Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2006
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Bifreið
- Húftrygging
|
|
Fimmtudaginn 2. nóvember 2006. |
|
Nr. 193/2006. |
Kjartan Valur Guðmundsson(Gylfi Thorlacius hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Bifreiðir. Húftrygging.
Bifreið K var tekin í heimildarleysi frá heimili hans að kvöldi 6. janúar 2005. Rétt fyrir miðnætti fannst bifreiðin og hafði þá verið kveikt í henni. K krafði V um greiðslu á grundvelli húftryggingar þeirrar sem hann hafði keypt hjá V. Samkvæmt 1. gr. vátryggingarskilmála V, í liðnum um þjófnað, er ábyrgð félagsins háð því skilyrði að bifreiðar séu læstar. K lýsti því yfir hjá lögreglu í kæru sinni vegna þjófnaðarins að bifreið sín hefði verið ólæst. Hvílir því á honum að sanna að sú yfirlýsing hans hafi verið röng. Var ekki talið að honum hefði tekist sú sönnun. K byggði einnig á því að íkveikja bifreiðarinnar teldist sjálfstæður tjónsatburður. Ekki var fallist á þá málsástæðu enda var kveikt í bifreiðinni í beinu framhaldi af töku hennar. Var V því sýknað af kröfu K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. apríl 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. janúar 2005 til 26. febrúar sama ár og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Bifreið áfrýjanda var tekin í heimildarleysi frá heimili hans á milli klukkan 19.00 og 23.00 að kvöldi 6. janúar 2005. Klukkan 23.45 gaf áfrýjandi skýrslu hjá lögreglu. Bifreiðin fannst klukkan 23.46 illa brunnin og ljóst var að áður hafði verið unnið á henni skemmdarverk. Samkvæmt 1. gr. vátryggingarskilmála húftryggingar þeirrar, sem áfrýjandi hafði keypt hjá stefnda, var bifreiðin tryggð fyrir ýmsum þar nánar tilgreindum atvikum, meðal annars áakstri, veltu, hruni, eldsvoða, skemmdarverki og þjófnaði. Aðila málsins greinir á um hvort hér hafði átt sér stað einn tjónsatburður eða fleiri. Líkur aukast á að unnar verði skemmdir á bifreið sé hún tekin ófrjálsri hendi. Bifreiðin er þá komin úr vörslu eiganda og í hendur manna sem engra hagsmuna hafa að gæta og hafa jafnvel skemmdarverk í hyggju. Í því tilviki sem hér um ræðir voru miklar skemmdir unnar á bifreiðinni í beinu framhaldi af töku hennar. Verður lagt til grundvallar dómi að beint samhengi hafi verið þar á milli. Er því um einn tjónsatburð að ræða í skilningi vátryggingarskilmálanna. Samkvæmt 1. gr. þeirra, í liðnum um þjófnað, er ábyrgð félagsins háð því skilyrði að bifreið hafi verið læst. Með því að áfrýjandi lýsti því yfir hjá lögreglu í kæru sinni vegna þjófnaðar bifreiðarinnar að hún hefði verið ólæst, hvílir á honum að sanna að sú yfirlýsing hans hafi verið röng. Hefur honum ekki tekist það og verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði. Af öllu framangreindu leiðir að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu aðilar bera hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kjartani Vali Guðmundssyni, kt. 300383-3009, Víkurási 3, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 9. maí 2005.
Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða honum 700.000 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. janúar 2005 til 26. febrúar 2005 og dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Helstu málsatvik eru að bifreið stefnanda, GN-368 Volkswagen Golf, árgerð 1998, er stefnandi hafði lagt fyrir utan heimili sitt að Víkurási 3 í Reykjavík, klukkan 19.00 þann 6. janúar 2005, var stolið og varð stefnandi var við það klukkan 23.00 um kvöldið. Stefnandi kærði þjófnaðinn skömmu síðar og var skýrsla tekin af honum hjá lögreglunni í Reykjavík þetta kvöld. Þar er m.a. skráð:
Á hvaða tímabili var bifreiðinni stolið? Svar: Frá kl. 19:00 til kl. 23:00 í kvöld.
Hvaðan? Svar: Frá bifreiðastæði við Víkurás 3.
Voru hurðir læstar og gluggar lokaðir? Svar: Gluggar voru lokaðir en bifreiðin ólæst.
Hversu mörg eintök eru til af kveikjuláslykli bifreiðarinnar og hvar eru þau? Svar: Það eru til tvö eintök, annað er heima hjá mér en hitt eintakið var í hanskahólfi bifreiðarinnar.
