Hæstiréttur íslands

Mál nr. 71/2010


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 3. mars 2011.

Nr. 71/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari

gegn

Snæbirni Reyni Rafnssyni

(Þorsteinn Einarsson hrl.

Haukur Örn Birgisson hdl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Sekt. Vararefsing. Sératkvæði.

S var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri X ehf. sem skráður framkvæmdastjóri félagsins og síðar sem starfandi framkvæmdastjóri þess. Hæstiréttur taldi ekki sýnt að S hefði, eftir að hann hætti sem skráður framkvæmdastjóri, borið skylda að lögum til að annast um skýrslugerð og skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Var hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar sem laut að þessu tímabili. Ekki var talið að ætluð vanræksla stjórnarmanns á eftirlitsskyldu firrti framkvæmdastjóra ábyrgð á rekstri félags. Hæstiréttur taldi að þegar litið væri lagaákvæða sem kvæðu skýrt á um fésektarlágmark væru ekki efni til þess við ákvörðun refsingar S að líta til fullyrðinga hans um ætlaða samábyrgð meðstjórnanda hans hjá X ehf. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hefðu verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Með vísan til ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki til álita að dómstóll fjallaði um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefði verið ákærður. Fyrir útgáfu ákæru hafði verulegur hluti þess virðisaukaskatts sem S var dæmdur fyrir að hafa ekki staðið skil á verið greiddur. Þrátt fyrir það kom ekki til greina að beita heimildum til fara niður úr lögbundnum fésektarlágmörkum þar sem hvorki voru staðin skil á skilagreinum né virðisaukaskattsskýrslum vegna umræddra tímabila á réttum tíma. Jafnframt var litið til þess að S hafði skilað efnislega rangri virðisaukaskattskýrslu. S var dæmdur í 6 mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar frestað um tvö ár að því tilskildu að hann héldi almennt skilorð. S var einnig dæmdur til að greiða ríkissjóði 37 milljónir króna í sekt, en sæta ella fangelsi í 12 mánuði

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd. 

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða gefið að sök að hafa, sem skráður framkvæmdastjóri X ehf. frá 30. október 2005 til 20. nóvember 2007 og sem starfandi framkvæmdastjóri frá þeim tíma, framið meiri háttar brot gegn skattalögum með því að standa ekki skil á virðisaukaskattskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna nóvember til desember 2006, janúar til febrúar, mars til apríl og júlí til ágúst 2007 auk þess að hafa skilað rangri virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí til ágúst 2007 með vantöldum útskatti að fjárhæð 2.165.597 krónur. Ákærða er einnig gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna framangreindra uppgjörstímabila, samtals að fjárhæð 10.983.279 krónur. Þá er ákærða gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar, febrúar, mars, maí, október, nóvember og desember 2007 og janúar 2008 og að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals að fjárhæð 8.261.226 krónur, vegna janúar til og með mars 2007 og maí til og með desember sama ár og janúar og febrúar 2008. Í ákæru var háttsemi ákærða heimfærð undir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda svo og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Meðákærði í héraði, A, var ákærður fyrir þá háttsemi er sneri að skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu frá nóvember 2007 til febrúar 2008.

Eins og greinir í héraðsdómi var einkahlutafélagið X stofnað 30. október 2005. Stofnendur þess voru annars vegar Y ehf. í eigu ákærða og hins vegar Z ehf. í eigu A. Samkvæmt stofnfundargerð var ákærði formaður stjórnar og jafnframt framkvæmdastjóri en A meðstjórnandi. Báðir höfðu þeir prókúru fyrir félagið. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár, sem dagsett er 30. október 2005 en var móttekin 8. nóvember sama ár, sátu þeir báðir í stjórn félagsins en handritað var fyrir ofan nöfn þeirra á staðlað tilkynningareyðublað að ákærði væri meðstjórnandi A formaður stjórnar. Á fundi félagsins 20. nóvember 2007 var stjórnarmönnum fækkað úr tveimur í einn og A tók við starfi framkvæmdastjóra en ákærði fór úr stjórn í varastjórn. Tilkynning um þetta barst fyrirtækjaskrá 15. janúar 2008. Þá er meðal gagna málsins tilkynning ákærða 28. desember 2007 um úrsögn úr stjórn félagsins sem barst fyrirtækjaskrá 19. mars 2008. Með bréfi skattrannsóknarstjóra 15. maí 2008 var félaginu síðan tilkynnt um að hafin væri rannsókn á skattskilum þess, en skattrannsóknarstjóri fór fram á opinbera rannsókn ríkislögreglustjóra 27. ágúst 2008. X ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta í september 2008 og var ákæra gefin út á hendur ákærða og A 31. ágúst 2009. Í henni eru eins og áður segir ákæruatriði gegn hvorum ákærðu um sig miðuð við þann tíma er þeir voru skráðir eða taldir vera starfandi framkvæmdastjórar félagsins. Með dómi héraðsdóms voru ákærðu báðir fundnir sekir um þá háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru.

