Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Gáleysi
  • Skilorð
  • Dráttur á máli
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 6. mars 2014.

Nr. 329/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Ásgeir Jónsson hrl.

Jón Haukur Hauksson hdl.)

(Einar Gautur Steingrímsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Gáleysi. Skilorð. Dráttur á máli. Skaðabætur. Sératkvæði.

X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa í tvö aðgreind skipti haft kynferðismök við A, sem þá var 14 ára, gegn greiðslu, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur piltsins. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 202. gr., sbr. 204. gr., og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en rétt þótti að fresta fullnustu 9 mánaða af refsingunni skilorðsbundið í 3 ár sökum þess að meðferð málsins hafði dregist úr hömlu, af ástæðum sem X varð ekki um kennt. Þá var X gert að greiða A 600.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega sýknu af einkaréttarkröfu brotaþola, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2011 til 4. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot á 1. mgr. 202. gr., sbr. 204. gr., og 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga varðar brot gegn því ákvæði fangelsi ekki skemur en eitt ár. Í 204. gr. er kveðið á um að hafi slíkt brot verið framið af gáleysi um aldur þess er fyrir brotinu varð skuli beita vægari refsingu að tiltölu sem þó megi ekki fara niður fyrir „lágmark fangelsis“, en af 102. gr. laga nr. 82/1998, sem breytti niðurlagi ákvæðisins, verður ráðið að þar sé átt við 30 daga fangelsi, sbr. 1. mgr. 34. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu skal beita tiltölulega vægari refsingu fyrir þau brot á 1. mgr. 202. gr. sömu laga, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, en gert hefði verið ef hann hefði sannanlega haft vitneskju um aldur brotaþola. Með hliðsjón af nýlegum dómum Hæstaréttar í málum þar sem refsað hefur verið fyrir síðastgreind brot, sem og að teknu tilliti til þess að ákærði játaði brot sín og honum hefur ekki áður verið gerð refsing, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði.

Ákæra var gefin út á hendur ákærða 31. október 2011. Í þinghaldi 8. desember sama ár játaði hann þá háttsemi, sem honum var gefin að sök, og var dómur kveðinn upp í héraði 9. febrúar 2012 samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með dómi Hæstaréttar 7. júní sama ár í máli nr. 132/2012 var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Hinn áfrýjaði dómur var síðan kveðinn upp 2. janúar 2013 og honum áfrýjað sem fyrr segir 18. mars sama ár. Hinn 25. sama mánaðar staðfesti héraðsdómur endurrit úr þingbók vegna allra þinghalda í málinu, þar á meðal af skýrslum sem gefnar voru við aðalmeðferð þess. Málsgögn bárust Hæstarétti á hinn bóginn ekki fyrr en 10. janúar 2014 og hefur sú töf ekki verið skýrð. Þessi óhæfilegi dráttur, sem orðið hefur á meðferð málsins í kjölfar þess að fyrri héraðsdómurinn var kveðinn upp, ekki síst eftir að hinum áfrýjaða dómi var skotið til Hæstaréttar, verður ekki réttlættur. Vegna þess hve málsmeðferðin hefur dregist úr hömlu af ástæðum, sem ákærða er ekki um að kenna, verður refsingin að hluta bundin skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna hinnar refsiverðu háttsemi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður tekið tillit til þess að miski brotaþola, eins og honum er lýst í gögnum málsins, á rætur að rekja til fleiri en ákærða. Auk þess leiðir af gögnunum að háttsemin, sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu, hafi vegið minna en háttsemi annarra. Að þessu virtu verður staðfest ákvörðun héraðsdóms um miskabætur. Fallist er á kröfu brotaþola hér fyrir dómi um vexti af þeirri fjárhæð eins og fram kemur í dómsorði.

Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr., sbr. 4. mgr. 220. gr., laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar á meðal þóknun verjanda síns og réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2011 til 4. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 648.065 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara

Ég er sammála meirihluta dómenda um annað en ákvörðun skaðabóta.

Við mat á miska brotaþola vegna þeirrar háttsemi ákærða, sem sakfellt er fyrir í málinu, tel ég, eins og meirihluti dómenda, að leggja beri til grundvallar að miska hans var valdið af fleiri mönnum en ákærða og að sérfræðileg gögn, sem liggja frammi í málinu, benda til þess að þáttur ákærða í miskanum sé minni en annarra. Af hálfu ákærða hefur í þessu máli verið haldið fram þeirri málsástæðu að lækka beri miskabætur til brotaþola meðal annars vegna reglna skaðabótaréttar um eigin sök tjónþola. Samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður að mínu áliti ekki hjá því komist að leysa úr einkaréttarkröfu, eins og hér um ræðir, á sama hátt og gert er í einkamáli. Upplýst er í málinu að brotaþoli hafði sjálfur frumkvæði að samskiptunum við ákærða með því að auglýsa á netinu kynlífsþjónustu gegn greiðslu. Samskipti hans og ákærða fólu ekki í sér annað en stofnað var til af  hálfu brotaþola. Hann á því sjálfur sinn þátt í því að hann hlaut þann miska sem hann krefst nú bóta fyrir. Samkvæmt reglum skaðabótaréttar tel ég að hann eigi að bera helming tjóns síns sjálfur. Ég tel því að dæma eigi honum 300.000 krónur í miskabætur með þeim vöxtum, sem tilgreindir eru í atkvæði meirihluta dómenda.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 2. janúar 2013.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 31. október á hendur ákærða X, kt. [...], [...], [...]. Málið var dómtekið 28. nóvember sl.

Málið var upphaflega dómtekið 8. desember 2011 og dómur kveðinn upp hinn 9.febrúar 2012. Með dómi Hæstaréttar frá 7. júní sl. var sá dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærða  

„ fyrir kynferðisbrot framin í janúar eða febrúar á árinu 2011 á [...]:

I.

Með því að hafa í tvö aðgreind skipti haft kynferðismök við A, fæddan [...], sem þá var fjórtán ára, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur piltsins, með því að hafa í bæði skiptin látið piltinn fróa sér og sjúga á sér kynfærin og auk þess í annað af framangreindum skiptum haft við hann endaþarmsmök.