Sama kvöld og umræddri bifreið var stolið barst lögreglunni klukkan 23.46 tilkynning um eld í bifreið á Rafstöðvarvegi. Er lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir hvar eldur logaði í bifreiðinni GN-368 þar sem hún var utan vegar við Rafstöðvarveg á móts við veiðihúsið. Slökkviliðsbifreið kom á vettvang á sama tíma og tók nokkra stund að slökkva eldinn og segir í skýrslu lögreglunnar að bifreiðin hafi verið mjög illa brunnin og ekki hafi verið unnt að sjá að neitt væri heilt í henni. Tilkynnti lögreglan Umferðarstofu að bifreiðin væri ónýt.
Þann 12. janúar 2005 gaf stefnandi að eigin frumkvæði viðbótarskýrslu hjá lögreglunni varðandi málið. Þar segir m.a.:
Kjartan kveðst hafa borið það undir vinkonu sína Katrínu Ólöfu ... hvort hún hafi tekið eftir því hvort hann hafi læst bifreiðinni að fimmtudagskveldi þann 06.01 sl. þar sem hún hafi verið með honum þegar hann lagði bifreiðinni um kl. 19:00 við Víkurás 3. Kjartan segir að Katrín hafi tjáð honum að hún hafi talið sig hafa séð blikkljós frá stefnuljósum bifreiðarinnar þegar þau hafi gengið frá bifreiðinni eins og hann hafi læst bifreiðinni. Kjartan segir að hann hafi verið með fjarstýringu á lyklakippunni sem hann kvaðst nota til að læsa bifreiðinni og þegar henni er læst blikki stefnuljós bifreiðarinnar.
Kjartan segir að hann hafi tjáð lögreglunni að hann hafi skilið bifreiðina eftir ólæsta þegar hann hafi yfirgefið hana við Víkurás 3. Kjartan segir að honum sé það ljóst eftir að hann fór að hugsa málið betur að honum hafi verið það brugðið eftir að bifreiðin hafi verið horfin að hann hafi ekki séð annan möguleika, að bifreiðin hafi verið ólæst eða honum hafi mistekist að læsa bifreiðinni með fjarstýringunni. Aðspurður kveðst Kjartan ekki vera búinn að finna kveikjuláslykla bifreiðarinnar en hann eigi eftir að leita betur að þeim, telur það ekki útilokað að hann hafi misst þá á bílaplanið þegar hann fór inn til sín. Kjartan telur að hann hafi geymt auka lykla að bifreiðinni í hanskahólfi bifreiðarinnar en kveðst ekki vera viss um það.
Upplýst er að bifreið stefnanda var húftryggð hjá stefnda með „Al-kaskó vátryggingarskilmálum númer BK10“. Taldi stefnandi tjónið á bifreið sinni 6. janúar 2005 falla undir húftrygginguna og gerði kröfu um greiðslu tjónsbóta en stefndi hafnaði bótaskyldu. Stefnandi óskaði þá eftir því að málið yrði borið undir Tjónanefnd vátryggingafélaganna. Með áliti 26. janúar 2005 staðfesti nefndin synjun stefnda. Stefnandi skaut niðurstöðu Tjónanefndar til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Í úrskurði nefndarinnar 3. mars 2005 segir m.a.:
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir eiganda bifreiðarinnar að bifreiðin hafi verið ólæst þegar henni var stolið. Samkvæmt vátryggingaskilmálum er það forsenda greiðsluskyldu vegna þjófnaðar að bifreiðin hafi verið læst. Með hliðsjón af framanrituðu er vátryggingaratburður máls þessa ekki bótaskyldur samkvæmt þeirri vátryggingu sem hér um ræðir.
Samkomulag varð með aðilum um að verðmæti bifreiðarinnar er hér um ræðir hafi verið 700.000 kr.
Stefnandi byggir á því að bifreið hans sé ónýt vegna stuldar og íkveikju sem hvort tveggja falli undir ábyrgðarskilmála kaskótryggingar bifreiðarinnar. Ósannað sé að bifreiðin hafi verið ólæst þegar henni var stolið. Ljós sé hvað varðar fyrstu skýrslu stefnanda hjá lögreglu að stefnandi var í miklu uppnámi vegna stuldar bifreiðarinnar. Hafi framburður stefnanda þá fyrst og fremst verið reistur á getgátum um að það væri líklegt að bíllinn hafi verið ólæstur fyrst unnt var að stela honum. Þá er vísað til þess að stefnandi breytti framburði sínum áður en stefndi tilkynnti stefnanda um synjun sína á bótagreiðslu og hafði áður haft samband við tjónaskoðun stefnda og lýst því yfir að hann teldi að bifreiðin hefði verið læst þegar henni var stolið.
