Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Börn
  • Res Judicata
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. febrúar 2007.

Nr. 53/2007.

A

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

B

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð. Börn. Res judicata. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

A krafðist þess að fá son sinn og B tekinn úr umráðum B og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Héraðsdómur vísaði þeirri kröfu frá dómi á þeim grundvelli að krafan hefði áður verið dæmd að efni til og yrði ekki aftur borin undir sama eða hliðsettan dómstól. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að úrskurði um hvort umbeðin aðfarargerð færi fram yrði ekki jafnað til dóms í einkamáli sem ætlað væri að vera endanleg efnisleg niðurstaða í deilu aðila um viðkomandi sakarefni. Ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um neikvæð réttaráhrif dóms ættu því ekki við um úrskurði samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt því var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2007, þar sem vísað var frá dómi máli um kröfu sóknaraðila þess efnis að barn aðilanna yrði tekið úr umráðum varnaraðila og afhent sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.

I.

Aðfararbeiðni þar sem sóknaraðili krafðist dómsúrskurðar um að fá son sinn og varnaraðila tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentan sér með beinni aðfarargerð barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. september 2006. Var krafan sett fram með vísan til Haagsamningsins um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa og laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Héraðsdómari hafnaði þeirri beiðni með úrskurði 24. október 2006. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar, en því máli var vísað frá dómi án kröfu með dómi 21. nóvember 2006 í máli nr. 577/2006, þar sem sóknaraðili hafði sjálfur tekið barnið í umráð sín daginn áður. Drengurinn var fyrir tilstuðlan Barnaverndarnefndar Reykjavíkur tekinn úr umráðum sóknaraðila 23. nóvember 2006 og vistaður í nokkra daga á vegum nefndarinnar en síðan afhentur varnaraðila. Með aðfararbeiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 28. nóvember 2006, krafðist sóknaraðili þess á ný, með vísan til Haagsamningsins og laga nr. 160/1995, að fá son sinn og varnaraðila tekinn úr umráðum hennar og afhentan sér með beinni aðfarargerð, hafi ekki áður verið farið með drenginn til Danmerkur. Máli vegna þeirrar kröfu var vísað frá dómi með hinum kærða úrskurði.

II.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/1995 skal, leiði ekki annað af ákvæðum V. kafla laganna, farið með beiðni um afhendingu barns samkvæmt Haagsamningnum eftir lögum um aðför, en þó þannig að beiðni um aðfarargerð sæti alltaf í byrjun meðferð fyrir dómi samkvæmt 13. kafla þeirra laga. Í 13. kafla laga nr. 90/1989 eru ákvæði um meðferð máls um aðfararbeiðni fyrir héraðsdómi. Eru efnisákvæði um málsmeðferðina í 80. gr. til 83. gr. laganna, en í 1. mgr. 84. gr. þeirra er kveðið á um að almennum reglum laga um meðferð einkamála í héraði skuli annars beitt um mál samkvæmt þeim kafla eftir því sem við geti átt. Í athugasemdum með 84. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 90/1989 er vísað til þeirra reglna þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, sem ganga megi út frá að eigi við um málsmeðferð samkvæmt 13. kafla laganna. Meðal þeirra reglna sem þannig er vísað til eru ekki reglur hliðstæðar þeim sem nú eru í 1. og  2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um að úrlausn sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðilanna og þeirra er koma að lögum í þeirra stað. Með úrskurði á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989 kveður dómari á um hvort umbeðin aðfarfargerð fari fram eða ekki miðað við þær aðstæður og upplýsingar er fyrir liggja. Verður úrskurði um það ekki jafnað til dóms í einkamáli sem ætlað er að vera endanleg efnisleg niðurstaða í deilu aðila um viðkomandi sakarefni. Ákvæði laga um meðferð einkamála um neikvæð réttaráhrif dóms eiga því ekki við um úrskurði samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi um annað en gjafsóknarkostnað varnaraðila og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um annað en gjafsóknarkostnað og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 150.000 krónur.

