Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004.

Nr. 38/2004.

Ísfossar ehf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

þrotabúi Rex ehf.

(Elísabet Júlíusdóttir hdl., skiptastjóri)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Í ehf. krafðist þess að þrotabúi R ehf. yrði gert að leggja fram tryggingu til greiðslu málskostnaðar í máli sem R ehf. hafði höfðað á hendur því. Tekið var fram að ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 girtu ekki fyrir að hafa mætti uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gæfist þá fyrst til þess. Hins vegar var talið að þrotabúið hefði leitt nægar líkur að því að Í ehf. hefði mátt vera kunnugt um bágan efnahag R ehf. þegar við þingfestingu málsins. Var krafan því of seint fram komin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. janúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að leggja fram málskostnaðartryggingu.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Rex ehf. höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila 29. október 2003 og var það þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. sama mánaðar. Í málinu krafðist félagið að sóknaraðila yrði gert að greiða því 20.090.938 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum auk málskostnaðar. Af hálfu sóknaraðila var sótt þing við þingfestingu málsins og fékk hann frest til að leggja fram greinargerð til 11. desember 2003. Á því dómþingi var upplýst að Rex ehf. hefði verið úrskurðað gjaldþrota 3. sama mánaðar og að varnaraðili tæki að svo stöddu við rekstri málsins. Með vísan til þessa krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Telur sóknaraðili að leiða megi af þessum atvikum líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað í málinu en óyggjandi upplýsingar um það hafi ekki komið fram fyrr en rúmum mánuði eftir þingfestingu málsins í héraði.

Varnaraðili heldur því fram að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin þar sem honum hafi mátt vera kunnugt um bága fjárhasstöðu Rex ehf. þegar við þingfestingu málsins og því haft fullt tilefni til að hafa þá þegar uppi kröfu um málskostnaðartryggingu. Máli sínu til stuðnings vísar hann til endurrita fjórtán árangurslausra fjárnámsgerða 8. september 2003 og 7. og 9. október sama árs, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt ásamt afriti af svonefndri vanskilaskrá Lánstrausts hf., er sýni að upplýsingar um öll þessi fjárnám hafi verið komnar á skrána fyrir þingfestingu málsins.

Ákvæði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verða ekki talin girða fyrir að hafa megi uppi kröfu um málskostnaðartryggingu eftir þingfestingu máls ef sérstakt tilefni gefst þá fyrst til þess. Hins vegar verður að telja að varnaraðili hafi leitt nægar líkur að því að sóknaraðila hafi mátt vera kunnugt um bágan efnahag Rex ehf. þegar við þingfestingu málsins. Er krafa sóknaraðila því of seint fram komin. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ísfossar ehf., greiði varnaraðila, þrotabúi Rex ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2004.

                Mál þetta var þingfest 30. október 2003.  Stefndi, Ísfossar ehf., fékk frest til að leggja fram greinargerð til 11. desember 2003.  Á dómþingi þann dag var upplýst að bú stefnanda, Rex ehf., hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 3. sama mánaðar.  Af hálfu þrotabúsins sótti þing skiptastjóri þess, Elísabet Júlíusdóttir hdl., og lýsti því yfir, að ekki hefði enn verið tekin afstaða til áframhaldandi rekstur málsins.

Af hálfu stefnda var þess hins vegar krafist að stefnandi legði fram málskostnaðartryggingu vegna málsins sökum þess meðal annars að stefnandi væri ekki lengur fjárráða.  Af hálfu þrotabúsins var kröfu stefnda um tryggingu mótmælt meðal annars vegna þess að of seint væri að krefjast þess nú, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.

 

Stefndi byggir á því að bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 3. desember 2003.  Eftir þann dag hafi verið lögmætt tilefni fyrir stefnda að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar.

 

Þrotabú stefnanda byggir á því að fjöldi fjárnáma hafi verið gerðar hjá stefnanda á tímabilinu frá 8. september til 9. október 2003, sem lokið hafi verið án árangurs.  Stefnda hafi því verið kunnugt um efnahag stefnanda þegar við þingfestingu málsins.

 

Niðurstaða:  Af gögnum málsins verður ályktað að stefnda hafi verið kunnugt um bágan efnahag stefnanda er samrit stefnu málsins var móttekin af hans hálfu 29. október 2003.  Þykir krafa hans því of seint fram komin.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kröfu stefnda, Ísfossa ehf., um málskostnaðartryggingu er hafnað.