Hæstiréttur íslands

Mál nr. 79/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Rafbréf
  • Skuldajöfnuður


                                              

Föstudaginn 1. mars 2013

Nr. 79/2013.

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

gegn

Gunnari Gunnarssyni

(Ragnar Baldursson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Rafbréf. Skuldajöfnuður.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkenndur var réttur G til að skuldajafna kröfu sinni á hendur fjármálafyrirtækinu L hf. við slit þess síðarnefnda. G hafði keypt rafrænt skráða víxla á hendur L hf. áður en þrír mánuðir voru til frestsdags, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en breytingin á eignarhaldi víxlanna hafði ekki verið skráð rafrænt fyrr en eftir sama tímamark. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að G hefði í raun fengið kröfuréttindi samkvæmt rafbréfunum framseld þegar samið var um kaup á þeim og var því fullnægt skilyrðum laga til að hann gæti neytt skuldajafnaðar með kröfu sinni við kröfur sem L hf. átti á hendur G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2013, þar sem viðurkenndur var réttur varnaraðila til að skuldajafna kröfu sinni á hendur sóknaraðila að fjárhæð 50.733.333 krónur við nánar tilteknar skuldbindingar sínar. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að „öllum kröfum varnaraðila ... verði hafnað“, en til vara að „viðurkenndur réttur varnaraðila til skuldajafnaðar verði takmarkaður við kr. 50.000.000.“ Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefur heiti sóknaraðila verið breytt úr Landsbanka Íslands hf. í LBI hf.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili samning 4. júní 2008 við BK-44 ehf., þar sem sá fyrrnefndi seldi þeim síðarnefnda helmingshlut í Hólmsá ehf. fyrir 46.500.000 krónur. Í samningnum sagði meðal annars að greiða ætti kaupverðið „þegar hið selda hlutafé hefur verið skráð sem eign kaupanda í hlutaskrá félagsins, m.a. með afhendingu víxils LAIS 090401 að nafnvirði 50.000.000“, sem yrði gert „við undirritun kaupsamnings þessa þegar eignarhald hefur verið staðfest.“ Eftir framlögðum gögnum um víxla í þeim flokki, sem getið var í framangreindu samningsákvæði, voru þeir rafbréf útgefin 18. mars 2008 af sóknaraðila, sem þá hét Landsbanki Íslands hf., með gjalddaga 1. apríl 2009. Átti að skrá þá hjá Verðbréfaskráningu Íslands „í nafni viðkomandi handhafa eða vörsluaðila hans“, en nafnverð hvers víxils skyldi vera 10.000.000 krónur. Af hálfu BK-44 ehf. var 4. júní 2008 undirritað skjal á eyðublaði frá Glitni banka hf. með fyrirsögninni: „Framsal á eignarrétti rafrænt skráðra“ og hafði þar á eftir verið handritað orðið „skuldabréfa“. Þar var því lýst yfir að BK-44 ehf. framseldi og afsalaði „bréfum í flokki LAIS 090401 að nafnverði kr. 50.000.000“ til varnaraðila, sem gæti á grundvelli skjalsins „tilkynnt eigendaskipti bréfanna til reikningsstofnunar þannig að bréfin verði skráð á nafn viðtakanda á VS-reikning hans.“

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og setja yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvarðanir um að ráðstafa nánar tilteknum eignum og skuldbindingum sóknaraðila til nýs banka, sem nú ber heitið Landsbankinn hf., en í þeim ákvörðunum var meðal annars tekið fram að framsal kröfuréttinda sóknaraðila til nýja bankans ætti ekki að „svipta skuldara rétti til skuldajöfnuðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa“.

Með ódagsettu bréfi, sem barst sóknaraðila 9. október 2008, greindi varnaraðili frá því að hann ætti áðurnefnda víxla á hendur sóknaraðila, sem væru að nafnverði 50.000.000 krónur en markaðsverði 46.366.866 krónur. Hann stæði á hinn bóginn í skuld við sóknaraðila annars vegar samkvæmt samningi 24. apríl 2007 um lán til fimm ára, sem næmi að eftirstöðvum 39.274.071 krónu, og hins vegar vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107 að fjárhæð 19.337.347 krónur. Í bréfinu lýsti varnaraðili því yfir að „ofangreindum kröfum og skuldum hefur verið skuldajafnað“ og yrði skuld hans við sóknaraðila, sem stæði þá eftir, „staðgreidd að skuldajöfnun lokinni.“ Um líkt leyti virðist varnaraðili hafa komist að raun um að misbrestur hafi orðið á frágangi fyrrgreindra viðskipta hans 4. júní 2008 við BK-44 ehf. Þessu var nánar tiltekið lýst á eftirfarandi hátt í ódagsettri yfirlýsingu fyrrverandi starfsmanns Glitnis banka hf.: „1. Víxill á Landsbankann LAIS 090401 var vegna mistaka ekki framseldur í kerfum Glitnis fyrr en 8. október 2008 frá BK-44 til Gunnars Gunnarssonar ... Mistökin komu í ljós 8. október 2008 og var víxillinn þá umsvifalaust framseldur formlega í kerfum Glitnis. Var dagsetning viðskipta skráð miðað við framsalsdag 4. júní 2008. 2. Í tengslum við færslu á víxlinum frá Glitni til Landsbankans 11. nóvember 2008 komu mistökin í ljós og þótti þá rétt að breyta dagsetningu framsalsins í samræmi við skráningu í Verðbréfaskráningu Íslands, þ.e. til 8. október 2008.“ Í annarri yfirlýsingu frá sama fyrrverandi starfsmanni Glitnis banka hf. 22. apríl 2009 var eftirfarandi skýringum bætt við framangreint: „Framsalseyðublað um framsal á LAIS 090401 frá BK-44 ehf. til Gunnars Gunnarssonar ... var fyllt út hjá undirritaðri hinn 4. júní 2008 og undirrituð vottaði rétta dagsetningu, undirskrift og fjárræði framseljanda. Vegna mistaka láðist undirritaðri að afgreiða framsalseyðublaðið og lá það óafgreitt hjá mér þar til farið var að spyrjast um bréfið í október 2008. Var framsalið fært formlega í kerfi Glitnis 8. október 2008. Hefði undirrituð ekki gert ofangreind mistök væri réttur framsalsdagur í kerfum Glitnis 4. júní 2008, sbr. eyðublað um framsal á eignarrétti rafrænt skráðra skuldabréfa vegna viðskiptanna.“

