt hana kynferðislega með tilteknum hætti og í það síðara nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni og haft við hana samræði. Var X í héraði dæmdur til 3 ára og 6 mánaða fangelsisvistar auk þess sem honum var gert að greiða A miskabætur. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að ekki væri unnt að leggja efnisdóm á málið þar sem héraðsdómur hefði ekki lagt mat á öll þau sönnunargögn, sem færð hefðu verið fram áður en hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp, auk þess sem ný gögn hefðu síðar komið fram sem gætu haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá væri nauðsynlegt að fram færi frekari rannsókn á tiltekinni ljósmynd úr farsíma X. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.

I

1

Samkvæmt ákæru er ákærði sakaður um nauðgun og önnur kynferðisbrot gegn stúlkunni A tvívegis á tímabilinu mars til apríl 2010 á þáverandi heimili hans að [...] í [...], þangað sem hann hefði fengið stúlkuna, sem þá var 14 ára að aldri, til þess að koma og hitta sig. Í fyrra skiptið með því að áreita hana kynferðislega, eins og nánar er lýst í ákærunni, og í það síðara að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni, ýta henni á rúm sitt og hafa við hana samræði. Er háttsemi ákærða í fyrra skiptið talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og síðara skiptið við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

2

Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hófst rannsókn málsins þegar A mætti á lögreglustöð ásamt móður sinni og fósturföður 4. júní 2010. Við það tækifæri skýrði stúlkan lögreglu svo frá að hún hefði verið stödd við [...] einhvern tíma eftir miðjan mars þegar ákærði, sem hún kvaðst ekki hafa séð áður, hefði neytt sig til að koma með sér upp á þriðju hæð í húsi við [...] og klætt hana úr fötunum. Að sögn stúlkunnar hefði hún „frosið“, en þó getað sagt ákærða að hún vildi þetta ekki. Hún kvað hann hafa haft sáðlát, en hann hefði verið með smokk. Við skýrslutöku hjá lögreglu 14. júní 2010 viðurkenndi ákærði að hafa kynnst stúlkunni gegnum samskiptamiðla á netinu og vitað hversu gömul hún væri. Þau hefðu rætt þar saman á kynferðislegum nótum. Ákærði þvertók hins vegar fyrir að hafa hitt stúlkuna og hún aldrei komið með honum heim, hvað þá að hann hefði haft líkamleg samskipti við hana. Í framhaldi af skýrslutökunni heimilaði ákærði húsleit í herberginu þar sem hann bjó. Jafnframt tók lögregla ljósmyndir af húsakynnum í [...], þar á meðal af íbúð sem ákærði hafði á leigu ásamt öðrum og herbergi hans.

Hinn 14. júlí 2010 gaf A skýrslu fyrir dómi og þar breytti hún fyrri framburði sínum. Hún sagðist nú hafa kynnst ákærða á netinu og farið heim með honum að áeggjan hans, líklega í byrjun mars. Í þetta sinn hefði ákærði strokið henni utanklæða, kysst hana og viljað hafa samræði við hana, en ekkert orðið úr því. Kvaðst stúlkan nokkru síðar hafa farið heim til ákærða öðru sinni, að líkindum um tveimur vikum áður en hún fermdist sem var 18. apríl 2010. Í þetta skipti hefði hann fljótlega ýtt henni niður í rúm og rifið hana úr fötunum. Áður en hún vissi af hefði hann verið komin ofan á hana og haft við hana samfarir. Sagðist stúlkan hafa fundið fyrir miklum óþægindum og beðið ákærða um að hætta, en hann haldið áfram þar til hann hefði fengið fullnægju. Hún hefði síðan klætt sig og hlaupið „út í strætó“ þar sem hún hefði verið hálfgrátandi. Þegar strætisvagninn hefði verið kominn að [...] hefði vinkona sín komið inn í vagninn og spurt hvað væri að. Hún sagðist hafa svarað að hún hefði hitt sextán ára strák sem hefði verið að meiða hana því henni hefði fundist „eitthvað svo of rangt ... tuttugu og fimm ára maður var að nauðga mér.“ Aðspurð sagði hún að þessi vinkona héti B. Jafnframt kvaðst stúlkan hafa sagt tveimur öðrum vinum sínum frá því hvað hefði gerst, þeim C og D. Við skýrslugjöfina lýsti stúlkan af nákvæmni húsakynnum í [...], einkum herbergi ákærða. Í símaskýrslu sem lögregla tók af henni 18. apríl 2011, þar sem hún var stödd erlendis, gaf hún enn gleggri lýsingu á húsnæðinu.