II

Ákærði byggir kröfu sína á þremur ástæðum. Í fyrsta lagi telur hann sig ekki bera ábyrgð á skattskilum nefnds félags eftir 20. nóvember 2007, þar sem hann hafi vikið úr starfi framkvæmdarstjóra og stjórn félagsins þann dag.

Í öðru lagi telur hann að A hafi verið samábyrgur sér um þau skattskil sem ákæra taki til og varði tímann fram til 20. nóvember 2007, en A hafi ekki verið ákærður fyrir þetta, heldur einungis fyrir ætluð brot framin eftir nefndan dag. Telur ákærði þetta einkum skipta máli við ákvörðun sektarrefsingar sinnar, þar sem ákvæðum um sektarlágmark í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 hafi verið beitt þannig í dómaframkvæmd Hæstaréttar að samanlagðar sektir þeirra sem bera refsiábyrgð, séu þeir fleiri en einn, fari ekki niður fyrir lágmarkið. Vísar ákærði til þess að A hafi átt sæti í stjórn X ehf. allt frá stofnun félagsins 30. október 2005 og telur raunar að hann hafi á nefndu tímabili verið formaður stjórnarinnar. Þá hafi A haft prókúruumboð fyrir félagið allan þennan tíma. Af dómaframkvæmd, til dæmis dómi Hæstaréttar 7. júní 2007 í máli nr. 419/2006, megi ráða að stjórnarmenn beri slíka ábyrgð. Ákærði telur að ekki fái staðist að ákveða sektarrefsingu sína þyngri en verið hefði ef A hefði einnig verið ákærður og sakfelldur sér við hlið.

Loks og í þriðja lagi telur ákærði að greiðslum hans vegna vangoldinna skatta hafi ekki verið ráðstafað á þann hátt sem hagfelldast sé fyrir sig svo sem hann telur sig eiga kröfu til þegar refsiábyrgð er metin.

III

Fallist er á með ákærða að það sé skylda lögreglu að athuga ábyrgð allra þeirra sem koma að stjórnun hlutafélaga enda kann það að hafa þýðingu við ákvörðun refsingar, sbr. 57. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 145. gr. laganna skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað ­hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, ellegar ákveða hvort rétt sé að sækja mann til sakar samkvæmt 152. gr. laga nr. 88/2008 á grund­velli fyrirliggjandi gagna og gefa eftir atvikum út ákæru. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda ákæruvalds getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Stjórnarmenn einkahlutafélaga bera almennt ábyrgð á því að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Á hinn bóginn bera framkvæmdastjórar slíkra félaga, þegar þeir eru ráðnir, einnig ábyrgð, sbr. 2. og 3. mgr. 44. gr. laganna. Skal framkvæmdastjóri meðal annars annast daglegan rekstur félags og sjá um að bókhald þess sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti. Ætluð vanhöld stjórnarmanns á eftirlitsskyldu sinni firrir ekki framkvæmdastjóra ábyrgð á rekstri félagsins í þá veru sem hér um ræðir.

