Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. maí 2001.

Nr. 172/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. júní nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

        Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2001.

Ár 2001, föstudaginn 11. maí,  er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Hjördísi Hákonardóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X [ . . . ], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 22. júní 2001 klukkan 16:00.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað.

[ . . . ]

Kærði hefur játað að hafa staðið að innflutningi á pakka sem gífurlegt magn af fíkniefni fannst í, 17.000 mdma töflur og um 200 g af kókaíni og um 8 kg af hassi. Hann ber að hann hafi talið að í pakkanum væru aðeins 12 kg af hassi, en hann er grunaður um að eiga aðild að allri sendingunni. Hér er m.a. um ræða mesta magn fíkniefnisins mdma sem lögregla hefur komið höndum yfir hér á landi. Efni þetta er talið vera mjög hættulegt fíkniefni og brot sem varða innflutningi og dreifingu þess eru litin alvarlegum augum. Neysla efnisins á sér einkum stað meðal ungs fólks. Þar sem kærði stóð að innflutningi þess pakka sem fíkniefnin voru falið í er hann undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem getur að lögum varðað allt að 10 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Þar af leiðandi og með vísan til alvarleika hins meinta brots er fallist á það með fulltrúa lögreglustjóra að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 22. júní 2001 klukkan 16:00.