Hæstiréttur íslands
Mál nr. 239/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Aðild
- Vanreifun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. apríl 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017 þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 21. júní 2013 á hendur varnaraðilum. Gerði hann þá kröfu aðallega að varnaraðilar yrðu dæmdir til að greiða sér óskipt 1.191.704.510 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Yrði ekki fallist á óskipta greiðsluskyldu varnaraðila krafðist sóknaraðili þess að hverjum og einum þeirra yrði gert að greiða sér framangreinda fjárhæð, en féll frá þeim kröfulið undir rekstri málsins. Til vara krafðist sóknaraðili þess að varnaraðilum yrði óskipt gert að greiða sér skaðabætur að álitum, en yrði ekki fallist á óskipta greiðsluskyldu varnaraðila krafðist hann þess að hverjum og einum þeirra yrði gert að greiða sér skaðabætur að álitum. Að því frágengnu krafðist sóknaraðili viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila í samtals 11 liðum svo sem nánar er gert grein fyrir í hinum kærða úrskurði.
II
Tildrög málsins er að rekja til kvörtunar sóknaraðila til Samkeppniseftirlitsins í apríl 2009. Í kvörtuninni gerði sóknaraðili athugasemdir við háttsemi varnaraðila. Lutu þær athugasemdir meðal annars að ákvörðun svokallaðs milligjalds á debetkortafærslur, en milligjald mun vera greiðsla sem færsluhirðir greiðir til útgefenda greiðslukorta fyrir þjónustu þeirra við söluaðila í greiðslukortaviðskiptum. Í andmælaskjali sem Samkeppniseftirlitið sendi frá sér vegna kvörtunar sóknaraðila 8. mars 2013, kom fram það frummat stofnunarinnar að varnaraðilar hefðu allir gerst brotlegir við nánar tilgreind ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005, þar á meðal við ákvörðun milligjalda. Í kjölfarið gengu varnaraðilar til viðræðna við Samkeppniseftirlitið sem lauk með gerð sátta 30. apríl 2015, þar sem varnaraðilar viðurkenndu brot gegn tilteknum ákvæðum samkeppnislaga og gengust undir nánar tilgreindar sektargreiðslur af því tilefni.
Í stefnu kemur fram að sóknaraðili hafi hafið starfsemi á greiðslukortamarkaði hér á landi í nóvember 2002. Hafi sóknaraðili frá upphafi boðið söluaðilum upp á færsluhirðingu í samstarfi við danskan samstarfsaðila, Teller A/S. Auk sóknaraðila og Teller A/S, hafi aðeins tveir aðilar, varnaraðilar Borgun hf. og Valitor hf., gert samninga um færsluhirðingu og uppgjör við mikinn meirihluta söluaðila hérlendis. Þá hafi síðastgreindir tveir aðilar einnig gert samninga við alla útgefendur greiðslukorta hér á landi, sem séu viðskiptabankar og sparisjóðir. Í slíkum samningum sé kveðið á um að kortaútgefendur skuli fá greitt svokallað milligjald frá færsluhirði og því sé milligjaldið ýmist greitt af „stefnanda/Teller, Borgun eða Valitor“ eins og það er orðað í stefnu, allt eftir því hver annist færsluhirðingu fyrir söluaðilann til kortaútgefandans.
III
Málatilbúnað sinn á hendur varnaraðilum reisir sóknaraðili á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna framangreindra lagabrota varnaraðila, einkum vegna framkvæmdar þeirra við ákvörðun milligjalda á debetkortafærslur. Aflaði sóknaraðili meðal annars matsgerðar til að meta tjón sitt og að beiðni sóknaraðila var hún einskorðuð við það tjón sem framkvæmd varnaraðila á ákvörðun milligjalda hefði valdið sóknaraðila á markaði með færsluhirðingu debetkorta.
Þrátt fyrir að málatilbúnaður sóknaraðila lúti samkvæmt þessu í öllum meginatriðum að ætluðu tjóni hans vegna ólögmætrar framkvæmdar á ákvörðun umræddra milligjalda, er í litlu sem engu gerð grein fyrir því í stefnu hvernig samstarfi sóknaraðila og nefnds félags Teller A/S var háttað, auk þess sem engin gögn hafa verið lögð fram sem gætu varpað ljósi þar á. Er umfjöllun sóknaraðila í greinargerð hans til Hæstaréttar sama marki brennd, en þar er samstarfi félaganna einungis lýst með þeim hætti að Teller A/S, sem áður hafi heitið PBS International, sé danskt fyrirtæki sem annist um færsluhirðingu. Hafi samstarfi sóknaraðila og Teller A/S verið þannig háttað að sóknaraðili annaðist alla samninga við söluaðila og alla miðlun færslna, en hið danska félag hafi svo tekið við færslunum og veitt þeim í gegnum uppgjörskerfi.