Varnaraðili ítrekaði áðurgreinda yfirlýsingu sína um skuldajöfnuð í bréfum 24. febrúar og 24. apríl 2009 til sóknaraðila, sem svaraði loks með bréfi 20. október sama ár, þar sem skuldajöfnuði var hafnað. Um það vísaði sóknaraðili til almennra reglna um viðskiptabréf og sérreglna í lögum nr. 131/1997 um rafræna eignaskráningu verðbréfa, einkum 16. og 19. gr. laganna, en samkvæmt þeim færi „ekki fram fullt framsal réttinda yfir rafbréfi fyrr en við eignarskráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands.“ Slík skráning væri jafngildi skilríkja um eignarrétt að viðskiptabréfi gagnvart skuldara. Víxlar, sem varnaraðili vildi nýta til skuldajafnaðar við kröfur Landsbankans hf. á hendur honum, hafi ekki verið framseldir „á lögformlegan hátt“ samkvæmt ákvæðum laga nr. 131/1997 fyrr en 8. október 2008. Frestdagur við slit sóknaraðila væri 15. nóvember 2008. Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, sem hér ætti við, væri meðal skilyrða skuldajafnaðar við slit sóknaraðila að lánardrottinn hans hefði eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir væru til frestdags. Því skilyrði væri ekki fullnægt og væri af þeim sökum hafnað kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð.

Varnaraðili lýsti kröfu á hendur sóknaraðila með bréfi, sem barst þeim síðarnefnda 30. október 2009. Samkvæmt því var höfuðstóll kröfu varnaraðila á grundvelli áðurgreindra víxla að fjárhæð 50.000.000 krónur, en við bættust 740.000 krónur í dráttarvexti frá gjalddaga þeirra, 1. apríl 2009, til 22. sama mánaðar þegar slitameðferð sóknaraðila hófst, ásamt 507.400 krónum í þóknun lögmanns fyrir kröfulýsingu. Í kröfulýsingunni kvaðst varnaraðili jafnframt eiga rétt á að skuldajafna þessari kröfu við skuld sína við Landsbankann hf. vegna láns samkvæmt samningnum frá 24. apríl 2007 og yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107, en fjárhæðar hennar var ekki getið. Tekið var fram að krafist væri að „allir vextir og kostnaður er skuldfærður hefur verið“ á tékkareikninginn eftir 9. október 2008 yrði „bakfærður og greiddur inn á reikninginn.“ Sóknaraðili tilkynnti varnaraðila 30. ágúst 2011 að krafa hans hafi verið viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 með þeirri fjárhæð höfuðstóls, sem fram kom í kröfulýsingu, auk dráttarvaxta til 22. apríl 2009 að fjárhæð 733.333 krónur, en kröfu hans um skuldajöfnuð væri hafnað. Ágreiningur reis um þessa afstöðu sóknaraðila til kröfu varnaraðila og var honum beint til héraðsdóms 7. maí 2012, en af því tilefni var mál þetta þingfest 23. sama mánaðar.

II

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997 skal skrá réttindi yfir rafbréfi í verðbréfamiðstöð til að þau fái notið réttarverndar gegn fullnustugerðum og ráðstöfun þeirra með samningi, en óheimilt er að gefa út eða framselja viðskiptabréf fyrir skráðum réttindum samkvæmt rafbréfi og skulu slík viðskipti vera ógild. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar veitir eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð skráðum eiganda lögformlega heimild fyrir þeim réttindum, sem hann er skráður eigandi að, og skal hún jafngilda skilríkjum um eignarrétt að rafbréfi gagnvart útgefanda þess. Í 19. gr. laganna er mælt svo fyrir að réttindi grandlauss framsalshafa að rafbréfi verði ekki vefengd eftir lokafærslu í verðbréfamiðstöð, en þó glatist ekki mótbárur gagnvart honum vegna meiri háttar nauðungar eða fölsunar. Samkvæmt 21. gr. laganna fer stofnun réttinda yfir rafbréfi eftir almennum reglum að því leyti, sem annað er ekki greint í lögunum.

