Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-8
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nálgunarbann
- Viðurlög
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 17. desember 2021, sem barst réttinum 18. janúar 2022, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember 2021 í máli nr. 239/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða var birtur dómurinn 20. nóvember 2021. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir tvö nauðgunarbrot, fimm brot í nánu sambandi, fjögur brot gegn nálgunarbanni, húsbrot, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Refsing hans var ákveðin fangelsi í sjö ár. Þá var hann sviptur ökurétti í fjóra mánuði og dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur.
4. Leyfisbeiðandi afmarkar beiðni sína með þeim hætti að ekki sé óskað endurskoðunar á niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafi hann játað sakir vegna ákæru fyrir húsbrot, eignaspjöll og umferðarlagabrot. Tilgangur beiðninnar sé annars vegar að fá endurskoðun ákvörðunar viðurlaga, sbr. a-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Í því efni telur hann að refsing hafi verið ákveðin til muna of þung og ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Hins vegar sé tilgangur beiðninnar að fá endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á skýringu og beitingu réttarreglna, sbr. b-lið sömu greinar. Vísar hann til þess að tiltekin brot hans hafi ranglega verið heimfærð undir 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Jafnframt sé niðurstaða um sakfellingu fyrir brot gegn nálgunarbanni samkvæmt 1. mgr. 232. gr. laganna efnislega röng. Leyfisbeiðandi telur að áfrýjun málsins samkvæmt framangreindu lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.