Samkvæmt framansögðu skortir verulega á að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um aðkomu og hlutdeild Teller A/S í viðskiptum sóknaraðila á því tímabili sem um ræðir. Var þó rík ástæða fyrir sóknaraðila til að upplýsa um bæði eðli og inntak samstarfs síns og hins danska félags, ekki hvað síst varðandi svonefnda færsluhirðingu og greiðslu milligjalda. Af málatilbúnaði sóknaraðila sjálfs verður enda bæði ráðið að hann hafi ekki getað sinnt færsluhirðingu nema sakir samstarfs síns við margumrætt félag og að milligjaldið sé greitt af þeim sem annist færsluhirðinguna. Liggur því ekkert fyrir um það hvort sóknaraðili eða hið danska félag greiddi milligjöldin sem voru grundvöllur þess tjóns sem sóknaraðili freistaði að fá staðfest með ofangreindri matsgerð og þar með hvort sóknaraðili sé bær til þess að standa einn að málsókn sinni á hendur varnaraðilum í þeim farvegi sem hann hefur sjálfur markað henni. Er málatilbúnaður sóknaraðila að þessu leyti svo óljós og vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar þann 1. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi um framkomnar frávísunarkröfur stefndu Borgunar hf., Íslandsbanka hf., Landsbanka hf., og Valitors hf., í málinu, er höfðað af Kortaþjónustunni hf., Skipholti 50b, 105 Reykjavík, með stefnu, áritaðri um birtingu af hálfu allra stefndu 21. júní 2013, á hendur Arion banka hf. Borgartúni 19, 105 Reykjavík, Borgun hf., Ármúla 30, 108 Reykjavík, Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, 155 Reykjavík, Landsbankanum hf., Austurstræti 11, 155 Reykjavík og Valitor hf., Laugavegi 77, 101 Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda í málinu eru eftirfarandi:
Aðalkrafa er að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt 1.191.704.510 krónur að viðbættum vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá og með 21. júní 2009 til stefnubirtingardags en að viðbættum dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt skaðabætur að upphæð sem metin er að álitum af dóminum en verði ekki fallist á óskipta greiðsluskyldu stefndu er þess krafist að hverjum og einum stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur sem ákveðnar eru að álitum af dóminum.
Til þrautavara er þess krafist að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu vegna eftirfarandi háttsemi:
1. Við ákvörðun milligjalda:
1.1 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð allra stefndu vegna brota gegn ákvæði 10. gr. samkeppnislaga, sbr. a-lið 2. mgr. sömu lagagreinar, með verðsamráði er fólst í einhliða setningu Borgunar hf. og Valitors hf. á samræmdum milligjöldum fyrir debet- og kreditkort á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
1.2 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð Borgunar hf. og Valitors hf. vegna brota þeirra gegn ákvæði 12. gr. samkeppnislaga með einhliða setningu samræmdra milligjalda fyrir debet- og kreditkort á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
2. Við samningaumleitanir um milligjöld:
2.1 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion Banka hf., Íslandsbanka hf., og Landsbankans hf., gagnvart stefnanda vegna brota þeirra gegn ákvæði 11. gr. samkeppnislaga, sbr. d-lið 10. gr. sömu laga, með því að misnota markaðsráðandi stöðu á milligjöldum fyrir debet- og kreditkort á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla, sem fólust í því að gera aðrar kröfur til stefnanda en gagnvart stefndu Valitor hf., og Borgun hf., og þannig mismunað stefnanda við samningaumleitanir við kortaútgefendur um milligjöld vegna debet- og kreditkorta.
3. Við birtingar á kortafærslum:
3.1 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Borgunar hf., og Valitors hf., gagnvart stefnanda vegna brota þeirra gegn ákvæði 12. gr. samkeppnislaga, sbr. d-lið 10. gr. sömu laga, með því að birta færslur stefnanda sem þær væru erlendar vegna viðskipta á Íslandi með íslenskum kreditkortum á tímabilinu 2003-2013, eða á skemmra tímabili að mati dómstóla.
3.2 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion Banka hf., Íslandsbanka hf., og Landsbankans hf., gagnvart stefnanda vegna brota þeirra gegn ákvæði 10. gr. samkeppnislaga með því að viðhafa óbeint samráð sín á milli um viðskiptaskilmála er sneru að birtingu á kortafærslum á tímabilinu 2003-2013, eða á skemmra tímabili að mati dómstóla.
3.3 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion Banka hf., Íslandsbanka hf., og Landsbankans hf., gagnvart stefnanda vegna brota þeirra gegn ákvæði 11. gr. samkeppnislaga, sbr. d-lið 10. gr. sömu laga, með því að gera aðrar kröfur til stefnanda við birtingu á kortafærslum en til Borgunar hf. og Valitors hf. á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla, og mismunað þannig stefnanda.
4. Við ákvörðun viðskiptakjara kortaútgefenda:
4.1 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda Valitors hf. gagnvart stefnanda vegna brota félagsins gegn ákvæði 12. gr., sbr. 10. gr. samkeppnislaga, með því að ákveða samræmd viðskiptakjör kortaútgefenda sem fólust í samræmdri úthlutun vildarpunkta til korthafa á tímabilinu 2003-2013, eða á skemmra tímabili að mati dómstóla, og á sama tímabili ákveða að vildarpunktar skyldu eingöngu veittir vegna viðskipta sem eiga sér stað hjá seljendum sem láta Valitor hf. annast færsluhirðingu.
