Hæstiréttur íslands

Mál nr. 292/2011


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sakhæfi
  • Niðurfelling refsingar


            

                                     

Þriðjudaginn 20. desember 2011.

Nr. 292/2011.

 

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

 

Líkamsárás. Sakhæfi. Niðurfelling refsingar.

X var sakfelldur í héraði fyrir líkamsárás. Taldi Hæstiréttur að X hefði gerst sekur um þá líkamsárás sem honum var gefin að sök og að hann hefði verið sakhæfur þegar brotið átti sér stað. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti kom fram að X hefði síðar með dómi í héraði verið sýknaður af refsikröfu vegna tveggja brota sökum ósakhæfis, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga og honum gert að sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. laganna. Jafnframt var upplýst að þeim dómi yrði ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Með hliðsjón af þessu var það niðurstaða Hæstaréttar að refsing í málinu myndi ekki þjóna tilgangi og var hún því felld niður með vísan til 63. gr. almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. maí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu brotaþola verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að tildæmdar bætur verði lækkaðar.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 1.089.193 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júlí 2009 til 5. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 23. febrúar 2011, var ákærði dæmdur fyrir líkamsárás aðfararnótt sunnudagsins 5. júlí 2009. Var hann dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár. Þá var hann dæmdur til að greiða brotaþola, A, 350.000 krónur í miskabætur.

Á undanförnum mánuðum hefur verið rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness mál ákæruvaldsins gegn ákærða þar sem honum var gefið að sök annars vegar manndráp, með því að hafa hinn 12. maí 2011 veist að sambýliskonu sinni og þrengt að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést, og hins vegar brot gegn valdstjórninni, með því að hafa hinn 18. apríl 2011 veist að aðstoðarleikskólastjóra, þar sem hún var að gegna starfi sínu, og slegið hana þungu höggi aftan á höfuð. Dómur var kveðinn upp í málinu 21. nóvember 2011. Var það niðurstaða dómsins að sannað væri að ákærði hefði framið þessi brot en að ástand hans hefði í báðum tilvikum verið með þeim hætti að hann hafi sökum geðveiki verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum og væri hann því ósakhæfur. Var hann því með vísan til 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins og gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Hafa ákærði og ákæruvaldið lýst yfir því að dómi þessum verði unað.

II

Sýknukrafa ákærða byggir í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið færðar fram fullnægjandi sannanir um þau ákæruatriði sem hann var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til forsendna dómsins verður staðfest sú niðurstaða að ákærði hafi gerst sekur um þá líkamsárás sem honum er gefin að sök samkvæmt ákæru.

Ákærði byggir sýknukröfu sína jafnframt á sakhæfisskorti og styður þá kröfu við vottorð geðlæknanna Sigurðar Páls Pálssonar og Ólafs Bjarnasonar en þeirra var aflað í fyrrgreindu máli fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Þau vottorð sem hér er vísað til staðfesta að ákærði hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu þeirra brota sem þar er fjallað um dagana 18. apríl og 12. maí 2011. Það brot sem ákærða er gefið að sök í þessu máli var framið 5. júlí 2009 og verður ekki af þessum gögnum ráðið svo óyggjandi sé að ákærði hafi þá verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum sökum geðveiki. Verður ákærði því ekki sýknaður á þeirri forsendu.

Í 63.gr. almennra hegningarlaga segir að hafi orðið svo ástatt um mann til langframa sem í 15. eða 16. gr. segi, eftir að hann hefur drýgt refsiverðan verknað, en áður en fullnaðardómur gengur í máli hans, ákveði dómur þá hvort refsing skuli dæmd eða hún eigi að falla niður. Þá segir að ákveða megi í dóminum, ef skilyrði 62. gr. laganna þykja vera fyrir hendi, að ráðstöfunum samkvæmt þeirri grein skuli beitt í stað refsingar eða þangað til unnt þykir að framkvæma refsingu.

 Eins og fram er komið var ákærði sýknaður af refsikröfu í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness sökum ósakhæfis, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga og gert að sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. laganna. Af þeim sökum þykir ljóst að refsing muni ekki þjóna tilgangi og verður hún því, samkvæmt heimild í 63. gr. sömu laga, felld niður. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að refsing ákærða, X, fellur niður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 390.092 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærði greiði 150.000 krónur í málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2011.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgar­svæðinu, dagsettri 7. desember 2010, á hendur:

,,X, kt. [...]