Telst þetta varða við 204. gr., sbr. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007. 

II.

Með því að hafa í fyrrgreind skipti greitt A fyrir vændi barns með reiðufé, samtals allt að kr. 30.000, sbr. I. ákærulið.

Telst þetta varða við 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2007 og 2. gr. laga nr. 54/2009.  

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt. [...], vegna ólögráða sonar hennar, A, kt. [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.600.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðstryggingu nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“

Ákærði mætti við þingfestingu málsins hinn 15. nóvember 2011 ásamt verjanda sínum og óskaði eftir fresti til að tjá sig um sakarefnið. Í þinghaldi hinn 8. desember 2011 játaði ákærði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru en hafnaði bótakröfu. Var bótakröfunni því vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli með heimild í 1. mgr. 175. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Var málið flutt um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Í framhaldinu var kveðinn upp dómur hinn 9. febrúar 2012. Með dómi Hæstaréttar hinn 7. júní 2012 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Í þinghaldi 19. október sl. er mál þetta var tekið fyrir að nýju eftir dóm Hæstaréttar frá 7. júní játaði ákærði að hafa haft kynferðismök við drenginn í 2 skipti það hafi verið munnmök og fróun. Hann mótmælti því að hafa átt endaþarmsmök við brotaþola. Hann kvað hluta fjárhæðar þeirrar er greinir í II. lið ákæru vera vegna þess að brotaþoli hafi haft af honum fé með fjárkúgun eftir að brotin áttu sér stað. Ákærði mótmælti bótakröfu. Mál nr. E-[...] var fellt niður og fjallað er um bótakröfu í því máli sem hér er dæmt.

Dómkröfur ákærða nú varðandi ákæruliði I og II eru þær að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að fullnustu refsingar verði frestað skilorðsbundið. Hann krefst sýknu af einkaréttarkröfu um miskabætur en til vara að hún verði lækkuð verulega og jafnframt er þess krafist að bótakrefjandi greiði ákærða málskostnað ákærða að skaðlausu. Þá er þess krafist að allur málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þ.m.t. málsvarnarlaun og útlagður kostnaður skipaðs verjanda ákærða, að viðbættum virðisaukaskatti á málsvarnarlaunin.

Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 Málsatvik

Hinn 4. apríl 2011 fór fram skýrslutaka af brotaþola í Barnahúsi í Reykjavík sbr. a lið 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Tilefni þess var rannsókn vegna ætlaðra brota tiltekinna aðila gagnvart brotaþola. Við þá skýrslutöku sagði brotaþoli aðspurður um orðalagið X K í síma hans að það væri kennari á [...] sem hann hefði hitt. Hann hefði keypt kynlífsþjónustu af brotaþola tvisvar sinnum, það hefði verið uppi í [...]. Ákærði hefði „riðið“ honum og brotaþoli „tottað“ hann í fyrra skiptið og „tottað“ hann í það síðara. Brotaþoli giskaði á að hann hefði fengið 7-10.000 krónur fyrir „tottið“ og fyrir endaþarmsmökin um 20.000 krónur. Þetta hefði verið á árinu 2011 í bíl ákærða.

Brotaþoli kvaðst halda að hann hafi sagt ákærða að hann væri 15 ára gamall. Hann hafi skrökvað til um aldur enda verið 14 ára er þetta var. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða á MSN samskiptavef en ekki þekkt hann fyrir. Ákærði hefði sagt sér að hann ynni í framhaldsskólanum. Þegar ákærði hefði tvisvar gefið brotaþola peninga án þess að stunda kynlíf með honum hafi hann viljað fara að stunda kynlíf. Brotaþola hafi ekki langað til að gera það. Hann hafi farið inn á heimasíðu skóla þess er ákærði kenndi og fundið mynd af honum og þar hafi nafn hans og netfang verið. Hann hafi útbúið kort af netinu sem sýndi heimili ákærða og hótað honum því að hafa samband við konu hans og son ef hann borgaði sér ekki peninga. Hann hafi borgað sér í þetta skipti og verið alveg geðveikt hræddur. Síðan hafi hann aldrei svarað símanum sínum og brotaþoli ákveðið að hringja heim til hans og beðið um að tala við ákærða.

Er þessi skýrsla sem hér var rakin var gefin í Barnahúsi var enginn viðstaddur af hálfu ákærða hvorki hann sjálfur né verjandi enda beindist rannsókn þá að öðrum mönnum.

Í lögregluskýrslu dagsettri 5. apríl 2011 í framhaldi af skýrslutöku af brotaþola í Barnahúsi daginn áður segir að við þá yfirheyrslu hafi komið fram að framhaldsskólakennari á [...] hafi tvisvar keypt af honum kynlífsþjónustu. Komið hafi í ljós að um hefði verið að ræða ákærða og lýsti brotaþoli því að þeir hefðu hist tvisvar sinnum og viðskipti þeirra átt sér stað í bifreið ákærða í bæði skiptin.

Í framhaldi af þessu var ákærði handtekinn á heimili sínu hinn 6. apríl 2011 kl. 7:50 og kynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart 14 ára dreng, brotaþola. Að lokinni húsleit þar sem lagt var hald á tvær tölvur, turntölvu, sem var í skrifstofuherbergi og fartölvu sem var í forstofu íbúðarinnar, var hann færður á lögreglustöð. Þar gaf ákærði upplýsingar um notendanöfn og lykilorð inn á MSN spjallumhverfi, sem og aðgangsorð að vefsvæði á vinnustað sínum, [...]. Haft var samband við lögmann sem fenginn var til að vera verjandi ákærða og ákærði færður í fangaklefa. Kl. 11:08 hófst yfirheyrsla yfir ákærða að viðstöddum verjanda og lauk henni kl. 11:43 og var ákærði látinn laus að skýrslutöku lokinni.

