Hæstiréttur íslands
Mál nr. 79/2005
Lykilorð
- Flutningssamningur
|
|
Fimmtudaginn 29. september 2005. |
|
Nr. 79/2005. |
Samskip hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) gegn Friðgerði Pétursdóttur (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) |
Flutningssamningur.
S krafði F um geymslugjald vegna vörugáma sem S hafði flutt til landsins á árinu 1999 og tók krafan til tímabils eftir að Hæstiréttur hafði með dómi 6. júní 2002 dæmt um efni skuldbindinga S um skil á vörusendingunni. S reisti kröfu sína á því að F hafi með bréfi lögmanns hennar 22. júní 2002 óskað eftir að S geymdi umrædda gáma áfram. Talið var, að bréfið yrði ekki túlkað á annan veg en þann, að þar hafi lögmaðurinn aðeins leitað samkomulags við S um lyktir samskipta aðilanna eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar féll. S svaraði ekki bréfinu. Var ekki talið að milli aðilanna hafi komist á nýr samningur hvað þetta varðaði, sem breytti réttarstöðu þeirra frá því sem fólst með skýrum hætti í hæstaréttardóminum. Var F því sýknuð af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2005. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 2.979.633 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.664.698 krónum frá 31. mars 2003 til 21. júlí sama ár en af 2.979.633 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í þessu máli krefur áfrýjandi stefndu um geymslugjald vegna sandsílis sem áfrýjandi hafði flutt til landsins í gámum á árinu 1999 og tekur krafan til tímabils eftir að Hæstiréttur hafði 6. júní 2002, með dómi sem birtur er á bls. 2114 í dómasafni réttarins það ár, dæmt um efni skuldbindinga áfrýjanda um skil á þessari vörusendingu. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að stefnda hafi með bréfi þáverandi lögmanns hennar 22. júní 2002 óskað eftir að áfrýjandi geymdi umrædda gáma áfram. Hafi hún þar með tekið á sig skuldbindingu um að greiða áfrýjanda fyrir geymslu vörunnar. Umrætt bréf verður ekki túlkað á annan veg en þann, að þar hafi lögmaðurinn aðeins leitað samkomulags við áfrýjanda um lyktir samskipta aðilanna eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar féll. Áfrýjandi svaraði ekki bréfinu. Verður því ekki talið að milli aðilanna hafi komist á nýr samningur hvað þetta varðaði, sem breytti réttarstöðu þeirra frá því sem fólst með skýrum hætti í hæstaréttardóminum. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.
Samkvæmt þessari niðurstöðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Samskip hf., greiði stefndu, Friðgerði Pétursdóttur, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2004.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. október sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Samskipum hf., Holtagörðum við Holtaveg á hendur Friðgerði Pétursdóttur, Brautarholti 26, Ólafsvík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 12. febrúar 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði gert að greiða stefnanda 2.979.633 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.664.698 krónum frá 31. mars 2003 til 21. júlí 2002, en af 2.979.633 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, að skaðlausu, úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Stefnda krefst og málskostnaðar, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, úr hendi stefnanda.
II
Málavextir eru þeir, að stefnandi flutti til landsins, í ágúst 1999, fjóra gáma af sandsílum, fyrir stefndu. Samkvæmt vörureikningi var um að ræða 100 tonn af sandsíli. Gámunum var skipað upp í Reykjavík og taldi stefnandi að þar hefði átt að afhenda vöruna. Kom upp ágreiningur vegna þessa milli aðila. Höfðaði stefnandi þá mál á hendur stefndu til innheimtu gámaleigu og kostnaðar við rekstur frystigáma, sem til féll meðan varan var á svæði stefnanda í Reykjavík. Úr þeim ágreiningi var leyst með dómi Hæstaréttar hinn 6. júní 2002 í málinu nr. 445/2001, þar sem stefnda var sýknuð af þeirri kröfu stefnanda.
Hinn 22. júní 2002, ritaði þáverandi lögmaður stefndu lögmanni stefnanda bréf, þar sem sagði svo m.a.: „Varðandi sílið sem enn er í vörslum umbjóðanda þíns, Samskipa hf., þá þætti mér skynsamlegast að á ástandi þess færi fram mat og það ekki flutt vestur fyrr en séð verður hvort það er nýtanlegt sem beita eftir allan þennan geymslutíma hjá flutningsaðilanum. Kjósi Samskip hf. hins vegar að flytja sílið vestur þá mun ég strax óska eftir mati á ástandi vörunnar við komuna þangað. Varðandi þetta atriði þætti mér gott að fá að vita afstöðu umbjóðanda þíns.”
