Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Útivist í héraði
|
|
Mánudaginn 31. ágúst 2009. |
|
Nr. 433/2009. |
Jakob Adolf Traustason(sjálfur) gegn Gísla Guðfinnssyni (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Útivist í héraði.
J kærði úrskurð héraðsdóms og krafðist þess að stefna í máli hans gegn G yrði þinglýst á tiltekna fasteign. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, segir að þegar litið væri til þeirra atriða sem fram væru komin um ágreiningsefni málsins væri ekki talið að fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 28. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 til að fallast mætti á kröfu J um þinglýsingu stefnunnar. Var kröfu hans um þinglýsingu stefnunnar því hafnað. J krafðist þess einnig fyrir Hæstarétti að ógiltur yrði frestur sem héraðsdómari ákvað í málinu og að tekin yrði til greina krafa hans fyrir héraðsdómi um að málið yrði dómtekið. Við fyrirtöku málsins í héraði um kröfu J um þinglýsingu á stefnu og uppkvaðningu úrskurðar um þá kröfu var ekki mætt af hálfu G. Í dómi Hæstaréttar segir að líta verði svo á að í kröfu J um dómtöku málsins hafi falist mótmæli við því að G yrði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu. Hafi héraðsdómara borið að kveða upp úrskurð um hvort fresta ætti málinu, sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Hann hafi ekki gert það heldur hafnað kröfunni með ákvörðun um að málið skyldi dómtaka. Réttmæti þeirrar ákvörðunar væri hins vegar ekki til úrlausnar fyrir Hæstarétti sbr. 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að þinglýsa á fasteignina Hróarsholt 2 spildu, Flóahreppi, fasteignanúmer 186-037, stefnu í máli hans gegn varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, en sóknaraðili vísar jafnframt til h. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og heimilað verði að þinglýsa stefnunni. Jafnframt krefst hann þess „að rétturinn ógildi frest sem héraðsdómari ákvað í málinu, til 1. september 2009, við fyrirtöku þess 9. júlí 2009 og að rétturinn taki til greina kröfu kæranda, frá í þinghöldum 6. júlí og 9. júlí 2009, um að málið verði dómtekið.“ Hvað þennan síðari lið kröfugerðar sóknaraðila varðar er þess, til vara, krafist að „Hæstiréttur vísi aftur heim í hérað ákvörðun héraðsdómara, í þinghaldi 9. júlí 2009, um frestinn og að hafna dómtöku máls, til þess að þeirri ákvörðun verði þar breytt með stoð í 5. mgr. 112. gr. l. nr. 91/1991.“ Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður verði látinn falla niður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. júní 2009. Málið höfðar sóknaraðili til viðurkenningar á eignarrétti sínum að fasteign þeirri er að framan greinir, aðallega fullum eignarrétti, en að öðrum kosti að tveimur þriðju hlutum hennar. Þá gerir sóknaraðili kröfu til vara um ógildingu á eignarrétti varnaraðila að fasteigninni, aðallega að ógiltur verði eignarréttur hans að allri fasteigninni en annars að tveimur þriðju hlutum hennar en að því frágengnu að þriðjungi hennar. Auk þess gerir sóknaraðili fleiri kröfur, meðal annars kröfu þá, sem hér er til umfjöllunar um að stefnu í málinu verði þinglýst á fasteignina. Við þingfestingu málsins var mætt af hálfu varnaraðila. Dómari ákvað fyrirtöku í málinu 6. júlí 2009 ,,til þess að gefa stefnanda og lögmanni stefnda kost á að tjá sig um þessa kröfu stefnanda.“ Er málið var tekið fyrir þann dag sótti sóknaraðili, stefnandi málsins, þing en af hálfu varnaraðila var ekki sótt þing. Bókað var í þingbók að krafa stefnanda um þinglýsingu stefnu væri að beiðni hans tekin til úrskurðar sem upp yrði kveðinn 9. júlí 2009. Þá er bókað: ,,Stefnandi leitar eftir afstöðu dómsins til þess hvort taka megi málið til dóms. Dómari féllst ekki á það en bókað var í þingbók í síðasta þinghaldi að málið væri tekið fyrir í dag til að gefa málsaðilum kost á að tjá sig um kröfu stefnanda um þinglýsingu stefnu. Útivist stefnda yrði að túlka þannig að ekki væri haldið uppi frekari vörnum um þá kröfu. Stefnandi krefst þess engu að síður að málið verði dómtekið en gerir ekki kröfu um að dómari taki frekari afstöðu til þess í þinghaldinu.“
Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 9. júlí 2009. Sótti sóknaraðili þá þing, en varnaraðili ekki. Eftir að úrskurðarorð hafði verið lesið í réttinum var bókað að dómari hafi leiðbeint sóknaraðila, sem er ólöglærður, um kærufest og fleira. Er svo bókað að málinu sé frestað samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 til næsta reglulegs dómþings Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið yrði 1. september 2009 á tilgreindum tíma. Einnig var bókað: ,,Stefnandi ítrekar kröfu um að málið verði dómtekið vegna útivistar stefnda. Dómari hafnar því með vísan til framangreindrar lagagreinar. Stefnandi óskar eftir að dómari kveði upp úrskurð um kröfu hans um að málið verði dómtekið. Dómari telur að nægjanlegt sé að taka ákvörðun um kröfu stefnanda og vísar til þess sem áður er fram komið. Stefnandi ítrekar að útivist hafi orðið af hálfu stefnda í málinu.“
Líta verður svo á að í kröfu sóknaraðila um dómtöku málsins hafi falist mótmæli við því að varnaraðila yrði veittur frestur til að skila greinargerð í málinu. Bar héraðsdómara að kveða upp úrskurð um hvort fresta ætti málinu sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Hann gerði það ekki heldur hafnaði því með ákvörðun að málið skyldi dómtaka. Er réttmæti þeirrar ákvörðunar ekki til úrlausnar hér sbr. 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærðir úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jakob Adolf Traustason, greiði varnaraðila, Gísla Guðfinnssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2009.
Mál þetta var höfðað 25. júní sl. en það var þingfest 30. sama mánaðar. Í stefnu er þess krafist að dómurinn úrskurði svo fljótt sem verða megi að stefnu málsins eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á fasteignina Hróarsholt 2 spildu, Flóa-hreppi, landsnúmer 186-037, með vísan til 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Af hálfu stefnda var þessari kröfu mótmælt við þingfestingu málsins og er úrskurðurinn kveðinn upp til að leysa úr þeim ágreiningi.
Við þingfestinguna var málinu frestað til 6. júlí sl. til að gefa málsaðilum kost á að gera grein fyrir kröfum sínum í þessum þætti málsins. Af hálfu stefnda var ekki sótt þing og var málið tekið til úrskurðar varðandi beiðni stefnanda um að stefnu mætti þinglýsa á fasteignina. Stefnandi óskaði jafnframt eftir því að málið yrði dómtekið. Dómurinn hafnaði því með vísan til þess að fyrirtaka í málinu væri aðeins til að fjalla um þann þátt málsins sem hér verður leyst úr. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála á stefandi rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda ef hann hefur sótt þing við þingfestingu málsins.
I.
Málvöxtum er lýst þannig í stefnu að málið varði land úr dánarbúi Guðfinns Kr. Gíslasonar sem lést 11. október 2007. Landið hafi á dánardegi Guðfinns talist vera yfir 100 hektarar að stærð. Guðfinnur hafi látið eftir sig þrjú börn, Maríu Guðbjörgu, Gerði Björgu og stefnda, Gísla. Stefnandi sé hins vegar stjúpsonur hans en öll fjögur hafi þau verið sammæðra og hálfsystkini. Við einkaskipti á dánarbúinu hafi heildarlandinu verið skipt að jöfnu með þremur börnum Guðfinns, þ.e. stefnda, Maríu og Gerði. Eftir það hafi landinu verið skipt í tvær landspildur. Minni spildan hafi verið seld til þriðja aðila og daginn eftir þann gerning hafi María og Gerður afsalað sér sinni hlutdeild í stærri spildunni til stefnda og sé það sú spilda sem stefnukrafa málsins taki til. Mál þetta sé höfðað til að stefnandi fái sín eignarumráð fyrir þeim hluta landsins.