Hinn 9. júní 2011 var tekin skýrsla af brotaþola í Barnahúsi að viðstöddum lögmanni er mætti vegna tilnefnds verjanda ákærða. Tilefni þessa þinghalds var kæra á hendur ákærða. Jafnframt beindist á sama tíma rannsókn á hendur öðrum manni vegna annarra brota gagnvart brotaþola sem eru því máli sem hér er dæmt óviðkomandi.

Brotaþoli var þá nýorðinn 15 ára gamall. Aðspurður um hvort hann hefði einhverju við frásögn sína frá 4. apríl 2011 sagði brotaþoli að það væri ekkert sem honum dytti í hug. Hann var spurður um hvað þeim ákærða hefði farið á milli á kynferðissviðinu og sagði að sér þætti óþægilegt að fjalla um þetta en sagði að þeir hefðu hist nokkrum sinnum. Hann hafi fengið greiddar 8.000 til 15.000 krónur fyrir. Ekki kvaðst hann muna hversu oft þeir hittust en það hefði verið snemma á árinu 2011. Ákærði hefði greitt sér fyrir kynlíf og spurður um hvers konar kynlíf hefði farið fram svaraði brotaþoli því að það hefði bara verið venjulegt, munnmök og eitthvað svona. Hann var spurður um hvort ákærði hefði átt við hann endaþarmsmök og svaraði því játandi. Hann hafi leyft ákærða að snerta sig. Ákærði hefði átt endaþarmsmök við brotaþola en brotaþoli munnmök við ákærða. Brotaþoli kvaðst ekki vita hvers vegna brotaþoli neitaði því að hafa átt endaþarmsmök við sig. Hann viðurkenndi að hann hefði beitt ákærða fjárkúgun með því að hóta honum að segja lögreglunni frá samskiptum þeirra. Í fyrsta sinn sem hann hafi gert þetta hafi brotaþoli borgað sér en síðan hætt því. Brotaþoli sagði aðspurður að þetta hefði verið 7 eða 8.000 kall eða eitthvað eins og hann orðaði það. Hann kvaðst hafa notað peningana til að kaupa vímuefni. Hann hafi hótað ákærða í síma og með tölvupósti. Hann kvaðst hafa farið heim til ákærða sem hafi sagt brotaþola að fara í burtu sem hann hafi gert. Hann kvað ákærða hafa haft endaþarmsmök við sig einu sinni.

Hinn 6. apríl 2010 var tekin skýrsla af ákærða á lögreglustöðinni á [...]. Sagði ákærði þetta hafi hafist þannig að hann hafi séð auglýsingu sem brotaþoli hefði sett inn á einkamál.is að því er hann minnti. Þar hafi hann auglýst eftir kynferðislegum samskiptum við karlmenn. Það séu jú 18 ára aldursmörk fyrir þá sem megi vera þarna með auglýsingar, það sé greinilega ekki staðið við það af þeim sem reki þennan vef. Ekki kvaðst ákærði muna hvað brotaþoli hafi sagst vera gamall þar en menn tilgreini það.  Hann hafi allavega ekki sagt að hann væri jafngamall og ákærði vissi að hann var er hann var yfirheyrður. Heldur mun eldri en ákærði hefði svona í „vitleysis bríaríi“ haft samband við hann á vefnum. Þannig hafi samskiptin byrjað. Þeir hafi spjallað og svona ekki mikið, bara öðru hvoru. Þangað til einhvers staðar í samskiptunum hafi komið fram að hann kæmi öðru hvoru á [...]. Brotaþoli hafi farið að segja að hann vilji endilega að hitta ákærða. Minnti hann ekki betur en að það hafi verið þannig að frumkvæðið hafi alltaf verið brotaþola. Hann hafi sótt það stíft að hitta ákærða. Að endingu hafi þeir ákveðið að hittast á förnum vegi á afviknum stað þar sem ákærði tók hann upp í bílinn. Þeir hafi síðan verið saman, þetta hafi nú verið ósköp saklaust í sjálfu sér, sem sagt svona stutt lítil gagnkvæm fróun, sem endað hafi með fullnægingu hélt ákærði. Brotaþoli hafi viljað fá pening fyrir þetta og í rauninni verið að auglýsa það á vefnum einkamál.is. Ákærði kvaðst hafa látið hann fá einhverja þúsundkalla, hann mundi ekki hvað það var mikið en engin ósköp og með það hafi þeir skilið. Síðan hafi þetta endurtekið sig nokkru síðar, í janúar, líklega. Hann hafi ekkert áttað sig á aldri brotaþola, séð aðeins að þetta var unglingur en þeir hafi verið í myrkri, en hann hafi ekkert áttað sig á þessum unga aldri. Brotaþoli sé frekar fullorðinslegur miðað við aldur, sem ákærði viti núna hver er. Hann hafi verið með það í huga að þetta væri strákur sem væri líklega 16 ára eða svo, væri sem sagt í efsta bekk grunnskóla. Þetta hafi síðan gerst aftur með mjög svipuðum hætti í rauninni og það hafi alltaf verið hann sem sótt hafi á. Það hafi gerst í tvígang að þeir hafi hist svona og ákærði borgað honum aðeins fyrir það að hans ósk. Síðan þá hafi hann farið að biðja um peninga og sagst vilja hitta ákærða og vilja pening, hvort hann gæti lánað honum pening. Ákærða minnti að hann hafi orðað það þannig. Brotaþola hafi sárvantað pening og ákærði kvaðst hafa asnast til að hitta hann og þá farið að spyrja hann til hvers hann þyrfti þessa peninga, hvort hann væri í dópi eða eitthvað svoleiðis. Brotaþoli hafi þrætt fyrir það. Þetta hafi bara verið tveggja manna tal sem hafi svo endað með því að ákærði hafi látið brotaþola fá nokkra þúsund kalla. Hann myndi þetta ekki vel en hann væri aldrei með mikla peninga á sér. Brotaþoli hafi farið með þetta. Svo hafi komið skilaboð um það að brotaþoli viti hver ákærði sé og nú vilji hann fá pening. Þá hafi ákærði áttað sig á því hvað í rauninni hafi verið í gangi. Þetta hafi verið hrein og klár fjárkúgun með hótunum sem alltaf hafi orðið verri og verri í samskiptum þeirra. Bæði inni á netinu og svo hafi þetta endað með því að brotaþoli fór að hringja heim til ákærða. Hann hafi verið í vandræðum, fyrst í farsímann og ákærði hafi slökkt á honum og svoleiðis og síðan hafi hann hringt í heimasímann. Mikill ófriður hafi verið af honum og ákærði náttúrulega einfaldlega kominn í voðalega mikla köku og hafi áttað sig á því í rauninni að þetta væri ekki hægt. Nánar aðspurður sagði ákærði að samskipti þeirra brotaþola hafi hafist um vefinn einkamál.is á síðari hluta ársins 2010. Brotaþoli hafi beinlínis verið að auglýsa eftir kynferðislegu samneyti við karlmenn og þeir verið að ræða það svona einhvern vegin, það hafi nú ekki verið mikið. Ekkert að klæmast með einhverjum látum eða eitthvað slíkt. Þetta hafi verið galgopaháttur einhver. Ákærði hafi ekkert átt von á því að hitta þennan mann. Eitthvað hafi langanir borið á góma og síðan hafi þeir hist í janúar í fyrsta skiptið. Brotaþoli hafi virkilega sóst eftir að hittast og látið það í veðri vaka strax að hann hafi viljað fá greitt fyrir. Þeir hafi hist í bíl ákærða og fróað hvor öðrum, svona aðeins, bara mjög léttar snertingar að sögn ákærða. Þetta hafi síðan gerst aftur um tveimur vikum síðar. Er framburður brotaþola var borinn undir ákærða sagði hann þá ekki hafa átt endaþarmsmök það megi vera að hann hafi tottað ákærða aðeins, pínulítið, og ákærði hann. Það hafi verið voðalega lítið, eitthvað þannig. Ákærði neitaði því að þeir hafi átt endaþarmsmök. Þetta hafi gerst tvisvar og ákærði greitt brotaþola einhverja upphæð í bæði skiptin. Sagði hann að það hefðu verið um 7 – 8  þúsund krónur. Hann bara hreinlega myndi það ekki. Nokkru eftir þetta hafi brotaþoli haft samband við ákærða undir því yfirskini að fá peninga. Hafi ákærði lánað honum peninga en þeir einungis talað saman í það sinn. Ákærði hafi farið að ræða við brotaþola um það til hvers hann vantaði pening og hafi þá farið að renna á hann tvær grímur varðandi þetta. Eftir þetta hafi brotaþoli farið að hafa samband við ákærða til þess að heimta af honum peninga og hóta því að láta vinnuveitenda, fjölskyldu, son ákærða, konu hans og lögreglu vita af þessu eins og að framan greinir. Hann hafi nefnt ansi háar upphæðir, 25.000 kall eða eitthvað svoleiðis. Ákærði kvaðst síðast hafa talað við brotaþola um tíuleytið kvöldið áður en hann gaf skýrslu sína sem hér er rakin. Þá hafi útidyrabjallan hringt og ákærði farið til dyra og þar hafi hann staðið ljóslifandi og sagst bara vilja fá pening. Ákærði hafi sagt að það kæmi ekki til greina og kvaðst hafa sagt brotaþola að fara og að hann vildi engin samskipti við brotaþola.

