Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-178
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 25. júní 2020 leitar P/f Faroe Ship leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. maí 2020 í máli nr. 544/2019: Páll Þór Ómarsson Hillers gegn P/f Faroe Ship, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Páll Þór Ómarsson Hillers leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu bóta á grundvelli 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem nema óskertum launum í uppsagnarfresti. Gagnaðili starfaði sem háseti á skipi leyfisbeiðanda á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings en var sagt upp störfum 20. maí 2016 vegna hagræðingar. Var honum tilkynnt að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti. Þá voru honum greidd grunnlaun á uppsagnarfresti en hvorki yfirvinnugreiðslur né aukagreiðslur vegna vinnu við lestun og losun skipsins. Héraðsdómur hafnaði bótakröfu gagnaðila og sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum hans. Í fyrrgreindum dómi Landsréttar var komist að öndverðri niðurstöðu og gagnaðila dæmdar bætur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Taldi dómurinn að með því að segja gagnaðila upp störfum og hafna vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti yrði að líta svo á að honum hefði verið vikið úr skiprúmi þannig að hann ætti bótarétt samkvæmt fyrrnefndu ákvæði laganna.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um túlkun 25. gr. sjómannalaga í tengslum við lögmæta uppsögn sjómanna og hvort sú staðreynd að vinnuveitandi óski ekki eftir vinnu þeirra á uppsagnarfresti falli undir það að þeim sé þá vikið úr skiprúmi í skilningi ákvæðisins. Auk þess hafi málið fordæmisgildi um það hvað fellur undir kauphugtak ákvæðisins. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda feli hann í sér að eingöngu geti komið til álita að óska ekki eftir vinnuframlagi skipverja á uppsagnarfresti þegar riftunarheimildir 23. og 24. gr. sjómannalaga séu fyrir hendi en að öðrum kosti sé vinnuveitandi bótaskyldur á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laganna. Að mati leyfisbeiðanda er sú niðurstaða röng. Leyfisbeiðandi telur það jafnframt rangt að það falli undir brottvikningu úr skiprúmi að óska eftir því að skipverji vinni ekki uppsagnarfrest sinn. Dómur Landsréttar sé auk þess í ósamræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar um túlkun 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Eins og mál þetta liggur fyrir er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni. Er beiðninni því hafnað.