4.2 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion Banka hf., Íslandsbanka hf., Landsbankans hf. og Valitors hf. gagnvart stefnanda vegna brota félaganna gegn ákvæði 10. gr. samkeppnislaga, sem fólust í óbeinu samráði milli þeirra um viðskiptakjör og skilmála milli útgefenda á greiðslukortum á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
5. Við mismunun við veitingu aðgangs að upplýsingum og höfnunar á færslum:
5.1 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefndu Arion Banka hf., Íslandsbanka hf., og Landsbankans hf., gagnvart stefnanda vegna brota félaganna gegn ákvæði 11. gr. samkeppnislaga, sbr. d-lið 10. gr. sömu laga, með því að misnota markaðsráðandi stöðu félaganna og veita færsluhirðum í eigu þeirra forskot við aðgang að upplýsingum um korthafa á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
5.2 Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda Valitors hf. gagnvart stefnanda vegna brota félagsins gegn ákvæði 12. gr. samkeppnislaga, sbr. 2. mgr. 10. gr. sömu laga, sem og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2008, sem fólust í mismunun gagnvart stefnanda með því að hafna færslum hans á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
6. Með brotum gagnvart ákvæðum EES-samningsins:
Að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð allra stefndu vegna brota þeirra á ákvæðum 53. og 54. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sem fólust í þeirri háttsemi sem greinir í liðum 1-5 á tímabilinu 2003-2013, eða yfir skemmra tímabil að mati dómstóla.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi allra stefndu.
Dómkörfur stefndu eru í öllum tilvikum, nema hvað varðar stefnda Arion banka hf., aðallega þær að máli þessu verði vísað frá dómi, en annars er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda af hálfu allra stefndu, eða lækkunar á þeim. Arion banki hf. lýsir yfir að tekið sé undir kröfur og málsástæður annarra stefndu varðandi frávísun.
Enn fremur er af hálfu allra stefndu krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Geta ber þess að dómkröfur stefnanda eru breyttar, hvað varðar aðalkröfu, frá því sem greinir í stefnu, sbr. yfirlýsingu hans er lögð var fram á dómþingi 18. nóvember sl.
Málið var flutt þann 1. mars sl. um ofangreindar kröfur stefndu sem sóknaraðila um frávísun málsins á hendur þeim og er einungis sá þáttur þess nú til úrlausnar hér.
Stefnandi krefst þess hér sem varnaraðili að framkomnum frávísunarkröfum allra stefndu í málinu, utan Arion banka hf., verði hafnað og að stefndu að undanskildum Arion banka hf., verði gert að greiða honum málskostnað vegna þessa þáttar málsins.
Málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi, Kortaþjónustan hf., rekur greiðslukortaþjónustu og býður upp á hirðingu og uppgjör greiðslukortafærslna (færsluhirðingu), líkt og stefndu Borgun hf., og Valitor hf., gera, en útgefendur greiðslukorta eru hins vegar bankar og sparisjóðir, þ.m.t. aðrir stefndu í þessu máli, Arion banki hf., Íslandsbanki hf., og Landsbankinn hf. Móttaka þessir útgefendur svokallað milligjald af veltu frá færsluhirðum, sem er ætlað að koma upp í þann kostnað sem útgefendur hafa af þjónustu við notendur kortanna. Í málinu liggur fyrir að lengstum hafi framangreind starfsemi stefnanda verið í samstarfi við danska færsluhirðinn PBS Teller en ágreiningur er í málinu um það hvert hafi verið eðli þessa samstarfs og þá þýðing þess fyrir stöðu stefnanda.
Tildrög málsins byggja á kvörtun stefnanda til Samkeppniseftirlitsins, dags 3. apríl 2009, vegna gruns um brot allra stefndu í þessu máli á samkeppnislögum, sem bitnað hafi á stefnanda og valdið honum fjártjóni. Nánar tiltekið beindist kvörtun stefnanda einkum að ákvörðun milligjalds en einnig að boðgreiðsluþjónustu, færslubirtingum, uppgjörstímabili vildarpunkta sem og að aðgengi að upplýsingum. Byggir stefnandi á því að ofangreind brot hafi átt sér stað allt frá innkomu stefnanda á markað hérlendis árið 2002, en rannsókn Samkeppniseftirlitsins á málinu afmarkaðist við ætluð brot stefndu á árunum 2007-2009. Samkeppniseftirlitið rannsakaði málið allt fram til ársins 2013, þegar það sendi stefndu svokallað andmælaskjal sitt, dags 8. mars 2013, sbr. 17. gr. reglna nr. 880/2005, þar sem komist var að þeirri frumniðurstöðu að hinir stefndu bankar hefðu meðal annars allir gerst brotlegir við 10. og 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, en Borgun hf. og Valitor hf., við 12. gr. þeirra, í tengslum við þar lýst fyrirkomulag sem var á greiðslukortaþjónustu hérlendis.
