Hæstiréttur íslands

Mál nr. 792/2013


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Hlutdeild
  • Aðfinnslur


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2014.

Nr. 792/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Björgvini G. Hallgrímssyni

(Jón Magnússon hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Hlutdeild. Aðfinnslur.

X var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa ásamt Y staðið að innflutningi á samtals 2.388,50 g af amfetamíni til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Í dómi héraðsdóms var X fundinn sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru og dæmdur í tveggja ára fangelsi. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið að fram væri komin lögfull sönnun um að X hefði veitt Y fyrirmæli og leiðbeiningar um ferðatilhögun vegna innflutningsins eða að hann hefði átt að njóta ágóða af brotinu. Á hinn bóginn var talið sannað með játningu ákærða að hann hefði afhent U umslag með farsíma og reiðufé og á þann hátt annast milligöngu milli Y og annars manns vegna fyrirhugaðs fíkniefnainnflutnings. Þá var talið sannað að X hefði greitt farmiða Y með greiðslukorti sínu. Að virtri hlutdeild X í brotinu var refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing ákærða verði milduð.

Í ákæru er ákærða og meðákærða Y gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa 26. janúar 2013 staðið saman að innflutningi á samtals 2.388,50 g af amfetamíni til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Y, sem játaði brot sitt skýlaust, dæmdur í tveggja ára fangelsi og unir hann þeim dómi.

Þætti ákærða í hinum ætlaða samverknaði ákærðu er lýst svo í ákæru að hann hafi haft milligöngu um að fá meðákærða til verksins, veitt honum leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning fíkniefnanna, afhent meðákærða umslag með farsíma og reiðufé og greitt farmiða hans með greiðslukorti sínu 16. janúar 2013.

Ákærði hefur játað að hafa að beiðni meðákærða haft milligöngu um að koma á sambandi milli hins síðarnefnda og ónafngreinds manns vegna fyrirhugaðs fíkniefnainnflutnings meðákærða, sem ákærða var kunnugt um. Hafi ákærði sett sig í samband við mann þennan og ekið meðákærða til hans um mánuði áður en meðákærði fór til Þýskalands, skilið meðákærða þar eftir og sótt hann stuttu síðar. Ákærði kvað mann þennan skyndilega hafa birst heima hjá sér með umslag og beðið sig um að koma því til meðákærða. Í framhaldi af því hafi ákærði haft samband við meðákærða, sem hafi komið til sín og sótt umslagið. Meðákærði hafi ekki opnað umslagið heima hjá ákærða, en ákærði þó ímyndað sér hvað í því var, það hafi örugglega verið „aurar og upplýsingar.“ Þeir hafi ekki rætt málið frekar og ákærði ekkert viljað vita um það. Þá hafi ákærði greitt fargjald meðákærða til Þýskalands, sem hinn síðarnefndi hafi endurgreitt sér degi síðar. Enn fremur hafi ákærði ekið meðákærða út á flugvöll og ætlað að sækja hann þangað þegar hann kæmi til baka.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 5. apríl 2013 skýrði meðákærði frá því að ákærði hafi sagt sér  nokkrum dögum fyrir ferðina til Þýskalands að best væri fyrir sig að fara til Hollands í fyrrgreindum tilgangi, en upplýst er í málinu að meðákærði tók við umræddum fíkniefnum í borginni Groningen þar í landi. Þá hafi ákærði sagt sér að kaupa farmiða og að allt yrði borgað. Meðákærði hafi síðan sjálfur ákveðið að fara fyrst til Berlínar. Hafi ákærði „alveg“ gert sér grein fyrir hvað hafi verið í fyrrnefndu umslagi og hafi þeir rætt „aðeins lauslega“ um þær leiðbeiningar sem þar voru. Í leiðbeiningunum hafi komið fram borgarnafnið Groningen og hafi ákærði setið við hlið sér þegar meðákærði las þær yfir. Fyrir dómi dró meðákærði þennan framburð til baka.

Ákærðu ber saman um að meðákærði hafi sett sig í samband við ákærða vegna áforms hins fyrrnefnda um að flytja fíkniefni til landsins. Kvaðst meðákærði hafa átt að fá í sinn hlut 20% af andvirði sölu fíkniefnanna, sem gefið hefði sér tæpar 3.000.000 krónur.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag á ákæruvaldinu. Metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Enn fremur metur dómari eftir 2. mgr. sömu greinar, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktun má leiða af um það.

