Hæstiréttur íslands

Mál nr. 465/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. nóvember 2005.

Nr. 465/2005.

Jónas B. Guðmarsson og

Sigurborg Þórsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Kötlu Bjarnadóttur

Sigmundi Heiðari Árnasyni og

Soffíu Magnúsdóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

J og S höfðuðu mál á hendur K, SHÁ og SM til viðurkenningar á bótaskyldu vegna ætlaðra galla á fasteign. Talið var að þar sem skort hefði á að J og S hefðu í stefnu  lýst ástandi fasteignarinnar með tilliti til  þeirra galla, sem þau töldu vera á henni, teldist málið vanreifað.  Var niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins því staðfest.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. nóvember 2005, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. október 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Katla Bjarnadóttir og Sigmundur Heiðar Árnason krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Soffía Magnúsdóttir hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrra máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá héraði vegna vanreifunar með dómi Hæstaréttar 15. desember 2004 í máli nr. 486/2004. Nú reynir á hvort sóknaraðilar hafi með hinni nýju málsókn bætt úr þeim annmörkum sem þá leiddu til frávísunar.

Sóknaraðilar höfðuðu málið til viðurkenningar á bótaskyldu varnaraðila vegna ætlaðra leyndra galla á fasteign sem þau keyptu af varnaraðilunum Sigmundi Heiðari og Kötlu 19. ágúst 2003. Það heyrir til nauðsynlegrar reifunar máls af þessu tagi, að stefnandi geri fullnægjandi grein fyrir ástandi hinnar seldu fasteignar að því leyti sem hann telur hana gallaða. Þetta hafa sóknaraðilar ekki gert og eru annmarkar á reifun málsins að þessu leyti til þess fallnir, eins og í úrskurði héraðsdóms greinir, að hamla því að varnaraðilar geti varist dómkröfu þeirra. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Um kærumálskostnað fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Jónas B. Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir, greiði óskipt varnaraðilunum Kötlu Bjarnadóttur og Sigmundi Heiðari Árnasyni hvoru fyrir sig 35.000 krónur í kærumálskostnaðHinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 21. október 2005.

             Mál þetta var höfðað 28. apríl og 3. maí 2005 og tekið til úrskurðar 14. október sama ár. Stefnendur eru Jónas Benóný Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir, bæði til heimilis að Presthúsabraut 28 á Akranesi, en stefndu eru Katla Bjarnadóttir og Sigmundur Heiðar Árnason, bæði til heimilis að Hellisbraut 21 á Hellissandi, og Soffía Magnúsdóttir, Jörundarholti 208 á Akranesi. Þá er Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3 í Reykjavík, stefnt til réttargæslu.

             Stefnendur hafa höfðað málið til að fá viðurkennda bótaskyldu stefndu vegna fasteignaviðskipta. Dómkrafa stefnenda er svohljóðandi: „Að viðurkennt verið með dómi, að stefnendur eigi skaðabótarétt in solidum á hendur stefndu Sigmundi Heiðari Árnasyni, Kötlu Bjarnadóttur og Soffíu Magnúsdóttur, vegna sölu stefndu, Sigumundar og Kötlu, á fasteigninni Presthúsabraut 28, Akranesi, þann 19. ágúst 2003 til stefnenda og á hendur stefndu Soffíu, vegna milligöngu hennar sem löggilts fasteignasala um sölu eignarinnar, vegna tjóns sem stefnendur hafa orðið fyrir vegna vanefnda á kaupsamningi sökum leyndra galla á fasteigninni sem felast í því að: gólf í eldri hluta hússins hafi verið ónýtt, þak hafi ekki verið nýendurnýjað af fagaðilum og því lekt, rakaskemmdir eru vegna þaklekans og lagnir þ.m.t. dren-, neysluvatns- og rafmagnslagnir hafi ekki verið endurnýjaðar.“ Þá gera stefnendur kröfu um að stefndu verði gert að greiða málskostnað.

             Stefndu Katla og Sigmundur krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þau verði sýknuð af kröfum stefnenda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda en til vara að málskostnaður falli niður.

             Stefnda Soffía krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum stefnenda auk þess sem þeim verði gert að greiða henni málskostnað. Þótt stefnda geri ekki kröfu um frávísun málsins tekur hún undir röksemdir stefndu Kötlu og Sigmundar til stuðnings frávísunarkröfu og telur jafnframt að vísa bæri málinu frá dómi án kröfu.

             Réttargæslustefndi hefur látið mál þetta til sín taka en hefur ekki uppi sjálfstæðar dómkröfur í málinu.