Skömmu eftir útgáfu andmælaskjalsins sendi stefnandi bréf til allra stefndu, dags. 20. mars 2013, þar sem gerð er krafa um viðurkenningu þeirra á bótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna tjóns er leitt hafi af brotum á ákvæðum samkeppnislaga og lýst er í andamælaskjalinu. Mál þetta var svo höfðað í kjölfarið og þingfest fyrir héraðsdómi þann 27. júní 2013. Í framhaldi fór stefnandi þess á leit við dóminn að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta frekar umfang missis hagnaðar stefnanda og annað tjón sem leitt hafi af þeirri háttsemi stefndu sem lýst er í andmælaskjalinu, sbr. matsbeiðni, dags. 26. nóvember 2013, en síðar var afráðið að efni matsgerðar skyldi þó takmarkast við mat á tjóni vegna ákvörðunar milligjalda á debetkortamarkaði, sbr. framlagða matsgerð í málinu, dags 30. júní 2016, sem liggur þannig fyrir í málinu.
Fyrir liggur að allir stefndu hafi í framhaldi af móttöku andmælaskjalsins óskað eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið sem lyktaði síðan með aðgreindri sátt þess við sérhvern hinna stefndu um tiltekna þætti er fjallað var um í andmælaskjalinu. Það er, varðandi ákvörðun milligjalda á debetkortamarkaði og útgáfu vildarpunkta, sbr. fyrirliggjandi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015, dags. 30. apríl 2015. Fólu sáttir stefndu meðal annars í sér að stefndu viðurkenndu þar tilgreind brot, gengust allir undir að greiða sektir og undirgengust auk þess tilteknar aðgerðir á markaði.
Málsástæður stefndu hvað varðar kröfu um frávísun málsins
Stefndu byggja á því, að við þingfestingu máls þessa hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn um ætlaðar tjónsorsakir, né um ætlað fjártjón hans, heldur aðeins gagnalista Samkeppniseftirlitsins og andmælaskjal þess, sem hafi að geyma ályktanir þess, en þó með fyrirvörum um andsvör og gagnrök stefndu, sem þá hafi ekki verið komin fram. Endanlegar lyktir hafi svo í mikilvægum atriðum orðið aðrar en þessi gögn hafi bent til. Einungis hafi verið lagðar fram hugleiðingar um ætlað fjártjón stefnanda, byggt á ætlaðri stöðu hans á markaði ef ekki hefði komið til ætlaðra brota, að hans eigin mati.
Aðalkrafa stefnanda sé fjárkrafa, en líkt og boðað hafi verið í stefnu hafi stefnandi í framhaldi aflað sér matsgerðar, ætlaðri til sönnunar á meintu fjártjóni hans. Málið hafi svo verið í matsferli í a.m.k. þrjú ár en þó með samþykki stefndu, eða þar til að matsgerð lá fyrir og stefndu hafi þá fengið frest til að skila greinargerðum. Sé þó álitamál hvort framangreindur háttur fái staðist áskilnað laga, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009. Í því máli líkt og þessu hafi dómkrafa, sem ekki hafi verið sundurliðuð í stefnu eða studd gögnum, verið aðlöguð eftir á matsgerð sem ekki hafi þar verið talið standast áskilnað 95. gr. laga nr. 91/1991. Enn fremur sé hér af hálfu stefndu vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 307/2010.
Ekki standist sá háttur stefnanda að grundvalla ætlað tjón á áætlunum hans sjálfs um rekstur en að frádregnum rauntekjum og að viðbættum kostnaði. Slíkir einhliða útreikningar geti aldrei verið grundvöllur að útreikningi tjóns vegna hagnaðarmissis.
Í matsgerð sé ekki verið að fjalla um endurmat á þeim áætlunum sem stefnandi hafi byggt á en þar séu í raun engin merkjanleg tengsl. Ekki stoði að setja fram texta í stefnu er síðan reynist ekki vera í neinu samhengi við viðfangsefni í matsgerð og verði því að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum, sbr. fyrrgreindan dóm í máli nr. 413/2009.
Framangreindur háttur stefnanda við það hvernig hann hafi staðið að málsókn hafi skapað vandkvæði fyrir varnir stefndu. Skortur á sönnunargögnum í upphafi hafi gert það að verkum að samhengi atvikalýsingar og málsástæðna og hvernig þær tengist hverjum og einum stefndu verði óljóst. Í stefnu sé mest vísað beint til andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins, sem sé í besta falli óbeint sönnunargagn. Þau gögn sem Samkeppniseftirlitið hafi byggt á hafi ekki verið lögð hér fram í upphafi en mála- tilbúnaður af þessu tagi fari í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Vísist hér meðal annars til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 437/2012.
Þá byggi stefndu á því, að aðild máls þessa til sóknar sé verulega vanreifuð þar sem ekki verði séð að stefnandi, Kortaþjónustan hf., hafi í raun verið svonefndur færsluhirðir fram til ársins 2012, eins og stefnandi virðist þó byggja á. Í reynd hafi stefnandi aðeins starfað sem tæknilegur greiðslumiðlari fyrir danska félagið PBS Teller, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015, dags. 30. apríl 2015. Hafi stefnandi af þessum ástæðum ekki greitt umþrætt milligjöld sem slíkur. Sé því krafist frávísunar þar sem þessi aðild PBS Teller sé ekki útskýrð af hálfu stefnanda í stefnu, né hafi stefnandi brugðist við áskorunum stefndu um að útskýra þennan þátt málsins. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 570/2013 megi t.d. sjá, að ef veruleg áhöld eru um aðild til sóknar, sem ekki eru útskýrð af hálfu stefnanda, leiði það til frávísunar. Af hálfu stefnanda sé ekki útskýrt í stefnu hvernig t.d. kostnaðarskiptingu hafi verið háttað í samstarfinu og sé ekkert upplýst um þetta fyrir matsmenn í málinu.