Ekkert er fram komið í málinu sem styður fyrrgreindan framburð meðákærða hjá lögreglu. Gegn neitun ákærða hefur ákæruvaldinu því ekki tekist lögfull sönnun um að hlutur ákærða í broti því, sem honum er gefið að sök í ákæru, hafi verið meiri en hann hefur sjálfur viðurkennt. Er því ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi veitt meðákærða leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning fíkniefnanna. Jafnframt er ósannað að ákærði hafi átt að njóta ágóða af brotinu. Á hinn bóginn er sannað með játningu ákærða að hann hafi afhent meðákærða umslag með farsíma og reiðufé og á þann hátt annast milligöngu milli meðákærða og hins óþekkta manns vegna fyrirhugaðs fíkniefnainnflutnings meðákærða, enda þótt ósannað sé að ákærði hafi fengið meðákærða til verksins. Á sama hátt er sannað að ákærði hafi greitt farmiða meðákærða með greiðslukorti sínu. Með þessu atferli átti ákærði sinn þátt í því að brotið var framið, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fólst hlutdeild hans í brotinu í því að styrkja áform meðákærða, sem áður voru til orðin svo sem fyrr greinir, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Að virtri hlutdeild ákærða í brotinu, sem er réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru, er refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku og sakarkostnað ákærða verða staðfest.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Samkvæmt því á aðeins að vísa til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, svo sem vegna ósamræmis milli þess sem þar kemur fram og framburðar fyrir dómi. Í héraðsdómi er réttilega gerð grein fyrir áðurnefndu misræmi í framburði meðákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, en að öðru leyti var ekki þörf á að rekja framburð ákærðu hjá lögreglu. Á sama hátt fer það gegn umræddri meginreglu að vísa í dómsforsendum til munnlegra skýrslna sem gefnar hafa verið hjá lögreglu nema sérstök ástæða gefi tilefni til.

Dómsorð:

Ákærði, Björgvin G. Hallgrímsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað ákærða eru staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, 470.463 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 12. september sl. og dómtekið 6. nóvember sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara á hendur ákærða, Björgvini G. Hallgrímssyni, kt. [...],[...],[...], og Y, kt. [...],[...], þannig:

I.

Gegn ákærðu báðum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa, laugardaginn 26. janúar 2013, staðið saman að innflutningi á samtals 2.388,50 g af amfetamíni, sem unnt er að framleiða um 12.325,6 g af efni úr miðað við 5,6% meðalstyrkleika, til landsins frá Berlín í Þýskalandi, til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, svo sem nánar er rakið í 1.-2. tölulið:

1.       Ákærði Björgvin hafði milligöngu um að fá meðákærða Y til verksins, veitti honum leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning fíkniefnanna, afhenti meðákærða Y umslag með farsíma og reiðufé og greiddi farmiða hans með greiðslukorti sínu þann 16. janúar 2013.

2.       Ákærði Y fór til Berlínar í Þýskalandi í því skyni að flytja fíkniefnin til Íslands, fór þaðan til Hollands og móttók fíkniefnin og flutti til landsins sem farþegi með flugi X9126 frá Berlín, Þýskalandi. Fíkniefnin fundu tollverðir falin í botni á ferðatösku ákærða við komu hans til Keflavíkurflugvallar laugardaginn 26. janúar 2013.

Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Gegn ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 14. febrúar 2013 að Hólabraut 9, Reykjanesbæ, haft í vörslum sínum 25,30 g af amfetamíni sem lögreglan fann við leit.

Telst þetta varða við 2., sbr. 5. og 6., gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

III.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þess er krafist að öll ofangreind fíkniefni verði gerð upptæk, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

                Við þingfestingu málsins játaði ákærði Y sinn þátt í ákærunni en neitaði því að ákærði Björgvin hefði haft milligöngu um að fá meðákærða Y til verksins. Þá játaði ákærði háttsemi í ákærulið II.

                Ákærði Björgvin neitaði sök fyrir dóminum en játaði að hafa haft milligöngu að beiðni meðákærða og látið berast að meðákærði vildi fara í umrædda ferð, auk þess sem hann hafi afhent ákærða umslag með gögnum í. Hófst aðalmeðferð þann 18. september sl. en var framhaldið þann 6. nóvember sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Samkvæmt skýrslu lögreglu var ákærði Y stöðvaður af tollgæslunni við heimkomu frá Berlín í Þýskalandi aðfaranótt 26. janúar sl. Fundust falin fíkniefni í töskubotni ferðatösku hans. Játaði ákærði strax að vera með fíkniefni í fórum sínum og hafi hann ætlað að græða peninga á þeim á skjótan hátt. Var ákærði Y handtekinn og  úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldi, fyrst til 8. febrúar síðan framlengt til 22. febrúar, aftur til 8. mars og loks til 5. apríl sl.

                Við rannsókn á fíkniefnunum kom í ljós að styrkur amfetamínbasa var 57-62%, sem samsvaraði 78-84% af amfetamínsúlfati. Þá var metið af Rannsóknastofu Háskóla Íslands að hægt væri að framleiða úr 2.388,5 g 12.325,6 g af amfetamíni miðað við 5,8% styrkleika efnisins, en miðað var við neyslustyrkleika samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2007 á efnum sem haldlögð voru á Íslandi á árunum 2005 og 2006 og voru þau efni að meðaltali 5,8% að styrkleika. Þá var gert ráð fyrir því að efnin væru þynnt með óvirku dufti, eins og t.d. laktósa, og að ekkert færi til spillis í aðgerðinni. Matsgerðir þessar hafa ekki verið vefengdar.

Ákærðu unnu saman og voru vinir til margra ára.

Skýrslur fyrir lögreglu.

