Hæstiréttur íslands
Mál nr. 136/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudagurinn 9. mars 2010. |
|
Nr. 136/2010.
|
Sýslumaðurinn á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Arnar Sigfússon hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. mars 2010 klukkan 16 og sæta einangrun og öðrum tilgreindum takmörkunum meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í héraði gerði sóknaraðili meðal annars kröfu um að varnaraðili sætti í gæsluvarðhaldinu takmörkunum samkvæmt a. lið og c. til f. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Lög standa ekki til þess að sá sem rannsókn stýrir geri sérstaka kröfu um slíkt fyrir dómi, þó að sakborningur geti samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laganna borið undir dómara hvort skerða megi réttindi hans samkvæmt c. e. liðum 1. mgr. greinarinnar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. mars 2010 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2010.
Lögreglustjórinn á Akureyri hefur í dag krafist þess að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. mars kl. 16:00 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá er þess krafist að kærði sæti einangrun á gæslutímanum sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og takmarkana samkvæmt a-lið til f-liðar sömu greinar.
Lögreglustjóri segir, að hinn 11. febrúar síðastliðinn hafi Y, kt. [...], verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er hann hafi komið til landsins með flugi frá Kaupmannahöfn. Hafi rúm 800 grömm kókaíns fundist falin í ferðatösku hans. Eftir rannsókn lögreglu sé sterkur rökstuddur grunur um að Z, kt. [...], hafi verið í samskiptum við Y ytra og hafi meðal annars afhent honum ferðatösku er geymt hafi fíkniefnin. Þá hafi komið í ljós að kærði hafi keypt farmiða Z frá Danmörk til Íslands en þeir búi saman. Hafi lögregla rökstuddan grun um að kærði sé riðinn við innflutning fíkniefnanna og hafi meðal annars komið að skipulagningu hans.
Lögreglustjóri segir rannsókn málsins í fullum gangi. Við hana hafi Þ, kt. [...], viðurkennt að hafa keypt miða fyrir Y fyrir fé kærða og beiðni hans. Við húsleit á heimili kærða, [...], hafi fundist plastbrot úr töskum, sem svari til þeirra taska sem Y hafi notað við innflutning fíkniefna til landsins, en töskurnar séu sérútbúnar með fölskum plasthliðum. Þá hafi Þ viðurkennt við yfirheyrslu að Y hafi gengið undir leyninafninu „frændi Þ“ og við símahlustun hafi komið fram að kærði og Z hafi, sex dögum eftir handtöku Y, rætt saman og kærði þá spurt um „frænda Þ“ og hvort týndir menn hafi verið auglýstir.
Lögreglustjóri segir það magn fíkniefna sem þegar hafi verið haldlagt benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka.
Lögreglustjóri kveðst gerða kröfu sína með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga og laga nr. 65/1974 og séu brýnir rannsóknarhagsmunir í húfi.
Kærði krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað en til vara krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Kveður hann rannsóknarhagsmuni ekki í húfi, en þrjár vikur séu nú frá því fíkniefnin hafi fundist.
Lögregla rannsakar nú ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn henni varðar allt að tólf ára fangelsi, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001. Ljóst þykir af gögnum málsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn þeirri grein hegningarlaga. Rannsókn málsins, að því er varðar hugsanlegan hlut kærða í því, er skammt á veg komin og með vísan til gagna málsins og þeirra sjónarmiða sem fram koma í kröfu lögreglustjóra verður fallist á það mat hans að kærði kunni, gangi hann laus, að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á hugsanlega samseka menn. Verður krafa lögreglustjóra um gæsluvarðhald tekin til greina svo sem hún er fram sett. Með sömu rökum verður tekin til greina krafa lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun og öðrum tilgreindum takmörkunum.
Af hálfu lögreglustjórans á Akureyri gerði kröfuna Eyþór Þorbergsson fulltrúi.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi sem ekki standi lengur en til fimmtudagsins 11. mars klukkan 16:00.
Á gæslutímanum sæti kærði einangrun samanber b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og öðrum þeim takmörkunum sem a og c til f-liður sömu málsgreinar tilgreina.