Ákærði var enn spurður um atvik  og sagði að honum hefði einu sinni orðið sáðlát, í fyrra skiptið að því er hann ætlaði, en þeir hafi átt munnmök en brotaþoli í hvorugt skiptið. Ákærði hafi borgað brotaþola í bæði skiptin einhvers staðar á bilinu 7 til 8.000. Ákærði sagði að um mánaðamótin hafi hann áttað sig á því að hann væri kominn í eitthvað fjárkúgunardæmi, hreina og klára fjárkúgun. Þá hafi hann sagt komu sinni frá þessu. Þau hafi rætt þetta fram og til baka. Hann kvaðst í rauninni hafa komið óheiðarlega fram við hana og hún hafi ekki haft hugmynd um það. Hún hafi fundið sálfræðing og ákærði farið til hans í tveggja tíma samræður. Það hafi verið mjög gott. Enn fremur hafi hann tekið ákvörðun um að hætta alfarið að drekka, að nota ekki áfengi. Vegna þess að það hafi að hluta til ruglað bara dómgreindina hjá ákærða. Hann hafi gjarnan verið eitthvað aðeins undir áhrifum áfengis þegar hann hafi verið að spjalla á netinu það hafi verið svona lítill sjúss hér og sjúss þar. Það hafi verið sjálfhætt fyrir lífstíð að nota áfengi og reyna að ná tökum á þessari kynlífsfíkn. Þá hafi ákærði verið í meðferð hjá SÁÁ, venjulegri fíknimeðferð og svo í þessu. Þannig sé hann að reyna að brjóta þessa vitleysu sem hann sé augljóslega komin í upp.

Hann kvaðst ekki vera fullkomlega „straight“, kynferðislega og hafi áttað sig á því strax og hann hafi farið að finna fyrir kynhvöt. Að hann laðaðist alveg eins að karlmönnum og konum. Síðan hafi hann kynnst konu sinni og gift sig strax, rúmlega tvítugur og þá hafi þetta dottið voðalega mikið niður. Þetta hafi alltaf verið þarna. Þetta hafi komið stundum þegar aðstæður hafi blossað upp eða verið þannig þá hafi hann einstaka sinnum verið með karlmanni. En þetta hafi aldrei verið að sínu mati annað en bara karlmaður með karlmanni, fullkomlega lögráða einstaklingar að ákveða þetta sín á milli. Eftir að hann hafi uppgötvað að vefurinn einkamal.is var til hafi hann litið þar inn öðru hverju. Þannig hafi hann spjallað við fullt af mönnum. Þetta hafi bara verið spjall í 99 prósenta tilfellum og ekkert meira. Í einstaka tilfellum hittist menn. Allt hafi þetta verið á þeim nótum að tveir fullorðnir einstaklingar séu að gera eitthvað sem öðrum faktískt komi ekki við. Spurður um hvort hann hafi áttað sig á því að brotaþoli var undir átján ára aldri sagði ákærði að hann hefði áttað sig á því að þetta væri líklega grunnskólastrákur. Hann sé framhaldsskólakennari og átti sig alveg á því hverjir séu í framhaldsskóla og hverjir ekki. Hann hafi enga grein gert sér fyrir því hvað hann var gamall því þetta hafi verið svo fljótandi hjá honum. Er hann hafi hitt brotaþola hafi hann áttað sig á því að hann gæti verið um 16 ára. Honum hafi fundist að hann gæti verið einn af nemendum í fjölbraut. Þetta hafi verið eitthvað sem ákærði hafi verið með mjög á báðum áttum hvort hann ætti að gera eða ekki.