Ákærði Y játaði sök í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Sagðist hann hafa ætlað að selja fíkniefnin hér á landi til að koma sér út úr kreppu. Hann hafi ætlað að selja öll efnin í einu lagi. Lýsti ákærði ferðalagi sínu til Berlínar og þaðan til Hollands þar sem hann keypti efnin og fór aftur til Berlínar og flaug þaðan til Íslands. Kvaðst Y hafa greitt 4.000 evrur fyrir efnin og hafi hann safnað þeim áður en hann fór út auk þess sem hann hafi keypt tæpar 2.000 evrur í gjaldeyri hjá Landsbankanum. Kvaðst hann hafa keypt evrur á svörtum markaði, fengið evrur þar sem hann vann og fengið einhverja peninga að láni. Vildi hann ekki nafngreina þá sem lánuðu honum fé, en til hafi staðið að endurgreiða þeim með góðum hagnaði. Þá upplýsti Y að hann hafi fengið að nota greiðslukort vinar síns og vinnufélaga, Björgvins G. Hallgrímssonar, til að kaupa farmiðana þar sem hann væri ekki með greiðslukort og hafi hann borgað Björgvini strax með reiðufé andvirði miðanna.

                Í yfirheyrslunni 5. apríl sl. hjá lögreglu kvaðst Y hafa verið orðinn leiður á peningaleysinu og beðið Björgvin um að láta það orð berast að hann væri tilbúinn að fara utan og sækja fíkniefnatösku. Tveimur vikum síðar hafi Björgvin komið til hans og spurt hvenær hann væri tilbúinn að fara og í framhaldi hafi Björgvin keypt farmiða fyrir Y til Berlínar þann 18. janúar sl. Y kvaðst hafa fengið umslag með síma, peningum og fyrirmælum um innflutninginn. Yvildi hins vegar ekki greina frá því hvernig hann fékk umslagið í hendurnar. Í umslaginu hafi verið evrur, norskar og danskar krónur og 350.000 krónur sem hann hafi átt að kaupa evrur fyrir sem gjaldeyri. Taldi Y að hann hafi verið með um samtals 10-12.000 evrur. Lýsti hann síðan ferðalagi sínu til Berlínar og þaðan til Groningen í Hollandi samkvæmt fyrirmælum og innritaði sig þar inn á hótel Martini. Þar hafi hann fengið SMS um að maður myndi hitta hann á hótelbarnum á tilgreindum tíma. Þar hafi hann afhent manninum peningaumslagið og ætlaði sá að hafa samband við Y þegar taskan væri tilbúin. Y hafi svo fengið skilaboð frá manninum á sunnudagskvöldinu og þeir hist í húsasundi. Í framhaldi hafi hann farið til Berlínar og síðan heim til Íslands. Kvaðst hann ekki vita hverjum hann hafi verið að þjóna með þessum innflutningi og þannig hafi hann viljað hafa það.  Hann hafi átt að fá 15-20% af sendingunni sem átti að skila honum um tveimur til þremur milljónum króna. Kvaðst Y ekki hafa vitað nákvæmlega hversu mikið magn hann var með en hafi talið að það væru um tvö kíló. Þá kvaðst hann hafa vitað að um sterkt efni var að ræða. Þá kvað Y miða með leiðbeiningum, sem lögregla fann við húsleit heima hjá honum, hafa verið í umslaginu sem hann fékk áður en hann fór í ferðina. Y kvaðst aldrei hafa hitt né verið í öðrum samskiptum við manninn sem Björgvin talaði við og hafi hann lagt málin í hendurnar á Björgvini og treyst honum. Kvað hann framburð Björgvins um að hann hafi fundað með þessum manni í Reykjavík ekki vera réttan. Sagði Y við skýrslutökuna að Björgvin hafi sagt honum að best væri fyrir hann að fara til Hollands og þá til Groningen. Þá hafi Björgvin sagt honum að kaupa farmiða og allt yrði borgað. Þá hafi Björgvin hringt í hann um kvöldmatarleytið daginn áður en hann fór út og beðið hann um að koma heim til hans. Þar hafi Björgvin afhent honum umslag með fullt af peningum, síma og leiðbeiningum. Þar hefði Björgvin sagt honum að fara heim og hlaða símann og setja á hann viðbótarfrelsi. Þeir hefðu rætt saman um leiðbeiningarnar í umslaginu og að hann hefði lesið þær heima hjá Björgvini og að Björgvin hefði verið við hliðina á sér þegar hann gerði það.

Í byrjun rannsóknar hafði ákærði Björgvin réttarstöðu vitnis. Staðfesti hann þá framburð Y og kvaðst hafa lánað honum kortið til að kaupa farmiða sem Y hefði svo greitt honum til baka með peningum. Kvað hann þá hafa verið vinir sl. tuttugu ár. Sagði hann að Y hefði ákveðið með þriggja daga fyrirvara að fara út í tilefni af afmæli hans og gera sér glaðan dag. Björgvin hafi ekki haft neina vitneskju um þennan fíkniefnainnflutning. Björgvin hafi ekið Y í flug og hafi einnig ætlað að sækja hann þegar hann kæmi til baka. Taldi Björgvin að Y hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að fjármagna stór fíkniefnakaup. Í kjölfar skýrslutöku af Y fékk Björgvin réttarstöðu sakbornings og í annarri skýrslutöku af honum viðurkenndi Björgvin að hafa verið milligöngumaður á milli Y og aðila sem stóð fyrir innflutningnum. Vildi Björgvin ekki nafngreina þann aðila. Kvað hann það rétt vera hjá Y að Björgvin hafi látið orð út berast að Y væri tilbúinn að fara utan í fíkniefnakaup. Björgvin hafi hringt í mann í Reykjavík og komið á fundi með honum og Y, líklega þremur til fjórum vikum áður en Y fór út. Þeir hafi fundað í 30 til 60 mínútur og hafi Björgvin ekki verið viðstaddur fundinn. Björgvin hafi í framhaldi verið í símasambandi við manninn og maðurinn og Y hafi einnig verið í sambandi. Maðurinn hafi látið sig fá umslag sem hann átti að koma til Y og hafi Y komið heim til sín stuttu síðar og sótt umslagið.