Enn fremur byggi stefndu á því, að framsetning á kröfugerð stefnanda fái ekki staðist. Stefnandi krefjist aðallega skaðabóta úr hendi allra stefndu óskipt (in solidum), en varakrafan sé um bætur að álitum, þar sem aðallega sé krafist bóta úr hendi stefndu óskipt, en til vara skipt. Loks sé þrautavarakrafa sem sé margþætt viðurkenningar- krafa, sem beinist ólíkt að stefndu, eftir aðgreindum liðum um mismunandi tjónsatvik.
Ekki fái staðist sú nálgun stefnanda að allir stefndu geti hér borið óskipta ábyrgð á kröfum hans í skilningi skaðabótareglna, auk þess sem skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild séu heldur ekki uppfyllt í málinu, gegn neitun stefndu.
Hvað varði stefndu þá hafi Borgun hf., og Valitor hf., sem færsluhirðar, hvor um sig greitt milligjald til bankanna þriggja, sem kortaútgefenda fyrir þeirra þjónustu, en Samkeppniseftirlitið hafi fundið að því að gjöldin hafi í reynd verið samræmd. Ekki hafi því þó verið borið við af Samkeppniseftirlitinu að samráð eða samningssamband hafi verið á milli Borgunar hf. og Valitors hf. Hér sé því um að ræða tvö aðskilin meint samkeppnislagabrot þótt atvikin séu um sumt eðlislík og séu skilyrði samlagsaðildar til varnar því ekki uppfyllt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 812/2016. Þá sé af hálfu stefndu vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 326/2011. Engin rök séu fyrir því að Borgun hf. og Valitor hf. ættu að bera hér óskipta ábyrgð á hvort öðru.
Geti krafa um skaðabætur óskipt (in solidum) þá heldur ekki átt hér við þar sem um sé að ræða tvö aðskilin meint samráðsbrot. Þá væri óeðlilegt að láta alla stefndu bera ábyrgð á öllum tildæmdum bótum vegna tjóns sem leitt hafi af broti sem þeir hafi engan þátt átt í, það er að Borgun hf. yrði látið bera ábyrgð á ætluðu samráði Valitors hf. við bankana þrjá eða þá Valitor hf. á ætluðu samráði Borgunar hf. við bankana. Þannig hafi t.d. Borgun hf. aldrei gefið út vildarkort sem mál þetta snúist að hluta um. Þrautavarakrafa stefnanda endurspegli í raun vel hve ólíkur hlutur hinna stefndu sé, en kröfuliðir þar beinist raunar með ólíkum hætti að hinum stefndu. Enn fremur hafi stefnandi átt þess kost að afla matsgerða fyrir þessa mismunandi þætti málsins. Ekki sé heldur af hálfu stefnanda útskýrt hvort þær tjónsorsakir sem hann vísi til í stefnu séu hver um sig nauðsynlegar eða hvort ein þeirra dugi til en aðkoma stefndu sé ólík.
Þá byggi stefndu jafnframt á því, varðandi varakröfu stefnanda sérstaklega, að ekki sé talið tækt að krefjast þannig ótiltekinna skaðabóta að álitum úr hendi stefndu, ef leiða má sæmilegar líkur að tjóni með öflun matsgerðar. Þá verði sú hætta fyrir hendi að stefnandi geti eftir atvikum fengið dæmda hærri kröfu en nemi raunverulegu tjóni. Þá sé þessi krafa ekki bundin við tiltekið skaðaverk og beri því að vísa henni frá.
Þótt þrautavarakrafa stefnanda sé ekki haldin sömu framangreindu annmörkum um óskipta ábyrgð, líkt og aðalkrafan og varakrafan, þá sé hún engu að síður haldin öðrum annmörkum sem leiða eigi til frávísunar. Kröfugerðin sé óvenjulega opin og víðfeðm og uppfylli þannig fram sett ekki almennar kröfur um skýrleika kröfugerðar. Raunar sé umrædd viðurkenningarkrafa, sem sé í mögum liðum, fremur til þess fallin að búa til enn frekari ágreining um það hvað geti talist falla undir hana og hvað ekki. Sé þessi kröfugerð í reynd einungis líkt og upptalning málsástæðna af hálfu stefnanda.
Stefndu hafi krafist frávísunar á þeim grunni að annmarkar séu á reifun tjóns af hálfu stefnanda. Nú sé búið að afla matsgerðar en matsgerðin taki þó ekki til þeirra kröfuliða sem þrautavarakrafa stefnanda byggi á og sé þetta því vanreifað. En þegar um fleiri en eitt bótaskylt atvik sé að ræða þá verði stefnandi að afmarka tjón sitt með tilliti til einstakra málsástæðna, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 742/2009.