Eins og að framan greinir miðar ákæruvaldið við, eins og ákærði, að A hafi tekið við sem framkvæmdastjóri X ehf. 20. nóvember 2007. Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á að ákærða hafi, eftir að hann hætti sem framkvæmdastjóri félagsins þann dag, borið skylda að lögum til að annast skýrslugerð og skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður ákærði því sýknaður af ákærunni vegna tímabilanna nóvember og desember 2007 og janúar og febrúar 2008. Á hinn bóginn verður ákærði með vísan til forsendna héraðsdóms sakfelldur vegna annarra tímabila sem ákært er fyrir og eru þau brot réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 kveða á um fésektarlágmark í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða. Þegar virt eru framangreind ákvæði sem kveða skýrt á um fésektarlágmark eru ekki efni til að líta til fullyrðinga ákærða um ætlaða samábyrgð annars einstaklings vegna starfa hans í þágu félagsins. Slíkt kæmi eingöngu til greina ef fleiri menn hafa verið ákærðir og sakfelldir fyrir sömu brot. Ekki kemur til álita að dómstóll fjalli um mögulega sakfellingu manns á slíkum grundvelli sem ekki hefur verið ákærður, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Ákærði hefur ekki gert glögga grein fyrir sjónarmiðum sínum um meðferð innborgana á hina vangoldnu skatta. Af hálfu ákæruvalds þykir hafa verið sýnt fram á að tekið hefur verið fullt tillit til þessara innborgana ákærða til hagsbóta svo sem lög leyfa. Samkvæmt því nemur vangoldinn virðisaukaskattur 10.983.297 krónum og vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda 7.641.015 krónum. Óumdeilt er að fyrir útgáfu ákæru var greiddur verulegur hluti virðisaukaskattsfjárhæðar vegna tímabilanna nóvember til desember 2006 og janúar til febrúar 2007 og verulegur hluti skattfjárhæðar vegna vangoldinnar staðgreiðslu vegna tímabilanna janúar til og með mars 2007. Á hinn bóginn var hvorki staðið skil á skilagreinum né virðisaukaskattskýrslum vegna umræddra tímabila á réttum tíma og kemur af þeirri ástæðu ekki til greina að beita ákvæðum 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að fara niður úr fésektarlágmarki vegna þessara tímabila. Þá verður litið til þess við ákvörðun refsingar að ákærði skilaði efnislega rangri virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí til ágúst 2007.

Samkvæmt öllu framansögðu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða 37.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Vararefsing verður ákveðin í samræmi við almennar reglur, sbr. dóm Hæstaréttar 31. maí 2007 í máli nr. 392/2006.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærða verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Snæbjörn Reynir Rafnsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 37.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakakostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 409.213 krónur þar með talin málflutningslaun skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómenda um að sýkna ákærða af ákærunni hvað varðar tímabilið eftir 20. nóvember 2007. Ég er einnig sammála meirihlutanum um sakfellingu ákærða varðandi tímabilið 30. október 2005 til 20. nóvember 2007 og um fangelsisrefsingu hans en ósammála um ákvörðun fésektar á hendur honum vegna þessa tímabils.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er lögð refsing við ef „skattskyldur maður“ skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta. Er kveðið á um fésekt fyrir brot og er fjárhæð hennar látin miða við þá skattfjárhæð sem undan var dregin. Skal sektarfjárhæðin aldrei verða lægri en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð með undantekningu þó og er kveðið á um skilyrði hennar í lagaákvæðinu. Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda er að finna sambærilegt ákvæði um staðgreiðsluskil ef „gjaldskyldur maður“ skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju sem máli skiptir. Þrátt fyrir reglu sem fram kemur í 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um að virða skuli til refsiþyngingar ef fleiri menn en einn hafa unnið refsivert verk í sameiningu, hefur Hæstiréttur túlkað nefnd refsiákvæði laga nr. 50/1988 og nr. 45/1987 þannig, að í þeim tilvikum, þar sem fleiri en einn fyrirsvarsmaður lögaðila er sakfelldur fyrir sameiginleg brot, skuli ákvæðunum um sektarlágmark beitt með þeim hætti að samanlögð sekt hinna ákærðu sé ekki undir hinu lögbundna lágmarki. Þessa lagaframkvæmd má finna í dómum Hæstaréttar 30. mars 2006 í máli nr. 428/2005, 7. júní 2007 í máli nr. 419/2006, 14. janúar 2010 í máli nr. 447/2009, 21. júní 2010 í máli nr. 751/2009 og fleiri dómum.