Í yfirheyrslu þann 4. apríl sl. lýsti Björgvin því að hann hafi ekið Y á heimili X og farið í burtu sjálfur á meðan þeir ræddu saman. Var þessi framburður Björgvins borinn undir Y þann 5. apríl og kannaðist Y ekkert við þetta og neitaði því.

Við rannsókn á símagögnum milli síma Yog Björgvins kom fram að þeir voru í símasambandi á þeim tíma er Y var erlendis, þ.e. frá 18. til 25. janúar sl.    

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði Y kom fyrir dóminn og kvaðst játa sinn hluta málsins en hann hafi ekki komið með efnin til að selja þau eða dreifa. Ástæða þess að hann hafi farið til Berlínar hafi verið peningaleysi. Hann væri áfengis- og fíkniefnaneytandi en hefði verið búinn að vera edrú í sjö ár en fallið. Hann hafi látið það berast að hann væri tilbúinn til að fara út og sækja efni. Kvaðst hann sjálfur hafa átt hugmyndina að ferðinni en hún hafi kviknað einhverjum mánuðum áður. Það hafi verið í desember 2012, sem hann bað meðákærða Björgvin að kanna hvort hann þekkti ekki einhvern. Hann hafi „svona rætt þetta og ekki rætt“ og beðið hann um þetta en Björgvin reynt að telja hann ofan af hugmyndinni. Y kvaðst ekki vita hvernig Björgvin hafi látið það berast að hann væri tilbúinn að fara út. Milli jóla og nýjárs hafi Björgvin ekið sér til Reykjavíkur á heimili þriðja manns og Björgvin skilið sig eftir þar og sótt sig nokkru síðar. Y hafi því allan tímann vitað fyrir hvern hann var að fara í ferðina. Maðurinn hafi boðið Y að velja sjálfur hvert hann vildi fljúga og hafi Y talið best að fara til Berlínar. Þá hafi komið fram í samtölum hans við þennan mann að fíkniefnin væru í Hollandi. Hann hafi fengið skilaboð í síma sem hann fékk hjá manninum þegar hann lenti í Berlín og lét sig vita að hann ætti að taka lestina daginn eftir til Gronigen í Hollandi. Y hafi síðan hitt mann í Hollandi á laugardagskvöldinu og afhent honum peningana og síðan hafi hann komið með töskuna á sunnudagskvöldinu. Aðspurður kvaðst hann hafa vitað að hann ætti að sækja milli tvö og þrjú kíló af amfetamíni. Y hafi síðan átt að fara heim til sín þegar hann kæmi til landsins en Björgvin hafi ætlað að sækja hann á flugvöllinn.

                Aðspurður kvaðst Y hafa fengið poka með umslagi sem innihélt peninga, síma og leiðbeiningar. Þar hafi hann fengið fyrirmæli um að hlaða símann en kveikja ekki á honum fyrr en hann væri kominn út. Þá hafi verið gjaldeyrir í umslaginu, evrur, norskar og danskar krónur auk 350.000 króna í íslenskum peningum. Fyrirmæli hafi verið um það hvernig hann ætti að nota peningana, hvað væri fyrir uppihaldi og hvað fyrir fíkniefnin. Spurður að því hvers vegna hann hafi sótt umslagið heim til Björgvins, kvaðst Y hafa beðið þennan mann um að koma gögnunum heim til Björgvins þar sem hann hafi ekki viljað fá þetta heim til sín en hann byggi með aldraðri móður sinni. Björgvin hafi síðan hringt í sig og Y farið heim til hans og tekið pakkann, farið heim til sín og hlaðið símann. Kvaðst Y ekki hafa skoðað miðann og fyrirmælin heima hjá Björgvini og kvaðst ekki muna hvort hann hafi rætt þau við hann.   

                Y kvaðst ekki hafa verið með kreditkort á þessum tíma þar sem kortið hafi verið í bankanum og þeir Björgvin unnið saman svo hann hafi beðið Björgvin að lána sér kortið sitt. Daginn sem hann flaug út hafi hann fengið kreditkortið sitt afhent úr bankanum. Hann hafi greitt Björgvini til baka um 40.000 krónur í peningum.