B móðir brotaþola sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu hinn 11. apríl 2011 að skömmu eftir að áramót hafi hún verið að aka brotaþola suður til Reykjavíkur hafi hann skyndilega sagt henni að hann hefði fjárkúgað menntaskólakennara. Hann hefði farið inn á síðuna hjá menntaskóla og fundið nafn hans, heimili, hver væru börn hans og kona og hótað honum að mæta heim til hans ef hann borgaði honum ekki. Síðar hafi komið í ljós að þetta var ákærði. Brotaþoli hefði sagst hafa hitt hann úti við einhvern leikvöll og eftir það hafi hann fjárkúgað hann nokkrum sinnum um 5-10.000 krónur.

Skýrslur ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

 Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt brotaþola fyrir en verið í sambandi við hann á spjallsvæði í einn mánuð og þar hafi hann verið með auglýsingu inni. Á svæði sem eigi að vera fyrir 18 ára og eldri samkvæmt skilmálum. Ákærði hafi ekki haft hugmynd um annað en að hann væri þarna á eðlilegum forsendum og hann hefði aldrei séð þennan dreng fyrr en hann hitti hann síðan í fyrra skiptið sem þeir áttu saman. Auglýsingin hafi fyrst og fremst gengið út á það að fá einhvers konar kynlífssamband. Hann hafi verið að auglýsa eftir einhverjum kynferðislegum samskiptum við aðra karlmenn. Það hafi komið fram í samskiptum þeirra síðar að brotaþoli ætlaðist til greiðslu. Ákærði sagði að frá unglingsárum hafi hann líklega verið samkynhneigður, allavega tvíkynhneigður og verið í skáp með það. Síðan hafi hann kynnst yndislegri stúlku og þau verið gift 9 mánuðum eftir að þau kynntust. Þetta hafi þó alltaf blundað í sér þessar kenndir og síðan þegar að límið hafi farið að leysast upp í sambandinu við það að börn uxu úr grasi hafi hann farið að fá meiri svona tilfinningar gagnvart því að prufa sig áfram í sambandi við samkynhneigð. Hann hafi gert sér grein fyrir því að hann væri að brjóta á konunni sinni. Hafi hann deyft það með áfengisneyslu sem endað hafi með því að hann hafi verið orðinn nánast dagdrykkjumaður og dómgreindarskertur. Farinn að gera hluti sem honum séu gjörsamlega óeðlilegir og verið orðinn allt önnur persóna heldur en hann hafi verið alla tíð, strangheiðarlegur maður. Í þessu rugli hafi hann kynnst drengnum. Hann hafi verið farinn að spjalla á svona síðum og farinn að ræða við fjöldann allan af mönnum. En hins vegar tók ákærði skýrt fram að hann hef aldrei nokkurn tímann á ævinni girnst börn á nokkurn hátt og alls ekki kynferðislega. Hann hafi bara verið að spjalla við fólk sem sé á þessum svæðum sem sé ætlað 18 ára og eldri fullveðja einstaklingum. Þarna inni séu hins vegar alls konar einstaklingar og hann hefði átt að vita betur, að þarna geta menn verið að ljúga og allavega og þykjast vera einhverjir allt aðrir heldur en að þeir séu. Hann hafi farið að spjalla við drenginn það sé gaman að tala við fólk, hann spjalli heilmikið við fólk. Það séu margir á facebook og spjalli allan daginn og eitt leiði af öðru.  Þetta hafi þróast á mörgum árum. Alkóhólismi sé eitthvað sem komi upp svona og minnti ákærða að hann hefði verið farinn að spjalla við brotaþola einhvern tíma seinni part ársins 2010. Brotaþoli hafi einfaldlega sótt á það að þeir hefðu samskipti, þetta gerist þannig að þegar farið sé inn á þessi msn forrit sjái þeir sem séu vinir manns þar að maður sé kominn inn. Hafi síðan komið að því að brotaþoli hafi sagt sér að hann sé kominn á [...] eða sé að koma á [...] og hvort þeir ættu ekki að hittast. Þá hafi ákærði verið í þessum fáránlega vítahring og tekið þennan séns að hitta þennan dreng. Tilgangurinn hafi bara verið sá að hafa kynlíf og ákærði ekki haft hugmynd um hvað hann var gamall þá. Enda hafi ákærði aldrei vitað í raun og veru hvað hann var gamall fyrr en hann hafi hótað sér og sagt honum beinlínis að hann væri 14 ára í hótunarbréfi. Hann kvað það hafa legið fyrir að brotaþoli vildi fá greitt fyrir kynlífið er þeir ákváðu að hittast. Það hafi verið í janúar 2011 sem þeir hittust fyrst eiginlega uppi í sveit í kolsvarta myrkri á stíg við [...] á [...]. Brotaþoli hafi komið þangað gangandi og ákærði verið í bíl. Hann hafi komið inn í bílinn. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að gera sér grein fyrir því að brotaþoli væri líklega undir 18 ára aldri. Hann hafi vitað að brotaþoli væri ekki í framhaldsskóla enda kenndi ákærði í eina framhaldsskólanum á [...]. Brotaþoli hefði sagt sér að hann væri búsettur á [...]. Í fyrsta skipti sem þeir hittust hafi þeir farið á afvikinn stað þar sem „verið hafi svona fróun og munnmök, sitjandi í framsæti á bíl sitthvoru megin“. Um munnmök sagði ákærði að eitthvað sáralítið hafi átt sér stað. Aðspurður um hvort brotaþoli hafi átt munnmök við hann sagði ákærði að hann væri bara ekki alveg viss en hann haldi að svo hafi verið. Hann kvaðst örugglega hafa haft munnmök við brotaþola. Um endaþarmsmök sagði ákærði að brotaþoli hafi boðið  það en það hafi alls ekki verið inni í myndinni hjá sér. Þeir hafi setið í sitthvoru framsætinu í bíl ákærða en á milli sætanna sé gírstöng og kassi. Hann kvaðst hafa greitt brotaþola fyrir samskipti þeirra 6 – 7000 krónur í hvort sinn en brotaþoli hefði verið búinn að nefna það.  Aðspurður um aldur brotaþola sagði ákærði að hann viti ekki hver sé munurinn á 16 ára og 17 ára. En sagði jafnframt „ég er framhaldsskólakennari búinn að vera í yfir 30 ár. Þegar þú sérð krakka koma inn í skólann þá gætu sumir bara verið 12 ára miðað við útlit aðrir gætu verið 20. Þetta er gífurlegur þroskamunur á einstaklingum, það er ekki nokkur leið að segja hvað einstaklingur er gamall þegar að þú sérð þá.“ Ákærði sagðist gera sér grein fyrir því að hann hefði verið að kaupa vændi. En það að kaupa vændi barns hafi stungið sig í hjartað vegna þess að hann hafi í rauninni ekki verið að því. Hann hefði auðvitað átt að gera sér grein fyrir því. En hann hafi farið þessa leið af því að hann hafi verið að leita að fullorðnum einstaklingum, 18 ára en ekki börnum.