Eins og ráðið verður af áðurgreindu leitast varnaraðili við að fá framgengt í máli þessu skuldajöfnuði gagnvart sóknaraðila með kröfu á grundvelli svonefndra rafrænna víxla. Þegar ákvæðum laga nr. 131/1997 er beitt um slík verðbréf verður að gæta að því að skráningu réttinda yfir þeim í verðbréfamiðstöð er sýnilega ætlað að veita sömu réttindi og víxilhafi nyti ella vegna handhafnar víxils, sem almennar reglur víxillaga nr. 93/1933 tækju til. Hvorki verður í þeim lögum né almennum reglum fjármunaréttar fundin stoð fyrir því að afhenda þurfi framsalshafa víxil, sem ritaður er á pappír, til þess að aðilaskipti geti talist hafa orðið að kröfuréttindum samkvæmt honum, þótt handhöfn geti eftir atvikum verið skilyrði þess að eigandi geti beitt rétti sínum samkvæmt víxlinum. Af fyrrgreindum ákvæðum laga nr. 131/1997 verður ekkert ráðið um að skráning réttinda yfir rafbréfi í verðbréfamiðstöð sé heldur skilyrði þess að eignarréttur að kröfuréttindunum teljist að lögum hafa skipt um hendur, þótt slík skráning sé nauðsynleg til réttarverndar fyrir framsalshafa og til þess að hann öðlist réttindi fyrir traustfang, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 16. gr. og 19. gr. laganna. Samkvæmt þessu og með vísan til 21. gr. sömu laga verður ekki fallist á með sóknaraðila að skráning eignarréttar varnaraðila að rafbréfunum, sem um ræðir í málinu, í verðbréfamiðstöð hafi verið skilyrði þess að hann geti talist hafa eignast kröfu samkvæmt þeim í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hefur ekki vefengt í málinu að varnaraðili hafi í raun fengið kröfuréttindi samkvæmt rafbréfunum framseld 4. júní 2008, þótt skráning þeirrar ráðstöfunar í verðbréfamiðstöð hafi ekki farið fram fyrr en 8. október sama ár. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 til að varnaraðili geti neytt skuldajafnaðar með kröfu sinni samkvæmt rafbréfunum, svo langt sem hún hrekkur til, við skuld samkvæmt lánssamningi 24. apríl 2007 og vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107, sem hann stóð upphaflega í við sóknaraðila en mun nú vera við Landsbankann hf.

Krafa varnaraðila samkvæmt rafbréfunum, sem um ræðir í málinu, féll í gjalddaga 1. apríl 2009 og verður að miða við að skuldajöfnuður verði á þeirri kröfu, eins og hún stóð þann dag, við kröfur samkvæmt fyrrnefndum lánssamningi og vegna yfirdráttar, eins og þær stóðu á sama tíma. Krafa varnaraðila, sem kemur þannig til skuldajafnaðar, er að fjárhæð 50.000.000 krónur og verður niðurstaða málsins samkvæmt þessu eins og fram kemur í dómsorði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur varnaraðila, Gunnars Gunnarssonar, til að neyta skuldajafnaðar með kröfu sinni á hendur sóknaraðila, LBI hf., að fjárhæð 50.000.000 krónur við skuld sína við Landsbankann hf. annars vegar samkvæmt lánssamningi 24. apríl 2007 og hins vegar vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107, eins og sú skuld stóð 1. apríl 2009.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 500.000 krónur í málskostnað í héraði og 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2013.

            Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 16, Reykjavík, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi dagsettu 7. maí sl. og mótteknu daginn eftir með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili er Gunnar Gunnarsson, kt. 161172-3409, Lambaseli 5, Reykjavík. Með úrskurði dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðnum 10. maí sl. voru allir dómarar þess dómstóls úrskurðaðir vanhæfir til þess að fara með málið samkvæmt ákvæðum g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, en sóknaraðili er eiginmaður Barböru Björnsdóttur sem þá var settur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómstólaráð fól því undirrituðum dómara, sem er dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands, meðferð málsins samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

            Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. nóvember sl.  

            Sóknaraðili gerir þá dómkröfu að viðurkenndur verði réttur hans til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila að fjárhæð kr. 50.733.333, er viðurkennd hefur verið sem almenn krafa í bú varnaraðila með auðkennið 4267 í kröfuskrá varnaraðila á móti skuldbindingum sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankann hf. vegna annars vegar yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107 og hins vegar láns nr. 0115-7833, útg. 24. apríl 2007, upphaflega að fjárhæð kr. 30.000.000, miðað við réttmæta stöðu skuldbindinganna þann 1. apríl 2009. Þá krefst sóknaraðili að honum verði úrskurðaður málskostnaður auk virðisaukaskatts úr hendi varnaraðila vegna reksturs þessa ágreiningsmáls, þar sem sóknaraðili sé ekki með virðisaukaskattskylda starfsemi.

            Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins.

Málavextir.

            Málavextir eru þeir að þann 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Nýi Landsbankinn hf. var þá stofnaður (nú Landsbankinn hf.) og voru innlendar innstæður varnaraðila, sem og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans, fluttar yfir til nýja bankans, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október sama ár um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Framangreindri ákvörðun var breytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 12. október sama ár og kveðið á um að Landsbankinn hf. tæki ekki við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt afleiðusamningum. Loks var með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október sama ár kveðið á um að framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október sama ár skyldi ekki svipta skuldara rétti til skuldajafnaðar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans. Þann 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir varnaraðila samkvæmt skriflegri beiðni skilanefndar. Frestdagur við slitameðferð varnaraðila er 15. nóvember 2008 samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002. Þann 30. apríl 2009 gaf slitastjórn Landsbanka Íslands hf. út innköllun til kröfuhafa sem fyrst var birt í Lögbirtingablaðinu sama dag. Kröfulýsingarfresti lauk þann 30. október sama ár. Með kröfulýsingu dagsettri 27. október sama ár, sem móttekin var af slitastjórn varnaraðila þann 30. október sama ár, lýsti sóknaraðili kröfu sinni að fjárhæð kr. 51.247.400 á hendur Landsbanka Íslands  hf. Kröfulýsingin var byggð á víxilútgáfu Landsbanka Íslands hf. og var gerð krafa um greiðslu höfuðstóls að fjárhæð kr. 50.000.000 auk áfallinna dráttarvaxta að fjárhæð kr. 740.000 frá 1. apríl 2009 til 22. apríl sama ár. Þá var gerð krafa vegna kostnaðar við gerð kröfulýsingar, kr. 507.000. Um rétthæð kröfunnar var vísað til 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en kröfu um kostnað var lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 114. gr. sömu laga. Í kröfulýsingu sóknaraðila var því lýst yfir að hann ætti rétt til að skuldajafna lýstri kröfu sinni á móti skuldbindingum sem hann stóð í við Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankann hf., sbr. 100. gr. sömu laga og 14. tl. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 með síðari breytingum. Í skrá um lýstar kröfur við slitameðferð bankans kemur fram að slitastjórn hafi samþykkt kröfu sóknaraðila að fjárhæð kr. 50.000.000 að öllu leyti sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga sem og kröfu um dráttarvexti til og með 22. apríl 2009 að því leyti sem hún samrýmdist gögnum og útreikningum slitastjórnar að fjárhæð kr. 733.333. Þá var sóknaraðila tilkynnt að ekki væri tekin afstaða til lýstra eftirstæðra krafna sóknaraðila, sbr. 119. gr. sömu laga. Þá var sóknaraðila tilkynnt að slitastjórn gæti ekki fallist á kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð. Sóknaraðili hefur lagt fram gögn sem hann telur sýna fram á að hann hafi fengið kröfuna framselda þann 4. júní 2008 en vegna mistaka starfsmanns bankastofnunar hafi formleg rafræn framsalstilkynning til Verðbréfaskráningar Íslands ekki farið fram fyrr en 8. október 2008. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst einvörðungu um það hvort sóknaraðili hafi eignast kröfu sína á hendur varnaraðila áður en þrír mánuðir voru til frestdags í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 en varnaraðili telur að fullt framsal réttinda yfir rafbréfi fari ekki fram fyrr en við eignarskráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

            Sóknaraðili byggir á því að enginn vafi leiki á því að sá dagur sem sannað sé að framsalið hafi farið fram og hann þar með eignaðist kröfuna, sé sá dagur sem ráði því hvort kröfuhafi hafi eignast kröfu á hendur þrotabúi áður en þrír mánuðir eru til frestdags. Fyrir liggi að framsal eignarréttarins hafi farið fram 4. júní 2008 og frestdagur við skipti varnaraðila sé 15. nóvember 2008, eða rúmlega fimm mánuðum síðar. Við framsalið hafi eignarrétturinn færst yfir til sóknaraðila og krafan orðið eign hans í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Fyrir mistök hjá starfsmanni bankastofnunar er annast hafi viðskiptin hafi framsalstilkynning ekki farið til Verðbréfaskráningar Íslands fyrr en síðar. Sú skráning skipti ekki máli þar sem engar kröfur séu gerðar um það í 1. mgr. 100. gr. laganna um skráningu eignarréttinda og því gildi almennar reglur um sönnun þegar virt sé hvort eigendaskipti að kröfu hafi farið fram fyrir tilskilin tímamörk. Eignarskráning rafbréfs í kerfum Verðbréfaskráningar Íslands veiti sönnun um eignarrétt en sé ekki sönnun um það hvenær til eignarréttindanna hafi verið stofnað. Skráningin veiti þannig framsalshafa vernd gagnvart fullnustugerðum og ráðstöfun með samningi. Skráningin sé jafnframt sönnun eignarréttinda gagnvart skuldara og sé skuldara alltaf rétt að greiða kröfuna til skráðs eiganda rafbréfsins. Réttaráhrif skráningar í skilningi ákvæðis 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa miðist við það tímamark þegar lokafærsla hafi átt sér stað hjá verðbréfamiðstöð, sbr. 3. mgr. 16. gr. Með réttaráhrifum í ákvæðinu sé aðeins átt við þau réttaráhrif sem fjallað sé um í 16. gr og hafi þau ekki víðtækara gildi eins og varnaraðili haldi fram. Hafi skráningin þannig ekkert sönnunargildi um það tímamark er kröfuhafi eignaðist kröfuna í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti ef sönnun um það tímamark liggur fyrir. Hafi tímamark skráningar í verðbréfamiðstöð þannig eingöngu þýðingu varðandi réttarvernd kröfuhafa gagnvart þriðja manni.