                Aðspurður um þátt meðákærða Björgvins, eins og honum er lýst í ákæru, kvað Y það rétt að hann hafi sótt peningana og fleira til Björgvins en Björgvin hafi vel vitað um hvað málið snerist og hafi reynt að letja hann til fararinnar. Y kvaðst ekki rengja niðurstöður matsgerða Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði sem liggi fyrir í málinu.

                Ákærði Y kvaðst hafa viljað hylja slóð sína og tengingu við þann mann sem hann fór fyrir út og þess vegna fengið Björgvin til að taka við upplýsingum frá honum og koma þeim til sín. Þá kvaðst Y hafa vitað fyrir hvern hann fór út en vildi ekki upplýsa hver það væri.

                Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hann nefni eingöngu meðákærða Björgvin en ekki X, kvaðst hann hafa verið búinn að vera í gæsluvarðhaldi og einangrun lengi og því hafi hann gefið Björgvin upp þar sem lögreglan vissi að hann hefði keypt flugmiðann. Þá kvaðst Y ekki hafa beðið X um að koma peningum og gögnum til Björgvins, hann viti ekkert hvers vegna hann fór með gögnin til hans. Hann hafi bara ekki viljað fá gögnin heim til sín. Hann hafi engin fyrirmæli gefið og bara hugsað að ekki væri hægt að tengja þennan mann við sig. Það hafi ekkert verið rætt hvernig hann ætti að koma þessu til Y. Það segi sig kannski sjálft að maðurinn hafi farið með gögnin til Björgvins þar sem Björgvin hafi keyrt Y til hans í upphafi. Aðspurður um það að hann hafi svarað því fyrr í yfirheyrslunni að hann hafi beðið manninn um að fara með gögnin til Björgvins, kvaðst Y hafa beðið manninn um að koma þessu ekki til sín.

                Y kvað Björgvin ekki hafa skipulagt ferðina á neinn hátt, hann hafi latt sig til ferðarinnar og eingöngu sinnt beiðni sinni um að finna skipuleggjanda fyrir sig. Kvað ákærði Y framburð sinn allan hjá lögreglu vera þvælu og eitthvert rugl. Þá hafi hann sagt rangt frá hjá lögreglu að hann hafi farið yfir ferðatilhögun með Björgvini áður en hann fór út til Berlínar. Þá hafi hann sagt rangt í lögregluskýrslu að hann hafi ekki vitað fyrir hvern hann fór í ferðina, hann hafi alla tíð vitað það en lofað þeim manni að upplýsa ekki um aðild hans. Kvað hann rétt að Björgvin hafi vitað að hann færi til Groningen en ekkert um það hvar hann myndi gista, hann hafi valið hótelið sjálfur. Kvað hann frásögn sína hjá lögreglu 5. apríl sl. um aðild Björgvins vera rugl, hann hafi fengið leiðbeiningarnar og fyrirmælin frá X en ekki Björgvini. Hann hafi bara verið að búa til eitthvert bull, hann hafi verið að reyna að halda X frá málinu. Miðinn sem sé í málinu séu einu leiðbeiningarnar sem hann hafi fengið fyrir utan að hann og X hafi verið búnir að ræða þetta þegar þeir hittust en þeir hafi ekkert útlistað þetta frekar. Ákærði kvaðst aldrei hafa nefnt X í yfirheyrslum hjá lögreglu til að halda aðild hans leyndri. Ákærði kvað framburð sinn í lögregluskýrslu skýrast af því að hann langaði að losna úr gæsluvarðhaldi, hann hafi verið í einhvers konar losti og verið búinn að keyra í gegnum bæinn sinn á leið í yfirheyrsluna. Hann hafi verið kominn út í horn og verið búinn að spinna upp alls konar sögur.        

                Ákærði Björgvin kom fyrir dóminn og kvaðst ekkert hafa komið að fíkniefnainnflutningnum utan að hafa komið Y í kynni við X. Y hafi ítrekað beðið sig um að koma sér í samband við þennan mann í þeim tilgangi að koma með eitthvað inn til landsins. Björgvin hafi ekki viljað vita hvað það væri, sem ákærði ætlaði að koma með til landsins, en hafi getað gert sér grein fyrir því í hvaða tilgangi ferðin var farin. Björgvin hafi hringt í manninn og síðan ekið Yheim til hans. Aðspurður sagði hann manninn hafa gert sér grein fyrir tilgangi með fundinum en hann hafi ekki verið ræddur í orðum. Y hafi byrjað að ræða þetta við sig um hálfu ári áður en farið var. Hann hafi síðan kynnt þá tvo um tveimur vikum eða mánuði áður en ferðin var farin. Aðspurður kvað hann manninn hafa síðan birst hjá sér með umslag og beðið sig um að koma umslaginu til Y. Hann hefði spurt Y að því seinna hvers vegna X kæmi til sín og hafi Y sagt sér að hann vildi ekki fá X heim til sín þar sem hann byggi með móður sinni. Kvaðst Björgvin vel hafa getað getið sér til um hvað var í umslaginu, það hafi örugglega verið aurar og upplýsingar og gæti verið að sími hafi verið í því líka. Y hafi ekki opnað umslagið að sér viðstöddum, þeir hafi ekkert rætt um þetta og Björgvin hafi ekki viljað vita neitt um ferðina þar sem hann gat vitað í hvaða tilgangi Y fór. Y hafi beðið sig um að lána sér kreditkort til að kaupa flugmiðann þar sem kort Y var fast í banka. Y hafi greitt sér aftur til baka daginn eftir um fjörutíu þúsund krónur. Þá hafi Björgvin ekið Y út á flugvöll og þeir rætt um það að Björgvin myndi sækja hann aftur þegar Y kæmi til landsins.

