Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


                                     

Mánudaginn 23. mars 2015.

Nr. 208/2015.

A

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2015, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 7. sama mánaðar um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2015.

Með kröfu, sem dagsett er 8. mars sl. og barst réttinum degi síðar, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], Reykjavík, krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá [...]. mars sl., um að hann skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest 11. mars sl. og tekið til úrskurðar samdægurs.

Varnaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun innanríkisráðuneytisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi staðfest. Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. d. lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.

Fram kemur í beiðni varnaraðila 6. mars sl. um ástæður vistunar sóknaraðila á sjúkrahúsi að um sé að ræða ungan mann í geðrofi. Hafi hann verið kyrrsettur samkvæmt 48 tíma reglu kl. 10:30 þann dag. Sóknaraðili hafi komið á bráðamóttöku geðdeildar í fylgd lögreglu. Hann hafi verið staddur á veitingastað í Reykjavík og ásakað veitingamanninn um að hann hafi átt þátt í því að hann var lagður inn á geðdeild fyrir mörgum árum síðan. Geðhagur sóknaraðila sé ekki góður og því talið nauðsynlegt að nauðungarvista hann til að veita honum nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Haft hafi verið samband við föður sóknaraðila sem setji sig ekki á móti nauðungarvistuninni.

Með beiðninni fylgir læknisvottorð B geðlæknis dagsett 7. mars sl. Þar kemur fram um sjúkdómsferil og félagslegar aðstæður sóknaraðila að hann sé 32 ára ógiftur og barnlaus maður sem dvalið hafi á heimili móður sinnar sl. 1-2 mánuði. Hafi áður verið í leiguherbergi sem hann virðist búinn að missa en hann sé ófáanlegur til að gefa frekari upplýsingar hvað það varðar. Hann hafi sögu um misnotkun áfengis og kannabisefna frá 14 ára aldri. Hann hafi að eigin sögn farið á Vog árið 1999 en náð litlum árangri. Þá eigi hann komur á göngudeild áfengis á geðsviði árið 2001. Þá hafi einnig verið gert greindarmat sem sýni þó nokkurn misþroska. Saga sé um höfuðhögg eftir bílslys árið 1999. Þá séu endurteknar komur á slysadeild frá 1999 til 2001 vegna áverka eftir átök. Einnig er lýst að við komu hafi hann hafi viljað meina að verið væri „að fremja morð á netinu“. Þá hafi hann rætt um að eigandi veitingastaðar í Reykjavík sem hann hafi verið á hafi stungið mann árið 1996. Gerandi hafi verið dæmdur og setið af sér dóm en sóknaraðila finnist ekki nóg gert og hafi hann verið að áreita gesti staðarins og segja þeim að eigandi hans sé morðingi. Hafi lögregla þurft að hafa afskipti af honum vegna þess. Sóknaraðili segi svo frá að hann hafi séð þátt í sjónvarpinu um þetta hnífsstungumál og það hafi rifjast upp fyrir honum seinna þegar hann hafi rekist á fórnarlambið á götu, sem sé illa farið, í neyslu og á götunni. Hann segist hafa skoðað myndband af þættinum aftur um daginn og þá fengið „deja vu“ og martraðir sem eigandi veitingastaðarins sé að senda frá sér.

Þá segir í vottorðinu um skoðun sóknaraðila að honum sé mikið niðri fyrir þegar hann lýsi ranghugmyndakerfi sínu. Hann virki yngri en hann er og gefi barnslegan „kontakt“. Hann tali mikið um hnífstungumál frá 1996. Reki sögu sína í stórum dráttum frá 1996 og nefni dagsetningar fram til ársins 2014. Hann stikli á stóri og tengi saman atburði frá 1996, 1998, 1999, 2001 og 2013. Lýsi hann m.a. ferðalagi sem hann hafi átt með „Sívarsbræðrum“. Hann lýsi hvernig sund í frosnum fossi hafi haft áhrif, lýsi símtali á götu úr símaklefa við stúlku sem hafi svo birst nokkrum sekúndum seinna fyrir fram hann og hvernig hann hafi þá farið að hugsa um eigin getu og velt fyrir sér eigin mikilfengleika. Hann lýsi því ákveðnu ranghugmyndakerfi. Hann gefi engar upplýsingar um íverustað eða fjárhagsstöðu. Verði tortrygginn þegar hann sé spurður út í daglegt líf og segist hafa nóg fyrir stafni. Þá sé hann áttaður á stund og stað en sjúkdómsinnsæi sé ekki til staðar. Hann neiti neysluvanda. Geðslag sé nokkuð „neutralt“ og geðbrigði viðeigandi. Þá sé hann nokkuð rólegur en hafi verið með ógnandi hegðun í orði og æði við komu á bráðamóttöku deginum áður. Neiti að svara vissum spurningum.

Í niðurlagi vottorðsins segir samantekið að sóknaraðili sé með sögu um misnotkun ávana- og fíkniefna. Hann komi á bráðamóttöku í fylgd lögreglu þar sem hann hafi ítrekað verið að áreita gesti og gangandi á veitingastað í borginni. Tengist það ranghugmyndakerfi sóknaraðila. Hann sé með „klárleg“ geðrofseinkenni í formi ranghugmynda og samsærishugmynda. Einnig hafi „tilvísunarranghugmyndir“ komið fram í viðtali. Þá segir að sóknaraðili sé undir áhrifum kannabisefna „skv. stixi“. Nauðungarvistun sé óhjákvæmileg á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 svo sóknaraðili fái greiningu og nauðsynlega meðferð. Sóknaraðili sé í geðrofsástandi og innsæislaus. Þá hafi ekki gengið að aðstoða hann á göngudeild. Ástandi hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms.