            Sóknaraðili telur að gera verði greinarmun á milli réttarverndar gagnvart fullnustuaðgerðum og ráðstöfun með samningi annars vegar og hins vegar kröfuhafaskiptum. Það að hið fyrra hafi ekki verið uppfyllt útiloki ekki að hið síðara geti hafa átt sér stað. Kröfuhafi eftir kröfuhafaskipti þurfi þó mögulega að lúta því að geta misst rétt sinn gagnvart grandlausum skuldurum og skuldheimtumönnum. Hann sé samt sem áður rétthafi samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti. Nái kröfuhafi eftir kröfuhafaskipti að sýna fram á eignarrétt sinn yfir rafbréfi eignist hann réttindi frá og með þeim degi sem hann öðlaðist þau við kröfuhafaskiptin. Það að kröfuhafinn eða einhver annar sem hann hafi treyst fyrir réttindum sínum hafi kosið að tilkynna eigendaskiptin ekki til verðbréfaskráningar eða hreinlega gleymt því hafi ekki áhrif á eignarrétt kröfuhafans eftir kröfuhafaskiptin. Sóknaraðili telur því að skilningur varnaraðila á ákvæðum 16. og 19. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa fái ekki staðist, enda fjalli ákvæðin aðeins um réttarvernd aðila að rafbréfum. Þá fái skilningur sóknaraðila ekki staðist þegar litið sé til ákvæða 21. gr. laganna þar sem fram komi að um stofnun réttinda yfir rafbréfum fari að öðru leyti en greinir í lögunum eftir almennum reglum laga. Í greinargerð með frumvarpinu megi sjá að skilningur löggjafans á takmörkuðu gildissviði 16. gr. laganna samræmist skilningi sóknaraðila, en þar segi um ákvæði 21. gr.: „Í 16. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að eigi réttindi að rafbréfi að njóta réttarverndar verður að skrá þau hjá verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur starfsleyfi samkvæmt frumvarpinu. Hafi kröfuréttindi verið gefin út á rafrænan hátt er ekki öðrum heimildum til að dreifa um tilvist réttindanna og rétthafa til þeirra en þeim sem finna má í skráningu verðbréfamiðstöðvarinnar. Hinn nýi háttur við útgáfu og geymslu kröfuréttindanna hefur hins vegar engin áhrif á lögskipti aðila sem kunna að eiga rétt til greiðslu samkvæmt rafbréfi. Í þessari grein er því ítrekað að um stofnun réttinda yfir rafbréfum fari að öðru leyti eftir almennum reglum laga.“

            Sóknaraðili telur að þessi orð löggjafans staðfesti með skýrum hætti að gildissvið ákvæðis 16. gr. nái ekki lengra en að tryggja þá réttarvernd sem fjallað sé um í ákvæðinu. Um stofnun réttindanna fari eftir almennum reglum laga. Þar sem sönnun liggi fyrir um að stofnun eignarréttinda sóknaraðila yfir umræddu skuldabréfi hafi verið þann 4. júní 2008 teljist það vera sá dagur er hann eignaðist kröfuna í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Verði því að fallast á kröfur sóknaraðila og heimila skuldajöfnuð. 

            Sóknaraðili vísar einkum til 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og þá vísar hann til laga nr.131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa, einkum 16. og 21. gr. og almennra reglna kröfuréttarins. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila.

                Varnaraðili byggir á því að skuldajafnaðarkrafa sóknaraðila á grundvelli framangreindra víxla uppfylli ekki skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna öllum dómkröfum sóknaraðila. Vísað er til þess að í 1. mgr. 100. gr. laganna sé m.a. gert að skilyrði fyrir skuldajöfnuði að lánardrottinn/kröfuhafi hafi eignast kröfu á hendur þrotabúi áður en þrír mánuðir eru til frestdags og að hann hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum. Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila um skuldajöfnuð uppfylli ekki framangreind skilyrði þar sem sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að umræddir víxlar hafi verið framseldir með formlegum hætti áður en þrír mánuðir voru til frestdags, þann 15. nóvember 2008. Ágreiningslaust sé að umræddir víxlar voru rafrænt skráðir hjá Verðbréfaskráningu Íslands og teljast til rafbréfa, sbr.  lög nr. 131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa. Samkvæmt 2. gr. laganna sé rafbréf yfirhugtak yfir framseljanleg rafrænt eignarskráð verðbréf. Teljist hinir umþrættu rafrænt skráðu víxlar til viðskiptabréfa.

                Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt almennum viðskiptabréfareglum sem og þeim sérreglum sem gildi um rafbréf samkvæmt lögum nr. 131/1997, sbr. einkum 16. og 19. gr. laganna, fari ekki fullt framsal réttinda yfir rafbréfi fram fyrr en við eignaskráningu hjá Verðbréfaskráningu Íslands. Í 1. mgr. 16. gr. laganna komi fram að réttindi að rafbréfum skuli skrá í verðbréfamiðstöð ef þau eigi að njóta réttarverndar gegn fullnustugerðum og ráðstöfunum með samningi. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 16. gr. laganna sé óheimilt að gefa út viðskiptabréf fyrir skráðum réttindum samkvæmt rafbréfi eða framselja þau á hefðbundinn hátt og séu slík viðskipti ógild. Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna veiti eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð að undangenginni lokafærslu verðbréfamiðstöðvar skráðum eiganda þess lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann sé skráður eigandi að og skuli gagnvart útgefanda jafngilda skilríki um eignarrétt að rafbréfinu. Í því samhengi vísar varnaraðili til 4. mgr. 16. gr. laganna þar sem fram komi að réttaráhrif eignarskráningar teljist vera frá þeirri stundu sem lokafærsla hefur átt sér stað hjá verðbréfamiðstöð. Slík eignarskráning verðbréfs jafngildi skilríki um eignarrétt að bréfinu gagnvart skuldara. Samkvæmt 2. gr. laganna sé með eignarskráningu átt við útgáfu á rafbréfum í verðbréfamiðstöð og skráningu réttinda yfir þeim og samkvæmt sama lagaákvæði sé með lokafærslu átti við endanlega prófun og færslu eignarskráninga í verðbréfamiðstöð samkvæmt tilkynningum til hennar.

                Varnaraðili telur að ráða megi af gögnum málsins og málatilbúnaði sóknaraðila að víxlar þeir sem sóknaraðili geri kröfu um að verði skuldajafnað á móti kröfum Landsbankans hf. á hendur honum hafi ekki verið framseldir til sóknaraðila á lögformlegan hátt í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997 áður en þrír mánuðir voru til frestdags eins og áskilið sé í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Fram komi hjá sóknaraðila að lokafærsla vegna hinna framseldu víxla til sóknaraðila hafi ekki átt sér stað hjá Verðbréfaskráningu Íslands fyrr en þann 8. október 2008. Í ljósi framangreinds og einkum með hliðsjón af því að réttaráhrif eignarskráningarinnar teljast frá þeirri stundu er framangreind lokafærsla á sér stað  hjá verðbréfamiðstöð byggir varnaraðili á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 fyrir skuldajöfnuði krafnanna.

                Varnaraðili mótmælir því sem fram kemur í málatilbúnaði sóknaraðila um að sá dagur sem sannað sé að framsal hafi farið fram sé sá dagur sem ráði því hvort kröfuhafi hafi eignast kröfu á hendur þrotabúi áður en þrír mánuðir eru til frestdags í skilningi 100. gr. laga nr. 21/1991. Skýrt sé kveðið á um það í lögum nr. 131/1997 hvenær réttaráhrif eignarskráningar séu og að í tilviki sóknaraðila hafi lokafærsla eignarskráningarinnar ekki átt sér stað áður en þrír mánuðir voru til frestdags eins og áskilið sé í 100. gr. laga nr. 21/1991. Slíkt hið sama gildi um réttindi framsalshafa samkvæmt rafbréfi gagnvart útgefanda rafbréfsins og þriðja aðila. Geti sóknaraðili þannig ekki átt ríkari rétt á hendur varnaraðila, sem útgefanda, samkvæmt rafbréfinu en skráning þess hjá Verðbréfaskráningu Íslands samkvæmt lögum nr. 131/1997 beri með sér. Það sé í samræmi við almennar viðskiptabréfareglur, þ.e. að kröfuhafi öðlist ekki ríkari rétt gagnvart útgefanda viðskiptabréfs eða þriðja aðila en bréfið sjálft beri með sér. Varnaraðili mótmælir því sem röngu að tímamark skráningar í verðbréfamiðstöð hafi eingöngu þýðingu varðandi réttarvernd kröfuhafa gagnvart þriðja aðila, enda komi skýrt fram í lögum nr. 131/1997 að réttaráhrif eignarskráningar teljist vera frá þeirri stundu sem lokafærsla hefur átt sér stað hjá verðbréfamiðstöð og að slík eignarskráning rafbréfs veiti skráðum eiganda lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann sé skráður eigandi að og skuli gagnvart útgefanda jafngilda skilríki um eignarrétt að rafbréfinu. Varnaraðili vísar til athugasemda við 19. gr. frumvarpsins en þar segi svo: „Í þessari grein segir að eftir að lokafærsla hefur átt sér stað í verðbréfamiðstöð verði réttindi grandlauss framsalshafa ekki vefengd. Hér er um að ræða að fullt framsal réttinda fer fram við eignarskráningu réttindanna í verðbréfamiðstöð, enda hafi sá sem þeim hefur ráðstafað að öllu leyti heimild til þess að ráðstafa réttindunum. Eignarskráning rafbréfs í verðbréfamiðstöð skal gagnvart skuldara jafngilda skilríki um eignarrétt að rafbréfinu, sbr. 16. gr. frumvarpsins.“