Það getur ekki verið hlutverk dómstóla í sakamáli sem höfðað hefur verið gegn einum manni að láta í ljós álit um að rétt hefði verið að sækja fleiri en hann til saka fyrir það brot sem honum er gefið að sök. Hins vegar verða dómstólar að gæta að því að sakborningur verði ekki látinn sæta þyngri refsingu en lög standa til. Við mat á þessu verður að miða við þá skýringu á lagaákvæðum um sektarlágmark sem Hæstiréttur hefur beitt í fyrri dómum sínum, sbr. það sem að framan segir um það efni. Vegna meginreglna íslensks réttar um jafnrétti, sbr. til dæmis 65. gr. stjórnarskrárinnar, á ákærði rétt á að verða ekki verr settur um refsiákvörðun en þeir sem á undan honum hafa verið sakfelldir fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum. Verður þá að leysa úr þessu með þeim hætti að láta ákærða njóta góðs af því við ákvörðun sektar ef ekki er talið útilokað að annar maður hafi borið ábyrgð við hans hlið á þeim brotum sem hann er sakfelldur fyrir. Eins og þetta mál liggur fyrir er að mínum dómi ekki unnt að útiloka að sameigandi ákærða og stjórnarmaður í X ehf. hafi verið samábyrgur ákærða umrætt tímabil. Þó að í þessu máli verði ekkert fullyrt um sök þessa manns, verður að láta ákærða njóta vafa sem að þessu lýtur við ákvörðun sektar hans. Þar sem meirihluti dómara er á öðru máli um þetta tel ég ekki þörf á að kveða á um fjárhæð sektar þeirrar sem ég hefði talið hæfilega.

Þá tel ég að beita eigi um vararefsingu ákærða þeirri reglu sem beitt var í dómum Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í málum nr. 288/1998, 323/1998 og 327/1998 en þeir eru birtir í prentuðu dómasafni réttarins árið 1999 á blaðsíðum 524, 544 og 550.

Ég er sammála meirihlutanum um sakarkostnað fyrir Hæstarétti.

                                                            

                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2009.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 18. ágúst 2009 á hendur Snæbirni Reyni Rafnssyni, kennitala [...,], og A [...].

Á hendur ákærða Snæbirni fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins X, kennitala [...], sem ákærði Snæbjörn var skráður framkvæmdastjóri fyrir frá 30. október 2005 til 20. nóvember 2007, og starfandi framkvæmdastjóri fyrir frá 20. nóvember 2007, og á hendur ákærða A sem skráðum framkvæmdastjóra félagsins frá 20. nóvember 2007, fyrir brot gegn skattalögum framin í rekstri þess, með því að hafa

1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2006 og janúar-febrúar, mars-apríl og júlí-ágúst 2007, hafa skilað til skattyfirvalda efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2007 þar sem útskattur var vantalinn um samtals kr. 2.165.597, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, skil á virðisaukaskatti, sem þó var rétt fram talinn á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2006 og janúar-febrúar, mars-apríl 2007, og innheimtur í rekstri einkahlutafélagsins vegna sömu uppgjörstímabila auk uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2007, samtals að fjárhæð kr. 10.983.297, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK:

Árið 2006

nóvember - desember

kr.

2.297.779

kr.

2.297.779

Árið 2007

janúar - febrúar

kr.

2.805.692

mars - apríl

kr.

1.360.844

júlí - ágúst

kr.

4.518.982

kr.

8.685.518

Samtals:

kr.

10.983.297

2.     Eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna janúar til og með mars auk maí, október, nóvember og desember 2007 og janúar 2008, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna neðangreindra tímabila, samtals að fjárhæð kr. 8.261.226, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2007

janúar

kr.

1.100.978

febrúar

kr.

1.048.674

mars

kr.

1.554.165

maí

kr.

1.395.655

júní

kr.

923.510

júlí

kr.

699.854

ágúst

kr.

146.856

september

kr.

328.279

október

kr.