                                                                  

                                          Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2007.

                         I

Málið barst dóminum 28. nóvember sl. og var þingfest 8. sama mánaðar.  Það var flutt og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila 16. janúar sl. 

Sóknaraðili er A, [...].

Varnaraðili er B, til heimilis á sama stað, en dvelst að [...] í Reykjavík.

Sóknaraðili krefst “dómsúrskurðar um að gerðarbeiðandi fái son sinn og gerðar­þola, B, C, fæddan í Danmörku þann [...] 2006, tekinn úr umráðum gerðarþola, Barnaverndar Reykjavíkur og afhentan sér með beinni aðfarargerð, hafi ekki áður verið farið með drenginn út til Danmerkur, með vísan til Haag samnings um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sbr. og lög nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarð­ana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl.”  Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili ekki málskostnaðar.

Varnaraðili krefst frávísunar og málskostnaðar eins og málið væri eigi gjaf­sóknar­mál.

Sóknaraðili hefur fallið frá kröfum á hendur Barnavernd Reykjavíkur.

                                 II

Mál á milli sömu aðila út af sama sakarefni hefur áður verið rekið fyrir dómnum og var úrskurður í því kveðinn upp 24. október sl.  Eftirfarandi mála­vaxta­lýsing er tekin úr þeim úrskurði.

“Sóknaraðili kveður sig og varnaraðila hafa flutt til Danmerkur haustið 2004 og séu þau skráð þar í sambúð.  Þeim hafi fæðst sonur eins og að framan greinir og fari þau sameiginlega með forsjá hans.  Sóknaraðili kveðst hafa komið heim úr vinnu 16. ágúst sl. og hafi þá varnaraðili verið farin af heimilinu með son þeirra.  Hann hafi síðar komist að því að hún hafi farið til Íslands með drenginn, en það hafi verið gegn vilja hans.  Í framhaldinu hafi hann komið til landsins og snúið sér til dóms- og kirkju­mála­ráðuneytisins sem hafi talið að um ólögmætt brottnám hafi verið að ræða.

Varnaraðili gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu sóknaraðila að þau hafi ekki verið skráð í sambúð í Danmörku.  Til að feðra drenginn hafi hins vegar þurft að fylla út og undirrita eyðublað.  Varnaraðili, sem ekki kveðst vera fær í dönsku, kveðst hafa talið sig með útfyllingunni vera að feðra drenginn, gefa honum nafn og skrá hann inn í danska kerfið, en ekki fela sóknaraðila forsjá hans með sér.  Varnar­aðili kveðst hafa farið af heimilinu vegna þess að ástandið hafi verið sér óbæri­legt og hafi hún skilið eftir bréf þar sem hún skýrði sóknaraðila frá því.  Hún hafi hins vegar ekki sagt honum hvert hún væri að fara, enda hafi hún ekki vitað það þá.

Í málavaxtalýsingu varnaraðila kemur fram að þau hafi hafið sambúð fyrir sex árum þegar hún hafi verið 15 ára en sóknaraðili 31 árs.  Af greinargerð hennar og fram­burði má ráða að hún telur sóknaraðila hafa ráðið yfir sér og stjórnað lífi sínu.  Til­raunir hennar til að losna úr sambandinu hafi ekki borið árangur fyrr en hún hafi flúið af heimilinu með drenginn.  Hún hafi fyrst leitað til kvennaathvarfs í Danmörku, en þar hafi henni verið ráðlagt að fara til Íslands þar sem hún nyti stuðnings fjölskyldu sinnar.

Í gögnum málsins, þar með töldum framburði aðila, kemur fram að varnaraðili telur vafa leika á hvort sóknaraðili sé faðir drengsins.  Hefur hún gert reka að því að höfða faðernismál í Danmörku og tilgreint þar annan mann sem hugsanlegan föður.  Fyrir dómi voru aðilar sammála um að auk þessara tveggja kæmi þriðji maður til greina sem faðir.”