[...], [...],

fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 5. júlí 2009, á reyksvæði skemmtistaðarins Apótekið við Austurstræti 16 í Reykjavík, ráðist á A, hrint honum utan í húsvegg þannig að hann féll á jörðina og rekið hné sitt í andlit hans, með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir A, þá kröfu að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta samtals að fjárhæð kr. 1.089.193.- með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2009, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en komi til sakfellingar er þess krafist að brot ákærða verði fært undir 217. gr. almennra hegningarlaga og vægasta refsing dæmd. Krafist er sýknu af skaðabótakröfu, en til vara að krafan sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Hinn 7. júlí 2009 kærði A líkamsárásina sem í ákæru greinir. Hann kvaðst ekki vita tilefni líkamsárásarinnar sem hann varð fyrir er hann var staddur á reyksvæði veitingahússins Apóteksins aðfaranótt 5. s.m. Hann hefði verið að ræða við B, [..], á reyksvæðinu er hann varð fyrir árás og kvaðst hann ekki muna hvað gerðist eftir það, en síðar frétt frá vinum sínum að ákærði hefði slegið sig eitt þungt höfuðhögg svo hann féll niður, auk þess sem ákærði hefði rekið hné í höfuð sitt undir höku og hafi hann þá rotast. Hann hefði rankað við sér á sjúkrahúsi og þá komið í ljós að hann kjálkabrotnaði við árásina.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 5. janúar 2010. Þá kom fram hjá honum að hann myndi ekki eftir kvöldinu sem um ræðir sökum áfengisneyslu. Hann hefði farið í blackout ástand. Hann kvað B [...] hafa greint sér frá því sem gerðist. Hann gæti ekki þvertekið fyrir það sem gerðist eftir að hafa verið kynntur vitnisburður, en ákærði taldi að áverkarnir sem hann kynni að hafa valdið A ættu að hafa verið minni sé tekið mið af frásögn B [...] af atburðinum.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði kvaðst ekki muna mikið frá þessum tíma sökum ölvunar en hann hefði farið í blackout ástand. Hann muni kvöldið gloppótt og muni ekki eftir neinum samskiptum við A. Hann geti því hvorki neitað né játað sök. Hann kvaðst þekkja A lítillega eftir að báðir bjuggu á [...] um skeið. Hann kvað B [...] hafa greint sér frá því eftir á að hann hefði lent í stympingum um kvöldið og að hann hefði ýtt við A, en sér hefði ekki verið sagt hvar sá atburður gerðist.

Vitnið A kvaðst hafa verið staddur á Apótekinu á þessum tíma. Hann viti ekki hvað gerðist en hafi rankað við sér á sjúkrahúsi um nóttina. Hann hefði verið á reyksvæði skemmtistaðarins á tali við B, [...]. Hann hafi þá skyndilega fengið höfuðhögg svo hann rotaðist. Morguninn eftir hafi C og D sagt honum frá því sem gerðist og að ákærði hefði hrint honum og síðan sparkað í hann er hann hefði reynt að standa á fætur. Hann kvað alla sem þarna voru þekkjast, en allir hefðu búið á [...]. A kvaðst ekki hafa séð ákærða þetta kvöld og engin illindi verið á milli þeirra. Hann hefði kjálkabrotnað við árásina og þurft að gangast undir aðgerð og hefði hann verið víraður saman á eftir og þurft að nærast á fljótandi fæði í mánuð meðan þetta ástand hafi varað. Hann kvaðst nú hafa jafnað sig.

Vitnið C kvaðst hafa verið staddur á reyksvæði skemmtistaðarins ásamt ákærða og B, [...]. A hefði komið skömmu síðar. Þeir hefðu rætt saman uns vitnið hafi gengið afsíðis til þess að leita félaga sinna. Í sömu andrá og hann hefði litið við hefði ákærði verið brjálaður og hrint A sem féll við og á vegg og í sömu andrá hefði ákærði sparkað með hnénu í andlit A sem hefði fallið í götuna rotaður. C kvaðst hafa verið í fjögurra til fimm metra fjarlægð er þetta átti sér stað. Ákærði og A hefðu áður rætt lítillega saman. Ákærði hefði staðið afsíðis og B [...] hefði haldið honum en ákærði hefði verið mjög reiður. B [...] hefði strax stöðvað atburðarásina eftir að ákærði hefði sparkaði í A og haldið honum eftir það. Vitnið kvaðst hafa rætt við dyravörð um að hringja í sjúkrabifreið sem hafi verið gert og hafi nálæg sjúkrabifreið komið skömmu síðar og flutt A á slysadeild. Vitnið kvaðst hafa spurt B [...] hvort hann vissi hvað ákærða hefði gengið til með þessu. B hefði ekki vitað það.

Vitnið E kvaðst hafa verið staddur á Apótekinu á þeim tíma sem hér um ræðir. Hann hefði komið að A rotuðum á reyksvæðinu. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða sem hefði sagt sér að þeir A hefðu verið ósáttir, en ákærði hefði ekki sagt sér hvað gerðist. Ákærði hefði verið æstur og hefði vitnið staðfest það sem hann greindi frá hjá lögreglunni að ákærði hefði öskrað á A. E kvaðst einnig hafa rætt við B [...]. Hann hefði sagt að ákærði hefði slegið A er þeir stóðu á tali saman. E kvað A hafa verið fluttan á sjúkrahús skömmu síðar.