Stefnandi byggi meðal annars á því að um misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé að ræða í málinu en hér liggi engar greiningar eða gögn fyrir um þann markað sem um sé að ræða af hálfu stefnanda og því sé ómögulegt fyrir stefndu að taka til varna um það. Þá eigi kenningin um „altækt samráð stefndu“ (single overall agreement) aðeins við um stjórnsýslumál, líkt og fyrir Samkeppnisyfirvöldum, en eigi ekki við um skaðabótamál þar sem sanna þurfi sem endranær bótaskylda háttsemi hvers og eins.
Af hálfu stefndu Landsbankans hf., og Íslandsbanka hf. sé einnig vísað til þess að þeir séu ekki réttur aðili að þessu máli, það hafi a.m.k. að stórum hluta átt sér stað áður en þeir bankar hafi tekið til starfa í núverandi mynd og þeir hafi ekki tekið yfir slíka ábyrgð sem eigi þannig fram sett að leiða til frávísunar vegna vanreifunar.
Málsástæður stefnanda hvað varðar kröfu stefndu um frávísun málsins
Stefnandi mótmæli frávísunarkröfum stefndu og sjónarmiðum sem þær byggi á. Málatilbúnaður stefnanda sé skýr og í samræmi við 80. gr. og 95. gr. laga nr. 91/1991.
Varðandi það hvernig stefnandi geri grein fyrir því tjóni sem stefndu hafi orðið valdir að þá byggi kröfur stefnanda á bótareglum skaðabótaréttar og þá einkum á sakarreglu. Bótaskyld háttsemi felist í augljósum brotum stefndu á samkeppnislögum og þá einkum varðandi ákvörðun á milligjöldum, sem síðar hafi verið gerð sátt um með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli nr. 8/2015. Bótagrundvöllur sé því skýr enda hafi Samkeppniseftirlitið í andmælaskjali sínu lýst því hvernig háttsemi stefndu hefði haft áhrif á stöðu annarra færsluhirða á markaði, það er á stefnanda þessa máls.
Hvað varði fjártjón stefnanda þá felist það í lægri tekjum með töpuðum hagnaði og markaðshlutdeild sem og auknum kostnaði vegna aðgerða stefndu. Borið sé saman ástand sem varð og það sem hefði orðið hefði ekki komið til þessara brota stefndu. Stefnandi hafi gert framlagðar rekstaráætlanir sínar áður en hann hafi hafið starfsemi og þær miðað að markaðssókn en aðgerðir stefndu hafi miðað að því að hindra það með ólögmætum hætti. Sé tekjutap stefnanda miðað við þær hér sundurliðað eftir árum. Matsgerð í málinu hafi nú leitt í ljós að rekstaráætlunin hafi verið raunhæf.
Í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 sé við það miðað að málatilbúnaður skuli vera ljós um atvik, málsástæður og grundvöll kröfugerðar, sem sé raunin í þessu tilviki, en nánari afmörkun á endanlegu umfangi tjóns lúti að efnishlið máls. Stefndu standi ekki höllum fæti við að halda uppi vörnum vegna málatilbúnaðar stefnanda. Þegar erfitt sé að henda reiður á umfangi tjóns líkt og í málum sem varði flókin samkeppnislagabrot sé almennt slakað á sönnunarkröfum um tjónið og umfang þess og byggt á líkum. Um þetta vísist til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 142 og 143/2007 og nr. 520/2007.
Varakrafa stefnanda sé um bætur að álitum en sú leið hafi gjarnan verið farin þegar erfitt sé að henda reiður á umfangi tjóns. Þá nægi að sýna fram á að tjónið hafi orðið en aðalkrafan setji vissulega ákveðið þak á fjárkröfur stefnanda í málinu. Ekkert sé því til fyrirstöðu að haga varakröfu með þessum hætti. Viðurkenningarkröfur stefnanda til þrautavara miðist svo við mismunandi tilgreinda háttsemi stefndu og séu ekki of víðtækar en væri svo myndi það leiða til sýknu af þeim þegar og ef á reyndi.
Stefnandi hafni því að ekki hafi verið gerð nægjanleg grein fyrir kröfum hans við upphaf máls, auk þess sem lögð hafi verið fram tiltæk gögn, en settur áskilnaður um öflun matsgerðar til samræmis við viðtekinn hátt um sönnunarfærslu fyrir dómi. Ekki þó til að bæta úr annmörkum heldur til að renna frekari stoðum undir málatilbúnaðinn.
Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 413/2009 hafi ekki þýðingu hér þar sem þar hafi alls engin grein verið gerð fyrir kröfufjárhæð í stefnu, sem sé ekki raunin hér, en málatilbúnaður í því máli hafi ekki verið fullmótaður í stefnu. Þá hafi þar ekki verið gerð grein fyrir sönnunargögnum. Það mat stefndu að sönnunargögn í þessu máli séu einhliða eða ófullnægjandi í stefnu leiði ekki til frávísunar, heldur verði að fjalla um það álitaefni síðar ásamt með öðrum efnisatriðum máls, sbr. og 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sem þó eigi ekki við hér, sbr. einnig dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 268/2011 og nr. 402/2015. Stefnandi eigi almennt kost á því að renna frekari stoðum undir grundvöll útreikninga sem snúi að efnishlið máls þegar bótagrundvöllur sé skýr. Ekki hafi virst vefjast fyrir stefndu að byggja upp varnir sínar og stefndi Arion banki hf., hafi jafnvel ekki krafist frávísunar þótt hann hafi viljað taka þátt í slíku eftir á.