Þá er byggt á því að tjón stefnanda falli undir brunatryggingarákvæði tryggingarskilmála kaskótryggingar bifreiðar stefnanda, en óumdeilt sé að eldur var borinn að bifreiðinni sem varð ónýt eftir brunann. Vísað er til þess að í brunatryggingarákvæði 1. gr. tryggingarskilmála stefnda sé hvergi gerður fyrirvari um ábyrgðartakmarkanir vegna bruna. Sjálfstæð greiðsluskylda af hálfu kærða úr umræddri tryggingu hafi því stofnast vegna brunans. Gildi því einu hvort bifreiðin var læst eða ólæst enda sé hér um sjálfstætt tjónsatvik að ræða.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi yfirgefið bifreið sína ólæsta fyrir utan heimili sitt með að minnsta kosti eitt eintak af kveikjuláslyklum í bifreiðinni, en skýrt sé kveðið á um það í húftryggingarskilmálum að tjón sé aðeins bætt, vegna þjófnaðar á ökutæki, að ökutækið hafi verið læst. Þá er talið öruggt að ekki hefði verið lagður eldur að bifreiðinni hefði henni ekki verið stolið. Hér sé því um einn tjónsviðburð að ræða.
Stefnandi, Kjartan Valur Guðmundsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hafi komið heim [að Víkurási 3 í Reykjavík] ásamt Katrínu [Ólöfu Normansdóttur] um kvöldmatarleytið [6. janúar 2005]. Hafi þau síðan farið út aftur u.þ.b. kl. 19.30 í bíó og komið heim aftur um klukkan 11 um kvöldið. Þá hafi bifreiðin [GN-368] verið horfin. Hafi hann þá hringt í lögregluna og lögreglan boðið honum að koma niður á lögreglustöð til að gefa skýrslu og það hafi hann gert.
Aðspurður kvaðst Kjartan hafi farið í bíó með Katrínu í bifreið hennar þetta kvöld. Þá kvaðst hann hafa læst bifreiðinni GN-368 þegar hann fór út úr henni og yfirgaf hana fyrr um kvöldið. Hann kvaðst þó ekki hafa verið alveg viss þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglunni [undir miðnætti] hvort bifreiðin hefði verið ólæst en ekki talið þá annað í stöðunni en að það gæti hafa verið. Kvaðst hann hafa sagt að hann héldi að bifreiðin hefði verið ólæst en ekki fortakslaust að hún hefði verið það.
Kjartan kvaðst hafa breytt framburði sínum hjá lögreglunni síðar á þann veg að bifreiðin hefði verið læst. Hann hafi borið þetta undir Katrínu og hún sagt honum að hún hefði séð ljós koma frá bifreiðinni þegar hann læsti henni með fjarstýringu. Er hann gaf þessa síðari skýrslu hjá lögreglunni [12. janúar 2005] kvaðst hann ekki hafa verið upplýstur um það hvort tryggingafélagið myndi bæta bifreiðina eða ekki.
Kjartan sagði að mögulegt hefði verið að annar af tveimur kveikjuláslyklum bifreiðarinnar hafi verið í hanskahólfi bifreiðarinnar þegar hann yfirgaf hana þetta kvöld. Hafi hann a.m.k. ekki fundið þá síðan. Kjartan kvaðst hafa lesið yfir skýrslu lögreglunnar um nóttina í miklu uppnámi. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði fengið afrit af skýrslunni. Hann kvaðst ætla að hann hefði haft samband við tryggingafélagið tveimur dögum síðar.
Hjördís Sigurbjartsdóttir, lögreglumaður, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún staðfesti að hafa tekið lögregluskýrslu þá sem fram kemur á dskj. nr. 3. Hún sagði m.a. að útlokað hafi verið fyrir hana að sjá nokkur merki á bifreiðinni [eftir að eldur hafði verið slökktur], hvort Kjartan hefði skilið bifreiðina eftir ólæsta og lyklar hefðu verið í hanskahólfi hennar. Fyrir utan bílinn hafi legið plastinnréttingar úr honum. Ljóst hafi verið að búið var að skemma bifreiðina áður en kveikt var í henni.