Vitnið D kvaðst hafa verið á leiðinni á reyksvæði skemmtistaðarins ásamt E. Er þeir komu fyrir hornið hafi A legið rotaður á götunni og ákærði staðið brjálaður yfir honum. Hann kvað ákærða hafa gefið A hnéspark. Hann kvaðst ekki hafa séð það gerast, en hann hefði komið fyrir hornið í þann mund sem það hefði gerst og A hefði fallið í götuna. Sér hafi fundist augljóst að ákærði hafi rotað A. Hann hefði rætt við ákærða og B [...] en engin svör fengið um það sem gerðist. D kvað réttan framburð sinn hjá lögreglunni þess efnis að er hann hafi komið á reyksvæðið hafi ákærði verið mjög æstur og kallað A aumingja og að B hafi verið að reyna að róa ákærða niður.

Vitnið B, [...], kvaðst hafa verið staddur á reyksvæðinu ásamt fleirum á þessum tíma og staðið á tali við A. Hann kvað ákærða, [...], hafa misskilið aðstæður og ýtt í A, en vitnið kvaðst ekki hafa séð A rotast eða liggja í jörðinni. Hann hafi ekki séð ákærða sparka í A. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða eftir þetta og greint honum frá því að um misskilning væri að ræða, engin illindi væru milli þeirra A.

Meðal gagna málsins er læknisvottorð dagsett 27. júlí 2009, þar sem fram kemur að A hafi greinst með kjálkabrot við komu á slysadeild kl. 6 þann 5. júlí 2009. Steingerður A. Gunnarsdóttir sérfræðilæknir ritaði vottorðið. Hún skýrði það og staðfesti fyrir dóminum.

Niðurstaða

Ákærði man ekki eftir atburðum þessa nótt og kvaðst hvorki geta neitað né játað sök. Vitnið C sá ákærða hrinda A og reka hné sitt í andlit hans eins og rakið var. Vitnin E og D sáu ákærða æstan standa yfir A sem lá í götunni og B [...] sá ákærða ýta A og bar að hann hefði gert það vegna misskilnings. Vitnið A man ekki eftir atburðum en minntist þess að hafa fengið höfuðhögg er hann stóð á tali við B [...]. Hann frétti síðar að ákærði hefði valdið áverkunum sem í ákæru greinir.

Vitnisburður C er trúverðugur og fær stoð í vitnisburði E og D og B að hluta og jafnframt með stuðningi af vitnisburði A sem bar efnislega eins og B um að þeir hefðu staðið á tali er ákærði veittist að honum. Er sannað með vitnisburði þessara manna að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir, en ákærði hefur hvorki játað sök né neitað eins og rakið var. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákærunni en sannað er með læknisvottorði og með vitnisburði Steingerðar A. Gunnarsdóttur sérfræðilæknis og með öðrum gögnum málsins að ákærði kjálkabraut A.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög. Langur tími er liðinn frá atburðinum, en hálft ár leið frá kærunni uns ákærið fékk að vita um hana við skýrslutöku. Þessi dráttur er ámælisverður. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði.

Bótakrafa A er þannig saman sett að krafist er 44.100 króna í þjáningabætur, 800.000 króna í miskabætur, 125.794 króna vegna tekjutaps og 118.699 króna vegna lögfræðikostnaðar. Viðhlítandi gögn hafa ekki verið lögð fram til stuðnings kröfuliðunum um þjáningabætur og um bætur vegna tekjutaps. Raunar kemur ekki annað fram á launaseðlum sem lagðir voru fram en að fjárhæðir hafi verið lagðar inn á tiltekinn bankareikning en ekkert kemur fram um að A hafi misst úr laun. Er þessum kröfuliðum sem báðum var andmælt vísað frá dómi. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 350.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði en upphafsdagur vaxta hefur verið leiðréttur og miðast við 5. júní 2009 í stað 1. janúar 2009 eins og fram kemur í kröfunni sem tekin er upp í ákæruna. Dráttarvextir reiknast frá 5. febrúar 2010, en þá var mánuður liðinn frá birtingu bótakröfunnar fyrir ákærða.

Ákærði greiði 34.500 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Páli Eiríki Kristinssyni héraðsdómslögmanni, skipuðum réttargæslumanni A, 75.300 krónur í réttargæsluþóknun.

Ákærði greiði Arnari Kormáki Friðrikssyni héraðsdómslögmann 188.250 krónur í málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun lögmannsþóknunar.

 Guðrún Sveinsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 350.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. júlí 2009 til 5. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 34.500 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Páli Eiríki Kristinssyni héraðsdómslögmanni 75.300 krónur í réttargæsluþóknun.

Ákærði greiði Arnari Kormáki Friðrikssyni héraðsdómslögmann 188.250 krónur í málsvararlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.