443.044

nóvember

kr.

238.739

desember

kr.

94.628

kr.

7.974.382

Árið 2008

janúar

kr.

151.566

febrúar

kr.

135.278

kr.

286.844

Samtals:

kr.

8.261.226

Framangreind brot ákærða Snæbjarnar samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Framangreind brot ákærða A samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða Snæbjörns Reynis er þess krafist að hann verði sýknaður af þeim hluta ákæruliðar 2 er lýtur að tímabilinu nóvember 2007 til febrúar 2008. Að öðru leyti sé krafist vægustu refsingar sem lög leyfi. Þá sé krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Af hálfu ákærða A er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Sé þess og krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.

II.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins vísaði máli þessu til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, með bréfi dags. 27. ágúst 2008. Kemur í bréfinu fram að rannsókn skattrannsóknarstjóra á staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskilum X ehf. vegna rekstraráranna 2006, 2007 og 2008 hafi hafist hinn 15. apríl 2008. Hafi henni lokið með skýrslu dags. 27. júní 2008.

X ehf. var stofnað 30. október 2005. Voru stofnendur annars vegar einkahlutafélagið Y í eigu ákærða Snæbjörns Reynis og hins vegar einkahlutafélagið Z ehf. í eigu ákærða A. Var í stofnfundargerð tekið fram að ákærði Snæbjörn væri formaður stjórnar en ákærði A meðstjórnandi. Þá væri Snæbjörn ráðinn framkvæmdastjóri með prókúru en A hefði einnig verið veitt prókúra. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra kom fram að ákærðu sætu báðir í stjórn félagsins en handritað hefur verið fyrir ofan í nöfn þeirra í tilkynningunni að Snæbjörn væri meðstjórnandi en A formaður.

Ákærði Snæbjörn Reynir er eins og fyrr greinir einn ákærður vegna tilgreindra brota í starfsemi X ehf. allt til 20. nóvember 2007. Ákæran beinist hins vegar að báðum ákærðu vegna þess hluta ákæruliðar 2 er lýtur að greiðslutímabilunum nóvember 2007 til febrúar 2008. Ákærði Snæbjörn Reynir neitar sök í málinu en kveður þó óumdeilt að hann sé sekur um þá háttsemi í ákæru sem lýtur að tímabilinu fram til nóvember 2007. Hann hafi verið framkvæmdastjóri X ehf. allt til 20. nóvember 2007, en þá hafi meðákærði A tekið það að sér, sbr. fyrirliggjandi fundargerð sem þeir hafi báðir ritað undir þann dag. Ákærði A kannast hins vegar ekki við að hafa í raun séð um framkvæmdastjórn félagsins á umræddu tímabili, þrátt fyrir að hafa ritað undir framangreinda fundargerð hinn 20. nóvember 2007. Þá hafi tilkynningin ekki borist fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra fyrr en 15. janúar 2008 og verði því að miða skráninguna við þann tíma.

Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kannaðist ákærði Snæbjörn Reynir við að hafa verið skráður framkvæmdastjóri X ehf. á tímabilinu 30.10. 2005 til 20.11. 2007. Sagðist hann hafa rekið félagið ásamt meðákærða A. Þeir hefðu haldið með sér reglulega samráðsfundi varðandi rekstur félagsins. Sjálfur kvaðst ákærði, sem framkvæmdastjóri félagsins, hafa komið að fjármálastjórn þess á fyrrgreindu tímabili. A hefði einnig komið að framkvæmdastjórninni á öllu þessu tímabili. Ákærði kvaðst hafa hætt sem framkvæmdastjóri frá og með þeim degi sem hann og meðákærði A undirrituðu fundargerð þar um og hefði hann frá þeim degi ekkert komið að stjórnun félagsins. Hefði A átt að sjá alfarið um framkvæmdastjórnina frá og með þeim degi. Reyndin hefði hins vegar orðið sú að A hefði ekki sagst geta gengið frá þeim skýrslum og greiðslum sem skylt sé að ganga frá og hefði hann þá þurft sjálfur að hlaupa í skarðið og annast um þessi mál. Sagðist ákærði því í raun hafa séð um þessi mál samfellt, bæði fyrir og eftir 20. nóvember 2007, og þannig verið sá eini innan félagsins sem hefði verið í sambandi við endurskoðanda þess vegna uppgjörsmála. Aðspurður síðar af verjanda kvaðst ákærði þó eingöngu hafa hlaupið í skarðið með framangreind skýrsluskil og frágang mála eftir að rannsókn lögreglu hófst, í því skyni að upplýsa málið. Hann hefði ekkert komið að rekstri félagsins á þessu tímabili. Ástæður þeirra vanskila á skýrslum og greiðslu gjalda sem mál þetta snýst um kvað ákærði mega að hluta rekja til óreiðu í rekstri félagsins. Hins vegar hefði gert útslagið með vanskil greiðslnanna að félagið hefði boðið fimmtán milljónum króna of lágt í stórt verk við byggingu Grand hótels. Kvaðst ákærði hafa samið við skattyfirvöld um að reyna að greiða útistandandi skuld félagsins. Hann hefði reynt eins og hann gat að standa skil á þeim greiðslum en undir lokin orðið að gefast upp vegna greiðsluþrots. Hefði hann verið einn í þeirri baráttu af hálfu félagsins.

Ákærði Snæbjörn var spurður út í tilkynningu félagsins til fyrirtækjaskrár við stofnun þess á árinu 2005. Sagði hann þá að gengið hefði verið þannig frá gögnum, í einhverju hugsanaleysi af hans hálfu, að hann væri bæði framkvæmdastjóri og formaður stjórnar félagsins. Þessu hefði síðan verið breytt í skráningunni af starfsmönnum fyrirtækjaskrár þannig að meðákærði A væri stjórnarformaður, enda hefði það ekki gengið lögum samkvæmt að hann sæi um hvort tveggja. Þeir hefðu svo báðir verið skráðir með prókúru. Hefði það í raun verið í samræmi við þann veruleika að þeir hefðu báðir starfað sem framkvæmdastjórar með prókúru. Aðspurður kvaðst hann hafa skilað framangreindri tilkynningu inn til fyrirtækjaskrár en meðákærði hefði átt að sjá um það. Spurður um þá fullyrðingu meðákærða við rannsókn málsins að meðákærði hefði hætt hjá félaginu í apríl/maí 2007 og starfað eftir það fyrir annað fyrirtæki svaraði ákærði því til að hann hefði eftir þetta starfað fyrir félagið sem stjórnarformaður. Þá hefðu þeir hist reglulega eftir þetta en ekkert væri til skráð um það í fundargerðum félagsins.

Ákærði A kvaðst ekkert hafa komið að stjórnun X eftir 30. nóvember 2007 þrátt fyrir að hafa ritað undir yfirlýsingu þar um í fundargerð. Hefði ekkert orðið úr með það og hefði það verið hugsunarleysi hans að tilkynna ekki um það til fyrirtækjaskrárinnar. Meðákærði Snæbjörn Reynir hefði séð um allan rekstur félagsins, bæði fyrir og eftir 30. nóvember 2007. Hann hefði því séð um öll skýrsluskil og greiðslu gjalda. Sjálfur kvaðst ákærði hafa starfað við pípulögn fyrir félagið og annast verkstjórn. Hann hefði svo hætt störfum í apríl/maí 2007 og starfað frá þeim tíma hjá J.B pípulögnum ehf. Sagði ákærði að jafnvel þótt hann hefði verið skráður með prókúru fyrir félagið ásamt Snæbirni hefði hann aldrei haft aðgang að fjármálum þess né haft prókúru vegna bankareikninga. Meðákærði Snæbjörn hefði haft fjármálastjórnina með höndum og einn haft aðgang að bankareikningum félagsins. Spurður hvort hann hefði verið formaður stjórnar félagsins frá stofnun þess til janúar/febrúar 2008, eins og fyrirliggjandi tilkynning um stofnun félagsins segði til um, sagði ákærði: „Ég hreinlega veit það ekki. Ég veit ekkert hvað ég hef verið að skrifa þarna undir.“ Hins vegar hlyti að vera að hann hefði verið í stjórn félagsins. Hann hefði hins vegar í raun ekkert komið að stjórn félagsins. Þeir Snæbjörn hefðu vissulega hist og rætt málefni félagsins en það hefðu verið verkfundir.