Samkvæmt gögnum málsins tók lögregla formlega skýrslu af ákærða öðru sinni 17. maí 2011 og bar hann þá á áþekkan hátt og hann hafði gert í fyrri skýrslu sinni. Þá ræddi lögregla við átta vitni í síma á tímabilinu frá 1. febrúar 2011 til 12. maí sama ár, þar á meðal C og D. Eitt vitnanna var E, en hann var einn af þeim sem bjó í íbúðinni að [...] frá því í mars og fram í júlí 2010.

Meðan á rannsókn málsins stóð aflaði lögregla upplýsinga frá símafyrirtækinu [...] um símtöl og smáskilaboð sem send voru og móttekin í farsíma A á þeim tíma sem hér skiptir máli. Samkvæmt þeim var hringt í síma hennar úr farsíma ákærða að kvöldi 29. mars 2010, rétt fyrir klukkan 21, þar sem hún var stödd nálægt [...]. Þá var hringt úr síma stúlkunnar í síma ákærða síðdegis 6. apríl 2010, klukkan 18.20, þegar hún var í námunda við [...].

Meðal rannsóknargagna eru myndir sem afritaðar voru úr farsíma ákærða. Ein af þeim sýnir neðri hluta líkama konu sem lá nakin á grúfu, að því er virðist í rúmi ákærða í herbergi hans. Samkvæmt upplýsingum úr símanum hefur myndin verið tekin 6. apríl 2010, klukkan 18.49. Við könnun á tímastillingu símans, sem er að finna í gögnum málsins, virðist svo sem klukkan í símanum hafi verið um það bil 14 mínútum of fljót miðað við rauntíma. Það bendir til að myndin hafi verið tekin um klukkan 18.35.

Við meðferð málsins fyrir dómi var lagt fram vottorð F sálfræðings 7. maí 2012 þar sem fram kom að hún hefði rætt þrisvar sinnum við A í maí og júní 2010. Í þeim viðtölum hefðu meðal annars komið fram neikvæðar hugmyndir stúlkunnar um sjálfa sig. Þegar hún hefði verið innt nánar eftir því af hverju þær stöfuðu hefði hún greint sálfræðingnum frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri árás og upp frá þeim atburði upplifað skömm, kvíða, depurð og ótta.

3

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst sakargiftum og gerð grein fyrir helstu málsatvikum, þar á meðal áðurgreindum skýrslum ákærða og A á rannsóknarstigi. Þá er rakinn framburður ákærða, stúlkunnar og annarra vitna fyrir dómi. Meðal þeirra voru vitnin E, C og D, en þau tvö síðastnefndu báru fyrir dómi að A hefði sagt þeim skömmu eftir að þau atvik, sem ákærði er sakaður um, áttu að hafa gerst að brotið hefði verið gegn sér kynferðislega. Einnig er greint frá því í dóminum að F hafi komið fyrir dóm og staðfest áðurgreint vottorð sitt. Í framburði hennar hafi meðal annars komið fram að í lok síðasta viðtalsins hefði „stúlkan greint nokkuð nákvæmlega frá atburðarásinni varðandi kynferðisbrotin.“

Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms er tekið fram að ákærði neiti sök. Brotaþolinn F hafi í öllum aðalatriðum verið sjálfri sér samkvæm um meginatriði málsins, ef frá sé talin skýrsla hennar hjá lögreglu 4. júní 2010, en misræmi milli þeirrar skýrslu og síðari framburðar hennar fyrir dómi hafi hún skýrt þannig að hún hefði ekki þorað að segja frá því, sem raunverulega hefði gerst, í viðurvist móður sinnar og fósturföður. Taldi héraðsdómur þessa skýringu brotaþola trúverðuga. Í dóminum segir að lýsing hennar á aðstæðum að [...] komi nánast að öllu leyti heim og saman við aðstæður á vettvangi og styrki þessi lýsing mjög frásögn hennar sem metin sé einkar trúverðug. Að sama skapi verði frásögn ákærða um að brotaþoli hafi ekki komið í húsnæðið ótrúverðug. Þessu næst er fjallað um framburð vitnisins E sem borið hafi um komu mjög ungrar stúlku upp í herbergi til ákærða um það leyti er ákæra taki til. Síðan er komist svo að orði í dóminum: „Styrkt hefði sönnun í málinu ef vitni þetta hefði verið látið bera kennsl á brotaþola í mynd- eða sakbendingu.“ Þá er þar vikið að myndinni úr farsíma ákærða sem sýni „rass á einstaklingi liggjandi í rúmi og er einstaklingurinn án klæða.“ Hafi brotaþoli staðhæft að ákærði hefði tekið mynd af henni án klæða í herbergi sínu og hún náð að snúa sér við í þann mund sem hann tók myndina. Í dóminum segir síðan: „Ákæruvald bar ekki undir brotaþola hvort mynd sú sem er meðal gagna málsins væri mynd af henni og vakti ekki athygli dómsins á því. Að sama skapi hefði styrkt sönnun í málinu ef mynd þessi hefði verið borin undir brotaþola.“ Þrátt fyrir að hvorugt framangreint hafi verið gert veikti það að mati héraðsdóms „ekki niðurstöðu málsins þannig að áhrif hafi á niðurstöðu þess“. Sé til þess að líta að atriðin samrýmist framburði brotaþola. Þá samrýmist upplýsingar um tengingar á milli farsíma ákærða og brotaþola í mars og apríl 2010 því sem brotaþoli beri um að hún hafi verið í símasambandi við ákærða áður en hún hafi komið á heimili hans á þeim tíma. Þessu næst segir í dóminum: „Þegar þessi atriði sem hér að framan eru rakin eru virt er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið þau kynferðisbrot sem hann er ákærður fyrir ... fyrir utan að ekki er nægjanlega komið fram ... að ákærði hafi kysst brotaþola“.

4

Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp aflaði ákæruvaldið frekari gagna í tilefni af áskorun þess efnis frá verjanda ákærða. Meðal þeirra er endurrit af framburði vitnanna G og B sem þær gáfu fyrir héraðsdómi 21. maí 2014. Í vitnisburði G kom meðal annars fram að A hefði hringt í hana úr strætisvagni og svo sagt henni síðar sama dag að ákærði hefði farið með hana heim til hans og nauðgað henni. Hins vegar kvaðst B lítið muna eftir atvikum vegna þess hve langt væri um liðið, þar á meðal gat hún ekki svarað því hvort hún hefði hitt vinkonu sína í strætisvagni í mars eða apríl 2010.

Þá hefur verið aflað ítarlegri upplýsinga um símtöl og smáskilaboð sem send voru og móttekin í farsíma A 29. mars og 6. apríl 2010. Samkvæmt þeim hefur verið hringt nokkrum sinnum milli þess farsíma og farsíma G báða dagana.

II

Sú skylda hvílir á dómurum í sakamálum að sjá til þess að mál séu upplýst, svo sem kostur er, áður en dómur er á þau lagður. Í því skyni er þeim rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin málsatriði, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einnig geta dómarar samkvæmt 168. gr. sömu laga beint því til ákæranda, eftir dómtöku máls, að afla frekari gagna eða leiða tiltekin vitni fyrir dóm ef þeir telja það nauðsynlegt til skýringar á málinu áður en endanlegur dómur er kveðinn upp. Þá er í f. lið 2. mgr. 183. gr. laganna mælt svo fyrir að í dómi skuli greina svo stutt og glöggt sem verða má röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu og með hverjum hætti.

Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að A hafi borið fyrir dómi og ekki hvikað frá þeim framburði sínum að ákærði hefði brotið tvívegis gegn henni kynferðislega eins og í ákæru greinir. Er frásögn stúlkunnar metin einkar trúverðug, ekki síst í ljósi þess hve nákvæmlega hún hafi lýst húsakynnum á þáverandi heimili ákærða. Þar sem hann hefur staðfastlega neitað sök bar héraðsdómi að fjalla um önnur gögn en framburð þeirra tveggja og leggja mat á sönnunargildi þeirra. Fyrir utan ákærða og stúlkuna gáfu sjö vitni skýrslu fyrir dómi. Þrátt fyrir að þrjú þeirra, þar á meðal sálfræðingur sem rætt hafði þrívegis við stúlkuna, hafi borið að hún hefði sagt þeim að brotið hefði verið gegn henni, verður ekki ráðið af forsendum fyrir niðurstöðu héraðsdóms að tekin hafi verið afstaða til sönnunargildis þess vitnisburðar. Einungis er þar vísað til framburðar vitnisins E um komu mjög ungrar stúlku í herbergi ákærða, en því síðan bætt við að það hefði styrkt sönnun í málinu ef vitnið „hefði verið látið bera kennsl á brotaþola í mynd- eða sakbendingu.“ Af þessum síðastnefndu orðum verður dregin sú ályktun að héraðsdómur hafi álitið þennan vitnisburð hafa takmarkað gildi til sönnunar um sekt ákærða. Sama á við um myndina sem fannst í farsíma hans, en um hana segir í dómsforsendum að það „hefði styrkt sönnun í málinu ef mynd þessi hefði verið borin undir brotaþola.“ Allt þetta gerir það að verkum að niðurstaða héraðsdóms er ekki studd fullnægjandi rökum eins og áskilið er í f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Auk þess var fullt tilefni til þess fyrir dómendur, hvort sem var fyrir aðalmeðferð málsins eða eftir dómtöku þess, að beina því til ákæruvaldsins að afla frekari gagna til að upplýsa málið betur, til dæmis með því að láta vitnið E bera kennsl á stúlkuna í mynd- eða sakbendingu og bera myndina úr farsíma ákærða undir hana.

Ekki verður dregin í efa sú niðurstaða héraðsdóms að lýsing A á húsakynnum að [...], sem hún gaf fyrst við skýrslutöku fyrir dómi 14. júlí 2010 og síðar í símaskýrslu er lögregla tók af henni 18. apríl 2011, sé einkar trúverðug, enda er ekkert komið fram í málinu sem styður þá staðhæfingu ákærða að stúlkan hafi áður getað kynnt sér ljósmyndirnar sem lögregla tók af húsnæðinu eða komið þangað í öðrum erindagjörðum en til fundar við hann. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið að verulegir annmarkar voru á rannsókn málsins. Þar sem stúlkan bar ákærða svo alvarlegum sökum bar lögreglu þá strax að afla allra tiltækra gagna til að leiða hið sanna og rétta í ljós, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Í stað þess að taka formlega skýrslu af þeim vitnum, sem stúlkan kvaðst hafa trúað fyrir framferði ákærða í hennar garð, var látið nægja að ræða við þau í síma löngu eftir að rannsókn hófst. Sama máli gegnir um þau vitni sem bjuggu í íbúðinni með ákærða á þeim tíma sem atvikin áttu að hafa gerst. Þá fórst fyrir að taka skýrslu af B, sem a nefndi þegar í skýrslu sinni fyrir dómi 14. júlí 2010, og gaf B fyrst skýrslu fyrir héraðsdómi eftir að hinn áfrýjaði dómur hafði verið kveðinn upp. Loks hefur engin skýring fengist á því hvers vegna ekki var í byrjun rannsóknar aflað gagna um símasamskipti ákærða og A hjá símafyrirtæki hans, en aðeins látið nægja að kalla eftir þeim hjá símafyrirtæki hennar.

Eins og málið liggur fyrir er ekki unnt að leggja efnisdóm á það vegna þess að héraðsdómur hefur sem fyrr segir ekki lagt mat á öll þau sönnunargögn, sem færð höfðu verið fram áður en hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp, auk þess sem ný gögn hafa síðar komið fram. Þannig gaf vitnið G skýrslu fyrir héraðsdómi eftir uppkvaðningu dómsins og gæti vitnisburður hennar haft þýðingu við úrlausn málsins, en Hæstiréttur getur ekki lagt mat á sönnunargildi hans samkvæmt 1. mgr. 111. gr. og 1. mgr. 112. gr., sbr. 2. mgr. 208. gr., laga nr. 88/2008. Þá er nauðsynlegt að fram fari rannsókn á myndinni úr farsíma ákærða, en ekki er loku fyrir það skotið að unnt sé að leiða í ljós, til dæmis með sérfræðilegri athugun á henni, hvort hún sé af A.

Með skírskotun til 1. mgr. 204. gr. og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki hjá því komist, að virtu öllu því sem að framan greinir, að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur verði aftur á það felldur.

Ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns A fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 1.040.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.