                Björgvin kvað einu samskipti hans hafa verið að kynna Y og X. Aðspurður um framburð Y hjá lögreglu um aðkomu Björgvins og að Björgvin hafi komið öllum upplýsingum til Y, kvað Björgvin það ekki vera rétt. Björgvin kvaðst enga milligöngu hafa haft um neitt varðandi það að bera eitthvað á milli. Þá hafi Björgvin engar skýringar á framburði Y um að Björgvin hafi komið fyrirmælum til Y. Þá segir hann rangt hjá Y að Björgvin hafi sagt honum að best væri að fara til Groningen í Hollandi og að Y hafi farið yfir leiðbeiningarnar að Björgvini viðstöddum. Björgvin kvaðst ekkert hafa vitað um tegund efnis, magn eða hvar átti að kaupa efnið. Björgvin hafi heldur ekki átt að fá neitt í sinn hlut. Björgvin kvað aðspurður að Yhafi vitað í upphafi að Björgvin þekkti ákveðinn einstakling og Y hafi beðið sig um að koma sér í samband við þann ákveðna mann, sem Björgvin hafi gert. Y hafi heyrt af þeim manni og viljað komast í samband við hann. Björgvin hafi hringt í hann og síðan ekið Yþangað.

                Bjarki Freyr Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa stýrt rannsókn málsins. Kvað hann ákærða í upphafi hafa reynt að taka sökina á sig einan en í annarri eða þriðju skýrslutökunni hafi hann skýrt að hluta frá aðild meðákærða Björgvins. Í skýrslutöku þann 5. apríl sl. hafi ákærði Y skýrt skilmerkilega frá atvikum en þá hafi ákærði verið laus úr einangrun í nokkrar vikur. Kvað Bjarki ekkert hafa komið fram, né nokkur ástæða vera til að efast um að ákærði segði ekki satt og rétt frá hjá lögreglunni.

Önnur rannsóknargögn.

 Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði frá 18. febrúar sl., sem liggur fyrir í málinu, segir að tvö sýni hafi verið send til tæknirannsóknar. Í fyrra sýninu mældist styrkur amfetamínbasa 57%, sem samsvari 78% af amfetamínsúlfati. Í öðru sýninu mældist styrkur amfetamínbasa 62%, sem samsvari 84% af amfetamínsúlfati.

Í annarri matsgerð frá sömu stofnun, dagsettri 7. mars 2013, sem er í gögnum málsins, segir að neyslustyrkleiki kókaíns hér á landi hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega. Vitað sé að neyslustyrkleiki fíkniefna geti verið breytilegur frá einu landi til annars, frá ári til árs og jafnvel milli borga í sama landi. Í útreikningum hér sé gengið út frá nýjustu tölum um neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku, en hann hafi verið að meðaltali 22% á landsvísu árið 2011. Í því samhengi sé rétt að benda á að mikill breytileiki hafi verið í neyslustyrkleika kókaíns í Danmörku frá aldamótum, hæstur hafi hann verið 48% árið 2001 og lægstur 18% árið 2009. Þá segir að úr 283,29 g af dufti sem innihaldi 88% kókaín sé hægt að framleiða 1133 g af kókaíni, miðað við 22% styrkleika. Gengið sé út frá því að efnið sé þynnt með óvirku dufti, eins og t.d. laktósa, og ekkert fari til spillis í aðgerðinni.

Niðurstöður.

Ákærðu Y og Björgvin er gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 2.388,50 g af amfetamíni sem hægt var að framleiða rúmlega tólf kíló af efni úr miðað við meðalstyrkleika 5,8% þann 26. janúar 2013. Ákærði Y játaði aðild sína strax hjá lögreglu. Teknar voru fjórar skýrslur af ákærða Y hjá lögreglu og lýsti ákærði ferð sinni í fyrstu skýrslunni sem skyndiákvörðun en ákærði Björgvin hafi greitt fyrir sig flugmiðann þar sem vísakort sitt væri í bankanum. Í annarri skýrslunni lýsti hann ferðalagi sínu og kom með ýmsar skýringar á því reiðufé sem hann fór með til kaupa á fíkniefnunum. Í þriðju skýrslunni lýsti hann því svo að poki með umslagi hafi verið settur á hurðarhúninn heima hjá honum með leiðbeiningum og peningum í en í lok skýrslunnar kvað hann það vera rangt hjá sér, gögnin hafi ekki borist þannig en hann vildi ekki segja frekar frá því. Var ákærði Y í einangrun þegar þessar skýrslur voru teknar. Í síðustu skýrslunni, þann 5. apríl sl., lýsti hann ferðalagi sínu í megindráttum á sama hátt og í fyrri skýrslum og lýsti einnig aðkomu ákærða Björgvins. Kvað hann þar rétt vera að Björgvin hafi verið milligöngumaður en þeir byrjað að ræða ferðina um jólaleytið. Björgvin hafi verið tengiliður, hann hafi ætlað að sækja sig út á flugvöll þegar hann kæmi heim, hann hafi sótt umslagið með peningunum, leiðbeiningum og síma heim til Björgvins og þeir rætt ferð hans til Groningen en Björgvin hafi sagt að best væri að fara þangað. Berlín hafi orðið fyrir valinu þar sem ódýrt flug hafi fundist þangað og síðan hafi hann tekið lest til Hollands.

