Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-131

A (Fjölnir Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
C ehf. (Styrmir Gunnarsson lögmaður) og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótaábyrgð
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Líkamstjón
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 23. október 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 368/2023: C ehf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir á veitingastað 14. júlí 2019. Líkamstjónið var rakið til þess að starfsmaður gagnaðila C ehf., sló leyfisbeiðanda í andlitið við barborð en leyfisbeiðandi mun hafa átt upptök að átökunum. Fyrir Landsrétti var aðeins deilt um hvort gagnaðili C ehf. og vátryggjandi hans, gagnaðili Sjóvá-Almennar tryggingar hf., bæru óskipta ábyrgð á tjóni leyfisbeiðanda með starfsmanni. Annars vegar með vísan til vinnuveitendaábyrgðar gagnaðila C ehf. Hins vegar á grundvelli beinnar sakarábyrgðar C ehf. vegna vanrækslu við að tryggja tilskilinn lágmarksfjölda og rétta þjálfun dyravarða á vakt kvöldið sem atvik málsins gerðust.

4. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðanda en héraðsdómur hafði fallist á óskipta skaðabótaskyldu þeirra og starfsmanns á líkamstjóni leyfisbeiðanda á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Starfsmaðurinn lét málið ekki til sín taka í héraði og var ekki aðili að því fyrir Landsrétti. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að gagnaðili C ehf. bæri ekki beina ábyrgð á tjóni leyfisbeiðanda á grundvelli sakar. Þá taldi Landsréttur að það leiddi af dómaframkvæmd að það væri skilyrði þess að vinnuveitandi yrði dæmdur skaðabótaskyldur vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanns að tjóni hefði verið valdið í tengslum við framkvæmd þeirra starfa sem viðkomandi átti að inna af hendi. Rétturinn taldi að almennt yrði að leggja til grundvallar að líkamleg valdbeiting væri víðs fjarri þeim starfsskyldum sem fælust í þeim almennu afgreiðslustörfum sem starfsmaðurinn hefði sinnt. Þá var litið til þess að starfsmaðurinn hefði brugðist við í beinu framhaldi af því að leyfisbeiðandi veittist að honum. Viðbrögðin voru því ekki talin hafa verið í tengslum við afgreiðslustörf hans. Af þeim sökum var tjón leyfisbeiðanda ekki talið á ábyrgð gagnaðila.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi einkum um túlkun og gildi óskráðrar meginreglu skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda, einkum þegar litið væri til hvað bæri að leggja til grundvallar þegar lagt væri mat á hvort að tengsl séu á milli skaðaverks og þess starfs sem starfsmaður er ráðinn til að sinna. Leyfisbeiðandi telur dómaframkvæmd nokkuð misvísandi um þau sjónarmið sem þá beri að leggja til grundvallar. Að sama skapi hafi málið fordæmisgildi um tómlætisreglu vátryggingaréttar, sbr. 31. og 94. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé í ósamræmi við dómaframkvæmd. Dómurinn sé jafnframt rangur að efni til og rökstuðningi hans áfátt þar sem ekki hafi verið tekin nægilega rökstudd afstaða til allra röksemda leyfisbeiðanda fyrir bótaskyldu gagnaðila. Leyfisbeiðandi nefnir til að mynda að Landsréttur virðist í engu hafa skeytt um að eiginlegir dyraverðir hafi ekki verið að störfum í umrætt sinn og því hafi fallið í skaut fyrrnefnds starfsmanns að halda uppi röð og reglu á staðnum.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.