Brotaþoli kvað samskipti þeirra ákærða hafa hafist á msn en hann hefði síðan keypt af honum vændisþjónustu. Auglýsing hafi verið á einkamál.is frá brotaþola um að hann vildi komast í kynni við einhverja karlmenn sem vildu einhverja svona vændisþjónustu þ.e. kynlíf gegn greiðslu. Ekkert hafi komið fram um aldur brotaþola í auglýsingunni. Í samskiptum við ákærða hafi komið fram að brotaþoli vildi fá greiðslu fyrir að eiga með honum kynlíf. Hann kvaðst halda að talað hafi verið um eitthvað svona á bilinu frá 7-20.000 krónur. Eftir því hvers konar kynlíf væri um að ræða. Munnmök hafi kostað 7.000 krónur en endaþarmsmök 20.000 krónur. Hann kvaðst ekki  muna nákvæmlega hvað hann hefði sagt ákærða um aldur sinn. Hann hefði sagt honum að hann væri í skóla á [...]. Þeir hafi ákveðið að hittast til þess að eiga kynlíf gegn greiðslu. Þeir hafi hist í [...] á [...] en það sé fjarri byggð og ekki opið svæði. Í fyrra skiptið hafi þetta einungis verið munnmök og svo héldi hann að endaþarmsmök hefði átt sér  stað í annaðhvort skiptið en ekki myndi hann alveg hvort skiptið það var. Hann kvaðst hafa fróað ákærða með höndum og haft munnmök við ákærða, en ákærði hafi ekki haft munnmök við hann. Þá hafi ákærði haft endaþarmsmök við brotaþola inni í bílnum en mundi ekki hvar í bílnum mök áttu sér stað. Ákærði hafi greitt fyrir samskipti þeirra. Þeir hafi ekki rætt aldur brotaþola er þeir áttu samskipti. Eftir þetta hafi brotaþoli fengið peninga frá ákærða eftir að hafa hótað honum að segja frá atvikum. Fram kom hjá brotaþola að hann hefði byrjað að stunda vændi 11 ára gamall til þess að fjármagna neyslu á „grasi“  og morfíntöflum.

Vitnið B, móðir brotaþola lýsti því að brotaþoli hefði verið kærður fyrir að stela veski af öðrum manni. Sama kvöld hafi hann skilið síma sinn eftir heima. Vitnið og vinur brotaþola hafi farið að skoða símann hans og þá séð nafnið hans X í símanum undir eitthvað X kúnni eða eitthvað. Þessi strákur hafi strax sagt þetta er X kennari, kannaðist eitthvað við hann. Í framhaldi af því hafi þetta komist upp þegar gengið hafi verið á brotaþola. Brotaþoli hafi sagt vitninu að hann hefði verið að selja sig en ekki sagt henni frá samskiptum sínum og ákærða.  Einhvern tíma hafi hún verið að fara með í viðtal á Bugli (Barna- og unglingageðdeild) og þá hafi hann sagt henni að hann hefði verið að selja sig framhaldsskólakennara en vitnið hélt hann væri að tala um eitthvað eldra. Hann hafi verið 12 ára að verða 13 ára þegar hann sagði vitninu fyrst að hann hefði verið að selja sig. Það var þegar þau bjuggu annars staðar á landinu og kvaðst vitnið hafa haldið að hann væri að tala um eitthvað gamalt. Henni hafi ekki dottið í hug að hann væri ennþá að þessu. Um líðan brotaþola sagði vitnið að hún væri bara svona upp og niður. Hann sé náttúrulega mjög brotinn bæði eftir neysluna og þessi kynferðisbrot gegn honum. Hann sé bara mjög misjafn, svona upp og niður. Hann sé þunglyndur og hafi verið það fyrir en hann hafi ekki lagast neitt hvorki við neysluna né þetta.

