Hæstiréttur íslands
Mál nr. 621/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Aðfinnslur
|
|
Mánudaginn 17. nóvember 2008. |
|
Nr. 621/2008. |
Sýslumaðurinn á Selfossi(enginn) gegn X (Christiane L. Bahner hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Aðfinnslur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hin kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Það athugast að úrskurðurinn var kveðinn upp 9. nóvember 2008. Hann var kærður 11. sama mánaðar og var kæran móttekin af héraðsdómi sama dag. Málið var hins vegar ekki sent Hæstarétti fyrr en 14. sama mánaðar og er það aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. nóvember 2008.
Sýslumaðurinn á Selfossi hefur gert þá kröfu að úrskurðað verði að X, kt. [...], til heimilis að [...], Kópavogi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 28. nóvember nk. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Af hálfu kærðu er þess krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að því verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að klukkan 08:22 í gærmorgun hafi Neyðarlínunni borist tilkynning um að maður hefði látist í sumarhúsi að Y, í Grímsnesi. Er lögregla hafi komið á vettvang kl. 08:42 hafi A, kt. [...], legið í stofusófa, þá látinn og voru áberandi líkblettir byrjaðir að myndast á vinstri hönd hans. Samkvæmt frumskoðun vakthafandi læknis, er kom á vettvang nokkrum mínútum eftir lögreglu, hafði hinn látni orðið fyrir hrottalegri líkamsárás.
Er lögregla kom á vettvang hafi þrír aðilar verið í bústaðnum. Athygli lögreglu hafi strax beinst að því hve viðstaddir voru rólegir miðað við aðstæður og að allt hafi verið í röð og reglu í bústaðnum og ekkert sem hafi bent til þess að átök eða mikill drykkja hefði átt sér þar stað. Klukkan 08:55 hafi allir aðilar þessir verið handteknir. Frá upphafi hafi umgangur í húsinu verið takmarkaður og vettvangur verndaður. Rannsóknarvinna hafi staðið sleitulaust yfir í allan daginn og njóti lögregla aðstoðar réttarmeinafræðings og tæknideildar LRH. Samkvæmt frumáliti réttarlæknis séu áverkar á líki A af mannavöldum. Misræmis hafi gætt í framburði hinna handteknu hjá lögreglu um veigamikil atriði og sé framburður hinna handteknu á köflum afar ótrúverðugur.
Þá segir í greinargerðinni að verið sé að rannsaka ætluð brot eins eða fleiri aðila á 211. gr., 2. mgr. 218. gr., 220. gr. og/eða 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Sterkur rökstuddur grunur liggi fyrir um brot hinna handteknu aðila á einni eða fleirri nefndra lagagreina. Ljóst sé að áverkar á líki A séu af mannavöldum og lögreglu þyki fullljóst að andlát hans hafi ekki borið að með eðlilegum hætti. Þá sé ennfremur ljóst að framburður hinna grunuðu aðila stangist á í veigamiklum atriðum. Rannsókn málsins sé mjög viðamikil og sé á algjöru frumstigi. Þá telji lögregla mikla hættu eins og mál þetta sé vaxið að grunaðir muni torvelda rannsóknina með því að skjóta undan munum, og eða hafa áhrif á vitni og samseka. Þau sakarefni sem hér um ræði muni varða fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð.
Með vísan til alls framanritaðs, rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að ofangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga.
Kærða er grunuð um brot eða aðild að broti sem geti varðað hana fangelsisrefsingu ef sök sannast. Kærða neitar sakargiftum en rannsóknargögn vekja sterkan grun um aðild hennar að framangreindu broti. Eftir er að rannsaka hugsanlega samseka í málinu ásamt öðru sem tekið er fram í greinargerð lögreglu. Rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og verður að telja að hætta sé á því að kærða geti spillt rannsókninni með óskertu frelsi, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða þá sem hugsanlega eru samsekir. Rannsóknarhagsmunir styðja þannig kröfu um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og verður krafa sýslumannsins á Selfossi tekin til greina, og skal kærða sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 28. nóvember n.k.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. nóvember nk. kl. 16:00.