Katrín Ólöf Normansdóttir gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að þegar hún og stefnandi komu heim að kvöldi dags 6. janúar 2005, hafi stefnandi læst bifreiðinni með fjarstýringunni. Þau hafi farið inn og síðan út aftur í bíó, en er þau komu aftur hafi bifreiðin verið horfin.
Aðspurð kvaðst hún hafa tekið eftir að stefnandi læsti bifreiðinni af blikkandi ljósum bifreiðarinnar þegar læst er með fjarstýringu.
Lagt var fyrir Katrínu dskj. nr. 7, sem er skrifleg yfirlýsing hennar varðandi þá atburði sem hér um ræðir. Kvaðst hún hafa gefið þessa yfirlýsingu eftir samtal við stefnanda. Skjalið hafi verið ætlað tryggingafélaginu.
Sigursteinn Steinþórsson, varðstjóri hjá lögreglunni, gaf skýrslu fyrir rétti. Staðfesti hann að hafa tekið skýrslu af stefnanda 6. janúar 2005 sem fram kemur á dskj. nr. 3. Hann sagði m.a. að við lok skýrslutöku væri skýrslugjafa alltaf gefið færi á að lesa yfir skýrsluna.
Ályktunarorð: Stefnandi krefur stefnda um greiðslu bóta á grundvelli þess að bifreið hans hafi verið tekin ófrjálsri hendi og eyðilögð, en bifreiðin hafi verið vátryggð hjá stefnda.
Í vátryggingarskilmálum aðila segir m.a. að vátryggingin bæti tjón á hinu vátryggða ökutæki vegna þjófnaðar enda hafi það verið læst. Aðila greinir á um í þessu máli hvort stefnandi hafi skilið bifreiðina eftir læsta eða ólæsta, er hann gekk frá henni á bifreiðastæði fyrir utan heimili sitt að Víkurási 3 í Reykjavík að kvöldi 6. janúar 2005, en bifreiðin var horfin af bílastæðinu, er hann kom heim aftur úr kvikmyndahúsi seinna sama kvöld. Er bifreiðin síðan fannst reyndist hún ónýt eins og rakið hefur verið.
Samkvæmt skýrslu, er stefnandi gaf hjá lögreglunni undir miðnætti sama kvöld og bifreiðinni var stolið, svaraði hann spurningu lögregluvarðstjórans, hvort hurðir hafi verið læstar og gluggar lokaðir, á þann veg að gluggar hefðu verið lokaðir en bifreiðin ólæst. Jafnframt upplýsti hann að kveikjuláslykill af bifreiðinni hafi verið í hanskahólfi hennar.
Stefnandi hefur ekki sýnt fram á með ótvíræðum hætti að hafa skýrt rangt frá staðreyndum málsins - er voru honum í óhag - við skýrslutöku 6. janúar 2005, enda ótrúlegt að stefnandi hefði staðfest vitnisburð sinn í skýrslunni að þessu leyti með undirritun sinni svo sem hann gerði, væri hann rangur. Þá þykja yfirlýsingar Katrínar Ólafar, sambýliskonu stefnanda, sem fram kemur á dskj. nr. 7, og framburður hennar fyrir rétti að öðru leyti ekki fortakslaust sanna að stefnandi hafi raunar læst bifreiðinni, andstætt því sem stefnandi sjálfur hélt fram örfáum tímum eftir að bifreiðinni var stolið.
Stefnandi byggir einnig á því að í brunatryggingarákvæði 1. gr. tryggingar-skilmála þeirra er hér um ræðir sé hvergi gerður fyrirvari um ábyrgðartakmarkanir vegna bruna. Við bruna bifreiðarinnar hafi því stofnast sjálfstæð greiðsluskylda af hálfu stefnda úr umræddri tryggingu. Ekki verður fallist á þessa málsástæðu.
Í vátryggingarskilmálum aðila segir m.a. að vátryggingin bæti tjón á hinu vátryggða ökutæki vegna eldsvoða, eldingar eða sprengingar sem stafar af eldsvoða. Er þar áreiðanlega ekki átt við eldsvoða af ásetningi, enda segir m.a. í 3. gr. skilmálanna, er ber fyrirsögnina Undanskildar áhættur, að félagið bæti ekki tjón er verði á ökutækinu út af skemmdum af ásettu ráði eða vegna stórkostlegs gáleysis ökumanns og/eða vátryggingartaka.
Með vísun til framanritaðs ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Stefnandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað svo sem í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað stefnanda fer samkvæmt því sem í dómsorði segir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kjartans Vals Guðmundssonar.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 300.000 krónur.