Stefndu hafi sjálf óskað eftir frestum til að skila greinargerðum eftir að matsbeiðni hafi komið fram og við það hafi stefnandi ekki gert athugasemdir. Hins vegar sé nú farið fram á frávísun af þessum sökum en stefnandi hafni alfarið þeim sjónarmiðum.
Matsgerðin í málinu sem slík sé ekki óskýr eða illa rökstudd en slíkt myndi aukin heldur ekki hafa áhrif á formhlið málsins. Andlagið hafi verið umrætt tjón sem ákvörðun milligjalda hafi haft í för með sér og sé það í samræmi við málatilbúnað stefnanda.
Hvað varði þátt hvers og eins stefndu í málinu og afmörkun þess þá sé þessi málsástæða eitthvað sem varði alfarið efnishlið málsins. Byggt sé á þeirri meginreglu af hálfu stefnanda að tiltekin samráðshegðun stefndu, sem eigi sér stað yfir tiltekið langt tímabil en samanstandi af einstökum atvikum, beri að virða sem eitt brot eða eina hegðun (single overall agreement) sem sé viðurkennt viðmið á sviði samkeppnisréttar. Ekki þurfi þá að sundurgreina sérhvern þátt með tilliti til þátttöku hvers og eins hinna brotlegu, sem hafi tekið þátt í samfelldri brotastarfsemi, og sé þessi háttur viðtekinn. Á bls. 111-112 í andmælaskjalinu sé útskýrt að í tilfelli stefndu sé um að ræða samtök fyrirtækja í skilningi 12. gr. samkeppnislaga og að um sé að ræða sameiginlega heildarháttsemi.
Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 872/2016 eigi ekki við hér, enda hafi ekki verið um sameiginlega háttsemi að ræða þar líkt og hér sé raunin og þá einkum um milligjöldin. Krefja megi alla er beri bótaskyldu um slíkt tjón um alla tjónsfjárhæðina.
Tengsl stefnanda og samstarf hans við danska félagið PBS Teller séu ljós og hafi ekki þýðingu hér en það sé stefnandi sem hafi verið í samkeppni um að ná söluaðilum í viðskipti á Íslandi en ekki PBS Teller, hvað varði aðild stefnanda til sóknar að málinu. Hér sé aðeins krafist bóta vegna sjálfstæðs tjóns stefnanda en ekki vegna mögulegra hagsmuna PBS Teller. Auk þess myndi slík málsástæða, yrði á hana fallist, leiða til sýknu en ekki frávísunar. Stefnandi og PBS Teller hafi ekki gert samkomulag um skiptingu tekna heldur hafi PBS Teller einungis áskilið sér þóknun frá stefnanda. Þóknunarhlutfall stefnanda hafi verið tilgreint í framlagðri rekstraráætlun stefnanda sem 0,1% af veltu og á því hafi ótvírætt verið byggt í öllum málatilbúnaði stefnanda.
Hvað varði það að ekkert í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins slái samráði föstu þá snúi slíkt að efni málsins en þó hafi stefndu fallist á að greiða sekt. Hafi málið byggt á áralangri rannsókn Samkeppniseftirlitsins og á henni sé nú byggt af hálfu stefnanda.
Niðurstaða
Mál þetta höfðaði stefnandi óumdeilt einkum á grundvelli viðamikilla rannsókna Samkeppniseftirlitsins, í kjölfar kvörtunar stefnanda, sbr. fyrirliggjandi andmælaskjal þess frá 8. mars 2013. En síðan liggur nú enn fremur fyrir í málinu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015, dags. 30. apríl 2015, sem felur í sér sáttir við alla stefndu í þessu máli vegna þar tilgreindra viðurkenndra brota þeirra á ákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, sem og gegn 34. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 (EES), í tengslum við tiltekna þætti þessa máls. Náði umrædd rannsókn Samkeppniseftirlitsins til tímabilsins frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2009. Sátt sú sem gerð var sneri einkum að því að stefndu féllust á brot sín gegn framangreindum lagaákvæðum í tengslum við óbeina samvinnu þeirra við ákvörðun þóknunar/milligjalda á greiðslukortamarkaði með samræmdum hætti. Er þar um að ræða samvinnu hinna þriggja stefndu banka og forvera þeirra, sem útgefenda greiðslukorta, við annars vegar stefnda Borgun hf. og hins vegar við stefnda Valitor hf. sem færsluhirða og samtök fyrirtækja á því sviði.