Landið sem um ræði hafi verið og sé eign stefnanda fyrir gjöf frá Guðfinni heitnum og síðan einnig að tveimur þriðju fyrir afsal frá Maríu og Gerði sem hafi verið gert á undan afsali til stefnda. Jafnframt hafi stefnandi eignast landið sem endurgjald frá Guðfinni fyrir vinnu, aðstoð og annað framlag til hans auk þess sem stefnandi eigi rétt til landsins upp í skaðabætur sökum þess að Guðfinnur hafi ekki staðið við það gagnvart stefnanda að tryggja að hann fengi landið til eignar og þinglýst á sitt nafn. Auk þess eigi stefnandi svo rétt á landinu úr hendi stefnda fyrir þær sakir að stefndi sé valdur að því að stefnandi hafi ekki fengið umráð landsins vegna aðkomu stefnda að öðru leyti að ráðstöfun landsins. Í ljósi þess að stefnandi eigi landið hafi allar ofangreindar eignayfirfærslur erfingja á landinu verið gerðar í vanheimild.
Eftir andlát Guðfinns hafi verið ágreiningslaust að ofangreint land væri eign stefnanda fyrir gjöf Guðfinns og hafi erfingjar viðurkennt að þeim hafi verið þetta kunnugt og að þau myndu ekki setja sig þar á móti. María og Gerður hafi með sérstakri yfirlýsingu skriflega, vottað það, lýst yfir, viðurkennt og samþykkt að Guðfinnur heitinn hefði gefið stefnanda til eignar alla landareign sína í Hróarsholtstorfu, Flóahreppi, Árnessýslu, ásamt því að þær hafi í sama skjali samþykkt og lýst stefnanda eiganda landsins fyrir sitt leyti. Yfirlýsing og umboð Maríu og Gerðar séu dagsett 7. og 8. febrúar 2008. Undir yfirlýsingu þessa hafi stefndi ekki skrifað. Hann hafi þó ekki andmælt að Guðfinnur hefði gefið stefnanda landið. Að auki hafi svo María og Gerður síðar ítekað að stefnandi hafi fengið landið að gjöf ásamt því að þær hafi afsalað öllu sínu tilkalli og eignarétti (nú eða síðar) að landinu til stefnanda með „afsali og yfirlýsingu“ dagsettu 3. maí 2008 ásamt því að þær lýsi hann þar „þá og síðar“ réttan eiganda landsins að þeirra hlutdeild. Auk þess sé tekið fram í þessu afsali að það taki enn fremur til tilkalls og eignaréttar sem systurnar öðlist hugsanlega síðar til landsins.
II.
Í málinu krefst stefnandi þess aðallega að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnanda að landi „Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur“ landnúmer 186-037, en til vara eignarréttur að tveim þriðja hluta sama lands og til vara eignarréttur að einum þriðja hluta sama lands, ásamt öllum gögnum og gæðum þess í sömu hlutföllum og öðru er fylgir og fylgja ber.
Vara stefnukrafa stefnanda er að dæmdur verði ógildur eignarréttur stefnda Gísla að landi sem í aðalkröfu greinir, en til vara eignarréttur að tveim þriðja hluta sama lands.
Samhliða aðal og varakröfu er þess einnig krafist að stefndi verði dæmdur til að gefa út afsal til stefnanda fyrir landi sem í aðalkröfu greinir að því marki sem fallist verður á kröfur stefnanda til landsins samkvæmt kröfugerð hér að ofan, að viðlögðum 40.000 króna dagsektum á dag til stefnanda, frá uppkvaðningu dóms til útgáfu afsals.
Jafnframt og til þrautavara er þess krafist að dæmt verði að stefnanda sé heimilt að fá þinglýsa á landið, sem í aðalkröfu greinir, „Afsali og yfirlýsingu“ dagsettri 3. maí 2008, útgefin af Maríu Guðbjörgu og Gerði Björg, sem eignarheimild til handa stefnanda að tveim þriðju hlutum landsins.
Jafnframt er gerð sú krafa að í dómi verði viðurkennt að stefnda beri að bæta (beri bótaskyldu gagnvart) stefnanda sem nemur vöxtum af fjárhæð samkvæmt verðmati á landinu sem stefnandi fær sér dæmt samkvæmt kröfugerð hér að ofan, miðað við 21. maí 2008, að því hámarki sem lög um vexti heimila, frá 11. nóvember 2007 til þess tíma að dómur gengur í málinu, verði á dagsektir fallist, en að öðrum kosti til þess tíma að stefnandi fær vörslur landsins.
Þá er krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.
III.