Hinn 4. júlí 2002, ítrekaði lögmaður stefndu erindi sitt frá 22. júní það ár, til lögmanns stefnanda, og óskaði m.a. eftir því að fá: „viðbrögð við því síðastnefnda, mat á ástandi vörunnar áður en hún verður flutt vestur.”
Hinn 2. september 2002 ritaði lögmaður stefndu stefnanda bréf, þar sem m.a. var óskað eftir: „Samvinnu um að láta meta ástand þeirrar vöru sem enn er í vörugeymslu hjá Samskipum.”
Hinn 1. nóvember 2002 óskaði stefnda efir dómkvaðningu matsmanns til að meta ástand sílisins. Matsmenn voru dómkvaddir hinn 29. nóvember 2002. Niðurstaða matsins lá frammi hinn 31. mars 2002.
Stefndi kveðst hafa fallist á að geyma vöruna, að gengnum dómi Hæstaréttar, og eftir að bréf lögmanns stefndu, dags. 22. júní 2002, barst um að varan yrði í geymslu hjá stefnanda. Kveðst hann hafa gert stefnda reikning vegna geymslu vörunnar og var krafan ítrekuð með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 28. apríl 2003.
Með bréfi, dagsettu 31. júlí 2003, ritaði stefnandi stefndu bréf, þar sem lagt var til að vörunni yrði fargað þannig að ekki safnaðist frekari geymslukostnaður á hana. Sú ráðstöfun var samþykkt með bréfi lögmanns stefndu, dags. 13. ágúst 2003. Var vörunni fargað í framhaldi af því.
Með bréfi stefnanda, dagsettu 25. september 2003, krafði stefnandi stefndu um skaðabætur. Var þeirri kröfu hafnað með bréfi, dagsettu 25. nóvember 2003.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að eftir að dómur Hæstaréttar féll, hafi lögmaður stefndu sérstaklega óskað eftir því að stefnandi geymdi sílið. Stefnda hafi ekki getað búist við því að stefnandi myndi geyma vöruna án þess að taka fyrir það greiðslu, enda felist atvinnurekstur stefnanda m.a. í því að geyma vörur fyrir þá sem á slíkri þjónustu þurfi að halda. Stefnandi fullyrðir að hann hefði ekki samþykkt að geyma umræddar vörur að öðrum kosti. Rétt sé að geta þess að umræddir gámar hafi verið frystigámar sem þurft hafi að tengja flóknu rafmagnskerfi og hafi stefnandi þannig haft töluverðan kostnað af geymslu þeirra.
Stefnandi telur að komist hafi á samningur milli hans og stefndu um að stefnandi geymdi sílið. Ekkert hafi gefið stefndu tilefni til að ætla að stefnandi myndi ekki taka gjald fyrir þá geymslu og því verði stefnda að greiða umkrafin geymslugjöld. Stefndu hafi verið ljóst eða átt að vera ljóst hvert gjaldið hafi verið fyrir geymslu á gámunum.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og stofnun samninga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því, að ekki hafi myndast réttarsamband milli stefnanda og stefndu, sem stefnandi geti byggt kröfur sínar á. Stefnda hafi hvorki fyrr né síðar falið stefnanda geymslu þeirrar vöru sem krafist sé geymslugjalds fyrir. Stefnandi eigi því ekki greiðslukröfu á hendur stefndu vegna geymslunnar.
Byggir stefnda á því, að hvorki hafi verið gerður samningur milli aðila um geymslu vörunnar né að hún greiddi fyrir þá geymslu. Stefnda telur, að orðalag bréfs þáverandi lögmanns stefndu, dagsett 22. júní 2002, verði ekki túlkað sem beiðni um geymslu sílis f.h. stefndu og samþykki fyrir greiðslu fyrir þá geymslu. Fyrir lögmanninum hafi vakað það eitt, að fá stefnanda til að ganga frá uppgjöri milli aðila vegna Hæstaréttardóms, sem legið hafi fyrir í máli aðila, þ.á m. að fá hlutlaust mat á tjóni stefndu. Í öðru lagi hafi ætlun lögmannsins verið að minnka greiðsluskyldu stefnanda vegna væntanlegrar bótakröfu stefndu. En ef stefnandi teldist bótaskyldur vegna þess að vara stefndu eyðilagðist í geymslu stefnanda þá myndi hann að öllum líkindum einnig bera ábyrgð á greiðslu matskostnaðar. Í þriðja lagi hafi þáverandi lögmaður stefndu ekki haft umboð til að skuldbinda stefndu til greiðslu svo hárrar kröfu, enda hafi umboð hans einungis náð til hagsmunagæslu vegna þess máls sem dæmt hafi verið í Hæstarétti 6. júní 2002.