Við meðferð málsins gaf geðlæknirinn B símaskýrslu fyrir dómi, staðfesti framangreint vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Lýsti hún því að við komu á bráðamóttöku geðdeildar hafi sóknaraðili verið í geðrofi og með ranghugmyndir sem tengst hafi gömlu sakamáli sem hann hafi verið mjög upptekinn af. Hún hafi metið það svo að nauðungarvistun sóknaraðila hafi verið óhjákvæmileg þar sem sóknaraðili hefði ekki haft innsæi í ástand sitt og að veikindi hans myndu versna og ranghugmyndir aukast yrði ekki gripið inn í og honum veitt viðeigandi meðferð.

C geðlæknir, sem hafði með sóknaraðila að gera í innlögn á deild 32C, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum. Fram kom í máli hans að meðferð með geðrofslyfjum hafi gengið ágætlega en sóknaraðili væri enn í geðrofi og enn bæri á ranghugmyndum. Enn væri þörf fyrir áframhaldandi meðferð. Sóknaraðili hefði á hinn bóginn mjög takmarkað innsæi í ástand sitt og gerði sér ekki grein fyrir mikilvægi og þörf meðferðar fyrir sig. Hans faglega mat væri að ástand sóknaraðila væri slíkt að enn bæri brýna nauðsyn til þess að hann væri áfram nauðungarvistaður. Yrði nauðungarvistuninni aflétt væri ljóst að veikindi hans muni ágerast og að ekki væru líkur á bata nema gripið væri inn í. Þá væri óljóst hversu mikil neysla sóknaraðila væri og hver þáttur hennar sé í veikindum hans. Þetta þyrfti að greina betur með tilliti til meðferðar sóknaraðila.

Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann var rólegur og yfirvegaður og krafðist þess að nauðungarvistuninni yrði aflétt. Hann hafnaði því alfarið að eiga við veikindi að stríða og hefði ekki þörf fyrir neina meðferð. Engin hætta væri á því að hann færi í neyslu yrði nauðungarvistuninni aflétt.

Talsmaður sóknaraðila vísar til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 71/1997 um nauðungarvistun sóknaraðila séu ekki fyrir hendi og því beri að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá [...]. mars sl. úr gildi. Gæta verði meðalhófs í málinu þar sem nauðungarvistun fæli í sér verulegt inngrip í líf sóknaraðila. Nauðungarvistun væri ekki nauðsynlegt til verndar lífi og heilsu sóknaraðila. Hann hefði einungis áhyggjur af vini sínum og því óréttlæti sem honum fyndist vinur sinn hafa orðið fyrir. Ástandi hans væri engan veginn hægt að jafna til alvarlegs geðsjúkdóms og hann ætti ekki við vímuefnavanda að stríða.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest. Byggir hann á því að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn fyrir hendi í tilviki sóknaraðila. Vísar hann um það til framlagðs vottorðs geðlæknisins B og símaskýrslu hennar fyrir dóminum og einnig til símaskýrslu geðlæknisins C fyrir dóminum. Sóknaraðili sé að mati lækna haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða sé í ástandi sem jafna megi til slíks sjúkdóms og mikilvægt sé að hann fái viðeigandi meðferð. Telja þeir líklegt að ástand hans muni versna til muna verði nauðungarvistuninni aflétt þar sem hann hafi skert innsæi í veikindi sín og telji sig ekki þurfa á meðferð að halda.

Fram er komið í málinu að sóknaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar með geðrofseinkenni og ranghugmyndir. Ástand þetta er enn til staðar. Verður að telja verulegar líkur á því að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða að jafna megi ástands hans til alvarlegs geðsjúkdóms, í skilningi 19. gr. laga nr. 71/1997, og að fái hann ekki læknismeðferð nú sé heilsu hans stefnt í voða og spillt fyrir möguleikum á bata. Verði nauðungarvistuninni aflétt verður því að telja líklegt að veikindi sóknaraðila og ranghugmyndir hans haldi áfram að stigmagnast þar sem hann hefur ekki innsæi í ástand sitt og telur sig ekki þurfa á meðferð að halda. Verður því að telja nauðungarvistun óhjákvæmilega og vægari úrræði ekki duga í tilviki sóknaraðila. Telja verður að framburður sóknaraðila fyrir dóminum sé til marks um að hann sé innsæislaus í ástand sitt og hafi ekki skilning á nauðsyn meðferðar.

Í ljósi alls ofangreinds og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, sérstaklega vottorði B og símaskýrslu hennar fyrir dóminum auk símaskýrslu geðlæknisins C fyrir dóminum verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, hvað varðar ástand sóknaraðila og að í ljós sé leitt að brýna nauðsyn beri til þess að hann dvelji áfram á sjúkrahúsi til að takast á við veikindi sín og fá þá meðferð sem hann þarf að mati lækna á að halda og viðeigandi greiningu. Getur framburður sóknaraðila fyrir dóminum ekki dregið úr vægi fyrirliggjandi vottorðs og skýrslna geðlæknanna tveggja fyrir dóminum hvað þetta varðar. Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 og með hagsmuni sóknaraðila sjálfs í huga og líkur hans á bata með inngripi nú, verður því staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins að hann skuli vistast á sjúkrahúsi.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, frá [...]. mars 2015, um að sóknaraðili, A, kt. [...], skuli vistast á sjúkrahúsi.

Kostnaður af málinu greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 150.000 krónur.