                Varnaraðili vísar jafnframt til þess að ef fallist yrði á rétt til skuldajafnaðar í tilviki sem þessu kynnu skuldarar og lánardrottnar gjaldþrota aðila að misnota skuldajafnaðarréttinn með þeim afleiðingum að jafnræði kröfuhafa við þá sameiginlegu fullnustugerð sem felist í gjaldþrotaskiptum og slitameðferð fjármálafyrirtækja yrði raskað. Afar auðvelt sé fyrir eigendur og framsalshafa rafrænt skráðra verðbréfa að fylgja því eftir að lokafærsla eignarskráningar yfir rafbréfinu eigi sér stað  hjá Verðbréfaskráningu Íslands í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997. Þannig beri reikningsstofnun að tilkynna öllum hlutaðeigandi um sérhverja skráningu réttinda sem hún hafi milligöngu um, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hafi Glitnir banki hf. verið reikningsstofnun hans vegna hinna umþrættu rafbréfa. Verði ekki séð að bankinn hafi tilkynnt sóknaraðila um skráningu réttindanna hjá verðbréfamiðstöð á þeim tíma sem hið ætlaða framsal átti að hafa átt sér stað. Verði sóknaraðili að bera hallann af því að hafa ekki borið sig eftir því að hin ætluðu réttindi hans yfir rafbréfunum yrðu skráð í kerfum Verðbréfaskráningar Íslands í júnímánuði 2008. Þá vísar varnaraðili til þess að á reikning sóknaraðila í verðbréfamiðstöð hafi öll hans rafbréf verið eignarskráð, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 131/1997. Hafi sóknaraðili þannig með einföldum hætti getað gengið úr skugga um hvort hið ætlaða framsal hafi átt sér stað með lokafærslu í verðbréfamiðstöð með því að óska eftir reikningsyfirliti frá Verðbréfaskráningu Íslands, en það hafi hann látið ógert. Þá verði ekki séð að sóknaraðili hafi óskað eftir því við Glitni banka hf., sem reikningsstofnun í skilningi laga nr. 131/1997, að hin ætluðu mistök yrðu leiðrétt í kerfum Verðbréfaskráningar Íslands, en samkvæmt 22. gr. laga nr. 131/1997 skuli reikningsstofnun gera verðbréfamiðstöð viðvart og óska leiðréttingar verði hún þess áskynja að mistök hafi orðið í tengslum við skráningu. Verði sóknaraðili að bera hallann af því.

                Varnaraðili byggir á því að réttaráhrif eignarskráningar hinna umþrættu rafbréfa miðist við lokafærslu verðbréfamiðstöðvar á réttindunum. Ekki sé ágreiningur um að slík lokafærsla hafi ekki átt sér stað áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Séu því ekki uppfyllt skilyrði skuldajafnaðar samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991. Geti sóknaraðili ekki öðlast ríkari rétt á hendur Landsbanka Íslands hf. en rafbréfin og skráning réttinda yfir þeim hjá Verðbréfaskráningu beri með sér. Hafi sóknaraðili orðið fyrir tjóni vegna ætlaðra mistaka Glitnis banka hf. sem reikningsstofnunar í skilningi laga nr. 131/1997 beri honum að beina kröfum að þeim aðila en ekki varnaraðila, en samkvæmt 29. gr. laganna beri reikningsstofnun skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem rakið verður til starfsemi hennar í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikning í verðbréfamiðstöðinni.

                Varnaraðili mótmælir túlkun sóknaraðila á athugasemdum við 21. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 131/1997. Telur varnaraðili koma skýrt fram í athugasemdunum að réttindi yfir rafbréfi verði að skrá hjá verðbréfamiðstöð til að þau njóti réttarverndar og sé í engu greint á milli réttarverndar gagnvart útgefanda eða þriðja aðila. Gagnvart þessum aðilum gildi því skráning réttindanna hjá verðbréfamiðstöð. Hins vegar sé tekið fram í athugasemdunum að framangreindur háttur við útgáfu og geymslu kröfuréttindanna hafi engin áhrif á lögskipti þeirra aðila sem kunni að eiga rétt til greiðslu samkvæmt rafbréfi, þ.e. á milli framseljanda og framsalshafa. Það sé því skráning hjá Verðbréfaskráningu Íslands sem gildi gagnvart útgefanda enda jafngildi slík skráning réttinda skilríki um eignarrétt að rafbréfinu. Útgefandi rafbréfs sé þannig laus undan frekari greiðsluskyldu samkvæmt rafbréfi sé greitt til þess aðila sem skráður sé eigandi að rafbréfinu hjá Verðbréfaskráningu Íslands jafnvel þótt bréfið hafi verið framselt milli aðila. Hafi þannig lokafærsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 131/1997. Það hvort framsalshafi kynni í slíku tilviki að eignast kröfu á hendur framseljanda hafi ekkert með útgefanda rafbréfsins að gera.

                Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, víxillaga nr. 93/1933, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Þá vísar varnaraðili til almennra meginreglna sem gildi um viðskiptabréf sem og til almennra meginreglna kröfuréttar. Þá vísar varnaraðili til reglugerðar nr. 397/2000 um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. Málskostnaðarkrafa er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða.

            Með kröfulýsingu dagsettri 27. október 2009, sem móttekin var af slitastjórn varnaraðila þann 30. október sama ár, lýsti sóknaraðili kröfu sinni að fjárhæð kr. 51.247.400 á hendur Landsbanka Íslands hf. Kröfulýsingin var byggð á víxilútgáfu Landsbanka Íslands hf. og var gerð krafa um greiðslu höfuðstóls að fjárhæð kr. 50.000.000 auk áfallinna dráttarvaxta og kostnaðar við gerð kröfulýsingar. Í kröfulýsingu sóknaraðila var því lýst yfir að hann ætti rétt til að skuldajafna lýstri kröfu sinni á móti skuldbindingum sem hann stóð í við Landsbanka Íslands hf.   Slitastjórn samþykkti kröfu sóknaraðila að fjárhæð kr. 50.000.000 að öllu leyti sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 sem og kröfu um dráttarvexti. Sóknaraðila var hins vegar tilkynnt að slitastjórn gæti ekki fallist á kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð.

            Ekki er um það deilt í máli þessu að víxlar þeir er mál þetta snýst um voru rafrænt skráðir hjá Verðbréfaskráningu Íslands og teljast til rafbréfa í skilningi laga nr. 131/1997 um rafræna skráningu verðbréfa. Þá er ekki um það deilt að sóknaraðili hafi fengið umrædda kröfu framselda þann 4. júní 2008 en vegna mistaka starfsmanns bankastofnunar hafi formleg rafræn framsalstilkynning til Verðbréfaskráningar Íslands ekki farið fram fyrr en 8. október 2008. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst því einungis um það hvort sóknaraðili hafi eignast kröfu sína á hendur varnaraðila áður en þrír mánuðir voru til frestdags í skilningi 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991.

            Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur hver sá sem skuldar þrotabúinu dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru  til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa skal skrá réttindi að rafbréfum í verðbréfamiðstöð ef þau eiga að njóta réttarverndar gegn fullnustugerðum og ráðstöfunum með samningi. Í máli þessu liggur fyrir yfirlýsing bankastarfsmanns þar sem gerð er grein fyrir því að framsalseyðublað vegna umrædds víxils hafi verið fyllt út og undirritað þann 4. júní 2008 en vegna mistaka starfsmannsins hafi framsalið ekki verið fært formlega í kerfi Glitnis fyrr en 8. október sama ár. Þá liggur fyrir yfirlýsing viðsemjanda sóknaraðila, framseljanda víxilsins, þess efnis að framsalið hafi farið fram þann 4. júní sama ár og vottar að kaupsamningi sóknaraðila og viðsemjanda hans hafa staðfest framangreint, svo og lögmaður sem aðstoðaði við samningsgerðina. Varnaraðili hefur ekki leitast við að hnekkja þessum fullyrðingum og verður því að byggja á því að víxillinn hafi í raun verið framseldur sóknaraðila þann 4. júní 2008. Varnaraðili telur hins vegar að réttindi yfir rafbréfi verði að skrá hjá verðbréfamiðstöð til að þau njóti réttarverndar og sé í engu greint á milli réttarverndar gagnvart útgefanda eða þriðja aðila. Telja verður að skráning rafbréfa með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögum nr. 131/1997 sé sambærileg þeirri réttarvernd sem þinglýsingu skjala er ætlað að veita samkvæmt 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þar sem varnaraðili hefur ekki borið brigður á að raunverulegt framsal víxilsins hafi farið fram þann 4. júní 2008 og þar sem ekki verður talið að vanhöld á rafrænni skráningu hans í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997 hrófli við gildi framsalsins ber að fallast á að sóknaraðila sé heimilt að skuldajafna lýstri kröfu sinni móti skuldbindingum þeim sem hann stóð í við Landsbanka Íslands hf. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Viðurkenndur er réttur sóknaraðila, Gunnars Gunnarssonar, til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. í slitameðferð, að fjárhæð kr. 50.733.333, er viðurkennd hefur verið sem almenn krafa í bú varnaraðila með auðkennið 4267 í kröfuskrá varnaraðila á móti skuldbindingum sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankann hf. vegna annars vegar yfirdráttarskuldar á tékkareikningi nr. 0115-26-016107 og hins vegar láns nr. 0115-7833, útg. 24. apríl 2007, upphaflega að fjárhæð kr. 30.000.000, miðað við réttmæta stöðu skuldbindinganna þann 1. apríl 2009.

            Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.