Stefnda byggir sýknukröfu sína einnig á því, að stefnandi hafi getað fargað vörunni eða skilað henni til stefndu í stað þess að fella á hana frekari geymslugjöld. Það hafi stefnandi ekki gert og beri því einn ábyrgð á þeim kostnaði, sem af geymslunni hafi hlotist.
Stefnda byggir og á því, að fyrir liggi Hæstaréttardómur um það álitaefni sem fjallað sé um í máli þessu. Atvik séu að öllu leyti þau sömu og um sömu vöru og geymslu að ræða. Það eina, sem stefnandi byggi á, til viðbótar því sem fyrir hafi legið í fyrra málinu, sé orðalag í bréfi lögmanns stefndu, sem ekki hafi þýðingu fyrir málsástæður stefnanda.
Um lagarök vísar stefnda til meginreglna samninga- og kröfuréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Eins og að framan hefur verið lýst er forsaga máls þessa sú, að stefnda keypti allmikið magn af sandsíli frá Danmörku, sem ætlað var til beitu. Sandsílin voru flutt til landsins í fjórum gámum með skipum stefnanda. Eftir komu skipanna til Reykjavíkur sendi stefnandi stefndu komutilkynningar og reikninga vegna uppskipunar, vörugjalds og afgreiðslugjalds. Voru reikningar þessir greiddir af stefndu. Á reikningunum var tekið fram að gámaleiga reiknist fyrir vörusendingar, sem ekki hafi verið sóttar sjö dögum eftir komu til ákvörðunarstaðar. Aðila greindi á um afhendingu vörunnar og urðu gámarnir innlyksa hjá stefnanda og hóf stefnandi að gera stefndu reikninga vegna leigu gámanna, fyrst 26. september 1999 og síðan mánaðarlega eftir það, síðast 26. júní 2000, sem stefnda greiddi ekki. Hinn 24. ágúst 2000 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu til greiðslu þessara reikninga. Lauk þeim málaferlum með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 6. júní 2002, þar sem stefnda var ekki talin vera greiðsluskyld varðandi leigu á gámunum og var því sýknuð af kröfum stefnanda.
Ágreiningur máls þessa snýst um hvort stefndu beri að greiða stefnanda fyrir leigu gámanna og rekstur á kælikerfi þeirra, eftir að dómur Hæstaréttar gekk og fram til þess að vörunni var fargað.
Fram hefur komið að hinn 22. júní 2002 ritaði lögmaður stefndu lögmanni stefnanda bréf er varðaði lok Hæstaréttarmálsins, eins og það er þar orðað. Er þar einnig vikið að vörslum stefnanda á sílinu og því lýst, að lögmaðurinn telji skynsamlegast að mat fari fram á ástandi þess áður en það sé flutt vestur til Ólafsvíkur. Er óskað eftir afstöðu stefnanda til þeirrar tilhögunar. Stefnandi svaraði ekki þessu erindi stefndu, þrátt fyrir ítrekaðar bréfasendingar. Gámarnir voru hins vegar áfram í geymslu hjá stefnanda og fór fram mat á ástandi sílisins, að ósk stefndu, sem krafðist dómkvaðningar matsmanns hinn 1. nóvember 2002.
Stefnanda bar að afhenda umrædda gáma í Ólafsvík samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Stefnandi gerði það ekki hvorki fyrir né eftir dóm Hæstaréttar. Samkvæmt því sem fram er komið svaraði stefnandi því engu hvort hann yrði við beiðni stefndu um samvinnu við að láta meta ástand vörunnar. Í ljósi þess ber að líta svo á að stefnandi hafi samþykkt tilmæli stefndu. Getur hann því ekki nú krafið stefndu um gjald fyrir þá geymslu, enda hefði honum verið í lófa lagið að uppfylla samningsskyldu sína og flytja umrædda gáma á áfangastað, ef hann hefði ekki viljað verða við þessum tilmælum stefndu. Ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Friðgerður Pétursdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Samskipa hf.
Stefnandi greiði stefndu 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.