B, viðskiptafræðingur hjá C hf., sagðist hafa komið að færslu og frágangi bókhalds vegna X á seinni hluta ársins 2007 og fram í febrúar 2008. Hefði vinna hennar aðallega snúist um að aðstoða við skil að virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum staðgreiðslu. Ekki hefði hins vegar verið um að ræða afstemningu á bókhaldi. Kvaðst hún einungis hafa verið í sambandi við ákærða Snæbjörn Reyni vegna fjárhagsmála félagsins þó komið hefði fram hjá honum að það væri fyrir báða ákærðu.

Hvorugur ákærðu hafa gert athugasemdir við þau tímabil eða fjárhæðir sem tilgreindar eru í ákærunni.

III.

Ákærði Snæbjörn Reynir, var eins og fyrr segir, formlegur framkvæmdastjóri X, auk þess að vera stjórnarmaður, allt til 20. nóvember 2007. Hefur hann og viðurkennt að hafa annast framkvæmdastjórn félagsins, og þar með fjármálastjórn, allt til þess dags, en þá hafi meðákærði A tekið við sem framkvæmdastjóri. Liggi sú breyting fyrir með ritun þeirra beggja undir fundargerð félagsins. Hafi A þá tekið einn sæti í stjórn þess og jafnframt sem framkvæmdastjóri með prókúru. Enda þótt ákærði Snæbjörn byggi málsvörn sína á því að hann hafi ekki komið að fjármálum félagsins eftir framangreint tímamark telur dómurinn sannað, með framburði ákærða sjálfs, vitnisins B viðskiptafræðings og ákærða A að ákærði Snæbjörn Reynir hafi, þrátt fyrir ofangreint, einnig séð einn um fjármál félagsins á þeim tíma. Þegar til þessa er litið, og einnig þess að hann var annar tveggja eigenda félagsins, verður hann talinn bera refsiábyrgð vegna þeirra brota sem ákært er fyrir og framin voru í starfsemi félagsins, bæði fyrir og eftir 20. nóvember 2007. Eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ekki verður talið að sönnun sé komin fram um að ákærði A hafi komið að ákvarðanatöku um fjárhagsleg málefni félagsins. Hins vegar tók hann að sér þær skyldur sem á framkvæmdastjóra einkahlutafélaga hvíla skv. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög með staðfestingu sinni á fundargerð félagsins þar um hinn 20. nóvember 2007. Verður að telja að hann hafi vanrækt þá skyldu sína að sjá til þess að félagið stæði skil á skilagreinum staðgreiðslu og tilheyrandi afdreginni staðgreiðslu og með því sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi. Verður hann því sakfelldur ásamt ákærða Snæbirni Reyni vegna þeirra brota í ákærulið 2 er snúa að skilagreinum og afdreginni staðgreiðslu frá nóvember 2007 til febrúar 2008. Eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði Snæbjörn Reynir ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Að virtum framangreindum brotum ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 2 árum liðnum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Auk þess ber að dæma ákærða Snæbjörn til sektargreiðslu. Við ákvörðun hennar verður auk framangreinds til þess litið að verulega hefur verið greitt inn á vangoldinn virðisaukaskatt vegna tímabilanna nóvember/desember 2006 og janúar/febrúar 2007 og vangoldna staðgreiðslu vegna janúar og febrúar 2007. Þykir sekt ákærða því hæfilega ákveðin 21.000.000 krónur og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði A ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Að því virtu, og þeim brotum sem hann hefur verið fundinn sekur um, verður honum gert að greiða 630.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 16 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði Snæbjörn Reynir greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 260.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði A greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 240.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Snæbjörn Reynir Rafnsson, sæti fangelsi í 7 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 2 árum liðnum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði Snæbjörn greiði 21.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði, A, greiði 630.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 16 daga.

Ákærði Snæbjörn Reynir greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 260.000 krónur.

Ákærði A greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 240.000 krónur.