Í aðgreindum sáttum Samkeppniseftirlitsins við Arion banka hf., Íslandsbanka hf., og Landsbankann hf., sem fylgja með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015, dags. 30. apríl 2015, kemur efnislega fram að viðkomandi banki hafi falið annars vegar Valitor hf. og hins vegar Borgun hf. að ákveða fjárhæð þóknunar/milligjalds sem greitt er útgefendum greiðslukorta (VISA, Electron, MasterCard, og Maestro) í viðskiptum hjá íslenskum seljendum. Hafi sú háttsemi bankanna farið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES, en í aðgreindum sáttum við Valitor hf. og Borgun hf., sem fylgja einnig með framangreindri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, kemur svo efnislega fram að fyrirtækjunum hafi með samningum við forvera bankanna verið falið að ákveða fjárhæð milligjalds sem greitt hafi verið í tengslum við notkun VISA, Electron, MasterCard, og Maestro greiðslukorta. Er einnig viðurkennt að framkvæmdin hafi farið gegn 12. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES. Þá kemur fram í sáttunum að umrædd framkvæmd um milligjöld hafi viðgengist áfram í starfsemi nýju bankanna sem tekið hafi við innanlandsstarfsemi föllnu bankanna. Loks fjallaði sátt Samkeppniseftirlitsins einnig um viss brot hina stefndu banka og Valitors hf. í tengslum við fyrirkomulag þeirra á úthlutun við veitingu vildarpunkta.
Stefndu byggja frávísunarkröfu sína í málinu meðal annars á því að brot þau sem stefnandi byggir aðalkröfu sína á geti ekki talist þess eðlis að unnt sé að krefja stefndu hér í einu lagi óskipt um skaðabætur vegna meints tjóns sem af þeim hafi leitt og þá án þess að frekari útskýringar og gögn liggi fyrir um tjónið og um þátt sérhvers stefndu.
Að mati dómsins verður hér að líta til þess að þó svo að í málinu liggi fyrir rekstraráætlanir stefnanda sjálfs, auk síðar tilkominnar matsgerðar dómkvaddra matsmanna, dags 30. júní 2016, þá verði ekki fram hjá því litið að í ofangreindum fyrirliggjandi úrlausnum frá Samkeppniseftirlitinu, sem stefnandi styður málatilbúnað sinn öðru fremur við, er lýsing á umræddum samkeppnislagabrotum almennt með þeim hætti að um sé að ræða annars vegar samráðsbrot sem leitt hafi af samvinnu bankanna þriggja ásamt Valitor hf. sem samtökum. Hins vegar sé um að ræða brot er leitt hafi af samvinnu bankanna þriggja ásamt Borgun hf. sem samtökum. Virðast því gögn þessi, sem byggt er á af hálfu stefnanda, gefa til kynna að umrædd brot Borgunar hf. og Valitors hf., ásamt bönkunum þremur, teljist hafa verið aðgreind og um sumt mismunandi að eðli og umfangi. Gefur þrautavarakrafa stefnanda sjálfs, hér sett fram í mörgum liðum, þetta einnig til kynna og virðist því ekki í neinu samhengi við þann grundvöll eða þá framsetningu á aðalkröfu eða varakröfu sem stefnandi miðar við.
Þar sem gögn málsins gefa þannig ekki til kynna að um sé að ræða eitt samfellt brot allra stefndu, eins og stefnandi virðist einkum byggja kröfur sínar óskipt á hendur stefndu á, þá er ekki fyrir að fara því innbyrðis samræmi í kröfugerð, framsetningu málsástæðna og framlagningu og inntaki gagna af hálfu stefnanda sem nauðsynlegt er.
Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að þegar þyki nægilega sýnt að þessi málatilbúnaður stefnanda sé það vanreifaður og misvísandi að ekki verði úr því bætt undir rekstri málsins og óhjákvæmilegt sé því að vísa málinu við svo búið í heild frá dómi gagnvart öllum stefndu, sbr. d-, e- og g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu eru ekki efni til þess að fjalla sérstaklega um aðrar málsástæður er stefndu hafa uppi varðandi kröfu þeirra um frávísun málsins.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem, með vísun til málavaxta í heild, þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur gagnvart stefnda Arion banka hf., en 1.000.000 króna gagnvart stefndu, Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbanka hf. og Valitor hf. hverjum fyrir sig.
Af hálfu stefnanda, Kortaþjónustunnar hf., flutti málið Grétar Dór Sigurðsson hdl., fyrir hönd Tómasar Jónssonar hrl., en af hálfu stefndu fluttu málið Stefan A. Svensson hrl. fyrir Borgun hf., Hörður Felix Harðarson hrl. fyrir Íslandsbanka hf., Gunnar Viðar hdl. fyrir Landsbankann hf. og Halldór Brynjar Halldórsson hdl. fyrir Valitor hf.
Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn. Dómarinn tók við málinu 23. janúar sl. en hafði fram til þess engin afskipti að meðferð þess.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli stefnanda, Kortaþjónustunnar hf., á hendur stefndu, Arion banka hf., Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf. og Valitor hf., er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefndu, Borgun hf., Íslandsbanka hf., Landsbankanum hf., og Valitor hf. 1.000.000 króna, hverjum fyrir sig, en stefnda Arion banka hf. 500.000 krónur, í málskostnað.