Vitnið Þorbjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur, kvað brotaþola hafa komið til sín í alls þrjátíu skipti. Viðtölin hafi hafist í apríl 2010 en samt ekki að neinu marki fyrr en í október það ár. Viðtalsmeðferð sé ekki lokið og muni halda áfram um óákveðinn tíma. Vandi drengsins sé mjög fjölþættur. Hann hafi verið háður hörðum fíkniefnum, meðal annars farinn að sprauta sig 14 ára gamall. Það sé ljóst að þegar þessi umrædd meint brot hafi átt sér stað hafi hann verið mjög langt leiddur í fíkniefnaneyslu. Hann hafi líka sætt endurteknum kynferðisbrotum og fjögur mál verið í rannsókn og þetta sé eitt af þeim. Líðan hans hafi verið slæm, hann hafi sýnt mikil kvíða- og streitueinkenni. Sjálfsmynd hans hafi verið mjög brotin og hann litið á sjálfan sig í rauninni mjög neikvæðum augum og falið sig á bak við málningardót og stöðugt breytt útliti sínu og þess háttar. Það hafi gengið vel á köflum hjá honum, honum hafi tekist að ná aðeins betri tökum á sjálfstraustinu sínu og byggja það upp en hann sé mjög brothættur ennþá. Þess vegna hafi verið ákveðið að auka aftur við viðtölin og hefja reglulega viðtalsmeðferð að nýju. Vitnið kvað ótvírætt að brotaþoli hefði stundað vændi og orðið fyrir endurteknum kynferðisbrotum. Hann hafi sagt vitninu frá samskiptum sínum við ákærða. Brotaþoli hafi sagst hafa hitt þennan umrædda mann og hann hafi borgað honum fyrir kynlífsþjónustu og það hafi líka haft mikil áhrif á hann og líðan hans varðandi þetta sérstaka mál sú staðreynd að þessi maður búi í því samfélagi sem hann sjálfur búi í og sé framhaldsskólakennari eða hafi verið framhaldsskólakennari á þeim stað. Þetta hafi verið mjög erfitt fyrir hann og hann haft mikla þörf fyrir að ræða það sérstaklega. Þau áhrif sem það hafi. Sérstaklega þar sem hann var sjálfur í grunnskóla á þessum tíma í sama bæjarfélagi. Þannig hafi brotaþoli talað við vitnið alveg sérstaklega um þetta. Ekki hafi hann talað um hversu oft þeir hittust né um það kynlíf sem þeir áttu utan þess að það hafi verið mjög gróft.

Vitnið Helgi G. Garðarsson, geðlæknir á barna og unglingadeild LSH sagði að brotaþoli væri náttúrlega mjög ungur kominn út í áhættuhegðun og fíkniefnaneyslu líka. Eitt af því fyrsta sem hverfi við fíkniefnaneyslu sé dómgreind og mat á réttu og röngu. Það sé erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það hafi verið til staðar áður en það sé enginn vafi á því að mati vitnisins eftir að hann hafi byrjað í fíkniefnaneyslu. Þetta sé mjög sláandi. Hann komi sér að einhverju leyti í slíkar aðstæður eins og málið snúist um. Brotaþoli hafi ekki mikla tilfinningalega dýpt þannig að hann skilji tilfinningamerkingu. Upplifi iðrun eða samviskubit eða eitthvað slíkt. Hann sé mjög tilfinningalega grunnur. Það sé bara eins og hann sé að fást við einhverja hluti en ekki persónur. Ungmenni sem verið hafi í fíkniefnaneyslu séu mjög tilfinningalega vanþroska, það taki oft tvö ár fyrir þau að komast út úr afleiðingum neyslunnar. Þetta sé það stuttu eftir að það geti vel verið að það eigi sér að hluta til rætur í þessari neyslu og hluta til kannski í hans vanþroska persónuleika sem vísbendingar séu um allt frá upphafi. Um fjárkúgun gagnvart ákærða sagði vitnið að eitt af því sem hverfi mjög við misnotkun á áfengi og fíkniefnum sé dómgreind og siðferðiskennd hverfi oft á meðan á neyslu stendur og það hverfi oft getan til þess að setja sig í spor annarra. Þarna snúist það bara fyrst og fremst um það að fjármagna hans eigin neyslu. Þá sé hann í raun og veru ekki aflögufær til þess að fara að hugsa um hver staða hans sé. Hann líti bara í sjálfu sér á ákærða eins og hlut sem geti þjónustað eitthvað fyrir hann.

Vitnið Óttar Guðmundsson, geðlæknir kvað ákærða fyrst hafa komið til sín í apríl 2011, en vitnið hafi ekki talið saman hversu oft hann hafi komið en ætlaði að það væri í ein tuttugu skipti. Vitnið kvaðst ekki telja að ákærði sé haldinn barnagirnd og ekkert hafi komið fram í þeirra viðtölum annað en það að hann hafi talið drenginn mun eldri heldur en hann í raun var. Ákærði hafi verið í miklu áfalli, mjög kvíðinn, mjög þunglyndur, örvinglaður enda öll hans tilvera hrunin til grunna. Hann hafi verið fullur af samviskubiti og sektarkennd yfir þessum skaða sem hann hefði valdið, sérstaklega fjölskyldu sinni. Hann kvaðst ekki telja að ákærði sé hættulegur eða að hann sé líklegur til að leiðast út í eitthvað svona í framtíðinni. Hann hafi hætt að drekka og vitnið ráðlagt honum að koma fram með sína kynhneigð og hætta þessum feluleik og það myndi breyta mjög miklu fyrir hann. Síðan hafi hann ráðlagt honum að stunda öll þessi sjálfshjálparsamtök, sérstaklega AA og SLAA, Sex and Love Addicts Anonymous. Síðan að fara að byggja upp sína tilveru aftur og það hafi hann gert, farið í skóla og því um líkt. Hann hafi stundað þessi samtök mjög vel og komið reglulega til vitnisins þannig að ákærði sé gjörbreyttur maður í dag miðað við það sem var þegar vitnið sá hann fyrst.

Vitnið Jónas H. Ottósson, lögreglumaður, hann sagði frá því að hann hefði tekið við rannsókn þessa þáttar vegna framburðar brotaþola í öðru máli þar sem þetta mál hefði komið upp. Hann hafi handtekið ákærða, tekið af honum skýrslu og lagt hald á tölvu hans. Engin gögn hefðu fundist í tölvu ákærða hvorki á heimili né vinnustað. Ákærði hefði þverneitað að hafa átt endaþarmsmök við brotaþola.

