Hæstiréttur íslands

Mál nr. 455/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                                         

Þriðjudaginn 9. júlí 2013.

Nr. 455/2013.

A

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. 

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Huldu Rósar Rúriksdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013.

Með beiðni, dagsettri 24. júní 2013, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár á grundvelli a liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili krefst aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Beiðni sú um sjálfræðissviptingu varnaraðila sem hér er til meðferðar er sett fram í framhaldi af nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi sem ákveðin var af innanríkisráðuneytinu 5. júní sl. Varnaraðili krafðist þess fyrir dómi að þeirri ákvörðun yrði hnekkt en kröfu hans var endanlega hafnað með dómi Hæstaréttar 20. júní sl. í máli réttarins nr. 411/2013.

Beiðni þessi var móttekin af héraðsdómi 24. júní sl. Málið var þingfest og tekið til úrskurðar í dag.

Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B, geðlæknis sem dagsett er 14. júní 2013. Þá liggur einnig fyrir læknisvottorð C geðlæknis sem dagsett er 4. júní 2013, en þess var aflaði í tilefni að þeirri beiðni um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi sem fyrr er vísað til.

Í niðurstöðu hins fyrrnefnda vottorðs segir að greinilegt sé af sjúkrasögu og geðskoðun 13. júní sl. að um alvarleg veikindi sé að ræða. Uppfylli varnaraðili að mati læknisins greiningarskilmerki fyrir […] og hafi að undanförnu haft virk geðrofseinkenni sem hafi haft áhrif á líðan hans og hegðun. Sé varnaraðili algerlega án innsæis í bæði einkenni sín og veikindi. Hafi innsæisleysi hans leitt til þess að varnaraðili hafi endurtekið skorið á tengsl við meðferðaraðila og hafi endurtekið hætt að taka lyf með þeim afleiðingum að hann hafi veikst á ný og þurft að leggjast inn vegna geðrofseinkenna og hafi endurtekið komið upp sú staða að óhjákvæmilegt hafi verið að nauðungarvista hann.

Varnaraðili hafi af völdum sjúkdómsins verið óvinnufær, hafi einangrast og hafi undanfarin a.m.k. tvö ár verið mjög háður […] sínum sem hann búi hjá. Hafi hann sýnt af sér mjög ógnandi hegðum í geðrofi og einnig gert mjög alvarlega sjálfsvígstilraun í geðrofi árið 2006. Þannig sé hvorki hægt að útiloka að varnaraðili geti verið hættulegur sjálfum sér eða öðrum í geðrofsástandi.

Þá kemur loks fram í vottorðinu að það sé að mati læknisins enginn vafi á því að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að án meðferðar stefni hann heilsu sinni í voða og spilli möguleikum sínum á bata. Hann þarfnist lyfjameðferðar á forðasprautuformi, félagslegs stuðnings og þéttrar eftirfylgdar til lengri tíma. Sé það mat læknisins að í ljósi ofangreinds sé óhjákvæmilegt að varnaraðili verið sjálfræðissviptur til minnst tveggja ára svo unnt sé að veita honum nauðsynlega læknismeðferð.

Við meðferð málsins gaf B geðlæknir skýrslu og staðfesti framangreint vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Þá var einnig tekin skýrsla af D geðlækni sem haft hefur umsjón með meðferð varnaraðila síðustu tvær vikur.

Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Kom fram hjá honum að hann hefði nú fullan vilja til að þiggja þá meðferð sem honum byðist í sex mánuði og allt að tveimur árum og taka nauðsynleg lyf. Kom fram hjá honum að hann gerði sér nú grein fyrir því að læknismeðferð myndi gagnast honum. Hann væri á hinn bóginn algerlega mótfallinn því að sæta þeirri þvingun sem sjálfræðissvipting sé.

Í skýrslu B fyrir dómi kom m.a. fram að hann teldi nauðsynlegt til að varnaraðili fengi viðeigandi læknismeðferð að svipta hann sjálfræði. Sjúkdómi varnaraðila fylgi mikið innsæisleysi í eigin aðstæður og eigi það við um varnaraðila eins og sjúkrasaga hans sýni. Teldi hann, með vísan til sjúkrasögu varnaraðila, að væri það ekki gert færi allt í sama farið og líkur á að hann myndi hætta að taka lyf og rjúfa samband við meðferðaraðila. Kom fram hjá lækninum að sjálfræðissviptingin væri nauðsynlegur þáttur í bataferlinu til að tryggja nauðsynlega eftirfylgd. Stæði til að útskrifa varnaraðila af deild mjög fljótlega og að í kjölfarið væri ætlunin að svokallað „samfélagsteymi“ fylgdi varnaraðila eftir og gengi úr skugga um að hann fengi nauðsynleg lyf. Í framhaldinu yrði varnaraðila veittur stuðningur til að afla sér viðeigandi búsetuúrræðis sem og frekari stuðningur meðan hann komi undir sig fótunum í sjálfstæðri búsetu. Gerði umrædd meðferðaráætlun ráð fyrir að þetta ferli tæki um það bil tvö ár. D taldi einnig að nauðsynlegt væri að svipta varnaraðila sjálfræði til tveggja ára til tryggja viðunandi árangur í meðferð við veikindum hans.

Það er mat dómsins að þó ekki sé að efa að sóknaraðili hafi nú einlægan vilja til að sækja sér aðstoð í veikindum sínum, að ekki sé unnt að líta framhjá því mati lækna hans að sjúkdómur hans leiði til að umtalsverð hætta sé á að honum geti hvenær sem er snúist hugur. Þykir með vísan til vitnisburða og vottorða framangreindra lækna því einsýnt að nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði svo tryggt verði að unnt sé að veita honum þá viðvarandi læknisþjónustu sem þeir telja nauðsynlega.

Af framangreindum sökum verður talið sýnt að varnaraðili sé haldinn geðsjúkdómi sem gerir það að verkum að hann er nú ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Verður því fallist á beiðni sóknaraðila. Þegar litið er til þess skýra rökstuðnings og meðferðaráætlunar sem lýst var í skýrslu B fyrir dóminum er fallist á með sóknaraðila að ekki séu efni til að marka sjálfræðissviptingu hans skemmri tíma en krafist er,  sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tvö ár.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Huldu Rósar Rúriksdóttur hrl. 75.300 krónur.