Í þessum þætti málsins leitar stefnandi eftir úrskurði héraðsdóms um að stefnu eða útdrætti úr henni megi þinglýsa á fasteignina til að gera þriðja aðila viðvart en það sé enn og meir áríðandi þar sem landið hafi að hluta verið selt en það sem eftir standi sé komið í auglýsta sölumeðferð.
Í málinu er byggt á því að stefnandi eigi landið sem um ræði en hann hafi fengið það að gjöf frá stjúpföður sínum og að erfingjum hafi verið kunnugt um það og viðurkennt það. Tveir þeirra hafi einnig samþykkt gjöfina eftir andlát stjúpföður stefnanda. Skjölum og pappírum hafi verið eytt eftir andlátið. Því er einnig haldið fram af hálfu stefnanda að gögn, sem standi að baki meðferð og ráðstöfun á landinu úr dánarbúinu og síðan frá og milli erfingja séu ólögleg og í ýmsum atriðum ómarktæk, en auk þess standist þinglýsing þeirra ekki, ekki lög og reglur, m.a. þinglýsingalög.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing, sem María Guðfinnsdóttir hefur undirritað fyrir sína hönd og Gerðar systur sinnar samkvæmt umboði, sem veitt var 7. febrúar 2008, en yfirlýsingin er dagsett 8. febrúar sama ár. Einnig liggur fyrir í málinu skjal, sem ber heitið afsal og yfirlýsing, frá 3. maí s.á. undirritað af Maríu fyrir sína hönd og Gerðar samkvæmt umboði. Í yfirlýsingunni frá 8. febrúar kemur fram að Guðfinnur Kr. Gíslason hafi í dánargjöf gefið stefnanda til eignar alla landareign sína í Hróarsholtstorfu Flóahreppi í Árnessýslu og samþykkt sé að svo skuli vera og að stefnandi sé eigandi að landinu. Í afsali og yfirlýsingu frá 3. maí segir m.a.:
„Við framangreindar dætur Guðfinns heitins, lýsum yfir, höldum fram og erum sáttar við að Jakob Traustason, kt. 180846-2049, eignaðist (fékk) landið að gjöf frá nú látnum föður okkar Guðfinni Kr. Gíslasyni. Sé það hins vegar svo að ofangreint nægi ekki sem fullgild eignarheimild fyrir Jakob yfir landinu þá afsölum við hér með öllu tilkalli og eignarétti okkar nú eða síðar, varðandi landið, til Jakobs A. Traustasonar og lýsum hann hér með og síðar réttan og löglegan eiganda landsins með afsali og yfirlýsingu þessari, hvað varðar okkar mögulega hlutdeild eða tilkall nú eða síðar.“
Skiptayfirlýsing varðandi landið er dagsett 29. maí 2008 og þinglýst 22. desember s.á. Á þeim tíma sem framangreind yfirlýsing og afsal til stefnanda var undirritað höfðu systurnar því ekki þinglýsta eignarheimild fyrir landinu.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. þinglýsingalaga getur dómari ákveðið með úrskurði að þinglýsa megi stefnu í máli er varðar réttindi yfir fasteign eða útdrætti úr stefnu. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 18. október 2007 í máli nr. 521/2007 er markmið þessarar heimildar að gera viðsemjendum þinglýsts eiganda viðvart um ágreining sem varðar réttindi yfir fasteign. Í dóminum segir einnig að í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til þinglýsingalaga komi fram að til þess að rétt sé að taka til greina kröfu um þinglýsingu stefnu þurfi aðstæður að vera svipaðar því sem 2. mgr. 27. gr. laganna geri ráð fyrir. Sá sem þess krefst þurfi því að færa fram veigamikil rök fyrir staðhæfingu um réttindi sín yfir viðkomandi fasteign, þótt ekki verði á því stigi máls tekin efnisleg afstaða til ágreinings aðila.
Þegar litið er til þeirra atriða sem fram eru komin og hér hafa verið rakin um réttindi yfir umræddu landi verður ekki talið að fullnægt sé skilyrðum til að fallast á kröfu sóknaraðila um að þinglýst verði stefnu í málinu á fasteignina Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppi. Samkvæmt því verður að hafna kröfu stefnanda.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu stefnanda, Jakobs A. Traustasonar, um að stefnu málsins megi þinglýsa á fasteignina Hróarsholt 2 spilda, Flóahreppur, fasteignanúmer 186-037.