                Fyrir dóminum lýsti ákærði Y aðdraganda ferðarinnar á sama hátt og fyrir lögreglu og hvernig ákærði Björgvin hafi komið að málinu í upphafi, en hann hafi beðið meðákærða að láta það berast að ákærði Y væri til í að fara í slíka ferð. Það hafi blundað í honum frá því hann „féll“ að fara svona ferð. Þá lýsti hann því fyrir dóminum að meðákærði Björgvin hafi látið sig vita að X vildi hitta ákærða og meðákærði ekið sér til X í eitthvert hús í Reykjavík þar sem ákærði Y hafi rætt fyrirhugaða ferð en meðákærði hafi farið á meðan en sótt sig svo aftur til X. Vildi ákærði ekki upplýsa hver sá maður væri en kvað þessar upplýsingar aldrei hafa komið fram áður. Fyrir lögreglu þann 4. apríl sl. lýsti Björgvin því að hann hafi ekið Y til X og þeir átt fund saman. Þann 5. apríl, þegar sá framburður Björgvins var borin undir Y, kannaðist Y ekkert við það. Skömmu áður en ákærði fór út hafi umslag með leiðbeiningum og fl. komið til ákærða Björgvins sem ákærði hafi sótt þangað. Ákærði kvaðst hafa beðið X um að koma upplýsingum til meðákærða en ekki heim til sín. Fyrir dóminum kvaðst ákærði Y hafa opnað pokann heima hjá meðákærða og litið í hann en ekki hafa skoðað miðann og fyrirmælin heima hjá Björgvin og ekki muna hvort hann hafi rætt þau við hann en ákærði Björgvin hafi vel vitað um hvað málið snerist. Þá sagði ákærði Y fyrir dóminum að ákærði Björgvin hafi latt hann til ferðarinnar. Fyrir dóminum dró ákærði Y úr þætti ákærða Björgvins og sagði framburð sinn hjá lögreglu vera þvælu og eitthvert rugl. Ákærði Y hafi ekki farið yfir ferðatilhögun með ákærða Björgvini áður en hann fór en Björgvin hafi vitað að hann færi til Groningen. Ákærði kvaðst hafa átt að fá um 20% af andvirði efnanna í sinn hlut, eða tvær til þrjár milljónir, en hann hafi átt að koma með tvö til þrjú kíló af amfetamíni til landsins. Þá hafi meðákærði Björgvin ætlað að sækja sig á flugvöllinn við komuna til landsins. Þá lýsti ákærði Y því að peningur fyrir endurgreiðslu á flugmiðanum hafi verið aðskilinn í umslaginu. Ákærði kvaðst hafa nánast neytt meðákærða Björgvin til að taka þátt í þessu með sér.   

                Ákærði Y játaði sinn þátt fyrir lögreglu og dóminum og er játning hans í samræmi við gögn málsins. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

                Ákærði játaði fyrir lögreglu og dóminum ákærulið II og er sú játning í samræmi við önnur gögn málsins. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi en hún er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

                Ákærði Björgvin er sakaður um að hafa haft milligöngu um ferð ákærða Y, veitt honum leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning efnanna, afhent honum umslag með farsíma og reiðufé og greitt farmiða hans með greiðslukorti sínu. Ákæri Björgvin neitaði sök hjá lögreglu og fyrir dóminum en játaði að hann hafi komið á sambandi milli X og Y, sem hann vildi ekki nafngreina. Kvaðst ákærði Björgvin, fyrir dóminum, hafa hringt í X og ekið ákærða Y til hans. Þessi maður hafi síðan birst hjá sér með umslag og beðið sig um að koma því til Y. Kemur þetta heim og saman við framburð ákærða Y um tilurð umslagsins utan að frásögn ákærða Y um það hvers vegna umslagið barst ákærða Björgvini er ruglingsleg og ótrúverðug, enda varð hann margsaga um það. Ákærði Björgvin sagði hjá lögreglu að hann hafi haft grun um það hvað væri í umslaginu, sími, peningar o.fl., þegar ákærði Y sótti það til sín. Ákærði kvaðst hafa lánað meðákærða greiðslukort sitt, þar sem kort meðákærða hafi verið í banka, en fengið endurgreitt daginn eftir. Er það í samræmi við framburð ákærða Y, en hann kvaðst hafa endurgreitt honum með peningum úr umslaginu, enda hafi hann ekki átt að leggja út neina fjármuni til ferðarinnar. Þá játaði ákærði Björgvin að hafa ekið ákærða Y á flugvöllinn og ætlað að sækja hann aftur við heimkomu en ekki orðið af því.