             Með úrskurði þessum er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu Kötlu og Sigmundar. Í þeim þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að málið tekið til efnismeðferðar.

I.

             Með kaupsamningi 19. ágúst 2003 keyptu stefnendur fasteignina Presthúsabraut 28 á Akranesi af stefndu Kötlu og Sigmundi. Um er að ræða einbýlishús á tveimur hæðum 143,2 m² að stærð. Milligöngu við söluna hafði stefnda Soffía, löggiltur fasteignasali hjá Fasteignamiðlun Vesturlands ehf. Kaupverð eignarinnar var 11.000.000 krónur.

Í söluyfirliti eignarinnar, sem vísað var til í kaupsamningi, er að finna nánari lýsingu á húsinu auk þess sem tekið er fram að starfsmanni fasteignasölunnar sé ekki kunnugt um aðra galla á eigninni en þá sem tilgreindir eru í þeirri lýsingu. Í lýsingu á eigninni segir meðal annar svo:

 

„...Rafmagnstafla og lagnir endurnýjað. Timburgólf milli hæða. Hluti gólfs er timburgólf frá 1882, nýrri hluti er steypt 1966, ath. að gólf halla. Eftir að einangra undir hálfa gólfplötu. Skolplögn endurnýjuð frá húsvegg út í götu, mynduð 2003, í lagi. Búið að leggja drenlögn að mestum hluta, eftir að leggja í planið. ...“

 

             Samkvæmt kaupsamningi var eignin afhent stefnendum 15. september 2003. Eftir að þau höfðu búið í eigninni um skamma hríð töldu þau sig verða var við að gólf á neðri hæð í eldri hluta hússins væri farið að síga mikið. Í kjölfarið settu stefnendur sig í samband við Smára Jónsson, fyrri eiganda hússins, en yfirlýsing hans frá 30. mars 2004 liggur frammi í málinu. Þar fullyrðir Smári að hann hafi við sölu eignarinnar árið 1997 til stefndu Kötlu og Sigmundar gert þeim grein fyrir að gólf í eldra hluta hússins væri ónýtt og að nauðsynlegt væri að endurnýja það. Stefnda Soffía hafði þá einnig milligöngu um söluna og heldur Smári því fram að henni hafi verið kunnugt um ástand hússins að þessu leyti. Þá er fullyrt í yfirlýsingunni að stefndu Katla og Sigmundur hafi fengið trésmið til að gera við gólfið til bráðabirgða svo það héldist uppi.

             Stefnendur hafa aflað álits Trésmiðjunnar Akurs um kostnað við að lagfæra gólfi hússins. Í bréfi trésmiðjunnar 20. febrúar 2004 kemur fram að rífa þurfi gólfið alls 28,8 m² og milliveggi sem á því standa alls 7,5 m og endurnýja. Einnig er nánar lýst þeim úrbótum sem trésmiðjan telur óhjákvæmilegar. Kostnaður við þetta er talinn nema um 1.450.000 krónur en ekki sé gert ráð fyrir kostnaði við málningu, pípulagnir eða raflagnir.

             Stefnendur töldu sig einnig verða vör við rakaskemmdir í veggjum og gera þau ráð fyrir að seljendum hafi verið kunnugt um það við sölu eignarinnar. Þá telja þau að ekki sé unnt að hafast við í húsinu nema þegar hlýtt er í veðri sökum kulda sem leitar inn í húsið um gólfið. Hafa stefnendur aflað yfirlýsingar pípulagningameistara frá 6. september 2004 þar sem lýst er þeim úrbótum sem gripið var til af þessu tilefni, auk þess sem nánar er lýst hvað þurfi að lagfæra við lagnakerfi hússins.

Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið halda stefnendur því fram að stefndu hafi fullyrt við sölu eignarinnar að þak væri endurnýjað. Í ljós hafi hins vegar komið að eingöngu var búið að negla járnplötu á þakið en ekki ganga frá samskeytum, rennum eða ljúka frágangi þannig að þakið væri regnhelt. Loks halda stefnendur því fram að drenlagnir hafi ekki fundist og að neysluvatnslagnir séu stíflaðar að mestu leyti nema í þvottahúsi.

             Stefnendur skoðuðu eignina í tvígang fyrir kaupin en þau halda því fram að húsgögn hafi komið í veg fyrir að sjá mátti að gólfi á neðri hæð væri áfátt. Einnig telja stefnendur ekki hafa verið á færi þeirra að skoða skriðkjallara hússins fyrir kaupin. Þá halda stefnendur því fram að stefndu hafi vanrækt að veita viðhlítandi upplýsingar um ástand eignarinnar við kaupin. Af þessum sökum beri stefndu skaðabótaábyrgð gagnvart stefnendum.