Með úrskurðinum 24. október sl. var kröfum sóknaraðila hafnað.  Hann kærði úr­skurðinn til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá 21. nóvember sl.  Í dómi Hæstaréttar segir:  “Með bréfi til Hæstaréttar 20. nóvember 2006 greindi varnaraðili frá því að sókn­araðili hafi átt umgengni við son þeirra 18. sama mánaðar og tekið þá barnið í um­ráð sín, sem hann hafi haldið síðan.  Af hálfu sóknaraðila hefur verið staðfest að rétt sé með farið.  samkvæmt 78. gr., sbr. 73. gr. laga nr. 90/1989 er það markmið beinnar innsetningargerðar að veita gerðarbeiðanda, sem með ólögmætum hætti er aftrað að neyta réttinda sinna, umráð yfir öðru en því, sem um ræðir í 72. gr. laganna, með því að taka það úr umráðum gerðarþola og afhenda honum.  Sonur aðilanna er samkvæmt framansögðu ekki lengur í umráðum varnaraðila.  Við svo búið verður að vísa málinu af sjálfsdáðum frá Hæstarétti.”

Málið barst dóminum aftur eins og að framan sagði.  Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hann hafi ætlað með son sinn til Danmerkur, en verið stöðvaður af lög­reglu á Akureyrarflugvelli 23. nóvember sl. 

Í greinargerð varnaraðila segir að sóknaraðili hafi umgengist drenginn í nokkur skipti í viku meðan á fyrri málarekstri stóð.  Hafi hún farið fram í kirkju undir eftirliti starfs­manns hennar.  Laugardaginn 18. nóvember hafi sóknaraðili verið hjá drengnum í kirkjunni og þá beðið starfsmanninn um að ná í vatn sem hann hafi gert.  Er starfs­mað­urinn kom til baka voru sóknaraðili og drengurinn horfnir og í ljós hafi komið síðar að sóknaraðili hafi farið með hann til Ólafsvíkur og þaðan til Akureyrar.  Eftir að dreng­urinn hafði verið tekinn af sóknaraðili var hann í nokkra daga vistaður á vegum barna­verndarnefndar en síðan afhentur varnaraðila.

                                 III

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að varnaraðili hafi numið drenginn á brott með ólögmætum hætti frá Danmörku þar sem hann var búsettur.  Með þessu hafi hún brotið gegn rétti sóknaraðila sem forsjáraðila, en hann sé skráður faðir drengsins í Danmörku og aðilar fari sameiginlega með forsjá hans.  Máli sínu til stuðnings vísar hann til ákvæða laga nr. 160/1995.

Varnaraðili byggir kröfu sína um frávísun á því að dómurinn hafi þegar dæmt um sakarefnið og verði það því ekki aftur borið undir hann eða hliðsettan dómstól.  Vísar hún til ákvæða 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála máli sínu til stuðnings. 

                                 IV

Í málinu sem úrskurðað var í 24. október sl. hafði sóknaraðili uppi sömu kröfur á hendur varnaraðila og hann hefur í þessu máli.  Byggir hann á sömu málsástæðum og ber fyrir sig sömu lagarök. 

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 160/1995 skal fara með mál sem þetta eftir ákvæðum laga um aðför, nánar tiltekið ákvæðum 13. kafla þeirra.  Í þeim kafla er 84. gr. og þar segir að almennum reglum um meðferð einkamála í héraði skuli beitt um mál sem rekin eru samkvæmt kaflanum, eftir því sem við geti átt.  Í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 segir að krafa sem dæmd hafi verið að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í lögunum segir og nýju máli um slíka kröfu skuli vísað frá dómi.  Þar sem svo stendur á í málinu verður að vísa því frá dómi.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 150.000 krónur.

Sóknaraðili skal greiða 150.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

                                 Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá dómi.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðila, B, skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 150.000 krónur.

Sóknaraðili, A, greiði 150.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.