                Ákærði Y lýsti því fyrir lögreglu að hann hafi kíkt í umslagið heima hjá ákærða Björgvin og þeir hafi rætt um það að ákærði færi til Groningen í Hollandi. Fyrir dóminum kvað ákærði Y framburð sinn hjá lögreglu hafa verið bull og þvælu. Fyrir dóminum neitaði ákærði Björgvin þessu en sagðist vel hafa getið sér til um það hvað væri í umslaginu en hann viðurkenndi fyrir dóminum að umslagið hafi borist til sín. Hann hafi ekki haft aðra aðkomu að málinu en að afhenda meðákærða Y það. Dómari hlustaði á upptökur á yfirheyrslum yfir ákærða Y og var ekki að sjá neitt annað en að ákærði hafi verið yfirvegaður í framburði sínum og telur dómurinn framburð hans fyrir lögreglu trúverðugan um það atriði að hann hafi farið yfir ferðatilhögun og fengið fyrirmæli frá Björgvini, m.a. um að hlaða símann og meðferð á honum. Er framburður Y fyrir dóminum í öllum veigamiklum atriðum í samræmi við framburð hans hjá lögreglu utan að fyrir dóminum reyndi ákærði Y að gera lítið úr hlut ákærða Björgvins og lýsti því að Björgvin hafi latt sig til fararinnar. Er sá framburður nýtilkominn og í ósamræmi við önnur gögn og fyrri skýrslur ákærða fyrir lögreglu. Hvort sem ákærðu fóru yfir leiðbeiningarnar heima hjá Björgvini eða ekki, breytir það því ekki að dómurinn telur sannað að aðild ákærða Björgvins í verknaðinum hafi verið fullframin með því að hafa haft milligöngu um að koma ákærða Y í samband við X, móttaka umslag með leiðbeiningum, peningum og fl. í þeim tilgangi að koma því til meðákærða Y, veita honum leiðbeiningar um ferðatilhögun og fyrirmæli um innflutning efnanna, greiða fyrir hann flugmiða til Berlínar, aka honum út á flugvöll og ætla að sækja hann aftur, allt í þeim tilgangi að nálgast fíkniefni til innflutnings til Íslands í sölu- og dreifingarskyni. Þrátt fyrir neitun ákærða Björgvins, þegar litið er heildstætt á málið, telur dómurinn lögfulla sönnun fram komna um að ákærðu hafi í sameiningu staðið að innflutningi ofangreindra fíkniefna, enda var þáttur hvors um sig nauðsynlegur í verknaðinum til að komast í samband við aðila erlendis, fjármagna kaupin og sækja þau. Verður ákærði Björgvin sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæðis og verður ákærði Björgvin sakfelldur fyrir þá háttsemi.

Ákvörðun refsingar.

Samkvæmt sakavottorði ákærða Y hefur honum ekki verið gerð refsing áður. Ákærði játaði brot sitt fyrir lögreglu og dóminum en hefur neitað að upplýsa fyrir hvern hann fór í umrædda ferð. Brotið er framið í samvinnu við meðákærða Björgvin. Með vísan til styrkleika efnisins og dómaframkvæmdar telur dómurinn hæfilega refsingu ákærða vera fangelsi í tvö ár.  Ákærði sýndi einbeittan ásetning til fararinnar og á sér engar málsbætur. Þykja því ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 26. janúar til 5. apríl 2013 skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

                Samkvæmt sakavottorði ákærða Björgvins var honum gerð refsing með sátt þann 18. mars 2008 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði á sér engar málsbætur. Hann kom ákærða í samband við þriðja mann sem samkvæmt framburði ákærðu hafi fjármagnað ferðina. Hann hafði milligöngu um að koma upplýsingum til meðákærða, greiddi fyrir hann flugmiða, ók honum á flugvöllinn og hugðist sækja hann aftur við komu til landsins. Með þessu sýndi ákærði einbeittan ásetning um að fullfremja brotið enda nokkur aðdragandi að ferðinni. Telur dómurinn að þáttur ákærða Björgvins sé með þeim hætti að honum verði ekki gerð refsing sem hlutdeildarmanni. Þykir refsing ákærða Björgvins hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Ekki þykja skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.

                Að þessum niðurstöðum fengnum ber samkvæmt 219. gr. laga nr. 88/2008 að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar þannig: Ákærðu greiði in solidum sakarkostnað samkvæmt yfirliti, samtals 241.593 krónur.

Ákærði Björgvin  greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl.,  351.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Ygreiði einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Vilhjálmssonar hdl., 564.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar, 111.360 krónur.  

Upptæk eru gerð 2.413,80 g af amfetamíni.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði Y skal sæta fangelsi í tvö ár. Gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 26. janúar til 5. apríl 2013 skal dragast frá refsingunni að fullri dagatölu.

Ákærði Björgvin G. Hallgrímsson skal sæta fangelsi í tvö ár.

Ákærðu greiði in solidum sakarkostnað, 241.593 krónur.

Ákærði Björgvin greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 351.400  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Y greiði einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars Vilhjálmssonar hdl., 564.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 111.360 krónur í ferðakostnað.  

Upptæk eru gerð 2.413,80 g af amfetamíni.