Loks kom vitnið Viðar Stefánsson lögreglufulltrúi fyrir dóminn og staðfesti gögn þau sem frá honum stafa í málinu en ekki þykir þörf á að rekja framburð hans hér.

NIÐURSTAÐA

Ákærða er í I. kafla ákæru gefið að sök kynferðisbrot gegn brotaþola, sem fæddur er [...] 1996, með því að hafa í janúarmánuði 2011 í tvö aðgreind skipti haft kynferðismök við brotaþola, sem þá var fjórtán ára, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur piltsins, með því að hafa í bæði skiptin látið piltinn fróa sér og sjúga á sér kynfærin og auk þess í annað af framangreindum skiptum haft við hann endaþarmsmök.

Ákærði hefur játað að hafa átt kynferðismök við brotaþola en neitar að hafa haft við hann mök um endaþarm. Hefur sú neitun hans verið stöðug og hann ekki hvarflað frá henni við rannsókn lögreglu né heldur er hann gaf skýrslu um atvik málsins hér fyrir dómi.  Gegn eindreginni neitun ákærða í þessu efni og þegar litið er til þess að brotaþoli var ekki viss um hvar í bílnum þau hefðu átt sér stað þykir ekki vera komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi haft endaþarmsmök við brotaþola.

Brotaþoli gaf skýrslu um atvik í Barnahúsi hinn 4. apríl 2011 og einnig fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Frásögn brotaþola um að ákærði hafi látið hann sjúga á sér kynfærin í tvö skipti í janúarmánuði 2011 og ákærða ber í meginatriðum saman og með því að fyrir liggur hiklaus játning ákærða á broti sínu þykir fram komin fullkomin sönnun um að hann hafi gerst sekur um brot þau gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 10. og 11. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007 sem honum eru gefin að sök í I. kafla ákæru utan þess sem að framan segir um endaþarmsmök.

Eins og áður hefur verið rakið kvaðst ákærði fyrir dómi hafa, áður en framangreint kynferðisbrot gagnvart brotaþola átti sér stað sér stað, verið búinn að gera sér grein fyrir því að brotaþoli væri líklega undir 18 ára aldri. Hann hafi vitað að brotaþoli væri ekki í framhaldsskóla enda kenndi ákærði í eina framhaldsskólanum á [...] og brotaþoli verið búinn að segja sér að hann væri búsettur á [...]. Aðspurður um aldur brotaþola sagði ákærði fyrir dómi að hann hefði verið búinn að vera  framhaldsskólakennari í yfir 30 ár. Þegar krakkar kæmu í framhaldsskólann gætu sumir, miðað við útlit, verið 12 ára en aðrir 20 ára. Gífurlegur þroskamunur væri á einstaklingum á þessu aldursskeiði og ekki nokkur leið að segja til um hvað einstaklingur væri gamall miðað við útlit. Í skýrslu hjá lögreglu 6. apríl 2010 sagði ákærði að hann hefði „verið með það í huga að þetta væri strákur sem væri líklega 16 ára eða svo, væri sem sagt í efsta bekk grunnskóla“. Með hliðsjón af þessari reynslu ákærða sem hefði átt að verða til þess að hann gætti fyllstu varkárni hvað aldur brotaþola áhrærir verður á það fallist með ákæruvaldinu að ákærði hafi sýnt af sér gáleysi um aldur brotaþola sbr. 204. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Enda þótt fram komi í málinu að ákærði greiddi brotaþola lægri fjárhæð en þá er greinir í ákæru er sannað að ákærði greiddi brotaþola, sem hann vissi að var var undir 18 ára aldri, fyrir vændi barns og gerðist með þeirri hegðan sinni sekur um brot á 2. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2007 og 2. gr. laga nr. 54/2009, svo sem hann er ákærður fyrir í II. kafla ákæru.

Ákærði hefur ekki verið sakfelldur áður fyrir brot á refsilögum. Brotaþoli er óharðnaður unglingur sem verið hafði í neyslu fíkniefna og þrátt fyrir að hann hafi leitað leiða til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína með þeim hætti sem fram kemur í máli þessu verður ekki fram hjá því litið að hann var einungis 14 ára gamall er atvik málsins urðu og sjálfsvirðing hans og sjálfsvitund skert vegna lífernis hans. Ákærði var á sextugasta aldursári er hann framdi brot sín og var í yfirburðaaðstöðu gagnvart brotaþola vegna aldursmunar og reynslu. Þykir hann hafa brotið gróflega gagnvart brotaþola. Tilraunir brotaþola til þess að hafa af ákærða fé eftir að hann hafði brotið gegn drengnum þykja ekki fela í sér neinar málsbætur. Þá er til þess að taka að ákvæði þau sem ákærði er sakfelldur fyrir hér eru beinlínis til þess ætluð að vernda börn fyrir misnotkun af því tagi sem hér átti sér stað og hegðan brotaþola í aðdraganda samskipta þeirra dregur ekki úr sök ákærða eða telst honum til málsbóta. Refsing hans, sem ákvarðast með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Enda þótt ákærði hafi játað brot sín greiðlega frá upphafi rannsóknar og tekist á við áfengisvanda sinn og lagt sig fram um að leita lausna á vanda sínum, þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans þegar litið er til eðlis brota þeirra sem hann er sakfelldur fyrir.

Réttargæslumaður hefur krafist miskabóta að fjárhæð 1.600.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu ákærða. Hafi verknaðurinn leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot og kaup á vændi er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hann rétt á skaðabótum vegna háttsemi ákærða á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu þykja bætur þessar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Loks verður ákærða með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða sakarkostnað, samkvæmt yfirliti ákæruvalds, en málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola samkvæmt ákvörðun dómsins. Þær greiðslur þykja hæfilega ákveðnar að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Sigurði G. Gíslasyni og Þórði S. Gunnarssyni héraðsdómurum.        

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í átján mánuði.

Ákærði greiði B v/A miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2011 til 4. október 2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar, hrl. 637.129 krónur, og ferðakostnað verjandans, 19.625 krónur. Þá greiði ákærði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., að fjárhæð 432.915 krónur.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti sækjanda að fjárhæð 20.000 krónur.