II.

             Af hálfu stefndu Kötlu og Sigmundar er krafa um frávísun málsins reist á því að dómkröfur stefnenda séu vanreifaðar og málatilbúnaður allur svo óglöggur að stefndu sé með öllu ógerlegt að hafa uppi varnir við hæfi. Einnig benda stefndu á að stefnendur hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn til stuðnings kröfum sínum, svo sem með því að afla matsgerðar. Telja stefndu að þessi málatilbúnaður fari gegn 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Loks benda stefndu Katla og Sigmundur á að stefnendur hafi áður höfðað mál um sama sakarefni en það mál hafi sætt frávísun með dómi Hæstaréttar 15. desember 2004 í máli nr. 486/2004. Halda stefndu því fram að stefnendur hafi ekki bætt úr annmörkum á málatilbúnaði sínum þannig að málið sé tækt til efnismeðferðar.

             Af hálfu stefnenda er vísað til þess að þau hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um bótaskyldu stefndu og leiti því viðurkenningardóms um kröfur sínar á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá andmæla stefnendur því að málatilbúnaður þeirra sé óljós og málið vanreifað.

III.

             Með málsókn sinni leita stefnendur viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu stefndu vegna vanefnda við fasteignakaup sem stefnendur rekja til ákveðinna galla á eigninni, svo sem nánar er lýst í dómkröfum þeirra. Var stefnendum heimilt að standa þannig að málatilbúnaðinum þótt unnt væri á grundvelli viðhlítandi gagnaöflunar að hafa uppi kröfur sem fullnægja mætti með aðför að gengnum dómi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 

             Stefnendur hafa ekki aflað matsgerðar um orsök og umfang þeirra galla sem þau telja á eigninni, eins og þeim hefði verið í lófa lagið. Stefnendur hafa aftur á móti lagt fram bréf Trésmiðjunnar Akurs 20. febrúar 2004 þar sem lýst er þeim úrbótum sem talið er óhjákvæmilegt að grípa til. Af þessu áliti verður hins vegar mjög takmarkað ráðið í hverju gallinn felist og hver hafi verið tildrög hans. Þá er umfangi gallans einungis lýst með fullyrðingu um að rífa þurfi gólf og milliveggi sem á því standa. Jafnframt hafa stefnendur lagt fram yfirlýsingu pípulagningameistara frá 6. september 2004 þar sem lýst er aðgerðum sem ráðist var í til að ná upp hita í húsinu. Þar er einnig fullyrt að leggja þurfi nýjar lagnir að ofnum og skipta um ofna þar sem gamlir ofnar séu flestir stíflaðir. Þá er fullyrt að vatnslögnin sé léleg af tæringu án þess að því sé nánar lýst.

             Þau gögn sem hér hafa verið rakin og stefnendur hafa upp á sitt eindæmi aflað um galla á eigninni verða talin alls ófullnægjandi um ástand eignarinnar þannig að mat verði lagt á hvort eignin hafi verið gölluð við afhendingu til stefnenda. Þannig liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um orsök og umfang gallans, en upplýsingar þar að lútandi hafa meðal annars áhrif þegar metin er upplýsingaskylda seljanda og skoðunarskylda kaupanda. Að þessu virtu verður að fallast á það með stefndu að þau eigi óhægt um vik með að taka afstöðu til dómkrafna og halda uppi vörnum í málinu. Verður málatilbúnaður stefnenda jafnframt talin svo óljós að dómur verði ekki lagður á málið vegna vanreifunar. Af þeim sökum verður krafa stefndu Kötlu og Sigmundar um frávísun málsins tekin til greina, enda verður ekki bætt úr þessum annmörkum undir rekstri málsins. 

             Eftir 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnendum in soldium gert að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir. Samaðild er með stefndu Kötlu og Sigmundar og verður þeim því dæmdur málskostnaður í einu lagi, sbr. 1. mgr. 132. gr. sömu laga. 

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Stefnendur, Jónas Benóný Guðmarsson og Sigurborg Þórsdóttir, greiði stefndu, Kötlu Bjarnadóttur og Sigmundi Heiðari Árnasyni, sameiginlega 40.000 krónur í málskostnað og stefndu, Soffíu Magnúsdóttur, 30.000 krónur.